Með dauðann að leikfangi

Birt í Fréttablaðinu 12. maí 2015.
(Gæsalappir og þankastrik í bloggfærslunni vistuðust ekki).

Hundrað synjað um undanþágu. Þessi fyrirsögn Fréttablaðsins þann 8. maí sl. fangaði augað. Í fréttinni mátti m.a. lesa eftirfarandi: Tvö hundruð hafa fengið undanþágu fyrir myndgreiningu en hundrað veikum verið synjað af undanþágunefnd. Innan gæsalappa í fréttinni er eftirfarandi haft eftir talsmanni viðkomandi stéttarfélags: þeim undanþágum sem er hafnað, þær getum við ekki veitt. Einnig er eftirfarandi haft eftir talsmanninum: Okkur finnst að þessar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin hljóti að liggja hjá ráðamönnum. Í fréttinni er einnig haft eftir lækni að staðan sé hrikaleg og að hann óttist afleiðingar verkfalls á Landspítalanum.

Um verkföll, ábyrgð og afleiðingar vinnustöðvunar er hægt að hafa langt mál. Það mál hefur áður verið fært í letur. Röksemdir með og á móti verkfallsréttinum hafa verið ræddar í þaula. En hvernig skyldi þessum hundrað líða sem synjað var um undanþágu? Hvernig skyldi ættingjum þeirra líða? Hvernig skyldi þeim lítast á röksemdirnar? Í sannleika sagt þá held ég að flestir sem lenda í þessari aðstöðu að vera einn af tiltekinni óskilgreindri tölfræði velti lítið fyrir sér víðara samhengi hlutanna. Þar sem viðkomandi hættir allt í einu að vera sjálfstæð persóna með sjálfstæðar þarfir fyrir aðstoð samborgaranna en verður allt í einu hluti af óskilgreindu ópersónugreinanlegu mengi í fyrirsögn í dagblaði. Í þeirra huga snýst málið um þeirra eigið líf, og kannski möguleikann á að fá að lifa því áfram. Þeir sem ekki hafa reynt það á sjálfum sér eða nánum aðstandanda að lifa við dauðans angist geta ekki sett sig í spor hinna, en þeim væri samt hollt að reyna það.

Í innsíðu frétt um sama mál er haft eftir talsmanninum: Þeim undanþágum sem er hafnað, þær getum við ekki veitt. Það er algengt að það sé verið að sækja um undanþágur ótilgreint. Einmitt. Það er sem sagt sett í hendur umsækjenda um undanþágur annars vegar og verkfallsvarða hins vegar að bítast á um hvort umsókn sé svona eða hins segin. Ef annar hvor aðilinn er ekki nógu vandvirkur þá bíður afgreiðslan. Í augum þess sem bíður er annar hvor mögulega með lykilinn að því hvort lífinu lýkur fyrr en seinna. Í fyrirsögn dagblaðsins er viðkomandi samt bara einn af hundrað. Ónafngreindur. Langflestir sem lesa fyrirsögnina hugsa ekki til einstaklingsins eða fjölskyldu hans. Þeir sjá bara fyrirsögn sem vísar til kjarabaráttu. Þeir sjá ekki angistina sem þeir upplifa sem eru svo óheppnir að vera hluti af þessu ónafngreinda mengi. Fæstir upplifa þessa hlið, sem betur fer.

En er það þetta sem við viljum? Óhagræðið sem við sem samfélag höfum samþykkt að verkföll geti og jafnvel eigi að hafa í för með sér, er það alltaf ásættanlegt? Jafnvel þótt það geti kostað mannslíf? Getum við samþykkt að það sé ásættanlegt að deiluaðilar geti reynt að varpa ábyrgð á hinn aðilann í vinnudeilu jafnvel þótt einn og einn deyi þess vegna? Fyrir þann sem eftir lifir er svarið jafnan nei. Sá sem fer hefur ekki atkvæðisrétt okkar megin. Þeir sem í þessu sporum standa hafa oftast ekki afgangsorku til að andæfa málflutningi sem þessum. Því er auðvelt að afgreiða þennan hóp sem tölfræði eða óskilgreint mengi. Fyrirsögn í vinnudeilu.

Í augum þeirra sem eiga sér kannski óljósa framtíð er öll truflun á meðferð sérlega erfið. Ýmsar erfiðar hugsanir og tilfinningar fara af stað. Óvissan, óttinn, biðin, getan til að halda andlitinu gagnvart þeim nánustu, getan til að halda reisn, getan til að leyna þeim nánustu hversu erfið staðan er, getan til að lifa.

Í baráttunni um betri kjör virðumst við hafa samþykkt að næstum allt sé leyfilegt. Líka að taka ákvarðanir fyrir þessar hundrað fjölskyldur. En í þeirra augum eru baráttuaðilar með mikið vald. Vald sem við flest viljum að sé frekar í höndum æðri máttar. Ef öðrum deiluaðila skjöplast getur afleiðingin verið lok lífsins.

Þótt mörgum kunni að þykja það ósanngjarnt ætla ég samt að leyfa mér að setja þá skoðun mína fram að mér finnst það ekki rétt að þeir sem hafa tekið þá ákvörðun að sinna sjúkum geti leyft sér að leggja niður störf í kjarabaráttu. Ég er ekki sannfærður um að rétta kerfið sé það að undanþágunefnd eigi að hafa alræðisvald um það sem gert er, eða ekki gert.

Þarna erum við í augum þessara hundrað að færa allt að því guðum líkt vald í hendur einstaklinga. Sem geta síðan leyft sér að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á líf sjúklinga, sjúklinga sem í þeirra augum eru óskilgreindar andlitslausar persónur í óskilgreindu stærra mengi. Tölfræði. Hundrað.


Þú opnast á ný í nótt

Margrét Gunnarsdóttir f. 23. janúar 1965, d. 23. ágúst 2014.

Þín nótt er með öðrum stjörnum.
Um lognkyrra tjörn
laufvindur fer.
Kallað er á þig og komið
að kveðjustundinni er.
Dimman, þögnin og djúpið
og blöðin þín mjúk
sem bærast svo hljótt,
liljan mín hvíta
sem lokast í nótt.

Orð ein og hendur sig hefja,
bænir til guðs
úr brjósti manns.
Stíga upp í stjörnuhimin
og snerta þar andlit hans.
Úr heimi sem ekki er okkar,
æðra ljós skín
en auga mitt sér,
liljan mín hvíta
sem hverfur í nótt frá mér.

Úr lindunum djúpu leitar
ást guðs til þín
yfir öll höf.
Hún ferjar þig yfir fljótið
og færir þér lífið að gjöf.
Og söngnum sem eyrað ei nemur
þér andar í brjóst.
Dreymi þig rótt,
liljan mín hvíta
sem opnast á ný í nótt.

Höf: Gunnar Dal.


Áramótaannáll 2014

Í áramótapistli síðasta árs gat ég þess að markmið ársins 2014 væri að halda áfram að hlaupa og vonandi taka þátt í fleiri maraþonum. Þau markmið gengu að hluta til eftir. Ég hljóp London maraþonið þann 13. apríl á tímanum 03:06:38 og tveimur vikum seinna tók ég þátt í Vormaraþoninu hér heima og kláraði það á tímanum 03:15:52. Ég hljóp lítið eftir þessi hlaup en byrjaði þó aftur af auknum krafti eftir hjartabrennslu í september.

Þessi tvö maraþon sem ég hljóp á árinu voru númer 10 og 11. En það sem meira er, þetta eru maraþonhlaup númer 4 og 5 eftir að ég fékk hjartsláttaróregluna. Það var ekki eitthvað sem ég átti von á sumarið 2012 þegar ég var í þunglyndi yfir því að geta sennilega aldrei hlaupið aftur. Nú sé ég meira að segja fram á að geta mögulega hlaupið aftur án þess að hjartsláttaróreglan sé að trufla mig. Brennsluaðgerðin sem ég fór í sl. haust lofar góðu. Ég hef nánast ekki dottið úr takti og endurhæfingin hefur gengið ljómandi vel. Ég byrjaði léttar hlaupaæfingar rúmum tveimur vikum eftir aðgerð og fjórum vikum eftir aðgerðina hljóp ég í fyrsta skiptið yfir 10 km á einni æfingu. Þann 17. nóvember tók ég síðan fyrstu æfinguna í formlegu maraþonprógrammi, innan við tveimur mánuðum frá aðgerð. Fimm dögum síðar hljóp ég í fyrsta sinn yfir 20 km og gekk bara vel.

Frá því að ég fór að hlaupa árið 2008 hef ég haldið saman þeim kílómetrum sem ég hef hlaupið á ári hverju. Í ár urðu þeir tiltölulega fáir en þó 2.309. Það þýðir að á þessum 7 árum eru kílómetrarnir orðnir 21.363.

Markmið næsta árs eru í raun svipuð og í fyrra, þ.e. hlaupa fleiri maraþon og helst sem flest. Ég er nú þegar skráður í Tokyo maraþonið þann 22. feb. og París þann 12. apríl. Ef allt gengur að óskum verða einhver hlaup síðar á árinu.

Ég hef áður sagt í pistlum að hlaupin séu mín leið til að takast á við hlutina. Ef eitthvað bjátar á er fátt betra en að fara og hlaupa og tæma þannig hugann. Einnig ef þarf að brjóta mál til mergjar þá er ekki síður gott að hlaupa og kryfja málin á meðan. Hlaupin eru því sannarlega alhliða. Þetta ár varð mér og eiginkonu minni, Margréti Gunnarsdóttur, sérlega mótdrægt. Hún varð undir í baráttu við illvígan sjúkdóm þann 23. ágúst sl. Það var dálítið sérstakt og skrítið að hún skildi skilja við þennan heim á þessum degi og það þegar tæp þrjár og hálf stund voru liðnar frá því að hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu voru ræstir. En það að er önnur saga sem ég hef bloggað smávegis um áður.

Veruleikinn er eins og hann er. Honum verður ekki breytt. Það sem gerist, gerist. Við getum valið hvernig við tökum því sem að höndum ber. Drúpa höfði eða reisa það upp. Ég hef valið að horfa fram á veginn. Ég á mínar minningar sem munu fylgja mér til enda en ég á líka líf framundan. Líf sem ég get reynt eftir bestu getu að hafa áhrif á hvernig kemur til með að þróast. Hlaupin sem hafa gefið mér svo margt hafa haldið áfram að gefa. Við lok þessa erfiða árs er lífið allt í einu fullt af tilhlökkunarefnum aftur. Ástin hefur kviknað á ný.

Gleðilegt nýtt ár!


Vonin

Dauðinn var aldrei ræddur. Það var hennar leið. Leiðin til að lifa af. Halda í vonina, horfa á möguleikana. Vonin er óendanlega sterk. Hún tapaði henni aldrei. Ekki heldur eftir að læknirinn heimsótti okkur inn á stofu einn daginn og sagði að nú væri ekkert eftir annað en líknandi meðferð. Líkaminn væri of máttfarinn til að þola meiri lyfjagjöf og meinið var ekki að gefa sig. Þó væri það ekki útilokað að ef hún myndi braggast aðeins þá væri kannski hægt að reyna meira. Lyf sem hefðu miklar aukaverkanir í för með sér og óvíst um árangur. En kæmist hún á þann stað þá væri kannski hægt að taka nýja ákvörðun. Eftir að læknirinn fór var lítið sagt. Að lokum þó: „það hefur ekkert breyst, það er ennþá von“. Þegar ég kom morguninn eftir spurði hún hvernig ég hefði það. Ég endurtók það sem sagt hafði verið kvöldið áður: „það hefur ekkert breyst, það er ennþá von“. Þetta var ekki rætt aftur. Nú var horft til framtíðar. Gera þær æfingar sem hægt var. Sjúkraþjálfari kom og sýndi hvernig hægt væri að gera styrktaræfingar við þessar aðstæður. Það gekk þokkalega í nokkra daga. Á föstudegi var sagt að þjálfarinn væri lasinn. Hann var samt býsna hress að sjá þegar ég mætti honum á ganginum síðar um daginn við einn sjálfsalann. En það var allt í lagi. Hann tók þátt í því að halda voninni lifandi. Voninni sem viðheldur viljanum til að lifa  - og gerir lífið bærilegra við þessar aðstæður. Dæmisögurnar eru ótalmargar þar sem líkurnar hafa verið mótdrægnar en lokaniðurstaðan jákvæð. Þessar dæmisögur sanna að vonin á alltaf rétt á sér. Sama hvað. Með nútíma læknismeðferð er hægt að halda þessu hugarástandi allt til loka. Þegar nær dregur blandast hinar sjálfráðu hugsanir við þær ósjálfráðu eins og heitt og kalt vatn – allt þar til þær verða ylvolgar og að lokum slokknar á uppsprettunni. Án kvíða, án eftirsjár, án sársauka, án vitundar.


Maraþon Möggu

Ég hef lítið hlaupið í sumar. Í byrjun ágúst fór ég þó fínan túr í góðu veðri um Heiðmörkina. Að honum loknum hafði ég á orði við Möggu að kannski ætti ég bara að prófa að hlaupa maraþon lítið æfður og taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég yrði bara að stilla hraðann vel af og ef ég gæti tekið nokkrar þokkalegar æfingar til viðbótar gæti ég stefnt á 3:30. Þetta fannst Möggu ekki góð hugmynd. Spurði mig hvort þetta væri gáfulegt og hvort þetta væri ekki alveg í mótsögn við það sem ég sjálfur predikaði. Ég eyddi talinu. Atvik höguðu því þannig að ég hætti að hugsa um þátttöku. Þann 23. ágúst sl. lauk Magga sínu maraþoni rúmlega 8 mínútur yfir 12. Þá voru liðnir 3 tímar og 28 mínútur frá því maraþonhlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu voru ræstir.  


Minning um Pino

Stundum á lífsleiðinni hittir maður fólk sem hefur meiri áhrif á mann en aðrir. Yfirleitt fer það saman að maður ber virðingu fyrir viðkomandi og telur sig geta lært af henni eða honum og reynir jafnvel að tileinka sér það sem manneskjan hefur fram að færa.

 Í mínu tilfelli var Pino Becerra ein af þessum manneskjum.

 Pino lést af slysförum í Fljótshlíðinni um helgina 7. – 10. júní 2014.

 Ég þekkti Pino aðeins í rétt um mánuð. Engu að síður dugði það henni til að hafa slík áhrif á mig að mér finnst kær vinur hafa horfið á braut.

Pino var ráðin sem þjálfari hjá hlaupahópi Stjörnunnar í maí sl. Þegar hún mætti á sína fyrstu æfingu hafði ég ákveðið að sleppa því að hlaupa úti en taka í staðinn létta lyftingaæfingu í Ásgarði. Ég ákvað samt að mæta til að hlusta á kynningu á nýja þjálfaranum og sjá hvernig mér litist á hana. Ég var því mættur í anddyri Ásgarðs í stuttbuxum og hlýrabol enda skipti smá vorrigning og léttur vindur mig ekki máli í lyftingasalnum. Eftir stutta kynningu á Pino vildi hún fá hópinn út og segja betur frá sínum áherslum í æfingum um leið og hún léti hópinn taka nokkrar teygjuæfingar. Þar sem það var ágætlega hlýtt úti ákvað ég að fara með á mínum hlýrabol og teygja mig smá með hópnum á meðan ég reyndi betur að átta mig á nýja þjálfaranum. Það er skemmst frá því að segja að Pino lét hópinn teygja og gera styrktaræfingar í næstum því einn og hálfan klukkutíma. Engin hlaupaæfing. Enda voru margir skrýtnir á svipinn í lok æfingar. Eftir æfinguna heyrðist líka hvíslað þannig að Pino heyrði ekki: „eigum við ekki að hlaupa létta 5 km?“ Sumir fóru – og fóru leynt með!

Pino hélt þessum æfingum áfram. Góðar upphitunaræfingar, styrktaræfingar, öndunaræfingar og teygjur. Lítil sem engin hlaup nema þá alls konar útfærslur af stuttum sprettum. Þeir sprettir voru æði oft býsna skrautlegir enda áhersla lögð á ósamræmi í handahreyfingum og fótaburði. En með því var hún að kenna okkar réttan hlaupastíl og styrkja okkur um leið. Hún útskýrði þetta vel fyrir hópnum. Hún ætlaði að stykja hópinn í maí og hefja síðan hefðbundnari hlaupaæfingar í júní. Við vissum að hún hafði bakgrunn frá Spáni sem þríþrautarþjálfari. Það var líka augljóst á öllu hennar fasi og hvernig hún byggði æfingarnar upp að hún vissi hvað hún var að tala um. En það var samt skrýtið að hafa hlaupaþjálfara sem var sífellt að segja: „No running!“ En að sama skapi var samt líka „gaman“ að heyra hana segja „smile!“ og „enjoy the stretch!“, þegar fólk var við það að gefast upp með viðeigandi andlitsgrettum - og sjá þá fallega brosið hennar og kímnina í augunum.

Pino vildi ekki setja æfingaplanið sitt á netið. Hún sendi það í tölvupósti til fulltrúa hópsins. Ástæðan var sú að hún sagðist ekki geta tekið ábyrgð á æfingum fólks nema geta séð þá sem væru að æfa eftir hennar plani. Hún bæri ábyrgð á því að hver og einn æfði eftir sinni eigin getu. Ekki eftir plani sem tekið væri af netinu og engar leiðbeiningar fylgdu. Hún vildi líka geta aðlagað æfingarnar að getu hvers og eins eða smærri hópa sem væru á svipuðu getustigi. Hún var fagmanneskja fram í fingurgóma.

Æfingarnar hjá Pino voru skemmtilegar. Hún var skemmtileg. Hún var glettin og kunni að gera grín að tilburðum nemenda sinna án þess að gera lítið úr nokkrum. Henni tókst afar vel með leikrænum tilburðum að sýna okkur hvernig við gerðum æfingarnar vitlaust. Það var oft afar spaugilegt og efni í heilu skemmtiatriðin á árshátíðum hlaupahópa. Fyrir okkur Stjörnufólk sem urðum þeirra forréttinda aðnjótandi að sjá hvernig við litum út í augum þjálfarans okkar - hennar Pino - höfum við yndislegar minningar.

Pino bauðst til að setja upp sérstök æfingaplön fyrir þá sem þess óskuðu. Þá vildi hún fá nánari upplýsingar um fyrri „afrek“ og framtíðarplön. Við vorum að minnsta kosti tveir úr hópnum sem það gerðum. Eftir að hafa hlustað á okkur í nokkra stund horfði hún á okkur með sínum einlægu augum og sagði mjög hægt og með mikilli áherslu (í lauslegri þýðingu): „þið eruð bilaðir“. Því næst spurði hún okkur hvort við hefðum ekki áhuga á að gera hlaup að lífsstíl? Þegar við játuðum því spurði hún okkur næst hvort við ætluðum ekkert að verða sérlega gamlir í þessum bransa? Það varð fátt um svör. Hennar sjónarmið voru þau að ef við vildum geta hlaupið fram á efri ár þá ættum við að hlaupa minna og æfa aðrar greinar með. Svo sem hjól, sund, cross fit eða hvað annað sem áhugi stæði til.

Á þessum upphafsfundi spurði hún mig hvort ég myndi ekki vilja prófa að æfa fyrir þríþraut. Því var fljótsvarað: „ég er hlaupari, kann ekki að synda og leiðist að hjóla“. Tveimur vikum seinna var ég byrjaður á sund- og hjólaæfingum. Búinn að kaupa mér nýja flotta Speedo sundskýlu sem lítur út eins hnésíðar hlaupabuxur og farinn að skoða alvöru hjól í hjólabúðum.

Eftir upphafsfundinn sendi ég Pino mína skýrslu um fyrri hlaupasögu. Skýrði út hvers vegna ég fór að hlaupa og einnig hvers vegna ég væri að hlaupa svona mikið. Ég sagði henni einnig frá mínum fyrri veikindum og veikindum eiginkonunnar. Næst þegar ég hitti Pino sagðist hún skilja mig betur. En að það væri skynsamlegra af mér að auka fjölbreytileikann í æfingum. Þannig myndi ég endast lengur. - Eins og hún sagði það, trúði ég því.

Eftir þennan fund kom hún alltaf til mín og spurði frétta. Af einlægni. Hún ráðlagði mér. Ég fór eftir því og fann að það skipti máli. Hlýleiki hennar og einlægur áhugi á vellíðan annarra snart mig.

Pino skilur eftir sig djúp spor hjá mér og ég veit að hún gerir það einnig hjá öðrum Stjörnuhlaupurum sem æfðu undir hennar leiðsögn.

Aðstandendum Pino votta ég mína dýpstu samúð.


London maraþon, markmið og vinir.

Formálinn. Í þessum pistli ætla ég að blogga um London maraþonið og mikilvægi markmiða –  og vina. Eins og ég hef oft sagt áður þá er það að geta hlaupið maraþon einstök upplifun. Væntanlega upplifir hver og einn sína eigin útgáfu og sjálfsagt fellur fólki misvel við þá lífsreynslu sem maraþonhlaup er. En að mínu mati er hvert maraþonhlaup ævintýri út af fyrir sig og  hvert og eitt þeirra á sér sitt eigið upphaf, miðju og endi. Maraþoni sem tekst að ljúka er maraþon með góðum endi, er lífsreynsla með góðum endi, er ævintýri sem endar vel.

 

Undirbúningurinn. Hann gekk ágætlega. Ég hóf formlegar maraþonæfingar í byrjun janúar og setti upp 13 vikna prógram þar sem ég blandaði saman æfingum úr ýmsum áttum sem mér finnst skemmtilegar. Fjölmargar þeirra eru úr smiðju Þorláks Jónssonar sem ég hef notað með góðum árangri áður. Til viðbótar bætti ég við nokkrum nýjum æfingum og útfærslum og endaði með æfingaplan sem ég reikna með að nota aftur. Þar sem ég hafði lokið við maraþon í nóvember sl. og haldið mér við í desember var ég í ágætu standi þegar ég byrjaði í prógraminu. Ég hef alla tíð viljað hlaupa frekar mikið þannig að ég var kominn með yfir 100 km í annarri vikunni. Ég hélt mig í því magni næstu þrjár vikurnar en í vikunni þar á eftir lenti ég í basli með hjartað þannig að ég gat ekki tekið langa æfingu þá helgina. Það var líka kannski bara ágætt því ég notaði þá viku sem snemmbúna hvíldarviku. Næstu vikurnar þar á eftir jók ég magnið jafnt og þétt og endaði með að taka 150 km 6 vikum fyrir maraþonið. Eftir þá viku sló ég nokkuð af og tók síðan aftur stóra viku fjórum vikum fyrir hlaupið. Eftir það minnkaði ég magnið jafnt og þétt og síðustu tvær vikurnar voru tiltölulega léttar. Þegar upp var staðið fékk ég ágætan frið til að æfa og lenti ekki oft í að þurfa að breyta æfingum eða sleppa þeim. Ég taldi mig vera kominn í stand til að reyna við tíma sem væri undir 3 klukkustundum. Allar lykilæfingar síðustu vikurnar bentu til þess að þriggja tíma markið væri vel raunhæft og ef ekkert sérstakt kæmi upp á þá átti jafnvel að vera hægt að taka einhverjar mínútur til viðbótar. Ég taldi mig mögulega vera kominn í jafn gott form og ég var í árið 2011 þegar ég náði mínum besta tíma í maraþoni. Að minnsta kosti var ég í töluvert betra formi en ég var í sl. haust þegar mér tókst að hlaupa mjög gott maraþon í Nice í miklum mótvindi alla leiðina. Þá endaði ég á 3:10 eitthvað og taldi það vera mitt næst besta maraþon frá upphafi þótt tíminn væri það ekki. En sem sagt, ég var tilbúinn.

 

Aðdragandinn. Það var virkilega gaman að fylgjast með umfjöllun um hlaupið í aðdraganda þess. Margir af bestu maraþonhlaupurum samtímans voru skráðir til leiks og til viðbótar margfaldur heims- og ólympíumeistari í 5 og 10 km hlaupum, Bretinn Mo Farah, sem var að þreyta frumraun sína í vegalengdinni. Þar til viðbótar má auðvitað ekki gleyma því að við vorum fimm félagar úr hlaupahópi Stjörnunnar sem vorum skráðir til leiks, Bjössi, Raggi, Pálmar, Unnar og Gunnar. Einvalalið! Við höfðum í það minnst fram yfir Mo að hafa hlaupið vegalengdina áður í keppni! Enda kom það á daginn að þeir reyndu í elítu hópnum bjuggu að þeirri reynslu og höfðu á orði fyrir hlaupið að það væri öðruvísi að hlaupa maraþon en öll önnur hlaup. Þeir skyldu sýna nýgræðingnum Mo að maraþon væri sinnar eigin tegundar. Þeir stóðu sannarlega við stóru orðin því Mo átti aldrei möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna. Það áttum við félagarnir úr Stjörnunni reyndar ekki heldur enda lá það alltaf fyrir að við vorum allir í okkar eigin keppni, hver með sitt eigið markmið og keppni við sjálfan sig.  

 

Markmiðin. Eftir að ég varð að taka mér tímabundið hlé frá hlaupum á árinu 2012 hef ég haft á orði að fyrsta markmiðið í maraþonhlaupum, og reyndar öðrum hlaupum, sé að geta byrjað. Það er ekki sjálfgefið. Næsta markmið er að geta klárað. Það er ekki heldur sjálfgefið. Allra síst í maraþonhlaupum og öðrum enn lengri hlaupum. En þó að segja megi að þetta séu markmið númer 1 og 2 eða A og B þá eru þetta þó ekki þau markmið sem sett eru fyrir hlaupið sjálft. Þetta eru einfaldlega sjálfgefin markmið sem eru hreint ekkert sjálfgefin. Í því samhengi má bæta því við að nú hef ég klárað 10 maraþon en ég hef verið skráður í 14. Í einu þessara fjögurra hlaupa sem ég hef ekki klárað er eitt þar sem ég byrjaði og varð að hætta en þrjú þar sem ég byrjaði aldrei. Sem sagt það er alls ekki öruggt að maður byrji hlaup þótt æfingaprógram hafi verið klárað, skráningargjöld greidd, flugfar keypt og hótel bókað. Það er hins vegar önnur saga að það er einnig mjög gaman að vera á hliðarlínu maraþonhlaups og fylgjast með og hvetja vini sína áfram við að reyna að ná sínum markmiðum og upplifa sín ævintýri. Taka þátt í gleðinni að afloknu hlaupi og hlusta á frásagnir úr því. Upplifa ævintýrið með vinum sínum.

 

Dagurinn. Bjartur og fagur. Hitastig um 10 - 11 gráður og því spáð að hitinn færi í 16-17 gráður. Smá vindur en ekki of mikill. Kjöraðstæður. Við tókum leigubíl frá hótelinu og á lestarstöðina þaðan sem lest fór beint á keppnisstað. Þegar þangað var komið tók við rölt upp stutta brekku og inná grænt stórt svæði. Allt vel merkt og augljóst hvert átti að fara. Þegar við komum inná afmarkaða svæðið fyrir hlaupara sáum við að það var löng röðin í pissuskálarnar. Við þangað því tíminn var nægur. Að þeirri heimsókn lokinni tók við smurning og fækkun fata þar til við stóðum í keppnisfötunum einum. Pokunum með fötum til að fara í eftir hlaupið og öðrum nauðsynjum var komið til skila í bílana sem ferjuðu dótið í endamarkið. Þá var bara eitt að gera. Aftur í pissuröðina.

 

Ráslínan. Spenna. Eftirvænting. Skoða skófatnað annarra hlaupara. Skoða aðra hlaupara. Slaka á. Upplifa stemninguna. Líta á klukkuna. Draga andann. Hlusta á kynningu á þekktustu maraþonhlaupurunum. Fagnaðarlæti. Hlusta á kynningu á Mo Farah. Brjáluð fagnaðarlæti. Þarna stóð ég og var eftir örfá augnablik að fara að keppa með þessum hetjum brautarinnar. Í sama hlaupi. Á sama tíma. Nefnið mér aðra íþróttagrein þar sem almúgamanninnum er þetta mögulegt?

 

Startið. Skotið reið af. Sagan byrjuð. Rólegt upphaf, intro. Eftir um 20 sekúndur fórum við yfir rauða dregilinn sem markaði byrjun 42,2 km ferðalags. Til að byrja með er þvagan mikil. Svo mikil að nánast öll orka og einbeiting fer í að stíga ekki á hælana á næsta manni eða láta ekki aðra stíga á sig eða bregða fyrir mann fæti. Mér til skelfingar tókst mér á þessum kafla að stíga þannig aftan á einn hælinn að eigandinn missti jafnvægið og var á leiðinni niður þegar mér tókst að grípa í handlegginn á honum og kippa honum til baka án þess að hann tapaði taktinum að ráði. Sem betur fer. Hitt hefði verið leiðinlegt. Að skemma fyrir öðrum upphafið. En það varð ekki.

 

Hlaupið. Fyrstu fimm kílómetrarnir liðu áfram tíðindalítið. Hraðinn var um það bil réttur. Meðaltími ca 4:15 mín pr. km. Þvagan vissulega mikil og mér fannst ég fara full hægt yfir. En ég hugsaði með mér að það væri í góðu lagi og í raun skynsamlegt. Ég ætti það þá bara inni síðar í hlaupinu. En eftir þessa fimm km fór ég að hugsa um að sennilega væri rétt að fara aðeins að bæta við og komast fram fyrir hópinn sem fylgdi 3 tíma blöðrukallinum. Ég hafði þó varla sleppt hugsuninni þegar ég fór skyndilega að finna fyrir þreytuverkjum í framanverðum lærunum. Þetta var alls ekki eins og það átti að vera. Hugsunin um að bæta við hraðann hvarf eins og dögg fyrir sólu. Næstu fimm kílómetrana hægði ég aðeins á og sá 3ja tíma blöðrukallinn fjarlægjast smátt og smátt. Nú var þetta allt í einu orðið erfitt. Allt of erfitt. Næstu fimm km versnaði þetta bara og ég fann hvernig mátturinn minnkaði og minnkaði. Bara komnir 15 km og ég var í stökustu vandræðum. Á næstu 5 km versnaði þetta enn meira. Ég fór að efast um að ég gæti klárað. Mögulega yrði ég að gefast upp. Þetta hætti að vera gaman. Á þessum tíma var þetta bara erfitt. Vondar hugsanir læddust að mér og ég sá fyrir mér vonbrigðin með að geta ekki klárað. Eins og dagurinn hafði byrjað vel. Það var eins og mig vantaði súrefni í lærin. Ég vissi að þetta var ekki eðlilegt þar sem ég var búinn að hlaupa á þessum hraða og oft hraðar á óteljandi æfingum. Þetta átti bara ekki að gerast. En þetta gerðist samt. Og ég hafði upplifað þetta áður. Á æfingu sem gekk ekki upp. En á æfingu þar sem mér tókst að komast í gegnum erfiðleikana. Með því að hægja ennþá meira á mér. Á æfingu þar sem ég byrjaði aftur. Hægar. Og komst af stað aftur. Og kláraði vel.

 

Hitt hlaupið. Hálf maraþon á 1.32 eitthvað. Ekki alslæmt. Rúmum þremur mínútum frá því sem ég hafði vonast eftir. En bíddu við! Ég var allt í einu farinn að fara fram úr öðrum hlaupurum! Þetta var eitthvað nýtt frá því sem hafði verið síðustu 15 km. Ég var farinn að finna miklu minna fyrir lærunum. Eiginlega bara mjög lítið. Og ég hljóp hraðar. Og mér leið vel. Og mér fannst gaman! Og ég sá umhverfið! Vá! Ég hljóp eins og vindurinn. Ég þekkti aftur bakhlutann á mörgum sem ég hafði séð hverfa í algleymið á undan mér fáum mínútum áður. Ég var villtur! Ég fór að hugsa. Hvaða tíma skyldi ég geta náð? Ég vissi að ég var búinn að missa frá mér A markmiðið sem var að fara undir 3 tímana. B markmiðið var að komast undir 3:05. Á þessum tíma sá ég að til að ná því markmiði þá þyrfti ég að geta hlaupið seinni hluta hlaupsins á nánast sama tíma og fyrri hlutann. Miðað við vandræðin sem ég hafði lent í þar og þá orku sem ég hafði eytt til að komast í gegnum þau vissi ég að það væri ekki raunhæft. C markmiðið var hins vegar að komast undir 3:10. Ég sá að ef ég myndi geta haldið sæmilega á spilunum þá væri það raunhæft! Ég fór því að einblína á að hlaupa þannig að sú orka sem ég átt eftir myndi endast mér út hlaupið og koma mér undir 3:10. Þarna var ég kominn með alvöru markmið og raunhæft markmið. Ég einbeitti mér að því að hlaupa á jöfnum hraða og reyna að halda þeim hraða sem mér liði sæmilega vel á án þess að ég væri að streða við það. Á hverjum 5 km reiknaði ég út þann meðalhraða sem ég þyrfti að halda til að ná mínu nýja markmiði. Það gekk vel og var ég á nokkuð jöfnum hraða frá km 25 og í mark. Ég hægði reyndar aðeins á mér á milli 35 og 40 km en þó ekki meira en það að á km 35 til endamarks fór ég fram úr 297 keppendum en aðeins 8 fóru fram úr mér skv. heimasíðu hlaupsins. Það er árangur sem ég er mjög ánægður með og þegar upp var staðið endaði ég á 3:06:38 sem er langt undir C markmiðinu mínu, nálægt B markmiðinu og er þriðji besti tíminn minn í maraþoni þegar upp er staðið.

 

Lærdómur. Maraþon er maraþon. Það er ekki búið fyrr en það er búið. Það getur svo margt gerst. Það gerist svo margt. Hvert maraþon er sérstakt. Hvert maraþon er einstakt. Maraþon er eins og lífið sjálft. Óteljandi útgáfur. Óteljandi sögur. Hver og einn upplifir sitt eigið maraþon. Vinir fara saman af stað. Hver þeirra upplifir sitt eigið maraþon. Sama maraþon, sama leið – en samt einstök ferð fyrir hvern og einn. Hver með sitt markmið. Hver með sínar forsendur. Hver með sínar væntingar. Að fylgja vini í gegnum maraþon er einstakt. Taka þátt í gleðinni. Hlusta á frásögnina. Upplifa maraþon vinar.

 

Gleðilega páska.

 


Endurhæfing

Endurhæfing er þolinmæðisvinna. Stundum eru aðstæður þannig að það er eins og endurhæfingin ætli aldrei að byrja. Tíminn virðist standa í stað og halda mætti að allt ætli að verða óbreytt um ókomna tíð.

En eins og útleggja má ummæli Benjamíns Franklíns þá er tvennt í heiminum öruggt; tíminn líður og skattar. Þótt ekki sé víst að allir séu á eitt sáttir um þessa tilhögun þá felur hún í sér breytingar og þróun. Ekki endilega fyrirséða en breytingar engu að síður. Eitt tímabil tekur við af öðru. Það fyrnist yfir óþolinmæði liðins tíma. Við tekur nýr tími með nýjum áskorunum. Endurhæfing.

Þann 7. nóvember 2012 hófst mín hlaupaendurhæfing eftir um 8 mánaða stopp. Þann dag var hlaupinn einn km á rúmum 8 mínútum og það skráð samviskusamlega í hlaupadagbókina. Við skráningu á æfingu dagsins, sem voru 16 km á meðalhraðanum 4:37 mín, blöstu við mér eftirfarandi upplýsingar:

Síðasta æfing:    29.01.2014

Fjöldi æfinga:     297

Heildar vegalengd:          4.015,8  km

Heildar tími:        314:33:12

 

Endurhæfingin sem mér fannst aldrei ætla að byrja hófst. Allt í einu er liðið rúmt ár og kílómetrarnir komnir yfir 4000. Í þoku minninganna rámar mig í aðra endurhæfingu. Endurhæfingu sem ætlaði aldrei að byrja. Endurhæfingu sem breytti lífsstíl og jók lífsgæði.

Endurhæfing er að sumu leyti eins og jólin. Barnsleg tilhlökkun eftir að hún hefjist – gleði, ánægja og oft heilmikið álag þegar hún loks byrjar, en hálfgerður feginleiki þegar henni er lokið og hversdagurinn orðinn ráðandi.

 


Áramótahlaupaannáll

Í lok síðasta árs spáði ég því að hlaupaárið 2013 yrði gott hlaupaár. Þegar ég lít til baka get ég ekki annað en sagt að það hafi staðist ágætlega. Ég hef náð að æfa nokkuð reglulega og tók þátt í og kláraði 3 maraþon og hljóp að auki í fjórum 10 km hlaupum (fimm með hlaupinu í dag) sem voru öll til að styrkja eitthvert gott málefni (lít á Stjörnuhlaupið sem gott málefni þar sem þar er verið að koma af stað nýju almenningshlaupi í Heiðmörkinni – í frábærri braut á malarstígum (þetta er auglýsing!)).

 

Á árinu tók ég fyrst þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu í maí sem ég lauk á tímanum 3:23:12. Í ágúst tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og lauk því á tímanum 3:21:53. Þann 10 nóv. lauk ég Nice–Cannes hlaupinu á 3:10:33. Um öll þessi hlaup hef ég bloggað áður á þessum vettvangi þannig að ég ætla ekki að rifja það upp sérstaklega hér við áramót. Þó vil ég gjarnan halda því til haga að sennilega er Nice-Cannes maraþonið mitt næst besta maraþonhlaup þótt ég eigi 4 tíma á milli míns besta tíma og tímans í Nice. Ástæðan er sú að við hlupum í mótvindi alla leiðina frá Nice og til Cannes og jókst vindstyrkurinn eftir því sem á leið – sem er frekar óhagstætt í maraþoni svo ekki sé meira sagt. En sem sagt, ár þar sem tekst að ljúka maraþoni í mótvindi með góðum árangri hlýtur að teljast gott ár.

 

Æfingar ársins hafa gengið upp og ofan. Eins og áður hefur komið fram er ég með hjartsláttaróreglu sem hefur áhrif og pirrar mig heilmikið. En auðvitað á ég að vera þakklátur fyrir það eitt að geta hlaupið sem var alls ekkert sjálfgefið á síðasta ári. Þannig að það að vera í stöðu til að geta verið pirraður yfir trufluninni er eiginlega alveg frábært! Mér telst til að ég sé búinn að detta úr takti mun oftar en ég kæri mig um. Mest fyrri hluta ársins og síðan aftur nú í lok árs.  Það jákvæða, eins öfugsnúið og það hljómar, er að ef ég tek „bara eina pillu í viðbót“ þá hrekk ég oftast í gírinn á nokkrum klukkutímum. Það hefur bara gerst tvisvar á árinu að ég hafi þurft aukastuð. Það er ekki svo slæmt í sjálfu sér. Í sumar var ég settur á biðlista til að komast í svo kallaða brennslu. Takist hún vel má vera að óreglan hverfi eða amk minnki mikið. En eins og málum er háttað í okkar laskaða heilbrigðiskerfi veit ég auðvitað ekkert um það hvenær af þessu gæti mögulega orðið. Það er bagalegt því eins og hlauparar þekkja þarf að skrá sig með löngum fyrirvara í sum maraþon og því hálf fúlt að vera búinn að leggja í töluverðan kostnað þegar kallið kemur og geta ekki tekið þátt. En það er nú eins og það er.

 

Frá því að ég fór að hlaupa árið 2008 hef ég haldið saman þeim kílómetrum sem ég hef hlaupið á ári hverju. Í ár urðu þeir 3.125. Það þýðir að á þessum sex árum eru kílómetrarnir orðnir 19.054. Það er vegalengd sem myndi skila manni til Rio de Janeiro og til baka – eða til smáeyju suð-austur af Hobart í Tasmaníu.

 

Markmiðið árið 2014 er að halda áfram að hlaupa og vonandi taka þátt í fleiri maraþonum. Með þessum þremur í ár eru þau orðin 9 talsins. Ef allt fer að óskum verður London maraþonið þann 13. apríl nk. mitt 10 maraþon.

 

Hlaupið í ár var að venju mjög skemmtilegt. Aðstæður voru mjög góðar og nánast engin hálka í brautinni. Smá vindur á útleið og sami vindur heim. Bæting um rúmar 5 mínútur frá hlaupinu í fyrra sem er ljómandi gott. Með sama áframhaldi mega fremstu menn fara að vara sig eftir 3 ár.

 

 

Gleðilegt nýtt ár!

 

 

 

 

 


Maraþon í mótvindi

Þessi pistill er um tvenns konar maraþon. Annars vegar óeiginlegt maraþon og hins vegar eiginlegt maraþon. Þeir sem hafa áhuga á að lesa hugleiðingar mínar um annað hvort en ekki hitt geta valið. Þeir sem hafa áhuga á hvorugu hafa verið varaðir við.

 

Óeiginlegt maraþon.

 

Hvað er mótlæti? Eitthvað sem er manni ekki að skapi? Maraþon í mótvindi? Alvarleg veikindi? Tilfinning? Staðreynd? Hugarástand?

 

Ég veit það ekki. En ég hef hugsað mikið um það. Kemst alltaf að því að mótlæti er sennilega ekki annað en mismunandi tilbrigði lífsins. Það lifa því allir. Hver á sinn hátt og hver með sinni upplifun. Sjálfsagt misjafnt hvað hver upplifir sem mótlæti.

 

Ég hef valið hlaupin sem mitt jafnvægisstillingartæki. Þau eru mín leið til að hugleiða. Til að halda mér í þokkalegu formi og stuðla að betri alhliða líðan. Koma mér af stað aftur þegar hægja hefur þurft á. Stöðutékk þegar allt á að vera í jafnvægi.

 

Trúlofunardagur okkar hjóna í ár, 21. júni, reyndist vera einn af þeim dögum þar sem reyndi verulega á upplifun lífsins. Við fengum þær óvæntu fréttir í læknisheimsókn, sem við héldum að væri vegna einhvers smávægilegs kvilla, að eiginkonan væri með krabbamein í leghálsi sem þarfnaðist meðhöndlunar strax. Góðu fréttirnar voru þær að það voru meiri líkur en minni á að unnt væri að lækna meinið. Það væri gert með nokkuð ákveðinni geisla- og lyfjameðferð sem tæki sex vikur. Við lærðum það síðar að geislarnir unnu sitt starf í um 4 til 6 vikur til viðbótar eftir að meðferð lauk.

 

Eins og stundum áður var mín leið til að takast á við verkefnið að fara að hlaupa. Ég fór að æfa markvisst  fyrir maraþon. Bara eitthvert maraþon. Um mitt sumar breytti hjartalæknirinn samsetningu lyfjanna minna og ég hélst betur í takti en áður. Æfingarnar gengu betur og betur og ég tók framförum. Á sama tíma gekk meðferð eiginkonunnar vel þótt brautin hennar væri ekki alltaf bein og greið. Hennar leið var mun erfiðari en mín. En hún sýndi það að maraþon liggja vel fyrir henni.

 

Í byrjun september lauk meðferð eiginkonunnar. Við tók bið í nokkrar vikur. Þrekið hennar fór að koma til baka. Smátt og smátt. Eitt skref í einu. Ein æfing í einu. Allt í einu eru æfingarnar orðnar nokkrar og loks margar. Áður en varir er hægt að fara að hlaupa.  Hlaupa og hlaupa. Hraðar og hraðar. Lengra og lengra.

 

Æfingarnar hjá mér héldu áfram að ganga vel og þegar fór að líða á október kom að því að taka ákvörðun um hvaða maraþon skyldi reyna við. Fyrst átti það að vera haustþonið hér heima en þá kom upp conflict við óveiddan jólamat sem gerði að verkum að Amsterdam komst efst á listann. Á þessum tíma hafði vinur minn og hlaupafélagi, Unnar, ákveðið að sniðugt væri að hlaupa frá Nice til Cannes þann 10. nóv. því þá væri veðrið amk ekki að spilla fyrir mögulegum árangri. Hann hafði þá þegar skráð sig þannig að það var freistandi að fylgja honum. Við hjónin höfðum hins vegar ekki viljað festa neinar dagsetningar þar sem okkur fannst framtíðin full óljós.

 

En eina helgina um miðjan október ákváðum við að það væri góð hugmynd að fara til Nice. Þá myndum við vera búin að fá vitneskjum um niðurstöðu meðferðarinnar. Hver sem sú niðurstaða yrði þá væri gott að skipta um umhverfi og hugleiða næstu skref á strönd við Miðjarðarhafið.

Ég skráði mig í maraþonið og við pöntuðum flug og hótel. Í hópinn slógust vinahjón okkar Björn Rúnar og Rósa.  

 

Þriðjudaginn 5. nóvember fengum við hjón þær fréttir að meðferðin hefði skilað góðum árangri.

 

 

Eiginlegt maraþon.

 

Hlaupadagurinn 10. nóvember rann upp bjartur og fagur. Hefðbundinn undirbúningur gekk vel og ég hitti hlaupafélagana Unnar og Björn á tilsettum tíma og stað. Við gengum frá fatapokunum okkar og vorum komnir á keppnisstað á góðum tíma. Magga og Rósa tóku myndir og áhugasamir fengu teknar myndir af sér með okkur félögunum (!).

 

Við komum okkur fyrir í okkar hólfum. Tilkynnt var í hátalara að búast mætti við mótvindi. Sérstaklega síðari hlutann. Við brostum í kampinn. Við vorum vel þjálfaðir. Tækjum því sem að okkur væri rétt! (Trúðum því samt ekki alveg að Miðjarðarhafsbúar gætu slegið eyjabúa frá Íslandi út af laginu með smá blæstri).

 

Eftir 5 km var strax ákveðið að hætta að horfa á þriggja tíma markið. Reyna þó að halda vel við og gefa sem minnst eftir. Eftir um 12 km kom loksins hlé frá mótvindinum þegar tekin var smá lykkja inn í lítinn bæjarkjarna. Þegar út úr þeirri lykkju var komið, eftir rúma 14 km, var tekin 180 gráðu beygja og í ca einn km fengum við vindinn í bakið. Það var ljúf stund. En eftir það var leiðin alltaf upp í vindinn. Leiðin er þannig að manni gefst gott ráðrúm til að virða stórkostlegt umhverfið fyrir sér. Eftir um 23 km kemur fyrsta hækkunin í brautinni en þá kemur frekar brött en stutt brekka uppá nokkuð sem má líkja við virkisvegg. Þar er hlaupið meðfram gömlum húsbyggingum á hægri hönd og sjóinn gutlandi við virkisvegginn á þá vinstri. Skemmtilegur staður og góð stemning. Eftir um 28 – 29 km kemur sú brekka sem vitað var að gæti orðið erfið. Það var síst vanmat því hún var lengri en gert hafði verið ráð fyrir. Sennilega um 1 til 1,5 km og býsna brött. Til að kóróna skepnuna þá stóð vindstrengurinn niður og á móti keppendum. Loks þegar á toppinn var komið tók þó við brekka niður en eins og venjulega virkaði hún minni en sú sem snéri öfugt og að auki var vindstrengurinn að sjálfsögðu ennþá á móti. Það sem þó var hvetjandi á þessum tíma var að við enda brekkunnar vorum við komin á nýja strönd. Hún lá meira í vestur heldur en fyrri hluti brautarinnar og því stóðu vonir til þess að mögulega yrði vindurinn öðru vísi – svona meira á hlið. Vissulega reyndist vindurinn öðru vísi – bara ekki eins og flestir áttu von á. Einhvern veginn virtist vindurinn hafa ákveðið að fara inn vestast á ströndina og fylgja þar tanga sem skagaði út og skella sér síðan meðfram honum í austurátt – beint í fangið á keppendum. Þetta tiltæki hlaut frekar dræmar undirtektir þeirra enda þegar Bjössi kom inn á þessa nýju strönd heyrði hann samferðamann sinn á þeim tíma stynja upp stundarhátt með grátstafina í kverkunum: „You got to be kidding me“! Á þessum stað gaf ég upp hugmyndina um að reyna að hanga á 3:05 og setti stefnuna á sub 3:10. Þarna var ég við 30 km markið á 2:12:41 og því átti sub 3:10 að vera vel raunhæft.

 

Fyrir brekkuna hafði ég verið að hlaupa síðustu km á um 4:23 tempói en datt niður í 4:40 – 4:50 þegar ég kom inn í þessa síðustu strönd og þurfti að hafa helling fyrir því. En þrátt fyrir að þurfa að hægja þetta mikíð á mér sá ég fljótt að ég hélt samt sæmilegu tempói miðað við marga því ég fór fram úr mun fleirum en fóru fram úr mér. Þegar kom að ca. 37 km markinu kom þriðja brekkan. Hún var lengri en sú fyrsta en styttri en sú númer tvö. En hún var á leiðinlegum stað. Gæti hafa verið svipuð á lengd og Rafstöðvarbrekkan sem margir þekkja. Þegar upp var komið taldi ég Björninn unninn og að ég gæti rúllað í mark á jöfnum hraða og náð sub 3:10. En maraþon er maraþon og það er ekki búið fyrr en það er búið. Við 38 km markið hlupum við í gegnum lítinn bæjarkjarna og þaðan lá leiðin aftur út á ströndina. Þar var hvasst. Þar fuku þungar járngrindur á hliðina þótt þær væru tengdar saman með borðum. Á einum stað við húsvegg kom ég rétt á eftir leirpotti sem hafði stuttu áður staðið á hærri stað en var nú á víð og dreif um gangstéttina. Við 40 km markið var 90 gráðu beygja. Þá þóttist ég sjá fyrir mér glæsilegan endasprett með vindinn á hlið og stuttu síðar í bakið eftir aðra 90 gráðu beygju. En þótt ég hafi á sínum tíma verið í náttúrufræðibekk þá skil ég ekki ennþá þá náttúrfræði sem í gangi var þennan dag. Eftir fyrri 90 gráðu beygjuna hlupu flestir með höfuðið nálægt mittishæð til að komast áfram. Eftir seinni 90 gráðu beygjuna náðu flestir að rétta úr sér en þó ekki nóg til að skila glæsilegum endaspretti. Því þrátt fyrir að hafa tekið nánast 180 gráðu stefnubreytingu á um 200 metra kafla var ennþá mótvindur! En hvað um það, endamarkið nálgaðist og það hefur sjaldan verið jafnvelkomið. Sub 3:10 náðist ekki en engu að síður var frábæru maraþoni lokið á góðum tíma við erfiðar aðstæður. Lokatími 3:10:33 og þegar upp er staðið tel ég þetta vera mitt næstbesta maraþon þótt tíminn sé ekki sá næstbesti.

 

Maraþonbrautin Nice- Cannes er frábær. Umhverfið er glæsilegt og vel að hlaupinu staðið. Þótt brautin sé að mestu marflöt er önnur brekkan sennilega full löng til að hægt sé að mæla með brautinni sem PB braut. Þá sýndist okkur þessa daga sem við vorum á svæðinu sem ríkjandi vindátt væri af hafinu og þar með á móti nánast alla leið. En þetta hlaup er tvímælalaust góður kostur fyrir Íslendinga til að ná sér í smá sumarauka í byrjun vetrar og ef heppnin er með þá gæti vindur blásið í aðrar áttir.

 

 

 

Að lokum. Maraþon er erfitt. Að komast í gegnum maraþon krefst þolinmæði og þrautsegju. Þolinmæði og þrautsegju. Það þarf hins vegar að stilla væntingar af miðað við aðstæður. Það getur svo margt gerst á leiðinni – og það gerist svo margt. Þá er mikilvægt að geta tekið á móti og aðlagað sig aðstæðum. Gleðjast síðan þegar endamarkinu er náð og fagna hverjum þeim áfanga sem náðist.

 

 

 

Að ná markinu eftir heilt maraþon í mótvindi, eiginlegu sem óeiginlegu, er ólýsanlegt.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband