10.4.2018 | 15:47
Maður á sextugsaldri
Það er ekki langt síðan mér fannst fréttir um fólk á fimmtugsaldri ekki koma mér nokkurn skapaðan hlut við. Ástæðan var einfaldlega sú að ég samsamaði mig ekki með þessu fólki. Þetta var hér áður fyrr í mínum huga rígfullorðið fólk sem ég átti lítið sameiginlegt með. En svo leið tíminn. Allt í einu voru skólafélagarnir farnir að detta inná þennan aldur og ég sjálfur með. Og áfram leið tíminn. Hraðar og hraðar eins og þeir þekkja sem ná þessum aldri. Og nú eru önnur tímamót. Ég er víst formlega orðinn maður á sextugsaldri!
Dásamlegt! Og sjá, allt í kringum mig er fólk á sextugsaldri og sumir sem ég hef þekkt í gegnum áratugi og mér hefur aldrei fundist líta jafn vel út! Aldeilis frábært hvernig aldurinn eldist með manni og breytir sjónarhorninu. Rígfullorðið fólk á sextugsaldri eru í dag mínir helstu félagar og vinir í leik og starfi og ég finn ekki einu sinni fyrir því að aldurinn hái þeim á nokkurn hátt! Og þetta fólk sem var áður á fimmtugsaldri og mér fannst ekki koma mér við er nú orðið fólk á sjötugs-, áttræðis- og jafnvel ní- og tíræðisaldri. En í stað þess að finnast þetta fólk ekki koma mér við horfi ég nú til þeirra með aðdáunarbliki í auga og dáist að árangrinum. Að hafa náð þessum aldri og áorkað öllu því sem það hefur gert. Það eru forréttindi að komast inná nýjan áratug og þakkarvert.
Mér fannst merkilegt að verða 50 ára fyrir ári síðan. Mér finnst merkilegt að vera núna formlega kominn á sextugsaldurinn. Í gær lauk ég við 10. árið þar sem ég hef æft hlaup reglulega. Í dag hófst síðan 11. hlaupaárið með góðri æfingu í hádeginu. Ég þurfti á góðri æfingu að halda því ég hef aðeins verið að ströggla síðustu vikurnar. Fékk leiðinda pest og fór of fljótt af stað aftur og lenti þá í smá hjartsláttarveseni sem nú virðist að baki. En svona líður tíminn. Það skiptast á skin og skúrir, dalir og fjöll. Allt hefur þetta eitthvað við sig og í versta falli býr til reynslu sem hægt er að reyna að læra af. Þó ekki væri annað en þolinmæði og umburðarlyndi fyrir aðstæðum. Slíkt er ekki sjálfgefið.
Síðasta ár var bæði viðburðarríkt og skemmtilegt á hlaupasviðinu. Ég setti mér það markmið að hlaupa 10 maraþon á milli afmælisdaga og það tókst. Bætti meira að segja við einu skemmtilegu utanvegahlaupi í íslensku slagveðurssumarveðri eins og þau gerast eftirminnilegust þegar ég hljóp tvöfalda Vesturgötu. Hlaupin leiddu mig á nokkra staði sem ég hef ekki heimsótt áður auk staða sem ég hef áður heimsótt. Á milli afmælisdaga hljóp ég í 3 þremur heimsálfum og ef ég bæti við nokkrum vikum fyrir og eftir afmælisdaga þá bætast við 2 heimsálfur og samtals 7 lönd þannig að þetta er bara búið að vera býsna fjölbreytt.
Undanfarin ár hef ég haft það til siðs að hlaupa á afmælisdaginn þann fjölda kílómetra sem árafjöldinn segir til um. Ég ákvað hins vegar að hætta því núna. Þótt ánægjulegt sé að ná þessum árafjölda þá fer það að verða þreytandi á hlaupabrautinni að hlaupa þetta allt saman! En mér datt annað markmið til hugar. Nú þegar nýjum áratug er náð finnst mér ágætt að setja mér sem markmið að ná því að hlaupa jafn mörg maraþonhlaup og árafjöldinn segir til um. Ef mér endist aldur, heilsa og áhugi til þá stefni ég að því að ná því að hlaupa 60 maraþon þegar og ef ég næ 60 ára markinu. Ef vel gengur ætti það ekki að vera fráleitt markmið því á þessum 10 árum sem liðin eru síðan ég byrjaði á þessu þá eru 34 maraþon að baki og amk 2 til viðbótar á dagskránni þetta árið.
En af hverju maraþon? Ég féll fyrir vegalengdinni í mínu fyrsta maraþoni vorið 2009 í Kaupmannahöfn. Mér fannst stemningin í brautinni frábær og sagði að hlaupi loknu við vin minn að þetta væri upplifun á lífinu og að þetta vildi ég endurupplifa eins oft og ég gæti. Eins og ég hef oft sagt er ekkert maraþon eins og yfirleitt koma alltaf upp aðstæður í hlaupinu sem maður hefur ekki þurft að takast á við áður. Rétt eins og í lífinu sjálfu. Þar til viðbótar þekki ég ekki margar íþróttagreinar þar sem áhugamaðurinn getur beinlínis keppt við þá bestu í heimi, í sömu brautinni, á sama tíma og við sömu aðstæður. Til marks um þetta þá er núna mikil spenna fyrir Londonmaraþoninu sem haldið verður þann 22. apríl nk. Ástæðan er sú að þá munu þrír kappar, ásamt auðvitað mörgum fleirum, reyna með sér sem þykja allir líklegir til stórræða. Það eru þeir Eliud Kipchoge, sem á best 2:03:05, Kenenisa Bekele, sem á best 2:03:03, og Mohamed Farah eða Mo Farah eins og flestir þekkja hann, en hann á 2:08:21 í hans eina maraþonhlaupi til þessa sem hann hljóp í London 2014. En það er skemmst frá því að segja að ég er búinn að keppa við alla þessa kappa og hef bara tapað fyrir tveimur þeirra! Ég er meira að segja búinn að hafa Bekele tvisvar undir á sama árinu því ég keppti við hann í Dubai maraþoninu í janúar í fyrra og aftur í Berlín í fyrra. Í bæði skiptin komst ég í mark en hann ekki! Ég tapaði fyrir Mo Farah í London 2014 með tæplega klukkustundar lakari tíma en hann. Mér gekk ekki eins vel með Kipchoge því ég tapaði fyrir honum í Berlín í fyrrahaust með rétt um einni klukkustund og hálftíma að auki lakari tíma en hann. Ég ákvað þetta árið að gefa Bekele séns og skráði mig því í annað hlaup en hann þannig að ég hef fulla trú á honum í þetta skiptið.
En sem sagt við félagarnir Kipchoge, Bekele, Mo og Gunnar stefnum allir að góðum árangri á hlaupabrautinni þetta árið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2018 | 15:28
30.000 km á hlaupum er hreyfing allra meina bót?
Í dag náði ég því á æfingu að hlaupa þrjátíuþúsundasta kílómetrann frá því að ég fór að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Nánar tiltekið náði ég því þegar ég hafði lokið við 24,5 km af æfingu dagsins.
Ekki hvarflaði það að mér þegar ég byrjaði að ég myndi ná þessum áfanga. Reyndar gerði ég ekkert frekar ráð fyrir því að ég væri yfir höfuð á ferðinni árið 2018. Þegar ég ákvað að reima á mig skóna og fara út og hlaupa þá voru liðin rúm 2 ár frá því að ég greindist með krabbamein, nánar tiltekið blóðkrabbamein eða hvítblæði. Fyrst þegar ég greindist fékk ég þær fréttir að erfitt væri að greina nákvæmlega þá tegund sem ég væri með en að útlitið væri ekki endilega bjart. Kannski væri þetta ólæknandi. En um þremur vikum eftir greiningu lá þó fyrir að sjúkdómurinn væri ekki þess eðlis að talað væri um mánaðar lífslíkur heldur væru þær mældar í árum. Það var að sjálfsögðu betra. Ég hef síðan mætt í eftirlit á 3 til 6 mánaða fresti til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Framan af kallaði ég þessar heimsóknir dauðatékkið. En eftir nokkur ár fór þetta að venjast betur og þessar heimsóknir trufluðu mig minna. En þær eru ennþá í dagatalinu og ég mæti á mínum tímum og fæ nýjar fréttir af gildum og framförum í læknavísindunum til að bregðast við.
En aftur að hlaupunum. Ég hafði byrjað óreglulega að hlaupa á árinu 2004. Hljóp stundum þegar ég var í stuði en aldrei langar vegalengdir. Oftast annan af tveimur hringjum sem báðir voru á bilinu 7-8 km. Í þessum hringjum voru nokkrar brekkur sem var ágætt. Þegar fór að líða að hausti 2005 fór það að gerast að ég átti erfiðara með brekkurnar. Að lokum urðu þær það erfiðar að ég hætti að hlaupa þær en gekk þær þess í stað. Í september eða október það ár hætti ég að reyna að hlaupa. Þann 23. desember 2005 fékk ég að vita ástæðuna fyrir því af hverju brekkurnar fóru að verða svona erfiðar.
Reynslan af brekkunum árið 2005 ýtti mér af stað í hlaupin árið 2008. Ég hugsaði með mér að ef ég myndi hlaupa reglulega þá ætti ég að geta fundið það á sjálfum mér ef eitthvað væri farið af stað aftur. Það hélt mér við efnið. Ég fór að hlaupa og hljóp og hljóp. Í upphafi varð ég stressaður ef æfing gekk ekki nógu vel. En með tímanum lærði ég að það væri eðlilegt að eiga erfiðan eða erfiða æfingadaga án þess að nokkuð væri að.
En hlaupin gáfu mér meira. Eftir því sem tíminn leið áttaði ég mig á því að ég notaði hlaupin mikið til að hugsa. Stundum meðvitað en stundum ómeðvitað. Ég hugsaði mikið. Um lífið og tilveruna. Ég æfði mig. Hugsaði um það hvernig ég myndi mögulega bregðast við í tilteknum aðstæðum. Í dag veit ég að þetta getur hjálpað. Ég hef lent í aðstæðum þar sem ég æfði mig fyrirfram í huganum um að venjast tilteknum aðstæðum sem ég vissi að myndu koma upp. Þegar aðstæðurnar komu upp hjálpaði það mér að hafa æft mig. Eftir að ég hafði upplifað þessar aðstæður las ég bók eftir Dalai Lama. Í henni talar hann m.a. um mikilvægi þess að hugsa um mögulegar aðstæður sem upp geta komið og reyna að hugleiða hvernig maður muni líklega bregðast við. Ég tengdi umsvifalaust við þessa frásögn hans.
Ég veit ekki hvort það er hrein tilviljun eða eitthvað annað að í gær og fyrradag las ég tvær athyglisverðar greinar sem báðar eru skrifaðar þann 11. janúar á þessu ári. Annars vegar er um fínan pistil að ræða úr smiðju Stefáns Gíslasonar sem birtur er hlaup.is:
https://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=1272&module_id=220&element_id=28984
sem ber heitið Hlaupið frá þunglyndi og kvíða og fjallar um gildi hlaupa fyrir andlega heilsu. Hins vegar las ég grein á bandarískri vefsíðu um rannsókn sem verið er að gera á Gundersen spítalanum í USA um mögulega gagnsemi hreyfingar í baráttunni gegn krabbameinum:
http://www.wxow.com/story/37247179/2018/01/11/gundersen-clinical-trial-targets-link-between-exercise-and-cancer-treatment
En amk get ég staðfest að hlaupin hafi gagnast mér gríðarlega vel á margan hátt. Ég hef ekki bara notið þeirra sem líkamlegrar þjálfunar heldur hafa þau verið mín aðferð til að hugleiða. Þar fyrir utan er hinn félagslegi þáttur sem getur fylgt hlaupunum ómetanlegur.
Árið 2012 hélt ég að hlaupaferlinum væri lokið þegar ég greindist með gáttatif í hjarta. Um nokkurra mánaða skeið var hjartað ekki í takti og allt var ótrúlega erfitt. Um haustið fór ég í svokallaða rafvendingu sem kom hjartanu aftur í takt. En reglulega datt það úr takti aftur. Stundum komst það í takt með því að taka aukaskammt af lyfjum en stundum þurfti rafvendingu til. En blessunarlega hélt ég áfram að hlaupa. Og á hlaupunum að hugsa. Árið 2013 greindist eiginkona mín með krabbamein. Það var hörð barátta í 14 mánuði sem endaði ekki vel. En áfram hljóp ég. Og áfram hugsaði ég.
Í vikunni hitti ég einn af góðu hlaupafélögunum mínum á bretti í Kringlunnni þar sem við æfum oft saman. Hann var einn af albestu hlaupurum landsins þegar hann fékk skyndilegt áfall tengt hjartanu. Það er með ólíkindum að hann hafi lifað af og má með sanni segja að forlögin hafi raðað aðstæðum rétt upp sem gerðu það að verkum að hann hélt lífi. Eftir þetta áfall fékk hann græddan í sig svokallaðan bjargráð sem á að grípa inn í ef hjartað ákveður skyndilega að fara í verkfall. Það er mikið inngrip inn í líf manns á besta aldri og í frábæru líkamlegu formi að þurfa að aðlagast. Þessi góði hlaupavinur minn hefur þó ekki bara aðlagast þessum aðstæðum af æðruleysi heldur tók upp á því fljótlega að halda áfram að hlaupa. Ekki með nein markmið heldur bara að hlaupa. Æfa sig. Aðspurður framan af ekki fyrir neitt sérstakt. Bara að hlaupa. En svo. Fór hraðinn að aukast. Nú hleypur hann aftur hraðar en flestir. Líkamlegu afreki verður varla lýst með orðum. Hinu andlega afreki verður hreint ekki lýst.
Ég er sannfærður um að minn góði hlaupafélagi hefur með hlaupunum náð að vinna sig í gegnum andlega þáttinn. Það getur enginn sett sig í hans spor nema að hafa upplifað þau sjálfur eða kannski eitthvað sem nálgast hans upplifun. Aðrir geta það ekki. Að koma frá því að vera vart hugað líf og geta hlaupið maraþon á 3:00:xx er afrek sem tæpast á sér samanburð. Í því samhengi má geta þess að undanfarin ár eru einungis 10-20 Íslendingar sem ná þeim árangri árlega.
Ég er sannfærður um að það sem Stefán Gíslason segir frá í pistli sínum er rétt. Þegar ég hugsa um það þá held ég að ég sé búinn að vera í ákveðinni meðferð síðan ég byrjaði að hlaupa. Ég held að það sama eigi við um hlaupafélaga minn sem ég geri hér að umtalsefni.
Niðurstaða mín er því sú að hreyfing sé allra meina bót.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2017 | 09:18
Áramótahlaupaannáll 2017
Þetta hlaupaár er búið að vera virkilega skemmtilegt og viðburðarríkt. Af því tilefni að til stóð að reyna að ná 50 ára aldri á árinu var ég búinn að skipuleggja nokkur maraþonhlaup til að halda uppá áfangann. Þegar upp er staðið náði ég aldurstakmarkinu og maraþonhlaupin urðu heldur fleiri en upphaflega var planað og enduðu með því að verða 10 talsins. Að auki hljóp ég tvöfalda Vesturgötu og örfá skemmtileg hlaup til viðbótar. Þegar þetta er skrifað er ég búinn að hlaupa samtals 499,5 km í keppnishlaupum og ef ég klára gamlárshlaup ÍR þá næ ég því að hlaupa yfir 500 km í keppnum á árinu. Það hef ég ekki gert áður og reikna svo sem ekki með því að gera það aftur.
Eins og venjulega er hvert og eitt maraþonhlaup sérstakt og alltaf eitthvað sem gerist eða kemur uppá sem hefur ekki gerst áður. En það er líka ein stærsta ástæða þess að mér þykir þessi vegalengd hvað skemmtilegust. Ég efast ekkert um að enn lengri hlaup séu svipuðu marki brennd og hef reyndar sjálfur upplifað það nokkrum sinnum. En þar sem mér er ráðlagt af mínum ágæta hjartalækni að hlaupa ekki lengra í einu en maraþonvegalengdina er það mín uppáhaldsvegalengd (hann sagði ekki orð um ráðlagðan fjölda pr. ár!).
Ég hef áður bloggað nokkuð ýtarlega um þessi hlaup þannig að í þessari samantekt læt ég duga að þylja upp dagsetningar, tíma og einhver aðalatriði fyrir hvert hlaup.
Þann 20. janúar hljóp ég Dubai maraþonið. Þar prófaði ég í fyrsta skipti að fá krampa í rasskinn og þurfti að hlaupa með hann í einhverja 15 km. Það var ekkert sérstök upplifun og hægði töluvert á mér. Að auki hitnaði hressilega þegar leið á hlaupið þannig að tíminn var töluvert frá væntingum eða 3:31:27.
Þann 22. apríl hljóp ég vormaraþonið. Þess verður helst minnst fyrir negatívt splitt upp á rúmar 6 mínútur. Það er besta negatíva splittið á ferlinum til þessa. Þarna var ég kominn í góða æfingu fyrir júnímaraþonið sem átti að verða það hraðasta á árinu. Ég hljóp fyrsta fjórðunginn mjög rólega en jók þá hraðann og náði að gera það jafnt og þétt til loka og endaði á 3:27:42.
Þriðja maraþonið á árinu var Kópavogsmaraþonið þann 13. maí. Það var sérstakt. En þess verður helst minnst af minni hálfu fyrir að hafa hlaupið lengri leið en aðrir keppendur í því hlaupi og að það átti að stoppa mig af eftir hálft maraþon. Ég sem sagt hljóp inná Kópavogsvöllinn og hring þar eftir fyrri lúppuna í maraþoninu, sem ég átti víst ekki að gera, og í gegnum hálfmaraþon markið. Þegar ég var að fá mér vatnssopa eftir að hafa farið þar í gegn kom starfsmaður sem ætlaði að taka af mér tímatökuflöguna þar sem hlaupinu væri lokið. Ég afþakkaði þá þjónustu og hljóp aftur út í brautina. Það er rétt að taka fram að ég fékk fyrirmæli frá brautarverði að hlaupa þessa leið enda var það í samræmi við hlaupalýsinguna sem var á heimasíðunni fyrir hlaupið. Þarna er örugglega rými til bætinga hjá hlaupahöldurum. En tíminn í þessu hlaupi var 3:35:13 og negatívt splitt.
Fjórða maraþonið var Stokkhólmsmaraþonið þann 3. júní. Þarna ætlaði ég mér að taka mitt hraðasta maraþon á árinu. Það gekk eftir þótt ég hafi stefnt á betri tíma. Ég ætlaði mér að reyna að vera á undir 3:15 en endaði á 3:19:25. Það er reyndar vel ásættanlegt því þótt ég hafi verið búinn að heyra að brautin væri frekar erfið var hún erfiðari en ég hafði gert ráð fyrir. Brekkurnar voru bæði fleiri og brattari og því var seinni hringurinn af tveimur þyngri undir fæti en ég hefði viljað.
Fimmta maraþonið var hið margrómaða Snældubeinsstaðamaraþon í Reykholtsdal í Borgarfirði þann 1. júlí. Þetta var í fyrsta sinn sem þetta hlaup er haldið en alveg örugglega ekki í síðasta sinn og gerðu þátttakendur góðan róm að allri skipulagningu og umgjörð. Í þessu fyrsta hlaupi tóku þátt 10 keppendur en sú nýjung í íslenskri hlaupaflóru var tekin upp í þessu hlaupi að keppendur velja sér sjálfir vegalengd að vild og geta hlaupið eða gengið frá 1 km og upp í 42,195 km. Hefðbundnar keppnisvegalengdir, 10 km, 21,1 km og 42,195 km, voru merktar sérstaklega en þeir sem vildu hlaupa aðrar vegalengdir notuðu eigin hlaupaúr til að staðfesta vegalengd og tíma. Íþróttakennari svæðisins Guðjón Guðmundsson sá um að starta keppendum, brynna þeim á leiðinni og taka á móti þeim í markinu! Ég hef áður bloggað um að það er mikill munur á því að hlaupa í stóru keppnishlaupunum úti í heimi eða fámennum hlaupum hér á Íslandi. Þetta hlaup sló reyndar öll met í þessum efnum því ég hljóp einn maraþonvegalengdina og var því ótvíræður sigurvegari bæði í aldursflokki og yfir heildina. En þetta var dásamlegur dagur, sól skein í heiði, lömb að leik á túnum, baulandi beljur, hneggjandi hestar, galandi hanar, syngjandi fuglar og árásargjarnar kríur. Þar sem hlaupaleiðin er töluvert rúllandi er þetta kjörin leið fyrir þá sem eru að æfa fyrir hlaup eins og Laugaveginn eða Jökulsárhlaupið eða svo sem hvaða hlaup sem er. Nú þegar hafa margir skráð sig til leiks sumarið 2018 en stefnt er að því að hlaupið verði laugardaginn 23. júní eða 30. júní. Fyrir áhugasama um maraþonvegalengdina má geta þess að brautarmetið er 3:42:01.
Sjötta maraþonið var hlaupið þann 6. ágúst í Brisbane í Ástralíu. Það var reglulega skemmtilegt og áhugavert að bera saman við t.d. Reykjavíkurmaraþonið. Um margt ekki ólík hlaup og fjöldi þátttakenda svipaður þótt Reykjavíkurmaraþonið hafi vinninginn ef allar vegalengdir eru taldar. En þarna er um svipað fyrirkomulag að ræða hvað varðar það að fyrri hlutann hlaupa hálfmaraþonhlauparar og maraþonhlauparar saman þannig að seinni hluta hlaupsins fækkar verulega í brautinni. En skipuleggjendur Reykjavíkurmaraþonsins standa sig þó klárlega betur þegar kemur að allri skipulagningu og umgjörð því í samanburðinum finnst manni Brisbane maraþonið frekar sveitalegt. Við Þóra hlupum þetta saman og enduðum á tímanum 4:19:22 sem var PB hjá henni.
Sjöunda maraþonið á árinu var Reykjavíkurmaraþonið þann 21. ágúst. Það stóð reyndar ekki til að hlaupa það því ég lenti á Íslandi daginn áður eftir ferðalagið til Ástralíu og Thailands og hafði ekkert hlaupið frá því í Brisbane. Hins vegar var veðurspáin svo frábær að ég stóðst ekki mátið og brunaði inn í höll rétt fyrir lokun á föstudeginum og skráði mig. Eins og venjulega var þetta mikið gaman og allar aðstæður eins og best verður á kosið. Ég hljóp þetta afslappað og hægði jafnt og þétt á mér allt hlaupið þar til um 6 km voru eftir. Þá tók sig upp smá keppnisskap þannig að ég hélt hraða síðasta spölinn og náði að vinna mig upp um nokkur sæti. Lokatíminn 3:47:05 sem er aldeilis bærilegt miðað við hóglífið vikurnar áður.
Áttunda maraþonið á árinu var Berlínarmaraþonið þann 24. september. Þess verður helst minnst fyrir óhappið sem Unnur lenti í daginn fyrir maraþonið sem ég hef áður bloggað um. En að öðru leyti þá var þetta 5. hlaupið af þeim 6 stóru sem ég kláraði. Mér gekk vel í hlaupinu og var heldur fljótari en ég hafði gert væntingar um. Ég stefndi á að reyna að vera á undir 3:40 og var nánast á pari eftir hálft á 1:48:13. En þegar til kom tókst mér að bæta heldur í og endaði á 3:33:24 sem er negatívt uppá rétt rúmar 3 mínútur.
Níunda maraþonið var haustmaraþonið þann 21. október. Það hafði svo sem ekki verið á dagskrá en úr því að ég hljóp Reykjavíkurmaraþonið varð ég eiginlega að hlaupa þetta hlaup til þess að hlaupa 10 maraþon á árinu. Um þetta hlaup er óvenju lítið að segja því eiginlega gerðist ekkert sérlega eftirminnilegt í því. Kannski telst það þá eftirminnilegt þess vegna? En tíminn var 3:32:53 og munaði innan við mínútu á fyrri og seinni helmingi.
Tíunda hlaupið var NY maraþonið þann 5. nóvember. Það má auðvitað segja að það hafi verið ákveðinn hápunktur á hlaupaárinu því með því að klára það tókst mér að ljúka við hin sex stóru (Tokýó, London, Berlín, NY, Boston og Chicago). Þetta var ennþá eftirminnilegra fyrir þær sakir að ég hljóp þetta með Þóru minni og gat notið alls sem brautin hafði uppá að bjóða betur fyrir vikið. Við lukum við hlaupið á tímanum 4:22:06 sem er aldeilis frábær tími þegar tillit er tekið til þess að Þóra datt í upphafi æfingatímans og brákaði eða braut rifbein sem háði henni allan undirbúnings tímann og í hlaupinu sjálfu. Þess má líka til gamans geta að þetta var 4. maraþonhlaupið hennar Þóru og það í fjórðu heimsálfunni (og þriðja maraþonið á þessu ári).
Þessi 10 maraþon eru eðli málsins samkvæmt 421,95 km að lengd. Þannig að til að fylla upp í töluna 499,5 km þarf að telja nokkur hlaup til viðbótar.
Þann 6. maí hljóp ég 15 km í Neshlaupinu í fyrsta skiptið. Skemmtilegt hlaup sem ég á örugglega eftir að hlaupa aftur.
Þann 10. júní tók ég þátt í Gullsprettinum í fyrsta skiptið og það er annað skemmtilegt hlaup sem ég mun örugglega taka þátt í aftur. Gullspretturinn telst vera 8,5 km þannig að þar er þessi hálfi km kominn.
Þann 12. júní tók ég þátt í Álafosshlaupinu og það er enn eitt skemmtilega hlaupið sem ég hafði ekki prófað áður. Það telst vera 9 km.
Þann 16. júlí hljóp ég tvöfalda Vesturgötu, 45 km, sem ég vildi að ég gæti sagt að hefði verið skemmtilegt. En þeir sem þarna voru vita að það rigndi og blés hressilega að vestan þannig að þetta var óttalegur barningur og barátta við náttúruöflin. En það er líka ákveðin áskorun og kallar á að þessi leið verði hlaupin aftur við betri aðstæður.
En sem sagt, þegar þessum vegalengdum er bætt við maraþonvegalengdirnar teljast vera komnir 499,45 km í keppnum á árinu og eitt keppnishlaup eftir þannig að ef ekkert óvænt gerist þá endar þetta í tæplega 510 km.
En þótt þetta sé annáll vegna ársins 2017 er gaman að halda því til haga að á síðustu tveimur árum, 2016 og 2017, er ég búinn að hlaupa 20 keppnishlaup sem samsvara rétt rúmlega 20 maraþonvegalengdum. Árið 2016 hljóp ég 7 hefðbundin maraþon, einn Laugaveg (55 km) og eitt Jökulsárhlaup (32,7 km). Á þessu ári eru hefðbundin maraþon 10 og ein Vesturgata (45 km). Árið 2016 var vegalengdin í keppnishlaupum 393 km þannig að klári ég gamlárshlaupið verður keppnisvegalengdin þessi tvö ár 902,45 km.
Á árinu eru nú 2.986,3 km að baki á 189 æfingum og virkur hlaupatími er rúmar 265 klst. Ég á eftir eina æfingu á morgun og eitt keppnishlaup á sunnudaginn þannig að ef allt fer að óskum endar árið í kringum 3.015-3.020 km (endaði í 3.021,3 km) á 191 æfingu (keppnir meðtaldar) og virkur hlaupatími verður ca 268 klst. Samtals verða því km í árslok um 29.850 (endaði í 29.869,3) (styttist í 30.000 km skoðunina!) síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Þar með verð ég búinn með ¾ af hringnum í kringum hnöttinn ef miðað er við miðbaugslínu (40.075 km) þannig að nú er þetta farið að styttast!
Að baki eru nú 33 maraþon í 13 löndum, 9 höfuðborgum og 5 heimsálfum, 3 Laugavegir, 1 100 km hlaup og 1 tvöföld Vesturgata þannig að keppnishlaupin frá því að ég fór að æfa markvisst sem ná amk maraþonvegalengdinni eru orðin 38 á tæplega 10 árum. Að auki er ég búinn að hlaupa lengstu vegalengdina í Jökulsárhlaupinu, 32,7 km, 6 sinnum.
Markmið næsta árs eru heldur hófstilltari en síðustu tvö árin. Á árinu 2016 fékk ég þá flugu í höfuðið að hlaupa sem samsvarar 10 maraþonvegalengdum á 10 mánuðum af því tilefni að þá voru liðin 10 ár frá því að ég lauk við lyfjameðferð. Síðasta hlaupið í því átaki var jafnframt fyrsta hlaup ársins 2017. Það ár endaði síðan með því að ég hljóp 10 maraþon og eina Vesturgötu. Ég gæti svo sem haldið þessum leik áfram því þann 9. apríl 2018 verða liðin 10 ár frá því að ég hóf að æfa hlaup reglulega. En ætli ég fari ekki að dæmi Forrest Gump og láti þessum magnhlaupum lokið í bili þótt ég ætli alls ekki að hætta að hlaupa. Á hlaupadagskrána eru komin amk þrjú maraþonhlaup, Mendoza í Argentínu í lok apríl, Snældubeinsstaðamaraþonið í lok júní og Lissabon maraþonið í október. Mig langar að hlaupa í Þórshöfn í Færeyjum í byrjun júní en það fer aðeins eftir því hvort farið verði í víking til Rússlands eða ekki. Nú ég ætla að hlaupa Laugaveginn í 4. skiptið í júlí en annað er óráðið. Kannski RVK maraþonið ef það passar inní dagskrána en væntanlega ekki vor eða haustmaraþon að þessu sinni þar sem þau hlaup stangast á við Mendoza og Lissabon. Jú og ég stefni tvímælalaust á að hlaupa í nokkrum styttri keppnishlaupum.
Það er engin leið að hætta, sungu Stuðmenn um árið og hittu naglann í hausinn.
Gleðilegt nýtt hlaupaár!
Bloggar | Breytt 2.1.2018 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2017 | 14:08
Valkvæð mannréttindi og óafturkræfar afleiðingar
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um lögbannsmálið gegn Stundinni síðustu daga. Fjölmargir aðilar hafa stigið fram og lýst vanþóknun sinni á því að sýslumaður skuli hafa samþykkt að leggja lögbannið á. Flestir þeir sem hafa tjáð sig opinberlega hafa lýst þeirri skoðun sinni að verið sé að brjóta gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Með því er verið að segja að tjáningarfrelsis-ákvæðið trompi ákvæðið um friðhelgi einkalífs í sömu stjórnarskrá.
Þar sem ég hef mörg undanfarin ár séð um stundakennslu í Læknadeild HÍ um þagnarskylduákvæði gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum og sit auk þess í stjórn fjármálafyrirtækis finnst mér áhugavert að skoða málið nánar.
Í málinu liggur fyrir að tvenns konar réttindum lýstur saman. Flestir þeir sem hafa tjáð sig eru þess fullvissir að meginreglan um tjáningarfrelsi eigi að ganga framar og hafa sumir í málflutningi sínum vísað til þess að hagsmunir almennings og opinberrar umræðu séu ríkari en ákvæði um þagnarskyldu, skv. 58. gr. laga nr. 161/2002, og bankaleynd, skv. 13. gr. laga nr. 87/1998, sem taka til einkalífsverndar. Ekki hef ég rekist á mikla umfjöllun um þau stjórnarskrárvernduðu réttindi, þ.e. um friðhelgi einkalífs, og því ekki úr vegi að skoða þau nánar í þessu samhengi.
Hæstiréttur Íslands hefur í mörgum dómum fjallað um einkalífsverndina skv. 1. mgr. 71. gr. stjskr. M.a. hefur Hæstiréttur sagt, í máli nr. 263/2015 sbr. og mál nr. 329/2014, að þegar meginreglur rekast á þurfi að taka afstöðu til þess við úrlausn máls hvor reglan skuli víkja. Í því sambandi þurfi að gæta þess að reglur um þagnarskyldu og bankaleynd eigi samstöðu með ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjskr. sem tryggir friðhelgi einkalífs, heimili og fjölskyldu og lagaákvæðum sem sett eru til verndar þeim stjórnarskrárvörðu réttindum. Í þessu sama máli sagði Hæstiréttur að við túlkun á þagnarskylduákvæðum væri gerður greinarmunur á almennum þagnarskylduákvæðum og sérstökum þagnarskylduákvæðum. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að þagnarskylduákvæðið skv. 58. gr. l. nr. 161/2002 og um bankaleynd skv. 13. gr. l. nr. 87/1998 væru sérstök þagnarskylduákvæði. Sú niðurstaða réttarins fól í sér að meiri kröfur þyrfti að gera til að unnt væri að víkja þeim til hliðar.
Í dómi Hæstaréttar nr. 252/1998 sagði Hæstiréttur að vernd persónuupplýsinga sé nauðsynleg til að menn fái notið þeirra réttinda sem varin eru með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi réttarins nr. 151/2003 sagði að til að tryggja friðhelgi skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar verði löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra sem ekki eigi réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds.
Hvað varðar tjáningarfrelsisákvæðið þá hefur það ákvæði einnig verið til umfjöllunar hjá Hæstarétti oftar en einu sinni og dómar hans hafa ratað inn á borð mannréttindadómstóls Evrópu. Þegar þessir dómar eru skoðaðir kemur í ljós að tiltekið hagsmunamat þarf að fara fram og er afdráttarlaust af hálfu mannréttindadómstólsins að þetta hagsmunamat er í höndum aðildarríkja þótt það mat sé síðan háð eftirliti dómstólsins.
Hæstiréttur Íslands hefur m.a. sagt um þessi réttindi, í máli nr. 252/1998, að þrátt fyrir að tjáningarfrelsi hafi löngum verið talið til mikilvægustu mannréttinda hafi því engu að síður verið játað að því megi setja vissar skorður. Sé það gert með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem heimilað sé að setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða sigðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í dóminum segir jafnframt að við ákvörðun á mörkum tjáningarfrelsis hafi í dómaframkvæmd verið litið mjög til þess að vegna lýðræðishefða verði að tryggja að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða. Gildi það meðal annars við úrlausn um mörk tjáningarfrelsis rithöfunda og blaðamanna.
Mannréttindadómstóllinn hefur í umfjöllunum sínum sagt að mikilvægt atriði í mati dómstólsins, þegar gæta þarf jafnvægis milli réttinda sem stangist á, sé hið nauðsynlega hlutverk sem fjölmiðlar gegna í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þótt fjölmiðlar megi ekki fara yfir tiltekin mörk, einkum að því er varðar æru og réttindi annarra og nauðsyn þess að koma í veg fyrir birtingu trúnaðarupplýsinga, sé það engu að síður skylda þeirra að miðla upplýsingum og hugmyndum um öll mál sem erindi eiga við almenning á þann hátt að það samrýmist skyldum þeirra og ábyrgð. En einnig að það sé ekki eingöngu hlutverk fjölmiðla að miðla slíkum upplýsingum og hugmyndum, heldur sé það einnig réttur almennings að fá þær. Það þurfi að gera fjölmiðlum kleift að sinna nauðsynlegu hlutverki sínu sem - varðhundur almennings - við miðlun upplýsinga um alvarleg mál sem eiga erindi við almenning.
En mannréttindadómstóllinn hefur einnig sagt að 10. gr. mannréttindasáttmálans tryggi ekki ótakmarkað tjáningarfrelsi, jafnvel þegar um sé að ræða fjölmiðlaumfjöllun um alvarleg mál sem eigi erindi við almenning. Af þessum réttindum leiði -skyldur og ábyrgð- sem einnig eiga við um fjölmiðla.
Af framangreindri umfjöllun má sjá að sannanlega er um mikilsverð réttindi að ræða, hvort heldur um er að ræða tjáningarfrelsið eða persónuverndina. Ef þessum tvennum réttindum myndi ekki ljósta saman geri ég ráð fyrir að flestir sanngjarnir menn myndu halda því fram að hvor réttindin um sig væru mjög mikilvæg og að þau bæri að tryggja með öllum löglegum ráðum. En nú er staðreyndin sú að þessi réttindi vegast á og meta þarf hvor réttindin eigi að ganga framar. Skv. stjórnskipun Íslands liggur þetta mat hjá dómstólum. Eðli málsins samkvæmt mun það taka dómstóla einhvern tíma að skera úr um hvor réttindin eigi að víkja. Í málinu liggur einnig fyrir að lögbannsbeiðandi telur að umfjöllun Stundarinnar brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Ef hann þarf að sæta því að fá úrlausn dómstóla um þá skoðun sína, þar til eftir að fjölmiðlaumfjöllun sú sem beiðst er lögbanns gegn er afstaðin, er hin stjórnarskrárbundna einkalífsvernd til lítils ef í ljós kemur það mat dómstóla, eftir atvikum mannréttindadómstólsins, að í þessu tilviki hefði tjáningarfrelsisverndin átt að víkja. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að lögbann verður ekki lagt við athöfn nema gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfn brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans.
Ef í ljós kemur við mat dómstóla að í þessu tilviki skuli þagnarskyldan víkja þá getur fjölmiðillin óhindrað haldið umfjöllun sinni áfram. En þá hefur líka verið úr því skorið í samræmi við leikreglur réttarríkisins hvað telst vera rétt.
Við stöndum því frammi fyrir því að annað hvort geti stjórnarskrárvarin réttindi verið brotin með óafturkræfum hætti, ef lögbann hefði ekki verið samþykkt og niðurstaða dómstóla sú að persónuverndin væri rétthærri, eða tafir verði á því að stjórnarskrárvörðum réttindum verði beitt, ef niðurstaða dómstóla verður sú að tjáningarfrelsið sé rétthærra í þessu tilviki.
Í stundakennslu minni við HÍ hef ég lagt á það áherslu að ef vafi leikur á því hvort upplýsingagjöf brjóti í bága við þagnarskylduákvæði þá skuli túlka þann vafa þagnarskyldunni í vil þar til úr hefur verið skorið hvað telst rétt. Því brot gegn þagnarskylduákvæðum eru með öllu óafturkræf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.9.2017 | 15:10
Óveðursský yfir Berlín
Að þessu sinni blogga ég um þrjú hlaup. Þau voru hvert með sínu lagi. Það þriðja, í Berlín, verður eftirminnilegt af röngum ástæðum.
Brisbane Ástralíu.
Þann 6. ágúst sl. hlupum við hjónin maraþon í Brisbane Ástralíu ásamt vinum okkar Unnari og Unni. Þetta hlaup var partur af verkefninu að klára maraþon í öllum heimsálfum og var þetta 5. álfan af 7 sem við Unnar klárum. Stelpurnar eru rétt á eftir okkur og verða báðar búnar með 4 álfur ef Þóra klárar NY maraþonið í haust.
Unnar og Unnur fóru af stað í ferðalagið aðeins á undan okkur Þóru og dvöldu í Bangkok í nokkra daga áður en við hittumst þar og héldum för okkar áfram til Brisbane. Það er alveg óhætt að segja að þetta sé ferðalag í lengra lagi til að eltast við tiltekna 42,2 km. En svona er þetta bara. Sumir eltast við einhverjar holur út um allar koppagrundir til að slá kúlur í á meðan aðrir berjast upp alla hóla, hæðir og fjöll sem þeir komast yfir, hvort sem er gangandi, hjólandi eða klifrandi, og enn aðrir setja sér markmið um að komast á pólana. Allt er þetta ágætt og skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað er gert heldur bara að það sem gert er skapi gerendunum einhvers konar fullnægju.
Við Þóra lögðum af stað frá Íslandi rétt eftir miðnættið 2. ágúst og flugum til Osló. Þar biðum við í rúma 9 tíma áður en flogið var til Bangkok. Þar þurftum við að bíða í tæpa 18 tíma þannig að við bókuðum okkur inn á hótel á flugvellinum til að reyna að hvíla okkur aðeins. Kl. 00:01 þann 4. ágúst hófst síðasti leggurinn með rúmlega 8 tíma flugi til Brisbane. Að teknu tilliti til tímamismunar var kl. að verða 11 að morgni þegar við lentum í Brisbane og á hótelið vorum við komin skömmu eftir hádegið. Það var nú pínu skrítið að hafa lagt af stað í ferðalag að kvöldi 1. ágúst á Íslandi og tékka sig inná hótel á áfangastað uppúr hádegi þann 4. ágúst. Sumarfríið eiginlega ekki byrjað en samt að verða búnir 3 dagar af því!
En hvað um það. Eftir að hafa skilað af okkur töskunum fórum við beint á Expóið. Það var nú í minna lagi því gögnin voru afhent í lítilli sportvöruverslun. En það var svo sem hægt að kaupa eitt og annað þar og eiginlega ekki vöntun á neinu. Það sem eftir lifði dags röltum við um miðbæjarkjarna Brisbane, sem nb. er mjög flottur og afskaplega hreinlegur svo ekki sé meira sagt enda bannað að reykja þar, sem er til mikillar fyrirmyndar!
Þegar fór að líða á kvöldið tókum við til fötin og fórum snemma í háttinn. Enda kannski eins gott því ræsing í hlaupinu var kl. 6 að morgni og því þurfti að vakna fyrir kl. 4. Við stilltum báða símana til að vekja okkur og datt jafnvel í hug að láta lobbýið hringja í okkur líka. Bara svona til öryggis. En þegar til kom þurftum við alls ekki að hafa áhyggjur af því að vakna ekki. Hvort sem það var spenningur fyrir hlaupinu eða ferðalagið og tímamismunurinn þá tókst okkur bara alls ekkert að sofna. Þetta varð að nóttu hinna mörgu snúninga og tilrauna til að sofna svona eða hinsegin, talning á rollum og hvað eina sem á að slökkva ljósin. Ég varð eiginlega þeirri stundu fegnastur þegar klukkan hringdi loksins og ég gat hætt að reyna að sofna.
Loksins var hægt að hefja lokaundirbúning. Koma sér á lappir, borða morgunmat og gera sig kláran fyrir startið. Já startið maður það var ca 60 metrum frá hótel dyrunum okkar og ca 20 metrum frá hólfinu okkar Þóru! Styttra gat það varla verið nema ef það hefði hreinlega verið inni í lobbýi. Það var ennþá niðamyrkur úti og frekar svalt. Því var gott að geta hangið inní í lobbýinu þar til ekki voru nema nokkrar mínútur í að hlaupið skyldi hefjast. Fjörið fyrir hlaup var í minna lagi því engin músík var spiluð og kynnirinn talaði ekki nema endrum og sinnum í hátalarakerfið. Þess á milli var bara lágvært skvaldur frá keppendum. En loks þegar um 5 mínútur voru í að við ættum byrja fór kynnirinn loksins almennilega í gang. M.a. tilkynnti hann um það að keppendur væru frá um rúmlega 20 löndum og þar á meðal Íslandi! Það þótti þeim greinilega vera nokkur tíðindi og þar sem við Þóra vorum merkt Íslandi í bak og fyrir fengum við mikla hvatningu í brautinni og margir ástralskir hlauparar höfðu áhuga á að spjalla við okkur á leiðinni. En svo varð kl. 6. Og ekkert gerðist annað en það að kynnirinn hélt áfram að mala. Greinilega ekkert að stressa sig á tímanum þarna niður frá. En ca 3 til 4 mínútur yfir 6 var okkur loksins hleypt af stað. Það var eiginlega eins gott því það var ekki nema 7-8 stiga hiti og okkar var farið að verða frekar kalt. Þar sem við reiknuðum með heiðskýru veðri þegar færi að birta vorum við léttklædd og ætluðum að láta sólina verma okkur upp.
Hlaupið hjá okkur Þóru gekk í raun eins og í sögu. Ég vissi að hún hafði ekki hlaupið mikið magn um sumarið en þó tekið góðar langar æfingar. Ég var því með það plan að við myndum reyna að hlaupa nálægt hennar besta tíma því þótt hún hefði verið betur æfð fyrir fyrstu tvö maraþonhlaupin þá voru þau komin í reynslubankann og aðstæður voru í raun mjög góðar. Eina spurningin var sú hvenær sólin færi að skína beint á okkur. Þegar til kom reyndist þetta vera eini morguninn í Ástralíu þar sem það var skýjað fram eftir morgni þannig að sólin skein ekki á okkur að ráði fyrr en síðasta klukkutímann. Okkur gekk mjög vel með fyrri hlutann þannig að ég var orðinn nokkuð bjartsýnn á markmiðið myndi nást. Næstu 10 km voru líka fínir þótt það hægði aðeins á okkur. En þegar það voru eftir um 8-10 km þá fór Þóra að finna fyrir krömpum, nokkuð sem hún hafði ekki upplifað í fyrri hlaupunum. Væntanlega var þarna um að kenna að heildarhlaupamagnið fyrir hlaupið hafði verið í naumara lagi. Þannig að síðustu kílómetrana var horft stíft á klukkuna og reiknað og reiknað. Það lá í raun ekki fyrir fyrr en við komumst yfir marklínuna hvort markmiðið myndi nást eða ekki þar sem svona krampar geta verið óútreiknanlegir og stoppað mann alveg í töluverðan tíman þegar verst lætur. En þegar upp var staðið vorum við réttu megin við besta tímann hennar og hún bætti sig þarna um rúmar 30 sekúndur. Þótt það sé ekki svo mikið er PB alltaf PB og við hlauparar þiggjum alltaf eitt slíkt.
Brautin í Brisbane er frekar skemmtileg þar sem hlaupið er meðfram ánni sem liðast í gegnum borgina. Í grófum dráttum má segja að þetta séu tveir hringir en þó ekki alveg eins. Það eru ekki mjög margar brekkur í henni en þó ein ágætlega myndarleg eftir 5-6 km þegar hlaupið er yfir mikla brú sem er einkennisbrú Brisbane. Að öðru leyti voru brekkur ekki margar og þær sem við hittum voru ekki svo brattar né langar. En brautin er ansi hlykkjótt og á fyrri hlutanum er hún víða ansi þröng enda eru hálfmaraþonhlaupararnir ræstir um leið og maraþonhlaupararnir. Við þetta bætist að á seinni hringnum er að hluta til hlaupin sama leið og 10 km hlaupararnir hlaupa þannig að við fengum þá hröðustu í bakið á fleygiferð með undanfara á hjólum flautandi og kallandi. Og síðustu kílómetrana þegar styttist í markið þá voru margir gangandi vegfarendur að spígspora meðfram ánni og þar með á hlaupabrautinni og þeir voru hreint ekki allir á því að þetta hlaupalið ætti að hafa einhvern forgang! Þannig að í restina var þetta orðið töluvert zik zak sem auðveldaði ekki þreyttum fótum vinnuna.
En allt var þetta dásamleg upplifun!
Reykjavík.
Daginn fyrir Reykjavíkurmaraþonið, föstudaginn 19. ágúst sl., lentum við Þóra á Íslandi eftir vel heppnaða för til Thailands og Ástralíu. Í þetta skiptið var hugmyndin sú að vera á hliðaralínunni og fylgjast með hlaupinu enda vorum við ekkert búin að hlaupa frá því í Brisbane. En þegar við lentum þá var þetta fína veður í bænum og spáin mjög góð fyrir laugardaginn. Ég stóðst því ekki mátið og í stað þess að taka upp úr töskum þegar heim var komið brunaði ég beint niður í Laugardagshöll og skráði mig í maraþonið. Planið var að hlaupa þetta bara á þeim hraða sem væri þægilegur og njóta þess að vera í brautinni með öðrum hlaupurum og upplifa stemninguna. Allt gekk þetta eftir og dagurinn hinn besti. Ég náði að stilla mig ágætlega af en var samt vissulega orðinn nokkuð lúinn eftir um 36 37 km. En þegar þangað var komið tók heimþráin völdin þannig að ég náði að spretta ágætlega úr spori síðustu kílómetrana. Þegar upp var staðið var ég um 5 mínútum hægari með seinni hlutann en þann fyrri sem var bara alveg ágætt miðað við hóglífið vikurnar á undan.
Berlín óveðursský og lærdómur til hlaupara
Til Berlínar var lagt af stað eldsnemma að morgni föstudaginn 22. september. Með okkur Þóru í för voru Unnar og Unnur. Í þetta skiptið voru það bara við Unnar sem ætluðum að hlaupa maraþonið en stelpurnar ekki. Þær voru hins vegar báðar með hlaupafötin með sér því báðar eru þær að undirbúa sig fyrir maraþon seinna í haust. Í þetta skiptið vorum við ekki á sama hóteli því ég hafði fengið skráningu í hlaupið í gegnum lottóið en Unnar fór með Bændaferðum. Eins og venjulega var byrjað á því að fara á Expóið og sækja gögnin og síðan hittumst við um kvöldið og borðuðum saman. Til stóð að hafa svipaðan háttinn á daginn eftir og hittast um kvöldið til að borða saman og leggja línurnar fyrir hlaupið. En það breyttist.
Á laugardagsmorguninn fór Bændaferðahópurinn í létt morgun jogg. Það var búið að skipuleggja stuttan hring fyrirfram en þegar til kom þá hlupu þau tveimur götum of langt miðað við planið. Þegar þau beygðu loks þá voru þau ekki búin að hlaupa nema í skamma stund þegar þau komu að næstu gatnamótum. Þar var mikið í gangi. Augljóst var að slys hafði átt sér stað þar sem á staðnum voru bæði lögreglu og sjúkrabílar. Fljótt áttuðu þau sig á því að sennilega hefði verið keyrt á hlaupara. Eftir nokkra stund á vettvangi spyr einn úr hópnum hvort verið geti að þetta sé Unnur. Unnar sem var ekki búinn að leiða hugann að því, enda hafði Unnur ráðgert að hlaupa meðfram ánni á allt öðrum stað, fór þá að virða betur fyrir sér manneskjuna sem var verið að stumra yfir. Ekki sást í höfuð hennar en allt í einu fannst honum hann kannast við klæðnaðinn. Hann gekk nær og spurði sjúkrafólk að því hvort hægt væri að spyrja hvort hin slasaða væri íslensk. Það reyndist ekki unnt. En eftir skamma stund var komið með ökuskírteini sem hlauparinn hafði á sér. Þá fékkst það staðfest að það var Unnur sem keyrt hafði verið á.
Tildrögin voru þau að hún hljóp yfir á gangbraut á móti grænu ljósi. Rúta hafði stöðvað við gangbrautina þannig að hún hefur eðlilega talið í lagi að fara yfir. Hún sá hins vegar ekki að bílstjóri við hlið rútunnar stöðvaði ekki heldur ók áfram á móti rauðu ljósi. Svo virðist sem Unnur hafi lent utan í bílnum og kastast þaðan í götuna. Rúðan í bílnum farþegamegin var brotin þannig að sennilegt er að hún hafi ekki lent beint framan á bílnum. Sem betur fer. Hún var óbrotin en mikið lemstruð og fékk auk þess þungt höfuðhögg.
Við tóku dagar á spítala þar sem segja má að líðan sé eftir atvikum.
Um kvöldið þegar Unnar var komin af spítalanum ræddum við nokkur í anddyri hótelsins um atburð dagsins. Fram kom að flestir sem hafa verið að hlaupa einir í útlöndum hafa ekki haft á sér nein persónuskilríki. Amk vorum við Unnar báðir í þeim hópi. Við ræddum þá stöðu sem upp hefði komið ef Unnur hefði ekki verið með skilríki á sér og forlögin hefðu ekki gripið í taumana og teymt Unnar á slysstað. Þá hefði atburðurinn orðið ennþá ömurlegri þótt maður vilji engum að koma að slysstað þar sem maki manns er hinn slasaði. En engu að síður var það skárra en að upplifa það að koma upp á hótelherbergi og makinn skilar sér ekki heim á áætluðum tíma. Fyrst koma smávægilegar áhyggjur sem síðan aukast. Að lokum hefst leit. Sú leit getur verið taugatrekkjandi og tekið tíma. Ekki síst í milljónaborgum. Framvegis mun ég aldrei hlaupa einn í útlöndum öðru vísi en að hafa á mér upplýsingar um sjálfan mig, tengilið og hótelið sem ég dvel á. Ég skora hér með á alla þá sem lesa þennan pistil að gera hið sama.
Við Þóra og Unnar borðuðum seint kvöldið fyrir hlaup. Þar sem fyrir lá að Unnur var ekki í lífshættu en á sterkum verkjalyfjum og svaf mikið ákvað Unnar að hann myndi hlaupa maraþonið. Þar sem Þóra ætlaði hvort sem er ekki að hlaupa var ákveðið að hún myndi fara upp á spítala morguninn eftir og vera hjá Unni þar til Unnar kæmi að loknu hlaupi.
Því verður ekki á móti mælt að það var skrítið að vakna morguninn eftir og fara að taka sig til í maraþonhlaup vitandi af Unni inni á spítala eftir bílslys. En því varð ekki breytt og því ekki annað að gera en að hysja upp um sig brækurnar. Við Unnar höfðum sammælst um að hringja okkur saman þegar inn á hlaupasvæðið væri komið. En áður en að því kom tók við smá viðbótar taugatrekkjari. Þóra gekk með mér að hliðunum inn á svæðið og kvöddumst við áður en ég fór þangað inn og hún héldi upp á spítala. Þegar kom að mér að fara inn á svæðið vildi vörðurinn fá að sjá bæði númerið framan á skyrtunni og úlnliðsbandið sem við vorum skildug að hafa á okkur til að komast innfyrir. Þegar hann sá mitt úlnliðsband hristi hann bara hausinn og vísaði mér burt. Það var alveg sama hvað ég reyndi að tala við hann, engu tauti varð við hann komið og hann gerði enga tilraun til að aðstoða eða leiðbeina mér. Ég reyndar kveikti strax á því hvað ég hafði gert vitlaust en þurfti aðstoð til að reyna að leysa úr vandanum. Málið var nefnilega það að áður en við fengum afhent númerin á Expóinu fengum við sérstakt úlnliðsband á okkur sem var meira að segja innsiglað þannig að ekki var hægt að ná því af nema rífa það og eyðileggja um leið. Þegar ég var kominn upp á hótel eftir að hafa verið á Expóinu sá ég í pokanum annað úlnliðsband úr teygju. Ég hugsaði þá með mér að það væri úlnliðsbandið sem ég ætti að hafa á mér til að komast inná hlaupasvæðið og að hinu bandinu hefði verið ætlað að þjóna því hlutverki að sýna og sanna að búið væri að þukla mig og sprengjuleita áður en ég kæmist til að sækja númerið mitt inni á Expóinu. Ég reif því það band af mér og henti því. Ég áttaði mig auðvitað strax á mistökunum þegar vörðurinn neitaði mér inngöngu. En hvern fj. átti ég nú að taka til bragðs? Ég náði að kalla í Þóru og ræddi stöðuna við hana. Úr varð að ég gerði aðra tilraun hjá öðrum verði og fékk sömu viðtökurnar. Burt með þig vinur! Þegar ég reyndi að fá upplýsingar um hvað ég gæti gert þá benti hann mér á einhverja starfsmenn sem áttu að vera framan við hliðin í áberandi vestum. Ég fann einn slíkan en hann horfði á mig hálf tómum augum og gerði mér ljóst að hann kynni enga ensku. Ekki hafði hann nokkurn áhuga á að reyna að aðstoða mig eða finna enskumælandi starfsfélaga sinn. Mér leist satt besta að segja ekkert á blikuna og sá fyrir mér að ég væri bara ekkert að fara að hlaupa þetta hlaup. Og tíminn leið og það styttist í ræsingu. Ég ákvað að gera enn eina tilraunina til inngöngu og valdi mér í þetta skiptið kvenstarfsmann. Þegar kom að mér þá hófst sama sagan. Rangt úlnliðsband og ég átti að fara. Ég ákvað að fara ekki neitt og maldaði í móinn. Þar sem hún skildi smávegis í ensku gat ég útskýrt fyrir henni hvað hafði gerst. Þessi ágæta kona gerði þá nokkuð sem hinir höfðu ekki viljað og kallaði til einhvern starfsmann sem virtist vita hvað ég ætti að gera. Hann benti mér á að ég ætti að fara töluvert langt til baka og finna þar upplýsingabás. Þar gæti ég fengið leiðbeiningar. Við Þóra nánast hlupum til baka að leita að básnum. Hann var lengra í burtu en ég hafði átt von á og þegar þangað kom nánast réðst ég að fyrsta starfsmanninn sem ég sá og bunaði út úr mér allri sögunni. Hann leit hinn rólegasti á mig og bað um að fá að sjá númerið mitt, síðan vildi hann sjá númerið á fatapokanum sem ég var með og leit loksins á Þóru, svona eins og til að fá það staðfest hjá henni að ég væri ekki alveg bilaður og smellti síðan á mig nýju úlnliðsbandi! Málið leyst og dautt! Ég varð svo feginn að ég upplýsti hann um á staðnum að ég elskaði hann! En lengra náðu þau kynni nú ekki og við Þóra hlupum af stað til baka. Í þetta skiptið gekk allt eins og í sögu og ég komst inná start svæðið. Ég var hins vegar orðinn svo stressaður að ég ætlaði aldrei að finna fatatjaldið mitt og þurfti að láta Unnar lóðsa mig í gegnum svæðið í gegnum símann. En þetta tókst allt saman og á startlínunni var ég á réttum tíma.
Hlaupið sjálft. Í sjálfu sér er ekki mikið um það að segja. Allt það sem á undan var gengið var miklu viðburðaríkara en þetta blessaða hlaup. En fyrst ég var kominn þá var ekki annað að gera en að klára það og tékka þannig í boxið. Ef mér tækist að klára þá væri þetta 5. hlaupið af þeim 6 stóru og bara eitt eftir. En dagurinn var fínn hlaupalega. Það voru ca 12-13 gráður þegar við byrjuðum og léttur rigningarúði í upphafi sem síðan hætti. Þannig að það var ágætlega hlýtt, rakt og lítill vindur. Kjöraðstæður. Þar sem ég hafði lítið hlaupið frá því í Brisbane voru væntingar um tíma mjög hóflegar. Mér fannst samt að ég ætti að geta hlaupið hraðar en í Reykjavíkurmaraþoninu því þrátt fyrir allt var ég búinn að hlaupa nokkrum sinnum síðan þá og var ekki að koma úr ferðalagi yfir hálfan hnöttinn dagana á undan. Ég setti mér því það markmið að reyna að hlaupa á undir 3:45 og bónusmarkmiðið var að reyna að komast á 3:39:xx. Miðað við þetta var planið að fara út á ca 5:10 og sjá til hversu lengi ég myndi hanga á því. Innst inni vonaðist ég auðvitað eftir því að geta haldið þeim hraða út hlaupið og ef allt gengi 100% reyna að vera sem næst negatívu splitti. Þegar upp var staðið gekk þetta fullkomlega upp og gott betur en það. Fyrstu 10 km hljóp ég á 5:09 pace, næstu 10 km á 5:07 pace, þar næstu 10 km á 5:04 pace, km 30-40 á 4:59 pace og endaði síðustu 2,2 km á 4:37 pace. Þannig að þetta endaði með því að ég var 3 mínútum fljótari með seinni helminginn en þann fyrri og endaði á 3:33:24. Þetta gekk því mun betur en ég átti von á og var langt undir því tímaviðmiði sem ég hélt að innistæða væri fyrir.
Enn einu maraþoninu er því lokið en því miður verður þetta hlaup eftirminnilegt af öðrum ástæðum en vonir stóðu til. Eins og ég hef oft sagt áður er ekkert maraþon eins og hvert maraþon fyrir sig er sérstök upplifun. Rétt eins og lífið sjálft. Það fer ekki eftir fyrirfram skrifuðu handriti og kemur okkur stöðugt á óvart. Bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. En hvað sem að okkur er rétt þá höfum við ekki annað val en að taka á móti því og gera það besta sem við getum úr hverjum þeim aðstæðum sem okkur eru skapaðar.
Njótið dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2017 | 09:33
Árið er 2017 Maraþon heima og heiman.
Dubai, Fossvogsdalur, Stokkhólmur, Kópavogur, Brisbane, Snældubeinsstaðir, Berlín, Vesturgatan, NY.
Á síðasta ári ákvað ég að hlaupa 10 hlaup sem jafngiltu 10 maraþonvegalengdum á 10 mánuðum af því tilefni að 10 ár voru liðin frá því að ég lauk lyfjameðferð vegna hvítblæðis. Það verkefni tókst ljómandi vel og lauk ég verkefninu með því að hlaupa 10. hlaupið í Dubai maraþoninu í janúar sl. Það vill síðan þannig til að á þessu ári tókst mér að verða 50 ára. Þar sem það er alls ekki sjálfgefið að ná þeim áfanga fannst mér við hæfi að gera eitthvað sérstakt á afmælisárinu og setti upp hlaupaplan fyrir árið. Þar sem þessir tveir merkilegu áfangar eru aðliggjandi sitt hvort árið má því segja að ég sé að upplifa stanslausa hlaupaveislu tvö ár í röð!
Það er kannski vel við hæfi að síðasta hlaupaverkefnið af tilefni framangreinds 10 ára afmælis sé þá um leið nokkurs konar inngangur að 50 ára afmælisárinu en formlega náði ég áfanganum 10. apríl. Hugmyndin er síðan að halda reglulega uppá áfangann til 10. apríl 2018. Ef ég byrja talninguna á Dubai maraþoninu þá eru maraþonhlaupin á þessu ári orðin 5 og um síðustu helgi bættist við tvöföld Vesturgata sem er 45 km hlaup í stórbrotnu landslagi á Vestfjörðum eða nánar tiltekið í Arnarfirði og Dýrafirði. Á þessu ári eru amk 3 maraþonhlaup til viðbótar fyrirhuguð, 6. ágúst í Brisbane, 24. september í Berlín og 5. nóvember í NY, og væntanlega reyni ég að klára enn eitt til viðbótar fyrir afmælisdaginn á næsta ári.
Ég hef haft það fyrir venju að blogga eitthvað um þessi hlaup áður en þau fyrnast í minningunni. Fyrst og fremst er það gert fyrir sjálfan mig til að geta rifjað þau upp síðar og jafnvel í ellinni. Takist mér að komast á elliheimili er nánast öruggt að ég mun skemmta (?!) samferðafólki mínu þar með því að lesa þetta upp fyrir þau aftur og aftur og aftur og aftur .
Dubai.
Dubai maraþonið var þreytt þann 20. janúar 2017. Eins og venjulega var heilmikill spenningur fyrir hlaupið og þá ekki síst hvernig veðrið myndi verða. Það eru reyndar hefðbundnar bollaleggingar hjá okkur Íslendingum en nú var ástæðan þó önnur en venjulega heima á Íslandi. Það voru engar áhyggjur af því hvort það myndi verða rok og rigning heldur var spurningin fyrst og fremst sú hvort það yrði of heitt. Hlaupinu er reyndar startað snemma eða kl. 06:30 til þess að losna við mesta hitann. Það er auðvitað fínt og mjög gott reyndar fyrir þá sem klára á rúmlega 2 klst. Því það er ekki fyrr en uppúr kl. 8:30 sem fer að hitna að ráði en frá þeim tíma hitnar líka býsna hratt. Það sem þá gerðist líka var að það fór að blása aðeins meira en fyrr um morguninn. Það var svo sem ekki blástur eins og við þekkjum hér á Íslandi sem getur verið full mikill á köflum en þessi blástur var bara allt annarrar tegundar. Í stað þess að veita kælingu var blásturinn heitur þannig að upplifunin var eins og að stinga höfðinu í blástursofn sem er bara alls ekki góð hugmynd. Þannig að hækkandi hitastig og heitur blástur var það sem var á matseðlinum þegar fór að líða á hlaupið.
En hvað um það þetta var auðvitað bráðskemmtilegt eins og alltaf. Sjálfur held ég því alltaf fram að ekkert maraþon sé eins, jafnvel þótt hlaupið sé í sömu braut, því alltaf gerist eitthvað sem er öðruvísi. Það geta verið utanaðkomandi aðstæður eins og mismunandi veður eða eitthvað persónubundið. Í þetta skiptið upplifði ég það að fá krampa í aðra rasskinnina eftir um 22 km. Það er frekar óþægilegt og losnaði ég ekki við krampann fyrr en við 35 km drykkjarstöðina. Það varð þess valdandi að hlaupið hjá mér varð ansi kaflaskipt. Ég hafði náð að halda ágætis dampi fram að krampanum en eftir það hægði jafnt og þétt á mér og auðvitað hjálpaði hækkandi hitastig ekki heldur. Þetta varð þess auðvitað valdandi að heilu bílfarmarnir af hlaupurum fóru fram úr mér á þessum kafla sem er nú frekar niðurdrepandi til lengdar. En ljósi punkturinn var þó sá að þegar ég losnaði við krampann við 35 km gat ég aukið hraðann töluvert sem þeir gátu ekki sem þá voru í kringum mig. Þannig að mér tókst að ljúka við síðustu 7 km án þess að fleiru færu fram úr mér og ég náði að fara fram úr dágóðum hópi. Niðurstaðan því sú að ég endaði í 217. sæti í heildina (af 2424 sem kláruðu) og 18. sæti í mínum nýja flokki, 50 ára (þeir miða þarna við afmælisár en ekki afmælisdag), á tímanum 03:31:27. Það er alveg ásættanlegt miðað við aðstæður þótt þetta hafi nú verið nokkuð frá upphaflega markmiðinu. Ég var næstum 11 mínútum lengur með seinni hlutann en þann fyrri sem er allt of mikill munur ef allt er með felldu. En engu að síður ný og athyglisverð upplifun krampi í rasskinn!
En þá aðeins að umgjörðinni. Expóið er haldið í risastórri byggingu við kappreiðavöll þeirra Dúbæinga. Þegar að er komið þá gerði maður ráð fyrir að þetta yrði nú eitthvað. Og þetta var eitthvað. Lyfta (?!) uppá 4. hæð og þar voru keppnisgögn afhent. Og á expóinu var hægt að kaupa gel. Og ekkert annað. En þetta var eitthvað. Vá hvað þeir hafa mikið rými til að bæta sig þarna! Kemur manni mjög á óvart því Dúbæingar eru til í að selja allt og reyna að gera allt stærra og flottara en allir aðrir. En þennan manual hafa þeir bara ekki lesið. En allt annað hjá þeim í tengslum við hlaupið var samt alveg ágætt. Dálítið skringilegt fyrirkomulag samt við að koma dótinu sínu í geymslu fyrir hlaupið því þeim tókst með aðdáunarverðum hætti að búa til kraðak og raðir við töskugeymsluna sem manni sýndist fullkomlega óþarft. En þar sem þetta er ekki nema rúmlega 2000 manna maraþon þá slapp það til. Þeir eru reyndar með tæplega 24.000 þátttakendur í öllum vegalengdum (einnig 10 og 4 km hlaup sem eru ræst aðeins seinna) en þeir hópar voru annars staðar með sitt dót þannig að ég veit ekki nákvæmlega fyrirkomulagið hjá þeim þar.
Brautin er ekki flókin. Eftir ræsingu er 90° beygja til vinstri eftir tæpa 500 metra, þá er hlaupin bein leið í ca 5 km og þá tekin 180° beygja. Hlaupin sama leið til baka og þegar kemur að fyrstu 90° beygjunni kemur smá hlykkur á brautina og þaðan er hlaupið beina leið í rúma 15 km þegar kemur aftur að 180° gráðu beygju. Þaðan er sama leið hlaupin til baka þar til beygt er aftur inn í 90° beygjuna í upphafi og þá er hlaupið búið. Á leiðinn er ein brú yfir Dubai canal þar sem gæti verið um 100-200 metra löng brekka bæði upp og niður. Þessi brú er hlaupin tvisvar, fram og til baka, þannig að segja má að í brautinni séu tvær brekkur upp og tvær brekkur niður. En þótt brautin sé svona bein þá er samt gaman að hlaupa hana því umhverfið breytist og það er mjög flott að sjá turnana, Burj Khalifa ofl., nálgast smátt og smátt.
Að lokum. Það er lítið mál að skjótast til Dubai og hlaupa þar maraþon og ná sér í smá yl í kroppinn í kaldasta skammdeginu á Íslandi. Ég og ferðafélagarnir flugum með British Airways frá Keflavík með smá stoppi í London og þaðan til Dubai. Miðinn á manninn alla leið fram og til baka kostaði í kringum 50 þúsund kall og skráningargjaldið í hlaupið er lágt. Gistinguna er síðan hægt að velja eftir efnum og aðstæðum en það eru fjölbreyttir gistimöguleikar í boði, m.a. hið sívinsæla Airbnb. Ferðalag til að hlaupa maraþon í Dubai er því í raun ekki meira mál en hvert annað maraþon í Evrópu. Helsti munurinn er auðvitað sá að leggurinn frá London til Dubaí er aðeins lengri í tíma en að fljúga til Evrópu.
Vormaraþon FM.
Ég var búinn að ákveða fyrir nokkru síðan að ég ætlaði að reyna að ná þokkalegum tíma í maraþoni fljótlega eftir að 50 árunum yrði náð. Stefnan var sú að gera atlögu að slíkum tíma í Stokkhólmsmaraþoninu. En áður en að því kom og eftir að ég varð 50 ára var vormaraþon Félags maraþonhlaupara á dagskrá þann 22. apríl. Það hlaup var hugsað sem æfingahlaup og því var ekki gerð atlaga þar að ákveðnum tíma. Ég hljóp fyrsta fjórðunginn frekar rólega en eftir það jók ég hraðann og hljóp nokkuð jafnt það sem eftir var. Þegar upp var staðið var tíminn bara ágætur, eða 3:27:42, og var ég rúmlega 6 mínútum fljótari með seinni hlutann en þann fyrri. Þetta var í 5. skiptið sem ég næ því að hlaupa á negatívu splitti en aldrei hefur samt munað svona miklu.
Kópavogsmaraþonið.
Þann 13. maí sl. var Kópavogsmaraþonið á dagskrá. Ég stóðst ekki mátið og ákvað að hlaupa það sem æfingahlaup. Planið var að hlaupa það sem jafnast og helst þannig að það myndi ekki taka of mikið úr mér. Á hlaupadaginn var nokkuð stíf austan átt þannig að það voru tveir góðir kaflar þar sem vindurinn var í fangið. Vissulega var vindurinn einnig í bakið en þó ekki með sama hætti og mótvindurinn. Það var til að mynda frekar þreytandi að hafa mótvind frá Kársnesinu og að Elliðaánum. En allt hafðist þetta nú eins og venjulega og ég fékk að prófa brautina. Brautin já, eitthvað var hún nú málum blandin. Í leiðarlýsingu um hlaupið, sem ég reyndar finn ekki lengur á hlaup.is (?), sagði að hlaupnir skyldu tveir hringir hjá maraþonhlaupurunum, hringur A, eins og hálfmaraþonhlaupararnir, hringur inná völlinn og síðan hringur B (með nánari lýsingu). Þegar ég kom að Kópavogsvellinum var mér bent á af starfsmanni hlaupsins að elta næsta hlaupara á undan mér inná völlinn. Það fannst mér hið eðlilegasta mál, enda búinn að lesa mér til um það á vefnum auk þess sem þannig fengist skráður millitími í hálfu, og hljóp því sem leið lá inná völlinn. Þegar ég hins vegar kom í gegnum markið og ætlaði að fá mér vatnssopa og halda áfram kom starfsmaður hlaupsins og ætlaði að taka af mér tímatökuflöguna. Ég sagðist ekki vera nema hálfnaður og neitaði að láta flöguna af hendi. Þá kom í ljós að annar maraþonhlaupari hafði komið þarna á undan mér og misst sína flögu í hendur starfsmanna. Sá hætti keppni en ég kom mér út af svæðinu og aftur inná brautina. Þegar ég kom út af vellinum þá sá ég hvar tveir hlauparar voru að nálgast Kópavogsvöllinn og var þeim báðum bent á að halda áfram en beygja ekki inná völlinn. Það er því ljóst að þarna er rými fyrir betrumbætur á skipulagningu hjá Kópavogsmönnum. En hlaupinu lauk ég á tímanum 03:35:13 og munaði 15 sekúndum á fyrri og seinni helmingi. Í raun var ég aðeins fljótari að hlaupa seinni hlutann því inni í tímamælingu hans var rekistefnan við starfsmann hlaupsins vegna flögunnar. En þegar upp var staðið fékk ég bikar fyrir að verða fyrstur í mínum aldursflokki 50 ára og eldri!
Stokkhólmsmaraþonið.
Öll umgjörð í kringum Stokkhólmsmaraþonið er mjög flott og greinilega fagmenn þar á ferðinni. Þeir eru náttúrulega með frábæra aðstöðu sem er gamli Ólympíuleikvangurinn. Þar við hliðina eru þeir einnig með mjög góða aðstöðu bæði fyrir og eftir hlaupið. Á sama stað voru þeir með expóið sem var alveg ágætt þótt maður hafi séð meira vöruúrval. Brautin sjálf er mjög falleg og alls staðar nóg pláss fyrir hlauparana. Í grófum dráttum má segja að hlaupnir séu tveir hringir en þó ekki að öllu leyti eins þótt stór partur sé það. Mest er hlaupið inni í sjálfri borginni en þó er smá útúrdúr út á Djurgarden þar sem hlaupið er á malbikuðum skógarstígum. Það sem kom mér helst á óvart var hversu margar brekkur voru í brautinni. Ég var vissulega búinn að lesa mér til um að svo væri en samt voru brekkurnar meiri og fleiri en ég átti von á. Fyrirfram var ég að gera mér vonir um að ná að hlaupa undir 3:15 og lagði ég út með það. Ég var í raun á pari eftir 10 km en þá var búið að hlaupa nokkrar af stærstu brekkunum í fyrra skiptið. Ég fann að það hafði tekið of mikið úr mér þannig að ég fór þá strax að horfa á B markmiðið sem var að hlaupa á undir 3:20. Næstu 15 km einbeitti ég mér að því að hlaupa án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því. Á þeim kafla hlupum við m.a. um Djurgarden sem er nokkuð rúllandi án þess þó að um stórar brekkur sé að ræða. En engu að síður langt frá því að vera slétt braut. Á þessum kafla virtist ég halda nokkuð sjó miðað við aðra keppendur því það fóru ekki margir fram úr mér og ég fór ekki fram úr mörgum. En við 25 km markið breyttist þetta töluvert því mér tókst að mestu að halda sama hraðanum á meðan þeir sem voru í kringum mig virtust heldur gefa eftir. Þegar upp var staðið gat ég séð á heimasíðu hlaupsins að eftir 15 km var ég í sæti nr. 1531 en ég endaði í sæti 1061 af rúmlega 12.500 manns. Í mínum virðulega aldursflokki, 50 til 55 ára endaði ég í 90. sæti. Bónusinn var síðan sá að með ágætum endaspretti síðustu 2 km náði ég að klára á tímanum 3:19:25. Það er í raun ansi merkilegur tími þegar betur er að gáð. Á veraldarvefnum er nefnilega hægt að aldursleiðrétta sig. Öllu heldur væri nákvæmara að segja að hægt sé að láta reiknivél aldursleiðrétta tímann miðað við tiltekinn aldur. Ef ég set þennan tíma í þessa bráðskemmtilegu aldursleiðréttingu miðað við að ég væri 42 ára þá hefði ég 42 ára átt að geta hlaupið á tímanum 3:08:35. En þegar ég var 42 ára hljóp ég mitt fyrsta maraþon á tímanum 3:09.16 þannig að ekki munar nema 41 sekúndu! En kannski er þetta bara ekkert svo sniðugt eftir allt? Því það má vel halda því fram að allt þetta puð í öll þessi ár hafi nánast ekki skilað neinum framförum!
Snældubeinsstaðamaraþonið í Reykholtsdal í Borgarfirði.
Í desember sl. slysaðist ég eiginlega til þess að hlaupa maraþonvegalengdina á æfingu í Reykholtsdalnum. Það var leiðindaveður, suðaustan strekkingur, snjóföl og hálka, sem endaði með dágóðri snjókomu en sem betur fer var ég þá kominn með vindinn í bakið. En þetta var gaman! Bara fjári mikið gaman! Ég byrjaði hlaupið með Þóru og aðstæður gáfu nú ekki tilefni til mikils hraða eða átaka, nema að halda sér uppistandandi í hálkunni. Ég lauk við vegalengdina á rúmum 4 tímum og var í fínu standi á eftir. Þetta ævintýri leiddi hugann að því að gaman gæti verið að hlaupa þessa leið að sumarlagi, helst frekar snemma þannig að lömb og folöld væru farin að hlaupa um grundir og sumarfuglarnir mættir með sinn hljómfagra söng. Það vill þannig til að á milli þeirra sveitabæja þaðan sem foreldrar Þóru eru ættuð eru 17,5 km. Þannig að mér datt í hug að gaman gæti verið að hlaupa á milli þeirra og síðan væri hægt að taka einn krók til að ná maraþonvegalengdinni. Þannig að hlaupið var skipulagt á þann hátt að startað yrði við Snældubeinsstaði og hlaupið sem leið liggur fram eftir Reykholtsdal að sunnanverðu, á fínum hæðóttum malarvegi, beygt til vinstri á gatnamótum við Steindórsstaði eftir 8 km og hlaupið þar yfir í Hálsasveitina og að afleggjaranum heim að Giljum. Þar skyldi snúið við og hlaupin sama leið til baka nema að á gatnamótunum við Steindórsstaði skyldi nú beygt aftur frameftir og hlaupið nánast að bænum Búrfelli, 3,6 km, og þar snúið við og hlaupið sem leið liggur heim að Snældubeinsstöðum aftur. Þetta eru nákvæmlega 42,2 km í fallegu sveitaumhverfi með öllu því dýralífi sem tilheyrir.
Til að hafa þetta aðeins öðruvísi en hefðbundin keppnishlaup var ákveðið að hver og einn keppandi skyldi sjá sjálfur um sína tímatöku og þá vegalengd sem viðkomandi vildi hlaupa eða ganga nú eða hjóla eftir atvikum. Allir keppendur yrðu ræstir á sama tíma og það væri undir hverjum og einum komið hvenær hann vildi snúa við og þannig ákveða sína eigin keppnisvegalengd. Vatnsstöðvar væru nokkrar á leiðinni í formi lækja og áa og þyrfti hver keppandi að bera sig sjálfur eftir björginni.
Laugardaginn 1. júlí 2017 fór síðan fyrsta formlega Snældubeinsstaðamaraþonið fram. Keppendur voru 8 talsins á aldrinum 14 til 88 ára. Þegar upp var staðið var keppt í 6 vegalengdum, 4 km, 10 km, 21 km, 22 km, 30 km og 42,2 km. Elsti keppandinn gekk 4 km og sjálfur var ég einn í maraþonvegalengdinni. Veður var alveg prýðilegt en þó má kannski segja að vindátt hafi verið frekar óhagstæð. Það voru 5-6 metrar á sekúndu að vestan sem þýddi það að keppendur voru með vindinn í bakið fyrri helming hlaupsins en fengu hann síðan á móti seinni partinn þegar farið var að þyngjast undir fæti. Sjálfur endaði ég með því að hlaupa þetta heldur hraðar en til stóð og að einhverju leyti því um að kenna að 14 ára keppandinn í 10 km hlaupinu var ansi sprækur og ég vildi ekki láta hann skilja mig alveg eftir á fyrstu 5 km þegar kom að snúningspunkti hjá honum! En síðan í stað þess að hægja á mér eftir 5 km hljóp ég fyrstu 10 km á rétt rúmlega 50 mínútum í töluverðum brekkum sem hefði gefið lokatíma í kringum 3:30 klst. ef ég hefði haldið þeim hraða. En vissulega hjálpaði að þarna var vindurinn í bakið. En eftir þessa fyrstu 10 km hægði ég aðeins á mér en endaði samt hlaupið á fínum tíma eða á 3:42:01 og það var með einni ferð niður að á við Rauðsgil til að sækja mér vatn.
Það var samdóma álit allra keppenda að vel hefði tekist til og allir ætla að mæta aftur að ári. Þess má geta að gott tjaldstæði er að Kleppjárnsreykjum, sem er bókstaflega við hliðina á startinu að Snældubeinsstöðum, og þar er einnig fín sundlaug ásamt veitingasölu. Nú þá eru fjölmargir aðrir gistimöguleikar á nokkrum hótelum í sveitinni og næsta nágrenni. Það er því allt til alls til að gera þennan viðburð að árlegri fjölskyldu- og hlaupahátíð í sveitinni fyrir þá sem það vilja. Smá spurning hvernig best verður að hafa kynningarefni á enskri tungu þegar hlaupið spyrst betur út, því það skal viðurkennt að til eru þjálli nöfn á maraþonhlaupum!
Tvöföld Vesturgata.
Síðustu árin hefur hlauphópur Stjörnunnar skipulegt amk eina ferð að sumri eða hausti til að fara saman og taka þátt í hlaupaviðburði. Þetta árið varð Hlaupahátíðin á Vestfjörðum fyrir valinu sl. helgi. Þar var reyndar einnig synt og hjólað en ég lét eitt hlaup duga. Þetta eina hlaup var líka bara alveg nóg. Ég get vel viðurkennt það að þessi vika eftir hlaupið er búin að vera afskaplega stirðbusaleg af minni hálfu. Ég hef ekki fengið jafn mikla strengi eftir hlaup síðan ég veit ekki hvenær, ef bara nokkurn tímann. Þar er svo sem ekki við neinn að sakast nema sjálfan mig. Þetta árið hef ég nánast eingöngu einbeitt mér að hlaupum á jafnsléttu með þeirri undantekningu að ég hef nokkrum sinnum hlaupið í sveitinni þar sem er rúllandi malarvegur. Það er hins vegar langt frá því nægjanlegt sem æfing fyrir alvöru fjallahlaup eins og tvöfalda Vesturgatan sannarlega er. Í fyrra var fyrsta maraþon ársins Boston maraþonið og í kjölfarið tók ég þátt í erfiðu utanvegahlaupi í Afríku og síðan Laugaveginum þannig að ég var búinn að æfa niðurhlaup vel og búinn að fara nokkrar ferðir á Helgafellið. Núna vantaði þessar æfingar alveg og ég heiti því hér með að þetta læt ég aldrei henda aftur ef til stendur að fara í keppnishlaup í fjalllendi! Ég þykist svo sem vita að sennilega er það niðurhlaupið eftir fjallaskarðið í Kirkjubólsdal, ca 5 km, sem er aðal sökudólgurinn. Fyrir utan auðvitað sjálfan mig.
En hvað um það. Þetta var alveg bráðskemmtilegt og mikil upplifun. Ég hef aldrei farið þess leið áður og því var það auðvitað spennandi að upplifa leiðina í fyrsta skiptið. Ekki þótti mér verra að það yrði gert á tveimur jafnfljótum þannig að hægt yrði að njóta útsýnisins og umhverfisins. En íslenska sumarið var í stuði þennan sunnudag og ákvað að takmarka útsýnið sem mest en þess í stað troða sér í orðsins fyllstu merkingu framan í keppendur með hávaða roki og mígandi rigningu. Spáið í muninn á aðstæðum að vetrarlagi í Dubai og íslenska sumrinu!
Við vorum 17 talsins sem röðuðum okkur upp í startinu á Þingeyri kl. 8. Þá var svo sem skaplegt veður, nokkur vestan vindur en lítil úrkoma. Keppendur fóru frekar rólega af stað fyrstu kílómetrana enda nóg eftir. Þar sem ég er frekar linur upp brekkur eftir að ég fékk hjartsláttaróregluna 2012 ákvað ég að fylgja í humátt á eftir forystusauðnum, Gunnari Atla, að Kirkjubóli sem er í um tæplega 6 km fjarlægð frá startinu. Leiðin þangað er enda nokkuð flöt þannig að þar var ég í ágætum málum. En fljótlega eftir að brekkurnar byrjuðu fóru aðrir keppendur að fara fram úr mér og fyrr en varði var ég kominn úr 2. sæti í það 7. Það skipti svo sem engu máli því ég var fyrst og fremst með ákveðið tímamarkmið í huga fyrir hlaupið en ekki í hvað sæti ég myndi lenda. Ég hafði auðvitað lesið pistlana hans Stefáns Gíslasonar eins og margir, ef ekki flestir, gera sem hlaupa þess leið eftir að hann birti sína pistla. Ég var sértaklega að horfa til áætlunarinnar hans fyrir hlaupið 2014 þar sem hann setti sér það markmið að hlaupa á um 4:30 klst. Hann auðvitað fór létt með að ná því markmiði, og gerði mikið betur en það, en mér fannst það fínt markmið fyrir mig til að hafa eitthvert viðmið. Þá hafði hann áætlað að vera ca. 2:20 klst. að startinu í heilli Vesturgötu í Stapadal og klára þaðan á ca. 2:10 klst. Þetta plan mitt gekk bærilega framan af. Ég var á pari við Kirkjuból á rúmlega 28 mínútum. Ég þóttist vita að ég yrði hægari upp en Stefán um árið, og það þótt hann hafi þá nýtt uppgönguna í spjall við ferðafélaga, en það var allt í lagi því ég var að stefna á áætlaðan tíma Stefáns árið 2014 en ekki rauntíma. Þegar upp var komið var orðið nokkuð um liðið síðan ég sá síðasta keppandann á undan mér hverfa í skarðinu en hins vegar voru þrír keppendur til viðbótar við það að ná mér. Ég ákvað að láta vaða niður eins hratt og ég gæti því þótt ég sé linur á uppleið þá gengur mér yfirleitt vel að hlaupa niður. Þegar ég var kominn langleiðina niður fór ég að finna fyrir því að kálfarnir voru ekkert sérlega hressir með þessa meðferð þannig að ég fór að hafa smá áhyggjur af þeim. Það reyndist þó ástæðulaust þegar upp var staðið því ferðahraðinn eftir niðurhlaupið bauð ekkert uppá frekari misnotkun. Þegar ég var að verða hálfnaður með niðurhlaupið, eftir ca. 2-3 km, þá fann ég að vindurinn var farinn að ná að slá sér upp í dalinn á móti mér. Ekki nóg með það þá jókst rigningin til muna þannig að ég þóttist vita að framundan mætti eiga von á töluverðum barningi. Þegar ég kom niður á veg og beygði inn í áttina að Stapadal sá ég að tíminn var ekki nema um þremur mínútum lakari en hjá Stefáni árið 2014. Það þótti mér ljómandi fínt því þótt ég væri ekki á sama tíma og hann þá myndi ég amk verða töluvert fljótari en 2:20 inn í Stapadal þannig að þá ætti ég borð fyrir báru með að reyna að ná undir 4:30 klst. En vá maður hvað ég skipti um skoðun! Þegar ég var kominn niður á veg og fór að hlaupa á móti rigningunni og rokinu þá ákvað ég fljótt að ég ætlaði að hætta að hugsa um tímann en fara þess í stað yfir í survivor mode og bara njóta þess að fara leiðina. Þegar í Stapadal var komið má eiginlega segja að það hafi verið allt að því spaugilegt að sjá þar þá keppendur í heilli Vesturgötu sem voru komnir á staðinn. Þeir voru reyndar ekki mjög margir og komust flestir fyrir í bílnum sem notaður var sem drykkjarstöð fyrir keppendur. Þeir sem ekki voru í bílnum voru flestir karlmenn sem stóðu hér og þar í móanum og sprændu út í loftið undan vindinum. Ég reyndi að gleypa sem minnst vatn meðan ég hljóp fram hjá þeim. Meðan ég fékk mér hressingu og spjallaði við starfsmenn hlaupsins við vatnsbílinn sá ég glitta í augu keppenda innan úr bílnum sem kíktu út og hrylltu sig. Ég gat í raun ekki annað en vorkennt þeim því það var miklu betra að vera orðinn blautur og vanur barningnum en eiga eftir að fara þurr og heitur út í þetta slagveður.
En af stað aftur. Eftir að hafa hlaupið um stund upp í vindinn og rigninguna datt mér til hugar að ég ætti bara alls ekki til allar nauðsynlegar hlaupagræjur fyrir íslenskt sumarveður. Mér hafði nefnilega ekki fyrr dottið til hugar hvort gæti verið gott að vera hreinlega með sundgleraugu og snorkl græjur. Maður myndi þá sennilega sjá betur og gleypa minna vatn. En svona var þetta í ca 14-15 km. Því þótt leiðin færi að færast fyrir nesið þá hætti vindurinn ekki að blása framan í mann fyrr en farið var að hlaupa inn Dýrafjörð þegar eftir voru ca 8 km af hlaupinu. Mér leið samt bara ljómandi vel þennan kafla. Hljóp bara á þægilegum hraða og labbaði upp brekkur. Ég fann líka að kálfarnir voru sáttir við hraðann þannig að við vorum bara allir góðir. Ég hafði séð til Þóris í fjarska, sem var næstur á undan mér, frekar snemma eftir að komið var niður af heiðinni en síðan ekki meir. Ég sá aldrei neinn á eftir mér þannig að mér leið dálítið eins og í Snældubeinsstaðamaraþoninu í mínum eigin félagsskap. Sem ég kann sem betur fer ágætlega við! En eins og venjulega þegar fer að styttast í markið þá fer hugarreikningurinn af stað. Þegar ég átti um 7 km eftir þá reiknaðist mér til að ég ætti kannski smá séns á að ná undir 4:45 klst. ef ég myndi halda mig við efnið. Ég fór því að fylgjast betur með klukkunni og hætti að ganga þær brekkur sem urðu á vegi mínum. Mér fannst reyndar það sem ég hélt vera síðustu brekkuna frekar óárennilegt viðfangsefni en mundi að Stefán hafði skrifað árið 2014 að hann hefði þá hlaupið brekkuna og það veitt honum kraft í fyrra til að gera það aftur. Ég lét mig því hafa það og hljóp upp alla brekkuna þótt ekki hafi það nú verið hratt. Þegar upp var komið þá fannst mér ég ennþá eiga möguleika á að fara undir 4:45 en þá þurfti náttúrlega að vera eftir ein brekka til viðbótar, eða kannski réttara að kalla hana kryppu. En þar með hélt ég samt að ég myndi ekki ná undir 4:45. Ég lét mig samt hafa það að reyna að fara þarna upp eins hratt og ég gat og gefa svo allt í botn niður brekkuna og í markið. Ég var líka ánægður að sjá það á hlaupaúrinu að mér hafði tekist að hlaupa síðustu 400 metrana á rúmlega 16 km hraða, eða pace 3:43, sem mér finnst bara bærilegt fyrir 50 ára kall sem er búinn að vera á ferðinni tæpa 45 km í slagveðurs rigningu. Og viti menn, þegar í mark var komið þá kom í ljós að mér tókst að komast undir 4:45 klst. og það svo munaði heilli sekúndu!
Að lokum er ekki hægt annað en að hrósa mótshöldurum. Vel var að öllu staðið sem ég varð vitni að og veitingarnar að hlaupi loknu virkilega flottar. Ég er ákveðinn í því að ef aðstæður leyfa þá ætla ég að hlaupa þessa leið aftur og vera þá búinn að æfa betur fjallabrölt og þá ætla ég líka að hafa sól og gott veður.
Takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2016 | 07:35
Áramótahlaupaannáll 2016
Í byrjun árs, þegar ég var að velta fyrir mér hlaupamarkmiðum fyrir árið 2016, staldraði hugurinn fljótt við þá staðreynd að um sumarið myndu verða liðin 10 ár frá því að ég lauk lyfjameðferð vegna hvítblæðis. Þegar 5 ár voru liðin, árið 2011, ákvað ég að hlaupa nokkur löng hlaup af því tilefni og safna áheitum fyrir Krabbameinsfélagið. Mér fannst tilvalið að endurtaka leikinn núna 5 árum seinna. Í upphafi var hugmyndin ekki fullmótuð en þó þannig að ég setti strax stefnuna á Bostonmaraþonið, maraþon í Suður-Afríku, Reykjavíkurmaraþonið, maraþon í Munchen og Aþenumaraþonið. Þessu til viðbótar var ég ákveðinn í að hlaupa tvö utanvega hlaup, sem ég hljóp bæði 2011, sem samtals náðu tveimur maraþonvegalengdum, Jökulsárhlaupið sem er 32,7 km og Laugaveginn sem er tæpir 55 km. Samtals eru þetta 7 löng hlaup sem í vegalengd samsvara 7 maraþonhlaupum. Þetta fannst mér ágæt markmið inn í árið og þessu til viðbótar var ég að gæla við að reyna að ná góðum tíma í Boston og reyna þar við 3:05-3:10. Amk ætti 3:15 þá að steinliggja. Jájá, einmitt, alltaf í boltanum og allt það.
En eins og ég hef áður bloggað um fór Boston töluvert öðru vísi en að var stefnt. Allt gekk á afturfótunum og ég skrönglaðist í mark á rúmlega 3:31 eftir erfiðasta maraþonhlaup sem ég hef hlaupið. Ekki hjálpaði veðrið mikið þar sem hitinn fór yfir 25 stig og framan af bærðist ekki hár á höfði. En engu að síður áhugaverð upplifun og nýjar áskoranir að takast á við. En klárað maraþon er klárað maraþon og hægt að tékka það í boxið.
Fljótlega eftir að heim var komið fæddist sú hugmynd að skjótast til Köben og reyna að laga tímann. Það gæti nú varla verið mikið mál eftir hremmingarnar í Boston. Og jú, jú ég lagaði tímann. Um heilar þrjár mínútur! En svona var vorið, heitt, heitt, heitt. Hitinn fór yfir 30 stig í Köben og því lítið annað að gera en að breyta um taktík og spila eftir aðstæðum.
Og þá var það Suður-Afríka. Um þá ferð hef ég bloggað áður og bara hægt að endurtaka aðalatriðið úr þeirri ferð. Vááááááááá!(http://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2176198/).
Hlaup númer 4 var Laugavegurinn um miðjan júlí. Hjartalæknirinn minn sagði reyndar við mig, þegar ég var að fara aftur af stað eftir að búið var að ná tökum á hjartsláttartruflununum haustið 2012, að ég skyldi ekkert vera að hlaupa lengra en maraþonvegalengdina. Það væri nóg áreynsla og ekki ástæða til meiri átaka. En þar sem fyrir lá að ég hafði þurft að æfa heilmikið í brekkum fyrir Suður-Afríku þá var það eiginlega of freistandi að láta ekki slag standa og nýta æfingarnar fyrir Suður-Afríku í einn Laugaveg. Ég hélt mér því vel við fyrir Laugaveginn og þegar til kom reyndist hann hin besta skemmtun og mér fannst mér ganga vel. Þótt tíminn væri heldur lakari en árið 2011 þá losnaði ég þó við að hlaupa með krampa frá Emstrum og öfugt við það sem gerðist 2011 þá vann ég mig upp um heilmörg sæti síðustu 8-10 km þannig að upplifunin var ólíkt skemmtilegri.
Hlaup númer 5 var Jökulsárhlaupið í byrjun ágúst. Það er sú hlaupaleið á Íslandi sem mér finnst hvað skemmtilegast að hlaupa. Enda var þetta í 6. sinn sem ég tek þátt. Þegar hér var komið sögu hafði sú hugmynd fæðst að klára sem samsvarar 10 maraþonum á 10 mánuðum úr því að 10 ár voru liðin. Ég var þegar skráður í Reykjavíkurmaraþonið og Munchen- og Aþenu maraþonin og var búinn að reikna það út að með því að telja apríl fyrsta mánuðinn í verkefninu þá myndi ég geta lokið því í janúar 2017. Þ.e. að hlaupa sem samsvarar 10 maraþonum á 10 mánuðum með því að telja Jökulsárhlaupið og Laugaveginn saman sem tvær maraþonvegalengdir. Ég var sem sagt búinn að bæta við skráningum í Oslómaraþonið í september og til stendur að ljúka við verkefnið í Dubaí þann 20. janúar nk. Það lá því fyrir að æfingamagn fyrir Jökulsárhlaupið var í algjöru lágmarki og hugmyndin var sú að reyna að hlaupa næstu hlaup skynsamlega þannig að ég myndi hvorki ofgera liðum eða vöðvum og helst að komast bæði skammlaust og óskaddaður í gegnum verkefnið. Mér gekk engu að síður ljómandi vel í hlaupinu og þótt ég hafi þrisvar áður náð betri tíma í hlaupinu þá hef ég ekki áður náð jafngóðu sæti eða 6. sæti karla (í 6. Jökulsárhlaupinu!) og 7. sæti í heildina. Rúsínan í þessum pylsuenda var að ná því að vera fyrstur í mark í mikilli endasprettskeppni þar sem við röðuðum okkur 6 í mark með innan við mínútu millibili.
Sjötta hlaup ársins var þátttaka í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var í 4. skiptið sem ég tek þátt í því og einhverra hluta vegna hefur mér í öll skiptin nema eitt gengið hálfbrösuglega í því hlaupi. Í fyrsta skiptið sem ég tók þátt tognaði ég aftan í lærvöðva eftir um 10 km þannig að hlaupið var erfitt eftir það. Í fyrra fór ég af stað meiddur og fór hægt en kláraði þó. Í þetta skiptið gekk mér reyndar alveg ágætlega upp í næstum 30 km en þá hljóp allt í einu slæmska í annað hnéð þannig að ég þurfti að stoppa og síðan ganga um 2 km. En eins og þeir muna sem voru á svæðinu þá var veðrið náttúrulega alveg frábært þannig að það var ekki alslæmt. Eftir göngutúrinn lagaðist þetta aftur og ég komst á góðan skrið og gat klárað á þokkalegum tíma rétt undir 3:33. Þegar upp var staðið reyndist þetta alveg afbragðs dagur því í fyrsta sinn á ævinni tókst mér að hlaupa maraþon og veiða lax sama daginn!
Sjöunda hlaupið, í Osló 17. september, reyndist nokkuð sérstakt þegar upp var staðið. Vegna slæmskunnar sem hljóp í hnéð á mér í Reykjavíkurmaraþoninu samanstóðu æfingar að mestu leyti af því að hvíla sem mest. Sú taktík reyndist vel því ég fann ekkert fyrir hnénu þegar á hólminn var komið. Fyrirfram hafði ég sett mér það markmið að reyna að hlaupa sem jafnast og reyna að komast undir 3:30 og helst með negatívu splitti. Það plan gekk vel og ég fylgdi 3:30 héranum alveg upp í 10 km. Þegar þangað var komið ákvað ég að reyna að hlaupa aðeins hraðar og komast úr mestu þvögunni því brautin í Osló er víða þröng og hlykkjótt. Allt gekk þetta að óskum þar til ég var kominn á 19. km. Þá er ég að koma úr einni beygjunni og stíg uppá gangstétt með frekar háum kantsteini. Þegar ég kem út úr beygjunni tek ég eftir því að það er strax önnur beygja. Þar sem ég er varkár hlaupari reyndi ég að átta mig strax á aðstæðum í þeirri beygju en vissi þá ekki fyrr en ég er skollinn kylliflatur í götuna þeytandi kerlingar eftir malbikinu og húfa og sólgleraugu á leið í aðra átt en ég sjálfur. Þetta var alveg afskaplega óvænt og fullkomlega fyrirvaralaust. Í varkárni minni við að skoða aðstæður framundan gleymdist alveg að sjá fótum mínum forráð og því fór alveg framhjá mér að stéttin sem ég hafði stigið uppá var búin og því ástæða til að taka niðurstig kantsteininn. En sem sagt, þarna lá ég með tvö hrufluð hné og allur skrapaður á annarri hliðinni og hafði að auki fengið olnbogann harkalega í síðuna í fallinu og fann því til í kviðnum að auki. En þegar ég hafði loksins gert mér fulla grein fyrir því að ég hafði í alvörunni dottið á hausinn staulaðist ég á lappir og hökti af stað aftur. Sem betur fer var ekki langt í næstu drykkjarstöð þannig að þar gat ég skvett á mig vatni og náð áttum. Þegar ég var búinn að jafna mig aðeins og fann að ég gat ennþá hlaupið var ekkert annað að gera en að halda áfram. Þegar af stað var komið helltist yfir mig mikil reiði fyrir klaufaskapinn og ég varð enn ákveðnari en áður að ég skildi ná að hlaupa á negatívu splitti. Ég hélt svipuðum hraða og áður uppí 21,1 km en ákvað að herða mig aðeins eftir það. Planið var að reyna að hlaupa heldur hraðar en áður upp í 30 km og reyna síðan eftir það að halda svipuðum hraða í mark og ég hafði gert fyrri hlutann. Þetta gekk eftir og ég náði mínum besta tíma í sumar og var næstum tveimur mínútum fljótari með seinni hlutann en þann fyrri (sami hringur hlaupinn tvisvar) og það þrátt fyrir dettið í fyrri hlutanum. Þannig að sennilega hefur það sannast enn eina ferðina í þessu hlaupi að fall getur verið fararheill, en ég hef samt alls engin áform um að halda þessari taktík áfram.
En þá var komið að 8. hlaupinu þann 9. október í Munchen. Þetta var hlaup þar sem heilmikil tilhlökkun fylgdi að hlaupa. Meginástæðan var sú að þarna fór hlaupahópurinn í sína árlegu hlaupaferð og Þóra mín og Þórey vinkona voru búnar að stefna að því lengi að hlaupa þarna sitt fyrsta maraþon. Ég hafði um sumarið tekið margar æfingar með þeim og til stóð að ég myndi hlaupa með þeim allt hlaupið. En vegna atviksins í Osló var það í raun algjört spurningamerki hvort ég myndi ná að klára með þeim þótt ég myndi leggja af stað. Á þriðjudeginum í vikunni fyrir hlaupið varð ég að hætta að hlaupa eftir 8 km og hvíla mig og náði með herkjum að bæta tveimur km við. Á fimmtudeginum tókst mér að hlaupa 10 km án hvíldar en lengra komst ég ekki. Þegar hlaupadagurinn rann upp frekar kaldur og fagur hafði ég bætt í vopnabúrið nokkrum parkódín forte ef á þyrfti að halda. Það er skemmst frá því að segja að öll komumst við í mark á sama tíma eftir alveg hreint frábæra hlaupaupplifun. Að mínu mati var þetta klárlega eitt af skemmtilegri maraþonhlaupum sem ég hef hlaupið um ævina. Mæli samt ekki með því að parkódín forte sé brutt í of miklum mæli því það fer illa saman við matarlystina um kvöldið.
Ekki löngu eftir maraþonið í Munchen fór ég að geta hlaupið án verkja í hnénu þannig að ég virtist hafa sloppið með skrekkinn. Því var ekki annað að gera en taka upp reglulegar æfingar því 9. hlaupið var handan við hornið. Þann 13. nóvember skyldi halda til upprunans og hefja maraþonhlaup í borginni Marathon þaðan sem Pheidippides hljóp árið 490 BC til Aþenu með þær fréttir að her Aþenu hefði tekist hið ómögulega, sem var að stökkva á flótta mun stærri her Persa sem ráðist hafði á land við Marathon og hrekja þá aftur til skipa sinna. Datt hann niður dauður eftir fréttaflutninginn. Þótt svona skuli hafa farið fyrir Pheidippides er ástæðulaust fyrir maraþonhlaupara dagsins í dag að hafa miklar áhyggjur af því að svona geti farið fyrir þeim. Það nefnilega fylgir yfirleitt ekki sögunni að Pheidippides hljóp skömmu áður 140 mílur (rúma 200 km) yfir erfitt fjalllendi til að biðja Spartverja um liðveislu. Þeir höfnuðu liðveislunni í fyrstu þannig að Pheidippides þurfti að hlaupa til baka sömu leið, þramma síðan með her Aþenu til Marathon og berjast þar daglangt í fullum herklæðum. Þegar fyrir lá að Aþenu her hafði haft sigur, með mikilli herkænsku, var aumingjans Pheidippides látinn hlaupa aftur til Aþenu með fréttirnar (einhverjar heimildir segja að það hafi tekið hann um þrjá tíma sem telst dágott í dag!), þannig að í þessu ljósi er afrek hans heldur betur ótrúlegt en örlögin ekki. Þess má geta í framhjáhlaupi að Persar réðust aftur til atlögu beint á Aþenu en í millitíðinni, fyrir tilstuðlan Pheidippides, hafði Aþenubúum gefist ráðrúm til að undirbúa sig og höfðu í þetta skiptið fengið Spartverja til liðs við sig. Þeir höfðu því á endanum betur og náðu að hrinda sókn Persa, the rest is history.
En hvað um það. Sagan er merkileg og gaman var að hlaupa þessa leið. Eiginlega alveg einstakt. Brautin er sjálfsagt auðveldari að mörgu leyti í dag en hún var þegar Pheidippides hljóp hana því nú höfðum við til umráða heila malbikaða akbraut alla leið. Væntanlega hefur Pheidippides hlaupið eftir ójöfnum slóðum og örugglega ekki í eins góðu skótaui og við notumst við í dag. En hlaupadagurinn var einstaklega fallegur, frekar sólríkt og hlýtt eða um og yfir 20 gráður, en sem betur fer var nokkur vindur sem var oftast á hlið eða aðeins á móti. Þá voru mjög margar drykkjarstöðvar á leiðinni þar sem vatn var afhent í 500 ml flöskum sem var afskaplega gott. Það var því hægt að fá sér sopa á hlaupum og hella restinni yfir sig. Brautin sjálf er frekar erfið því það er talsvert af brekkum í henni. Segja má að fyrstu brekkurnar séu frá km 11 til 16 en þá taka við tveir km með býsna brattri brekku niður. Frá km 20 til 31 má segja að sé ein samfelld brekka en aðeins mismunandi brött. Þegar upp var komið tekur síðan við um 10 km niðurhlaup sem getur tekið ansi vel í eftir allt puðið upp. Mér gekk bara ljómandi vel í þessu rúlli og náði að keyra mun hraðar síðustu 10 km en þeir sem voru í kringum mig. Að hluta til þakka ég það stífum æfingum á rjúpnaveiðum tvær síðustu vikurnar fyrir hlaupið því aðstæður þar höguðu því þannig að ég þurfti að ganga mjög hátt uppí bratt fjalllendi til að komast á rjúpnaslóðina og síðan auðvitað niður aftur. Þegar upp var staðið munaði ekki nema rúmri mínútu á fyrri og seinni hlutanum og ég endaði með að hlaupa á mínum næst besta tíma þetta árið á rúmlega 3:26.
Þegar þetta er skrifað standa yfir stífar æfingar til að reyna að klára verkefnið með sæmd þann 20. janúar nk. í Dubaí. Takist mér að klára það hlaup tekst mér að klára verkefnið 10 maraþon á 10 mánuðum. Ég reyndar tók smá forskot á sæluna með því að hlaupa maraþonvegalengdina á æfingu þann 17. desember sl. Það var eiginlega óvart því það stóð ekki til. Ég var í sveitinni með Þóru og hafði hugsað mér að taka 36 km æfingu. Við fórum saman af stað í kolsvarta myrkri og hlupum sem leið lá frá ættaróðalinu Snældubeinsstöðum sem er næsti bær við Kleppjárnsreyki í Reykholtsdal. Það er kannski rétt að geta þess í framhjáhlaupi að Snældubeinn og Kleppjárn voru tveir af landnámsmönnunum okkar og því sögufrægir í þeim skilningi. En hvað um það, við hlupum sem leið lá austur Reykholtsdal sunnanmegin, en þar er mishæðóttur malarvegur og frekar lítil umferð. Þegar komið var að bæ sem heitir Auðsstaðir og er innsti bærinn á afleggjara sem liggur framhjá svokölluðu Rauðsgili voru komnir 13 km og þar snerum við til baka. Það var ágætt því þegar við höfðum komið að Rauðsgili fór að hvessa hressilega og síðustu tveir km fyrir snúning voru býsna strembnir með sterkan mótvind beint í nebbann. Hann var síðan auðvitað með okkur til baka. Þegar við vorum komin aðeins lengra eða um 18 km skildu leiðir. Þóra hélt áfram sömu leið til baka heim að ættaróðalinu en ég tók afleggjara og skellti mér yfir dalinn og í hann norðanverðan og hélt aftur af stað í austur. Til að ná mínum 36 km þurfti ég að hlaupa 5 km aftur frameftir og sömu leið til baka. Það var heilmikið puð því þá var vindbelgingurinn á móti en sem betur fer þó aðeins skáhalt en ekki beint í smettið. Þegar 5 km voru komnir datt mér það snjallræði í huga að taka 1 km í viðbót og ná þannig 38 km æfingu. En það fór auðvitað eins og það fór þannig að ég stóðst ekki mátið og lengdi um 2 km til viðbótar þannig að 10 km lúppan sem mig vantaði uppá að ná 36 km endaði í 16 km lúppu og þar með varð ég að klára 42,2 km til að komast aftur heim. Ég er hins vegar harðákveðinn í að endurtaka þetta aftur næsta sumar. Aðstæður allar eru þannig að hægt væri að gera mjög skemmtilega helgaræfingu úr þessu og bjóða uppá ýmsar vegalengdir. Ég sé fyrir mér að mögulega vilji einhverjir þreyta með mér Snældubeinsstaðamaraþonið (sem er stytting á hinu raunverulega og markaðsvæna nafni sem er; Landnámsmannamaraþonið frá Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal til Gilja í Hálsasveit í Borgarfirði) en síðan er í raun hægt að bjóða uppá hvaða vegalengd sem er. Hver og einn mælir einfaldlega hversu langt hann vill hlaupa út og þá er jafn langt til baka. Á Kleppsjárnsreykjum er þessi fína sundlaug og heitir pottar, gott tjaldstæði og síðast en ekki síst er hægt að fá sér borgara og bjór (eða aðra hleðslu) að hlaupi loknu á veitingastað Kleppsjárnsreykja. Þar fyrir utan er hver gististaðurinn á fætur öðrum að spretta upp í sveitinni eða að fá andlitslyftingu þannig að það væri auðvelt að gera úr þessu sveitarómantíska hlaupaferð. Ef áhugi væri fyrir hendi væri sennilega ekki stórmál að láta mæla löglegar vegalengdir þannig að hægt væri að hafa þetta opinber keppnishlaup í t.d. maraþoni, hálfu og 10 km. En það leiðir tíminn í ljós.
Eftir árið liggur fyrir að maraþon tölfræðin (opinber og viðurkennd hlaup) frá upphafi er þannig að 23 maraþon eru að baki í 10 löndum. Fjórtán þessara maraþona voru hlaupin erlendis og 9 á Íslandi. Sjö þessara hlaupa hafa verið hlaupin í höfuðborgum og þar af þremur á Norðurlöndunum. Hingað til eru heimsálfurnar orðnar 4 þar sem þessi hlaup hafa verið hlaupin. Þá eru 4 af þeim 6 stóru (Boston, NY, Chicago, London, Berlín og Tokyo) að baki og væntanlega verða þau tvö sem eftir eru kláruð á næsta ári ef allt fer að óskum. Þátttakendafjöldinn í hverju hlaupi fyrir sig hefur verið æði misjafn en í Parísarmaraþoninu 12. apríl 2015 var slegið met þegar yfir 50.000 manns voru skráðir þannig að vel yfir 40.000 manns luku því hlaupi og til samanburðar þá voru níu skráðir í Mývatnshlaupið 6. júní 2015 og komust þeir allir í mark!
Á árinu eru 3.244,1 km að baki á 203 æfingum og virkur hlaupatími er rúmar 285 klukkustundir. Samtals eru því km orðnir 26.887,1 síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Ég er því rúmlega hálfnaður með hringinn í kringum hnöttinn ef miðað er við miðbaugslínu (40.075 km) þannig að héðan af tekur það því ekki að snúa við. Keppnishlaupin á árinu voru 10 en það eru eingöngu hlaupin í verkefni ársins og að auki gamlárshlaup ÍR. Vegalengdin í keppnishlaupum er því orðin 393 km.
Markmið næsta árs eru nokkur. Þann 10. apríl næ ég því vonandi að verða 50 ára. Takist það þá tekur við heilt afmælisár, eða til 10. apríl 2018. Af því tilefni er ég búinn að setja saman drög að afmælisdagskrá sem auðvitað getur tekið einhverjum breytingum eftir aðstæðum. En ég er þegar skráður í Stokkhólmsmaraþonið þann 3. júní. Þá er planið að hlaupa í ágúst í Brisbane í Ástralíu. Þá tekur við Berlín í lok september og New York í byrjun nóvember. Takist mér að klára þau tvö síðast nefndu mun ég ná að ljúka þeim 6 stóru. Hugmyndin er síðan að enda afmælisárið með því að hlaupa í mars 2018 á Suður-skautinu. Það á þó eftir að koma betur í ljós því uppselt er í hlaupið og því erum við hlaupafélagarnir á biðlista þar. Við erum samt komnir með staðfesta skráningu árið 2019 þannig að ef við fáum ekki að hlaupa vorið 2018 er planið að hlaupa þá í staðinn í Mendoza í Argentínu. Það er reyndar ekki fyrr en í maí þannig að ef það verður niðurstaðan verð ég bara að teygja örlítið á afmælisárinu! Hlaupið í Mendoza er reyndar mjög áhugavert fyrir ýmsar sakir. Augljóslega er áhugavert fyrir vínáhugafólk að heimsækja Mendoza sem er eitt frægasta vínhérað Argentínu. En sjálf hlaupbrautin er líka áhugaverð. Keyrt er með hlauparana uppí fjallaskörð Andesfjallanna og hlaupið til baka til Mendoza. Það þýðir að nánast öll brautin er ein löng brekka niðurá við!
Gleðilegt nýtt hlaupaár!
Bloggar | Breytt 2.1.2017 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2016 | 12:50
Fyrsta maraþonið
Ég sat undirbúningsfund með hlaupahópnum mínum fyrir Munchen maraþonið þann 9. október nk. í gærkvöldi. Þar var verið að leggja línurnar og sérstök áhersla lögð á að upplýsa þá sem koma til með að hlaupa sitt fyrsta langa keppnishlaup þar. Hvers má vænta og hvað ber að varast. Þessi fundur minnti mig mikið á mína eigin tilhlökkun og spennu fyrir mitt fyrsta maraþon vorið 2009. Eftir það hlaup skrifaði ég frásögn um hlaupið sem birt var á gömlu hlaupasíðunni hlaup.com. Við hrun þeirrar síðu hélt ég að frásögnin hefði glatast að eilífu. Nú í morgun þurfti ég að leita að gögnum úr gamalli tölvu og rakst þá á hinn löngu týnda og minn fyrsta hlaupapistil.
Þar sem nú styttist mjög í mitt 21. maraþon finnst mér vel við hæfi að birta pistilinn aftur ef verið gæti að einhverjir gætu haft gagn af.
24. maí 2009 maraþon í Kaupmannahöfn
Vaknað kl. 6:45 eftir ágætan nætursvefn, enda gengið snemma til náða kvöldið áður. Morgunmatur, 3 ristaðar brauðsneiðar með banana og drukkið grænt te með. Græna teið er góð leið til að koma meltingunni af stað, auk þess sem það hefur verið sannað að það hefur lækningamátt. Uppúr kl. 7:30 var farið í gallann sem tekinn hafði verið til kvöldið áður. Hlaupanúmerið nælt á viðeigandi stað og pósað fyrir myndatöku. Allt til reiðu. Út kl. rúmlega átta. Við Margrét höfðum fengið í lið með okkur vini okkar, Þórð og Sune, sem skutu yfir okkur skjólshúsi meðan dvalið var í Köben. Það kom mér mest á óvart að Þórður skyldi nenna að fara á fætur þetta snemma og fylgjast með startinu. Hann hafði miklar væntingar til mín og taldi mig hiklaust eiga að stefna á þriðja sætið. Eftir að ég hafði útskýrt fyrir honum að hóflegar væntingar væri að ná því að vera meðal fyrstu þúsund í mark fannst mér hann missa dálítið áhugann. En hvað um það hann var vaknaður og kominn á fætur og með í för. Við höfðum mælt okkur mót við Björn Rúnar Lúðvíksson, hlaupafélaga úr Skokkhópi Garðabæjar, og fjölskyldu hans, Rósu og syni þeirra Brynjar og Guðbjörn. Við Bjössi tókum létta upphitun eftir uppskrift og teygðum eftir reglum. Hittum aftur fjölskyldur og vini og fórum úr utanyfirgallanum og stóðum þá í fullum herklæðum dagsins. Þau samanstóðu af hlýrabolum, stuttum stuttbuxum, sokkum - sem í mínu tilviki náðu upp að hnjám, og skóm. Í samræmi við tilefnið vorum við vopnaðir tveimur vatnsbrúsum hvor og nokkrum gelbréfum. Aftur pósað fyrir myndatöku. Knús og heillaóskir og við lagðir af stað á Vestre Voldegade þar sem startað skyldi. Á leiðinni sáum við þessa fínu runna sem beinlínis kölluðu á vökvun og urðum við góðfúslega við þeirri ósk. Það kom mér frekar á óvart að sjá tvo karla húka þar á hækjum sér í mestu makindum og ganga örna sinna undir runnunum fyrir allra augum. Veit ekki hversu brátt þeim varð í brók en að minnsta kosti virtist þetta ekki hafa komið þeim á óvart því þeir voru alvopnaðir pappírsþurrkum og vissu greinilega í hvaða aðstæðum þeir gætu lent. Þetta læri ég kannski seinna. Sá reyndar skömmu síðar að röðin á klósettin var orðin ansi löng þannig að kannski var þeim vorkunn, ég hefði þó að minnsta kosti farið hinum megin við runnann eða inn í hann, ég er líka frekar viðkvæmur fyrir að gera þetta fyrir allra augum. Jæja en hvað um það, Vestre Voldgade var mætt á réttan stað og við líka. Við vorum tímanlega í því og ekki orðið mjög þröngt í götunni. Við gátum því þrætt okkur auðveldlega áfram og leitað að réttu blöðrunum, 4:00, 3:45, 3:30 og loks 3:15. Fórum fram fyrir hana og stilltum okkur upp mitt á milli 3:15 og 3:00 blöðrunnar. Þar var gott pláss. Á meðan við biðum spjölluðum við aðeins um skótau samhlaupara okkar og annað markvert sem fyrir augun bar. Óvísindaleg könnun leiddi í ljós að þeir sem voru í kring um okkur voru flestir í Asics þar skammt á eftir voru NewBalance og í þriðja sæti lentu Nike skórnir. Adidas átti fjórða sætið. Lengra nær þekking mín ekki á skótaui. Mér til nokkurrar ánægju sá ég amk tvo aðra keppendur í hnéháum sokkum. Hjarðhegðunin lætur ekki að sér hæða. Nú var prinsinn byrjaður að tala og keppendur farnir að líta á úrin og hoppa meira. Þetta var að fara að gerast. Niðurtalning, ...3,2,1 og bang. Hlaupið var byrjað.
Veðrið var eins og best verður á kosið. Skýjað, lítill vindur og hiti sennilega í kring um 14, 15 gráður. Hersingin liðaðist af stað. Ég setti Garminn af stað um leið og farið var yfir rásmarkið og einnig skeiðklukku sem ég hafði á hinni hendinni. Það kom sér vel því eins og Rúnar Marínó hafði bent mér á var ekki alveg hægt að stóla á Garminn. Hann var góður til að fylgjast með pace-inu en ekki alveg nákvæmur á vegalengdinni. Þá kom skeiðklukkan sér vel. Hraðinn jókst smám saman og fyrsti km var á ca 4:50. Eftir það var hægt að byrja hlaupið og ég var á áætluðum tíma eftir 3 km eða 13:30. Eftir það var stillt á áætlaðan ferðahraða sem átti að vera nálægt 4:30 pace. Til að byrja með hlupum við Björn Rúnar saman en þar sem ég ætlaði heldur hraðar skildu leiðir í rólegheitunum þótt Björn væri alltaf skammt undan framan af. Ég setti stefnuna á að vera alltaf á rétt innan við 4:30 tempói en stóð mig að því að vera stundum að hlaupa nálægt 4:20. Það var ekki planið þannig að ég reyndi að hemja mig. Ótal ráðleggingar góðra félaga flugu í gegnum hugann – ekki of hratt til að byrja með, sekúnda grædd í upphafi er þrjár sekúndur tapaðar í seinni hlutanum. Ekki flókinn útreikningur það. Ég fékk mér ekki vatn á fyrstu drykkjarstöð eftir 4 km en alltaf eftir það. Ég gekk í gegnum stöðvarnar og drakk alveg úr einu glasi - það er framför frá því sem ég hef áður gert í þeim hálfu maraþonum sem ég hef tekið þátt í. Þá hef ég drukkið á hlaupum sem þýðir einn til tveir vatnssopar og restin úr glasinu hefur skilað sér annað. Það er kannski í lagi í 21 km en ég vildi fá allt vatnið á sinn stað í þessu hlaupi.
Fyrstu km liðuðust tíðindalítið hjá og ég naut þess virkilega að horfa í kring um mig og fylgjast með mannhafinu sem bæði voru þátttakendur með mér í hlaupinu og hinum sem stóðu og horfðu á og hvöttu hlauparana. Það er sannarlega mikilsvert að fá góða hvatningu og gefur hlaupinu aukið vægi. Á hinn bóginn er ekki spurning að ég vil sem oftast í framtíðinni vera í þeim hópnum sem fær hvatninguna frekar en vera í hvatningarhópnum. Upplifunin er einstök alla leiðina og verður bara magnaðri eftir því sem á hlaupið líður og þreytan fer að segja til sín. Þá fer spurningin að snúast meira um baráttu viljans við vöðvana en nokkuð annað og þá má með sanni segja að lífið sé í algleymingi. Vinur minn lýsti þessu frábærlega þegar við töluðum saman um hlaupið að því loknu; Lífið er ekki keppni í áhorfi heldur þátttöku. En áður en kom að alvöru baráttu viljans við vöðvana var ég þess mjög meðvitaður að síðustu kílómetrarnir hefðu tilhneigingu til að vilja lengjast. Því varð að spila af skynsemi. Þegar um 10 km voru að baki var ég aðeins á undan áætlun eða á tímanum 44:27. Þetta var ekki mikið en þó um 30 sec sem gat þýtt ein og hálf mínúta í refsingu síðar skv. formúlunni. Á þriðju drykkjarstöðinni við 12 km markið hljóp fram hjá mér par sem var í hrókasamræðum. Eftir að hafa drukkið úr vatnsglasinu hljóp ég aftur af stað og ákvað að hlaupa í humátt á eftir parinu. Mér leist þannig á þau að þar færu vanir hlauparar sem væru ekki að gera þetta í fyrsta skipti. Hann var lágvaxinn og sköllóttur og hljóp að mér fannst eins og maður kominn á virðulegan aldur sem gæti verið kominn nálægt sjötugsaldri. Hún var eitthvað yngri en bæði voru þau í bolum merktum dönskum hlaupaklúbbi og úr því þau gátu verið á spjallinu á hlaupunum virtist þetta ekki vera þeim erfitt. Ég fann fljótt að þetta var gott plan því þau héldu mjög jöfnum hraða rétt innan við 4:30 pace. Ég var viss um að þessu mætti þakka áratuga æfingum þess gamla og var búinn að komast að því að mögulega væri það dóttir hans sem var að hlaupa með honum. Það kom reyndar í ljós eftir hlaupið, þegar ég kannaði hvar parið hafði endað, að þau voru bæði í mínum eigin aldurshópi! Mér til afsökunar þá sá ég aldrei framan í kallinn og hann hljóp dálítið hjólbeinóttur og leit því þannig út aftan frá að hann væri eldri en augljóslega reyndist vera raunin. Við 16 km hlupum við í gegnum Svarta Demantinn þar sem hlaupinu myndi ljúka rúmum 26 km síðar. Mér leið vel og hér var gaman. Margt fólk að hvetja hlauparana enda vorum við hér skammt frá startinu. Ég sá eiginkonuna og vini sem hvöttu mig óspart. Ég varð bæði hnarreistari og skreflengri og gott ef brjóstkassinn færði sig ekki ögn framar. Héðan lá leiðin áfram meðfram Kalvebod Brygge. Skyndilega var nafnið mitt kallað ásamt hvatningarhrópum. Ég leit við og veifaði og sá mann sem ég þekkti ekki í fljótu bragði. Ég velti því fyrir mér nokkra stund hver maðurinn væri og komst helst að því að hér væri gamall skólafélagi úr grunnskólanum. Þegar heim var komið og ég leit á allar góðu kveðjurnar sem mér höfðu borist í gegnum Hlaupadagbókina sá ég kveðju frá manni sem sagðist hafa séð mig á Kalvebod Brygge. Þar var á ferðinni enginn annar en Stefán Þórðarson höfundur Hlaupadagbókarinnar. Alveg makalaust að hann skyldi þekkja mig í þessu mannhafi því væntanlega hefur hann bara séð af mér vonda mynd á dagbókinni. En svo því sé til haga haldið vil ég taka fram að framtakið með Hlaupadagbókina er aldeilis frábært og svo sannarlega hvetjandi tól í alla staði. Hafðu þökk fyrir Stefán!
Þegar hér var komið sögu urðu breytingar. Það fór að rigna – og síðan að blása. Ekki mikið í byrjun en það ágerðist. Vindurinn var kannski ekki mikill á íslenskan mælikvarða en þó þannig að fyrir honum fannst þegar hlaupið var í fangið á honum. Rigningin var einnig köld á köflum. Ég hélt mig við planið og elti gamla og dóttur hans. Þau létu hvorki vind né rigningu á sig fá – og ég ekki heldur. Við 20 km markið sá ég að ég hafði farið síðust 10 km á 45:24 eða á pari eftir 20 km. Gott, planið var að virka og ég var ekki byrjaður að tapa tíma fyrir síðustu kílómetrana ef formúlan myndi ganga upp. Við hálfmaraþonmarkið var ég á tímanum 1:34:45 sem var fínt. Ég hafði fengið mér eitt gel tæplega hálftíma fyrir hlaup og annað um 10 mínútum fyrir hlaup. Ég fékk mér gel við 10 km markið og nú stóð til að fá mér annað. Það reyndist nokkuð erfiðara en ég hélt. Ég var orðinn svo krókloppinn á höndunum að ég ætlaði ekki að ná gelinu úr beltinu. Það kom mér á óvart því mér var ekki kalt að öðru leyti. Eftir smá barning náði ég þó gelinu og innbyrti það. Þá hafði ég dregist aðeins aftur úr hérunum mínum en þó ekki lengra en svo að ég náði þeim von bráðar. Við hlupum áfram og nálguðumst aftur Vestre Voldegade þar sem hlaupið byrjaði. Við hlupum inn í götuna og þar var drykkjarstöð. Hér var eins gott að gæta að sér. Bananahýði og appelsínuberkir ásamt tómum vatnsglösum lágu eins hráviði um allt. Eins gott að stíga ekki á neitt hér. Rúnar Marínó hafði sagt mér lygilega sögu af hlaupara sem í fyrra steig á bananahýði og steinlá og gat ekki lokið hlaupinu. Við veltum fyrir okkur saman hvernig afsökunin fyrir að ljúka ekki hlaupinu hefði hljóðað! Skyldi einhver hafa trúað aumingja manninum? Ég var farinn að skima eftir konunni og vinum og átti hálft í hvoru von á að þau væru hér. Ég hugsaði þó með mér að nú væru þau örugglega komin á einhvern veitingastað aðeins ofar með brautinni og ég myndi allt í einu heyra í þeim hvatningarhrópin. Það stóð algjörlega heima því skömmu seinna sá ég þau þjóta frá borðum sem voru á veitingastað sem var alveg við brautina og hrópa og kalla hvatningarorð. Enn var pósað og reynt að bera sig mannalega. Myndin var flott sem ég sá eftir hlaupið. Ekki að sjá að ég væri að reyna eitthvað á mig. Merkilegt hvað maður getur gert þegar maður er viðbúinn og þykist vera flottur!
Áfram leið hlaupið. Við 26 km urðu nokkur kaflaskipti. Ég veitti því eftirtekt að ég var farinn að hlaupa fram úr býsna mörgum hlaupurum. Ég hélt fyrst að hérarnir mínir væru farnir að auka hraðann en sá fljótt að svo var ekki. Það var farið að hægjast á öðrum hlaupurum. Svona gekk þetta næstu 4 – 5 km, við fórum fram úr tugum og jafnvel hundruðum hlaupara. Þetta var næstum því óraunverulegt. Eins og að horfa á mynd í slow motion. Við 30 km markið sá ég að síðustu 10 km voru hlaupnir á 44:04 mín þannig að eitthvað höfðum við aukið hraðann. En mér leið vel. Nú voru -bara- um 12 km eftir og því fannst mér orðið tímabært að segja skilið við hérana mína. Tími til kominn að taka á því! Ég hljóp upp að hérunum og fram hjá þeim og leit aldrei um öxl eftir það. Hefði kannski betur gert það því þá hefði ég komist að því að sá gamli var um það bil jafngamall mér. En hvað um það 31 og 32. Nú var eitthvað nýtt að gerast. Ég fór að finna til þreytu. Allt í einu var ekki eins auðvelt að halda hraðanum. Snarlega skipti ég um taktík og hætti að hugsa um að auka hraðann heldur skyldi nú einbeitt sér að því að halda. Halda, halda, halda. Nú kom sér vel að vera vanur fj.. hlaupabrettinu. Hversu oft var ég ekki í vetur búinn að hlaupa eins og hamstur á brettinu á fyrirfram ákveðnum hraða þar sem ég taldi niður km og hélt hraðanum sama hvað. Nú skyldi það endurtekið. Þetta gekk vel, 33, 34, 35 og ég hélt hraða. Við 35 km bættist þó við að ég fór að finna fyrir verkjum framan í lærvöðvunum. Þetta var líka nýtt og þetta var erfiðara. Áfram hafði ég þó haldið að fara fram úr hlaupurum hvort sem þeir voru farnir að ganga, hættir að hlaupa eða á hlaupum. Þegar hér var komið sögu gerðist það í fyrsta sinn í langan tíma að það kom hlaupari upp að hliðinni á mér og fór fram úr mér. Léttur í spori og fjarlægðist. Ég kannaði hraðann hjá mér og sá að ég hélt hraða. Þá var þetta í lagi. Ég stefndi enn að því að klára á undir 3:10. Halda, halda, halda. Ég var á brettinu, einn km í einu 36, 37. Bara 5 eftir, bara rúmar 20 mín. Nú sá ég að ég var farinn að nálgast þann sporlétta. Fínt, nýr héri. Við 38 km var ég kominn á hælana á honum, hann leit við og sá að hann fékk fylgd. Örlítil hraðaaukning hjá honum og bilið jókst á ný. Hjá mér var aðeins ein hugsun, halda, halda, halda. Við 39 km var ég kominn aftur í hælana á héranum, 40 km og við hlupum samsíða. Við 40,5 km heyrði ég andardráttinn í honum, við 41 km hætti ég að heyra í honum. Ég var aftur orðinn einn. Áfram, áfram, áfram, ná sem flestum. Við 42 km voru nokkrir í hnapp. Ég skyldi fram úr. Hljóp upp að þeim en þá tóku tveir sig til og gáfu í. Ég átti ekki séns. En hvað um það, ég elti og við hirtum nokkra upp í rennunni. Síðustu rúmir tveir km voru hlaupnir á rétt rúmum 9 mínútum eða nálægt 4:10 pacei. Ég sá að ég var vel undir 3:10 skv. klukkunni og vissi að ég átti einhverjar sekúndur upp á að hlaupa þar sem þetta var tími miðað við startklukkuna. Markmiðinu var náð. Tíminn 3:09:16 með negatívu splitti, 1:34:45 og 1:34:31.
Að eigin mati fullkomlega heppnað hlaup og alveg eftir áætlun. Mér leið eins og ég get ímyndað mér að silfurverðlaunahöfunum okkar hafi liðið á Ólympíuleikunum þegar ég fékk verðlaunapeninginn um hálsinn. Þeim leið vel. Ég gekk áfram og fékk mér drykk. Drakk hann rólega eins og ég ætti allan heiminn og hann væri að bíða eftir mér. Til mín kom kona og rétti mér plastyfirbreiðslu. Ég klaufaðist eitthvað við hana þannig að konan aumkvaði sig yfir mig og bjó til skikkju úr yfirbreiðslunni sem leit út eins og skikkjan sem Zorro notar við vandasöm verkefni, nema þessi var blá. Skikkjan var góð, hélt rigningunni frá og ég fékk mér orkustöng og annan drykk. Ég gekk um svæðið og horfði á áhorfendurna sem horfðu til baka á mig. Ég var að leita að konu og vinum og áttaði mig á því að við hefðum átt að ákveða fyrirfram hvernig við myndum hittast. Þetta var ekki alveg einfalt. Ég ákvað að snúa að markinu og bíða og sjá hvort ég myndi ekki finna Bjössa. Ég beið nokkra stund en sá hann ekki. Ég hugsaði með mér að hann væri sennilega kominn í markið og væri byrjaður að svolgra í sig ljúffenga drykki og gæða sér á appelsínum og banönum þannig að ég snéri til baka til að leita að honum. Síðar kom í ljós að ég hafði snúið við rétt áður en hann kom í mark með allar tegundir krampa sem hægt er að nefna. Ég skil reyndar ekki enn hvernig hann gat klárað hlaupið eins og hann var útleikinn eftir þennan ófögnuð. Sennilega hefur það bjargað honum í horn að litli strákurinn hljóp með honum síðustu 2 km. Þessi litli á eftir að gera fína hluti og ekki bíð ég í keppni við hann þegar hann verður árinu eldri! Pabbinn verður sennilega að sætta sig við það að hann mun héðan í frá aðeins sjá í afturendann á stráknum ef þeir hlaupa saman. En bæting hjá pabbanum upp á næstum hálftíma er ekkert kex þótt kallinn blóti og bölsótist yfir tímanum sem hann fékk. Hann ætti bara að vera ánægður enda kall kominn flokk eldri en 45 ára!
Ég gekk um svæðið í sæluvímu. Fékk mér banana og meira að drekka. Á einum stað var boðið upp á heitt kakó sem var vel þegið. Við enda svæðisins var boðið upp á öl. Ég sem sannur íþróttamaður sneiddi hjá þessum bás – enda var ölið áfengislaust. Tilgangslaust. Ég hugsaði með mér að það væri ómögulegt að finna Bjössa við þessar aðstæður enda vissi ég ekki hvort hann væri kominn og farinn eða að koma og fara eða löngu farinn. Ég ákvað því að rölta að útganginum og finna mitt fólk. Það reyndist erfiðara en ég hélt því keppendur komust ekki út af svæðinu vegna fjölda vina og vandamann sem biðu við útganginn. Þegar ég var um það bil að komast út sá ég mína heittelskuðu sem kastaði til mín poka með þurrum fötum þannig að ég gat snúið við og skipt um föt inni á keppnissvæðinu en þurfti ekki að gera það fyrir allra augum. Það var gott að skipta um föt og ganga út sæmilega heitur og nokkuð góður. Þegar út var komið fórum við að velta fyrir okkur hvernig við myndum finna Björn og hans fölskyldu. Það gekk vel enda eins og Íslendinga er siður rekast þeir alltaf hver á annan í útlöndum. Við Rósa, kona Björns, töluðum okkur saman í gegnum gsm símana og enduðum símtalið á því að horfa hvort á annað. Örfáum sekúndum seinna mætti Björn í fylgd sinna krampa. Dálítið eins og að horfa til miðalda þar sem menn riðu um héruð með sína drauga í eftirdragi. Viðeigandi, enda Björn útlítandi eins og héraðshöfðingi sem kann að temja sitt lið. Hér skyldu leiðir í bili því við ætluðum hvorir til síns heima og hittast um kvöldið yfir góðri nautasteik. Við Margrét vorum ein á ferð því vinir okkar, Þórður og Sune, höfðu gefist upp á rigningunni og farið heim áður en hlaupinu lauk. Þeir máttu þó eiga það að afsökunin sem þeir höfðu fyrir því að fylgja okkur ekki alla leið var sú að þeir fóru heim og létu renna í heitt bað og volgt rauðvínsglas. Við það stóðu þeir með sóma. Á leiðinni heim fundum við stað sem afgreiddi öl miðað við réttar forsendur. Það voru góð kolvetni!
Um þetta fyrsta, og vonandi ekki síðasta, maraþonhlaup mitt er ekki mikið meira að segja. Enda þykir sennilega mörgum sem nennt hafa að lesa alla þessa leið löngu nóg komið. Mér til afsökunar hef ég það að ég vil gjarnan skrá þessa sögu fyrir sjálfan mig mér til upprifjunar síðar og ef einhverjir hafa gagn eða gaman af er það fínt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2016 | 08:28
Svör við nokkrum spurningum yfirlækna á hjartadeild Landspítala.
Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 30. júlí sl. er að finna grein eftir þrjá yfirlækna hjartadeildar Landspítalans. Annars vegar er þar að finna ágæta lýsingu á heilbrigðiskerfinu á Íslandi og starfsemi hjartalækninga á Landspítala. Hins vegar er að finna bollaleggingar læknanna vegna áforma um nýjan einkaspítala og spyrja þeir nokkurra spurninga vegna þeirra áforma. Það er sjálfsagt að verða við ósk þeirra um svör.
Eins og fram kemur í greininni finnst læknunum það vekja furðu hvert umfang hugmyndanna virðist vera því það sé meira en áður hafi verið kynnt. Í því samhengi er rétt að rifja upp að á árunum 2009-2012 voru áform uppi um liðskiptaspítala og hótel á sömu lóð og gert er ráð fyrir undir Medical Center Pedro Brugada. Þá var gert ráð fyrir spítala með 120-150 herbergjum og hóteli með 250-300 herbergjum. Þá eins og nú var gert ráð fyrir að allt að 1000 varanleg störf yrðu til vegna verkefnisins. Þess misskilnings virðist gæta að verið sé að ræða um 1000 heilbrigðisstarfsmenn. Svo er ekki. Almennt er gert ráð fyrir að á fjögurra stjörnu hóteli starfi að meðaltali 12 manns fyrir hver 10 herbergi. Sé hótelið 5 stjörnu þá er talan 20 manns. Það liggur því fyrir að eingöngu vegna hótelsins geti komið til með að starfa allt að 600 manns.
Tilgangur heimsóknar Brugada til Íslands í byrjun maí sl.
Í byrjun maí sl. kom Brugada til Íslands. Megintilgangur hans með þeirri heimsókn var sá að hitta einhverja af forvígismönnum hjartalækninga á Íslandi. Lagði hann strax í upphafi á það áherslu að hann myndi vilja hitta amk einn nafngreindan yfirlækni hjartadeildar Landspítalans. Ástæðan var sú að hann sagðist verða að vera sannfærður um það sjálfur að ef hann kæmi til landsins með starfsemi þá yrði það í góðri sátt og samvinnu við hjartadeild Landspítalans. Á þessum fundi, með yfirlæknum hjartadeildar Landspítala, kom það skýrt fram hverjar áhyggjur þeir hefðu ef Brugada kæmi til starfa á Íslandi. Að sama skapi kom það skýrt fram af hálfu Brugada að hann myndi undir engum kringumstæðum sækjast eftir starfsfólki úr hinu opinbera íslenska heilbrigðiskerfi. Þvert á móti sæi hann fyrir sér að hann gæti lagt íslensku heilbrigðiskerfi lið með bæði samstarfi og samvinnu. Í því samhengi var bæði rætt um þjálfun íslenskra lækna og að jafnvel gæti Brugada og teymi hans aðstoðað Landspítalann ef á þyrfti að halda með því að leggja honum til starfsmenn ef spítalinn ætti við tímabundinn mönnunarvanda. Að auki var rætt um rannsóknarsamvinnu.
Í þessari sömu heimsókn hitti Brugada heilbrigðisráðherra og landlækni, Birgi Jakobsson, og greindi þeim báðum frá áformum sínum. Honum var vel tekið á báðum stöðum en jafnframt bent á að þeir hefðu sínum skyldum að gegna við íslenska heilbrigðiskerfið og að þeirra hlutverk væri að gæta þess. Á þessum tíma lá ekki fyrir hvar einkaspítala Brugada yrði fundinn staður.
Eftir þessa heimsókn Brugada til landsins taldi hann forsendur vera fyrir því að hann gæti komið hingað til starfa í sátt og samvinnu við íslenskt samfélag. Því var hafist handa við að leita að heppilegri lóð undir starfsemina og eftir viðræður við nokkra aðila varð niðurstaðan sú að semja við Mosfellsbæ um leigu á lóð undir starfsemina með kaupréttarákvæði sem fyrirhugað er að nýta fáist ívilnanir vegna verkefnisins frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Hvers vegna ívilnanir?
Ég deili ekki áhyggjum yfirlæknanna yfir því að mögulega verði efnahagslegum stöðugleika hérlendis ógnað ef ráðist verði í tvær stórar spítalabyggingar samtímis. Fyrir það fyrsta liggur fyrir að þótt einkaspítalinn verði ekki lítill þá verður hann heldur ekki sérlega stór. Um er að ræða sérhæfðan spítala þar sem gera má ráð fyrir að 200 - 400 starfsmenn komi til með að vinna á. Í samanburði við Landspítalann telst það ekki stór spítali. Þar fyrir utan er verið að byggja fjölmörg hótel um alla borg sem ættu þá alveg eins að ógna efnahagslegum stöðugleika ef uppbygging þeirra heldur áfram á sama tíma og nýr Landspítali verður reistur.
Það er hins vegar út af fyrir sig rétt að það er ekki endilega gott fyrir efnahagslegan stöðugleika að byggja um of á mörgum séríslenskum verkefnum á sama tíma. Enda segir í frumvarpi til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi: ... er áhyggjuefni að hagkerfið verði á næstu árum keyrt áfram af innlendri eftirspurn sem leitt geti til þess að þjóðhagslegur sparnaður mun minnka á ný og viðskiptaafgangur snúast í halla. Til að að sporna við þeirri þróun er mikilvægt að renna styrkari stoðum undir fjárfestingar sem skapa auknar útflutningstekjur til framtíðar og viðhalda eðlilegum vexti fyrir íslenskt hagkerfi. Í frumvarpinu er jafnframt bent á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar sé tekið fram að ríkisstjórnin muni leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýti undir fjárfestingu og fjölgun starfa og að sérstök áhersla verði lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtatækifæra framtíðarinnar.
Yfirlæknarnir segja réttilega í grein sinni að margt sé óljóst hvað fyrirhugaða starfsemi varðar sem og um eignarhaldið. Því ætti það að vera þeim og öðrum fagnaðarefni að til stendur að sækja um ívilnanir skv. lögum nr. 41/2015.
Meðal skilyrða fyrir því að ívilnanir verði veittar er eftirfarandi:
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, meðal annars upplýsingar um tímaáætlun framkvæmda verkefnis, ítarlega lýsingu á verkefni, rekstraráætlun, stærð verkefnis og hvernig fjármögnun verði háttað.
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um þá aðila sem að standa að fjárfestingarverkefni og hvernig skiptingu eignarhluta er háttað milli þeirra.
Að fyrir liggi rökstuðningur fyrir því að ívilnun sé forsenda þess að verkefni verði að veruleika hér á landi.
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um þá sem koma að fjármögnun verkefnis.
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um markaðinn sem félagið hyggst starfa á, markaðslönd og markaðsstöðu.
Að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi.
Aðstandendur verkefnisins hafa frá upphafi gert ráð fyrir að það muni taka tíma að útbúa öll þau gögn sem til þarf áður en sótt verður um ívilnun. Það er því ekki tilviljun að í samningnum um lóðina í Mosfellsbæ sé gert ráð fyrir tímafresti til 1. desember 2017 til að leggja sambærileg gögn fyrir bæjarfélagið.
Það þarf engum að detta til hugar að fjárfestar séu tilbúnir til að setja allt að 50 milljarða í uppbyggingu á einkaspítala og hóteli á Íslandi fyrir erlenda sjúklinga án þess að vera búnir að fá samþykki íslenskra stjórnvalda fyrir framkvæmdinni. Það samþykki sem þeir treysta á er ívilnunarsamningur við íslenska ríkið. Það er hins vegar allt annað mál og önnur spurning að samkvæmt íslenskum lögum þarf einungis úttekt og samþykki Landlæknis fyrir því að mega opna hér á landi spítala.
Niðurlag.
Eitt af skilyrðum þess að einkaspítali eins og sá sem fyrirhugaður er í Mosfellsbæ geti gengið upp er að fyrir hendi sé samningur við alhliða sjúkrahús sem geti tekið að sér að bregðast við ef eitthvað kemur upp á í aðgerð eða ef sjúklingar fá alvarlega fylgikvilla meðferðar. Um þessi atriði hafði verið rætt áður við þáverandi spítalaforstjóra þegar fyrra verkefnið í Mosfellsbæ var í undirbúningi. Þá var gert ráð fyrir að Landspítalinn yrði sá bakhjarl sem hægt yrði að leita til gegn því að fyrir þjónustuna yrði greitt fullt verð.
Af framangreindu má sjá að enn er langt í að hægt sé að slá því föstu að af verkefninu verði. Aðstandendur verkefnisins töldu að gefast myndi ráðrúm til að svara viðeigandi embættismönnum og yfirvöldum öllum þeim spurningum sem þau óskuðu svara við beint og milliliðalaust. En það má einnig hafa þennan háttinn á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.7.2016 | 10:09
Íslenskir læknar á einkaspítalanum
Nokkrar athugasemdir vegna ummæla Kára Stefánssonar og Kristjáns Þórs Júlíussonar um vitneskju þeirra um að haft hafi verið samband við íslenska lækna um að koma til starfa á fyrirhuguðum einkaspítala.
Á þeim fundum sem áttu sér stað í vor, þegar Pedro Brugada kom til landsins, með heilbrigðisráðherra, landlækni og forsvarsmönnum hjartadeildar LSH kom það skýrt fram í máli Brugada að hann myndi ekki koma til starfa á Íslandi nema um það væri sátt. Í því fælist m.a. að hann myndi ekki taka íslenska lækna úr hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Reyndar þvert á móti, því hann sagðist vonast til þess að geta aukið þekkingu þeirra með samstarfi. Þetta var einhliða loforð af hans hálfu og í einhverju viðtali við Henri Middeldorp talaði hann um að gert hefði verið samkomulag um þetta við heilbrigðisyfirvöld. Við þetta samkomulag virtist enginn kannast. Þetta var kannski óheppilega orðað af Henri þar sem samkomulag felur í sér að tveir eða fleiri aðilar semji um eitthvað. Hið rétta er samt það að Pedro Brugada leit á þetta sem einhliða skuldbindingu af sinni hálfu sem honum er að sjálfsögðu frjálst að taka á sig og þarf ekki samkomulag til.
Á þessum sömu fundum kom fram að Brugada hefði áhuga á því að miðla af sinni þekkingu til íslenskra lækna. Það væri hægt að gera hvort heldur sem væri inni á Landspítalanum sjálfum eða á hans einkaspítala. Í því samhengi var á það bent að margir læknar Landspítalans vinna þar í hlutastarfi og sinna síðan sínum einkapraxís annað hvort á sínum eigin stofum eða með því að fara í vinnuferðir á erlenda spítala. Ef Brugada kæmi hins vegar hingað til lands með sína starfsemi þá mætti vel sjá fyrir sér að íslenskir læknar myndu stunda sinn einkapraxís á spítala hans og fá þar viðbótar þjálfun sem síðan myndi gagnast íslenskum sjúklingum þegar þessir sömu læknar sinntu sínum störfum í opinbera kerfinu.
Þessar hugmyndir voru viðraðar við íslenska lækna þegar í þessari heimsókn og voru á engan hátt eitthvað sem leynt átti að fara. Skömmu eftir heimsókn Brugada til Íslands átti hann um klukkustundar langt símtal við Kára Stefánsson þar sem hann ræddi hugmyndir sínar í víðu samhengi. Það kemur því alls ekki á óvart þótt Kári upplýsi um að hann hafi búið yfir þessari vitneskju.
Að auki er það ekkert launungarmál að það er fagnaðarefni ef einhverjir íslenskir læknar sem starfa erlendis sjá tækifæri til þess að flytja heim, vegna einkaspítalans, og hefja störf á honum. Heimkomnir eru meiri líkur á því að þeir verði tilbúnir til að létta undir á LSH og taka að sér þar hlutastörf sem þeir myndu annars ekki hafa gert.
Það er síðan önnur umræða hvort verið geti að komi til starfa á Íslandi nýr einkaspítali hvort það geti hvatt unga fólkið okkar til að fara í meira mæli en nú er í heilbrigðistengt nám? Jafnvel þannig að mengi útskrifaðs starfsfólks í heilbrigðisgreinum verði meira fyrir íslenska heilbrigðiskerfið og einkaspítala samanlagt en það hefði annars verið fyrir eingöngu íslenska heilbrigðiskerfið?
Þetta voru röksemdir sem notaðar voru árin 2009-2011. Því miður varð ekki af þeim áformum enda hefur nákvæmlega ekkert breyst í mönnunarvandanum síðan þá. Nema ef vera skyldi til hins verra. Mér sýnist því að það væri kannski ráð að reyna að ræða um alvöru lausnir á þessu sviði og taka nýjum hugmyndum með öðrum hætti en grjótkasti. Það er auðvitað sjálfsagt að ræða bæði kosti og galla á nýjum hugmyndum en það er allt í lagi að gera það án þess að fá andarteppu.
Mönnunarvandinn hefur verið vandamál til margra ára og ég get ekki séð að gripið hafi verið til annarra ráða en að tala um það ár eftir ár án nokkurra aðgerða. Á meðan bitnar það bæði á sjúklingum og starfsfólki.
Ég hef ágæta reynslu af þessu sjálfur. Ég fór í gegnum lyfjameðferð vegna krabbameins sumarið 2006 og fylgdi eiginkonu minni heitinni í gegnum krabbameinsmeðferðir sumrin 2013 og 2014. Ástandið var ekkert sérlega gott árið 2006 en það var ennþá verra árin 2013 og 2014. Ég finn svo sannarlega til með þeim sem þurfa að leita til kerfisins 2016. Ég segi kerfisins því ef ekki væri fyrir okkar frábæra starfsfólk væri ástandið beinlínis skelfilegt.
Það væri forvitnilegt ef heilbrigðisyfirvöld myndu taka saman lista yfir hversu margir heilbrigðismenntaðir starfsmenn vinna ekki lengur í faginu? Einhver gárunginn nefndi í mín eyru að sennilega væru flugfreyjur ein best heilbrigðismenntaða starfsstéttin utan heilbrigðiskerfisins. Athyglisvert ef satt er.
Þegar ég stóð frammi fyrir því að velja mér grein í háskóla langaði mig mest til að læra líffræði. Þar sem mér fannst þá að atvinnumöguleikar mínir yrðu frekar takmarkaðir ákvað ég að velja annað fag og sit því uppi með lögfræðimenntun.
Það má því eiginlega segja að Kári Stefánsson og Decode hafi komið of seint inn í mitt líf.
Gunnar Ármannsson stjórnarmaður í MCPB ehf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar