29.7.2016 | 08:54
Af hverju ættu erlendir sjúklingar að vilja koma til Íslands?
Í umræðunni síðustu daga hafa margir spurt þeirrar spurningar af hverju erlendir sjúklingar ættu að vilja koma til Íslands til aðhlynningar á einkaspítala. Virðast margir þeirrar skoðunar að Íslendingar og Ísland hafi lítið að bjóða í þeim efnum. Það þarf hins vegar ekki mikla rannsókn á veraldarvefnum eða mikla umhugsun til að finna ýmislegt Íslandi í hag sem gæti gert landið að eftirsóknarverðum stað til að leita sér læknisþjónustu.
Á árunum 2009 2012 voru nokkur verkefni í gangi þar sem verið var að reyna að stofna fyrirtæki í heilbrigðistúrisma. Það lá alltaf fyrir að brekkan væri brött og að endingu náði ekkert þessara verkefna að raungerast. En eftir sat umtalsverð reynsla og þekking á þessu sviði sem vonandi á eftir að skila okkur nokkrum nýjum tækifærum í náinni framtíð. Á þessum árum var það kynnt rækilega hvað það væri sem gæti gert Ísland að fýsilegum kosti fyrir heilbrigðistúrisma. Miðað við umræðu dagsins í dag virðist fáir muna eftir umræðunni á þessum árum og því sjálfsagt að rifja það upp sem þá þóttu vera kostir Íslands og jafnframt velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi breyst:
1. Almennt viðskiptaumhverfi þótti vera Íslandi í hag og það þrátt fyrir þau vandamál sem hrunið skapaði.
a. Nú erum við væntanlega í náinni framtíð að sjá fram á það að fjármagnshöftum verði aflétt. Jafnframt virðist almennt viðskiptaumhverfi á Íslandi nú vera að mörgu leyti heilbrigðara en í mörgum öðrum löndum Evrópu.
2. Gæði heilbrigðiskerfisins þóttu vera góð. Á árunum 2009-2012 var Ísland t.d. í 3. sæti á svo kölluðum Euro Health Index mælikvarða. Það skipti máli vegna þess að kannanir hafa sýnt að sjúklingar sem ætla sér að fara yfir landamæri til að leita sér læknishjálpar kynna sér iðulega hvernig heilbrigðiskerfi viðkomandi lands er jafnvel þótt verið sé að sækja þjónustu á einkaspítala.
a. Á þessum mælikvarða erum við verr stödd í dag þar sem nú hefur Íslandi færst niður í 8. sæti listans. Það telst þó engu að síður gott að vera á topp 10 listanum þannig að ennþá er þessi mælikvarði í ágætu lagi.
3. Uppbygging og skipulag heilbrigðiskerfisins á Íslandi taldist almennt vera gott í samanburði við önnur Evrópu lönd. Aðgengi sjúklinga almennt gott þótt það mætti bæta.
a. Til stendur í dag að opna tvær nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar sem eykur fjölbreytni kerfisins. Í Hollandi, sem hefur verið nr. 1 á Euro Health Index mælikvarðanum til fjölda margra ára, er fjölbreytnin í veitingu þjónustunnar meiri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Er það talin ein af skýringum á hinum góða árangri í Hollandi.
4. Á árunum 2009-2012 þótti einn af styrkleikum Íslands felast í því hversu mjög ferðamannaiðnaðurinn væri að vaxa. Spáð var mikilli aukningu sem myndi gera Ísland ennþá eftirsóknarverðara. Það er þekkt í heilbrigðistúrismanum að oftast ferðast sjúklingar með einn eða fleiri fjölskyldumeðlimi með sér. Því skiptir máli fyrir þá hvar áfangastaðarinn er með tilliti til þeirra möguleika sem felast í almennum túrisma.
a. Á árinu 2016 hafa allar fyrri spár um fjölgun ferðamanna staðist og vel það. Spár til framtíðar gera ráð fyrir stöðugri aukningu ferðamanna.
5. Tæknivæðing Íslands og tengingar við umheiminn í víðu samhengi þóttu vera góður kostur.
a. Stöðug aukning flugferða til og frá landinu.
6. Lega landsins mitt á milli Evrópu og USA. Þetta þótti kostur því þá væri hægt að reyna að hasla sér völl í báðum heimsálfum.
a. Lega landsins hefur að sjálfsögðu ekki breyst en þó má segja að Ísland hafi færst nær Evrópu nú en var á árum áður. Ástæðan er sú að nú er búið að samþykkja tilskipun um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri í Evrópu. Nú geta sjúklingar innan Evrópu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, farið til annars Evrópuríkis og fengið þar læknisþjónustu sem heimaríkið greiðir upp að sama marki og greitt hefði verið í heimaríkinu. Þessi staðreynd opnar nýjar dyr fyrir sjúklinga í Evrópu.
7. Verðlag á læknisþjónustu í Evrópu var almennt lægra en í USA og því var talið fýsilegt að reyna að fá sjúklinga frá USA inn í hið evrópska umhverfi þar sem þjónustan væri á pari við þjónustuna í USA en gegn lægra verði. a. Þetta hefur ekki breyst árið 2016.
8. Heilnæmt umhverfi á Íslandi. Hreint vatn, hreint loft, umhverfisvitund. Ekki of heitt á sumrin og ekki of kalt á veturna, amk á suðvesturhorninu. Víða þar sem heilsutúrismi er stundaður er mjög heitt yfir sumarmánuðina og suma daga nánast ólíft úti. Það er umhverfi sem ekki telst gott til að jafna sig eftir læknisinngrip. Í fyrri hugmynd að spítala í Mosfellsbæ var gert ráð fyrir sérstöku glerhýsi sem myndi tengja hótelið og spítalann. Var hugsunin sú að þarna yrðir einhvers konar vetrargarður með gróðri, vatni og bekkjum og sumarhita allt árið.
a. Þetta hefur ekki breyst árið 2016.
9. Öryggi. Ísland taldist eitt öruggasta land í heimi og það var talið skipta máli.
a. Þetta hefur breyst árið 2016. Í samanburði við flest önnur lönd Evrópu er Ísland árið 2016 en öruggara í samanburði við önnur Evrópulönd en var á árunum 2009 2016.
Framangreindir þættir eru allir taldir gera Ísland að góðum kosti til að setja á fót einkaspítala á Íslandi og miður ef einhverjir eru með sérstaka minnimáttarkennd gagnvart landinu í þessu samhengi.
Sumir hafa bent á að fá dæmi séu um það að tekist hafi að reisa einkaspítala sem ætla sér eingöngu að byggja á erlendum sjúklingum.
Þótt það sé rétt að einkaspítalinn í Mosfellsbæ ætli að byggja sína starfsemi á erlendum sjúklingum er þó að finna í þeirri viðskiptahugmynd nýja útfærslu sem aðstandendur verkefnisins telja að geti gert gæfumunninn.
Læknirinn sem kemur til með að stýra starfseminni, Dr. Pedro Brugada, er alþjóðlega þekktur og hefur dregið til sín sjúklinga frá allri Evrópu. Undir hans stýringu eru nú reknir þrír einkaspítalar í Evrópu. Þeir anna ekki eftirspurn og eru biðlistar eftir þjónustunni. Það er ætlun hans að bjóða sjúklingum upp á styttri biðtíma með því að nýta sér þjónustuna á Íslandi. Það verður gert í samvinnu við Evrópsk tryggingarfélög. Með því má segja að læknirinn útvegi sjálfur spítalanum tiltekinn fjölda verkefna. Það er trú aðstandenda verkefnisins að þessi sjúklingafjöldi verði nægur til að byggja á og komi í staðinn fyrir heimamarkaðinn sem flestir spítalar sem stunda erlenda sjúklinga hafa aðgang að.
Þessu til viðbótar stendur til að leita nýrra viðskiptavina í Evrópu á grundvelli þess frelsis sem sjúklingar hafa fengið til að leita sér lækninga í Evrópu þvert á landamæri. Og að sjálfsögðu stendur einnig til að leita viðskiptavina í USA.
Væntanlega munu einhverjir spyrja hvað gerist ef ekki tekst að fá nægjanlega marga sjúklinga erlendis frá. Verður þá reynt að sækjast eftir íslenskum sjúklingum? Svarið við þeirri spurning er neikvætt enda er það alltaf í höndum yfirvalda að skilgreina það hvar þau vilja kaupa sína þjónustu.
Að lokum má nefna í framangreindu samhengi að íslenski markaðurinn er það smár að þótt yfirvöld myndu vilja kaupa þjónustu af spítalanum myndi það gera lítið fyrir spítalann í þeim skilningi hvort hann fái nægilega marga sjúklinga eða ekki til að bera sig. Má sem dæmi nefna að af einni tiltekinni sérhæfðri hjartaaðgerð gerir LSH 75-100 aðgerðir á ári meðan Brugada og teymi hans gera 1.800 sambærilegar aðgerðir á ári.
Gunnar Ármannsson
stjórnarmaður í MCPB ehf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2016 | 08:54
Þrjú maraþon í þremur heimsálfum á þremur mánuðum.
Eins og ég hef áður bloggað um þá ætla ég að hlaupa nokkuð mörg maraþon á þessu ári af því tilefni að í ár eru 10 ár liðin síðan ég lauk við lyfjameðferð vegna hvítblæðis. Ég gerði það sama fyrir 5 árum og nú er ætlunin að hlaupa sum af þeim hlaupum aftur en einnig ný og spennandi hlaup. Af nýju hlaupunum ber hæst hlaup í Suður- Afríku með villidýrum á gresjunni, sem ég hef nú lokið við, og í haust er stefnan sett á upprunalega maraþonið - frá Maraþon til Aþenu í Grikklandi.
Eins og áður held ég áfram að blogga eitthvað um þessi hlaup. Fyrst og fremst til að setja minningarnar niður á blað fyrir sjálfan mig en einnig til að veita upplýsingar þeim sem áhuga hafa.
Í þessu bloggi er áherslan klárlega á hlaupið í Suður-Afríku en ég læt líka fylgja með eitthvað smá um hin hlaupin.
Boston í Norður- Ameríku, 18. apríl 2016.
Þá var loksins komið að því. Aftur í Boston og nú til að hlaupa hlaupið. Þremur vikum fyrir hlaupið árið 2012 varð ég að hætta að hlaupa tímabundið. Fór þá samt til Boston og horfði á. Það var virkilega gaman en eftir var að hlaupa hlaupið.
Æfingar vetrarins höfðu gengið vel og mér fannst ég vera betur þjálfaður en á sama tíma í fyrra. Því var upphaflegt markmið að reyna að hlaupa á undir 3:10. Þremur vikum fyrir hlaupið var ég staddur erlendis í um viku tíma og náði mér þar í leiðinda pest þannig að ég gat ekkert hlaupið í um viku. Því var tekin sú ákvörðun að setja stefnuna á 3:15 og amk myndi ég alltaf ná að klára á undir 3:20. Já, einmitt! Maður lærir víst seint þótt maraþonhlaupunum fjölgi. Það getur alltaf eitthvað gerst og oftast gerist það.
Maraþonið í Boston er nokkuð sérstakt að því leyti að allir hlaupararnir eru ferjaðir í rútum lengst út í sveit. Því þarf að vakna snemma fyrir hlaupið og býsna langur tími líður frá því farið er á fætur og byrjað er að hlaupa. Ræsing er á tímabilinu frá 10 og langleiðina í 12. Keppendur eru flestir komnir á marksvæðið fyrir kl. 8 þannig að þá tekur við töluverð bið með viðeigandi spennu uppbyggingu.
Dagana fyrir hlaupið var búið að fylgjast vel með veðurspánni og þegar nær dró varð hún alltaf betri og betri. Það endaði síðan með því að hún varð of góð. Þegar upp var staðið var kominn um 20 gráðu hiti um 10 leytið og fór hitinn hæst upp í 26 gráður. Eins og þetta væri ekki nóg þá var nánast algjört logn fyrri hluta hlaupsins. Það segir sig sjálft að fyrir flesta sem búa á norðlægum slóðum er það of heitt. Amk fannst mér heitt og ég var í miklu ströggli fyrstu 30 km. Eftir það fór maður að finna fyrir sjávargolunni og það kólnaði þannig að síðasti kaflinn var langbestur.
En eins og ég var búinn að nefna þá gerist oftast eitthvað. Í rútunni á leiðinni á keppnisstað mundi ég allt í einu eftir því að ég hefði gleymt að taka hjartalyfin mín um morguninn. What the f..k! Þetta hefur nú aldrei gerst áður fyrir maraþonhlaup. Shit! Hvað átti ég til bragðs að taka? Ein af þeim pillum sem ég tek er sérstaklega til þess ætluð að hjálpa hjartanu við að vera í takti. Jahá! Hvað nú? Jæja, ég hafði farið í svokallað brennsluaðgerð fyrir um einu og hálfu ári síðan og nánast haldist í takti eftir það. Nú var amk komið gott tækifæri til að kanna hvort takturinn myndi haldast undir áreynslu þótt engin væru hjálparmeðulin. Ég þurfti hvort sem er aftur í bæinn til að ná í meðulin og gæti þá alveg eins hlaupið þetta. En púff, þetta var stressandi og ekki beinlínis til þess fallið að hjálpa til við að slaka á fyrir hlaupið.
Þegar leið að ræsingu þá vorum við sem áttum að starta kl. 10:20 kölluð af stað. Þannig háttar til að frá biðsvæðinu er töluverð ganga. Þegar kom að því að fara af stað fann ég allt í einu að ég þyrfti að pissa aftur og nýbúinn. En ég heyrði að á leiðinni væri salernisaðstaða þannig að ég hugsaði með mér að ég myndi nýta mér hana. Þegar til kom voru þvílíkar raðir fyrir framan klósettin að ég sá að ég myndi aldrei ná að komast þar að fyrir startið. Þá sá ég allt í einu hvar bæði karlar og konur voru búin að lauma sér í runnana bak við klósettin þannig að ég sá þar mitt tækifæri. Skellti mér yfir girðingu, eins og hinir, stillti mér upp og gerði mig kláran til að láta bununa af stað. Rétt í því sem ég er að byrja að pissa heyri ég öskrað nánast í eyrað á mér að ef ég hætti þessu ekki samstundis þá verði mér stungið í steininn og ég fái ekki einu sinni að fara af stað. Þarna var kominn afskaplega reiður lögreglumaður með kúrekahatt og kylfuna á lofti. Það var því ekkert annað að gera í stöðunni en að kyngja og klippa á bununa og það strax! Löggufélaginn hélt áfram að ganga á röðina með sömu óhljóðunum og skipti það hann engu máli hvort á vegi hans voru karlar með félagann í lúkunni eða konur sitjandi á hækjum sér. Ég sá reyndar ekki betur en að hann hafi danglað kylfunni í bossann á einni dömunni sem honum fannst ekki nógu viðbragsfljót við að draga upp um sig brækurnar.
Vá maður, þetta var vont. Ég var alveg í spreng og bara nokkrar mínútur í startið. Þegar í hólfið var komið svipaðist ég um eftir tómum flöskum til að bjarga mér en þær voru bara ekki þarna. Þá var bara tvennt í stöðunni. Annað hvort að pissa þar sem maður stóð í hólfinu eða halda í sér eitthvað af stað þar til örugg fjarlægð væri á milli mín og nýja lögguvinarins. Ég hélt í mér.
Af stað alveg í spreng. Það er vond tilfinning. En þetta var byrjað. Einn km búinn, næstum tveir og nú sá ég einn stökkva út úr brautinni og í næsta runna. Ég var mættur við hliðina á honum á núll komma einni. Þarna stóðum við og pissuðum í örugglega hátt í tvær mínútur á meðan hlauparahjörðin liðaðist framhjá. En mikið svakalega var þetta gott piss! Eitt það besta sem ég man eftir! Jæja, en nú var ekkert annað að gera en að rjúka af stað. Passa sig samt á því að reyna ekki að vinna upp tímatapið á fyrsta km heldur ná því jafnt og þétt. Gott plan. En bíddu nú við. Bara 5 km búnir, ég var að hlaupa hægar en ég hafði ætlað og var samt að erfiða. Þetta var eitthvað skrítið. Átta km búnir og mig langaði að fara að labba. Labba! Þetta hefur aldrei komið fyrir áður í maraþonhlaupi. Að hugsa um labb eftir 8 km er bara eiginlega fáránlegt! Ég hef reyndar aldrei labbað í maraþonhlaupi nema í gegnum drykkjarstöðvar. Þannig að þetta var nýtt. Ég sá fyrir mér að ég myndi ekki hafa þetta af nema fara að hægja ennþá meira á mér og mig langaði til að labba. En fjandinn hafi það, ekki fyrr en eftir amk 10 km! Jæja, komnir 10 km, en kommon ég hlýt að komast upp í 15 km áður en ég fer að labba. Púff, púff og aftur púff. Ég skal komast uppí hálft maraþon áður en labbið byrjar. Yess! Hálft komið. Ein klst. 43 mínútur og einhverjar sekúndur. Þetta leit ekki vel út. Nú þegar orðinn 7-8 mínútum á eftir áætlun og allt labbið eftir þar á meðal hinar margrómuðu brekkur í Newton Hills. Jæja, best að reyna að hlaupa að brekkunum sem byrja við 26. km. Ég leyfi mér þá að labba þær. Aahh! Loksins fyrsta brekkan og ég má labba. En bíddu nú við, ef ég man rétt þá er hún ekkert svo brött, aðallega frekar löng eða næstum kílómetri. Ég get nú bara alveg lullað það upp á léttu skokki og gengið þá næstu. Þetta gekk bara ágætlega. Smá jafnslétta fyrir næstu brekku og ég get jafnað mig á þeim kafla og labbað brekkuna. Jæja, hún mætt og nokkuð brattari en ekki mjög löng. Hlýt að geta hlaupið hana upp líka í rólegheitunum. Jamm og já. Þetta gekk nú bara vel. Þá eru það bara tvær eftir og þar á meðal Heart Brake Hill. Fjandinn hafi það ég hleyp þær bara líka! Og allt í einu eru þær að baki og síðustu ca 8 km eru að mestu frekar niðurhallandi. Svei mér þá! Þetta er bara allt í einu orðið ágætt! Kominn smá blástur í andlitið og ekki alveg eins heitt. Þetta gengur vel. Áfram, áfram, áfram. Og áfram. Mér leið loksins vel og gat haldið góðum dampi. Á þessum kafla fór ég fram úr fjölda manns og fannst ég vera eins og fuglinn fljúgandi á leið í mark. Enda var það allt í lagi, nógu margir fóru nú fram úr mér á fyrri hlutanum þegar ég var í ströggli. Þegar upp var staðið var ég ekki nema um 4 og hálfri mínútu lengur með seinni helminginn en þann fyrri og seinni helmingurinn er mun erfiðar með öllum sínum brekkum. Þetta var því alls ekki svo slæmt þegar upp var staðið. Endaði hlaupið á rétt rúmlega 3:31 sem miðað við allt og allt var bara fínt.
En því verður ekki á móti mælt að þegar í mark var komið var ég alveg búinn á því. Hef sennilega sjaldan eða nokkurn tímann verið jafn þreyttur eftir maraþon. Væntanlega hefur þarna margt hjálpast að. Auka stress út af pillunum, auka stress út af vandamálum við þvaglosun og auðvitað hafði hitinn mikil áhrif en hann fór upp í 26 gráður þegar heitast var eins og ég nefndi áður.
En þetta var enn einn lærdómurinn. Ekki gleyma að taka hjartalyfin. Pissa þar sem ekki eru fúlar löggur á sveimi.
Kaupmannahöfn í Evrópu, 22. maí 2016.
Mér gekk vel að jafna mig eftir Boston. Hélt ágætu dampi á æfingum og þegar fór að líða á mánuðinn fór ég að velta því fyrir mér hvort ekki væri bara réttast að skella sér til Köben og laga tímann. Fara amk undir 3:20 það ætti nú ekki frekar en áður að vera mikið mál, ef allt væri með felldu.
Og auðvitað var ekki allt með felldu. Það var beinlínis hitabylgja í Kaupmannahöfn á hlaupadeginum! Frábært! Einhvers staðar sást á mæli 27 gráður og munnmælasögur herma að hitinn hafi farið í allt að 31 til 32 gráður í hinum ýmsu húsasundum. En veðrið var gott. Sumum fannst það svo gott að þeir ákváðu að hætta að hlaupa eftir 35 km og fara frekar í sólbað bíddu, eða var það kannski að fá sér sólsting? Pétur? Brynjar? Jæja, annað hvort. Skrítnir sumir þessir hlauparar!
En þetta byrjaði svo sem bara ágætlega. Ég hélt áætluðum ferðahraða fyrstu 14 km og ef ég hefði haldið þeim hraða út hlaupið þá hefði ég komist undir 3:20. Ég fann það hins vegar eftir um 10-12 km að það væri ekki líklegt að ég myndi ná að halda sama hraða út hlaupið í þessum hita. Ég ákvað því við 14. km að slá aðeins af og fara strax að einbeita mér að því að reyna að klára hlaupið á undir 3:30 og sagði ferðafélögunum það. Þeim fannst ég skrítinn þar sem stutt var liðið á hlaupið. En ég náði markmiðinu og kláraði á undir 3:30 og leið vel allt hlaupið. Miklu, miklu betur en í Boston. En það merkilega er að ég var ekki nema 8 sekúndum fljótari með seinni helminginn í Kaupmannahöfn en í Boston. Því hefur seinni helmingurinn í Boston hreint ekki verið svo afleitur. Nú eða að seinni helmingurinn í Kaupmannahöfn hafi verið afleitur? Og kannski var hann það. Það munaði amk 7 mínútum á fyrri og seinni helmingi í Köben. En það ber að taka tillit til þess að fyrstu 14 km hljóp ég mun ákveðnara og sló síðan af eftir það já og leið mjög vel allan tímann! Það er alltaf bónus.
Lærdómurinn af þessu hlaupi? Haga sér eftir aðstæðum og setja sér nýtt markmið ef sýnilegt er að aðstæður verði erfiðar.
The Big Five - Entabeni game reserve í Suður- Afríku, 25. júní 2016.
Vaaá! Hvar á maður eiginlega að byrja?! Byrjuninni eða einhvers staðar annars staðar? Það er hægt að byrja út um allt. Sama hvað maður hugsar um, þetta var allt frábært. Frá upphafi til enda. Eiginlega erfitt að ákveða hvar skal stinga niður upphafi. En þá er kannski best að byrja á fyrsta upphafinu. Fyrsta upphafið fæddist í flugvél á leið heim frá Tokyo í fyrra. Tokyo-maraþonið, frábær upplifun. Maraþon í nýrri heimsálfu. Það var mín önnur heimsálfa til að hlaupa maraþon í. Alveg magnað og fyrir lágu plön um að hlaupa í Chicago um haustið og þá yrði það þriðja heimsálfan til að hlaupa í. Jahá! Þriðja heimsálfan af hvað mörgum? Jú þær eru víst sjö. Athyglisvert hugmynd að fæðast?
Þegar heim var komið var strax haft samband við Mr. Google og hann spurður um það hvaða maraþon væru hlaupin í Afríku. Þau eru býsna mörg og hvert öðru meira spennandi. Eftir smá skoðun og umhugsun fannst mér The Big Five í Suður-Afríku vera það hlaup sem mér þótti áhugaverðast. Þar var því lofað að hlauparar myndu hlaupa á meðal villidýra á gresjunum og eftir því sem ég gat best séð hafði þetta hlaup verið haldið oftar en 10 sinnum og aldrei verið vandamál með horfna hlaupara úr brautinni. Þannig að öryggismál virtust vera í góðu lagi. Samt smá skrítið að sjá að startið færi eftir staðsetningu dýranna og gæti dregist ef þau væru mikið að þvælast fyrir. Enda kom í ljós síðar að margt getur gerst í brautinni!!?
En hvað um það. Hugmyndin var fædd og hún borin undir hlaupafélagann. Eftir afar fáar sekúndur til umhugsunar var hann búinn að kokgleypa hugmyndina og hann kominn enn lengra í framtíðarplönum um næstu heimsálfur og tímasetningar um hvenær þær skyldu kláraðar. Það mál er enn í vinnslu.
Danska fyrirtækið Albatros sér um alla skipulagningu og sölu á sætum í hlaupið. Það er óhætt að mæla með þeim alla leið. Mikil fagmennska og vel að öllu staðið. Þeir eru með fleiri spennandi hlaup á sínum vegum og alveg klárt mál að við félagarnir eigum eftir að prófa fleiri hlaup sem þeir bjóða upp á.
En miðvikudaginn 22. júní hófst ferðalagið. Við félagarnir ásamt okkar betri helmingum, Þóru og Unni, fórum af stað frá Íslandi uppúr hádegi með því að fljúga til Köben og þaðan til Parísar og þaðan til Jóhannesarborgar. Lentum uppúr kl. 10 morguninn eftir og héldum af stað frá flugvellinum með rútu um hádegið. Þaðan var um fjögurra tíma akstur á áfangastað. Allt gekk þetta eins og í sögu en því verður ekki neitað að nokkur lúi var kominn í mannskapinn þegar á leiðarenda var komið og gott var að leggjast á koddann um kvöldið.
Daginn eftir var ræst eldsnemma þar sem til stóð að fara í kynnisferð um brautina. Við dvöldum í búðum sem voru rétt utan við sjálfan garðinn þannig að við þurftum að fara í bílum á þann stað þar sem startið átti að hefjast. Með því fengum við í raun um klukkustundar game drive þar sem afar margt bar fyrir augun og við sáum fjölmörg þeirra dýra sem við Íslendingar sjáum alla jafna ekki nema á sjónvarpsskjánum. Það var í sjálfu sér mjög skemmtilegt en engu að síður töluvert viðbótarálag þar sem þessi ökutúr var endurtekinn daginn eftir til að komast í startið. Á leiðinni keyrðum við af neðri sléttunni og uppá efri sléttuna sem felur í sér akstur upp mikið gil sem er um 3 km að lengd og með yfir 300 metra hæðarbreytingu. Já takk! Þetta var partur af brautinni! Okkur fannst við nánast liggja á bakinu á leiðinni upp og hanga í beltunum á leiðinni niður. Enda var keyrt í lága drifinu í fyrsta gír í báðar áttir. Og svo var gert grín. Að okkur. Af bílstjórunum. Þetta eigið þið eftir að hlaupa upp og niður á morgun! Jamm. Frábært. Mjög spennt! Já, eða þannig. Þetta var dálítið mikill raunveruleiki. En útsýnið maður! Geggjað!
Þegar í búðirnar var komið þaðan sem starta átti, var öllu liðinu sem búið var að safna frá hinum mismunandi gististöðum komið fyrir í bílum. Þeir sem voru að fara heilt maraþon voru keyrðir alla brautina og þeir sem voru að fara hálft maraþon einnig. Þær Þóra og Unnur komu með okkur Unnari í bíl, þar sem í raun má segja að sama brautin sé hlaupin en þeir sem áttu að fara heilt maraþon taka nokkra útúrdúra frá aðalbrautinni. Því sáu þær sína braut og fengu að auki útsýnisbíltúr um lykkjurnar sem þeir fóru sem hlupu heilt maraþon. Þetta er mjög sniðug aðferð við að leggja brautina því þeir sem fara hálft maraþon fá í raun að hlaupa alla markverðustu staðina en hlaupa ekki lykkjurnar sem heilmaraþonhlaupararnir hlaupa. Þannig að ef pör eða félagar vilja hlaupa þetta hlaup saman og annar aðilinn vill hlaup heilt og hinn hálft þá má segja að báðir hlaupararnir fá að upplifa nánast það sama þar á meðal gilið upp og niður!
Það var tekið fram strax í upphafi ferðar að ekki yrði stoppað vegna myndatöku. Þannig að þótt við myndum sjá áhugaverð myndefni eins og nashyrninga, flóðhesta, fíla og jafnvel ljón þá yrði ekki stoppað. Það yrði nægur tími til þess síðar í ferðinni og nú væri bara verið að skoða brautina sjálfa og því yrði hún keyrð eins hratt og druslan drægi. Og það tók tvo og hálfan tíma takk fyrir það! Innyflahristingur allan tímann og mjög gaman! Hrikalega gaman! Og þá tók við akstur heim. Einn klukkutíma í viðbót. Og aftur niður gilið. En það var gott að hugsa til þess að sennilega næði maður nú samt að leggja sig aðeins fyrir kvöldmatinn því sennilega yrðum við komin á áfangastað um tveimur tímum fyrir pastaveisluna. En nei. Okkar maður var ákveðinn í því að sýna okkur grænjöxlunum hvernig lífið í Afríku væri. Hann ákvað því að fara í game drive með okkur og fór að leita að ljónum. Jamm, ljónum. Daginn fyrir maraþon. Jú, jú, aðeins öðru vísi. Og af stað héldum við. Fyrst hingað og síðan þangað. Og svo hinu megin og loks annars staðar. Við sáum fullt af alls konar. Meira að segja ljónaspor. En engin ljón. En það var gaman, mjög gaman! En vá hvað maður var orðinn þreyttur þegar við komumst á áfangastað - og fimm mínútur í matinn!? Leggja sig hvað er það aftur?
Race day.
Vá! Þetta var að byrja. Upp kl. rúmlega 5 (NB. Kl. 3 að íslenskum tíma). Morgunmatur kl. 6 og af stað kl. 7. Brrr, það var ískalt og þoka yfir öllu. Hitastig um 3-4 gráður og við sátum í opnum bílum. Akkúrat! Þess vegna er sagt að keppendur eigi að hafa með sér hlý föt. Það er nefnilega kalt á morgnana og kvöldin í Suður-Afríku á þessum tíma. Og það er engin lygi. Það er kalt. Að sitja í opnum bíl á milli kl. 7-8 að morgni í þoku í 3-4 gráðu hita er kalt. Það er skítkalt! En að hugsa sér, ég myndi vilja endurtaka þetta strax á morgun! Að sjá allt í einu gný eða sebrahest eða jafnvel gíraffa birtast í ljóskeilu bílsins er geggjað! Keyra upp gilið stóra í svartaþoku en sjá allt einu til sólar þegar upp er komið og sjá þokuna leysast upp er ólýsanlegt! Koma upp á hásléttuna og sjá hjarðir af antilópum, sebrahestum og öðrum dýrum merkurinnar og vita að eftir nokkrar mínútur verði maður að hlaupa á meðal þeirra er eitthvað sem er í raun ekki hægt að lýsa!
Á áfangastað var spenna og gleði. Fólk að gera sig klárt, smyrja og plástra og allt það sem fylgir. Flestir voru vel klæddir og fóru ekki úr hlífðarfötum fyrr en um hálftíma fyrir startið. Það var býsna svalt en það jákvæða er að hitinn hækkar nokkuð skarpt uppúr kl. 8 þannig að þetta var orðið bærilegt. En spáið í það, hitinn fór aldrei upp fyrir 19-20 gráður. Þannig að þetta vorið þurfti að fara til Afríku til að komast í maraþonhlaup þar sem hitinn fór ekki langt upp fyrir 20 gráðurnar!
Rétt áður en startað var í heilmaraþonið voru allir kallaðir að startinu. Áríðandi upplýsingar! Já, já, býsna áríðandi. Góðar fréttir og ekki eins góðar fréttir. Góðu fréttirnar voru þær að ljónynja hafði drepið bráð kvöldið áður. Af hverju var það gott. Jú, þá var auðveldara fyrir Rangerana að fylgjast með ljónunum alla nóttina. Því það er það sem þeir gera. Þeir reyna að vera búnir að staðsetja öll ljónin daginn fyrir keppnina þannig að unnt sé að fylgjast með ferðum þeirra um nóttina og vita ca. (já akkúrat cirka?!) hvar þau muni vera um morguninn á hlaupadegi. Ok, fínt! Vondu fréttirnar? Tja, sko, hún drap bráðina á hlaupabrautinni. Já, einmitt! Frábært! Fáum við þá að sjá ljón éta bráðina sína um leið og við hlaupum framhjá? Má taka myndir? Ja, eiginlega ekki. Sko, við þurftum að breyta hlaupaleiðinni í morgun. Hringurinn niðri á sléttunni var minnkaður um 4 km. Þannig að þið hlaupið ekkert mjög nálægt þeim ahem, er það ekki bara fínt? En það sem við gerðum í staðinn er að þið maraþonhlaupararnir þurfið aðeins að breyta um leið í stað þess að hlaupa ykkar leið þá beygið þið eftir ca. 3 km inná leið hálfmaraþonhlauparanna og hlaupið 2 km inná þann legg. Þá hittið þið hann John og hann snýr ykkur við. Þið hlaupið sem leið liggur aftur til baka og inná brautina ykkar. En þetta þýðir að það verður ekkert að marka kílómetramerkingar fyrr en þið komið á kílómetramerkingu við 25. km. Og fyrir ykkur hálfmaraþonhlauparana ekki láta það rugla ykkur í rýminu þótt þið mætið allt í einu hlaupurum. Þið eigið alls ekki að snúa við og elta þá heldur halda áfram. Þetta eru nefnilega heilmaraþonhlaupararnir. Jamm og jæja. Þetta eru öðruvísi leiðbeiningar fyrir start en maður hefur áður fengið svo sannarlega! En ekkert mál, það var búið að vara við að villidýrin gætu haft áhrif. En já, einmitt eitt í viðbót. Sko, þar sem við vitum hvar ljónin eru þá er betra að fylgjast með þeim. En til öryggis höfum við staðsett Rangera með styttra millibili en venjulega niðri á sléttunni. Það sést reyndar ekki alltaf á milli þeirra þannig að ef eitthvað óvænt gerist og það birtist dýr og þið sjáið ekki Ranger alls ekki hlaupa. Standið grafkyrr og horfið á dýrið og kallið á hjálp. Þá verða þeir snöggir að bregðast við og koma ykkur til hjálpar. Aheemmm? Hóst! Hvað er maðurinn eiginlega að segja? Jæja, hingað er maður kominn og þetta er að byrja og þeir virðast hafa fullt kontról á öllu. Eða er það ekki?
Startið.
Spennan var mikil eins og venjulega rétt fyrir start. En samt öðru vísi. Eftirvæntingin var öðru vísi. Í stað þess að fremstu hlauparar reikspóluðu af stað liðaðist hópurinn í rólegheitum af stað. Það var augljóst að þarna var fólk komið til að njóta þess að vera þarna. Upplifa náttúruna. Upplifa stundina. Við Unnar byrjuðum mjög aftarlega. Fundum það samt fljótt að við þurftum að færa okkur aðeins framar því margir sem voru á undan okkur hlupu mjög hægt. Við höfðum sett okkur tvö markmið fyrir hlaupið. Annað var auðvitað það að geta klárað. Og hitt var að við vildum gjarnan reyna að vera fyrir framan miðju.
Hlaupið.
Fyrsti km var þægilegur. Nokkuð brött brekka með 44 metra droppi. Það var fínt að geta byrjað á léttu skokki þarna niður og við tókum því frekar rólega. Þá tóku við tveir km með samtals rúmlega 120 metra hækkun þannig að þarna gengu flestir. Við lok þriðja km beygðum við inná hálfmaraþonleiðina og fengum 25 metra hækkun til viðbótar. Þegar við fórum að nálgast John fórum við að mæta samhlaupurum okkar aftur. Ég taldi. Við Unnar vorum í 48. og 49. sæti. Það var í góðu lagi. Við vorum á áætlun og rétt fyrir framan miðju af öllum hlaupurunum. Við hlupum aftur til baka inná maraþonbrautina og fengum þá léttan km með 25 metra lækkun. Þá tók við 8 km kafli uppá hæsta punkt í hlaupinu með samtals tæplega 200 metra hækkun. Á þessum kafla vorum við að hlaupa annars vegar á gresjunni og hins vegar meðfram lágu fjalli og upp á það. Þarna vorum við greinilega komnir á sama hraða og margir aðrir því á þessum kafla vorum við ýmist að fara fram úr hlaupurum eða þeir sömu að fara fram úr okkur. Allt fór það eftir því hvar og hvenær hlauparar settu í lága gírinn og gengu á brattann. Á þessari leið sáum við alls kyns kvikindi á gresjunni í mestu makindum að úða í sig grasmeti og virtust þau kæra sig kollótt um þetta uppátæki mannanna að vera að þvælast þarna á tveimur jafnfljótum. Við komumst að því seinna að það er girt fyrir að ljónin komist uppá efri sléttuna og því þekkja þau dýr sem þar eru ekki þá hættu sem af þeim stafar og virtust þau almennt ekki kippa sér upp við það þótt fólk væri nálægt þeim, hvort sem var hlaupandi eða í bílum. Því komumst við oft ansi nærri þeim. Mér fannst samt ágætt að við rákumst ekki nashyrningana sem við skoðuðum á þessu svæði á deginum á undan!
Þegar upp á fjallið var komið stóðst ég ekki mátið að taka fram myndavélina og taka nokkrar myndir. Ég sá þarna niður á sléttuna og sá til fjallsins sem er fyrir ofan búðirnar okkar. Uppá það fjall er hægt að fara með þyrlu og slá golfkúlu niður á flöt sem lítur út eins og Afríka. Þetta þykir golfurum merkileg hola og stæra sig af því að þetta sé flottasta 19. hola sem til er. Hún er víst par 3 fyrir þá sem hafa áhuga á slíkum upplýsingum. Þar sem ég var aðeins á undan hlaupafélaganum upp þá náði ég að smella nokkrum myndum af honum við komuna. Þar sem æfingatímabilið hjá honum gekk brösuglega var hann feginn því að fá nú loksins að hlaupa niður. Og þar sem ég var búinn að fá að hvíla mig gerði ég eins og sönnum félaga sæmir og rak hann áfram án þess að hann fengi nokkra hvíld! Til hvers eru vinir annars?
Að hlaupa niður. Er það ekki bara frekar létt? Kannski til að byrja með. En það má nú öllu ofgera! Þið munið gilið? Ég man amk vel eftir því. Tvisvar. En þetta byrjaði nú samt bara hóflega. Fyrst fjórir km með samtals um 150 metra lækkun. Á þessari leið komum við á drykkjarstöð þar sem býsna stór hópur fólks var að fylgjast með. Þetta voru aðstandendur hlaupara sem voru ferjaðir á þennan stað. Þarna var stuð og stemming og mikið gaman. Við í góðum gír og brostum og spjölluðum. Fengum reyndar þá athugasemd að það væri nú ekki alveg víst að við yrðum svona brosmildir þegar við kæmum þarna næst eftir að vera búnir að fara niður og upp gilið og framhjá ljónunum! Já, já, alltaf gott að fá hvatningarorð! En áfram, nú tók við 1 km með um 60 metra droppi. Þegar við vorum ca hálfnaðir með þennan km mættum við Unni sem var á leiðinni upp. Hún var skælbrosandi og virtist í góðu standi og næstum búin með gilið. Þegar við kláruðum þennan km var komið að drykkjarstöð fyrir mesta brattann og þar hitti ég enga aðra en ástkæra eiginkonuna. Það kallaði sko á selfies og kossa! Alveg geggjað! Þóra var fínu standi og hélt varla vatni yfir því hvað hefði verið gaman á sumum drykkjarstöðvunum niðri á sléttunni. Hún hefði meira að segja fengið af sér mynd með flóðhesta í baksýn. Maður fær ekki svoleiðis í New York eða París! Eftir einn koss í viðbót var ekkert annað að gera en að skella sér niður á eftir Unnari sem var löngu kominn úr augsýn enda droppið myndarlegt! Á næstu tveimur km var hvorki meira né minna en rétt tæplega 300 metra lækkun. Þarna voru greinilega margir í vandræðum og fóru mjög hægt niður. Ég hef oftast átt frekar auðvelt með niðurhlaup og fór því framhjá mörgum. Það hafði Unnar greinilega líka gert því ég náði honum ekki aftur fyrr en við vorum komnir langleiðina niður. Þegar við komum niður þá var þar drykkjarstöð með miklu stuði. Margar blökkukonur sem sungu og trölluðu og helst langaði mann bara til að vera þarna áfram og njóta skemmtilegheitanna. En þar sem það var ekki í boði og við vissum að við myndum koma þarna aftur í bakaleiðinni á leiðinni upp héldum við áfram.
Áfram, áfram, inn í ljónalandið. Þarna var skrítið að hlaupa. Við tóku 3-4 km með mjög gljúpum og erfiðum sandi. Þarna komumst við ekki hratt yfir frekar en aðrir. Við Unnar vorum þarna búnir að ná nokkrum hópi fólks og aftur tók við stöðugur framúrakstur fram og til baka. Við framhjá einhverjum og þeir sömu aftur fram úr okkur. Allt fór þetta eftir því hvenær skipt var í lága gírinn og einhver spotti genginn. Já og myndatökur maður! Það þurfti að taka myndir. Á eftir að skoða nánar hvort það glitti einhvers staðar í glyrnur inni í skógarþykkninu. Þarna voru nefnilega einhvers staðar ljón. Ljón, ljón, ljón. Ég hugsaði helling um ljón á þessari leið. Fannst gott þegar ég sá Rangera framundan en fannst hálf skrítið að hlaupa framhjá þeim og sjá þá engan Ranger í nokkurn tíma. Hvað ef? Jú, muna þetta var víst í 16. sinn sem hlaupið hefur verið haldið og ennþá enginn étinn. Ennþá? Er ekki sagt að einhvern tímann verði allt fyrst? Úff, það var gott að komast út úr skógarþykkninu og sjá aðeins frá sér. En, vá maður hvað þetta var spennandi og skrýtið! Þarna niðri á sléttunni hlupum við fram á hressustu drykkjarstöðina í öllu hlaupinu. Karlar og konur stóðu sitt hvoru megin við brautina og sungu og dönsuðu. Þarna voru sko teknar myndir og vídeó. Þetta vídeó er nú þegar orðið mitt uppáhalds og ég ætla að horfa á það oft í ellinni. Það verða örugglega allir á elliheimilinu búnir að fá ógeð á bæði vídeóinu og mér þegar yfir lýkur!
En, nei sko! Allt í einu var bara 25. km mættur og aftur farið að marka kílómetramerkingar. Nú var farið að styttast í drykkjarstöðina við brekkurótina og við heyrðum sönginn og trallið. Þegar þangað var komið vorum við nokkuð stór hópur sem komum inn á svipuðum tíma. Við Unnar stoppuðum stutt og héldum á brattann. Samferðafélaga okkar síðust 4-5 km sáum við ekki aftur fyrr en í markinu.
Brekkan upp. Hún var brött. Mjög brött. Fyrstu tveir km með um 300 metra hækkun. Þarna náðum við mjög mörgum hálfmaraþonhlaupurum og nokkrum maraþonhlaupurum. Við gengum alla leiðina eins og aðrir. Þarna náðum við einum sem hafði verið með fremstu mönnum eftir um 13 km. Hann hafði greinilega steikt á sér læri og kálfa á niðurleiðinni. Hann varð að bakka upp og fór mjög hægt. Og stundi mikið. Það er sko ekkert grín að lenda í þessu. En áfram héldum við Unnar. Kláruðum síðasta km í gilinu sem er með um 60 metra hækkun og vorum þá aftur komnir á drykkjarstöðina þar sem aðstandendur hlaupara höfðu sína bækistöð. Hann var býsna hissa gaurinn sem sagði að upplitið á okkur yrði annað þegar við myndum hittast næst. Það var það nefnilega hreint ekki. Þarna voru bara 12 km eftir og það erfiðasta búið og ekki hægt annað en að brosa hringinn og rúmlega það!
Þegar við héldum frá þessari drykkjarstöð fór ég að reikna. Tólf km eftir. Akkúrat. Skyldum við geta hlaupið á undir 5 klst? Það yrði tæpt. Við þyrftum að halda vel á spilunum og passa að halda alltaf áfram. Ég reiknaði út á hvaða hraða við mættum vera með hvern km og lét félagann vita á hverjum km hvort við hefðum tapað sekúndum eða grætt. Til að byrja með vorum við að tapa. Enda fengum við á þessum kafla 3 km með samtals um 85 metra hækkun. Hmm, ekki nógu gott en samt ekki mikið á eftir áætlun. En spáið í það þarna birtist allt í einu hjörð af sebrahestum sem hlupu um stund við hliðina á okkur. Alveg geggjað! Ég hélt að þeir ætluðu að hlaupa í veg fyrir okkur en þeir beygðu frá á síðustu stundu. Ég gat síðan fylgst með þeim í langan tíma þar sem þeir fjarlægðust í rólegheitunum. Þóra sagði mér eftir hlaupið að á svipuðum slóðum hefði hún ásamt öðrum hlaupara þurft að stoppa um stund þegar stærðarinnar hjörð af gnýjum eða antilópum varð nauðsynlega að hlaupa yfir brautina. Hversu geggjað getur það verið!?
En áfram með hlaupið. Næstu 3 km voru með um 80 metra droppi þannig að nú fórum við að græða sekúndur! Og mér reiknaðist til að þetta gæti tekist. Ég vissi þó af einni brekku til viðbótar og nú var bara spurningin um hver gönguhraðinn yrði þar upp. En ég vissi líka að síðustu 2 og hálfi kílómeterinn voru niður í móti. Fertugasti km var með 20 metra hækkun. Við vorum 7 og hálfa mínútu að ganga og skokka þar upp. En þá var þetta líka komið. Allt niður í móti eftir það og við sáum að við höfðum þetta í hendi okkar. Það sem eftir var þá var droppið 80-90 metrar þannig að við gátum leyft okkur að jogga þetta í rólegheitunum. Þegar í mark var komið áttum við orðið 5 mínútur inni í bankanum þannig að við kláruðum á rétt innan við 4 tímum og 55 mínútum. Aldeilis frábært! Báðum markmiðum náð. Að klára hlaupið og lenda fyrir ofan miðju. Þegar upp var staðið þá enduðum við í 35. og 36. sæti af 128 hlaupurum sem kláruðu sem var aldeilis fínt!
Geggjað að geta sest niður í sólinni og fá dýrindis mat og bjór já, og að sjálfsögðu rauðvín! Og verðlaunapeningurinn ekkert smá flottur! Heljarinnar fíll! Peningur til að eiga, peningur til geyma, peningur til að hafa um hálsinn í ellinni!
-Þessu er eiginlega ekki hægt að lýsa með orðum. Þetta þarf að upplifa.
gá
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2016 | 10:29
Draumfarir um heilbrigðismál
Fyrir okkur flestum liggur að kynnast heilbrigðisþjónustunni einhvern tíman á lífsleiðinni. Hvenær það gerist er eðli málsins samkvæmt misjafnt en oftast hefur það áhrif á þá sem það upplifa. Það er öðru vísi að upplifa á eigin skinni eða skinni nákominna hvernig kerfið er, en að lesa um það frásagnir. Því er sennilega til lítils unnið að bæta við enn einni frásögninni. Nema ef vera skildi í sjálfshjálpartilgangi. Það getur stundum verið ágætt að skrifa sig frá hlutunum því ef það tekst er til einhvers unnið.
Ég man eftir að hafa setið við gluggann á Landspítalanum að kvöldi þann 23. desember 2005 og horft á sjúkrabíl með blikkandi ljós reyna að skjóta sér á milli bíla í umferðinni niður Öskjuhlíðina þetta kvöldið. Umferðin var þung og mjög lítið svigrúm fyrir bílstjóra til að víkja þannig að ferðin sóttist hægt. Ég man að ég nefndi við Möggu að mér þætti skrítið að ætla að byggja nýja sjúkrahúsið á þessum stað miðað við óbreytt vegakerfi. En það stæði þó til bóta með hugmyndum um nýjar vegtengingar þannig að sennilega yrði þetta nú í lagi. Já og glugginn lak.
Ég man að ég fékk að prófa ýmsar útgáfur af sjúkrastofum. Og ýmsar tegundir af herbergisfélögum. Sumir voru skrafhreifnari en ég hefði kosið sem herbergisfélaga og aðrir þurftu meiri aðstoð hjúkrunarfólks um nætur en svo að unnt væri að sofa meðan þeir nutu aðhlynningar. Ég man að ég fékk einn morguninn heilan sjúkragang til afnota því rýma þurfti mitt pláss og annað ekki laust fyrr en síðar. Þetta var ágætt því nokkuð mikill erill var og því lítil hætta á að maður sofnaði og missti af einhverju. Mér fannst þó gott að hugsa til þess að það styttist í einkastofurnar.
En starfsfólkið gerði sitt besta. Í raun og veru lítil og stór kraftaverk á hverjum einasta degi. Við erfiðar aðstæður og oft og tíðum án mikilla þakka. En ljósið var líka handan gangsins. Nýr spítali og nýjar aðstæður áður en langt um liði. Merkilegt hvað hægt er að kreista út mikinn vilja og aukaorku þegar marklínan er sjáanleg.
Sumarið 2013. Aftur heimsóknir á krabbadeildina. Deildin undirmönnuð. Tilfinningin sú að ekkert hefði áunnist síðan 2006. Skorturinn á starfsfólki meiri. Þreytan meiri. Þrengslin meiri. Engin marklína sjáanleg. Glugginn lak ennþá. (Já, já, ég veit að hér varð hrun).
Vorið 2014. Það dró af Möggu. Til að byrja með fékk hún lyfin sín á almenningsstofunum. Þegar leið á var hún sett inná tveggja manna stofu. Þar voru fullorðin hjón og af samtölum þeirra og lækna var augljóst að það þeirra sem veikt var átti ekki langt eftir. Það var óþægilegt að þurfa að hlusta á þessi samtöl. Þetta voru erfiðar prívatstundir þessa fólks sem áttu ekki að þurfa að hafa ókunnug vitni. Þetta voru líka erfiðar prívatstundir okkar Möggu og við áttum ekki að þurfa að hlusta á þessi samtöl. Þótt við vissum að hverju stefndi var óþarft að þurfa að láta minna sig á það með þessum hætti. Þar fyrir utan var baráttuandinn enn til staðar og þetta var ekki til að byggja hann upp.
Íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið gott vegna þess að við höfum átt því láni að fagna að eiga gott starfsfólk. Sem leggur sig fram þrátt fyrir kerfið sem hefur verið byggt upp. Kerfi sem virðist því miður vera að dragast aftur úr í samanburði við kerfi annarra landa á vesturlöndum. Að margra mati hefur vantað heildstæða stefnumörkun í málaflokknum. Stefnumörkun til margra ára. Óháð tímabundnum mismunandi áherslum stjórnmálaflokka sem stundum virðast hafa það helst að markmiði að breyta því sem fyrri stjórnmálaöfl höfðu ætlað sér. Afleiðingin sú að heilbrigðiskerfið þróast bara einhvernvegin, án skýrrar stefnumörkunar. Og við sitjum uppi með kerfi sem enginn hafði fyrirfram hugsað sér eða tekið ákvörðun um að skyldi vera með þessum hætti.
Við sitjum uppi með það að okkur virðist vera ómögulegt að ræða á málefnalegan hátt um mögulegar leiðir. Ef einhver nefnir eitthvað þá er viðkomandi umsvifalaust stimplaður með einhverjum stimpli. Annarleg sjónarmið búi að baki, tilraun til að komast í kjötkatlana, amerískt kerfi, albanskt kerfi, kommúnískt kerfi eða önnur viðeigandi uppnefni.
Ár eftir ár sjáum við í könnunum að Hollendingar eru að gera ýmislegt vel. Þar í landi tóku yfirvöld sig til og eyddu nokkrum árum í stefnumótun og að því er virðist málefnalega umræðu og breyttu kerfinu hjá sér. Ekki er þó víst að þeirra leið hugnist öllum hér því þar eru tryggingarfélögin látin sjá um að tryggja þegnana. Það eitt væntanlega grefur umræðuna hér á landi. En þeir búa við það að eiga þingmenn sem treystu sér til þess að setja lagaramma utan um kerfið sem sátt hefur orðið um. Hér virðast þingmenn hafa takmarkaðan áhuga á málaflokknum nema þeir hafi fengið að prófa kerfið á sjálfum sér. Ég veit því ekki hvort það er gott eða vont að eiga heilsuhrausta þingmenn.
Nú á sér stað undirskriftasöfnun sem Kári Stefánsson átti upptökin að. Það hafa yfir 75.000 manns skráð sig á þennan lista. Um er að ræða ákall um bætt heilbrigðiskerfi. En að venju hefur umræðan að miklu leyti snúist um orðalag eða ónákvæmni eða framsetningu eða eitthvað. Á meðan lekur glugginn.
Þegar Magga fór í sína aðra lyfjameðferð vorið 2014 sagði vinur okkar, krabbameinslæknir sem starfar í USA, okkur frá lyfi sem hann myndi vilja reyna með öðrum lyfjum. Það væri ekki örugg lækning en hann myndi telja það geta hjálpað. Í íslenska heilbrigðiskerfinu er ekki búið að samþykkja þetta lyf. Um það var sótt en því var hafnað. Við fáum aldrei að vita hvort það hefði getað hjálpað.
Á morgun fer mér nákominn í uppskurð vegna krabba. Viðkomandi er því að hefja ferð sína í lottói heilbrigðiskerfisins. Vegna framúrskarandi starfsfólks sem leggur sig fram eigum við von á góðum árangri. En í kerfi þar sem glugginn hriplekur.
Mig dreymdi Möggu í nótt. Hún leit út eins og áður en hún veiktist. Það veit á gott.
gá
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2016 | 13:57
Tímamót.
Á þessu ári eru ákveðin tímamót í mínu lífi. Fyrir tíu árum datt mér ekki til hugar að ég yrði hér staddur og gæti sett þessar línur niður. Í dag hefðu átt að vera önnur tímamót. Magga hefði orðið 51 árs hefði hún lifað. Þetta var dagurinn hennar og þetta verður áfram dagurinn hennar í mínum huga. Yndislega Magga.
Fyrir fimm árum, eða 2011, voru fimm ár liðin frá því að ég lauk lyfjameðferð vegna hvítblæðis. Af því tilefni ákvað ég að hlaupa nokkur hlaup til styrktar Krabbameinsfélaginu. Það gekk vel og einhverjar krónur söfnuðust í baráttunni við þennan vágest sem krabbameinið er.
Í ár eru önnur fimm ár liðin. Ótrúlega margt hefur gerst. Krabbinn hefur aftur höggvið nærri mér og í þetta skiptið finnst mér eins og hann hafi tekið hluta af mér. Þó ekki minningarnar. Þær lifa. Og ég lifi. Og ég get hlaupið. Og ég get elskað.
Í sumar ætla að ég endurtaka leikinn frá því 2011 og hlaupa nokkur hlaup sem ég ætla að tileinka baráttunni við krabbameinið. Ég ætla ekki að gera það með sama hætti og árið 2011 þegar í gangi var opinber söfnun allan tímann. Núna ætla ég að láta nægja að safna í kringum Reykjavíkurmaraþonið. Þeir sem þá vilja styrkja söfnunina mega byrja að safna.
Árið 2011 voru hin opinberu hlaup þessi; Parísarmaraþonið, 100 km meistaramót Íslands, Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið og loks Reykjavíkurmaraþonið.
Árið 2016 eru fyrirhuguð hlaup þessi; Bostonmaraþonið, maraþon á gresjum Suður-Afríku, Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið, Reykjavíkurmaraþonið og loks Munchenmaraþonið. Sjálfsagt kem ég til með að blogga eitthvað um þessi hlaup síðar.
Árið 2011 bjó ég mér til einkunnarorðin: ég hleyp af því að ég get það.
Árið 2016 verða einkunnarorðin: ég lifi af því að ég get það.
gá
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2015 | 08:27
Áramótaannáll 2015
Hlaupaárið 2015 var gott hlaupaár. Ég kom inn í árið byrjaður í prógrammi þar sem ég hafði skráð mig í Tokyo maraþonið þann 22. febrúar. Þar sem ég var að fóta mig á ný í hlaupunum eftir hjartabrennsluaðgerðina haustið 2014 fór ég frekar varlega og hélt magninu hóflegu. Þegar til kom gekk bara ljómandi vel og ég kláraði á ágætum tíma. Næsta maraþon var í París þann 12. apríl. Það var sama sagan þar, hóflegar æfingar og hlaupið gekk vel. Um bæði þessi hlaup hef ég bloggað áður. Tveimur vikum eftir Parísarþonið ætlaði ég að vera með í vormaraþoninu en þegar ég fór að finna fyrir eymslum í öðru hnénu eftir tæplega hálft maraþon lét ég það bara gott heita og hætti eftir hálft. Hvíldi mig vel eftir þetta og náði mér góðum í hnénu. Mjög skynsamur og til eftirbreytni.
Þegar fór að líða að sumarbyrjun fór að fæðast sú hugmynd að gaman gæti verið að hlaupa Mývatnsmaraþonið sem ég hafði aldrei gert. Ég fór því aftur af stað og hafði það markmið að koma mér í þannig form að ég gæti amk klárað vegalengdina skammlaust. Þar sem ónæmiskerfið er ekki alveg í toppstandi er ég viðkvæmur fyrir kalsasömum veðrum og því hafði ég varann á mér og ætlaði ekki að hlaupa nema spáin væri þokkaleg. Á mánudegi fyrir hlaup var spáð hita um frostmarki og töluverðum vindi. Ég afskrifaði því hlaupið. Tók góðar styrktaræfingar á miðvikudegi og gat varla gengið fyrir harðsperrum næstu dagana. Á föstudagsmorgni sá ég að spáin hafði breyst og var bara orðin nokkuð þokkaleg, hiti nokkrar gráður og minni vindur. Því var skipt um skoðun og keyrt norður seinni partinn. Pastamáltíðin í þetta skiptið saman stóð af tvöföldum hamborgara og Brynju ís. Dálítið óhefðbundið en sérlega gott! Hlaupadagurinn var hinn fallegasti, bjartur en auðvitað frekar kalt. Þarna var ég mættur á ráslínuna ásamt 9 öðrum! Ótrúlegar andstæður miðað við að vera í ráshólfum ásamt tugum þúsunda! En maraþon er alltaf maraþon og öll hafa þau sinn sjarma. Það hefur Mývatnsmaraþonið svo sannarlega líka. Þetta var alveg bráðskemmtilegt hlaup og öðru vísi en öll önnur sem ég hef tekið þátt í. Eftir nokkra km var ég orðinn einn í þriðja sæti og þannig var það allt hlaupið. Ég sá tvo fremstu menn framan af en upp úr miðju hlaupi hætti ég að sjá þá nema af og til. Eftir það sá ég ekki annað fólk en glaðlegt starfsfólk á drykkjarstöðvum og einn og einn bíll fór fram hjá mér. En dýralífið og umhverfið maður! Alveg dásamlegt. Ég sá endur í hrönnum, ég sá mófuglana, ég sá rollur, ég sá hesta og ég sá beljur. Reyndi meira að segja að skima eftir silungum þegar ég hljóp yfir brýrnar. Já og ég sá víst líka fleira fólk því það var auðvitað allt fullt af túristum við Skútustaði þegar ég hljóp þar framhjá. Ég gat nú ekki séð á þeim að þeir gerðu sér grein fyrir því að ég væri að taka þátt í alvarlegri maraþon keppni þegar ég hljóp þar í gegn. Engin hvatning heldur horft á mig eins og ég væri viðundur að vera þarna á hlaupum og það án þess að vera með net um höfuðið eins og þeir voru flestir með. Það var reyndar ekki að ástæðulausu því eitt kvikindi í viðbót sá ég í umtalsverðu magni og það er að sjálfsögðu hinn afskaplega geðþekki mývargur. Það var nóg af honum en hann var frekar staðbundinn. Það var mikið af honum á þeim stöðum þar sem vegurinn er mjög nálægt vatninu en annars var þetta alveg í lagi. Sennilega hefur nú vindurinn haft nokkuð um það að segja. En það er skemmst frá því að segja að þetta var mikil náttúruupplifun og mjög skemmtilegt. Ekki skemmdi það upplifunina að skella sér í baðlón þeirra Mývetninga og skella í sig ísköldum orkudrykk eftir hlaupið! Rúsínan í þessari ferð var síðan að Þóra vann í sínum aldursflokki í 10 km hlaupinu!
Eftir Mývatnsmaraþonið tók ég því rólega í nokkrar vikur en ákvað síðan að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var því ekki annað að gera en að byrja að trekkja upp. Það gekk ágætlega og í þeim undirbúningi tók ég þátt í skemmtilegu nýju hlaupi sem var Adidas Boost hlaupið. Ég skellti mér líka í stystu vegalengdina í Hengilshlaupinu. Það gekk ágætlega líka. Ég fór reyndar hægt upp brekkurnar því eftir að hjartavesenið hófst hef ég átt erfiðara með að fara upp brekkur en áður. Mér gekk hins vegar vel niður og náði öllum sem fóru fram úr mér á uppleiðinni nema Oddi. Ég réð ekkert við hann. Næsta verkefni var Jökulsárhlaupið. Þetta var í 5. skipti sem ég tek þátt í því hlaupi. Að mínu mati er þetta skemmtilegasta hlaupaleið sem ég tek þátt í hér á Íslandi. Atvik hafa háttað því þannig að ég hef ekki hlaupið þarna síðan árið 2011. Það var því heilmikil tilhlökkun í gangi og þar til viðbótar bættist að Hlaupahópur Stjörnunnar sendi fjölmennt lið á svæðið. Hlaupið sjálft gekk afbragðs vel. Við Unnar vorum búnir að æfa saman fyrir Reykjavíkurmaraþonið og vorum komnir í þokkalegt form miðað við aldur og fyrri störf. Við hlupum þetta öxl í öxl alveg þar til um 4 km voru eftir. Þá dró örlítið í sundur og sá sem var með fleiri aukakíló þurfti að borga fyrir það. En þetta var mjög taktískt hlaup hjá okkur. Eftir startið þá reyndum við að ná okkur í stöðu og vorum komnir í ca. 20. sæti áður en við fórum inn á göngustíginn eftir malbikið. Við héldum þeirri stöðu nokkurn veginn alveg fram að Hljóðaklettum. Við fórum fram úr einhverjum og einhverjir fóru fram úr okkur á þessum kafla. En eftir Hljóðaklettana gekk okkur vel. Þá fórum við að pikka upp keppendur og misstum engan fram úr okkur. Enduðum í 12. og 14. sæti og vorum ánægðir með það. Þegar svona pistill er settur saman þarf stundum að halda vel um tölfræðina þannig að það er rétt að geta þess að Oddur lenti í 16. sæti, mörgum, mörgum mínútum á eftir okkur. En hann stóð sig samt vel!
Reykjavíkurmaraþonið fór ekki alveg eins og það átti að fara. Um viku fyrir hlaupið fékk ég eitthvert tak í annan kálfann við það eitt að ganga niður tröppur heima hjá mér. Það var bölvað ólán því mér fannst ég vera kominn á ágætt ról. Ég hljóp ekkert síðustu dagana fyrir hlaupið og vonaðist eftir skjótum bata. Það gekk ekki upp þannig að strax frá fyrsta skrefi var þetta bölvuð pína. Ég hefði auðvitað aldrei átt að fara af stað en þar sem ég hafði sett í gang áheitasöfnun í minningu Möggu minnar fannst mér ekki hægt annað en að reyna að klára. Þetta gekk þokkalega fyrstu 7 km en þá þurfti ég að hægja á mér. Við 18. km hélt ég að eitthvað væri að gefa sig en það lagaðist aftur þannig að með því að hlaupa eins og ég væri að fara yfir glerbrot gekk þetta þokkalega. En við 32. km var eins eitthvað hefði slitnað í kálfanum. Ég varð að stoppa og gekk síðan rúmlega hálfan km. Eftir það gat ég farið að skjögta áfram og það endaði þannig að ég hálf hljóp og hálf gekk síðustu 10 km en komst þó í mark. Þetta endaði með því að verða mitt langhægasta maraþon til þessa en þegar upp er staðið skipti það engu máli því ég kláraði. Það var fyrir Möggu.
Nú tók við þriggja vikna algjör hlaupahvíld. Eftir hana var byrjað aftur því þá voru fjórar vikur í næsta verkefni sem var Chicago maraþonið. Það var ákveðið í Tokýó að það væri hlaup sem þyrfti að hlaupa. Enda tilefnið ærið. Þetta var síðasta hlaupið af hinum stóru 6 sem Unnar átti eftir og því ákváðum við félagarnir að fara með honum í hlaupið. Hlaupið gekk mjög vel og eiginlega betur en ég hafði átt von á fyrirfram. Ég náði mjög jöfnu hlaupi og var innan við mínútu hægari með seinni hlutann en þann fyrri. Þegar upp var staðið var ég töluvert fljótari en mínar bjartsýnustu ímyndanir höfðu látið sér detta í hug. Það var því greinilegt að grunnurinn hafði verið til staðar þótt brösuglega hefði gengið frá miðju sumri.
En sem sagt. Fyrirfram vissi ég ekki hverju ég gæti átt von á þetta hlaupaárið. Ég vissi ekki hvernig mér myndi ganga að komast af stað eftir hjartabrennsluna og hvort ég myndi yfirhöfuð geta hlaupið. Við árslok veit ég það. Í ár bættust við þessi 5 maraþon þannig að heildartalan er komin upp í 16. Það er eiginlega allt að því skrítin tilhugsun. Þegar hjartsláttaróreglan byrjaði hafði ég hlaupið 6 maraþon. Um tíma hélt ég að ég myndi ekki hlaupa framar. Það reyndist rangt. Ég komst aftur af stað eftir um árs hlé þar sem ég hafði verið meira og minna úr takti. Eftir að hafa verið startað í gang í fyrsta skiptið gat ég hlaupið þótt ég dytti reglulega úr takti. Þannig tókst að klára 5 maraþon á tveimur árum til viðbótar. Nú er stefnan hiklaust sett á enn fleiri maraþon.
Markmið næsta árs eru nokkur. Ég er skráður í Boston í vor. Það verður spennandi. Þangað var ferðinni heitið vorið 2012 áður en ég datt úr takti. Þá var ég kominn í fantaform og var að stefna á tíma sem væri sem næst 2:50. Ég reikna með að slíkar tímahugsanir séu liðin tíð hvað mig varðar en engu að síður ætla ég að reyna að æfa vel og markmiðið er að vera sem næst 3:05. En þá verð ég líka að losa mig við nokkur vel valin kíló. Næsta verkefni þar á eftir er ekki síður spennandi en Boston. Við félagarnir ætlum ásamt okkar betri helmingum að leggja land og höf undir fót og skella okkur í maraþonhlaup í Suður-Afríku í byrjun næsta sumars. Það er hlaup sem hlaupið er í þjóðgarði innan um dýr merkurinnar. Það er hlaupið undir árvökulum augum vopnaðra þjóðgarðsvarða. En til öryggis er eina markmið mitt í hlaupinu að geta hlaupið aðeins hraðar en Unnar. Bara ef vera skyldi að enginn byssumaður verði nálægur ef við mætum úrillum Nashyrningi. Þar sem þetta hlaup er í raun trail hlaup með töluverðum hæðarmismun þá er ansi freistandi að nýta æfingarnar fyrir hlaupið og taka þátt í Laugaveginum ca. 4 vikum síðar. Ég sé til með það. Næsta haust er planið að fara með hlaupahópnum og taka þátt í Munchen maraþoninu. Það verður örugglega skemmtileg ferð enda félagsskapurinn alveg frábær. Nú og svo er því ekki að neita að það kitlar aðeins að hlaupa í NY. Ef mér myndi takast að klára Boston og NY þá ætti ég ekki eftir nema Berlín til að vera búinn með stóru 6. Þegar því verkefni verður lokið verður þá hægt að fara að einbeita sér að því að finna spennandi og óvenjuleg hlaup. Við erum reyndar þegar komnir með plan í huga sem við erum byrjaðir að vinna með. Nánar um það síðar.
Eins og ég hef oft bloggað um áður þá hafa hlaupin gefið mér mikið. Eitt af því er að nota þau til að búa til spennandi framtíðarsýn. Eitthvað til að hlakka til og eitthvað sem heldur manni við efnið. Eitthvað sem veitir manni ánægju að hugsa um. Það verður síðan bara að koma í ljós hvernig úr rætist. Það er bara eins og með lífið almennt. Margt getur breyst og þá getur þurfta að breyta um kúrs eða jafnvel skipta um skoðun. Það má. Aðalatriðið í mínum huga er hins vegar að njóta ferðalagsins. Eitt tekur við af öðru. Ferðin þarf ekki að vera misheppnuð þótt fyrirhugaður áfangastaður náist ekki. Ferðin verður bara öðru vísi og nýir og jafnvel ófyrirséðir áfangastaðir skjóta upp kollinum. En þótt áfangastaðirnir sjálfir séu oft nauðsynlegir og stundum ákveðinn hápunktur má ekki gleyma ferðalaginu, tilhlökkuninni, skipulagningunni, þrotlausum æfingum aftur og aftur. Lífið er allt fullt af endurtekningum, aftur og aftur. Endurtekningum sem gera mann betur í stakk búinn til að takast á við það sem að er stefnt. En jafnvel þótt upphaflegur áfangastaður breytist þá nýtast æfingarnar og endurtekningarnar. Maður er betur undir það búinn að mæta hverju sem er. En það þarf að muna að njóta hversdagsins, endurtekninganna. Hversdagurinn getur nefnilega verið ótrúlega dýrmætur. Eftir því sem ferðalaginu vindur fram lærist það betur og betur.
Að lokum er það hin hefðbundna áramótaupprifjun. Þetta árið urðu kílómetrarnir á hlaupum 2.280 og þá tel ég með 10 km í gamlárshlaupinu á morgun. Það þýðir að frá því að ég fór að hlaupa skipulega þann 10. apríl árið 2008 þá eru kílómetrarnir þessi 8 ár orðnir 23.643.
Gleðilegt nýtt ár!
gá
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2015 | 08:38
Að horfast í augu við þjáningu
Nú er rúmt ár liðið. Rúmt ár síðan ég hætti að geta talað við Möggu. Það er ekki auðvelt að venjast því. En eitthvað sem er óbreytanlegt. Hún er samt ennþá með mér. Alla daga hugsa ég til hennar. Ég hugsa til hennar með hlýhug og þakklæti. Allra góðu stundanna og allra góðu tilfinninganna. Lífsins sem við áttum saman. Lífsins sem var svo gott. Lífsins sem við héldum að við myndum lifa til endalokanna, uns dauðinn myndi aðskilja okkur.
Sem við gerðum.
Endalokin komu bara úr óvæntri átt og ófyrirséð. En þannig er lífið. Ófyrirséð og fullt af óvæntum atburðum. Bæði velkomnum og óvelkomnum. Á sumt getum við haft áhrif en annað ekki. Við getum hins vegar haft áhrif á það hvernig við bregðumst við þeim atburðum sem ekki eru velkomnir. Það gerum við hvert með sínum hætti. Sorgin, missirinn og eftirsjáin getur verið nýstandi sár. Mjög sár.
En. Hver og einn er sá sem ber mesta ábyrgð á eigin lífi. Hver og einn getur valið hvaða afstöðu hann vill taka til þeirrar lífsreynslu sem hann upplifir. Kannski er ekki auðvelt að eiga við þær tilfinningar sem brjótast fram en þá getur verið hjálplegt að reyna að greina orsakirnar. Átta sig á því hver hin raunverulega undirliggjandi ástæða er fyrir þeim tilfinningum sem brjótast fram. Hvað er það sem veldur þeirri vanlíðan sem viðkomandi upplifir. Og, er eitthvað til ráða þegar allt sýnist sem svartast og tilveran breytt til hins verra?
Ég hafði tíma. Ég hafði tíma til að undirbúa mig. Ég vissi í hvað stefndi með meiri fyrirvara en aðrir. Ég vissi það í raun frá upphafi. Við vissum það bæði frá upphafi. Við vissum það bæði þegar við sátum við miðjarðarhafsströnd haustið 2013. Við fengum það staðfest í febrúar 2014. Ég sat á bekk í grænum garði eftir maraþon í London í apríl 2014 og hugsaði um það hvernig það yrði að geta ekki lengur talað við Möggu. Ég eyddi degi í garðinum og ímyndaði mér hvernig það yrði. Um kvöldið hringdi ég í hana og heyrði röddina hennar. Það var gott. Það var gott að geta tekið upp símann og hringt í hana. Og hún svaraði. Fyrstu vikurnar eftir að hún fór hugsaði ég oft um þessa stund í garðinum í London. Mér fannst gott að rifja upp þessa tíma þegar ég sat og hugsaði, og gat síðan hringt í hana og heyrt röddina hennar. Það hjálpaði. En það var ekki eins. Nú gat ég ekki hringt. Þetta var ekki eins og ég hafði ímyndað mér. Þetta var miklu verra. Þetta var miklu sárara. En ég var samt ekki óundirbúinn.
Mér voru færðar bækur. Ég tók bækur úr bókahillunni sem ég hafði ekki lesið. Það var eins og eitthvað stýrði valinu. Úr einni bók sem mér var færð að gjöf fann ég ljóð sem ég staðnæmdist við. Ég las það oft. Það veitti mér ákveðna hugarró. Að lokum ákvað ég að síðasta erindi ljóðsins skyldi standa á steini Möggu minnar inn í framtíðina. Fallegt ljóð eftir Gunnar Dal sem hann samdi til látinnar eiginkonu sinnar. Ljóð sem lýsir mikilli ást og trú á fallega framtíð hennar. Steinninn verður settur upp í byrjun október.
Bók sem leyndist í bókahillunni var bókin: Leiðin til lífshamingju; sem er viðtalsbók Howard C. Cutler við Dalai Lama. Þetta var bók sem Magga keypti og ég hafði aldrei litið í. Eitt kvöldið eftir að hún fór greip ég hana úr hillunni og kíkti á efnisyfirlitið. Ég staldraði við kaflaheitið á kafla 8: Að horfast í augu við þjáningu; og las kaflann. Ég las hann oft næstu vikurnar. Mér fannst margt merkilegt sem þarna kom fram. Margt sem manni getur virst sjálfsagt þegar á það er bent en við eigum oft í erfiðleikum með að viðurkenna. Og það getur valdið okkur meiri vanlíðan en ástæða þarf að vera til. Þar sem Dalai Lama segir þetta betur en ég get endursagt leyfi ég mér að birta nokkrar beinar tilvitnanir í bókina:
Dalai Lama rakti í smáatriðum þá aðferð sem hann beitir til að sigrast á þjáningu. Hún byggist á þeirri trú að unnt sé að frelsast frá þjáningu. En fyrst verður einstaklingurinn að sætta sig við að þjáning er eðlilegur fylgifiskur mannsins og horfast hugrakkur í augu við vandamálin. Menn líta kannski neikvæðum augum á elli og dauða. Þau fyrirbæri eru óæskileg svo þeir reyna bara að gleyma þeim. Frá þeim verður þó engum forðað. Hafi menn forðast að hugsa um slíkt verður þeim það áfall þegar þar að kemur og það getur orsakað óbærilega andlega vanlíðan. Hafi menn varið einhverjum tíma í að hugsa um elli og dauða og aðra miður æskilega hluti, taka þeir þeim af meira jafnaðargeði þegar þar að kemur. Þegar einstaklingurinn hefur sætt sig við að þjáning er hluti af daglegu lífi, er næsta skref að kanna þá þætti sem venjulega valda óánægju og andlegri vanlíðan. Honum líður vel ef hann sjálfur eða einhver nákominn öðlast frægð og frama, eða annað það sem gerir lífið þægilegra. Ef honum tekst það ekki heldur keppinautunum, verður hann óhamingjusamur og óánægður. Ef menn rifja upp hvernig daglegu lífi er yfirleitt háttað, komast þeir að raun um að þeir þættir sem valda kvöl, þjáningu og óánægju eru mun algengari en þeir sem valda gleði og hamingju. Við verðum að láta þetta yfir okkur ganga hvort sem okkur er það ljúft eða leitt. Þetta er sá veruleiki sem við blasir og þess vegna gætum við þurft að breyta viðhorfum okkar til þjáningar. Viðhorfið til þjáningar skiptir miklu því að það hefur áhrif á hvernig við glímum við þjáningu þegar þar að kemur. Venjulega höfum við megnustu óbeit á kvöl og þjáningu. Tækist okkur að breyta viðhorfinu til þjáningar þannig að við tækjum henni af meira umburðarlyndi, værum við betur í stakk búin til að sporna við andlegri vanlíðan og óánægju. Ég tel að afstaðan til lífsins skipti máli fyrir viðhorfið til þjáninga. Ef við teljum hana neikvæða og til marks um að okkur hafi mistekist, er líklegra að við fyllumst kvíða og óþolinmæði þegar við lendum í erfiðum aðstæðum, líkt og yfir okkur þyrmi. Ef við sættum okkur hins vegar við þjáningu sem eðlilegan hluta tilverunnar verðum við umburðarlyndari gagnvart andstreymi. Ef ekki verður lífið ömurlegt, líkt og martröð sem engan enda virðist taka.
Það er margt sem ég tek með mér inn í framtíðina sem Magga gaf mér. Eitt það mikilvægasta að mínu mati er trúin á gott og ástríkt samband við maka. Ég upplifði það með Möggu. Sú tilfinning sem ég upplifði með henni er tilfinning sem ég vil upplifa aftur. Upplifa fullnægjuna sem felst í því að deila lífinu með manneskju sem manni finnst bæta sjálfan sig og manneskju sem maður trúir að maður veiti eitthvað sambærilegt á móti.
Sumir upplifa æfina með einum maka sem þeir elska alla tíð, sem er eflaust yndisleg tilfinning. Tilfinning sem ekki allir fá að upplifa. En sumir þeirra sem það ekki fá, þeir fá að upplifa aðrar tilfinningar. Tilfinningar nýrrar ástar og nýs tilhugalífs. Nýtt æfiskeið. Nýja tilveru. Það er vissulega skrýtið og mikil breyting, sérstaklega þegar breytingin stafar af óvelkomnum og óumbeðnum aðstæðum. Þá verður til nýr veruleiki þar sem blandast saman eftirsjá, tregi, söknuður, jafnvel ótti, en líka eftirvænting, spenna, þessar nýju tilfinningar og nýja framtíðarsýn. Þetta er skrítinn veruleiki og oft nánast óraunverulegur, stundum eins og líf milli tveggja heima. En eftir því sem tíminn líður dofnar sársaukinn og nýju tilfinningarnar verða yfirsterkari. Minningin breytist úr sárum söknuði í dásamlega fallegar myndir sem gleðja og veita styrk.
Þeir sem eru í kring um þann sem í þessari stöðu er upplifa ekki það sama. Þeir búa við þann breytta veruleika að einn úr hópnum er horfinn og ekkert kemur í staðinn. Þeir upplifa bara missinn og tómið. Kannski reiðina og vonleysið. Kannski, ef þeir voru óundirbúnir, finnst þeim lífið verða ömurlegt, líkt og martröð sem engan enda virðist taka. En við höfum val. Það er unnt að frelsast frá þjáningunni eins og Dalai Lama heldur fram. En að því sögðu er sennilega ekki hægt að segja hvað er rétt sorgarferli og hvað er rangt. Allir eiga sitt sorgarferli og það verður ekki borið saman við sorgarferli annarra. En hver og einn ber ábyrgð á sinni leið og sinni líðan og enginn getur borið sorgir annarra. Það er sárt en sá raunveruleiki sem við búum við.
Mín leið var sú að sætta mig við það óumflýjanlega, halda áfram lífsgönguna og reyna að finna mér farveg. Í gegnum mánuðina þar sem ljóst var orðið að hið óumflýjanlega væri óumflýjanlegt velti ég því oft fyrir mér hvernig ég ætti að bregðast við framtíðinni þegar stundin myndi koma. Hvernig ætti ég að haga mér, hvernig ætti ég að nálgast lífið upp á nýtt? Ég var því ekki alveg óundirbúinn dauðanum þótt missirinn og sorgin hafi verið nokkuð sem ekki var unnt að sjá fyrir hversu sár yrði í raun.
En ég valdi að halda áfram og lifa lífinu lifandi, eins og Sigurbjörn Þorkelsson hvetur okkur svo skelegglega til að gera í skrifum sínum í blöð og á fésbókina.
Ég fór út á meðal fólks. Ég fór aftur að hlaupa. Ég fór aftur að lifa lífinu. Ég bauð konu út að borða. Ég vissi hvað það var sem hafði veitt mér hamingju. Hvaða tilfinningar það voru sem höfðu látið mér líða vel. Að elska og vera elskaður.
Forlögin höguðu því svo að við Þóra héldum áfram að hittast. Samvistir okkar hafa leitt til þess að undir lok þessa mánaðar ætlum við að gifta okkur.
Að elska og vera elskaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.5.2015 | 16:39
Lífið eftir hjartabrennslu
Þann 24. september sl. fór ég í hjartabrennslu á Landspítalanum. Tilgangurinn var sá að reyna að draga úr gáttatifi sem lýsir sér með óreglulegum hjartslætti. Það er ástand sem getur haft verulega truflandi áhrif á alla hreyfingu og þá sérstaklega úthaldsæfingar. Ég var farinn að detta það oft úr takti að ég þótti vera efnilegur kandídat í aðgerð sem þessa. Aðgerðin gekk vel og því voru væntingar mínar til þess að geta farið að æfa aftur nokkuð góðar. Ég var búinn ræða þessi mál við hjartalæknana mína sem sögðu að svo fremi sem ég hlustaði vel eftir öllum einkennum þá ætti ég að geta hlaupið aftur.
Í byrjun október sl. heimsótti ég bróður minn og fjölskyldu hans til Dúbaí. Það var ferð sem var ákveðin sem nokkurs konar endurhæfingarferð, bæði andlega og líkamlega. Hitastigið þegar ég kom út var um 38 gráður og lækkaði jafnt og þétt þann tíma sem ég dvaldi hjá þeim og var komið niður í 32-33 gráður þegar ég fór. Dálítið heitt til að hlaupa mikið úti en þó mjög gott til að taka rólegar æfingar rétt fyrir rökkurbyrjun. Ég tók mína fyrstu æfingu um tveimur og hálfri viku eftir aðgerðina og hljóp þá 2 km í rólegheitunum. Ég neita því ekki að ég var aðeins stressaður á meðan ég var á hlaupunum og fannst þetta frekar erfitt þótt ég færi hægt. En allt gekk þetta ágætlega og næstu daga tók ég nokkrar 4 -5 km æfingar og náði að auka hraðann smátt og smátt. Fyrr en varði var ég farinn að geta hlaupið um 10 km en fann að ég var ekki tilbúinn í lengri vegalengdir því þá var eins og ég fengi einhvers konar tak í hjartavöðvann og þá var farið að læknisráði og snarhætt.
Þegar ég var búinn að vera úti í um tvær vikur fékk ég símtal frá hlaupafélaganum sem var búinn með þrautseigju og ýtni að útvega okkur pláss í Tókýó maraþoninu sem skyldi hlaupið í febrúar. Tími til umhugsunar var eiginlega ekki fyrir hendi þannig að það varð að hrökkva eða stökkva. Þar sem ég fann að upphaf æfinga hafði í raun gengið betur en ég þorði að vona ákvað ég að slá til og láta skrá mig. Það myndi þá bara koma í ljós hvort ástandið yrði orðið nógu gott til að ná að klára hlaupið eða ekki.
Þegar heim var komið var sett í æfingaprógramm. Til að byrja með voru þetta oftast ekki nema tvær til þrjár æfingar á viku en eftir áramótin reyndi ég sem oftast að taka 4 æfingar. Kílómetra magnið hjá mér var töluvert annað en það sem ég er vanur. Venjulega hef ég hlaupið 100 til 130 km vikulega og jafnvel einstaka vikur upp í 140-150 km. Nú var ég oftast að hlaupa í kringum 60 km og stærsta vikan fyrir Tókýó var 77 km vika. Mér fannst því býsna óljóst fyrirfram við hverju mætti búast í sjálfu maraþonhlaupinu. Til að gera þetta allt saman ennþá óljósara datt okkur félögunum það snjallræði í hug að skrá okkur einnig í Parísar maraþonið sem var á dagskrá 7 vikum eftir Tókýó. Því þurfti að reyna að stilla æfingar og hlaupið í Tókýó þannig af að meiri líkur en minni væru á því að unnt yrði að klára hlaupið í París einnig.
Þegar til kom gekk þetta aldeilis bærilega. Tókýó maraþonið gekk eins og í sögu, ég kláraði á tæplega 3:17 eftir alveg ágætt hlaup. Ég hélt nokkuð jöfnum hraða upp í 25 km en fann þá að annar kálfinn fór að hóta krömpum þannig að ég hægði aðeins á mér eftir það en hélt þó ágætlega hraða allt til loka. Æfingarnar eftir Tókýó maraþonið snerust fyrst og fremst um að komast aftur af stað án þess þó að ætla sér um of. Það gekk ágætlega og ég náði meira að segja einni æfingaviku með 80 km án þess að skaða mig sérstaklega. Það telst þá vera mesta magn í einni viku sem ég hef hlaupið eftir hjartabrennsluna. Parísar maraþonið rúllaði síðan fínt og ég náði að bæta mig um ca þrjár og hálfa mínútu og kláraði á rúmlega 3:13. Þetta hlaup var um margt mjög svipað og í Tókýó, ég hélt jöfnum hraða upp í 25 km en þurfti þá aðeins að hægja á. Hélt samt sama hraðanum frá 25. km og til loka. Sennilega hefur mig skort aðeins meira æfingamagn í lappirnar til að ná að halda út á sama hraða allt til loka.
Hvað varðar Tókýó maraþonið þá er alveg óhætt að uppljóstra því að Japanirnir kunna vel að skipuleggja maraþonhlaup. Fyrir hlaupið voru afar góðar leiðbeiningar um það hvar hlauparar ættu að mæta og skýrt tekið fram að hlauparar kæmust ekki inn á start svæðið nema í gegnum nákvæmlega rétt hlið. Þegar að umræddu hliði var komið kom í ljós að hver einasti hlaupari var látinn ganga í gegnum málmleitarhlið og farangur var settur í gegnumlýsingu. Hér var augljóslega engin áhætta tekin þannig að þeir sem hefðu vafasamar hugmyndir gætu að minnsta kosti ekki tekið neitt með sér inn á svæðið sem gæti skapað hættu. Þrátt fyrir að þátttakendur væru um 35.000 og þyrftu allir að fara í gegnumlýsingu gekk allt bæði hratt og vel fyrir sig. Þegar inná svæðið var komið var auðvelt að nálgast drykki og næringu fyrir þá sem það vildu.
Það var frekar kalt hlaupadaginn, kannski 3-4 gráður um morguninn en fór í ca 6-7 gráður þegar leið á hlaupið. Fyrir startið voru aðeins rigningarskúrir en það hélst nánast þurrt á meðan á hlaupinu stóð. Vindur var ekki mikill þannig að aðstæður voru í raun góðar þótt ég hefði sjálfur kosið að hafa aðeins hlýrra.
Við félagarnir, Bjössi, Unnar og Frikki í Melabúðinni, vorum saman í ráshólfi B. Eins og venjulega rétt fyrir ræsingu í maraþoni var spennan og tilhlökkunin mikil. Minnir mig stundum á síðustu klukkustundirnar fyrir aðfangadag þegar beðið var eftir því að komast í pakkana. En hvað um það, nú var uppskeruhátíðin við það að hefjast. Talið niður, byssuskot, og hlaupið byrjað.
Í upphafi var ansi þröngt og það kom fljótt í ljós að margir keppendur í A hólfinu höfðu augljóslega gefið upp ævintýralega bjartsýna áætlun um hversu hratt þeir ætluðu að ljúka hlaupinu. Fyrstu rúmu 5 km fóru í að zikk zakka framhjá hlaupurum sem voru að hlaupa á hraða sem var allt að því mínútu hægari en það sem við fórum út með. Þannig að ef eitthvað var hægt að gagnrýna við skipulagið þá var það þessi uppröðun. Veit samt ekki hvort það er við mótshaldara að sakast því oft er það svo að keppendur eiga sjálfir að gefa upp áætlaðan lokatíma við skráningu. Sennilega er samt betra fyrirkomulag að keppendum sé einfaldlega raðað í startblokkir miðað við síðasta rauntíma úr maraþonhlaupi fyrir skráningu. Mér hefur amk sjálfum fundist slíkt fyrirkomulag gefa betri raun.
Brautin í hlaupinu er að sumu leyti aðeins sérstök. Að venju er hlaupið framhjá mörgum af merkisstöðum viðkomandi borgar en brautin í Tókýó er í grófum dráttum í laginu eins og kross. Það þýðir að tvisvar er hlaupin löng leið, þegar armar krossins eru hlaupnir, og sama leið hlaupin til baka. Þetta hefur bæði kosti og ókosti í för með sér. Það er verulega gaman að fá tvisvar í hlaupinu tækifæri til að mæta fremstu hlaupurunum og sjá keppnina þeirra á milli. En á sama tíma er það andlega aðeins erfitt að horfa fram á veginn og sjá endalaust mannhafið í báðar áttir og vita að maður eigi eftir langa leið að snúningspunkti og eigi þá eftir að hlaupa sömu leið til baka. En samt. Það er mjög gaman að mæta þeim bestu. Reyndar eiginlega stórmerkilegt. Í fyrsta hópnum eru nefnilega eiginlega allir eins. Allt saman grannir og leggjalangir Afríkubúar og það sjást ekki svipbrigði á þeim. Þeir líða yfir götuna og virðast ekkert hafa fyrir því. Samt eru þeir á hraða sem myndi þýða fyrir mig að ég myndi kastast af hlaupabrettinu eftir örfá hundruð metra. Síðan þegar maður fer eftir smá stund að mæta þeim sem á eftir koma þá fara að koma í ljós alls konar mismunandi útgáfur af fólki. Fólki sem sumt virðist hlaupa með andlitinu, aðrir sem hlaupa skakkir eða nánast út á hlið, fólk sem virðist vera í andaslitrunum og fólk sem virðist eiga þá ósk heitasta að hætta að hlaupa. Þetta er gaman!
Brautin er slétt og fín fyrstu 32-35 km. Eftir það kárnar gamanið nokkuð. Þá er brautin að liðast út á einhvers konar eyjar og því þarf að hlaupa yfir nokkrar brýr. Þær eru allar með nokkurn halla og sú sem er við 40 km markið er býsna löng. Þegar hún er loksins að baki þá er ein eftir til viðbótar. Það fór því heldur lítið fyrir ætluðum endaspretti, eða sennilega er réttara að segja ætlaðri hraðaaukningu. En hvað um það, hlaupið kláraðist á ágætum tíma 3:16:56. Ég hafði vonast eftir að ná undir 3:15 en vissi að miðað við æfingamagnið fyrir hlaupið gæti það orðið tvísýnt. En ég er samt hæst ánægður með hlaupið. Það var ekkert sjálfgefið að ég myndi geta klárað og því gleðst ég yfir því að geta hlaupið aftur maraþon og hafa liðið býsna vel allan tímann.
Það er alveg óhætt að segja að ég hef aldrei upplifað aðrar eins móttökur þegar í mark var komið. Japanska starfsfólkið var alveg einstaklega broshýrt og kátt og lét manni líða eins og sigurvegara. Kossar og knús voru auðfengnir og gleðin beinlínis skein úr öllum andlitum. Keppendur voru leiddir áfram og inn í stærðarinnar hús þar sem búið var að koma farangrinum fyrir með mjög skipulögðum hætti. Þegar hann var kominn í hendurnar var keppendum vísað áfram og inn í risasal þar sem hægt var að fara úr gallanum og í önnur föt. Alveg greinilegt að Japaninn var vel búinn undir að veðrið gæti verið rysjótt og því gott að geta haft keppendur innan dyra að hlaupi loknu. Alveg magnað skipulag og aldrei upplifði maður þrengsli í öllu þessu mannhafi. Japanir fá toppeinkunn frá mér hvað varðar skipulag og undirbúning.
Eftir hlaupið tóku við nokkrir góðir dagar þar sem borgin var skoðuð. Annað er eiginlega ekki hægt þegar búið er að fljúga yfir hálfan hnöttinn til að elta einhverja tiltekna 42 km sem endilega þarf að hlaupa. Við tókum 9 daga í ferðalagið og má eiginlega segja að það fari alveg 2 heilir dagar í að koma sér á milli, fram og til baka. Því höfðum við alls 7 daga til ráðstöfunar í landi sólarinnar og má það varla minna vera. En ég get með góðri samvisku sagt að það er upplifunarinnar virði að hlaupa Tókýó maraþonið.
Þegar heim var komið sagði dagatalið að tæpar 7 vikur væru í maraþonið í París. Það þurfti því að hefja einhvers konar undirbúning strax. Fyrsta vikan var öll notuð í hvíld. Næsta vika var notuð til að byrja rólega, rúmir 50 km og 4 æfingar. Þriðju vikuna var magnið aukið uppí um 75 km og aftur 4 æfingar. Fjórða vikan reyndist verða lengsta vikan með 80 km í 4 æfingum. Þá var það niður tröppunin í viku 5 og æfingamagnið 65 km í fjórum æfingum. Í 6. vikunni var æfingamagnið 40 km í þremur æfingum. Nú var ekki meira hægt að gera annað en að byrja að láta sig hlakka til að heimsækja fögru París.
París. Hvað er eiginlega hægt að segja um París? París. Borg ástarinnar. Borg nautnanna. Borg fegurðarinnar. Borg gleðinnar. Borg fyrir maraþon. Það tók mig reyndar meira en eina ferð að falla fyrir París. Fyrsta ferðin var góð, en ég féll ekki fyrir borginni í þeirri ferð. Í næstu ferð uppgötvaði ég borgina betur og þá féll ég fyrir henni. Síðan hef ég farið nokkrum sinnum og oftar en einu sinni dvalið í viku í senn. Þarna náði ég mínum besta maraþon tíma árið 2011. Þarna varð ég fertugur. Þarna hef ég setið með ástinni minni á Páskadagskvöldi við bakka Signu með rauðvín, osta og brauð. Þarna hef ég borðað heilsteikta gæs með engu nema fjalli af ólívum. Vá hvað það voru góðar ólívur, og gæsin maður! Þarna hef ég setið í garði kóngsins á afmælisdegi og drukkið kampavín. Þarna hef ég verið með börnunum mínum og Möggu minni í dásemdar veðri. Þarna hef ég heimsótt rósrauða danssýningu með góðum vinum. Þarna hef ég verið með góðum hlaupafélögum og glaðst að afloknu hlaupi. París er borgin mín.
Nú hljóp ég Parísarmaraþonið í annað sinn. Þótt ég hafi ekki hlaupið í mjög mörgum borgum hef ég þó nokkurn samanburð. Ég hef hlaupið í Reykjavík, Kaupmannahöfn, London, Tókýó, Nice Cannes og fylgst með hlaupum í Frankfurt, Boston og New York. Af því sem ég hef séð og upplifað jafnast ekkert hlaup á við Parísar maraþonið. Vissulega er eitthvað sérstakt og frábært við alla hina staðina en brautin í París er alveg mögnuð. Að standa á Champs Élysées og sjá Sigurbogann fyrir aftan sig og horfa niður á Concord torgið fyrir framan er alveg magnað. Gatan full af hlaupurum og hátískubúðirnar til hvorrar handar. Önnur eins umgjörð í startinu er vandfundin. Leiðin öll er líka full af einhverju spennandi og flottu að sjá. Torgin og garðarnir, alls staðar fólk að hvetja. Hlaupa niður að Signu og hlaupa meðfram henni, mannfjöldi meðfram brautinni og ofan á brúm sem hlaupið er undir, heyra nafnið kallað með frönskum framburði, Gúnar, sjá Eiffel turninn nálgast smátt og smátt og sjá hann stækka og stækka þar til hann gnæfir yfir manni beint á móti Place du Trocadéro þar sem hlaupaleiðin liggur. Stórkostlegt.
Hlaupið sjálft gekk vel. Ég fór af stað með Agga, Halldóri, Pálmari og Unnari. Startið var alveg einstaklega vel framkvæmt hjá Fransmönnunum. Fyrst voru elítuhlaupararnir ræstir, tveimur mínútum síðar hlauparar í A hólfinu, þar sem við vorum, og nú var það gert þannig að hólfið var tvískipt þannig að fyrst hleyptu þeir af stað hlaupurum á annarri akreininni og síðan hinni og svo koll af kolli. Þetta þýddi að það var aldrei neinn troðningur og frá upphafi náðum við hlaupa á þeim hraða sem við vildum og án nokkurra þrengsla. Ég fylgdi hlaupafélögunum fram að 8. km en sló þá aðeins af. Unnar var fyrir aftan okkur þar sem hann ætlaði sér aðeins hægar. Eftir hlaupið sá ég að þótt ég hefði misst sjónar af félögunum þá var ég aldrei langt á eftir þeim og endaði með að ná í skottið á þeim í restina þar sem mér gekk vel að halda jöfnum hraða. Niðurstaðan varð sú að ég rúllaði skeiðið á 3:13:21 sem er aldeilis frábært. Fyrirfram hafði ég sett markið á að reyna að hlaupa hraðar en í Tókýó og helst að komast undir 3:15. Þar sem þetta gekk eftir og mér leið vel allan tímann get ég ekki sagt annað en að þetta hafi verið fábær upplifun í frábærri borg með frábærum ferðafélögum.
Ég var búinn að nefna að París er borgin mín. Þetta maraþonhlaup var mitt 13. maraþon. Daginn eftir hlaupið, þann 13. apríl bað ég mér eiginkonu í garðinum fyrir framan Louvre safnið. Ég fékk svarið sem ég vonaðist eftir. París er borgin mín, og Þóru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.5.2015 | 09:25
Með dauðann að leikfangi
Birt í Fréttablaðinu 12. maí 2015.
(Gæsalappir og þankastrik í bloggfærslunni vistuðust ekki).
Hundrað synjað um undanþágu. Þessi fyrirsögn Fréttablaðsins þann 8. maí sl. fangaði augað. Í fréttinni mátti m.a. lesa eftirfarandi: Tvö hundruð hafa fengið undanþágu fyrir myndgreiningu en hundrað veikum verið synjað af undanþágunefnd. Innan gæsalappa í fréttinni er eftirfarandi haft eftir talsmanni viðkomandi stéttarfélags: þeim undanþágum sem er hafnað, þær getum við ekki veitt. Einnig er eftirfarandi haft eftir talsmanninum: Okkur finnst að þessar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin hljóti að liggja hjá ráðamönnum. Í fréttinni er einnig haft eftir lækni að staðan sé hrikaleg og að hann óttist afleiðingar verkfalls á Landspítalanum.
Um verkföll, ábyrgð og afleiðingar vinnustöðvunar er hægt að hafa langt mál. Það mál hefur áður verið fært í letur. Röksemdir með og á móti verkfallsréttinum hafa verið ræddar í þaula. En hvernig skyldi þessum hundrað líða sem synjað var um undanþágu? Hvernig skyldi ættingjum þeirra líða? Hvernig skyldi þeim lítast á röksemdirnar? Í sannleika sagt þá held ég að flestir sem lenda í þessari aðstöðu að vera einn af tiltekinni óskilgreindri tölfræði velti lítið fyrir sér víðara samhengi hlutanna. Þar sem viðkomandi hættir allt í einu að vera sjálfstæð persóna með sjálfstæðar þarfir fyrir aðstoð samborgaranna en verður allt í einu hluti af óskilgreindu ópersónugreinanlegu mengi í fyrirsögn í dagblaði. Í þeirra huga snýst málið um þeirra eigið líf, og kannski möguleikann á að fá að lifa því áfram. Þeir sem ekki hafa reynt það á sjálfum sér eða nánum aðstandanda að lifa við dauðans angist geta ekki sett sig í spor hinna, en þeim væri samt hollt að reyna það.
Í innsíðu frétt um sama mál er haft eftir talsmanninum: Þeim undanþágum sem er hafnað, þær getum við ekki veitt. Það er algengt að það sé verið að sækja um undanþágur ótilgreint. Einmitt. Það er sem sagt sett í hendur umsækjenda um undanþágur annars vegar og verkfallsvarða hins vegar að bítast á um hvort umsókn sé svona eða hins segin. Ef annar hvor aðilinn er ekki nógu vandvirkur þá bíður afgreiðslan. Í augum þess sem bíður er annar hvor mögulega með lykilinn að því hvort lífinu lýkur fyrr en seinna. Í fyrirsögn dagblaðsins er viðkomandi samt bara einn af hundrað. Ónafngreindur. Langflestir sem lesa fyrirsögnina hugsa ekki til einstaklingsins eða fjölskyldu hans. Þeir sjá bara fyrirsögn sem vísar til kjarabaráttu. Þeir sjá ekki angistina sem þeir upplifa sem eru svo óheppnir að vera hluti af þessu ónafngreinda mengi. Fæstir upplifa þessa hlið, sem betur fer.
En er það þetta sem við viljum? Óhagræðið sem við sem samfélag höfum samþykkt að verkföll geti og jafnvel eigi að hafa í för með sér, er það alltaf ásættanlegt? Jafnvel þótt það geti kostað mannslíf? Getum við samþykkt að það sé ásættanlegt að deiluaðilar geti reynt að varpa ábyrgð á hinn aðilann í vinnudeilu jafnvel þótt einn og einn deyi þess vegna? Fyrir þann sem eftir lifir er svarið jafnan nei. Sá sem fer hefur ekki atkvæðisrétt okkar megin. Þeir sem í þessu sporum standa hafa oftast ekki afgangsorku til að andæfa málflutningi sem þessum. Því er auðvelt að afgreiða þennan hóp sem tölfræði eða óskilgreint mengi. Fyrirsögn í vinnudeilu.
Í augum þeirra sem eiga sér kannski óljósa framtíð er öll truflun á meðferð sérlega erfið. Ýmsar erfiðar hugsanir og tilfinningar fara af stað. Óvissan, óttinn, biðin, getan til að halda andlitinu gagnvart þeim nánustu, getan til að halda reisn, getan til að leyna þeim nánustu hversu erfið staðan er, getan til að lifa.
Í baráttunni um betri kjör virðumst við hafa samþykkt að næstum allt sé leyfilegt. Líka að taka ákvarðanir fyrir þessar hundrað fjölskyldur. En í þeirra augum eru baráttuaðilar með mikið vald. Vald sem við flest viljum að sé frekar í höndum æðri máttar. Ef öðrum deiluaðila skjöplast getur afleiðingin verið lok lífsins.
Þótt mörgum kunni að þykja það ósanngjarnt ætla ég samt að leyfa mér að setja þá skoðun mína fram að mér finnst það ekki rétt að þeir sem hafa tekið þá ákvörðun að sinna sjúkum geti leyft sér að leggja niður störf í kjarabaráttu. Ég er ekki sannfærður um að rétta kerfið sé það að undanþágunefnd eigi að hafa alræðisvald um það sem gert er, eða ekki gert.
Þarna erum við í augum þessara hundrað að færa allt að því guðum líkt vald í hendur einstaklinga. Sem geta síðan leyft sér að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf sjúklinga, sjúklinga sem í þeirra augum eru óskilgreindar andlitslausar persónur í óskilgreindu stærra mengi. Tölfræði. Hundrað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2015 | 08:46
Þú opnast á ný í nótt
Margrét Gunnarsdóttir f. 23. janúar 1965, d. 23. ágúst 2014.
Þín nótt er með öðrum stjörnum.
Um lognkyrra tjörn
laufvindur fer.
Kallað er á þig og komið
að kveðjustundinni er.
Dimman, þögnin og djúpið
og blöðin þín mjúk
sem bærast svo hljótt,
liljan mín hvíta
sem lokast í nótt.
Orð ein og hendur sig hefja,
bænir til guðs
úr brjósti manns.
Stíga upp í stjörnuhimin
og snerta þar andlit hans.
Úr heimi sem ekki er okkar,
æðra ljós skín
en auga mitt sér,
liljan mín hvíta
sem hverfur í nótt frá mér.
Úr lindunum djúpu leitar
ást guðs til þín
yfir öll höf.
Hún ferjar þig yfir fljótið
og færir þér lífið að gjöf.
Og söngnum sem eyrað ei nemur
þér andar í brjóst.
Dreymi þig rótt,
liljan mín hvíta
sem opnast á ný í nótt.
Höf: Gunnar Dal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.12.2014 | 13:48
Áramótaannáll 2014
Í áramótapistli síðasta árs gat ég þess að markmið ársins 2014 væri að halda áfram að hlaupa og vonandi taka þátt í fleiri maraþonum. Þau markmið gengu að hluta til eftir. Ég hljóp London maraþonið þann 13. apríl á tímanum 03:06:38 og tveimur vikum seinna tók ég þátt í Vormaraþoninu hér heima og kláraði það á tímanum 03:15:52. Ég hljóp lítið eftir þessi hlaup en byrjaði þó aftur af auknum krafti eftir hjartabrennslu í september.
Þessi tvö maraþon sem ég hljóp á árinu voru númer 10 og 11. En það sem meira er, þetta eru maraþonhlaup númer 4 og 5 eftir að ég fékk hjartsláttaróregluna. Það var ekki eitthvað sem ég átti von á sumarið 2012 þegar ég var í þunglyndi yfir því að geta sennilega aldrei hlaupið aftur. Nú sé ég meira að segja fram á að geta mögulega hlaupið aftur án þess að hjartsláttaróreglan sé að trufla mig. Brennsluaðgerðin sem ég fór í sl. haust lofar góðu. Ég hef nánast ekki dottið úr takti og endurhæfingin hefur gengið ljómandi vel. Ég byrjaði léttar hlaupaæfingar rúmum tveimur vikum eftir aðgerð og fjórum vikum eftir aðgerðina hljóp ég í fyrsta skiptið yfir 10 km á einni æfingu. Þann 17. nóvember tók ég síðan fyrstu æfinguna í formlegu maraþonprógrammi, innan við tveimur mánuðum frá aðgerð. Fimm dögum síðar hljóp ég í fyrsta sinn yfir 20 km og gekk bara vel.
Frá því að ég fór að hlaupa árið 2008 hef ég haldið saman þeim kílómetrum sem ég hef hlaupið á ári hverju. Í ár urðu þeir tiltölulega fáir en þó 2.309. Það þýðir að á þessum 7 árum eru kílómetrarnir orðnir 21.363.
Markmið næsta árs eru í raun svipuð og í fyrra, þ.e. hlaupa fleiri maraþon og helst sem flest. Ég er nú þegar skráður í Tokyo maraþonið þann 22. feb. og París þann 12. apríl. Ef allt gengur að óskum verða einhver hlaup síðar á árinu.
Ég hef áður sagt í pistlum að hlaupin séu mín leið til að takast á við hlutina. Ef eitthvað bjátar á er fátt betra en að fara og hlaupa og tæma þannig hugann. Einnig ef þarf að brjóta mál til mergjar þá er ekki síður gott að hlaupa og kryfja málin á meðan. Hlaupin eru því sannarlega alhliða. Þetta ár varð mér og eiginkonu minni, Margréti Gunnarsdóttur, sérlega mótdrægt. Hún varð undir í baráttu við illvígan sjúkdóm þann 23. ágúst sl. Það var dálítið sérstakt og skrítið að hún skildi skilja við þennan heim á þessum degi og það þegar tæp þrjár og hálf stund voru liðnar frá því að hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu voru ræstir. En það að er önnur saga sem ég hef bloggað smávegis um áður.
Veruleikinn er eins og hann er. Honum verður ekki breytt. Það sem gerist, gerist. Við getum valið hvernig við tökum því sem að höndum ber. Drúpa höfði eða reisa það upp. Ég hef valið að horfa fram á veginn. Ég á mínar minningar sem munu fylgja mér til enda en ég á líka líf framundan. Líf sem ég get reynt eftir bestu getu að hafa áhrif á hvernig kemur til með að þróast. Hlaupin sem hafa gefið mér svo margt hafa haldið áfram að gefa. Við lok þessa erfiða árs er lífið allt í einu fullt af tilhlökkunarefnum aftur. Ástin hefur kviknað á ný.
Gleðilegt nýtt ár!
gá
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar