Jökulsárhlaup 2011 – fjórða hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þá er þetta farið að styttast. Nk. laugardag mun ég hlaupa fjórða hlaupið af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu og þá er bara Reykjavíkurmaraþonið eftir.

 

Þetta er í fjórða sinn í röð sem ég tek þátt í Jökulsárhlaupinu. Að mínu mati er þetta eitt skemmtilegasta hlaupið sem ég tek þátt í á hverju sumri. Landslagið sérlega fallegt og brautin krefjandi þótt hún sé að meðaltali niðurhallandi. Það má kannski segja að „galli“ sé við brautina að augun þurfa að vera býsna límd á henni þannig að útsýnisins verður kannski ekki notið sem skyldi. En þó, víða má sjá vel yfir þar sem brautin er sæmilega slétt.

 

Ég á góðar minningar úr Jökulsárhlaupinu í fyrra. Ég ætlaði reyndar ekki að taka þátt en eftir lélega frammistöðu á Laugaveginum í fyrra skráði ég mig í Jökulsárhlaupið á sunnudeginum eftir Laugavegshlaupið. Þá voru sex dagar í það. Núna er búið að færa hlaupið aftur fyrir verslunarmannahelgi sem gefur þrjár vikur á milli hlaupanna. Í fyrra „kom“ Laugavegurinn í lappirnar í Vesturdal þannig að þaðan var þetta frekar erfitt. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú þegar hvíldin er meiri en á móti kemur að álagið er líka búið að vera meira. En það var gott að geta hlaupið í fyrra á fullu blasti í ca 20 km og ná þannig gremjunni eftir Laugaveginn úr skrokknum. Það gerði ekkert til þótt síðustu 13 km hafi verið þungir. Þessi skyndiákvörðun um þátttöku gerði það líka að verkum að ég vann til 1. verðlauna í útdráttarkeppni sem þýddi flugfar út í heim fyrir 100.000. Þannig að Laugavegurinn í fyrra var kannski ekki svo slæmur eftir allt saman!

 

En að Laugaveginum í ár. Í fyrra hét ég mér því að ég myndi fara Laugaveginn á undir 6 tímum í ár – sem var markmiðið í fyrra. Um áramótin bætti ég heldur í og setti markmiðið á 5:45. Þá var ég ekki búinn að ákveða þátttöku í 100 km hlaupinu þannig að mér fannst þetta vel raunhæft markmið. Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um 100 km hlaupið fannst mér raunhæfara að stefna á 6 tímana og var hreint ekkert viss um að það myndi hafast. Á milli hlaupanna voru 5 vikur og nokkuð fyrirséð að fyrstu 2 vikurnar færu í hvíld. Fyrsta æfingavikan var strembin og gaf ekkert sérstaklega fögur fyrirheit. Eftir það batnaði þó ástandið þannig að mér fannst vel raunhæft að stefna á upphaflega markmiðið.

 

Í ár ákvað ég að sofa heima hjá mér nóttina fyrir hlaup og taka rútuna uppeftir. Ekkert nýtt og engar tilraunir í matarmálum. Í fyrra keyrðum við upp í Hrauneyjar kvöldið fyrir hlaup og komum við á veitingastað í bænum þar sem ég hafði ekki borðað áður. Hef þann kvöldverð sterklega grunaðan um ófarirnar daginn eftir. Núna vaknaði ég rúmlega þrjú og fékk mér mitt hefðbundna ristaða brauð og grænt te. Eftir það gengu morgunverkin eins og í sögu og ég var vel stemmdur. Kl. 3:50 sendi ég sms á hlaupafélagana sem búa inni í Hafnarfirði og ætluðu að pikka mig upp á leiðinni. Ekkert svar þannig að um kl. 4 hringdi ég í Unnar. Ekkert svar. Kl. 4:10 hringdi ég í Helgu. Ekkert svar heldur. Skrítið að hitta á þau bæði í sturtu eða að blása á sér hárið? Þegar þarna var komið sögu hugsaði ég með mér að ef ég ekki heyrði í þeim á næstu mínútum myndi ég fara á mínum bíl niður á Engjaveg. Kl. 4:15 var hringt. Erum á leiðinni. Nokkrum mínútum síðar henti ég mér inní bílinn hjá þeim og reykspólað var af stað. Dekkjaslit á leiðinni var f.o.f. á köntunum og með hraðatölur verður farið eins og þyngdarmælingar kvenna. Þau höfðu gleymt einni stillingu á vekjurklukkunni sem heitir ON og símarnir stilltir á „silent“. Einhverra hluta vegna vaknaði Unnar kl. 4:09. Þau í Hafnarfirði, ég í Garðabæ. Brottarfarartími rútu frá Laugardal kl. 4:30. Það var heppilegt að dótið höfðu þau tekið til kvöldið áður og verður að segjast eins og er að það var vel af sér vikið að ná í tíma en þegar við renndum í hlað voru rúturnar settar í gang. Af stað var haldið með óblásið hár, tannburstann á lofti og stírurnar í augunum.

 

Í Hrauneyjum var eðli málsins samkvæmt margt um manninn og fiðringur í loftinu. Þar sem við höfðum lent í síðustu rútunni fengum við að bíða eftir útlendum strandaglópum sem höfðu villst af leið. Þegar við fórum af stað var okkur sagt að við yrðum 1:45 á leiðinni upp í Landmannalaugar. Hmmm, þá myndum við renna í hlað kl. 09 en þá átti að starta fyrsta hópnum. Þetta var sem sagt svona dagur. Allt á síðustu stundu og ennþá meiri spenna. En sennilega hefur tíminn eitthvað verið ofáætlaður og rútubílstjórinn stóð sig vel. Við vorum komin á svæðið rétt um kl. 08.

 

Mér fannst vera frekar svalt og var á báðum áttum með klæðnað. Ætlaði að hlaupa í hnébuxum og hlýrabol en ákvað á síðustu stundu að fara í síðermabol undir hlýrabolinn og losa mig þá við hann á leiðinni. Það reyndist ágætt því mér leið vel upp í Hrafntinnusker og það var ekki fyrr en komið var niður Jökultungurnar sem mér fór að hitna verulega. Því ákvað ég að koma við í Bláfjallakvíslinni og skilja bolinn þar eftir.

 

Á leiðinni upp í Hrafntinnusker fann ég vel fyrir því að ég hef ekki æft fjallahlaup fyrir þetta tímabil. Strax eftir 3 km fann ég að kálfarnir voru ekki alveg sáttir við hraðann þannig að ég reyndi að slaka aðeins á án þess þó að hægja mikið á mér. Það slapp til en ég var þó hræddur um að ég gæti átt eftir að borga fyrir þennan þjösnaskap síðar. Á þessum kafla fóru nokkrir fram úr mér en þó ekkert mjög margir. Þegar nálgaðist skálann í Hrafntinnuskeri náði ég einhverjum til baka og leið bara býsna vel. Þegar ég fór frá drykkjarstöðinni voru 69 mínútur liðnar frá startinu þannig að ég hafði verið tveimur mínútum fljótari en árið áður – en leið þó mun betur núna.

 

Þegar ég fór af stað frá Hrafntinnuskeri hljóp á eftir mér einhver sem hafði komið þangað rétt á undan mér og var að láta fylla á vatnsbrúsa hjá sér. Hann náði mér fljótlega og hljóp síðan með mér þar til við komum niður Jökultungurnar. Við náðum engum og enginn náði okkur. Á leiðinni tókum við spjall saman og kom í ljós að hann heitir Bjarni og hafði helgina áður gengið 24 tinda gönguna í Eyjafirðinum. Þegar við komum á flatann neðan við Jökultungurnar skildi á milli okkar og þegar ég var að fara frá drykkjarstöðinni við Álftavatn var hann að koma. Þar sem hann var með derhúfu með (eyðimerkur) slöri þekkti ég hann ekki og mundi ekki til þess að hafa séð hann áður. En til marks um það hversu tómur maður getur verið í höfðinu eftir 55 km fjallahlaup þá sá ég mann að nafni Bjarni í „heita“ pottinum eftir hlaupið og heyrði hann spjalla við einhvern í pottinum um að hann hefði helgina áður gengið 24 tindana í Eyjafirðinum. En það var ekki nóg fyrir mig til að kveikja á perunni um þetta væri sá sami Bjarni og var samferða mér milli Hrafntinnuskers og Álftavatns. Ég kveikti ekki á því fyrr en daginn eftir þegar ég fór að kanna hvar þessi Bjarni hefði endað en hann kom í mark á góðum tíma skammt á eftir mér.

 

Frá Álftavatni fór ég af stað eftir 2:14 og að Bláfjallakvísl fóru engir fram úr mér en við Kvíslina náðu mér þó einhverjir. Ég sá einn þjóta framhjá án þess að stoppa við töskurnar og þar hefur væntanlega verið Siggi Kiernan á ferðinni en ég sá hann aldrei fara fram úr þótt ljóst sé á millitímum við Hrafntinnusker og Álftavatn að hann hafi verið á eftir. Hann lenti líka í smá basli á þessum legg en náði að vinna vel úr því.

 

Frá Bláfjallakvísl og að Emstrum fannst mér ganga vel. Ég hljóp þessa ca 16 km á 1:36 og fannst ég frekar halda aftur af mér þar sem ég hafði áhyggjur af síðasta kaflanum frá Emstrum. Á þessum kafla náði ég þó 4 hlaupurum og enginn fór fram úr mér. Þarna nýttist mér vel að lítið var um brekkur en í staðinn langir sléttir kaflar á söndunum. Þarna fannst mér allar löngu æfingarnar fyrir 100 km hlaupið nýtast vel. Á drykkjarstöðinni við Emstrur leið mér vel og þaðan fór ég þegar 3:50 voru liðnar frá startinu. Það hvarflaði að mér augnablik að ef ég héldi sama dampi þá væri séns á að klára hlaupið á 5:30-5:35. Þessi hugsun dvaldi hins vegar stutt við því um leið og ég lagði af stað niður brekkuna frá Emstruskála fékk ég krampakippi í báða kálfana. Það var því ekkert annað að gera í stöðunni en að hægja á og reyna að komast niður án þess að læsast. Þessi kafli og þar til komið var upp úr giljunum var vægast sagt leiðinlegur. Tveir af þeim sem ég hafði farið fram úr áður þutu framhjá mér þegar ég var rétt búinn að paufast upp eina brekkuna. Og ég sá fleiri nálgast. Nálgast eins og orm sem liðaðist um slóðann og var að reyna að ná í skottið á mér. Þegar ég loksins komst upp úr síðasta gilinu komu á siglingu Agga, sem vann glæsilegan sigur í kvennaflokki, og einhver þjóðverji. Þarna voru brekkurnar – í bili amk – loksins búnar og við tók frekar sléttur kafli að Kápunni. Þarna tókst mér að greikka sporið án þess að allt færi í lás og náði að halda í við Öggu og þjóðverjann. Ég elti reyndar þjóðverjann einhverja bölvaða vitleysu og við lentum ofan í einhverju smá gili en komust þó upp úr því án of mikils tímataps. Kálfarnir voru hins vegar ekkert sérlega hressir með þennan vitleysisgang. En hvað um það mér tókst að hanga nokkuð vel á eftir þeim að Kápunni og það virtist aftur fara að lengjast bilið í þá sem komu þar á eftir. Kápan var erfið og þá alveg sérstaklega niðurferðin. Þar sá ég á eftir Öggu á harðaspretti á meðan ég „læddist“ niður Kápuna eins og ósmurður staurkarl. Ég fékk krampakippi reglulega en gat samt haldið áfram á gönguhraða. Frá Þröngánni og í mark gekk sæmilega og virtist sem kælingin í ánni gerði gott. Það var svo sem ekki hratt farið en ég þurfti ekki að ganga nema bröttustu brekkurnar. Þarna hljóp ég fram á Jón Ebba sem hafði farið enn verr úr krampakeppninni en ég sjálfur og þótt það sé honum eflaust lítil huggun þá hefur hann sennilega unnið þá keppni þetta árið.

 

Í mark kom ég á tímanum 5:52 og einhverjar sekúndur. Alveg frábært! Bæting frá því í fyrra um 58 mínútur og ólíkt skemmtilegri upplifun nú en þá þótt síðasti kaflinn hafi verið erfiður. En til marks um það hversu tvísýnt þetta getur verið þá var ég ekki viss um að komast undir 6 tímana fyrr en minna en 1 km var eftir í markið. Þótt hvarflað hafi að mér eitt augnablik að ég gæti verið nálægt 5:30 þá var það áður en kramparnir byrjuðu. Eftir það var þetta allt saman óljóst og ekkert í hendi fyrr en það var í hendi. Það skyldi enginn vanmeta krampa.

 

Þrjár vikur í næsta hlaup, Jökulsárhlaupið. Hvíla sig og snúa síðan enn og aftur í gang. Hingað til hef ég verið heppinn með meiðsl á tímabilinu. Fann aðeins fyrir eymslum í öðru hné í kringum 100 km hlaupið en ekkert sem hefur verið til stórra vandræða. Tók tvær stuttar liðkunar æfingar á þriðjudegi og miðvikudegi eftir Laugaveginn. Hvíldi á fimmtudeginum og tók síðan 25 km æfingu á föstudeginum. Sú æfing gekk vel og var með frekar erfiðu undirlagi. Ætlaði að taka rúmlega 20 km æfingu á laugardeginum en varð að stytta hana þar sem hnéð fór að angra mig eftir rúmlega 10 km. Hafði þó ekki miklar áhyggjur af þessu þar sem ég þóttist vita að komandi veiðitúr með hvíld fram á þriðjudag myndi gera gott. Það stóð heima, hef nánast ekkert fundið fyrir hnénu síðan.

 

Veiðitúrinn var auðvitað mjög skemmtilegur en segja má að ég hafi verið sérlega heppinn að hlaupasumrinu skyldi ekki ljúka þarna. Fyrsta vaktin byrjaði hálf brösuglega. Ég var að hnýta nýja flugu á tauminn og þegar ég var að herða hnútinn missti flugan gripið í renniláslykkjunni hjá mér og stakkst á kaf í vísfingur og þumalfingur. Sá krókur sem fór í vísifingur fór á kaf og uppfyrir agnhald. Það er í fyrsta sinn sem ég prófa það. Ég náði honum ekki úr og varð að finna mér töng til að ná taki á króknum og gat þannig rifið hann út. Sem betur fer var þetta ekki stór krókur og því gatið ekkert sérlega stórt. En mikið getur blætt úr litlu gati. Þegar ég var rétt búinn að klára að hnýta fluguna almennilega á án þess að tjóna mig meira var komið að mér að kasta. Út á lítinn klett og kastað út. Bamm! Flugan tekin með látum og lax rauk um hylinn og ætlaði sér niður strauminn fjær. Með því að taka fast á honum tókst mér að lempa hann og fá hann til að snúa við. Hann tók þá ákvörðun að skella sér niður strauminn nær, sem var ágætt því þá fældi hann síður fiskana sem eftir voru. Ég þurfti að stökkva yfir á annan klett sem gekk vel en síðan var eftir að koma sér niður. Ég tók skrefið á brúnina og hélt ég myndi síðan taka næsta skref niður. Það var öðru nær. Það næsta sem ég vissi var að ég missti undan mér löppina sem átti á stíga á brúnina og ég skall niður á spjaldhrygginn. Ég missti andann og fann að þetta var vont. Ég þorði ekki að standa strax upp og lét félagann sem var rétt á eftir mér taka stöngina. Sem betur fer hafði mér tekist að halda strekktu á laxinum í fallinu og hann á húrrandi siglingu niður strauminn – en ennþá fastur. Ég náði að jafna mig og komst að því að ég var óbrotinn og skakklappaðist til félagans og tók aftur við stönginni. Fallegum nýrunnum laxi var landað skömmu síðar, en mikið var haft fyrir honum. En sennilega var ég stálheppinn, aðeins ofar og þá hefði ég lent á mjóbakinu, aðeins neðar og þá hefði ég lent á rófubeininu. Ekki víst að ég hefði þá sloppið jafn vel. Það sem eftir lifði veiðitúrsins voru bruddar verkjatöflur og haldið áfram að veiða.

 

Næstu daga bruddi ég bólgueyðandi og hljóp varlega. Á fimmtudeginum hljóp ég 25 km hring sem gekk ágætlega þótt ég væri ekki verkjalaus. Á laugardeginum, viku fyrir keppni, hljóp ég 16 km inni í Þórsmörk. Hljóp að hluta til sömu leið og hlaupin er í Laugavegshlaupinu. Ólíkt léttara nú heldur en sem lokaspretturinn fyrir tveimur vikum. Í gær, mánudag, hljóp ég í fyrsta skipti í langan tíma interval æfingu sem samanstóð af þremur settum með þremur eins km sprettum hvert eða samtals 9 sprettir. Ég er staddur á Dalvík og tók þessa æfingu á malarbrautinni í bænum. Þessi æfing gekk vonum framar og mér fannst ég ágætlega sprækur. Í dag verður tekin róleg 10-15 km æfing og sennilega eitthvað svipað á morgun eða fimmtudag. Að öðru leyti tek ég því rólega fram á laugardag.

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið, sem verður  síðasta hlaupið mitt í átakinu, er búið að opna styrktarsíðu. Þar er hægt að fara inná meðfylgjandi vefslóð og slá inn nafnið mitt og nota þá leið til áheita:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar 

Laugavegurinn 2011 – þriðja hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Laugardaginn nk. mun ég hlaupa Laugavegshlaupið 2011 sem er þriðja hlaupið af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu. Spennan er farin að byggjast upp og fylgst er vel með veðurspánni – sem stendur er hún mjög góð og eykur það eftirvæntinguna. Ég hljóp þessa leið í fyrsta sinn í fyrra í sérlega góðu veðri. Samt eru minningarnar æði blendnar. Ég hafði stefnt á að komast leiðina á undir 6 tímum en það fór töluvert öðruvísi. Fékk magakrampa á leið upp í Hrafntinnusker eftir um 8 km og losnaði ekki við hann það sem eftir lifði hlaups. Hljóp í keng 45 km og gat enga næringu innbyrt á leiðinni og satt að segja var þetta frekar leiðinleg lífsreynsla. En eins og mottóið segir: það sem ekki drepur mann styrkir mann. Nú verður reynt aftur og vonandi verður þetta hlaup skemmtilegra en fyrir ári og enn er stefnt að því að komast undir 6 tímana.

 

Ég skal játa það að ég er töluvert forvitinn að sjá hvernig líkaminn bregst nú við í löngu og erfiðu fjallahlaupi rétt um mánuði eftir 100 km hlaupið. Þótt ég hafi sennilega aldrei á æfinni verið í jafn góðu formi verður því ekki neitað að álagið síðustu mánuðina hefur verið umtalsvert. Það tók tíma að jafna sig eftir 100 km hlaupið og síðan að koma sér af stað aftur. Ég var ekki fyrr farinn að hreyfa mig þegar aftur var komið að því að trappa niður. Ég renni því nokkuð blint í sjóinn en er þó ánægður með nokkrar lykilæfingar sem ég náði á þessu tímabili.

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið, sem verður  síðasta hlaupið mitt í átakinu, er búið að opna styrktarsíðu. Þar er hægt að fara inná meðfylgjandi vefslóð og slá inn nafnið mitt og nota þá leið til áheits:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar  

Fyrir sjálfan mig og aðra áhugasama um hlaup og æfingar ætla ég að lýsa aðeins 100 km hlaupinu og þeim undirbúningi sem ég hef náð fyrir Laugaveginn eftir 100 km hlaupið.

 

Morguninn 11. júní var vaknað snemma til að sinna hefðbundnum morgunverkum og koma sér í gallann. Hlaupið átti að hefjast kl. 7 og mælt var með því að keppendur væru mættir um kl. 6:30. Á hlaupasvæðinu var undirbúningur á fullu þegar ég mætti og hlauparar að týnast inn. Sigurjón Sigurbjörnsson mætti með bikarinn frá síðasta 100 km hlaupi og það var auðséð að þann bikar ætlaði hann með heim aftur, amk þurfti Gísli Ásgeirsson að rykkja vel í til að Sigurjón sleppti takinu. En hvað um það, það styttist í ræsingu og eftirvæntingin augljós hjá keppendum. Það eina sem hægt var að setja út á skipulagninguna hjá keppnishöldurum var að veðrið sem lofað hafði verið var eitthvað að flýta sér og fór mun hraðar yfir en til stóð. Strekkingsvindur var að austan og því ljóst að við myndum þurfa að hlaupa til skiptis með hann í fangið og bakið. Það eru ekki kjöraðstæður til hlaupa því einhvern vegin er það svo að vindurinn í bakið skilar ekki því sem hann tekur úr á móti. Ofan á þetta bættist að það fór að rigna aðeins þegar líða tók á morguninn en sem betur fer stóð það þó ekki lengi. Upp úr hádeginu fór aðeins að draga úr vindstyrknum og má segja að þetta hafi verið þokkalega bærilegt eftir það.

 

Það lá strax fyrir að þetta hlaup gæti orðið sögulegt. Sigurjón gaf það út að hann stefndi á að slá sitt eigið Íslandsmet og það myndarlega því hann ætlaði að reyna að hlaupa á undir 8 klst. Sjálfur stefndi ég á að komast undir 9 klst. og helst sem næst 8:30. Jói Gylfa og Trausti Valdimars voru áræðanlega með svipuð markmið í huga þótt ég viti ekki þeirra ýtrustu markmið. Þá voru þarna fleiri keppendur sem voru líklegir til að fara undir 10 klst. tímamörkin. Þess má geta að fram að þessu hlaupi hafði aðeins tveimur Íslendingum tekist að rjúfa þann múr og þeir báðir reyndar einnig 9 klst. múrinn (Sigurjón 8:20 og Ágúst Kvaran 8:43).

 

Strax eftir ræsinguna tók Sigurjón á mikinn sprett og skildi aðra keppendur eftir í reyk. Ég, Jói og Trausti héldum hópinn til að byrja með og Sæbjörg Logadóttir kom í humátt á eftir okkur. Á eftir henni komu síðan Elín Reed og Anton Magnússon. Þannig hélst þetta lengi framan af en á endasprettinum náði Björn Ragnarsson að skjóta sér á milli Elínar og Antons og smeygja sér undir 10 klst. tímamörkin.

 

Fyrstu ca 30 km hlupum við þremenningarnir saman og skiptumst á að brjóta vindinn á bakaleiðinni. Það gekk vel en verður að viðurkennast að við hlupum of hratt á móti vindinum. Sigurjón gerði það auðvitað að verkum að okkur fannst við ekkert fara sérlega hratt! Við vorum oftast á kringum 4:40 pace á bakaleiðinni þótt einstaka ferð hafi verið hægari og þá nálægt 5:00 pace. Þessi kafli var léttur eins og við mátti búast og mikið spjallað. Við dáðumst að sjálfsögðu að Sigurjóni sem hljóp listilega vel og ekki má gleyma því að hann hafði engan að skiptast á við að brjóta vindinn fyrstu kílómetrana – frekar en sigurvegarinn í kvennaflokki hún Sæbjörg.

 

Eftir þessa fyrstu ca 30 km þurfti ég að kasta af mér vatni. Við það missti ég Jóa og Trausta nokkuð framúr mér. Þegar ég lagði aftur af stað ætlaði ég að ná þeim til að geta nýtt áfram samvinnuna á móti vindinum. Þeir voru hins vegar ekkert á þeim buxunum að slaka á og héldu sínu spori giska léttir. Trausti hafði reyndar einnig tekið pissustopp um leið og ég en verið fljótari þannig að það var alltaf styttra í hann. Ég náði honum eftir einn eða tvo leggi og við hlupum síðan saman þar til fór að draga af Trausta vegna kvilla sem hann fékk í annað lærið. Það var afar leitt að þurfa að sjá á eftir honum úr hlaupinu eftir ca 55 km.

 

Eftir um 45 km fannst mér ég vera búinn að hlaupa heldur of hratt miðað við ástandið á mér þá. Vindurinn var erfiður og tveimur dögum fyrir hlaup vaknaði ég upp með hálsbólgu sem hafði heldur verið að færast í aukana fram að hlaupadegi. Ég ákvað því á þessum tímapunkti að slá aðeins af og einbeita mér að því að komast vegalengdina á undir 9 klst. og jafnframt að halda þriðja sætinu sem ég var þá í. Þeir keppendur sem á þeim tíma voru næstir mér voru Trausti og Sæbjörg. Eins og ég nefndi þurfti Trausti því miður að hætta en Sæbjörg hélt sínu striki og endaði á að setja glæsilegt Íslandsmet í kvennaflokki á 9:12. Þegar upp var staðið mátti ég hafa mig allan við að ljúka hlaupinu á undan henni og þess má geta að hún hljóp seinni 50 km heldur hraðar en ég.

 

Við 60 km markið sagði Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari mér að nú væri hlaupið fyrst að hefjast. Það voru sérlega upplífgandi upplýsingar! Mér leið reyndar ágætlega á þessum tímapunkti og aðeins minna en heilt maraþon eftir. En auðvitað hafði Gunnlaugur rétt fyrir sér. Nú fór þreytan að segja verulega til sín og andlega hliðin fór að skipta miklu máli. Á hverjum snúningi frá 30 km markinu jókst alltaf bilið milli mín og Jóa og frá 45 km markinu hafði bilið milli mín og Sæbjargar annað hvort verið það sama eða örlítið minna. Þegar ég fór af stað í legginn eftir 60 km fór ég að hugsa um það eitt að nú þyrfti ég að „ýta“ markinu upp í 70 km, reyndi að hugsa ekkert um þá 30 km sem þá væru eftir. Þegar 65 km voru komnir þá var hugsunin sú að nú þyrfti ég bara að klára þennan legg og þá gæti ég „ýtt“ markinu upp í 80 km. Við 70 km markið tók ég eftir því að bilið á milli mín og Jóa hafði ekki aukist. Km 70 til 80 voru ansi erfiðir en ég tók þó eftir því að ég var farinn að minnka bilið á milli okkar Jóa. Ég vissi það þá alla vega að honum leið ekkert betur en mér og var örugglega í sömu baráttunni í hausnum. Við 80 km markið fannst mér ég ná góðum áfanga. Þá var „bara“ tæpt hálft maraþon eftir. Þegar ég var að koma í marksvæðið við 85 km snúninginn sá ég að Jói var ekki enn farinn út. Ég ætlaði að herða aðeins á mér en fékk þá strax aðkenningu að krampa í annað lærið. Ég varð því að slá strax af aftur og nánast læðast upp brekkuna að markinu. Sem betur fer þá losnaði ég fljótt við krampann og gat farið út rétt á eftir Jóa. Það kom fljótlega í ljós að Jói var í enn meiri vandræðum en ég þannig að ég náði honum brátt þótt ekki hafi verið neinn glæsibragur á því. Við 90 km var bara eitt 10 km hlaup eftir. Þótt það væri ekki langt varð þó að fara gætilega því lítið mátti út af bregða til að krampinn léti ekki aftur á sér kræla. Síðasti 5 km leggurinn var allt að því skemmtilegur. Það var frábær tilfinning þegar einungis um tveir km voru eftir og mér var orðið ljóst að ég kæmist vel undir 9 klst. og myndi að auki komast á pall og það í annað sætið.

 

Þetta var mjög skemmtilegt hlaup og vel getur verið að ég eigi eftir að endurtaka það síðar. Að sjálfsögðu var sérlega ánægjulegt að hafa verið þátttakandi í því hlaupi þar sem sett voru tvö glæsileg Íslandsmet í flokkum karla og kvenna. Í báðum tilvikum tímar sem skipa sigurvegurunum í fremstu röð hlaupara í þessari vegalengd á Norðurlöndunum og jafnvel í heiminum. Að auki stimplaði Sigurjón sig inn sem einn af allra bestu hlaupurum í þessari vegalengd í sínum aldursflokki frá upphafi. Þessum frábæra árangri til viðbótar komumst við Jói báðir undir 9 klst. markið og Elín Reed bætti sinn tíma verulegu og fór langt undir 10 klst. markið. Björn náði því einnig eins og áður hefur verið nefnt. Í þessu eina hlaupi bættust því við 5 Íslendingar sem náð hafa að hlaupa vegalengdina á undir 10 klst. og þar af tveir undir 9 klst.

 

Þetta hlaup tók í. Ég gerði lítið næstu daga annað en að hvíla mig. Á miðvikudeginum eftir hlaup var ég kominn á árbakka norður í Mývatnssveit í árlegan veiðitúr. Það var að venju ánægjulegt þótt kalt hafi verið í veðri. Ég var stirður og skakkur fyrstu dagana en það lagaðist þegar á leið veiðitúrinn. Einkennum hálsbólgunnar var haldið niðri með mismunandi tegundum verkjalyfja. Á laugardeginum var haldið heim á leið og þá sagði líkaminn hingað og ekki lengra. Ég lá flatur fram á miðvikudag með þá alverstu hálsbólgu sem ég hef náð mér í.

 

Á föstudeginum 24. júní varð mér litið á dagatalið og fór að telja. Það voru víst ekki nema þrjár vikur þar til Laugvegshlaupið var á dagskrá. Ekki seinna vænna að fara að láta reyna á skrokkinn þótt hálsbólgan væri enn til staðar. Ég byrjaði á léttri brettaæfingu á föstudeginum sem gekk ágætlega. Næst var að skella sér á sæmilega langa laugardagsæfingu. Ég mætti í sundlaug Garðabæjar kl. 09:30 og ætlaði að hlaupa með Ragga hring sem átti að vera 20-25 km. Þegar til kom vorum við þeir einu sem mættum úr skokkhópnum okkar en hittum þess í stað galvaskan hóp undir stjórn Sigurðar P. sem var að fara í sína lengstu æfingu fyrir Laugaveginn. Við ákváðum að slást í för með þeim og sjá til hversu langt við myndum fara með þeim. Ég hafði þá þegar lokið við rúmlega 5 km hring og fannst frekar langt að fara 37-38 km og var hreint ekki viss um hvort ég myndi ráða við það. Þegar komið var upp að lykkju og hópurinn tók strikið yfir í norðurenda Heiðmerkur stóðst ég ekki mátið og skellti mér með. Ég hafði farið frekar rólega af stað en gaf vel í upp Vífilstaðahlíðina. Ég fór í humátt á eftir næst fremstu mönnum og náði þeim við stóra hringinn í norðurendanum. Var ánægður með stöðuna og gaf vel í niður brekkurnar og að Gvendarbrunnum. Þegar þangað var komið var vegurinn hlaupinn til baka og þar tæmdist tankurinn skyndilega. Ég þurfti að hægja verulega á mér og var samt að drepast. Þegar við vorum að nálgast Vífilstaðahlíðina sá ég mér þann kost vænstan að hringja í eiginkonuna og fá hana til að bjarga mér úr minni sjálfsköpuðu prísund. Þegar upp var staðið hljóp ég um 32 km og var sprækur fram að 25-26 km. Það var í sjálfu sér ágætt en augljóst að töluvert vantaði upp á að ég væri tilbúinn í alvöru átök á Laugaveginum.

 

Í vikunni á eftir tók ég 12 og 18 km æfingar á brettinu á mánudeginum og þriðjudeginum sem gengu ágætlega. Á fimmtudeginum skellti ég mér góðan túr upp í Heiðmörk og hljóp að Helgafellinu, gekk upp og hljóp niður. Fór torfæra leið til baka yfir að Búrfelli og niður Búrfellsgjána og þaðan heim. Fann vel fyrir lærunum daginn eftir og hvíldi því. Á laugardeginum tók ég þátt í Snæfellsjökulshlaupinu sem var þreytt í fyrsta sinn. Mjög skemmtilegt hlaup og við vorum heppin með veður. Fyrstu tæpu 9 km voru allir á fótinn og stundum nokkuð bratt auk þess sem skaflar voru okkur til skemmtunar á efsta hlutanum. Ég fann það á leiðinni upp að framanverð lærin voru ekki alveg að fíla þessa meðferð þannig að ég hægði aðeins á mér og gekk upp bröttustu brekkurnar. Þegar upp var komið spretti ég úr spori eins og ég gat og reyndist það frekar létt. Niðurhlaupið gekk því mun betur en hlaupið upp og náði ég að mjaka mér upp um nokkur sæti. Fann hins vegar æði vel fyrir hlaupinu daginn eftir og einnig á mánudeginum. Læri og mjaðmaliðir aumir og ekki frá því að ég fyndi aðeins til í öðru hnénu.

 

Fyrsta heila æfingavikan að baki og bara tvær vikur í Laugaveginn og því í raun komið að niðurtröppun. Frekar skrítin tilhugsun því mér fannst ég ekki enn vera búinn að ná úr mér hundraðkallinum og því langt frá því að vera tilbúinn. Ég hvíldi alveg á mánudag og þriðjudag og tók mjög stutt hlaup á miðvikudeginum. Þá virtist allt vera komið í lag þannig að ég ákvað að taka langa hlaup þessarar viku á fimmtudeginum. Ég fór upp í Heiðmörk með það í huga að hlaupa amk 30-35 km og reyna að þræða brekkur eins og hægt væri. Það er skemmst frá því að segja að þessi æfing gekk vel og þegar ég var kominn heim var ég búinn með um 41 km þannig að það var ekki um annað að ræða en að bæta við 1,2 km til að klára maraþonvegalengdina. Mér telst til að með þessu hlaupi sé ég búinn að hlaupa 11 hlaup á æfingum og keppni á árinu sem eru 42,2 km eða lengri. Á laugardeginum var ég í fjölskylduútilegu í Fljótstungu (hinu megin við Húsafell) þannig að ég hljóp sama hring og ég gerði fyrir ári síðan af sama tilefni. Í fyrra var hringurinn 25 km en ég lét mér duga 24 km nú. Þessi æfing gekk vel en ég fann þó að ég var aumur í öðru hnénu. Ein vika í Laugaveginn. Á mánudaginn tók ég léttan 14 km hring með Bjössa uppí Heiðmörk og fann ekkert fyrir hnénu. Ég var búinn að ákveða að taka þátt í Ármannshlaupinu á þriðjudag og átti það að vera smá test á ástandið. Ég hef lítið hlaupið hratt undanfarnar vikur þannig að það var nokkuð óljóst hvernig þetta myndi ganga. Mig langaði að reyna að hlaupa á undir 40 mín en ætlaði þó ekki að keyra mig út í hlaupinu. Þegar til kom gekk þetta vel og mér fannst þetta léttara nú en fyrir ári síðan þegar ég sló af eftir 5 km til að taka ekki of mikið úr mér. En eins og síðar kom í ljós reyndist það síðan til lítils.

 

En sem sagt, mér sýnist ég vera búinn að stilla drusluna eins og hægt er og nú er það bara hvíld fram að hlaupi. Það yrði reyndar kærkomið ef þessi ólánshálsbólga yrði ekki með í för en mér finnst eins og hún sé nú loksins á einhverju undanhaldi. Ég er svo sem búinn að halda það áður og hafa rangt fyrir mér þannig að það verður að koma í ljós eins og annað.

 

Aftur til lífsins - að geta dregið andann, hlaupið 100 km eða unnið Tour De France

„Ég vildi frekar greinast með krabbamein en vinna „Tour De France““ segir hjólreiðakappinn Lance Armstrong, sem vann keppnina 7 sinnum eftir að hafa gengið í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð.

 

Ég er ekki viss um að ég taki undir þessi orð Lance en ég held ég skilji hvað hann á við. Það vill enginn greinast með krabbamein. En hann segir sjálfur í bók sinni „It´s not about the bike; My journey back to life“ að sýn hans til lífsins hafi breyst og gert hann að betri manneskju að hans eigin mati. Ég get örugglega tekið undir þau orð; sýn mín til lífsins hefur breyst en auðvitað veit ég ekki hvort ég er betri manneskja en ég hefði orðið. Ég get vonað það en mig skortir samanburðinn.

 

Síðustu daga hef ég legið flatur með sérlega vonda hálsbólgu. Eiginkonan gaf mér ofangreinda bók Lance Armstrong og ég kláraði lestur hennar í gær. Þetta er góð bók og margir sameiginlegar fletir sem ég sé með hans upplifun og minni á að berjast við krabbamein. Ég er ekki sammála öllu sem hann segir en það er þó mjög margt sem hann segir sem snart mig.

 

Ástæða þess að konan gaf mér bókina var sú að ég lauk nýlega við að hlaupa 100 km keppnishlaup og af því tilefni gaf hún mér bókina. Fyrir mér var það að ljúka umræddu hlaupi mikil áskorun. Til að byrja með var það mikil áskorun að geta yfir höfuð hlaupið. Það var líka áskorun að geta klárað 10 km keppnishlaup. Þá var það næstum ókleifur veggur að geta klárað maraþon. Síðar fæddust drög að  draumi. Það var að ná því að komast á verðlaunapall í viðurkenndri hlaupakeppni á Íslandsmóti. Draumur sem ég hélt fyrir greininguna að myndi aldrei rætast. Ég valdi mér að sjálfsögðu grein sem frekar fáir leggja stund á til að auka möguleikana! En grein sem kallar á þolinmæði og úthald. Nokkuð sem krabbameinssjúklingar fá ágæta þjálfun í. Það var því sérlega ánægjulegt að heyra fyrir ræsinguna að þetta 100 km hlaup hefði verið viðurkennt sem opinbert Íslandsmeistaramót í greininni – og ég komst á pall! Ekki gleyma því að fyrir ekki svo löngu síðan var draumurinn einfaldlega sá að geta dregið lífsandann. Lance Armstrong átti sér sama draum – áður en honum datt til hugar að hann gæti unnið Tour De France.

 

Þar sem panta þurfti bókina fékk ég hana ekki í hendur fyrr enn á mánudaginn var, sem kom sér vel í flensunni. Sjálfsagt get ég að einhverju leyti kennt sjálfum mér um hversu svæsin hálsbólgan er búin að vera. Eftir meðferðina hefur ónæmiskerfið verið heldur lakara en það var áður. Rúmri viku fyrir hlaup fór ég að finna fyrir kvefpest og á fimmtudeginum fyrir hlaup vaknaði ég upp með hálsbólgu. Í síðustu viku var síðan haldið í fyrsta veiðitúr sumarsins og þar var reynt að halda hálsbólgunni niðri með verkjalyfjum og bjór. Ekkert sérlega skynsamlegt ekki síst þar sem það styttist í næsta stóra hlaup, Laugaveginn þann 16. júlí. En ég sagði ekki að maður yrði skynsamari af því að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð – kannski stundum þvert á móti. Ég að minnsta kosti geri orðið ýmislegt sem ég myndi ekki hafa gert áður. Carpe diem, seize the day!

 

Mér fannst athyglisvert í frásögn Lance að lesa um baráttu hans við að komast aftur í fremstu röð hjólreiðakappa. Það var erfitt ferðalag með miklum sjálfsefasemdum. Hann gafst upp á leiðinni, oftar en einu sinni. Ef hann veiktist hélt hann að krabbinn væri aftur kominn á stjá. Ef hann var slappur á æfingu var hann viss um krabbinn væri á ferðinni. Þetta eru tilfinningar sem ég þekki hjá sjálfum mér. Efasemdirnar og hræðslan við að fá bakslag. En einhver innri þrá rak Lance aftur af stað. Einhver þörf hans til að sanna fyrir sjálfum sér að hann gæti. Sú upplifun hans held ég að margir krabbameinssjúklingar eigi sameiginlega. Einhverja þrá til að sanna eitthvað fyrir sjálfum sér.  Eitthvert markmið sem hver og einn setur sér. Einhver fortíðardraumur. Gera eitthvað sem aldrei hafði verið gert áður. Eða gera eitthvað aftur. Eða gera það betur. Auðvitað fara fæstir í skó Lance Armstrong og vinna Tour De France. En flestir eiga sér sitt eigið Tour De France. Það er það sem skiptir máli. Í mínu tilviki var Tour De France að geta hlaupið. Þess vegna hleyp ég – af því að ég get það.

 

Ég held að margir sem hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð geti fundið sér samsvörun í sögu Lance. Það að fá annað tækifæri í lífinu er ekki öllum gefið. Það að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð gerir mann sjálfkrafa að hluta af mjög sérstöku samfélagi. Samfélagi þar sem einstök samkennd ríkir og samfélagi þar sem fólk skilur vel hvert annað. Sjálfum er mér ekkert sérlega vel við að tala um líkur. Tilteknar líkur gera afskaplega lítið fyrir einstaklinginn – bara svo fremi sem það eru einhverjar líkur, von. Annað hvort finnst lækning – eða ekki. Annað hvort ertu 100% réttu megin – eða ekki.

 

Hvað er það sem gerir sumum okkar kleift að komast í gegnum krabbameinsmeðferð og öðrum ekki? Er það eitthvað í okkur sjálfum, eru það vísindin eða einfaldlega kraftaverk? Lance svarar þessari spurningu að mínu mati vel (lausl. þýðing):

 „Ég veit það ekki. Ég veit að sumt fólk lítur til mín í von um svar. En ef ég vissi svarið hefðum við lækningu við krabbameini og það sem meira er, við myndum vita tilganginn með tilverunni. Ég get veitt hvatningu, von og ráðgjöf en ég get ekki svarað því sem ekki er hægt að vita. Persónulega þarf ég þess ekki. Ég er ánægður með að vera á lífi og geta upplifað leyndardóminn“.  

Laugardaginn 11. júni 2011 100 km hlaup til styrktar Krabbameinsfélaginu

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átaki mínu og söfnuninni til styrktar Krabbameinsfélaginu þá fer fram annað hlaupið af fimm í átakinu á morgun. Um er að ræða meistaramót Íslands í 100 km hlaupi.

Eins og vonandi sem flestir vita er í gangi frábært framtak tvennra hjóna sem eru að hlaupa hringinn í kringum landið til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Þau hafa sannarlega hreppt erfiða tíð á sínu ferðalagi. Fyrst fengu þau meðvind sem því miður stóð frekar stutt. Eftir það hefur tekið við mótrok, öskufjúk, snjókoma, kuldi og jafnvel frost. Í dag er loksins logn. Veðurspáin segir að búast megi við betri tíð og vindaspá er frekar hagstæð. Það lítur því út fyrir að seinnipartur ferðar þeirra verði jákvæðari hvað þessa þætti varðar. Við því má búast að uppsöfnuð þreyta fari að segja til sín þegar nær dregur ferðalokum. En það er ótrúlegt hvað hugurinn getur fleytt fólki áfram þegar sést fyrir endann á erfiðu verkefni.

Það er merkilegt að hugsa til þess hvernig máttarvöldin hafi ákveðið að úthluta hjónunum á táknrænan hátt veðurfari og aðstæðum sem falla vel að lýsingu á krabbameinsmeðferð. Kannski hjálpa hinar erfiðu aðstæður til við að kynna átakið þeirra? Að minnsta kosti er eftirtektarvert að sjá allan þann hlýhug, samkennd og hjálp sem þau hafa fengið á ferð sinni. Slíkur stuðningur er mjög mikilvægur þegar tekist er á við erfitt verkefni sem þetta.

Stuðningur við þá sem berjast við krabbamein er þeim ómetanlegur sem þurfa að takast á við það verkefni. Eitt það versta sem getur komið fyrir alla foreldra er að horfa upp á börn sín þurfa að glíma við erfið veikindi. Á slíkum stundum er stuðningurinn aldrei mikilvægari.

Á morgun þann 11. júní er dagleið hjónanna 101 km. Þá hafa þau þegar lagt að baki 9 dagleiðir við erfiðar aðstæður. Á morgun verður hugur minn hjá þeim. Leggjum þeim lið: http://www.mfbm.is/  

 

 


Ég hleyp af því ég get það - söfnun fyrir Krabbameinsfélagið

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og víðar stend ég þessar vikurnar og mánuðina fyrir söfnun til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Hugmyndin er að hlaupa 5 tilgreind hlaup sem byrjaði með maraþoni í París þann 10. apríl sl. og mun ljúka með Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst nk.

Í síðasta pistli mínum var greint nánar frá þessum áformum. Ég ætla af og til á tímabilinu að blogga um ferlið og greina frá hvernig og hvort ég er að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér í þessu samhengi.

Fyrsta verkefnið var maraþonið í París. Það gekk ljómandi vel og náði ég að bæta minn besta maraþon tíma um tæpar 11 mínútur. Endaði á tímanum 2:55:14, hljóp fyrri helminginn á 1:27:03 og þann seinni á 1:28:11. Báðir tímarnir eru betri en það sem ég átti áður best í hálfu maraþoni.

Næsta verkefni er meistaramót Íslands í 100 km hlaupi sem verður þann 11. júní nk. Hlaup af þessari vegalengd krefst vandaðs undirbúnings og mikilla æfinga. Ég ákvað að taka þátt í þessu hlaupi strax um áramótin og því hef ég miðað æfingar við það. Heldur meira hlaupamagn og lengri langar æfingar en almennt er gert ráð fyrir í hefðbundnum maraþonprógrömmum. Þetta plan virtist reyndar henta mér afar vel fyrir maraþonið í París. Hins vegar þá er ekki alveg einfalt að flétta keppnismaraþon inní 100 km undirbúning ef ætlunin er að reyna að ná sem bestum árangri í 100 km hlaupinu. Ástæðan er sú að það kemur ákveðið rof í æfingaplanið í kringum maraþonið, með minnkuðu æfingamagni í aðdraganda hlaupsins og eins vikurnar á eftir meðan líkaminn er að jafna sig eftir keppnismaraþonið. Planið var og er því að reyna að komast í gegnum þennan tíma með því að minnka magnið eins lítið og unnt var og jafnframt að komast af stað aftur eins fljótt og unnt er - án ofþreytu og meiðsla. Fyrri helmingurinn af planinu gekk vel og þrátt fyrir tiltölulega mikið æfingamagn fram að maraþoninu fannst mér ég ágætlega hvíldur. Þar verður reyndar að taka tillit til þess að ég var að hlaupa að meðatali 140 km síðustu vikurnar áður en ég fór að trappa niður þannig að 100 km á viku í aðdraganda hlaupsins voru í raun heilmikil niðurtröppun. Nú verður að koma í ljós hvernig seinni helmingurinn gengur, þ.e. að keyra magnið aftur upp. Ég hljóp lítið í vikunni eftir maraþonið, 8 km á miðvikudeginum og 15 km á fimmtudeginum. Eftir seinni æfinguna fann ég fyrir þreytu í löppunum þannig að ég hvíldi þá alveg í þrjá daga. Byrjaði síðan aftur á mánudag í síðustu viku og hljóp tæplega 130 km þá viku. Það gekk vel og ég fann ekki fyrir neinu. Planið fyrir þessa viku er að reyna að hlaupa 140-150 km og halda því næstu tvær vikurnar áður en niðurtröppun hefst.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig líðanin verður eftir þessa viku. Helgin gæti orðið strembin því á dagskránni eru 40 km á laugardag og 30 km á sunnudag. Ég ætla reyndar að taka þátt í Vormaraþoninu á laugardag og nota það sem góða æfingu. Planið er að reyna að hlaupa það frekar afslappað eftir veðri og vindum. Ætla þó að reyna að fara ekki hægar en 5 min tempó sem ætti að skila mér í mark á 3:30. Ef veður verður gott og líkaminn í standi getur vel verið að ég reyna að auka aðeins við seinni helminginn. Nú ef ekki þá bara njóta þess að vera með og taka góða æfingu með stórum hópi hlaupara.

Gangi æfingaplanið upp fyrir 100 km hlaupið eru þrjú markmið í gangi. Í fyrsta lagi er auðvitað markmið að klára hlaupið. Annað markmið er að klára það á undir 10 klst. - en það hafa bara tveir Íslendingar afrekað hingað til. Þriðja markmiðið, ef allt gengur súpervel, er síðan að reyna að fara á undir 9 klst. - en það hafa bara sömu tveir Íslendingar afrekað.

Að lokum er þrennt sem ég vil nefna í þessum pistli:

Ég hef notið aðstoðar og leiðsagnar Þorláks Jónssonar þjálfara hjá ÍR á tímabilinu og það er ómetanlegt.

Söfnunin fór vel af stað og þakka ég öllum sem nú þegar hafa lagt málefninu lið. Frekari kynning á söfnuninni mun eiga sér stað í kringum hvert og eitt hlaup. Fyrir þá sem ekki geta beðið er reikningsnúmer söfnunarinnar: 0301-26-102005, kt. 700169-2789! http://www.krabb.is/styrktarmal/Hleypthvieggetthad?

Að síðustu þá hef ég fengið afar góð viðbrögð við einkunnarorðum átaksins - breiðum þau út!

 

Með hlaupakveðju


Hlaup og veikindi

Ég hleyp af því ég get það:

Hleypur til styrktar Krabbameinsfélagi ÍslandsHleypur 5 sinnum í tilefni af því að 5 ár eru frá því hann fór í lyfjameðferð vegna hvítblæðis

Gunnar Ármannsson greindist með hvítblæði árið 2005 og nú eru um 5 ár liðin síðan hann lauk lyfjameðferð. Hann hefur því ákveðið að hlaupa til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands en einkunnarorð átaksins hans eru : „Ég hleyp – af því að ég get það!“

5 hlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands

„Ég greindist með hvítblæði á Þorláksmessu árið 2005. Þann 23. desember sl. voru 5 ár liðin og af því tilefni setti ég saman pistil og birti á bloggsíðu minni. Ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir í þessi ár en ekki tjáð mig mikið um þessa upplifun opinberlega fyrr en nú.  Þar sem í sumar eru 5 ár liðin frá því ég lauk lyfjameðferð hef ég ákveðið að gera eitthvað sérstakt”, segir Gunnar Ármannsson sem ætlar að hlaupa fimm hlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands.
 
Þegar Gunnar varð 41. árs ákvað hann að hefja reglulegar hlaupaæfingar. Nú er hann farinn að hlaupa maraþon. Á afmælisdaginn 10. apríl nk., ætlar hann að hlaupa Parísarmaraþonið, 42,2 km. Þann 11. júní ætlar hann að hlaupa 100 km í Meistaramóti Íslands, þriðja hlaupið verður Laugavegurinn þann 16. júli sem er 55 km utanvegahlaup, fjórða hlaupið verður Jökulsárhlaup þann 6. ágúst sem er 32,7 km utanvegahlaup og lýkur hann síðan átakinu sínu þann 20. ágúst með þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu 42,2 km.

Gunnar ætlar að hlaupa til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands og geta einstaklingar og fyrirtæki heitið á hann með því að leggja inn á reikningsnúmerið 0301-26-102005 kt. 700169-2789. „Það er von mín að einhverjir finni hjá sér hvatingu og finni fyrir sömu tilfinningu – ég hleyp því ég get það. Að sjálfsögðu vona ég líka að fólk leggi félaginu lið með því að styrkja það með fjárframlögum. Markmið mitt er að safna kr. 1.000.000“, segir Gunnar. Mikið líkamlegt álag fylgir því að hlaupa fimm langhlaup á svona stuttum tíma og margt sem getur farið úrskeiðis, því skiptir hvatinn miklu máli.


Framtíðarlýsing á efnahagsástandi Íslands og heimsins séð fyrir um 20 árum. Betri lýsing en hjá sumum samtímaskýrendum?

Stundum rekst maður á lesningu sem vekur upp ýmsar spurningar og vangaveltur um tengsl þess liðna við framtíðina. Móðir mín benti mér á bók fyrir rúmlega tveimur árum síðan sem ég ákvað að lesa alla í gegn þótt meginumfjöllunarefnið höfðaði ekki sérstaklega til mín. Til að byrja með átti ég í erfiðleikum með að halda mér við lesturinn og komast áfram í bókinni. En þegar fór að líða á voru staðhæfingar í bókinni með þeim hætti að þær vöktu mig til umhugsunar. Þessi bók er gefin út uppúr 1990 og það sem vakti sértaka athygli mína var lýsing á efnahagsástandinu í heiminum og á Íslandi eins og það myndi verða um tuttugu árum síðar - eða í kringum 2010.

 

Gripið niður í bókina:

 

„Ísland, líkt og aðrar þjóðir, gengur nú einfaldlega í gegnum tímabil í sögunni þar sem efnahagsmál eru síður en svo í föstum skorðum. ... Hagkerfið stendur á tímamótum vegna þess að hreyfiöflin að baki því eru á undanhaldi. Hagkerfið virkar ekki eins og áður, það koma upp mistök. Átök og spenna eiga sér sífellt stað. Kerfið eða kerfin virðast jafnframt líða áfram stjórnlaust á köflum og hagfræðingar og aðrir efnahagssérfræðingar eiga sífellt erfiðara með að henda reiður á hvað er að gerast. Næsta kynslóð manna mun því að öllum líkindum upplifa efnahagslegan glundroða. En frjóir einstaklingar munu brátt koma fram á sjónarsviðið og leggja á ráðin um nýjan hugsunarhátt og leiðir sem leysa munu af hólmi gömlu aðferðirnar. Hagkerfið verður síður háð flækjum og sértekningum, en þess í stað kemur ný nálgun við hugsun ykkar um peninga, aukin vöruskipti og í heild áhersla á einfaldari aðferðir og lausnir. Eftir um það bil tuttugu ár mun mannkynið líta til baka og gera sér ljósa þá breytingu sem orðin er á hagkerfi heimsins. Þá verður litið til þessa tímabils sem þið lifið á núna sem svartnættistímabils í efnahagsmálum. Vandamál Íslendinga í efnahagsmálum eru því ekkert sem þið þurfið að áfellast ykkur sjálf svo mjög fyrir, heldur miklu fremur þáttur í miklu stærra samhengi sem er hluti af þróun sem mannkynið allt tekur þátt í."

 

Athygli vert og ekki sem verst lýsing á því sem gerst hefur síðustu misserin.

 

Í þessari tilteknu bók er nokkuð fjallað um landfræðilega legu landsins og mikilvægi staðsetningar Íslands. M.a. segir um staðsetninguna:

 

„Við minntumst á það áður að lega landsins er miðpunktur milli tveggja heimsálfa sem undanfarna áratugi hafa verið leiðandi öfl í stjórnun heimsins. Með jafnri tengingu sinni við báðar heimsálfur hefur Íslandi tekist að halda sjálfstæði sínu með því að tengjast ekki annarri hvorri álfunni um of. Staða þess hefur því verið stefnumarkandi."

 

Þetta er umhugsunarvert. Þetta er skrifað fyrir um 20 árum en í raun hefur lítið breyst. Sovétið vissulega breyst og ekki eins valdamikið og áður en bæði Kína og Evrópusambandið hafa styrkst á tímabilinu.

 

Ofangreind tilvitnun í þessa tilteknu bók rifjaðist upp fyrir mér nýverið. Ástæðan er sú að mjög reyndur aðili úr viðskiptalífinu, sem búsettur er í USA, lét þau orð falla í samtali sem ég átti við hann nýverið, að það væri sama hversu misvitrar ákvarðanir íslenskir stjórnmálamenn myndu taka - þeir myndu ekki megna að breyta legu landsins. Þessi tiltekni aðili sér það sem einn af styrkleikum Íslands í viðskiptalegu tilliti hvar það er staðsett.

 

Það verður fróðlegt að fylgjast með á næstunni hvort fleira sem sagt er frá í bókinn muni rætast. Amk hafa ýmsir bent á þá möguleika sem fyrir hendi eru og gerðir eru að umtalsefni í bókinni með eftirfarandi hætti:

 

„Samfélag ykkar er heilsteypt og fullveðja en örsmátt í samfélagi þjóðanna. ... Samfélag sem getur eðli sínu samkvæmt hrundið háleitum hugmyndum í framkvæmd er einstakt fordæmi fyrir umheiminn, því sökum smæðarinnar er auðvelt fyrir aðrar þjóðir að líta á það sem þið hafið gert og rannsaka í hnotskurn hvernig breytingunum var komið á. Þannig verður samfélag ykkar fyrirmynd annarra, þó ekki endilega þannig að sagnaritarar framtíðarinnar muni líta til Íslands og segja að þar hafi upphafið átt sér stað. Öllu heldur munu aðrar þjóðir læra af ykkur, taka upp breytingarnar þegar þær sjá að þær eru framkvæmanlegar og kannski næla sér í heiðurinn óvart í minningu sögunnar."

 

Það væri vel ásættanlegt.


Upplýst og fordómalaus umræða um einkasjúkrahús

Hið íslenska fyrirtæki PrimaCare vinnur nú að undirbúningi byggingu einkasjúkrahúss og sjúkrahótels í Mosfellsbæ þar sem gerðar verða liðskiptaaðgerðir á erlendum sjúklingum. Umræðan um einkasjúkrahús sem í gangi hefur verið í fjölmiðlum byggist að töluverðu leyti á vanþekkingu og fordómum og því er nauðsynlegt að útskýra betur áformin.

 

Því hefur meðal annars verið haldið fram að ólíklegt sé að einkasjúkrahús geti fengið til sín nægilega marga sjúklinga til þess að rekstur þess myndi borga sig og að endanum myndi það þurfa að reiða sig á íslenska sjúklinga. Þannig sé verið að skapa tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þetta er ekki rétt. Það er meðvituð ákvörðun aðstandenda PrimaCare að reiða sig alfarið á erlenda sjúklinga. Ástæður þess eru nokkrar.

 

Mikil pólitísk andstaða er gegn því að einkafyrirtæki á borð við PrimaCare komist í vasa í íslenskra skattborgara. Því er m.a. haldið fram að slíkt geti skaðað hagsmuni íslenska heilbrigðiskerfisins. Það er ekki vilji PrimaCare.

 

Hinn erlendi markaður fyrir aðgerðir af því tagi sem PrimaCare áformar að gera hefur verið kortlagður. Rannsókn sem unnin er af einu fremsta fyrirtæki heims á þessu sviði bendir ótvírætt til þess að möguleikar félagsins og Íslands til að laða til sín sjúklinga séu mjög góðir. Lækningaferðamennska er ört vaxandi markaður á heimsvísu og talið er að eftirspurnin eftir liðskiptaaðgerðum sjöfaldist á næstu 20 árum. Talið er að fjörutíu milljónir manna ferðist í lækningaskyni á næstu árum.

 

PrimaCare ætlar sér að  gera allt að 5000 aðgerðir á ári. Á Íslandi í dag eru gerðar innan við 1000 aðgerðir á ári á þessu sviði. Sá fjöldi myndi aldrei duga nema sem brot af þeim fjölda aðgerða sem sjúkrahúsið þarf að gera til þess að standa undir sér. PrimaCare þyrfti alltaf fjögur þúsund aðgerðir til viðbótar. Ef unnt verður að laða 4000 sjúklinga á ári til Íslands í þessar aðgerðir á annað borð er einnig unnt að laða að 5000 sjúklinga. Því er ekki þörf á íslenskum sjúklingum til að verkefnið geti orðið að veruleika, né gætu þeir bjargað rekstri þess, ef hinn erlendi markaður brigðist.

 

Það er af og frá að aðstandendur PrimaCare telji að hér sé um að ræða sérstaka gullnámu eða að verkefnið sé auðvelt í framkvæmd. Þvert á móti þá er hér um flókið verkefni að ræða sem krefst vandaðs undirbúnings. Nálgun þeirra íslensku fyrirtækja sem nú vinna að undirbúningi að stofnun einkasjúkrahúss er misjöfn og leiðirnar sem farnar eru einnig. Það er jákvætt og eykur vonandi líkurnar á því að sem flest, og helst öll, þessara verkefna verði að veruleika. Íslendingum veitir ekki af fleiri atvinnutækifærum og gjaldeyristekjum í bráð og lengd. 

 

Það er von mín að Íslendingar eygi það mikla tækifæri sem felst í því að komast inn á þennan markað. Gangi áform PrimaCare eftir munu skapast 600-1000 störf auk fjölda afleiddra þjónustustarfa. Það jafngildir tveimur álverum – án mengunar. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa – ekki frekar en forsvarsmenn álvera – ENGIN áform um að seilast í vasa íslenskra skattborgara. Miklu frekar að skila þangað umtalsverðum fjármunum – beint og óbeint.

 Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare. 

Hvar liggja styrkleikar Íslands og Íslendinga? Hvar eru sóknarfærin?

Á Íslandi býr þjóð sem telur um 320.000 manns. Þjóðin býr við mikil náttúruleg gæði. Á tiltölulega fáum árum hefur þjóðinni tekist að komast úr fátækt og náð að skipa sér meðal ríkustu þjóða heimsins. Þetta hefur þjóðinni tekist með því að læra á náttúruna og nýta sér hana til framfærslu og auðlegðar. Áar okkar sem brutust undan erlendu valdi sáu að til  þess að geta betur ráðið sínum eigin málum og tekið þau í sínar hendur yrðu Íslendingar að mennta sig. Til að byrja með voru það fyrst og fremst ævintýragjarnir ungir karlmenn sem voru aldir upp við húslestur arfasagna Íslendinga sem lögðu í ferðir til framandi landa og brutustu til mennta. Oftar en ekki var þeim þetta kleift vegna framsýni manna sem höfðu náð að komast í nokkrar álnir og gátu styrkt þá til fararinnar. Segja má að þetta hafi verið framsýnir fjárfestar sem hugsuðu ekki um stundargróða fyrir sjálfa sig heldur voru þeir að fjárfesta í framtíð Íslendinga. Þessi framtíðarsýn þeirra skilaði sér að lokum í því að árið 1911, þegar 100 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta, var Háskóli Íslands stofnaður. Síðan þá hefur Háskólinn vaxið og dafnað í 100 ár og hér á landi hefur verið byggt upp öflugt menntakerfi sem að flestra mati stenst vel samanburð við það sem best þekkist.

 

Fullyrða má að á þeim 100 árum sem liðin eru frá stofnun Háskóla Íslands hafi fáar ef nokkrar þjóðir heimsins náð jafn góðum árangri í að mennta þjóð sína og nýta sér menntun til almennrar velsældar fyrir þjóðfélagið allt. Mögulega er hluti af skýringunni sú staðreynd hversu fámenn þjóðin er og þegar „hún" ákveður eitthvað þá getur hún gert hlutina hratt. Á arfi forfeðranna hefur okkur tekist að búa til þjóð og þjóðskipulag sem margir líta til með aðdáun. Í smæðinni geta þó líka falist veikleikar eins og við höfum orðið áþreifanlega vör við. Á hinn bóginn þarf það ekki að koma á óvart þótt ung og kröftug þjóð geti gert mistök og stigið út af sporinu. Þá er mikilvægt að staldra við, skoða hvað fór úrskeiðis og reyna að læra af mistökunum. Finna hvar styrkleikarnir liggja og halda áfram uppbyggingunni út frá þeim.

 

Íslendingar hafa um langt árabil menntað lækna sína í Háskóla Íslands. Smæðar þjóðarinnar vegna hafa íslenskir læknar þurft að sækja sér framhaldsmenntun til erlendra landa. Í því samhengi getur verið hollt fyrir þá sem hér hafi valist til pólitískra valda á undangengnum áratugum að hafa í huga að það er ekki fyrir þeirra tilstilli að hinir íslensku læknar hafa valið sér bestu menntastofnanir beggja vegna Atlantsála og víðar. Það er þetta fólk, sem hefur á eigin vegum og verðleikum aflað sér framhaldsmenntunar og valið að snúa heima til Íslands, sem hefur lagt grunninn að þeirri heilbrigðisþjónustu sem við Íslendingar viljum gjarnan stæra okkur af í alþjóðlegum samanburði. Í þennan suðupott þess besta sem þekkist í nútíma læknisfræði heimsins hafa síðan bæst aðrar vel menntaðar heilbrigðisstéttir sem hafa komið með réttu kryddin og gert heilbrigðisþjónustuna að því sem við höfum búið við. 

 

Á síðustu áratugum hefur Íslendingum tekist að bæta við sem grunnstoð í þjóðskipulaginu mjög öflugri heilbrigðisþjónustu - að sumra mati þrátt fyrir kerfið en ekki vegna þess. Það er á þessari grunnstoð sem PrimaCare ehf. hyggst byggja upp þjónustu sem sniðin er að erlendum sjúklingum. Í alþjóðlegu samhengi geta Íslendingar sýnt fram á heilbrigðistölfræði sem á sumum sviðum stenst samanburð við það besta sem þekkist. Delottie Health Care Solution í USA hefur unnið rannsóknarskýrslu fyrir PrimaCare til að meta möguleika félagsins til að laða erlenda sjúklinga til Íslands. Í þeirri skýrslu kemur fram að sú heilbrigðisþjónusta sem veitt er á Íslandi staðsetji landið á meðal þeirra fremstu í alþjóðlegu samhengi. Þá stendur Ísland að þessu leytinu til mun framar en flest þau lönd sem nú eru að reyna að hasla sér völl á hinum ört vaxandi heilsutengda ferðamarkaði. Samkvæmt Euro Health Consumer INDEX árið 2009 lenti Ísland í þriðja sæti af 33 löndum með 811 stig af 1000 mögulegum. Í umsögn um íslenska heilbrigðiskerfið sagði að í raun væri það í stakk búið til að þjóna allt að 2 milljónum íbúa. Í sömu umsögn sagði að aðal ástæða þess hversu vel Ísland stæði í samanburðinum væri sú staðreynd að íslenskir læknar þyrftu að sækja sér framhaldsmenntun til útlanda og vegna þessa byggju Íslendingar við einstaklega gott tengslanet sem nýttist þeim vel.

 

Af framangreindu má því draga þá ályktun að einn af styrkleikum Íslands og Íslendinga felist í öflugri heilbrigðisþjónustu í alþjóðlegu samhengi. Aðrir augljósir styrkleikar þar sem Íslendingar standa framarlega í alþjóðlegu samhengi eru í sjávarútvegi og nýtingu orkuauðlinda eins og jarðvarma og fallvatna. Þá nefna margir til sögunnar landið sjálft og hreinleika þess og ef vel er haldið á spilunum geti Íslendingar gert sig gildandi í umhverfismálum. Kannski er það einmitt þar sem mestu möguleikar Íslendinga felast. Í umhverfismálum í víðu samhengi. Umgengni um náttúruauðlindir og nýting þeirra eru umhverfismál. Heilbrigðismál eru umhverfismál.

 

Í nýlegri skýrslu World Health Organization, WHO, frá 2009 sem ber heitið „Healthy hospitals, healthy planet, healthy people", segir m.a. að heilbrigðisgeirinn geti og eigi að leika lykilhlutverk í því að draga úr neikvæðum áhrifum af mannavöldum á loftslagsbreytingar. Spítalar eru orku- og aðfangafrekir í víðum skilningi þess orðs og eins og þeir starfa í dag hafa þeir margvísleg neikvæð áhrif á loftslagsbreytingar. Með því að draga úr kolefnisfótsporum spítala og stefna að því að þau verði engin getur heilbrigðisgeirinn tekið forystuna í því að stefna að heilbrigðri og sjálfbærri framtíð. Þetta er nokkuð sem fjölmörg samtök og fyrirtæki hafa áttað sig á og eru með markvissum hætti farin að nýta sér slíka nálgun - ekki eingöngu vegna þess að þau hafa trú á að það sé til lengri tíma skynsamlegri nálgun út frá sjónarmiðum sjálfbærni heldur einnig í markaðslegu tilliti.

 

Áform PrimaCare ehf. felast ekki eingöngu í því að nýta sér þá grunnstoð sem heilbrigðisþjónustan á Íslandi er orðin með viðurkenndu orðspori á alþjóðavísu. Framtíðarsýn félagsins felst jafnframt í því að tengja hina læknisfræðilegu þjónustu við ábyrga og sjálfbæra nálgun á veitingu heilbrigðisþjónustu með tilliti til umhverfisáhrifa í víðum skilningi. Víða um heim er farið að taka tillit til umhverfisáhrifa nýrra spítala og meðal annars er leitað leiða til að byggja spítala sem fá þá orku sem þeir þurfa með eins umhverfisvænum hætti og unnt er, m.a. með því að framleiða raforku með vindorku eða sólarorku. Hér á landi liggur beint við að nota okkar umhverfisvænu orku sem framleidd er með vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum. Íslendingum þykir fæstum að þessi nálgun teljist til tíðinda.  Þessi aðferðafræði, sem við höfum náð góðum tökum á með okkar vel menntuðu sérfræðingum á þessu sviði, veitir okkur þó ákveðið samkeppnisforskot í alþjóðlegu samhengi. Einn helsti samstarfsaðili PrimaCare er hið alþjóðlega félag Skanska. Skanska er eitt af stærstu fyrirtækjum sinnar tegundar í heiminum meðal annars á sviði hönnunar og byggingar á mannvirkjum.  Skanska hefur á undanförnum árum lagt á það mikla áherslu að allt sem þeir hanna og byggja sé gert á eins umhversvænan máta og unnt er. Með því móti hafa þeir náð að skapa sér tiltekna sérstöðu og samkeppnisforskot.

 

Áform PrimaCare snúast um að nýta sérstöðu Íslands og Íslendinga og samtvinna nokkra þá þætti sem styrkur okkar felst í. Með tilliti til þess markaðstækifæris sem viðskiptahugmyndin byggir á er staðsetning landsins mjög ákjósanleg mitt á milli austurstrandar USA og Norður-Evrópu. Eins og einn erlendur viðmælandi hafði á orði munu misvitrar ákvarðanir íslenskra stjórnmálamanna a.m.k. ekki megna að breyta legu landsins. Afmörkuð, viðurkennd og vel skilgreind hágæða læknisþjónusta á mjög samkeppnishæfum verðum, þar sem áhersla verður lögð á heildarlausn fyrir viðkomandi sjúklinga og aðstandendur þeirra er einn af styrkleikum verkefnisins. Að auki verður spítalinn byggður á eins umhverfisvænan máta og unnt er og hann verður knúinn áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Staðsetning spítalans í fögru umhverfi í hlíðum Úlfarsfells í Mosfellsbæ, í einu öruggasta og hreinasta landi heims hvort sem litið er til mannlegra þátta eins og afar lágrar glæpatíðni og sýkingahættu eða hinna náttúrulegu þátta eins og hreins lofts og vatns, á sér hvergi samsvörun í veröldinni. 

 

Íslendingar hafa búið við það lán og borið til þess gæfu að læra á landið og auðlindirnar. Það hefur ekki verið þrautalaust og deilt hefur verið um aðferðirnar. Stoðirnar hafa ekki verið margar en þær hafa verið traustar og á þeim byggjum við nú í eftirleik Hrunsins. Eftir því er kallað að finna nýjar leiðir og skjóta fleiri stoðum undir tilveru Íslendinga og framtíðar efnahag þjóðarinnar. Því virðist það skjóta skökku við þegar sumir gagnrýnendur þess að nýta sér þá stoð sem heilbrigðisþjónustan getur verið nýjum hugmyndum um atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun, tala gegn því að starfsemi þessi verði að veruleika. Oftar en ekki er málflutningurinn settur fram á þann hátt að verið sé að vernda eitthvert tiltekið núverandi fyrirkomulag sem mikil hætta er talin á að líði undir lok ef hin nýja starfsemi kemst á laggirnar. Það er eðlilegt að fara fram með varfærni og benda á hvar getur verið ástæða til að staldra við. Til þess er rökræðan. Finna leiðir til að leysa þau vandamál sem upp kunna að koma. Finna leiðir til að ýta undir nýjungar, auka fjölbreytni, fjölga tækifærum og gera það án þess að skaða aðra hagsmuni. Við höfum vítin til að varast og læra af. Við höfum vel menntað fólk sem hefur aukið við kunnáttu sína bæði í ríkisreknum og einkareknum háskólum hérlendis sem erlendis. Sá grunnur er traustur og ekki er að sjá að annað formið sé marktækt betra en hitt. Því ættum við að vera vel í stakk búinn til að taka upp jákvæða rökræðu um ný tækifæri og finna leiðir til að leysa úrlausnarefnin. Það hlýtur að vera æskilegra ef hægt er að gera það á annan hátt en að reyna að koma í veg fyrir að ný tækifæri verði að veruleika. Framþróun hefur aldrei byggt á úrtöluröddum og þeim sem tala kjark úr fólki.

 

Þetta á ekki síst við nú þegar haft er í huga að það eru blikur á lofti um það hvort okkur takist að viðhalda þeirri góðu heilbrigðisþjónustu sem við teljum til styrkleika þjóðarinnar nú um stundir. Það er farið að kvarnast úr. Það má halda því fram fullum fetum að verkefni PrimaCare snúist ekki eingöngu um að nýta fyrirséð tækifæri til sóknar heldur snýst það ekki síður um varnarbaráttu. Ef Íslendingar ætla áfram að búa við góða heilbrigðisþjónustu er mikilvægt að búa heilbrigðisstéttum gott starfsumhverfi. Þótt kjaraumhverfið skipti að sjálfsögðu miklu máli þá skiptir ekki síður máli að aðstaðan sjálf til að stunda lækningar og aðra heilbrigðisþjónustu standist alþjóðlegan samanburð. Á undangengnum „góðærisárum" var sparað í tækjakaupum og endurnýjun lækningatækja var ekki jafn hröð og skyldi. Ef ekki hefði verið fyrir veglegar gjafir hollvina ýmissa sjúkrastofnana hefði ástandið verið enn verra. Nú þegar fyrirséð er að sparnaður verður meiri en áður er hér um grafalvarlegt mál að ræða. Nú getur það ástand verið að skapast að þeir læknar sem hafa sérmenntað sig hvað mest og farið dýpst í sín fræði og áunnið sér mikla starfsreynslu finna sér ekki starfsvettvang við hæfi á Íslandi vegna aðstöðuleysis. Ef við fáum þessa sérfræðinga ekki heim, eins og áður, hefur það keðjuverkandi áhrif. Aðrir læknar sem hafa séð tækifæri til að koma heim og vinna með fremstu sérfræðingum á sínu sviði hafa ekki sömu tækifæri til þess og áður - á Íslandi. Þeir fresta því heimflutningi til að geta áfram unnið með fremstu sérfræðingum. Þegar þeir hafa sjálfir komist á þann stall að vera meðal fremstu sérfræðinga koma þeir ekki heim - vegna aðstöðuleysis. Áhrif þessarar keðjuverkunar ættu að vera öllum augljós og verulegt áhyggjuefni.

 

Verkefni PrimaCare mun eitt og sér ekki snúa þessari þróun við. Það ásamt fleirum sambærilegum sem nú eru í undirbúningi geta þó tekið þátt í því að búa til viðspyrnu á afmörkuðum sviðum. Þessi verkefni geta búið til aðstöðu og tækifæri fyrir sérfræðinga til að fá vinnu við hæfi á Íslandi sem annars hefði ekki orðið. Þessir sérfræðingar munu laða til sín aðra sérfræðinga og annað samstarfsfólk. Með þessu móti verður hægt að fjölga atvinnutækifærum í heilbrigðisgeiranum og viðhalda gæðum þess. Hver nýr sproti sem kemst upp úr sverðinum leggur sitt af mörkum með margvíslegum nýjum tækifærum og margföldunaráhrifum.

 

Áfram munum við því geta búið við það besta sem íslenskt menntakerfi hefur lagt grundvöll að. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en á þessum tímum að hlúa vel að íslenska menntakerfinu og búa vel menntaðri íslenskri þjóð næganlega mörg spennandi atvinnutækifæri til að halda fólkinu í landinu og fá þá til baka sem sækja sér frekari menntun og reynslu erlendis. 

 

Gunnar Ármannsson

frkvstj. PrimaCare


Málefnaleg rökræða um ný tækifæri í heilbrigðisþjónustu?

Í dag fékk ég birta í Fréttablaðinu stutta grein með ofangreindri fyrirsögn. Tilefnið eru nýleg skrif Ingibjargar Pálmadóttur fyrrv. heilbrigðisráðherra og viðtal á föstudaginn á stöð 2 við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Reyndar má kannski segja að það sem ýtti endanlega við mér með að rita þennan stutta pistil var viðtal Sigurjóns M. Egilssonar í þætti hans Sprengisandi sl. sunnudag við Ögmund. Þar kallaði Ögmundur eftir málefnalegri umræðu um þau úrlausnarefni sem við er að eiga hverju sinni. Hann hefur reyndar kvartað nokkuð undan því að undanförnu að honum finnist fjölmiðlamenn ekki vera nægjanlega málefnalegir í umfjöllun sinni og hafa áhuga á aukaatriðum en ekki því sem máli skiptir. Um það ætla ég ekki að dæma hér en það er forvitnilegt að sjá hvernig Ögmundur nálgast sjálfur hina málefnalegu rökræðu um ýmis álitaefni. Hann er gjarn á að taka einstök dæmi og alhæfa út frá þeim. Þá finnst honum greinilega ekkert að því að væna fólk sem hann hefur hlustað á um lygar og gera þeim upp fyrirætlanir. Sennilega er ég ekki nógu sjóaður í hinni pólitísku umræðu til að átta mig á leikreglunum og hvenær málefnaleg rökræða telst málefnaleg og hvenær ekki.

Það er hins vegar réttmæt krafa Ögmundur að þeir sem eru með áform um t.d. einkarekstur í heilbrigðisþjónustu geri grein fyrir því hvernig hann er áformaður. Með því móti er betur hægt að rökræða um mögulega kosti og ókosti. Það hyggst ég gera á næstunni.

"Nýverið hefur í dagblöðum og ljósvakamiðlum birst gagnrýni á fyrirhuguð áform um innflutning á erlendum sjúklingum til Íslands. M.a. hefur Ögmundur Jónasson innríkisráðherra, verið duglegur að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þrátt fyrir gagnrýni hans hefur hann þó látið hafa eftir sér að svo fremi sem ekki verði grafið undan almannaþjónustunni og skattfé borgaranna ekki notað þá sé hann ekki mótfallinn hugmyndunum.

Það er ánægjulegt og tímabært að þessi umræða fari fram og fái þá athygli sem eðlilegt er fyrir nýjar hugmyndir sem geta haft víðtæk áhrif til framtíðar. Hingað til hafa sumir þeirra sem um málið hafa fjallað á opinberum vettvangi gert það af takmarkaðri þekkingu og fordómum. Á það sérstaklega við um þann markað sem verið er að leita á og jafnframt um áform þeirra sem eru að reyna að hrinda nýjum hugmyndum í framkvæmd. Því er mikilvægt að rökræða um málefnið fari fram þannig að unnt sé draga fram í sviðsljósið kosti og galla þessara áforma.

Til að umræðan verði málefnaleg er æskilegt að talsmenn beggja sjónarmiða, með og á móti, temji sér slíka nálgun. Ingibjörg Pálmadóttir fyrrv. heilbrigðisráðherra og Ögmundur Jónasson gera aðstandendum þessara áforma upp fyrirætlanir eins og að til standi að komast inn bakdyramegin inn í íslenska heilbrigðiskerfið og að koma hér upp tvöföldu heilbrigðiskerfi. Hvað varðar áform PrimaCare stendur hvorugt til og fékk Ögmundur Jónasson frá fyrstu hendi upplýsingar um það á næstsíðasta degi hans í embætti heilbrigðisráðherra. Ingibjörg hefur ekki óskað eftir neinum upplýsingum um áform PrimaCare áður en hún ákvað að gera forsvarsmönnum fyrirtækisins upp ímyndaðar fyrirætlanir.

Að sjálfsögðu er aðeins hægt að drepa á fá atriði í stuttri grein sem þessari en ég vænti þess að á næstu vikum og mánuðum muni verða áframhaldandi umræða um þessi áform.

Það er einnig von mín að þeir sem vilja leggja rökræðunni gott til geri það á uppbyggilegan hátt með það í huga hvernig við getum best tryggt að ný starfsemi fái brautargengi og geti skapað störf og gjaldeyristekjur án þess að raska því kerfi sem við viljum búa við."

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 16
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 73135

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband