Andvaraleysi stjórnvalda?

Í dag birtist frétt á mbl.is þar sem greint er frá því að stjórnir Félags íslenskra heimilislækna og Læknafélags Íslands hafi af því áhyggjur að verði ekkert að gert muni heimilislækningar á Íslandi leggjast af í þeirri mynd sem við þekkjum þær innan fárra ára.

Af því tilefni rifja ég hér upp mola sem ég skrifaði og birti á heimasíðu Læknafélags Íslands á fyrri hluta ársins 2009, þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri félagsins. Í lok árs 2010 sýnist mér fátt hafa breyst- nema ef vera skyldi að nú er þrengt að fleiri hópum, ekki síst vegna þess að ekki tekst að koma hjólum atvinnulífsins af stað.

"Í því umróti sem íslenskt samfélag gengur nú í gegnum skiptir miklu máli að glata ekki þeim kostum íslensks samfélags sem við búum við þrátt fyrir yfirstandandi erfiðleika. Einn af þeim kostum sem Íslendingar búa við er framúrskarandi heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfið okkar er framúrskarandi vegna ýmissa samverkandi þátta. Einn mikilvægasti þátturinn er framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólk – íslenskur mannauður. Fólk sem hefur valið sér þann starfsvettvang að varðveita og bæta heilbrigði annars fólks. Einn hópur heilbrigðisstarfsfólks eru læknar. Íslenskir læknar hafa í gegnum tíðina verið duglegir að leita sér framhaldsmenntunar í öðrum löndum og hafa flutt með sér aftur til landsins þekkingu á læknisfræði sem í flestum tilvikum jafnast á við það besta erlendis. M.a. þess vegna er heilbrigðiskerfið íslenska með því besta sem þekkist. Þess vegna er íslenskt heilbrigðiskerfi næstum sjálfbjarga með flestar tegundir læknisaðgerða. Þess vegna fá flestir íslenskir sjúklingar lækningu sinna meina hér á landi. Þess vegna þarf íslenska ríkið í mun minna mæli en annars að senda íslenska sjúklinga til erlendra sjúkrahúsa.

Nú eru blikur á lofti. Stjórnmálamenn hafa síðustu daga keppst við að viðurkenna að andvaraleysi þeirra hafi átt þátt í því að íslenskt efnahagskerfi hrundi. Því er haldið fram í mola þessum að andvaraleysi íslenskra stjórnmálamanna kunni einnig að leiða til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi, eins og við þekkjum það, hrynji. Það verði landflótti meðal langskólamenntaðs heilbrigðisstarfsfólks – eða með öðrum orðum að við munum þurfa að glíma við vitsmunaflótta á sama hátt og á sér stað í þróunarríkjunum.

Ástæðan er sú að íslenskir stjórnmálamenn hlusta ekki á viðvaranir. Eða ef þeir hlusta þá taka þeir ekki mark á þeim. Ef viðvaranir koma frá hagsmunasamtökum þá eru þær afgreiddar sem hagsmunagæsla viðkomandi hagsmunasamtaka og því að engu hafandi. Svo virðist sem íslenskir stjórnmálamenn ætli lítið að læra af þeim afdrifaríku afleiðingum sem andvaraleysi þeirra hafði á íslenskt efnahagskerfi. Viðurkenning á andavaraleysi virðist því eingöngu vera orðagjálfur og sett fram í þeim tilgangi að reyna að villa um fyrir væntanlegum kjósendum. 

Nú hefur tveimur heilbrigðisráðherrum verið bent á að ef gengið verði harðar fram gegn læknum en öðrum stéttum í landinu kunni það að leiða til alvarlegs læknaskorts á Íslandi í náinni framtíð. Forstjórum heilbrigðisstofnana, þ. á m. LSH og HH, hefur verið bent á það sama. Forstjórarnir svara því til að þeim beri að framfylgja kröfum ráðherra um sparnað. Þar sem stærsti einstaki kostnaðarliðurinn séu laun lækna þá sé þar af mestu að skera. Í því samhengi er rétt að benda á að laun lækna byggja á vinnu þeirra við að þjónusta sjúklinga. Þetta tvennt helst í hendur. Lækki laun lækna þýðir það minna vinnuframlag þeirra og þar með minni þjónustu þeirra við sjúklinga. Ábendingum um að það sé m.a. hlutverk forstjóranna að vara stjórnmálamennina við að of harkalegar niðurskurðartillögur muni leiða til minni þjónustu við sjúklinga, og kunni að valda læknaskorti, er mætt af fálæti og skírskotun til hlýðniskyldu forstjóranna við ráðherrann.

Ráðherrann segir það vera samfélagslega skyldu lækna að búa í landinu og fara hvergi. Hvatning ráðherrans felst í tali um ofurlaun lækna í alhæfingarstíl og að allt megi skera af sem ekki er geirneglt í kjarasamningum. Í huga ráðherrans virðast ráðningarbundin kjör umfram lágmarksákvæði kjarasamninga aukasporslur en ekki aðferð þess opinbera við að laða til sín og halda í hæfa starfsmenn – þrátt fyrir hina lágu kauptaxta opinberra starfsmanna. Rétt er að hafa í huga að það var leikur þess opinbera til skamms tíma að halda kauptöxtum sem lægstum til að minnka eftirlaunaskuldbindingu ríkisins gagnvart starfsmönnum sínum þar sem eftirlaun miðuðust við dagvinnulaun en ekki heildarlaunagreiðslur. Þótt þessu hafi verið breytt hefur gengið illa að fá allar greiðslur inn í kjarasamninga og því er það ennþá við líði að hluti kjara opinberra starfsmanna er bundinn í ráðningarsamningum en ekki kjarasamningum - þar er ekki við stéttarfélögin að sakast.

Ef litið er yfir sviðið virðist sparnaðaraðgerðum þess opinbera beint mjög að þjónustu við sjúklinga og þar með einnig að kjörum lækna og annarra heilbrigðisstarfmanna. Umræðan um minni þjónustu á öðrum sviðum þess opinbera og lækkun launa annarra hópa þess opinbera er ekki fyrirferðarmikil – amk ekki ennþá. Í fararbroddi fyrir minnkandi þjónustu og lækkun launa lækna gengur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Forstjórinn kemur tímabundið úr ráðuneyti heilbrigðisráðherra og er því væntanlega að framfylgja vilja hans.

Undanfarin ár hafa fáir sótt um stöður sérfræðinga við LSH og HH. Oftast einn eða tveir. Það eitt og sér er áhyggjuefni. Framboð sérfræðinga við „eðlilegar“ aðstæður virðist því ekki mjög mikið.

Hvert er andvaraleysi stjórnavalda að leiða okkur í heilbrigðismálum? Andvaraleysi stjórnvalda í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur leitt til þess að sérfræðingar í lækningum sem hafa lokið sérnámi sínu fresta heimkomu. Sérfræðingar sem eru nýfluttir heim eru farnir að flýja land og snúa til baka þangað sem þeir luku sérnámi sínu. Læknar sem hafa lokið grunnnámi sínu hér á landi eru í stórum stíl að leita leiða til að komast fyrr út í sérnám. Við þetta bætist að stór hópur lækna, sem ekki hafði hugsað sér til hreyfings, sættir sig ekki við aðgerðir stjórnvalda með minnkuðu þjónustuframboði við sjúklinga og meiri lækkun á kjörum þeirra en til annarra hópa, er nú farinn að íhuga möguleika sína erlendis. Þessar staðreyndir munu hægt og hljótt leiða til alvarlegs ástands í íslensku heilbrigðiskerfi.

Íslenskir læknar eru eftirsóttir í störf erlendis. Íslenskir læknar eiga auðvelt með að taka sig upp og flytja þangað sem þeir sóttu sér sérfræðiþekkingu sína. Þeir tala tungumálið og þekkja aðstæður. Þetta er önnur aðstaða en hjá flestum öðrum stéttum í þjóðfélaginu. Skrefið sem íslenskir læknar þurfa að stíga er því ekki stórt.

Í nýjasta hefti Læknablaðsins, 3/2009, eru 5 auglýsingar frá erlendum sjúkrahúsum eftir íslenskum læknum í fjölmargar lausar stöður. Fleiri auglýsingar hafa birst í íslenskum dagblöðum. Trúa íslenskir stjórnmálamenn því virkilega að ef gengið verður harðar fram í niðurskurði á kjörum heilbrigðisstarfsmanna en öðrum stéttum muni það ekki hafa áhrif á ákvarðanatöku starfsmannanna?

2+2=? 

gá"

 


Hugsum! Hugsum!! Öflug heilbrigðisþjónusta og atvinnusköpun.

Rakst á prýðilega grein Ögmundar mannréttindaráðherra á heimasíðu hans frá 2. apríl 2009. Þar vekur hann athygli á tveimur dagblaðsgreinum eftir Höllu Gunnarsdóttur þáverandi aðstoðarmann hans sem heilbrigðisráðherra og skorar á okkur að "Hugsa! Hugsa!!"

Ögmundur segir Höllu benda réttilega á að velferðarmál séu atvinnumál og atvinnumál séu velferðarmál. Einnig að það myndi skjóta skökku við "ef stjórnvöld myndu á einum stað skera niður þannig að til fjöldauppsagna kæmi en á öðrum stað leggjast í stór og viðamikil atvinnusköpunarverkefni".

Í annarri grein Höllu segir: "Hins vegar verður að vara við því að niðurskurður leiði til stórfelldra uppsagna innan heilbrigðisþjónustunnar og velferðarkerfisins almennt. Ekki nóg um að þær myndu leiða til þess að öll þjónusta við fólk yrði lakari heldur getur það orðið mjög kostnaðarsamt fyrir þjóðfélagið til lengri tíma litið ef atvinnuleysi verður viðvarandi vandamál.  ... Staðan sem íslenskt þjóðfélag er í kallar á nýjar lausnir og ný viðhorf. Reynsla annarra landa sýnir að öflugt velferðarkerfi skitpir sköpum á tímum sem þessum. Stöndum vörð um velferðarkerfið. Það borgar sig margfalt til lengri tíma".

Í hinni greininni segir m.a.:"Það skyti skökku við ef niðurskurður leiddi til fjölda uppsagna innan hins opinbera og á sama tíma þyrfti að ýta úr vör umfangsmiklu atvinnuátaki á vegum stjórnvalda".

Ég er sammála Ögmundi og Höllu um að það þurfi að standa vörð um velferðarkerfið. Ég er líka sammála því að velferðarmál séu atvinnumál og atvinnumál séu velferðarmál. Við þurfum jafnframt að finna nýjar lausnir og ný viðhorf - og hugsa.

Nú þegar fyrir liggur stórfelldur niðurskurður í velferðarkerfinu er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að leita lausna til atvinnusköpunar. Ef núverandi stjórnvöld eru ekki tilbúin til þess sjálf að "ýta úr vör umfangsmiklu atvinnuátaki á vegum stjórnvalda" er amk mikilvægt að þau leggi ekki stein í götu annarra aðila sem eru að reyna að skapa störf í landinu. Jafnvel má fara fram á að þau greiði götu þeirra aðila eins og hægt er ef unnt er að gera það án mikilli fjárútláta úr ríkissjóði.


Hin ýmsu andlit heilbrigðis- og mannréttindaráðherrans Ögmundar

Starfs míns vegna er ég um þessar mundir að rifja ýmislegt upp sem sagt hefur verið í opinberri umræðu um heilbrigðismál á Íslandi síðustu misserin. Leit mín að skilaði mér m.a. inn á ágæta heimasíðu fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi mannréttindaráðherra.

Það er fróðlegt að lesa margt sem þar er að finna og eldist efnið misvel eins og gengur. T.d. er afar fróðlegt að lesa margt af því sem Ögmundur, sem þáverandi heilbrigðisráðherra, skrifaði um heilbrigðismál og sagði að aldrei mætti gerast og bera það saman við boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum nú. Þann 4. júlí 2009 birti Ögmundur á heimasíðu sinni grein eftir hann sjálfan sem birtist í Morgunblaðinu 3. júlí 2009. Í henni segir m.a.: "Það hefur sýnt sig að vinna sem er unnin úr tengslum við starfsfólk og samfélagið sem viðkomandi stofnanir eiga að þjóna skilar ekki árangri. Þvert á móti skilja slík vinnubrögð eftir sig sviðna jörð og óánægju".  Ég verð að játa það að þótt ég sé ekki alltaf sammála Ögmundi þá er ég sammála þessum orðum hans. Af fréttum að dæma í dag eru amk á níunda þúsund manns sem skrifuðu undir mótmæli í gær á Suðurlandi vegna stórfellds niðurskurðar á framlögum til heilbrigðismála sammála þessu. Í dag standa fyrir dyrum fjöldamótmæli til að mótmæla áformum ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis vegna fyrirhugaðra lokana á sjúkrahúsum á Selfossi, Vestmannaeyjum og Höfn. Ástæða óánægju Sunnlendinga og annarra sem mótmælt hafa af sama tilefni vegna niðurskurðar í þeirra heimabyggð, stafar ekki síst af því að niðurskurðaráformin eru unnin úr tengslum við starfsfólkið og samfélagið á staðnum. Slík vinnubrögð skilja eftir sig sviðna jörð og óánægju eins og Ögmundur bendir réttilega á.

Í yfirferð minni um heimasíðu Ögmundar rakst ég á grein eftir hann sem birt er þann 9. apríl 2009. Þar er mannréttindaráðherrann að fjalla um styrkjamál Sjálfstæðisflokksins. Í niðurlagi pistilsins lýsir ráðherrann því yfir að það sé hans sannfæring og staðreynd að Geir H Haarde sé heiðarlegur og gegnheill maður- ef frá er skilin pólitísk villukenning Geirs. Einmitt það já. Mannréttindaráðherrann taldi rétt að láta Landsdóm skera úr um sekt eða sakleysi Geirs fyrir að hafa ekki gert nóg í aðdraganda hrunsins. Mann sem hann telur gegnheilan og heiðarlegan. Fyrir lá að margir höfðu lýst yfir efasemdum um að lögin um Landsdóm hefðu staðist tímans tönn og væru í samræmi við almennar og viðurkenndar mannréttindareglur í dag. Mannréttindaráðherrann kaus að láta einstaklinginn ekki njóta vafans, jafnvel þótt hann teldi hann gegnheilan og heiðarlegan. Var þá verið að draga Geir fyrir Landsdóm vegna pólitískrar villukenningar hans?

Ögmundur sem heilbrigðisráðherra dró til baka obbann af sparnaðartillögum forvera síns í starfi. Hann færði sveitum landsins von og boðaði nýjar starfsaðferðir og meira samráð. Svo virðist sem athafnaleysi hans í sparnaðaraðgerðum sé nú að bitna á sveitum landsins með harkalegri niðurskurði en ella hefði þurft að vera. Hinar nýju starfsaðferðir birtast í minna samráði en áður hefur sést.

Ögmundur sem mannréttindaráðherra stendur að því að draga mann fyrir Lansdóm fyrir meint athafnaleysi. Mann sem hann telur gegnheilan og heiðarlegan. En mann sem mannréttindaráðherrann hefur opinberlega sakað um að vera haldinn pólitískri villukenningu.

Það er eitt að hafa mismunandi pólitískar skoðanir en annað að saka pólitíska andstæðinga um pólitískar villukenningar. Það er síðan enn annað að nýta sér pólitísk völd til að ná sér niður á þeim sem aðhyllast aðrar hugsjónir en mannréttindaráðherrann sjálfur.


Átakastjórnmál Ögmundar Jónassonar mannréttindaráðherra

Á Pressunni í dag er sagt frá því að Ögmundur mannréttindaráðherra hafi einn ráðherra mætt á fund um fátækt. Gott hjá honum og sýnir gott fordæmi.

Hann benti á það réttilega að ástandið væri erfitt og að það yrði ekki bætt "með einni aðgerð heldur með margþættum sem snúa bæði að tekjum og útgjöldum fólks, þannig að þetta er allt mynstrið sem þarf að vera undir sem skapar okkur lífskjör".

Þessu er ég sammála hjá Ögmundi. Ég vona þó að hann eigi ekki við að hann ætli að auka tekjur ríkisins með því að auka útgjöld fólks með hærri sköttum. Vonandi á hann við það að hér þurfi að ýta undir atvinnusköpun og skapa þannig störf sem auka skatttekjur ríkisins og framfærslufé almennings.

Ögmundur er hins vegar augljóslega einn þeirra mörgu þingmanna sem getur með engu móti rifið sig upp úr átakastjórnmálunum. Hann þurfti að bæta því við að allt sem miður hefur farið væri fyrri ríkisstjórn að kenna. "Það er staðreynd að það hafa verið rifin göt á velferðarkerfið og unnin á því stórkostleg spjöll. Krafan er nú á okkur að stoppa upp í þessi göt og fá úr þessu bætt."

Ef við gefum okkur nú það að Ögmundur hafi rétt fyrir sér með að allt sem úrskeiðis fór sé fyrri ríkisstjórn að kenna þá er það mín skoðun að það hjálpi lítið til við uppbygginguna nú að klifa stöðugt á því. Með því á ég ekki við að þeir sem sannanlega brutu af sér í störfum sínum verði ekki látnir sæta ábyrgð.

En á hinn bóginn er ég hreint ekki sammála Ögmundi um að það sé fyrri ríkisstjórn/stjórnum einni/einum að kenna hvernig fór. Ég get vel viðurkennt að ég er að sjálfsögðu mjög óánægður með að fyrri ríkisstjórnir stóðu ekki betur að málum en raun ber vitni. Ég treysti þessu fólki með atkvæði mínu til þess að sjá um að búa okkur það umhverfi og þann lagaramma sem myndi veita okkur meiri hagsæld til framtíðar. En þegar nú er litið yfir hina sviðnu jörð og steinum lyft virðist sem æði margt hafi hjálpast að. Meira að segja forseti lýðveldisins virðist hafa tapað áttum. Ég ætla ekki að rekja það allt hér en get þó ekki orða bundist með það að Ögmundi mannréttindaráðherra væri hollt að staldra stundum við og rifja það upp með sjálfum sér hvað hann og hans félagar í stjórnarandstöðunni lögðu til málanna í aðdraganda hrunsins. Þegar það er skoðað var þeirra krafa oftast á þá leið að ríkið ætti að verja meiri fjármunum til velferðarkerfisins en minni. Ríkið ætti að eyða meiru í stað þess að spara og safna sér sjóði til mögru áranna. Samkrull sumra stjórnamálaflokka við ákveðnar viðskiptablokkir virðist ekki hafa verið til bóta og það á jafnt við um ríkisstjórnarflokka sem stjórnarandstöðuflokka. Ábyrgðin virðist því liggja mjög víða og það er í sjálfu sér sorglegt. Nánast allt sem gat brugðist gerði það.

Mannréttindaráðherrann okkar er ekki maður einhamur og hefur komið víða við. Dæmi um það sem hann lagði til málanna má finna á heimasíðu hans frá 15. janúar 2004. Þar greinir hann frá fundi fulltrúa stærstu heildarsamtaka launafólks með trúnaðarmönnum á Landspítala Háskólasjúkrahúsi sem voru að mótmæla stórfelldum niðurskurði á sjúkrahúsinu sem myndi leiða til þess að hátt í 300 einstaklingar myndu missa vinnuna.

Í pistlinum segir hann m.a. frá ávarpi sínu á fundinum þar sem fram kom m.a.:

"Ég hef velt því fyrir mér hvað skýri þessa hrottafengnu aðför að Landspítala háskólasjúkrahúsi, hvort hér geti verið um að ræða mistök. Eða hvort það geti verið að ríkisstjórn og fjárveitingavald hafi haldið að allt muni bjargast einhvern veginn eins og gerst hefur undanfarinn áratug þrátt fyrir erfiðan hallarekstur á þessu stærsta sjúkrahúsi landsins.

Er ekki annars kominn tími til að skoða þennan niðurskurð með hliðsjón af því sem er að gerast í þessu þjóðfélagi og meta þær upphæðir sem ríkisstjórnin neitar heilbrigðiskerfinu um í samhengi við þær milljarða fúlgur sem eru á sveimi í alls kyns braski.

Menn vita sem er að þegar heilsan brestur þá brestur allt, þá verður nánast allt annað í lífinu hégómi einn. Og nú segi ég í nafni félaga í BSRB – í krafti samþykkta og yfirlýsinga frá BSRB fyrr og síðar – við munum ekki í andvara- og aðgerðaleysi horfa uppá þá aðför sem nú er gerð að þessu sjúkrahúsi og þar með öllu því fólki sem hingað leitar til að fá aðhlynningu og bót meina sinna.Við erum reiðubúin að taka þátt í öllu starfi sem snýr að skynsamlegri ráðstöfun fjármuna, við viljum svo sannarlega að ráðdeild sé sýnd. En stjórnendur þurfa jafnframt að sýna sanngirni og framkvæma af yfirvegun. Það er staðreynd að á mörgum sviðum er starfsemin hér verulega undirmönnuð með þeim afleiðingum að fólk býr við of mikið vinnuálag sem síðan kemur niður á starfseminni. Og nú á að herða enn að; eru menn með öllum mjalla? Ég skora á ríkisstjórnina að sýna þann manndóm að endurskoða ákvarðanir sínar, nú þegar fram kemur hve alvarlegar afleiðingar þær hafa í för með sér"

Sem sagt á þessum tíma barðist Mannréttindaráðherrann gegn sparnaði á Landspítalanum og vildi auka útgjöldin til heilbrigðiskerfisins. Hann taldi þá sem leituðu sparnaðarleiða ekki með öllum mjalla.

Hvað gerði Ögmundur þegar hann varð heilbrigðisráðherra? Jú hann var samkvæmur sjálfum sér og dró til baka allar sparnaðarhugmyndir Guðlaugs Þórs og fékk fyrir mikið lof, m.a. í sérstakri yfirlýsingu frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hvað hefur gerst síðan? Það þekkja allir sem fygljast með fréttum og sjá fjöldmótmæli við heilbrigðisstofnanir landsins. Svo notuð séu orð Ögmundar sjálfs má spyrja hvort það geti verið að ríkisstjórnar- og fjárveitingarvald hafi haldið að allt muni bjargast einhvern veginn eins og gerst hefur undanfarinn áratug þrátt fyrir erfiðan hallarekstur. Svo enn séu notuð orð Ögmundar "Það sem mælir gegn þessari kenningu er hins vegar stærðargráðan - hve hátt niðurskurðarsveðjan er nú reidd til höggs".

Nú má vel vera að einhverjir hugsi með sér að þetta sé ósanngjörn upprifjun og aðstæður séu aðrar nú en þegar Ögmundur lét ofangreind orð falla. En er það svo? Það var verið að reyna að takast á við sífellt aukin útgjöld til heilbrigðiskerfisins. Ögmundur vildi auka þau ennþá meira. Núna vitum við það að við eyddum um efni fram. Hefðum við verið í betri aðstöðu ef farið hefði verið eftir tillögum Ögmundar? Í leit sinni að vinsældum ákvað Ögmundur að draga til baka allar sparnaðartillögur fyrri heilbrigðisráðherra. Hverjar eru afleiðingarnar? Í stað þess að bregðast við frestaði hann vandanum og jók hann þar með. Afleiðingin er stórfelldari niðurskurðartillögur til heilbrigðismála en við höfum áður séð.  Eru stjórnvöld með öllum mjalla? -svo enn séu notuð orð Ögmundar.

Fyrr í pistli mínum sagði ég það litlu skila að horfa sífellt til baka og benda á hvað aðrir gerðu margt vitlaust í aðdraganda hrunsins. Það gegnir hins vegar öðru við nú í eftirleiknum. Nú ríður á að halda valdhöfum við efnið og reyna að fá þá til að koma með lausnir sem gagnast þjóðinni sem best. Til þess bauð þetta fólk sig fram til stjórnmálaþátttöku.

Ef Jón Daníelsson hagfræðingur hefur rétt fyrir sér með það að mestan hluta þess tjóns sem rekja megi til efnahagshruns megi rekja til eftirfarandi aðgerða eða aðgerðaleysis eftir hrunið held ég að Ögmundur mannréttindaráðherra ætti að einbeita sér meir að því að finna lausnir við núverandi vanda frekar en að eyða tíma sínum í að benda á hvað margt var illa gert í aðdraganda hrunsins. Að mínu mati á það að vera hlutverk sagnfræðinga og þeirra sem hafa skilgreindu hlutverki þar að gegna eins og t.d. réttarkerfinu.

Hinn gríðarlegi niðurskurður sem nú stendur fyrir dyrum í heilbrigðiskerfinu er meiri en þurft hefði að vera ef fyrr hefði verið gripið í taumana. Með aðgerðarleysi sínu sem heilbrigðisráðherra jók Ögmundur Jónasson þann vanda sem fyrirséður var. Ögmundur mannréttindaráðherra hefur nýlega greitt með því atkvæði að annar ráðherra verði látinn sæta ábyrgð fyrir Landsdómi fyrir að hafa ekki brugðist við fyrirséðum vanda. Hversu samkvæmur skyldi mannréttindaráðherrann vera sjálfum sér?


Vinstri velferðarstjórnin hæðist að lýðræðinu

Á heimasíðu Ögmundar Jónassonar mannréttindaráðherra, en þáverandi heilbrigðisráðherra, frá 24. júní 2009 er að finna grein eftir hann sem ber heitið "Hæðst að lýðræðinu" ( http://www.ogmundur.is/annad/nr/4624/).

Þar leggur hann út frá boðskap Staksteina Morgunblaðsins þann dag og segir ritstjóra blaðsins hæðast að lýðræðislegum vinnubrögðum í heilbrigðisráðuneytinu við endurskipulagningu og fjárlagagerð. Ögmundur segir á annað hundruð starfsmanna stofnana heilbrigðisráðuneytisins ekki skrifa upp á boðskap Staksteina.

Hann segir að á fundi sem hann boðaði til hafi verið frjóar og gjöfular umræður og ríkur vilji til að skoða starfsemi á vegum ráðuneytisins á gagnrýninn hátt með það fyrir augum að stuðla að markvissari vinnubrögðum og sem bestri nýtingu fjármuna. Allir vildu gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð. Ekki tilskipunaraðferðafræði.

Ögmundur segir menn vita að þetta vinnulag hafi ekki bara skilað okkur efnahagshruni. Í opinberri stjórnsýslu hafi uppskeran verið óánægja og árangursleysi, einnig við fjárlagagerðina. Þannig hafi Sjálfstæðisflokkurinn skilað heilbrigðisþjónustunni út úr þennslunni og inn í kreppuna með yfir tvö þúsund milljóna skuld á bakinu. Unnið sé að því að vinda ofan af þessu auk niðurskurðar upp á þúsundir milljóna vegna efnahagsóreiðunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig.

Það má taka undir með Ögmundi að því leytinu til að illa hafði gengið að koma böndum á heilbrigðisútgjöldin. Ástæður þess voru margvíslegar, m.a. sú sífellda krafa að bæta þjónustu við sjúklinga og taka upp nýjar lækningaaðferðir. Þá vildu heilbrigðisstéttir fá betri kjör ekki síður en aðrir þjóðfélagshópar. Þá voru stjórnarandstöðu flokkarnir óþreytandi við að krefjast meiri útgjalda til málaflokksins í stjórnarandstöðutíð sinni. Sjálfsagt er eftir á að hyggja rétt, að gagnrýna má meirihluta Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna fyrir að hafa gengið of langt í þeim efnum.

Þegar loksins var gripið til aðhalds- og sparnaðaraðgerða af Sjálfstæðisflokknum þá var ráð Ögmundar, þegar hann komst til valda, að ýta öllum fyrirliggjandi sparnaðarhugmyndum út af borðinu og slá þar með sjálfan sig tímabundið til riddara.

Til áréttingar þess hversu vel Ögmundur taldi til hafa tekist birtir hann í lok greinar sinnar fréttatilkynningu, sem samráðshópur um hagræðingu í rekstri Heilbrigðisstofnunar Reykjaness, sendi frá sér undir lok mars 2009. Þar segir m.a.:

"... Tillögur hópsins tryggja að nærþjónusta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verður áfram sú sama sem verið hefur, bráðamóttaka á skurðstofu, þjónusta við fæðandi konur og umönnun aldraðra verður óbreytt svo eitthvað sé nefnt.

Ekki hefði verið unnt að ná þessum árangri án frumkvæðis Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra en hann ákvað að fara aðrar leiðir en áður hafa verið farnar sem byggðu á samráði við nærsamfélagið og starfsmenn með því að skipa hollvini HSS í samráðshópinn ásamt starfsmönnum HSS, Landspítala og ráðuneytis".

Svo mörg voru þau orð. Ögmundur náði markmiði sínu með því að auka vinsældir sínar tímabundið með því að draga til baka allar erfiðar ákvarðanir fyrri ráðherra. Sjálfsagt hefur honum þótt hólið gott. Með þessum aðgerðum sínum frestaði hann hins vegar óhjákvæmilegum aðhalds- og sparnaðaráformum. Þessi ákvörðun hans hefur aukið á vanda heilbrigðiskerfisins því nú er sparnaðarkrafan enn meiri en hún var og sennilega meiri en hún hefði þurft að vera. Af fréttum að dæma alls staðar að af landinu gleymdist algjörlega að viðhafa gagnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð við vinnslu þeirra fjárlaga sem nú eru til umfjöllunar. Tilskipunaraðferðafræðin var sú aðferðafræði sem rétt þótti að nota.

Vinnubrögð sem þessi eru ekkert annað en lýðskrum og loddaraskapur. Því miður kemst mannréttindaráðherrann upp með orðagjálfur sem þetta trekk í trekk.

Það hefði verið meiri manndómur í því að viðurkenna að á þeirri ögurstundu sem upp var runnin þurfti að grípa til aðgerða í stað þess aðhafast ekkert. Mannréttindaráðherrann hefur nýlega greitt með því atkvæði að annar ráðherra sem aðhafðist ekkert á ögurstundu skuli dreginn fyrir Landsdóm.


Er eftirspurn eftir íslenskum forsætisráðherrum?

Í mai 2009 setti ég niður á blað vangaveltur mínar um ríkislaunataxtann og birti á heimasíðu þáverandi vinnuveitanda míns Læknafélags Íslands.

Að undanförnu hefur aftur vaknað upp nokkur umræða um launakjör hjá hinu opinbera og var m.a. ritstjórnargrein í Fréttablaðinu í síðustu viku um málefnið. Af þessu tilefni hef ég ákveðið að birta þessar vangaveltur mínar hér á þessum vettvangi. 

"Eins og alþjóð veit er íslensk þjóð í vanda. Valdhafar glíma við erfið verkefni og það skiptir okkur öll miklu að vel takist til í þeirri glímu. Eins og gengur eru skiptar skoðanir um þær leiðir sem valdar eru. Ein leiðin sem hin nýja ríkisstjórn virðist ætla að fara er að breyta launauppbyggingu opinberra starfsmanna. Hin nýja leið felur í sér að forsætisráðherra landsins eigi að hafa hæst laun þeirra sem starfa fyrir hið opinbera. Í því felst að breyta þarf launauppbyggingu opinberra starfsmanna verulega. Ef gæta á innra samræmis milli hópa og taka tillit til menntunar, reynslu og annarra persónulegra eiginleika sem notaðir hafa verið sem mælikvarðar hingað til hlýtur að þurfa að endurskoða það kerfi allt. Væntanlega felur þessi endurskoðun í sér samþjöppun í launastigum þar sem svigrúmið verður minna en áður og raða þarf störfum opinberra starfsmanna á þann hátt að laun þeirra rúmist milli lægstu launa, sem í dag eru nálægt 160.000 kr., og hæstu launa sem í dag eru 935.000 kr., sem eru laun forsætisráðherra. Þessi aðferð mun óhjákvæmilega fela í sér minni launakostnað hjá hinu opinbera þar sem laun allra hópa opinberra starfsmanna hljóta að lækka með þessari aðferðafræði. Það er í sjálfu sér jákvætt fyrir ríkissjóð og mun spara umtalsvert fé sem ekki veitir af. Þessu hefur leiðarahöfundur Morgunblaðsins, meðal annarra,  áttað sig á og telur þetta vera eðlilega aðgerð af hálfu stjórnvalda. Hann tekur undir þessa hugmynd ríkisstjórnarinnar gagnrýnislaust en hefur af því mestar áhyggjur hvort hið sama muni ekki örugglega ganga yfir forseta lýðveldisins.

Það er nauðsynlegt markmið hjá hinni nýju ríkisstjórn á þessum erfiðu tímum að minnka útgjöld ríkisins. Kannski er það óhjákvæmilegt að grípa þurfi til ráðstafana sem lækka launakostnað þess opinbera. Molahöfundur leyfir sér hins vegar að efast um að þessi aðferðafræði við að lækka launakostnað ríkisins sé hin rétta.

Það skal viðurkennt að útfærslan hefur ekki verið kynnt nákvæmlega þannig að vel má vera að ríkisstjórnin muni á síðari stigum gera nákvæmari grein fyrir útfærslunni sem leiði til þess að molahöfundi hugnist leiðin betur. En eins og sakir standa er margt sem vekur spurningar.

Forsætisráðherra „er alltaf á vaktinni“. Laun hans taka mið af því. Laun hans eru því heildarlaun en ekki laun fyrir hefðbundna 40 stunda vinnuviku. Eigi laun forsætisráðherra að vera hæstu laun innan ríkiskerfisins mun það þýða að heildarlaun annarra ríkisstarfsmanna muni þurfa að taka mið af því. Hvernig verður það útfært? Hvernig verða laun vaktavinnustarfsmanna t.d. borin saman við laun forstjóra ríkisstofnana sem ekki þurfa að vinna mikla yfirvinnu? Verða laun deildarlækna og slökkviliðsmanna sem ganga vaktir hærri en laun forstjóra Landspítala og Slökkviliðs? Eða verður það kannski ábyrgðin sem mestu skiptir en ekki vinnutíminn? Eða reynslan? Verður tekið tillit til betri lífeyrisréttinda forsætisráðherra en annarra opinberra starfsmanna þegar heildarkjör verða metin? Þrátt fyrir nýlegar breytingar á lögum um lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra hefur þessi hópur mun betri heildarréttindi en aðrir hópar opinberra starfsmanna, t.d. mun betri makalífeyri. Þá er rétt að halda því til haga að þeir þingmenn og ráðherrar sem ekki eru nýir á þingi hafa undanfarin ár notið umtalsverðra sérkjara sem aðrir opinberir starfsmenn hafa ekki notið. Er þá sanngjarnt nú á erfiðleikatímum að hæsta launaviðmiðið innan opinbera kerfisins eigi að liggja hjá þeim sem hafa verið í þeirri stöðu að safna sér í digra eftirlaunasjóði?

Nú vill molahöfundur ekki draga úr því að vissulega er starf forsætisráðherra mikilvægt, mjög mikilvægt. Molahöfundur trúir því að flestir vilji hæfa manneskju til að gegna því embætti og að eðlilegt sé að launa viðkomandi manneskju vel fyrir að takast þetta vandasama verk á herðar. En hvort það sé eðlilegt að laun fyrir þetta starf séu þau hæstu innan kerfis þess opinbera er ekki sjálfgefið. Kannski eiga laun þessarar manneskju að vera þau hæstu en þá mega þau ekki vera það lág að þau geti verið hamlandi fyrir starfsemi þess opinbera.

Á þeim uppgangstímum sem íslensk þjóð hefur lifað síðast liðin fá ár eru flestir sammála um að launakjör sumra hafi verið úr takti við það sem eðlilegt megi teljast. Því fylgdi þó það ástand að stórir hópar vel menntaðra einstaklinga áttu kost á störfum þar sem laun voru góð þótt þau væru almennt ekki talin úr hófi. Það þótti á þeim tíma jákvætt fyrir íslenskt samfélag m.a. vegna skatttekna til samfélagslegrar neyslu. Þessu ástandi fylgdi þó sá ókostur, að mati sumra, að hið opinbera átti í erfiðleikum með að ná í og halda hæfu starfsfólki. M.a. þess vegna hefur því verið haldið fram að eftirlit og reglusetning hafi ekki verið nægilega góð af hálfu þess opinbera.

Að mati molahöfundar er hætta á því að sama ástand viðhaldist framfylgi ríkisstjórnin ákvörðun sinni um að laun forsætisráðherra skuli verða þau hæstu innan ríkiskerfisins. Þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir eru hæstu laun á almenna markaðinum töluvert hærri en þau laun sem forsætisráðherra hefur nú. Það þýðir að laun sérfræðinga á hinum almenna markaði eru hærri en þau laun sem munu bjóðast sérfræðingum hjá hinu opinbera. Það mun viðhalda því ástandi sem kvartað var undan að hefði átt þátt í því að valda hinni íslensku þjóð því tjóni sem við nú stöndum frammi fyrir.

Burtséð frá ofangreindum vangaveltum má velta því fyrir sér hvort það sé yfirhöfuð eðlilegt að pólitískur starfsmaður ríkisins sé sá hæst launaði. Hvernig er hann valinn? Þarf hann að ganga í gegnum hefðbundið hæfnismat opinberra starfsmanna þar sem sú krafa er gerð að allir sem áhuga hafi geti sótt um opinber störf og að einungis skuli ráða þann hæfasta sem ríkinu stendur til boða? Um þetta eru vissulega skiptar skoðanir. Í morgunútvarpi Bylgjunnar þann 14. maí sl. lýsti Atli Gíslason, þingmaður í öðrum stjórnarflokknum, þeirri skoðun sinni að þingmenn ættu ekki að sækjast eftir þingmennsku vegna launanna heldur af hugsjón. Hvernig fer það saman við það að ákveða að þingmaður sem sækist eftir sæti á þingi og verður síðar ráðherra, jafnvel forsætisráðherra, skuli verða sá starfsmaður ríkisins sem hæst hefur launin? Það er rétt að halda því til haga að ekki eru allir sammála Atla því þingmaðurinn Pétur Blöndal, sem var viðmælandi í sama þætti á Bylgjunni, hélt því fram að til að þjóðin ætti völ á sem best menntuðu fólki til starfa fyrir sig á þingi þyrfti m.a að taka tillit til kostnaðar við nám og námslán sem því fylgdi.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að meta nám opinberra starfsmanna til launa. Fyrir liggur að læknar, sem langflestir hafa aflað sér sérfræðimenntunar á eigin kostnað, ljúka almennt 11 til 14 ára háskólanámi. Væntanlega munu þeir þess vegna raðast ofarlega í hinn nýja ríkislaunataxta. Hvernig hvert námsár í háskóla verður metið til launa á enn eftir að koma í ljós. Það liggur þó væntanlega (?) fyrir að lengd háskólanáms mun hafa áhrif á launaröðunina. Hvernig reynsla og aðrir persónulegir eiginleikar verða metnir á eftir að koma í ljós. Þó liggur fyrir að pólitískt starf einstaklinga getur komið til með að borga sig í þessu samhengi – jafnvel á kostnað menntunar og reynslu.

Ein hliðin á þessu máli snýr að eftirspurnarhliðinni. Almennt er viðurkennt að laun ákvarðist að nokkru leyti af þeirri eftirspurn sem er eftir viðkomandi starfskröftum. M.a. þess vegna varð ríkið undir í samkeppni um hæfasta starfsfólkið í fjármálageiranum. (Þessi setning er reyndar umdeilanleg í ljósi þess sem gerðist - en þó ekki (þeir sem stýrðu málum í einkageiranum stóðust ekki væntingar – og alls ekki þeir sem áttu að hafa eftirlit með þeim)). Til að skýra þetta betur er nærtækt fyrir starfsmann Læknafélags Íslands að bera saman pólitíska starfsmenn ríkisins og lækna. Er mikil eftirspurn erlendis eftir íslenskum þingmönnum eða íslenskum ráðherrum? Er mikil eftirspurn eftir íslenskum læknum erlendis? Til að svara þessari spurningu væri t.d. hægt að telja auglýsingar eftir viðkomandi starfskröftum í opinberum fjölmiðlum og fagtímaritum. Af tillitssemi er það ekki gert.

Ef ríkislaunin mega ekki verða hærri en kr. 935.000 hvernig hafa þá stjórnvöld hugsað sér að halda uppi vaktþjónustu á sviði lækninga? Eins og fjárrmálaráðherra og heilbrigðisráðherra hafa lýst á undanförnum vikum vilja þeir deila byrðunum og vinnunni. Það á að leggja af aukavaktir og það á jafna launin þannig að þeir sem hafa þau hæst eiga að hafa þau lægri. Það er sjálfgefið í jöfnu ríkisstjórnarinnar að hæstu laun mega ekki vera hærri en laun forsætisráðherra. En hverjir eiga þá að vinna vinnuna? Hverjir eiga að taka vaktir lækna þegar þeir hafa fengið laun sem slaga upp í laun forsætisráðherra? Vissulega koma laun lækna til með að lækka þegar boðaður ríkislaunataxti ríkisstjórnarinnar tekur gildi. Það þarf þó ekki mikla umhugsun til að átta sig á því að starfmenn þess opinbera sem þurfa að taka vaktir, m.a. til að halda uppi almannaþjónustu, verða tiltölulega fljótir að rekast upp í járnþak ríksstjórnarinnar um hámarkslaun vegna langs vinnutíma. Hvernig ríkisstjórnin kemur til með að bregðast við því þegar kemur að mönnun læknisstarfa verður fróðlegt að sjá. Ein leiðin er sú að fjölga læknum í viðkomandi sérfræðigrein. Með því verður unnt að manna vaktir með fleiri læknum þannig að enginn þeirra fái greidd laun sem eru hærri en kr. 935.000 á mánuði. Það mun þó ekki spara ríkissjóði neinar fjárhæðir því eins og ástandið er á Íslandi í dag er vandinn ekki endilega fólginn í því að manna dagvinnutímann (amk ekki ennþá) heldur hitt að of fáir læknar eru til staðar til að dreifa byrðum vaktskyldunnar (sem í dag með illu eða góðu gerir marga lækna að hátekjufólki á íslenskan mælikvarða).

Það væri hægt að halda áfram á þessum nótum um nokkurn tíma. Molahöfundur lætur þó nægja að benda á nokkur álitaefni til viðbótar án þess að fjalla sérstaklega um þau.

Er eðlilegt að lækka laun þeirra sem hafa verið ráðnir til starfa á síðustu mánuðum og árum miðað við tilteknar forsendur og hafa jafnvel sleppt hendinni af vel launuðum störfum í útlöndum til að taka við störfum hér á landi? Getur verið að ríkið baki sér skaðabótaábyrgð í slíkum tilvikum?

Mun þessi hugmynd ríkisstjórnarflokkanna um hámark ríkislauna, ef hún verður framkvæmd, hafa áhrif á kjör þeirra verktaka/ráðgjafa sem fengnir hafa verið til verka á síðustu mánuðum? T.d. má nefna sérstakan ráðgjafa frá Frakklandi sem aðstoða á við að finna íslenska sökudólga. Eða verða starfsmenn/ráðgjafar/verktakar af hennar tegund undanþegnir hámarki ríkislaunaþaksins.

Það kemur molahöfundi verulega á óvart hversu gagnrýnislausir íslenskir fjölmiðlar hafa verið á þessar hugmyndir ríkisstjórnarinnar. Molahöfundur kann ekki skýringar á því. Kannski líkar starfsmönnum einkareknu fjölmiðlanna vel við þessar sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar þar sem þeir vonast eftir betri tíð með blóm í haga fyrir hina íslensku þjóð með lækkun launa opinberra starfsmanna. Kannski vilja starfsmenn opinberra fjölmiðla ekki gagnrýna stjórnvöld um of af ótta við að störf þeirra kunni að verða í hættu. Sé svo er þeim vorkunn því vissulega eru störf opinberra starfsmanna í hættu eins og störf annarra launþega. Það hafa stjórnendur þess opinbera þegar sýnt með uppsögn starfsmanna, og þá ekki síst þeirra starfsmanna sem hafa að mati vinnuveitenda sýnt einhvers konar mótþróa í gegnum tíðina.

Rétt er að taka fram að félagar í Læknafélagi Íslands hafa mjög margir lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að taka á sig sambærilegar byrðar og aðrir í þjóðfélaginu. Þeir eru hins vegar ekki tilbúnir til að taka á sig meiri byrðar en aðrir þjóðfélagshópar.

Að lokum er rétt að taka fram að molahöfundur deilir áhyggjum ráðherra ríkisstjórnarinnar um framtíð Íslands og Íslendinga. Af því tilefni er rétt að benda á að á Íslandi eru rétt rúmlega 1000 læknar, yngri en 67 ára, með lækningaleyfi til að þjóna íslensku þjóðinni. Það gerir um 310 – 320 íbúa á lækni. Á hinum norðurlöndunum er sambærilega tala um 250 til 290 manns. Þar er talinn mikill skortur á læknum. Meðal annars leita þær þjóðir eftir íslenskum læknum". 


Íslenskir sjúklingar á leið úr landi og mannréttindabrot á vanfærum konum?

Það er víðar en á Íslandi sem sparnaðaráform koma niður á heilbrigðisþjónustunni. Ég rakst á grein um ástandið á Írlandi sem minnir um margt á það sem við höfum verið að ganga í gegn um og getum átt í vændum. 

"Ireland has suffered badly from the economic crisis and has taken tough measures that have seen many people take a substantial salary cut. Included in the government cutbacks are reductions in the amount that the state pays for dental care. Ireland is an example of how government health cuts can drive people to look for treatment abroad. It is a pattern that is may be repeated in other countries."

(http://www.imtj.com/news/?entryid82=254716&source=email&campaign=imtj_news_101021).

Í vikunni var viðtal við einn af okkar fremstu hjartaskurðlæknum. Þar varaði hann við því að ef lengra yrði gengið gæti orðið skammt í að við verðum að fara að senda hjartasjúklinga til útlanda í meðferðir. Komi til þess verður það íslensku samfélagi mun dýrara en að geta veitt þjónustuna innanlands. Vandinn virðist hins vegar vera sá að stjórnmálamenn sjást ekki alltaf fyrir og taka viðvörunarorðum (sérstaklega fagstétta) oft af furðumikilli léttúð. Við getum því verið dottin ofan í brunninn þegar stjórnmálamenn átta sig á að það hefði þurft að byrgja hann. Það höfum við fundið á eigin skinni bæði fyrir hrun og ekki síður eftir það.

Ég sat fund í gær í HR þar sem Dr. Brigit Toebes fræðimaður á sviði heilbrigðisréttar og mannréttindaverndar fjallaði um réttinn til heilsu og hagræðingu í heilbrigðisþjónustu. Hún benti á að Íslendingar væru bundnir af ýmsum alþjóðlegum sáttmálum sem yrði að taka tillit til þegar verið væri að skerða heilbrigðisþjónustu. Nefndi hún sérstaklega að í þessum sáttmálum væri fötluðum og vanfærum konum tryggð ákveðin þjónusta í sinni heimabyggð. Af fréttum að dæma virðist sem stjórnvöld séu ekki mjög vel meðvituð um þennan rétt. T.d. má spyrja hvort boðaður niðurskurður í Vestmannaeyjum, Vestfjörðum og Austurlandi standist þessi ákvæði sem Brigit nefnir?

Í vikunni var viðtal við landlækni um fyrirhugaðan innflutning á sjúklingum. Mér fannst svar hans vera frekar af pólitískum toga en faglegum. Ég er samt sammála landlækni um að það verður að fara varlega þegar verið er að taka upp nýbreytni við veitingu heilbrigðisþjónustu - alveg á sama hátt og það verður að fara varlega þegar verið er að skera niður. Í máli landlæknis kom fram að hann hefur miklar efasemdir um einkaframtakið í heilbrigðisþjónustunni og þá sérstaklega eins og það er framkvæmt í USA. Í erindi Dr. Brigit Toebes kom fram að flest ríki Evrópu eru að leita leiða til að spara fé til heilbrigðisþjónustunnar. Í því samhengi virðast þau flest vera að leita að einhvers konar samspili ríkisvaldsins og einkaframtaksins. T.d. hafa Hollendingar valið þá leið að fela tryggingafélögum að sjá þegnum landsins fyrir sjúkratryggingum. Það er hins vegar ríkisvaldsins að setja leikreglurnar og m.a. geta tryggingafélögin ekki neitað sjúklingum um kaup á tryggingum. Þau geta hins vegar boðið mismunandi tryggingavernd þegar lágmarkstryggingum sleppir. Dr. Brigit segir athyglisvert að sjá að Evrópuríkin virðast flest vera að stíga skref í áttina að ameríska kerfinu og að það ameríska sé nú að taka skref í áttina að evrópska kerfinu.

Ég gat ekki skilið Brigit öðruvísi en svo að henni hugnist best einhverskonar blönduð leið. Ég er sammála henni um það. Sjálfum hugnast mér ekki ameríska leiðin en að sama skapi hugnast mér ekki öfgarnar í hina áttina - fullkomin ríkisforsjá.

 


Stjórnlagaþing - til hvers?

Það verður hausverkur að kynna sér fyrir hvað 500 menningarnir standa sem hafa boðið sig fram til stjórnlagaþings. Ef ég ætla að láta mig málið varða hlýt ég að verða að taka afstöðu til þeirra á eins málefnalegan hátt og mér er unnt. Nema kannski ef ég ákveð að kjósa eingöngu þá sem ég hef séð í fjölmiðlum og þekki andlitin á eða ef ég fer eftir því með hvaða liði viðkomandi heldur.

Ég sé fyrir mér að ég verð töluvert upptekinn á næstunni við þessa iðju og reikna með að það muni eiga við um fleiri. Sem er ágætt og dreifir vonandi huganum frá þessum sífelldu hrunafréttum.

Enda hafa Jóhanna og Steingrímur lýst því yfir að þau séu ánægð með komandi stjórnlagaþing. Það er skiljanlegt því þau vita sem er að þetta dreifir huganum frá þessum sífelldu hrunafréttum.

Ég er hreint ekki sannfærður um ágæti þess að blása til stjórnlagaþings - og allra síst í því þjóðfélagsástandi sem við búum nú við. Einhverjir munu sjálfsagt halda því fram að þetta sé vegna kröfu fólksins sjálfs. Kannski, ég veit það ekki. Að minnsta kosti bað ég ekki um þetta.

Að mínu mati er orsakanna fyrir hruninu ekki að leita í því sem stendur í stjórnarskránni eða því sem ekki stendur í henni. Á sama hátt tel ég að það muni ekki hjálpa okkur að stíga upp úr hruninu með því að breyta stjórnarskránni. En það dreifir huganum.

Ég er ekki sannfærður um að Jóhanna og Steingrímur séu svo áfjáð í breytingar á stjórnarskránni. Þau kannski láta þannig og nefna meira að segja uppáhalds hugðarefni sín. Það gerðu þau líka fyrir kosningar. Mér dettur t.d. í hug gagnsæi í allri stjórnsýslu og allt upp á borðinu. Mannaráðningar hjá hinu opinbera í opnu og gegnsæu ferli og margt fleira. Vissulega glíma þau við mikil vandamál og tóku við á afar erfiðum tíma. En það kemur betrumbót í opnu og gegnsæu ferli lítið við. Reyndar heyrist mér á mörgum sem þeim finnist ríkisstjórn Jóhönnu hafa slegið við fyrri ríkisstjórnum á þessu sviði.

Það er gott til þess að hugsa að bráðum verð ég of upptekinn við að fylgjast með ráðabruggi Jóhönnu og Steingríms.


Ísland - land tækifæranna?

Þann 15. október sl. birti John Dizard nokkur athyglisverða grein í Financial Times um ástandið á Íslandi og hvernig brugðist var við því.

Ég er enn að velta greiningu hans fyrir mér en sýnist hann hafa margt til málanna að leggja þótt sjálfsagt sé sumt ofsagt og annað um of einfaldað (?).

Hann segist ekki sammála svartsýnisröddum um framtíð landsins. Hann gengur meira að segja svo langt að segja við lesendur sína að ef Ísland væri á markaði þá ættu þeir að reyna að kaupa það. Hvers vegna skýrist í grein hans þegar hún er lesin lengra.

Hann gerir ekki lítið úr kreppunni hjá okkur. Hann segir hvert það land þar sem 85% af bankakerfinu hrynji á nokkrum dögum vera í vandræðum.

Hann gefur pólitískum valdhöfum ekki háa einkunn, hvorki þeim sem voru við völd í hruninu né þeim sem tóku við af þeim. Hins vegar virðist hann hrifinn af þjóðinni, þjóðfélagsgerðinni og þeim styrk sem felst í þjóðskipulaginu og náttúruauðlindum þeim sem hér finnast.

Hann gengur svo langt að halda því fram, að eftir á að hyggja, mætti ætla að þeir sem höfðu verið valdir til að takast á við vandann hefðu verið valdir úr hópi vanhæfra og óheiðarlegra úr hópi eyjarskeggja. Hann segir það reyndar hafa verið lán í óláni því þessir aðilar hafi ekki haft traust erlendis til að fá langtímalán til að breiða yfir hina íslensku óráðssíu eins og mörgum öðrum þjóðum hafi tekist, amk til skamms tíma - illu heilli. Hann segir þjóðina sjálfa hafa tekið í taumana og svo virðist sem hún hafi meira "common sense" en margir kjörnir fulltrúar hennar.

Hann bendir á að lýðfræðilega standi Íslendingar að mörgu leyti betur en aðrar Evrópuþjóðir. Hér séu íbúar tiltölulega ungir í samanburði við aðrar þjóðir og með mjög hátt menntunar stig. Eftirlaunaþegar séu hlutfallslega fáir.

Hann segir lífeyrissjóðakerfið okkar í raun vera yfirfjármagnað. Fiskveiðiauðlindirnar verði sífellt verðmætari og auki útflutningstekjur. Jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir framleiði fimm sinnum meiri orku en þurfi til heimabrúks - á vistvænan hátt.

Hann segir vissulega við mörg vandamál að glíma. Í því sambandi nefnir hann að þjóðarframleiðsla hafi dregist saman um næstum 7% á síðasta ári og það verði næstum 2% samdráttur á þessu ári. Atvinnuleysi sé um 7% og fall gjaldmiðilsins hafi dregið mjög úr innflutningi. Þá sé fjármögnun íbúðarhúsnæðis í miklum vanda.

Hann er ósammála ríkisstjórninni og AGS um gjaldeyrishöftin. Hann bendir á að ein afleiðingin af hruninu sé sú að nú sé vöruskiptajöfnuður nú um 7% af þjóðarframleiðslunni sem þýðir að með sama áframhaldi ættum við fyrir öllum erlendum skuldum á þremur árum.

Hann bendir á að þrátt fyrir að ýmislegt sé með jákvæðum hætti þá sé þó ennþá óveðursský yfir landinu: Icesave. Í júní 2009 hafi lánlausir íslenskir samningmenn undirritað Icesave samkomulagið með hinum gríðarmiklu skuldbindingum - án skyldu. Hann bendir á að eftir að ríkisstjórninni mistókst að staðfesta samninginn með löggjöf hafi íslenska þjóðin hafnað samningnum með 93% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslenska þjóðin hafi lesið smáa letrið betur en kjörnir fulltrúar hennar.

Hann bendir á að íslenska bankakerfið var í raun allt fallið og því ekkert að hafa af því umfram það sem gæti falist í þrotabúum bankanna. Hann bendir jafnframt á það að nú líti út fyrir að allt að 90% af Icesave kröfunum fáist til baka úr þrotabúi Landsbankans. Því muni Íslendingar nú geta samið á allt öðrum kjörum en þeim afarkostum sem þeim stóðu til boða þegar skrifað var undir samkomulagið í júní 2009. Í kjölfarið verði hægt að losa um gjaldeyrishöftin.

Þá verði vandamálið of fá fjárfestingartækifæri á Íslandi fyrir lífeyirssjóðina og fjárfesta.


« Fyrri síða

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband