Lifað í óreglu.

Nú eru að verða liðnir tveir mánuðir frá síðasta bloggi mínu í hinum bráðskemmtilega og sjálfhverfa greinaflokki „sjúkrasögur Gunnars“. Einhverjir hafa ákveðið að líta á þetta sem framhaldssögu sem beri að fylgja eftir með framhaldi. Því bætist nú við framhald.

 

Þegar frá var horfið í síðasta pistli var ég að stíga uppúr einhvers konar þunglyndi og sjálfsvorkun. Blóðþynningin hafði gengið illa og ég þurfti að byrja uppá nýtt – rafvending ekki fyrirsjáanleg fyrr en í fyrsta lagi eftir 3 vikur þaðan í frá. Það er skemmst frá því að segja að þessi blessaða blóðþynning hefur haldið áfram að ganga illa. Ég fæ eina góða mælingu en er síðan dottinn niður fyrir mörkin í þeirri næstu. Svona hefur þetta haldið áfram viku eftir viku. Það er þó eftirtektarvert að ég hef í tvígang fengið mjög góðar mælingar, verið langt yfir mörkum og orðið bjartsýnn á að nú færi þetta að ganga. Það sem er sammerkt þessum tveimur mælingum er að í bæði skiptin þurfti ég að leggja það á mig að skemmta mér óvenju mikið fyrir blóðtöku. Fyrra skiptið var í kringum Kaupmannahafnarmaraþonið en í Köben var ég í 6 daga að hitta fjölskyldumeðlimi og vini. Að sjálfsögðu fylgdist ég vel með maraþoninu sjálfu og tók þá auðvitað þátt í því að fagna góðum árangri með félögunum að hlaupi loknu. Þarna var sem sagt tekin góð æfing sem var hugsuð sérstaklega fyrir rauðvínsmaraþonið í Frakklandi í byrjun september nk. Seinni góðu mælinguna fékk ég eftir að hafa fagnað 25 ára útskrift frá MA helgina áður. Það var alvöru. Þrír dagar í taumlausri unglingagleði þar sem flestir urðu aftur 20 ára og höguðu sér nákvæmlega eins og gert var 1987. Eftir þessar rannsóknir mínar spurði ég doktorinn hvort það væri ráð að leggjast í víndrykkju í 3 vikur samfleytt? Hann svaraði því nú ekki beinlínis en hafnaði þessum möguleika ekki heldur. Við sjáum hvað setur.

 

En að gamni slepptu þá fórum við yfir stöðuna. Það var ákveðið að láta reyna á aukningu í lyfjaskömmtuninni og sjá hvort ég myndi haldast yfir mörkum þannig. Það gerðist ekki heldur fór ég enn neðar. Þar með tókum við þá ákvörðun að setja mig á ný lyf. Þetta er lyf sem er gefið í 3 vikur og eftir það er rafvending reynd. Í þessu tilviki þarf ekki að fylgjast sérstaklega með blóðþynningunni heldur er nóg að hafa verið á lyfinu í 3 vikur samfleytt. Ástæða þess að ég var ekki settur strax á þetta lyf er sú að þar sem það er tiltölulega nýtt á markaði er ekki alveg öruggt að allar mögulegar aukaverkanir séu komnar fram. Þar sem ég hef annan undirliggjandi sjúkdóm vildum við bíða og sjá hvort ekki væri hægt að stilla mig af með eldra lyfinu. Þar sem það virðist fullreynt er komið að nýja lyfinu. Kannski við hæfi að sú meðferð skuli hefjast í dag á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna þann 4. júlí – flugeldar og allt?  Í sjálfu sér eru þetta góðar fréttir því nú ætti að vera öruggt að hægt verði að reyna rafvendingu eftir 3 vikur. En þó ekki. Þetta virðist nefnilega ætla að verða sumarið laaaaaaaanga. Nú eru auðvitað sumarleyfi í algleymingi og þar á meðal á spítalanum eina. Þegar ég verð tilbúinn í rafvendinguna, í kring um 23. -25. júlí, þá verða starfsmennirnir auðvitað ekki tilbúnir fyrir mig. Sennilega kemst ég ekkert að fyrr en upp úr miðjum ágúst. Þá fer nú að líta illa út með fyrirhugaða þátttöku mína í rauðvínsmaraþoninu. Það er reyndar sérstakt umhugsunarefni að heilbrigðisþjónustan fari yfirleitt í sumarfrí. Ekki gera sjúkdómarnir og heilsan það. Kannski sambærilegt við það að gefa Bandaríkjaher frí í júlí? Þetta benti vinur minn mér á sem er læknir. En kannski get ég sjálfum mér um kennt,  ég hefði kannski ekki átt að hallmæla spítalamatnum í fyrri pistli?!

 

En að lifa í hjartaóreglu venst eins og annað. Auðvitað ekki eftirsóknarvert en samt hlutskipti býsna margra. Þrekið skánar smám saman og dagleg störf hætta að vera jafn erfið. Þar sem ég veit ekki ennþá hvort ég kemst í takt er eins gott að byrja að lifa lífinu eins og hægt er og venjast ástandinu. Ég sagði frá því í síðasta pistli að ég væri byrjaður að líta við í æfingasalnum. Því hef ég haldið áfram og tekið framförum. Nú get ég orðið hlaupið sæmilega allt að 5 km í einu. Hef meira að segja prófað að hlaupa 7 og 8 km í einu og gekk bara þokkalega með því að fara nógu hægt. Hver veit nema ég komist 10 km í einu fyrir haustið?

 

Eins og ég hef bloggað um áður hafa hlaupin veitt mér mikið. Þessar þrengingar mínar nú í vor og sumar hafa sannað það enn betur. Eftir að ég fór á ferðina aftur þá hef ég tekið þátt í 4 keppnishlaupum. Auðvitað bara stuttum, 3-5 km og hlaupið hægar en áður. En engu að síður skemmtilegt. Stemningin frábær og áður en maður veit af er maður í huganum farinn að keppa við þá sem eru í kring um mann. Það er í raun ekkert síður skemmtilegt að keppa við ungu og efnilegu krakkana sem ná manni rétt upp í mitti og hina fullorðnu sem eru að stíga sín fyrstu skref . Allir eru þarna á sínum forsendum og gleðjast yfir því að klára vegalengdina og komast í mark.

 

Annað sem ég hef komist að er að það er góð skemmtun að vera starfsmaður við hlaup. Ég fékk ásamt fleirum að vera starfsmaður við hið mjög svo vel heppnaða hlaup Mt. Esja Ultra 2012. Það var frábær dagur í fjallinu þar sem gleðin skein úr andlitum keppenda sem hlupu ýmist 10, 5 eða 2 ferðir upp og niður Esjuna. Við þetta tækifæri átti Bibba hlaupafélagi klárlega setningu dagsins þegar hún var að lýsa okkur lasarusunum sem ekki gátum verið með en vorum starfsmenn við hlaupið: „... aðal málið er að vinna - ekki vera með...“. Þetta er rétta viðhorfið við þessar aðstæður!

 

Áskoranirnar eru margvíslegar. Fjöllin sem við mætum geta virst óyfirstíganleg við fyrstu sýn. Hvort sem þau eru eiginleg eða óeiginleg. Allir eiga sér sín fjöll. - En hvernig sigrar maður fjall? - Með einu skrefi, - síðan öðru, - og loks því þriðja. Áður en þú veist af eru skrefin orðin nógu mörg til að komast á næsta hjalla, næsta áfanga. Þegar áföngunum fjölgar styttist leiðin. Loks verða áfangarnir nógu margir til að komast eina ferð upp og niður Esjuna.

 

Þórsmörk júní 2012 033Þórsmörk júní 2012 036Þórsmörk júní 2012 049

Í ánni miðri.

Nú er liðinn rúmur einn og hálfur mánaður síðan hjartað datt úr takti og ég þurfti að hætta hlaupum. Mér finnst tíminn hafa liðið hægt og ég sakna þess að geta ekki hlaupið. Hlaupin voru að verða mitt annað sjálf og mér finnst ég hafa týnt stórum hluta af sjálfum mér. En nú er ég byrjaður að leita.

 

Partur af því hvað mér finnst tíminn lengi að líða er að það gengur ekki nógu vel að þynna í mér blóðið. Blóðið þarf af vera þynnt yfir ákveðin mörk í 3-4 vikur samfleytt áður en hægt verður að reyna rafvendingu. Ég hafði gert mér vonir um að komast í rafvendingu í þessari viku eða þeirri næstu. Síðasta föstudag kom hins vegar í ljós að ég var dottinn langt undir mörkin og þurfti því að byrja upp á nýtt. Í mælingu í dag var sama staða uppi. Undir mörkunum og því ennþá amk 3-4 vikur í rafvendingu.

 

Þessu ástandi fylgir ótrúlegt þrótt- og framtaksleysi. Ég hef verið ágætur fram yfir hádegið en einhvern tíman um miðjan dag hefur orkan oftast klárast. Tröppur sem snúa upp eru orðnar óvinur nr. 1. Ég nefndi það í einhverjum pistli að ég væri seinn að fatta og það hefur ekkert breyst. Ef ég á erindi í hús þar sem eru bæði lyftur og tröppur þá fer ég alltaf tröppurnar og man ekkert eftir óvinsældum þeirra fyrr en uppgangan er hafin. Þá er auðvitað ekkert annað að gera en að hægja á sér og taka hvíld á milli  - og klára.

 

Ég hitti doktorinn í síðustu viku. Það var ágætt. Það er endanlega staðfest að óreglan á rætur að rekja til gáttanna en ekki sleglanna. Það er víst betra. Ef rafvendingin gengur vel og ég kemst í takt þá heyrist mér á honum að ég eigi alveg möguleika á að fara eitthvað aftur á ferðina. Hann sagði reyndar að ég skyldi láta 100 km hlaup eiga sig – en hann sagði ekkert um maraþon! Takist ekki  að koma hjartanu í takt með rafvendingu er það annar leikur og verður þá bara að takast á við það.

 

Ég varð auðvitað hundfúll í síðustu viku þegar blóðið var orðið of þykkt. Var í fýlu alla helgina. Ákvað á sunnudagskvöldið að í þessari viku skyldi ég byrja aftur að æfa. Auðvitað ekki hlaup en prófa að lyfta léttum lóðum. Er búinn að fara tvisvar í vikunni. Það var gott. Finna aftur þessa yndislegu svitalykt og horfa á fallega og vöðvastælta fólkið horfa á sjálft sig í speglinum. Kannski verð ég einn af þeim eftir árið? Amk kom mér á óvart hvað mér gekk vel að lyfta með fótunum. Aðeins erfiðara á búkinn og hendur en samt vel hægt. Ég verð kannski kominn með vöðva á lappirnar þegar ég get byrjað aftur?

 

Þakka fyrir allar góðu kveðjurnar sem ég hef fengið frá ykkur á síðustu vikum.

   

Dómsvald í hendur Alþingismanna?

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið deilt um hvort það sé heppilegt að ákæruvald sé í höndum þingmanna. Sumir virðast vera þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag sé réttmætt meðan aðrir telja það misráðið. Í umræðunni hefur verið deilt um hvort fyrirkomulag þetta sé í anda þess stjórn- og réttarkerfis sem almennt er fylgt í lýðræðisríkjum í dag.

  

Í nýlegu lagafrumvarpi sem lagt var fram í lok mars sl. verður ekki annað ráðið en sumir þingmenn vilji ganga enn lengra en áður hefur verið rætt um og færa nokkurs konar dóms- eða úrskurðarvald í hendur þingmanna.

  

Í greinargerð með „litlu frumvarpi“, eins og formaður Velferðarnefndar Alþingis kallar það í framsöguræðu, er að finna túlkun Velferðarnefndar á gildandi lagaákvæðum á sviði persónuverndar. Velferðarnefnd Alþingis, ásamt heilbrigðisyfirvöldum, þ.e. Velferðarráðuneytinu og Landlækni, kemst að gagnstæðri niðurstöðu um túlkun persónuverndarákvæða en það stjórnvald sem að lögum er falið úrskurðarvaldið - Persónuvernd.

  

Meirihluti velferðarnefndar virðist líta svo á að með því að margendurtaka sinn eiginn skilning og „heilbrigðisyfirvalda“ á gildandi lagagrein í greinargerðinni þá sé þar komin ný réttarheimild sem ryðji burt úrskurði lömælts úrskurðaraðila. Þetta er nýmæli í íslenskri réttarframkvæmd. Hingað til hefur það verið hlutverk dómstóla að skera úr um réttan skilning á lagareglu ef upp rís ágreiningur um túlkun hennar. Telji löggjafinn hins vegar þurfa að breyta gildandi rétti getur hann gert það með því að leggja til skýra breytingu á lagareglunni skv. þeim reglum sem um lagasetningu gilda. Það er hins vegar mikill munur á þessum tveimur hlutverkum hvors handhafa ríkisvaldsins fyrir sig. Þrískipting ríkisvaldsins skv. stjórnarskránni er m.a. til þess að tryggja að of mikil völd safnist ekki á hendur eins af handhöfum ríkisvaldsins. Með þessu stjórnarskrárbundna fyrirkomulagi er reynt að draga úr hættunni á spillingu og alræðistilburðum.

  

Það má halda því fram að afstaða og framganga formanns Velferðarnefndar, í framsögu hennar í þinginu og almennt í fjölmiðlum um málið, lýsi miklu virðingarleysi hennar gagnvart lögbundnu hlutverki Persónuverndar og miklum vilja til að fá að hafa síðasta orðið. Jafnvel má sjá votta fyrir hroka í garð Læknafélags Íslands fyrir að leyfa sér að leita álits þar til bærrar stofnunar, Persónuverndar, á því hvort lýtalæknum væri heimilt og/eða skylt að afhenda Landlækni persónugreinanlegar upplýsingar.

  

Er þessi afstaða og framganga formanns Velferðarnefndar eftirtektarverð. Ekki síst þegar haft er í huga að Læknafélag Íslands gerði ekki annað en að túlka vafa einstaklingnum í hag gagnvart vilja ríkisstofnunar til söfnunar persónugreinanlegum upplýsingum. Læknafélagið setti málið í þann farveg sem til er ætlast skv. lögum og fór eftir leiðbeiningum Hæstarréttar um að stjórnarskrárbundin ákvæði hafi meiri vigt en önnur.

Úr máli Hæstaréttar nr. 252/1998:

„Rík trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á starfsmönnum heilbrigðisþjónustu, bæði vegna almennra mannréttindasjónarmiða og í þeim tilgangi meðal annars að samband lækna og sjúklinga geti verið náið og heilsuvernd og lækningar skilað sem mestum árangri. Vernd persónuupplýsinga, og þá ekki síst heilsufarslegra, er nauðsynleg til þess að menn fái notið þeirra réttinda, sem varin eru með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar.“

Úr máli Hæstaréttar nr. 151/2003:

"Upplýsingar [í sjúkraskrám] geta varðað einhver brýnustu einkamálefni þess, sem í hlut á, án tillits til þess hvort þær geti talist honum til hnjóðs. Ótvírætt er að ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til slíkra upplýsinga og veitir sérhverjum manni friðhelgi um einkalíf sitt að þessu leyti. Til að tryggja þá friðhelgi verður löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar sem þessar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra, sem eiga ekki réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds."    

 

Það skal tekið fram að í pistli þessum er engin afstaða tekin til þess hvort rétt sé að setja jákvætt ákvæði í lög um Landlækni þar sem honum er veitt heimild til að krefjast þeirra upplýsinga sem Persónuvernd hefur nú úrskurðað í tveimur málum (96 og 185/2012) að sé ekki fyrir hendi.

  

Það hins vegar veldur pistlahöfundi vonbrigðum ef framsögumenn frumvarpsins sjá ekkert athugavert við framgöngu sína í málinu. Framganga af þessu tagi er ekki til þess fallin að auka tiltrú þingsins né heldur almenna tiltrú á því stjórnar- og réttarfari sem Ísland býður upp á nú um stundir.

        

 

 

140. löggjafarþing 2011–2012.Prentað upp. Þingskjal 1093  —  679. mál.


Frumvarp til laga  um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu,
með síðari breytingum (eftirlit með heilbrigðisþjónustu).

Frá meiri hluta velferðarnefndar (ÁI, JRG, LGeir, GStein, MN, RR, SkH, EyH).
 1. gr.    Við 1. mgr. 7. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Ekki skal varðveita persónugreinanleg gögn og upplýsingar, sem aflað hefur verið á grundvelli þessarar málsgreinar, lengur en nauðsynlegt er vegna eftirlitsins. Ákvæði 8. gr. um varanlegar heilbrigðisskrár á landsvísu eiga ekki við um upplýsingar sem aflað er á grundvelli þessarar greinar.2. gr.    Lög þessi öðlast þegar gildi.Greinargerð.
    Markmið laga um landlækni og lýðheilsu er skv. 1. gr. laganna „að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýðheilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma“. Til þess að ná þessu markmiði er landlækni falið að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt hans til að krefja heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir um nauðsynlegar upplýsingar og gögn til þess að sinna þessu eftirlitshlutverki. Nýleg dæmi eru um að læknar hafi talið vafa leika á um heimildir sínar til að afhenda landlækni persónugreinanlegar upplýsingar, þar sem það sé ekki sérstaklega tiltekið í ákvæði 7. gr. Heilbrigðisyfirvöld telja ótvírætt að læknum beri skylda til að afhenda landlækni þau gögn sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu, þ.m.t. persónuupplýsingar. Ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum og heilbrigðisstarfsmönnum hafa verið í lögum um árabil. Í læknalögum hafa ætíð verið ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum og um skyldu þeirra til að afhenda honum upplýsingar. Landlæknir hefur þannig frá upphafi haft slíkar heimildir og eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um landlækni, nr. 41/2007, er afmörkun á eftirlitshlutverki hans óbreytt þótt það hafi verið nánar útfært þar. Víða í lögum er gert ráð fyrir því að embætti landlæknis fái í hendur persónugreinanlegar upplýsingar til vinnslu eða varðveislu. Hefur embættið sett sér upplýsingaöryggisstefnu um meðferð slíkra upplýsinga. Stefnan lýsir áherslum landlæknis varðandi upplýsingavernd og örugga meðferð upplýsinga í starfsemi embættisins. Hún er útfærð í skjalfestum verkferlum og verklagsreglum sem kynntar hafa verið Persónuvernd og eru í samræmi við viðurkenndan upplýsingaöryggisstaðal. Með hliðsjón af þeim brýnu almannahagsmunum sem í húfi geta verið verður ekki við það unað að nokkur vafi leiki á um rétt landlæknis til að afla nauðsynlegra gagna og upplýsinga, þ.m.t. persónugreinanlegra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru til þess að hann geti sinnt þeirri skyldu sinni að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu. Heimildir landlæknis í lögum til að afla upplýsinga vegna eftirlits hafa því frá upphafi verið svo rúmar að skylda lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna til að verða við kröfu landlæknis um afhendingu upplýsinga og gagna sem hann telur nauðsynleg til að sinna eftirlitshlutverki sínu hefur verið talin taka til afhendingar persónugreinanlegra upplýsinga án þess að samþykkis hins skráða þurfi að afla. Hér er lagt til að í ákvæði um skyldu til að afhenda landlækni gögn og upplýsingar verði kveðið nánar á um meðferð persónugreinanlegra upplýsinga sem aflað er vegna eftirlitsins, þannig að skorður eru settar við varanlegri varðveislu þeirra. Breytingunni er ætlað að tryggja að þegar landlæknir telur nauðsynlegt að afla persónugreinanlegra upplýsinga vegna eftirlitsskyldu, hvort sem um er að ræða reglubundið eftirlit eða aðgerðir af sérstöku tilefni, þá séu upplýsingarnar varðveittar á persónugreinanlegu formi aðeins meðan það er nauðsynlegt vegna eftirlitsins. Varðveisla persónugreinanlegra upplýsinga standi því aldrei lengur en nauðsyn ber til og aldrei lengur en það eftirlitsverkefni stendur sem var tilefni öflunar upplýsinganna. Almennt mundi eftirlitsverkefni standa yfir í afmarkaðan tíma sem talinn verði í mánuðum fremur en árum.
    Um upplýsingar sem varðveittar eru til frambúðar í varanlegum skrám er fjallað í 8. gr. laganna og er þar ekki gert ráð fyrir að nein tímatakmörk séu á því hversu lengi má varðveita upplýsingar í skránum. Þar er á hinn bóginn gerður mikilvægur greinarmunur á þeim skrám sem tæmandi eru taldar í 2. mgr. og hafa að geyma persónugreinanlegar upplýsingar og öðrum skrám sem lýst er í 1. mgr. og aðeins skulu hafa að geyma ópersónugreinanlegar upplýsingar. Síðari málsliðnum sem lagt er til að bætt verði við 1. mgr. 7. gr. er ætlað að taka af allan vafa um að munur er á meðferð upplýsinga sem aflað er vegna eftirlits skv. 7. gr. annars vegar og upplýsinga sem færðar eru í varanlegar skrár á landsvísu skv. 8. gr. hins vegar. Þannig er það skilyrði færslu persónugreinanlegra upplýsinga til varanlegrar varðveislu í heilbrigðisskrá að upplýsingarnar eigi efnislega heima í einhverri þeirra skráa sem tilteknar eru í 2. mgr. 8. gr. Það er á hinn bóginn eina skilyrði öflunar persónugreinanlegra upplýsinga á grundvelli 1. mgr. 7. gr. að landlæknir telji þær nauðsynlegar til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Þær upplýsingar gætu efnis síns vegna jafnframt ýmist átt heima í skrám á grundvelli 1. mgr. 8. gr. eða í skrám á grundvelli 2. mgr. 8. gr., en sú efnislega aðgreining hefur enga þýðingu við öflun upplýsinga vegna eftirlits á grundvelli 1. mgr. 7. gr. Sem fyrr segir er með frumvarpinu lagt til að skorður verði settar við því hversu lengi landlæknir geymi upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits í persónugreinanlegu formi. Það er enn til marks um eðlismun þeirra upplýsinga sem aflað er á grundvelli 7. gr. annars vegar og upplýsinga sem færðar eru í skrár á grundvelli 8. gr. hins vegar, en eðli málsins samkvæmt eiga tímaskorður ekki við um varanlegar skrár.
    Í 1. mgr. er lagt til að ekki verði heimilt að varðveita upplýsingar sem aflað er vegna sértæks eftirlits í persónugreinanlegu formi lengur en nauðsynlegt er vegna vinnslu í þágu eftirlitsins. Eftir að vinnslu er lokið skulu þær því annaðhvort gerðar ópersónugreinanlegar eða þeim eytt. Persónugreinanlegar upplýsingar sem landlæknir aflar eru almennt dulkóðaðar og öll skoðun upplýsinga er aðgangsstýrð og rekjanleg samkvæmt innra öryggiskerfi landlæknis og þannig tryggt að aðgangur sé takmarkaður við þá sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang vegna starfa sinna. Þá er lagt til að undirstrikað verði að mismunandi reglur gildi annars vegar um varanlegar heilbrigðisskrár skv. 8. gr. og hins vegar upplýsingar sem aflað er á grundvelli 7. gr. vegna eftirlits.
  

 

 

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg): Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu, sem átta af níu nefndarmönnum í velferðanefnd flytja. Tilgangur frumvarpsins er að taka af allan vafa, sem við reyndar teljum engan vera, um að landlæknir skuli fá öll þau gögn og upplýsingar sem hann telur sig þurfa vegna mikilvægs eftirlitshlutverks sem honum er falið með lögum.Því er ekki að leyna að frumvarpið á rætur að rekja til afstöðu Læknafélags Íslands sem skaut skildi fyrir lýtalækna í upphafi árs sem neituðu að afhenda landlækni upplýsingar um brjóstaaðgerðir í kjölfar PIP-hneykslisins. Þeirri deilu var vísað til Persónuverndar og fyrir velferðarnefnd var fullyrt að niðurstaða mundi liggja fyrir 7. febrúar sl. Nú erum við komin langleiðina með mars og það er greinilegt að það hefur ekki gengið eftir. Landlæknir hefur ekki fengið þessi gögn og það er í raun óþolandi staða sem varðar ekki bara þetta einstaka mál sem ég vakti hér máls á, þetta er algert prinsippmál og spurning um hvers virði eða til hvers lög um landlækni og lýðheilsu eru ef verkfærin eru tekin af embættinu sem eru til þess ætluð að hann uppfylli skyldur sínar.Frú forseti. Markmið laganna um landlækni og lýðheilsu er að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu. Til þess að ná því markmiði er landlækni einmitt falið að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Í 7. gr. laganna er kveðið á um rétt landlæknis til að krefja heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisstofnanir um nauðsynlegar upplýsingar og gögn til þess að sinna þessu eftirlitshlutverki. Heilbrigðisyfirvöld, þ.e. velferðarráðuneytið og landlæknir, telja ótvírætt að læknum beri skylda til að afhenda landlækni þau gögn sem hann telur nauðsynlegt að sinna eftirlitshlutverks síns vegna, þar með taldar persónuupplýsingar. Þetta, frú forseti, er ekkert nýtt. Í læknalögum hafa ætíð verið ákvæði um eftirlit landlæknis með læknum og um skyldu þeirra til að afhenda honum upplýsingar. Hægt er að vitna aftur til laga frá fyrst 1911, síðan 1932, 1969 og svo núgildandi laga um landlækni frá 2007.Frú forseti. Heimildir landlæknis í lögum til að afla upplýsinga vegna eftirlits hafa verið svo rúmar frá upphafi að við teljum það ótvíræða skyldu lækna og heilbrigðisyfirvöld telja það svo að skylda lækna hefur í þessum lögum verið talin taka til afhendingar persónugreinanlegra upplýsinga án þess að samþykkis hins skráða þurfi að afla.Í þessu litla frumvarpi, frú forseti, er lagt til að skilið sé á milli persónugreinanlegra upplýsinga sem landlæknir aflar annars vegar vegna eftirlitsskyldu sinnar og eftirlitshlutverks og þær upplýsingar sem þannig er aflað skuli gerðar ópersónulegar eða þeim eytt að loknu eftirlitinu. Um slíkar upplýsingar er ákvæði að finna í 7. gr. laga um landlækni. Í 8. gr. hins vegar, og þar skal skilið á milli, eru persónugreinanlegar upplýsingar sem aflað er í þeim tilgangi að halda tilteknar skár, persónugreinanlegar skrár sem ekki verður eytt, til að mynda fæðingarskrá, krabbameinsskrá, vistunarskrá heilbrigðisstofnana, skrá um sykursýki og fleira sem tilgreint er í 8. gr. laganna.Frú forseti. Hér er lagt til að í ákvæðinu um skyldu heilbrigðisstarfsmanna til að afhenda landlækni gögn og upplýsingar verði kveðið nánar á um meðferð persónugreinanlegra upplýsinga sem aflað er vegna eftirlitsins og þannig að skorður eru settar við varanlegri varðveislu þeirra. Eins og ég sagði áðan skal þeim eytt eða þær gerðar ópersónugreinanlegar og eftirlitsverkefninu skal þá lokið og það mun ekki standa yfir nema í afmarkaðan tíma sem frekar er talinn í mánuðum en árum. Um upplýsingar sem varðveittar eru til frambúðar hins vegar er fjallað í 8. gr.Frú forseti. Þetta mál hefur margoft verið rætt á fundum velferðarnefndar með fulltrúum frá Læknafélagi Íslands, frá Lýtalæknafélaginu, frá landlækni og frá velferðarráðuneyti, fundum með lögmanni þeirra kvenna sem nú lögsækja lækni eða lækna vegna PIP-púðamálsins, við fulltrúa kvenna sem þar eiga í hlut. Á þessu var sérstaklega tekið í nefndaráliti 1 minni hluta vegna heilbrigðisstarfs þar sem kemur fram að nefndin telur engan vafa leika og engar undantekningar eigi að vera á þessari skyldu lækna til að afhenda landlækni persónugreinanlegar upplýsingar. En hér, frú forseti, er kveðið nánar á um það hvernig með þær upplýsingar skal farið. Þeim skal eytt eftir að eftirlitshlutverkinu er lokið.Eins og ég segi hefur málið verið lengi á borðum hv. velferðarnefndar og það er flutt af átta af níu nefndarmönnum. Ég legg svo til að því verði vísað beint til 2. umr.   

 

Morgunblaðið 26. apríl 2012.

Landlæknir á að geta fengið persónuupplýsingarVelferðarnefnd er ósammála úrskurði Persónuverndar og vill breyta lögunum
Velferðarnefnd Alþingis hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögum í þeim tilgangi að skýra heimildir landlæknis til þess að afla persónugreinanlegra upplýsinga við eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustu. Tilefnið er álit Persónuverndar sem komst að þeirri niðurstöðu að lagastoð skorti til þess að afhenda megi landlækni persónugreinanlegar upplýsingar, m.a frá lýtalæknum vegna PIP-brjóstapúðamálsins. Einnig álítur Persónuvernd að ekki sé nauðsynlegt að kalla eftir upplýsingunum því þær varði ekki líf og heilsu kvennanna.
»Meirihluti nefndarinnar var ósammála hvoru tveggja, það eru velferðarráðuneytið og landlæknir líka. Við leggjum áherslu á að landlæknir þarf að hafa heimildir til að fá þær upplýsingar og gögn sem hann telur sig þurfa til að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni segir Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar. »Við viljum breyta lagaákvæðinu þannig að það sé skýrt hvernig á að fara með upplýsingarnar, að þær lifi bara á meðan eftirlitið stendur yfir, eftir það sé þeim eytt. Ef einhver telur að landlæknir hafi ekki heimild til að kalla eftir persónuupplýsingum getur verið að við þurfum að herða lögin enn frekar og setja skýra heimild um að hann geti það. Við erum að skoða það,« segir Álfheiður. Hún gerir ráð fyrir að frumvarpið fari í umræðu á þingi í næstu viku.Velferðarnefnd hélt fund í gær þar sem hún fékk fulltrúa frá Persónuvernd, landlækni og velferðarráðuneytinu til þess að fara yfir álit Persónuverndar vegna fyrirspurnar Læknafélagsins varðandi skyldur lýtalækna til að afhenda landlækni persónugreinanlegar upplýsingar. »Mér finnst alvarlegt mál ef Persónuvernd ætlar að ákveða hvað teljast nauðsynlegar upplýsingar og hvað skiptir máli í eftirliti landlæknis. Enn hafa yfirvöld ekki getað fengið upplýsingar um hvaða konur fengu PIP-brjóstapúða og hvernig hægt er að ná í þær. Við teljum einsýnt að þetta stefni heilsu kvennanna í hættu og með því að veita landlækni upplýsingarnar megi forðast frekara heilsutjón,« segir Álfheiður.

Ég hljóp af því að ég gat það. Aftur á byrjunarreit?

Í fyrrasumar hljóp ég nokkur hlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Tilefnið var að þá voru fimm ár liðin frá því að ég greindist með hvítblæði. Ég bjó mér til einkunnarorðin „Ég hleyp af því að ég get það“. Með þeim vildi ég vekja athygli á því að það er ekki sjálfgefið að geta hlaupið. Hlaup eru einstaklega góð líkamsrækt, hægt að stunda nánast hvar sem er og hver og einn getur sett sér sín eigin markmið og hagað hlaupunum að sínum vilja. Ég valdi að hlaupa mikið og langt – og ætlaði lengra og hraðar. En svo virðist sem mér hafi ekki verið ætlað að hlaupa lengra og að ég sé búinn með þann kvóta sem mér var úthlutað. Þrátt fyrir það sýnist mér gildi einkunnarorða átaksins míns frá því í fyrrasumar ekki hafa minnkað. Þeir sem geta eiga að gera. Þeir sem ekki geta þá langar að gera. Þeir sem ekki hafa upplifað að geta ekki vita ekki hvernig það er. Þeir gera sér ekki endilega grein fyrir hversu mikilvægt er að hafa tækifæri til að geta - og gera. Það getur allt í einu orðið of seint að ætla að gera – þegar þeir geta ekki. Hlauptu meðan þú getur!

 

Ástæður þess að ég set þessar línur á blað eru í raun af tvennum rótum sprottnar. Annars vegar til að skrifa mig í gegnum svekkelsið við að vera kippt fyrirvaralaust út úr hlaupunum. Hins vegar hugrenningar mínar síðustu daga þegar ég þurfti að dvelja á spítala. Ég hef um nokkurra ára skeið haft mikinn áhuga á heilbrigðiskerfinu okkar og þeim aðstæðum sem sjúklingum og starfsmönnum eru búnar. Endurnýjuð kynni mín af innviðum kerfisins sannfærðu mig enn betur um að aðgerða er þörf og það strax.

 

Ég hef frá því í desember verið að æfa markvisst fyrir Boston maraþonið sem verður þreytt þann 16. apríl nk. Því til viðbótar ætlaði ég að hlaupa nokkur lengri hlaup á árinu og var búinn að skipuleggja spennandi dagskrá að mínu mati. Æfingarnar voru búnar að ganga mjög vel og ég tel mig hafa verið kominn í betri æfingu en á sama tíma í fyrra. Ég hafði opinberlega gefið út að ég ætlaði að reyna að hlaupa á meðalhraðanum 4:04 sem ætti að skila tíma uppá 2:51:30 ef allt gengi upp. Í fyrra æfði ég með það fyrir augum að geta hlaupið á 4:15 sem skilar tíma rétt undir 3 klst. Þegar til kom hljóp ég á 4:09. Mér hefur gengið mun betur með allar æfingar í vor sem miða við MP 4:04 en mér gekk í fyrra með MP 4:15. Því var ég farinn að gæla við að láta reyna á MP 3:58 í Boston með það að markmiði að reyna að skríða undir 2:48:48 sem er meðalhraði uppá 4:00. Það er sá tími sem ég var búinn að setja mér sem langtímamarkmið þegar ég ákvað að fara að hlaupa maraþon. Boston brautin er aðeins rúllandi þannig að það var auðvitað ekki ljóst hvort þetta væri raunhæft. En þar sem mér hefur yfirleitt gengið hlutfallslega vel að hlaupa hratt niður ætlaði ég að reyna að nýta vel niðurhallann og hef æft niðurhlaup reglulega. Þar til viðbótar hef ég æft vel að hlaupa eins km intervala upphallandi þannig að mér fannst ég vel undirbúinn. Þessu til viðbótar er ég búinn að létta mig um 5 kg frá áramótum sem hefur augljóslega haft góð áhrif á hraðann. Ég ákvað að hlaupa 10 km test hlaup á bretti fyrr í mánuðinum og náði að skríða þar undir 37 mín í fyrsta skipti. Það gaf góð fyrirheit. Á æfingu þann 22. mars. sl. áttum við að hlaupa 35 km og þar af 20 km á MP hraða með 1600 metra kafla aðeins hraðar. Ég ákvað að láta reyna á það hvað ég kæmist hratt í hálfu maraþoni og nota það síðan til að ákveða á hvaða hraða ég myndi reyna að stilla mig í maraþoninu sjálfu. Það er skemmst frá því að segja að ég náði að bæta mig um 2 mínútur, miðað við fyrri brettatíma, og kláraði á 1:20:56 (eftir 10 km upphitun og 500 metra á 3:55 pace). Þetta tók auðvitað vel í en ég var hins vegar langt frá því að vera „dauður“. Reiknivélar gáfu mér upp tíma rétt undir 2:50 miðað við þennan hraða þannig að mér fannst sjálfgefið að ég myndi gera atlögu við 2:48:48. Fjórar vikur í maraþon og ég í besta formi lífsins! Ekki slæmt það. Ein þung vika eftir og síðan þrjár vikur í tapering (niðurtröppun).

 

Á mánudagsæfingunni ætlaði ég að rúlla létt 15-20 km á 4:45 með -3 í niðurhalla. Þetta átti að vera frekar létt æfing og með því að hafa þetta mikinn niðurhalla átti ég ekki að finna mikið fyrir þessu tempói. Í leiðinni átti þetta að vera góð niðurhlaups æfing. Fyrstu 5 km voru léttir og ég fann ekkert fyrir þessu. En fljótlega eftir að ég byrjaði á 6. km fann ég allt í einu fyrir þreytu í löppunum. Eftir 7 km varð ég að stoppa og taka pásu. Ég ætlaði aftur af stað en hreinlega gat ekki hlaupið áfram á þessum hraða. Ég hugsaði með mér að æfingin frá því á laugardag sæti sennilega ennþá í mér þannig að ég ákvað að jogga bara rólega meðan hlaupafélaginn kláraði sína æfingu. Ég svitnaði óheyrilega mikið á jogginu og það var þrælerfitt. Ég þurfti að hafa mig allan við að klára uppí 16 km og var þá alveg búinn á því. Daginn eftir byrjaði ég rólega á 5:30 og ætlaði að bæta smám saman við. Eftir 10 km hafði ég ekkert aukið við hraðann og varð að taka pásu og náði með herkjum að jogga uppí 16 km. Tók hvíldardag á miðvikudeginum og skellti mér í yoga. Það var fínt en ég var samt ekki ánægður með 3 km upphitunina sem ég tók. Ég hljóp 2 km rólega og síðan 1 km vaxandi. Það var allt of erfitt. Á fimmtudag var á dagskrá að hlaupa 12 km aðeins hægar en á 10 km keppnishraða. Upphitunin gekk ágætlega og ég fór af stað á 3:50 í tempókaflann. Eftir um 200 metra fann ég að ég yrði að hægja á ferðinni og eftir 1 km gafst ég upp á tempóinu og joggaði í rólegheitunum upp í 10 km. Þar sem æfingin var allt of stutt ákvað ég að fara síðdegis smá rúnt úti. Ég setti á mig púlsmælinn og hljóp upp að Vífilstaðavatni. Púlsinn rauk strax upp fyrir 180 og var yfirleitt í kringum 190 allt hlaupið og það þrátt fyrir að ég stoppaði þrisvar til að ná púlsinum niður. Til samanburðar liggur púlsinn í rúmum 170 í 10 km keppnsihlaupi og var í kringum 170 síðustu 10 km í hálfmaraþoninu sem ég hljóp á laugardeginum á undan. Um kvöldið var ég lengi að jafna mig og leið eins og ég hefði verið að hlaupa eitthvað miklu lengra og miklu hraðar. Daginn eftir fór ég á fund og ákvað að ganga upp nokkrar hæðir. Það var ekki um neitt að villast, þetta var mjög undarlegt ástand. Var orðinn lafmóður þegar upp kom og þurfti að jafna mig áður en ég knúði dyra þar sem ferðinni var heitið.

 

Þetta minnti mig óþægilega mikið á ástandið á mér í aðdraganda þess að ég greindist með  hvítblæðið. Ég átti þó ekki von á að það væri farið að láta kræla á sér aftur því miðað við forsöguna ætti það að taka mun lengri tíma. Nú voru bara liðnir nokkrir dagar frá því að ég var í toppstandi. Það var í raun nærtækara að eitthvert ólag væri komið á hjartað. Bæði vegna þess hvað púlsinn virtist skyndilega fara úr skorðum og svo hitt að frá sumrinu 2006 er ég búinn að vera með einhverja óreglu í hjartanu. Var um nokkurra ára skeið á blóðþynningarlyfjum en hafði þó verið laus við þau sl. 2 ár. Þegar óreglan kom upp fyrst var ég settur á einhver lyf, auk blóðþynningarinnar, og virtist það duga ágætlega. Ég hef hins vegar alltaf fundið annars lagið fyrir óreglulegum hjartslætti og kippti mér því ekkert upp við það þótt ég sæi að á undanförnum útiæfingum væri hjartslátturinn stundum að rjúka upp tímabundið. En hvað um það þetta var allt eitthvað undarlegt. Einn hlaupafélagi minn og vinur vinnur sem læknir og skipaði hann mér í blóðprufur. Þær reyndust í fínu lagi þannig að næst var mér skipað að fara og láta taka hjartalínurit. Það reyndist vera skrautlegra en til var ætlast. Ég var lagður inná spítala síðdegis á föstudeginum og strax byrjað að þynna blóðið (ég hefði nú svo sem getað séð um það sjálfur heima hjá mér!) og ég settur í varanlegt samband við hjartalínurit.

  

Dvöl á spítala er lífsreynsla sem ætti að vera skylda að fara í gegnum. Helst sem fyrst eftir að þroska fullorðins áranna er náð. Það sjónarhorn sem fæst við það að vera sjúklingur á spítala er hollt. Margra hluta vegna. Mér liggur við að segja að það sé lítið að marka bollaleggingar fólks um það hvernig spítalar skuli vera sem hefur ekki upplifað spítalavist sem sjúklingar –eða náinn aðstandandi sjúklings. Örugglega fæst góð innsýn í lífið á spítalanum við að vinna þar en það er annað sjónarhorn en sjúklingar og aðstandendur þeirra fá. Þótt sjónarhorn starfsmannanna sé öðru vísi er það að sjálfsögðu nauðsynlegt. Sambland sjónarmiða sjúklinga og starfsmanna er það sjónarhorn sem að mínu mati ætti að liggja til grundvallar við skipulag spítala. Innlegg annarra er mikilvægt en það má ekki skyggja á megin tilganginn – sem ætti að vera það að lækna og hjúkra sjúklingum og reyna að láta þeim líða sem best.

 

En hvernig líður sjúklingi á spítalanum okkar eina í dag? Ég get auðvitað ekki talað fyrir aðra en sjálfan mig en það get ég líka vel. Ég hef reynslu frá því fyrir sex árum og síðan aftur núna. Áður en ég lýsi reynslu minni ætla ég að byrja á margtugginni klisju sem verður ekki endurtekin of oft. Við eigum frábært heilbrigðisstarfsfólk. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar stendur sig afar vel við erfiðar aðstæður. Það getur ekki verið auðvelt að umgangst misveika og miserfiða sjúklinga við þær aðstæður sem við bjóðum uppá. Það getur ekki verið auðvelt að sýna alltaf hlýhug og fagmennsku þegar sjúklingar sem kannski eru illa fyrir kallaðir sýna ekki alltaf samstarfsvilja og/eða samstarfsgetu. Eins og ég hef sagt áður, við eigum heilbrigðiskerfi sem á sumum sviðum stenst samanburð við það besta – vegna heilbrigðisstarfsfólksins okkar (þrátt fyrir kerfisuppbygginguna og hina misheppnuðu pólitísku leiðsögn).

 

Eftir að hafa legið á spítalanum í þrjár nætur og þrjá daga og fylgst með rútínunni fékk ég allt í einu á tilfinninguna að ég væri aftur kominn í sveitina - nánar tiltekið í fjósið að vetri til. Munurinn var þó sá að áður var ég fjósamaðurinn en nú upplifði ég mig sem eina af kúnum. Belja á bás. Kannski mátulegt á mig! En hvað um það. Skrítin tilfinning.

 

Vakinn upp fyrir klukkan sjö og tekinn blóðþrýstingur. Í fjósinu var byrjað á því að gera mjaltatækin klár og þvo júgur og spena. Bíða til kl. 8 þegar borinn var í mig morgunmatur. Hann snæddur á rúmbríkinni. Í fjósinu var gefinn fóðurbætir fyrir mjaltir. Um kl. 9 komið með lyf og ég sprautaður í belginn. Í fjósinu þurfti að sprauta pensilíni í spena ef fyrir hendi var júgurbólga. Bíða til ca 10 eftir lækninum og fá stöðuskýrslu. Í fjósinu mjaltir. Gefinn hádegismatur um kl. 12. Hann snæddur á básnum. Í fjósinu gefið hey. Milli kl. 12 og 18 beðið eftir klukkunni. Sjúklingur og beljur. Kl. 18 gefið á garðann. Sprauta og mjaltir. Ljósin slökkt.

 

Kannski kom þessi fjósasamlíking upp í hugann þegar ég hlustaði á starfsfólkið koma með matinn og dreifa honum á rétta staði. „Er hann Gunni á  fjögur eitt búinn að fá matinn?“ „Hvað með hana Jóu á átta tvö?“ „Vill hann Kalli á sex þrjú ekki matinn sinn?“ Síðan sátu allir hver á sinni rúmbrík og átu sinn mat í einrúmi. En þó ekki alveg í einrúmi. Ég var t.d. í rúminu nær glugganum á tveggja manna stofu og sá því út þegar ég át. Herbergisfélaginn snéri í sömu átt og ég þannig að hann hefur haft bakhlutann á mér sem sitt útsýni. Mitt hlutskipti var örugglega betra.

 

Um spítalamat er hægt að skrifa mikið. Mér fannst eiginlega sama bragð af öllum matnum. Sennilega af því að hann var almennt bragðlítill en alltaf sama grænmetið með. Frosið grænmeti úr pokum, ofsoðið. Bragðið af því yfirgnæfði annað bragð. Ég flýtti mér alltaf sem mest ég gat að klára matinn. Bæði af því að ég var svangur og líka af því að mér fannst þetta leiðinlegar aðstæður að snæða við. Ánægjan sem fylgir því að borða góðan mat var víðsfjarri og næring að mestu leyti sömuleiðis. Mér sýndist skammtarnir fara eftir ríkisstaðlinum eina. Eitt og hálft fiskstikki, þrjár karftöflur og lítil hrúga af ofsoðnu grænmeti ásamt súpuslettu. Þetta segir ekki mikið í sjúkling sem er að koma úr stífu maraþonprógrammi og borðar á við þrjá. Auðvitað gat spítalamatsskipuleggjandinn ekki vitað að ég væri að koma í mat til hans en ennþá held ég samt að það sé ekki búið að ríkisstaðla hinn dæmigerða sjúkling. En kannski er ríkisstjórnin að vinna í því. Þá verður þetta allt miklu auðveldara. Ríkisstaðlaðir skuldarar, ríkisstaðlaðir sjúklingar, ríkisstaðlaðir fiskar og ríkisstöðluð norræn velferð. Ef eiginkonan hefði ekki verið dugleg að færa mér ávexti og fleira góðgæti eins og möndlur og hnetur hefði ég sennilega ekki haft spítalavistina af. En án gríns, matarmálin á spítalanum hlýtur að vera hægt að hugsa upp á nýtt. Mér er t.d. fyrirmunað að skilja af hverju sjúklingum á hjartadeild er gefið kjötfars í hádegismat. Hver skyldi hugsunin vera á bak við það?

 

Eins og ég nefndi áður var ég á tveggja manna herbergi. Fyrstu nóttina var ég einn í herberginu sem var auðvitað ljómandi gott. Þá höfðum við eiginkonan gott næði til að ræða saman án þess að hafa áhyggjur af því að aðrir heyrðu í okkur eða hvort við værum að trufla aðra. Morguninn eftir fékk ég herbergisfélaga. Mann sem var nokkru eldri en ég. Viðkunnanlegur maður en við töluðum ekki mikið saman þessa daga. Báðir höfðum við nóg að hugsa um og sjálfur hafði ég ekki mikinn áhuga á að stofna til nýrra kynna við þessar aðstæður. Eftir að ég fékk herbergisfélagann sátum við eiginkonan mikið frammi í setustofu í stað þess að sitja inni á herbergi. Það er afar óspennandi að liggja inni í herbergi með ókunnugum þegar þeir fá gesti. Það þvingar gestina og veitir þeim ekki sama frelsi og annars til að ræða við sinn aðstandanda. Sem betur fer hafði ég góða fótavist og gat því oftast farið fram þegar gesti bar að garði til sambýlingsins. Þetta getur hins vegar verið flóknara á fjöggurra manna stofunum. Ég man eftir því frá fyrri dvöl minni þegar ég lá á fjögurra manna stofu að hinir þrír sjúklingarnir tengdust allir. Það var því hálfgildings ættarmót þar stundum og þá var ég í þeirri aðstöðu að vera að jafna mig eftir skurðaðgerð og gat því hvorki forðað mér úr ættarmótinu né heldur hvílst almennilega. Ég sat því uppi með það að vera fræddur um leiki og störf stórfjölskyldunnar hvort sem mér líkaði betur eða verr.

 

Í góðri grein í blaði í vikunni sá ég spurt hvernig fólki myndi líka þegar það pantaði sér hótelherbergi að fá alltaf til sín ókunnugan gest eða jafnvel gesti sem myndu deila með því herberginu. Góð samlíking en hún nær þessu þó ekki alveg. Í flestum tilvikum eru ferðalangarnir amk heilir heilsu þótt þeir geti verið þreyttir. Sjúklingarnir sem engu fá um það ráðið hver eða hverjir deila með þeim herbergi eru oft sárþjáðir og illa fyrir kallaðir. Þá er frekar óspennandi að deila herbergi með sjúklingi sem á í hálfgerðum átökum við starfsfólkið og getur ekki stjórnað þvaglátum sínum og annarri líkamsstarfsemi. Að sjálfsögðu er það ekki síður slæmt fyrir þann sem svona er komið fyrir að þurfa að deila þessari lífsreynslu sinni með sér ókunnugu og óviðkomandi fólki.

 

Á mínum spítala verða eingöngu einmenningsherbergi með sér snyrtiaðstöðu. Ríkisspítalamatsskipuleggjandinn fær ekki vinnu á mínum spítala.

   

Mér var hleypt heim á þriðjudaginn. Ég verð áfram á blóðþynningarlyfjum. Eftir ca. 4 vikur fer ég í rafvendingu sem á að koma hjartanu aftur í réttan takt. Þangað til verð ég eins og farlama gamalmenni og allt er erfitt. Ótrúlegar andstæður. Í toppformi einn daginn og á erfitt með að ganga upp tröppur þann næsta! Ofan á þetta ástand bætist að hið hefðbundna er að trappa niður á þremur vikum eftir maraþon prógramm. Í síðustu vikunni er maður oftast undirlagður þegar þreytan síast út. Núna gerist þetta hins vegar fyrirvaralaust þannig að það er eins og valtari hafi flutt lögheimili sitt til mín og slær ekki af við yfirkeyrsluna.

 

Mér er sagt að ég sé með of stórar hjartagáttir sem valdi þessari hjartsláttar óreglu. Eftir rafvendinguna verður mér haldið góðum með lyfjum og mögulega þarf að setja í mig gangráð. Það er í sjálfu sér lítið mál að öðru leyti en því að mér er sagt að ég muni ekki framar mega æfa og keppa eins og ég hef gert. Kannski eru hlaupin alveg úr sögunni en það á þó eftir að koma betur í ljós.

 

Þegar ég kom heim á þriðjudaginn beið mín póstur. Annars vegar bréf sem innihélt keppnisgögnin fyrir Boston maraþonið. Hins vegar tilkynning frá póstinum um að ég ætti hjá þeim pakka. Í pakkanum voru keppnisskórnir mínir sem vinir mínir í Boston keyptu fyrir mig og sendu mér – nýjasta módelið af Adizero. Var verið að gera grín að mér eða er þetta táknrænt?

 

Ég ætla að líta svo á að þetta hafi allt saman tilgang. Þau verkefni sem ég hef verið að vinna að undanfarin misseri eru að komast á skemmtilegt stig. Ég sé fyrir mér að á næstu vikum og mánuðum muni ég þurfa að beina öllum mínum kröftum að þeim. Þar sem ég get verið þrjóskur og lengi að fatta lít ég svo á að þetta sé aðferð almættisins við að setja mig í réttan fókus. Það er auðvitað löngu vitað að ég ræð bara við eitt viðfangsefni í einu og þar sem ekki duga fínlegar ábendingar þegar ég á í hlut þarf að senda mér skilaboðin með skýrum hætti!

 

Hlaupum meðan við getum!

    

Áramótaannáll 2011- Hlaupaannáll

Hlaupaárið 2011 hefur verið gott hlaupaár. Ég hef ekki áður hlaupið jafnmikið á einu ári, ekki keppt í jafnmörgum keppnishlaupum á einu ári, hlaupið jafnmarga kílómetra í keppni, hlaupið jafnmörg maraþon osfrv.  Á árinu hef ég hlaupið 4.700 km. Þeir skiptast annars vegar í 2.735 km sem hlaupnir hafa verið á hlaupabretti og 1.965 sem ég hef hlaupið úti.   

 

Samkvæmt skráningarkerfi http://www.hlaup.com/ skiptast hlaupin niður á mánuði með þessum hætti:                 

Samtals            (inni-úti)

janúar              501 km            (303,1 – 197,9

)febrúar             503,6 km         (423,2 – 80,4)

mars                 571,1 km         (481,1 - 90)

apríl                 403,35 km       (192 - 211,35)

maí                  600,24 km       (273 – 327,24)

júní                  249,6 km         (63,5 – 186,1)

júlí                   300,73 km       (10 – 290,73)

ágúst                158,0 km         (12 – 146,0)

september        303,94 km       (114 – 189,94)

október            352 km            (177 – 175)

nóvember        312,83 km       (252,2– 60,63)

desember         443,6 km         (433,6 – 10)  

 

Mér telst til að keppnishlaupin á árinu séu samtals 16 og í þeim voru 447 km lagðir að baki. Þá hljóp ég samtals 14 hlaup á árinu, í æfingum og keppni, sem voru 42,2 km eða lengri. Ég ákvað að hlaupa 5 áheitahlaup á árinu til styrktar Krabbameinsfélaginu. Það verkefni gekk vel og náðist að safna rúmlega 700.000 kr. til styrktar félaginu. Þessi hlaup voru Parísarmaraþonið, meistaramót Íslands í 100 km, Laugavegurinn, Jökulsárhlaupið og Reykjavíkurmaraþonið. Þessu til viðbótar keppti ég bæði í vormaraþoninu og haustmaraþoninu ásamt fjölmörgum styttri hlaupum. Um flest þessi hlaup hef ég bloggað áður og vísa til þess fyrir áhugasama.   

 

 

Ég lít þannig á að formlegur hlaupaferill minn sé frá 10. apríl 2008 en þá fór ég út á afmælisdegi mínum og hljóp í fyrsta sinn hálfmaraþon vegalengdina. Fram að því hafði ég aðeins verið að gutla við að hlaupa ca 5 km á bretti frá áramótunum 2007/2008 og færði ég þau hlaup inn í hlaupadagbókina þannig að ég á skráða tölfræði frá 1. janúar 2008. Það er gaman að eiga þessa tölfræði til og sjá hvernig þróunin hefur verið. Árið 2008 hljóp ég 1.934,3 km, árið 2009 voru kílómetrarnir 3.493,8, árið 2010 voru kílómetrarnir 4.100,6 og í ár urðu þeir 4.700. Samtals eru þetta þá orðnir 14.229 km á fjórum árum eða vegalengdin frá Reykjavík til Port Moresby í Papua Nýju Gíneu eins og einhver benti mér á. Úr þessu fer varla að taka því að snúa við heldur réttara að halda áfram og klára hringinn!   

Ég hef verið spurður um það hvert þessara hlaupa í ár hafi verið það skemmtilegasta/eftirminnilegasta. Ég á í raun dálítið erfitt með að gera upp á milli sumra þeirra og finnst næstum eins og að með því sé maður að gera upp á milli barnanna sinna. Öll hafa þau sína sérstöðu og öll færðu þau mér einhverja sérstaka ánægju. Áheitahlaupin 5 skipa vissulega ákveðinn sess. Um þau snérist hlaupaárið að meiru eða minna leyti.

 

Ef ég þarf að nefna eitt hlaup umfram önnur þá hugsa ég að Parísarmaraþonið verði fyrir valinu. Það hljóp ég á afmælisdaginn minn í mjög góðu veðri og í frábærum félagsskap góðra hlaupafélaga. Ég hafði ekki neitt sérlega miklar væntingar um góðan tíma þótt ég hafi ákveðið að hlaupa út með það að markmiði að komast undir 3ja tíma múrinn. Vissulega var ég í mjög góðri æfingu þar sem ég var á fullu að undirbúa mig fyrir 100 km hlaupið en ég hélt kannski að allt magnið sem ég var búnn að hlaupa sæti í löppunum og ég yrði þungur í hlaupinu. Þegar til kom reyndist þetta mitt auðveldasta maraþon sem ég hef hlaupið og allt gekk upp. Tíminn 2:55:14 langt umfram væntingar og bæting um næstum 11 mínútur. Þessi tími skilar mér á topp 10 listann yfir hröðustu maraþon Íslendinga í ár. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir sex árum síðan, þegar mér fannst fyrirsjáanleg framtíð heldur stutt, að ég ætti eftir að enda á þessum topp tíu lista hefði ég sagt þeim sama að hann væri galinn.

Næsta hlaup sem ég nefni er 100 km hlaupið. Það var mjög eftirminnilegt og kannski mest fyrir hversu erfitt það var. Það er himinn og haf á milli þess að hlaupa maraþon eða 100 km. Lengra hlaupið er í raun mun tæknilegra og þar spilar hausinn enn meira hlutverk en í maraþoninu. Það er líka hálf furðulegt eftirá þegar maður hugsar um hlaupið að hafa tekið meðvitaða ákvörðun eftir 45 km að hægja á þar sem þá fannst mér ljóst að ég væri að hlaupa „of hratt“ ef ég ætlaði að reyna að komast undir 9 klst markið. Þá ekki síður að hafa tekið 30 km „endasprett“ en eftir um 70 km sá ég að bilið á milli mín og Jóa fór allt í einu að minnka og ég fór að hugsa um hvort ég gæti náð honum. Kílómetrarnir frá ca 60-65 og upp í 80-85 voru í raun langerfiðastir. Þá er þreytan farin að segja vel til sín og ennþá það mikið eftir að manni finnst þetta aldrei ætla að taka enda. En ánægjan við að klára hlaupið er þess virði. Síðustu 10-15 km voru erfiðir en þá var orðið nokkuð ljóst að ég gæti klárað hlaupið og jafnframt komist undir 9 tímana ef ekkert óvænt kæmi upp. Ég endaði á tímanum 8:52:40 sem skilaði mér í annað sætið og þriðja besta tíma Íslendings frá upphafi í þessari vegalengd. Samkvæmt heimslistanum í ár skilar það mér á topp 500 (444) í karlaflokki og mér sýnist ég enda í sæti 138 í mínum aldursflokki. Þessa hlaups verður ekki síst minnst fyrir frábæran árangur þeirra Sigurjóns og Sæbjargar. Bæði settu þau glæsileg Íslandsmet og Sigurjón endar á topp 200 (151) listanum og NR. 1(!) í aldursflokki og Sæbjörg endar á topp 100 (93) listanum og í sæti 26 í aldursflokki.

Laugavegurinn var 5 vikum eftir 100 km hlaupið. Fyrstu 2 vikurnar fóru alveg í hvíld og síðan tók við baráttan við að snúa líkamanum í gang aftur og gera hann kláran fyrir Laugaveginn. Það gekk alveg þokkalega en ég fann þó fyrir því að tíminn þarna á milli hefði mátt vera lengri. Hlaupið gekk samt vel og ég var á góðum tíma í Emstrum. Gældi meira að segja við það í huganum í smá stund að ég gæti endað nálægt 5:30 – 5:35. En þessi hugsun stóð stutt. Þegar ég var að hlaupa frá Emstrum fékk ég krampa í báða kálfa sem fylgdu mér meira og minna í mark. Því varð þetta bara spurningin að komast í mark á undir 6 tímum. Það hafðist á tímanum 5:52:21.

Jökulsárhlaupið var það fjórða í röðinni. Það var mjög skemmtilegt eins og venjulega þótt nú hafi veðrið aldrei þessu vant verið frekar leiðinlegt. Það voru 3 vikur á milli Laugavegshlaupsins og Jökulsárhlaupsins. Mér fannst ég ná að jafna mig ágætlega þarna á milli en lenti þó í smá óhappi í veiðitúr þar sem ég datt illa á spjaldhrygginn. Við það stífnaði öll vinstri hliðin upp og ekki bætti úr skák að ég var næstum dottinn eftir ca 5 km í hlaupinu og fékk þá vondan slink á bakið sem orsakaði verk niður í vinstra lærið. Ég jafnaði mig samt frekar fljótt og eftir 2-3 km fannst mér sem þetta væri komið í lag og ég fann ekki fyrir þessu það sem eftir lifði hlaups. Þetta var frekar taktískt hlaup af minni hálfu þar sem ég slakað aðeins á um miðbik hlaupsins en fór að auka áreynsluna þegar komið var í Vesturdal. Þaðan og í mark náði ég að vinna mig upp um nokkur sæti og endaði að lokum í 9. sæti á mínum besta tíma á þessari leið eða 2:38:13.

Reykjavíkurmaraþonið var tveimur vikum eftir Jökulsárhlaupið. Það er skemmst frá því að segja að ég gat lítið hlaupið þessar tvær vikur þar sem afleiðing byltunnar og slinksins sem ég fékk í Jökulsárhlaupinu fór að láta á sér kræla með stífleika í vinstra læri. Í hlaupinu sjálfu fór ég samt af stað á ágætum hraða og fann ekkert til í lærinu til að byrja með. En eftir um 8 km fór ég að finna fyrir stífleika og varð að hægja á mér jafnt og þétt. Þegar ég var búinn með ca. 16-18 km hætti þetta að versna og ég fann þann hraða sem ég gat skakklappast á í mark. Þetta skilaði sér í tímanum 3:15:34. Þótt þetta sé hægasta maraþonhlaupið mitt til þessa þá var þetta það langerfiðasta. Þetta var eiginlega vont frá km 8 og versnaði stöðugt eftir það. Ég þurfti að hafa mikið fyrir því að halda þeim hraða sem ég var á hverju sinni og freistingin til að fara að labba var mikil. Hins vegar var veðrið alveg frábært og ekki síður stemmningin. Þar sem þetta var líka síðasta hlaupið í áheitahlauparöðinni beit ég á jaxlinn og hugsaði með mér að ég skildi hlaupa alla leið – það yrði nægur tími til að jafna sig að þessu hlaupi afloknu.  

Mig langar að halda til haga minningum um tvö hlaup til viðbótar á árinu. Það eru vor og haust maraþonin. Vormaraþonið datt inní undirbúninginn fyrir 100 km hlaupið og var ef ég man rétt 3 vikum eftir Parísarmaraþonið. Það hlaup áttum við sem vorum að æfa fyrir 100 km hlaupið að hlaupa á tempruðum hraða þar sem það var fyrirhuguð löng æfing daginn eftir. Það fór auðvitað svo að við hlupum þetta í raun of hratt miðað við planið. Sigurjón var reyndar mættur til leiks með það í huga að negla á þetta en við Jói Gylfa og Trausti Valdimars ætluðum að vera á rólegri nótum. Sigurjón hljóp þetta taktískt á eftir Örvari Steingríms og hafði betur á lokasprettinum. Jói hljóp þetta örugglega og sigldi þriðja sætinu í höfn á 3:04:03. Við Trausti hlupum fyrstu þrjá leggina saman og vönduðum okkur við það að hlaupa ekki hraðar en á 4:30 tempói. Þegar síðasti leggurinn hófst gáfum við aðeins í og enduðum á 3:07:29 og 3:09:50. Báðir með negatívt splitt og Trausti á betri tíma en hann náði í Rotterdam þremur vikum fyrr. Þetta var sérlega skemmtilegt hlaup og gaman að hafa spjallfélaga nánast allan tíman. Þrjátíu km æfingin daginn eftir gekk vel en var hlaupin mjög hægt enda nýfallinn snjór yfir öllu og þungfært.

 

Ég fékk þá flugu í höfuðið þegar fór að líða á september að það gæti verið gaman að taka þátt í haustmaraþoninu. Ef ég gerði það þá væri ég búinn að hlaupa 5 maraþon frá síðasta haustmaraþoni á 12 mánuðum. Ekkert endilega mjög skynsamlegt en hins vegar mjög skemmtilegt. Það var býsna þungt að koma sér af stað aftur. En eftir fyrstu 2 vikurnar fór þetta að rúlla betur og mér fannst ég ágætlega undirbúinn þegar kom að hlaupinu. Hlaupið gekk ljómandi vel og ég rann skeiðið á rétt rúmum 3:10. Þótt það sé enginn sérstakur tími þá dugði hann nú samt í annað sætið sem var óvæntur bónus.

  

Í upphafi ársins setti ég mér nokkur tímamarkmið í einstökum vegalengdum eins og venjulega. Ég held því fram að ég hafi náð amk þremur þeirra og kannski fjórum. Ég byrjaði á Parísarmaraþoninu þar sem markmiðið var að komast undir 3 klst. Það náðist. Þá var alltaf aðal markmiðið mitt í 100 km að komast undir 9 klst. þótt ég hafi aðeins gælt við 8:30 sem ítrasta markmið ef veður og allar aðstæður væru góðar. Ég tel því þetta markmið í húsi. Ég setti mér í upphafi árs það markmið að hlaupa Jökulsárhlaupið á 2:45 og það náðist. Þá er það vafamálið. Í upphafi árs var sett upp sem markmið í Laugaveginum 5:45. Það var áður en ég ákvað að hlaupa í 100 km hlaupinu. Eftir að ég ákvað að taka þátt í því þá fannst mér raunhæfara að stefna á undir 6 tímana í Laugavegshlaupinu þar sem það stutt væri á milli þessara hlaupa. Þetta er umdeilanlegt en þar sem þetta er minn pistill þá held ég því fram að ég hafi náð þessu markmiði!

Ég náði engum markmiðum í styttri vegalengdunum en hef mér til afsökunar að ég lagði ekki mikla áherslu á þau hlaup. Ég hljóp ekkert formlegt hálfmaraþon en náði samt að bæta tímann minn í hálfu þegar ég hljóp Parísarmaraþonið. Náði því meira að segja í báðum leggjunum. Í 10 km hlaupunum þá einhvern veginn duttu þau alltaf einhvers staðar inn í undirbúning fyrir  lengri hlaupin þannig að ég hljóp aldrei 10 km hlaup úthvíldur og með blastið í botni. Ég náði samt að bæta mig vel í vegalengdinni þótt markmiðið (38:30) hafi ekki náðst. Ég hljóp í Valshlaupinu á tímanum 39:19 og var þá í miklu magni og fannst ég vera þungur. Ég hljóp bara eitt 5 km keppnishlaup og það var skömmu eftir Parísarmaraþonið þannig að það var bara hlaupið til að vera með. Markmið ársins 2012 verða því þau sömu og áður í styttri vegalengdunum en í lengri vegalengdunum verður markmiðið að bæta sig – nema í Laugaveginum; þar er tímamarkmið undir 5:30.  

 

 

Í lok árs veittist mér sú upphefð að nafnið mitt var sett á lista með 5 alvöru langhlaupurum í karlaflokki í kjöri um langhlaupara ársins 2011. Ég neita því ekkert að ég hafði gaman að því. En eins og gengur eru sjálfsagt skiptar skoðanir á því hverjir eiga heima á svona lista. Að mínu mati er augljóst að Kári Steinn og Sigurjón eiga heima þarna. Báðir stóðu sig frábærlega á árinu, settu glæsileg Íslandsmet og eru ofarlega á alþjóðlegum listum auk þess sem Kári Steinn hljóp sig inná Ólympíuleikana. Birgir og Þorbergur eru klárlega í hópi okkar alsterkustu hlaupara. Biggi búinn að vera mörg undanfarin ár sterkasti maraþonhlauparinn í karlaflokki og er enn að bæta sig. Þorbergur er auðvitað í sérflokki þegar kemur að utanvega hlaupum og það verður ekki síður spennandi að fylgjast með honum þegar hann snýr sér að maraþonhlaupum. Körfuboltastrákurinn Arnar er náttúrulega einn alefnilegasti hlaupari sem við eigum og er reyndar ekki bara efnilegur heldur líka góður. Ef hann hættir að elta tuðruna og snýr sér alfarið að hlaupum verður hann ekki bara góður á íslenskan mælikvarða heldur getur gert sig gildandi á alþjóðlegan mælikvarða. Hvað mig sjálfan varðar lít ég svo á að ég sé fulltrúi allra þeirra sem þurft hafa af einhverjum ástæðum að koma sér af stað eftir mótlæti. Þetta er hægt ef viljinn – og tækifærið – er fyrir hendi.    

 

 

Fínu hlaupaári lauk í dag með hinu árlega gamlárshlaupi ÍR. Gott veður, góð þátttaka og skemmtilegt. Hljóp í sparigallanum í góðum hópi.   

 

Þakka hlaupafélögunum á brautinni og öllu því skemmtilega fólki sem ég kynntist þar fyrir gott hlaupaár og sérstakar kveðjur til félaga úr Skokkhópi Garðabæjar, ÍR hlaup og innipúkunum í IP.  

 

Megi nýtt ár færa okkur öllum mörg slitin skópör.  

 

Bestu kveðjur     

Hugsað upphátt um nýsköpun á Íslandi og erlenda fjárfesta.

Þegar kemur að opinberri umræðu getur skipt máli hver segir hvað og hvar. Álitsgjafar svonefndir, hvort sem þeir tjá sig aðspurðir eða af eigin hvötum, geta haft áhrif á umræðuna. Fræðimenn og aðrir geta lagt umræðunni gott til með hlutlægum upplýsingum. Vandinn er hins vegar sá að ekki er alltaf auðvelt að átta sig á hvort innleggið er í raun fræðilegt og hlutlægt. Ekki síst á það við þegar pólitískar skoðanir eru færðar fram í fræðimannsumbúðum. Annar hópur og sá sem mestu skiptir í umræðunni eru þeir sem hafa verið kjörnir til pólitískra valda. Af þeim skipta eðlilega mestu máli þeir sem valdir hafa verið til ráðherradóms. Áhrif og vald þessara aðila í opinberri umræðu um mismunandi fjárfestingaráform hefur mikla vigt.  

 

Það skiptir máli hvað ráðherrar segja og hvar. Á þá er hlustað. Hvernig tala þeir? Hvaða tón slá þeir? Má búast við andstöðu þeirra eða velþóknun? Þeir geta mótað eða amk haft áhrif á almenningsumræðuna með því hvernig þeir tjá sig. Þeir geta ýtt undir hugmyndir og blásið kjarki í athafnafólk og fjárfesta. Þeir geta líka drepið niður hugmyndir og dregið þrótt og þor úr athafnafólki og fjárfestum. Flestum ráðherrum er þetta vel ljóst. Það er á hinn bóginn mismunandi hvernig ráðherrar kjósa að taka þátt í orðræðunni. Sumir kjósa að tjá sig með þeim hætti að ýta undir tortryggni í garð nýrra hugmynda og í garð fjárfesta. Stundum má ætla af viðbrögðum þeirra að þeir hafi ekki áhuga á að fá fram málefnalega umræðu eða finna lausnir á þeim annmörkum sem þeir kunna að sjá á viðkomandi hugmynd. Frekar mætti ætla að markmiðið sé að koma hugmyndinni fyrir kattarnef áður en hún nær að þroskast og afla sér frekara fylgis. Ástæðurnar eru ekki alltaf ljósar en þó virðist stundum skína í gegn andúð á viðkomandi athafnamanni eða að hugmyndin falli ekki að pólitískri skoðun viðkomandi ráðherra.

 

Að sjálfsögðu er eðlilegt að ráðherrar tjái sig um þau málefni sem þeir kjósa. Hafi þeir áhyggjur eða sjái þeir annmarka á einhverjum fjárfestingahugmyndum er eðlilegt að þeir láti skoðanir sínar í ljós. Flestir þeirra líta á sig sem hagsmunagæsluaðila almennings og að það sé þeirra hlutverk að gæta þess að heildarhagsmuna sé gætt en ekki sérhagsmuna. Það liggur hins vegar ekki endilega í augum uppi hverjir eru heildarhagsmunirnir og hverjir eru sérhagsmunirnir. Á því geta verið skiptar skoðanir. Eru það sérhagsmunir fárra ef athafnamenn taka áhættu og skapa störf og ávöxtun fjármuna ef vel tekst til? Svo kann að vera ef þeir skaða með því aðra hagsmuni. En þar liggur oft og tíðum efinn. Hverjir eru þeir hagsmunir sem í húfi eru? Er með nýjum hugmyndum hætta á að það sem fyrir er  kunni að breytast? Er sú breyting til góðs eða ills? Um það geta verið skiptar skoðanir. Hafi ráðherrar efasemdir um tilteknar fjárfestingar eða hugmyndir um nýsköpun er eðlilegt að þeir bregðist við. Það skiptir okkur hins vegar miklu máli hvernig og hvenær þeir bregðast við.

 

Bæði ytra og innra umhverfi til að laða að fjárfesta til nýfjárfestinga á Íslandi hefur verið erfitt. Nægir þar að benda á þá ólgu sem nú á sér stað á fjármálamörkuðum erlendis og þá erfiðu stöðu sem Íslendingar hafa verið í frá Hruni. Að margra mati hefur uppbyggingin á Íslandi gengið hægar fyrir sig en vonast var eftir. Þeir íslensku fjárfestar sem enn eru til hafa margir hverjir beint sjónum sínum að fjárfestingum í íslenskum félögum með rekstrarsögu. Íslenskum félögum sem eru fallin eða að falli komin. Íslensku bankarnir eru og hafa verið með fullt fangið af þessum íslensku félögum. Þeirra kraftur hefur að mestu beinst í þann farveg að greiða úr stöðu íslenskra félaga með rekstrarsögu. Rýmið til nýfjárfestinga í nýjum hugmyndum hefur því verið takmarkað.

 

Sem betur fer eru þó á ferðinni aðilar með hugmyndir að nýjum tækifærum. Hugmyndir sem verið er að þróa og afla fylgis. Sumir fjárfestar sjá þarna tækifæri og eru tilbúnir að leggja eitthvað af mörkum. Í það minnsta þannig að unnt sé að þróa viðkomandi hugmynd áfram og kanna hvort unnt sé að gera hana að veruleika. Skapa störf, skapa tekjur, skapa arð, búa til hagvöxt. Það er erfitt að fá fjármagn í ný verkefni sem ekki hafa sannað sig með rekstrarsögu. Til þess þarf að sannfæra fjármagnseigendur um viðkomandi viðskiptahugmynd. Finna fjárfesta sem geta og eru reiðubúnir til að leggja hugmyndinni fé með áhættufjármagni. Sú leit getur verið erfið því margir fjárfestar eru illa brenndir og áhættufælnir. Því er eðlilegt að þeir fari varlega og vegi og meti alla þætti. Í því mati skiptir máli hvernig viðbrögðum má búast við frá þeim sem ráða regluverkinu. Er hætta á að leikreglum verði breytt frá því sem nú er? Ef fjárfesti líst þannig á tiltekna viðskiptahugmynd að hún geti gengið upp við þær aðstæður sem ríkja getur hann treyst því að aðstæðum verði ekki breytt af stjórnvöldum? Hver er pólitíska áhættan?

 

Það skiptir máli hvenær og hvernig ráðherrar taka þátt í umræðu um möguleg nýsköpunarverkefni. Ef þeir taka þátt í henni of snemma og gera það með neikvæðum hætti geta þeir fækkað mögulegum verkefnum sem komast af stað í sitt þróunarferli. Hafi þeir áhyggjur af viðkomandi verkefni og vilji koma þeim áhyggjum á framfæri er mikilvægt að þeir geri það á þann hátt að ljóst megi vera að unnt sé að leita leiða til lausna á þeim annmörkum sem eru mögulega fyrirséðir. Sé það ekki nálgunin bætist hin pólitíska óvissa strax við aðra óvissu sem fækkar þeim sprotum sem annars kynnu að hafa farið af stað.

 

Það er þekkt úr raunveruleikanum að af hverjum 100 verkefnum sem fara af stað er ekki nema eitt sem verður að virkilega stóru og flottu verkefni. Verkefni sem blómstrar og skapar mörg störf og hefur mikla þýðingu fyrir sitt nærumhverfi. Þess vegna skiptir miklu máli að búa til umhverfi sem hvetur sem flesta til að fara af stað. Ef við komum 1000 verkefnum af stað þá getum við mögulega átt von á því að 10 nái raunverulegum árangri. Því skiptir máli að stíga ekki á sprotana. Leyfum þeim að brjótast fram og gerum þeim amk kleift að komast á það stig að þau geti gert raunverulegt tilkall til þess að fá það sólarljós sem þau þurfa til að komast á legg. Gleymum því ekki að þetta er ferðalag sem tekur að jafnaði 10-15 ár. Því er óþarft að leggja stein í götu þeirra á fyrstu mánuðunum.

 

En hvert er það umhverfi sem blasir við þeim sem hafa hug á því að láta reyna á sköpunarkraft sinn? Hvert er það umhverfi sem erlendir fjárfestar sem líta til Íslands sjá?

 

Án þess að efnisleg afstaða sé tekin til tveggja nýlegra mismunandi fjárfestinga eða fjárfestingarhugmynda erlendra aðila á Íslandi má benda á tvö dæmi:

 

Í Magma málinu sagði ráðherra að samkvæmt „lagahyggju" væru áformin sennilega lögleg. Hins vegar lægi hinn pólitíski vilji fyrir og eftir honum yrði farið (lögum yrði breytt?) Í Grímsstaða málinu sagði annar ráðherra að lögin og túlkun þeirra væru með tilteknum hætti. Hann gæti ekkert gert annað en farið eftir þeim. (Um það eru fræðimenn og álitsgjafar reyndar ekki sammála.) En í báðum tilvikum völdu ráðherrarnir að fara þá leið sem voru áformum hins erlenda fjárfestis mótdrægnari. Í báðum tilvikum voru skiptar skoðanir um hverjir væru sérhagsmunirnir og hverjir væru almannahagsmunirnir. Svo virðist sem pólitísk afstaða hafi í báðum tilvikum ráðið. Umgengnin um lagabókstafinn er í báðum tilvikum með þeim hætti að undirstrika pólitíska áhættu í landinu. Bæði málin vöktu athygli alþjóðasamfélagsins. Bæði málin sendu ákveðin skilaboð til erlendra fjárfesta sem mögulega hefðu haft áhuga á að líta til Íslands. En eins og þessi nálgun ráðherranna væri ekki nóg lýsti forsætisráðherra landsins því yfir opinberlega að til greina kæmi að beita eignarnámsheimildum í Magmamálinu. Slík yfirlýsing í vestrænu lýðræðisríki gagnavart löglegum gerningi er ekki til þess fallin að auka tiltrú erlendra fjárfesta og laða þá til landsins.

 

Í hinni opinberu umræðu er algengt að nýjar hugmyndir séu bornar saman við ástandið fyrir Hrun og á slík almenn tilvísun að vera víti til varnaðar. „Sjáið þið hvernig fór fyrir okkur. Við skulum ekki láta þetta endurtaka sig." Því virðist sú krafa gerð til nýrra hugmynda að helst séu þær sannaðar fyrirfram. Ef svo er ekki er á þeim óraunveruleikablær. Hugmyndirnar eru of stórhuga eða óljósar. Vandinn er sá að í þessu felst þversögn. Í nýsköpun felst að feta nýjar slóðir, finna nýjar aðferðir, búa til eitthvað sem ekki var til áður. Það verður ekki sannað fyrirfram.

 

Hvað má hugmynd vera stór? Svo virðist vera sem stórhugur útrásaráranna ætli að fylgja okkur að einhverju leyti inn í framtíðina - en með öfugum formerkjum. Á Íslandi býr lítil þjóð. Lítil þjóð á að sníða sér stakk eftir vexti. Koma með litlar hugmyndir og stíga lítil skref. Stórhuga athafnamönnum er réttast að opna litla ferðaskrifstofu. Reka lítið gistiheimili á litlum stað. Opna eina skurðstofu og hafa eina hæð til umráða. Læra á litla Ísland.

 

Vandinn er sá að erlendir fjárfestar lifa í öðrum heimi en á Íslandi. Þeir lifa við annan raunveruleika. Þeir bera saman mismunandi fjárfestingartækifæri á mismunandi stöðum. Ísland er sjaldnast á „radarnum" hjá þeim. Erlendir fjárfestar hafa urmul af mismunandi fjárfestingartækifærum. Oftast þarf eitthvað til þannig að hægt sé að fá þá til að líta til Íslands. Þeir sem líta til Íslands eru fáir af fjöldanum. Því þurfum við að vanda okkur gagnvart þeim sem líta til Íslands sem möguleika. Við vitum hvaða möguleika við höfum en þeir ekki. Við þurfum að upplýsa þá um möguleikana. Þá stöndum við jafnfætist á sumum sviðum og jafnvel framar. En við megum ekki gleyma okkur þótt einhver líti til okkar. Hvorki megum við beygja okkur í duftið vegna augntillitsins né heldur megum við fyllast þvermóðsku eða upphefjast vegna augntillitsins. Við þurfum að vanda okkur.  

 

Við þurfum að hafa í huga að erlendir fjárfestar hafa ekki endilega áhuga á litlum fjárfestingum. Þess vegna þurfum við að vera reiðubúin til að laða að landinu fjárfesta sem sjá fjárfestingartækifæri sem standast önnur tækifæri annars staðar. Slíkir aðilar hafa ekki endilega áhuga á að laga sig að séríslenskum „litlum" aðstæðum. Þeir hafa áhuga á íslenskum tækifærum sem einhverra hluta vegna standast samanburð við önnur tækifæri. Þeir hafa áhuga á séríslenskum aðstæðum sem ekki eru „litlar" heldur standast alþjóðlegan samanburð. Slík tækifæri eigum við á Íslandi og við getum vakið áhuga erlendra fjárfesta á slíkum tækifærum. Við þurfum að reyna að koma auga á hvar við stöndumst samanburðinn og byggja á þeim stoðum sem við teljum styrkar. Þannig getum við laðað til okkar erlenda fjárfesta.

 

Við þurfum að reyna að nálgast umræðuna um nýsköpun og erlendar fjárfestingar á hófstilltan hátt og án upphrópana. Nálgast viðfangsefnið á „varfærnislega bjartsýnan hátt"

 

Gunnar Ármannsson


Reykjavíkurmaraþon 2011 – fimmta hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þá er komið að því – síðasta hlaupið í áheitahlauparöðinni, Reykjavíkurmarþon 2011, nk. laugardag. Ótrúlegt hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Mér finnst örstutt síðan ég hitti fulltrúa Krabbameinsfélagsins í lok mars sl. og ræddi við þær um þá hugmynd að hlaupa til styrktar félaginu. Síðan eru 4 áheitahlaup að baki ásamt góðum skammti af æfingum og nokkrum öðrum skemmri keppnishlaupum.

 

Áheitahlaupin sem búin eru hafa verið hvert með sínu sniði. Það skal þó viðurkennt að þungamiðjan var 100 km hlaupið. Æfingaplanið var miðað við það hlaup og þegar því var lokið má eiginlega segja að planið hafi snúist um að halda sér heilum fram yfir Reykjavíkurmaraþon.

 

Fyrsta hlaupið var Parísarmaraþonið þann 10. apríl. Það hlaup „datt“ einhvern veginn inn í undirbúninginn fyrir 100 km hlaupið þannig að ég var aldrei mjög upptekinn af því hlaupi. Þegar til kom var ég mjög afslappaður fyrir hlaupið og ætlaði að sjá til hvort ég gæti hangið á 4:15 tempói og skilað mér þannig í mark á undir 3 klst. Fyrirfram var ég hreint ekki viss um að það tækist og var heldur ekkert að stressa mig yfir því. Dagurinn reyndist síðan hinn besti og ég fór út á ca. 4:10 tempói og hélt því til enda. Þegar ég lít til baka og ber hlaupin saman er eiginlega skrítið að hugsa til þess að þarna hljóp ég ásamt rúmlega 30.000 manns en fannst ég samt hlaupa einn. Ég var ekki að keppa við neinn í kringum mig heldur bara að einbeita mér að því að halda hraðanum. Þegar í mark var komið fólst ánægjan í því að hafa náð að ljúka hlaupinu á undir 3 klst. en sætið í hlaupinu skipti engu máli.

 

Næsta hlaup var 100 km hlaupið. Tvímælalaust lang erfiðasta hlaupið af öllum hlaupunum (þótt ég eigi eftir að ljúka Reykjavíkurmaraþoninu stendur til að hlaupa það afslappað og ég veit að það verður amk 5 klst. styttra en 100 km hlaupið!). Í þessu hlaupi var ég með tvö megin markmið í kollinum. Annað var að ljúka við hlaupið á undir 9 klst. og hitt var að komast á verðlaunapall. Hvorugt markmiðið í hendi en möguleiki á þeim báðum. Fyrirfram lá nokkuð fyrir að við Jói og Trausti myndum að öllum líkindum keppa um sæti 2 og 3. Lokatími líklegur í kringum 8:45-9:15. Þegar hlaupið var rúmlega hálfnað þurfti Trausti að hætta og því lá nokkuð lengi fyrir að við Jói myndum lenda í 2. og 3. sæti þannig að það markmið átti að nást að því gefnu að ekkert óvænt kæmi uppá. Þá var bara að einbeita sér að því að halda nægilegum hraða til að skila sér í mark á undir 9 klst. Það hafðist þannig að bæði aðal markmiðin í þessu hlaupi náðust.

 

Þriðja hlaupið var Laugavegurinn. Ég hvíldi alveg í tvær vikur eftir 100 km hlaupið og þá voru 3 vikur til stefnu. Fyrsta hlaupa vikan var erfið og mér fannst ég vera þungur á mér. Það skánaði í vikunni þar á eftir og síðan var enn og aftur komið að því að trappa niður síðustu vikuna. Markmiðið í þessu hlaupi var klárlega að komast undir 6 klst. eftir vonbrigði síðasta árs. Sætið skipti mig minna máli þótt vissulega hafi ég reynt að fylgjast með hvar ég væri ca í röðinni. Þarna var ekkert í hendi fyrr en í mark var komið þar sem kálfarnir voru með uppsteit frá Emstrum og voru í innbyrðis krampakeppni. Það hafðist þó fyrir rest og undir 6 tímana komst ég. Tel reyndar vera gott rými fyrir bætingu á þessari leið.

 

Þá er það fjórða hlaupið – Jökulsárhlaupið. Þetta var í fjórða skipti sem ég tek þátt í þessu hlaupi þannig að ég er farinn að þekkja leiðina vel. Fyrirfram var ég ekki með neinar sérstakar væntingar um góðan tíma. Ég hafði reyndar um áramótin sett mér það markmið að hlaupa á undir 2:45 en það var áður en ég ákvað þátttöku í 100 km hlaupinu. Ég vissi í raun ekki vel í hvaða ástandi líkaminn væri þar sem aðeins þrjár vikur voru liðnar frá Laugavegshlaupinu og æfingarnar ekkert búnar að vera sérlega markvissar. Var samt búinn að ná nokkrum ágætum æfingum og var að mestu heill. Í rútunni á leið uppeftir barst í tal hvaða markmið væru í gangi. Ég sagðist sjálfur verða ánægður með að komast á topp 20 og stefndi að því að hlaupa að minnsta kosti á undir 3 klst., helst undir 2:50 og jafnvel undir 2:48 sem var minn besti tími í brautinni. Í upphafi hlaups sýndist mér ég vera í ca 10. sæti þegar við hlupum af akveginum og inná gönguleiðina. Eftir um 5 km skrikaði mér fótur og ég var næstum floginn á hausinn. Ég náði með undraverðum hætti að koma hinni löppinni undir mig en fékk við það vondan slink á spjaldhrygginn sem enn var aumur eftir veiðiævintýrið fyrr í sumar. Það tók mig alveg um km að jafna mig og ná aftur taktinum. Ég hélt samt mínu sæti en heyrði í nokkrum hlaupurum á hælunum á mér. Eftir um 7-8 km fóru þrír hlauparar fram úr og skömmu seinna Stefán fjallahlaupari. Á þessum kafla tók ég þá meðvituðu ákvörðun að reyna ekki að fylgja þeim eftir því mér fannst ég vera að hlaupa á óþarflega háum púlsi. Ég hugsaði með mér að réttara væri að spara sig aðeins og reyna að ná niður púlsinum og reyna þá frekar að ná þeim aftur á síðasta þriðjungi hlaupsins – sem ég vissi af eigin reynslu að væri erfiðasti hluti leiðarinnar. Á þessum tímapunkti hef ég sennilega verið í 14. sæti. Þarna gerði ég mér allt í einu grein fyrir því að ég var að hlaupa þetta hlaup aðeins öðru vísi en fyrri hlaupin. Ég var farinn að hugsa meira um lokasæti í hlaupinu en lokatíma. Veit svo sem ekki hvort þetta skiptir öllu máli en mögulega er þetta betri taktík í braut þar sem meðal hraðinn á km er breytilegur. En hvað um það áfram var hlaupið og ég reyndi að sameina það tvennt að ná púlsinum niður og missa þessa fjóra ekki of langt frá mér. Á drykkjarstöðinni við Hólmatungur sá ég ennþá í þá og gaf vel í niður brekkurnar. Næst þegar ég sá fjórmenningana sá ég að það var aðeins farið að draga í sundur með þeim. Sá sem fremstur fór var búinn að ná nokkru forskoti á hina og aðeins var farið að gliðna í sundur á milli hinna. Þegar fór að styttast í drykkjarstöðina í Vesturdal kom enn einn hlauparinn, Arnar, upp að mér og fór fram úr. Þar með var ég kominn í 15. sæti. Þegar hann var farinn tók ég eftir því að önnur skóreimin var að losna þannig að ég varð að stoppa til hnýta þvenginn uppá nýtt. Ég ætti nú að vera farinn að læra að hnýta almennilega hnúta fyrir keppnir eftir öll þessi hlaup – en maður er víst bara ekkert betri en þetta. Þar sem það var frekar kalt í hlaupinu reyndist þetta ekkert sérlega auðvelt en hafðist fyrir rest. Þá var ég búinn að missa Arnar nokkuð frá mér en púlsinn var líka orðinn ansi góður. Þegar hér var komið ákvað ég að fara að keyra upp hraðann og hætta að horfa á púlsinn. Þegar við komum að drykkjarstöðinni í Vesturdal var ég farinn að draga aftur á Arnar. Eftir sopann var rokið af stað. Neðst í brekkunum við Rauðhóla náðum við einum og enn styttist bilið í Arnar. Efst í brekkunum við Rauðhóla náðum við Stefáni og enn styttist bilið í Arnar. Eftir sopann á vatnsstöðinn sem þarna var gaf ég vel í. Skömmu seinna náði ég Arnari og öðrum til sem hann hafði þá hlaupið uppi. Ég hélt mig aftan við þá í smá stund en fann að ég gat hlaupið hraðar. Þegar þeir heyrðu þrammið þyngjast viku þeir báðir og ég komst á beinu brautina. Þegar þarna var komið hafði ég enga hlaupara séð fyrir framan en sá nú allt í einu glitta í Trausta hrausta á klöppunum. Hann hafði ég ekki séð síðan í byrjun hlaups hvar hann geystist áfram á eftir fremstu mönnum. Það gaf að sjálfsögðu auka orku eins og kókómjólkin og enn var gefið í. Ég náði honum þegar ca 4-5 km voru eftir eða þegar við komum að næst síðustu drykkjarstöðinni. Þar sem ég hafði skömmu áður séð aðeins í Bjarna fyrir framan okkur Trausta sleppti ég drykkjarstoppi og hélt áfram. Bjarni var sprækur og mér fannst ganga hægt að vinna upp bilið. Það var ekki fyrr en ca 2 km voru eftir sem ég loksins náði honum. Þá kom að því að hlaupa stíginn í skóginum á brún Ásbyrgis. Þegar ég kom þar út sá ég mikla keppni í gangi á milli Finns og Péturs en það var of stutt í markið til að ég gæti blandað mér í þeirra endasprett. Þegar upp var staðið bætti ég mig um 10 mínútur frá mínum besta tíma í þessari braut sem var frá árinu 2009. Þessi ágæta bæting kom mér frekar á óvart því þótt ég hafi gert mér smá vonir um að geta bætt tímann eitthvað átti ég ekki von á þessum tíma. Eftir á að hyggja held ég að það hafi verið skynsamlegt að slaka aðeins á eftir 7-8 km og eiga orku í síðasta þriðjunginn – en auðvitað velti ég því fyrir mér hvort ég hefði ekki átt að byrja fyrr að keyra upp hraðann. Það er þó ekkert víst og getur alveg eins verið að þá hefði ég sprengt mig. En hvað um það ég náði því markmiði sem fæddist á leiðinni að enda í topp 10.

 

Í Jökulsárhlaupinu fann ég aðeins fyrir verk í vinstra aftanverðu lærinu og niður kálfann og í hásinina eftir að ég var næstum dottinn eftir 5 km. Það var hins vegar bara seiðingur og mér fannst það ekki trufla mig. Á æfingu mánudaginn á eftir fann ég hins vegar fyrir stirðleika. Á þriðjudeginum var þetta heldur verra og á miðvikudeginum enn verra – og fór ég þó hægt yfir. Ég tók því þá ákvörðun að hvíla mig aðeins á hlaupunum og sjá til hvernig ég yrði eftir það. Ég ætlaði að reyna að taka æfingu á laugardeginum en fann strax að það var ekki að gera sig þannig að ég sleppti henni. Á mánudag í þessari viku skellti ég mér á hlaupabrettið á heimavellinum í Laugum til að testa ástandið. Ég byrjaði á 5 min tempói sem ætti að skila 3:30 klst í maraþoninu. Eftir 1 km varð ég að hægja á. Eftir um 5 km gat ég aukið hraðann aftur og náði að hlaupa 2 km á 4:30 tempói sem ætti að skila 3:10 á laugardaginn. Á þriðjudag hitti ég Rúnar Marinó nuddara. Eftir hans skoðun var ljóst að öll vinstri hliðin var meira og minna stirð og léleg. Klárlega afleiðing fallsins í veiðitúrnum fyrr í sumar og síðan slinkurinn sem ég fékk á mig í Jökulsárhlaupinu. Hann tók vel á þessu og endaði með að hnykkja með braki og brestum. Engin hlaup fram að maraþoni nema létt liðkunarskokk á föstudag. Ég veit því ekki í hvernig ástandi ég verð á laugardaginn en það gerir svo sem ekkert til. Ég veit að ég mun geta klárað hlaupið og það er í raun eina markmiðið sem ég hef fyrir þetta hlaup. Ég mun samt eins og venjulega hlaupa eins hratt og ég get og í lok hlaupsins mun það koma í ljós hverju það skilar. Ég er frekar svartsýnn á að ég nái nálægt 3:10 en frekar bjartsýnn á að ég nái 3:30. Ef eitthvað annað kemur í ljós verður það í fínu lagi svo fremi sem ég skila mér í mark!

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Upphaflega ætlaði ég að hafa markið 500.000 en ákvað á síðustu stundu að setja „teygju“ markmið eins og oft er gert í hlaupunum. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Inn á þann reikning eru nú komnar um 250.000 kr. Inn á hlaupastyrkur.is hefur safnast þegar þetta er skrifað rétt um 425.000 eða samtals um kr. 675.000. Ég er hæstánægður með það og þakka öllum sem lagt hafa málefninu lið fyrir þeirra framlag. Öll framlög skipta máli:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar  

Ég þakka fyrir allan stuðninginn og hvatninguna sem ég hef fengið bæði á hlaupabrautinni sjálfri og utan hennar. Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegt og gefandi verkefni og ég hef kynnst mörgum nýjum hlaupafélögum á árinu.  

 Að lokum hvet ég alla til að fara út að hlaupa – á meðan við getum.

Jökulsárhlaup 2011 – fjórða hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Þá er þetta farið að styttast. Nk. laugardag mun ég hlaupa fjórða hlaupið af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu og þá er bara Reykjavíkurmaraþonið eftir.

 

Þetta er í fjórða sinn í röð sem ég tek þátt í Jökulsárhlaupinu. Að mínu mati er þetta eitt skemmtilegasta hlaupið sem ég tek þátt í á hverju sumri. Landslagið sérlega fallegt og brautin krefjandi þótt hún sé að meðaltali niðurhallandi. Það má kannski segja að „galli“ sé við brautina að augun þurfa að vera býsna límd á henni þannig að útsýnisins verður kannski ekki notið sem skyldi. En þó, víða má sjá vel yfir þar sem brautin er sæmilega slétt.

 

Ég á góðar minningar úr Jökulsárhlaupinu í fyrra. Ég ætlaði reyndar ekki að taka þátt en eftir lélega frammistöðu á Laugaveginum í fyrra skráði ég mig í Jökulsárhlaupið á sunnudeginum eftir Laugavegshlaupið. Þá voru sex dagar í það. Núna er búið að færa hlaupið aftur fyrir verslunarmannahelgi sem gefur þrjár vikur á milli hlaupanna. Í fyrra „kom“ Laugavegurinn í lappirnar í Vesturdal þannig að þaðan var þetta frekar erfitt. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú þegar hvíldin er meiri en á móti kemur að álagið er líka búið að vera meira. En það var gott að geta hlaupið í fyrra á fullu blasti í ca 20 km og ná þannig gremjunni eftir Laugaveginn úr skrokknum. Það gerði ekkert til þótt síðustu 13 km hafi verið þungir. Þessi skyndiákvörðun um þátttöku gerði það líka að verkum að ég vann til 1. verðlauna í útdráttarkeppni sem þýddi flugfar út í heim fyrir 100.000. Þannig að Laugavegurinn í fyrra var kannski ekki svo slæmur eftir allt saman!

 

En að Laugaveginum í ár. Í fyrra hét ég mér því að ég myndi fara Laugaveginn á undir 6 tímum í ár – sem var markmiðið í fyrra. Um áramótin bætti ég heldur í og setti markmiðið á 5:45. Þá var ég ekki búinn að ákveða þátttöku í 100 km hlaupinu þannig að mér fannst þetta vel raunhæft markmið. Eftir að ákvörðun hafði verið tekin um 100 km hlaupið fannst mér raunhæfara að stefna á 6 tímana og var hreint ekkert viss um að það myndi hafast. Á milli hlaupanna voru 5 vikur og nokkuð fyrirséð að fyrstu 2 vikurnar færu í hvíld. Fyrsta æfingavikan var strembin og gaf ekkert sérstaklega fögur fyrirheit. Eftir það batnaði þó ástandið þannig að mér fannst vel raunhæft að stefna á upphaflega markmiðið.

 

Í ár ákvað ég að sofa heima hjá mér nóttina fyrir hlaup og taka rútuna uppeftir. Ekkert nýtt og engar tilraunir í matarmálum. Í fyrra keyrðum við upp í Hrauneyjar kvöldið fyrir hlaup og komum við á veitingastað í bænum þar sem ég hafði ekki borðað áður. Hef þann kvöldverð sterklega grunaðan um ófarirnar daginn eftir. Núna vaknaði ég rúmlega þrjú og fékk mér mitt hefðbundna ristaða brauð og grænt te. Eftir það gengu morgunverkin eins og í sögu og ég var vel stemmdur. Kl. 3:50 sendi ég sms á hlaupafélagana sem búa inni í Hafnarfirði og ætluðu að pikka mig upp á leiðinni. Ekkert svar þannig að um kl. 4 hringdi ég í Unnar. Ekkert svar. Kl. 4:10 hringdi ég í Helgu. Ekkert svar heldur. Skrítið að hitta á þau bæði í sturtu eða að blása á sér hárið? Þegar þarna var komið sögu hugsaði ég með mér að ef ég ekki heyrði í þeim á næstu mínútum myndi ég fara á mínum bíl niður á Engjaveg. Kl. 4:15 var hringt. Erum á leiðinni. Nokkrum mínútum síðar henti ég mér inní bílinn hjá þeim og reykspólað var af stað. Dekkjaslit á leiðinni var f.o.f. á köntunum og með hraðatölur verður farið eins og þyngdarmælingar kvenna. Þau höfðu gleymt einni stillingu á vekjurklukkunni sem heitir ON og símarnir stilltir á „silent“. Einhverra hluta vegna vaknaði Unnar kl. 4:09. Þau í Hafnarfirði, ég í Garðabæ. Brottarfarartími rútu frá Laugardal kl. 4:30. Það var heppilegt að dótið höfðu þau tekið til kvöldið áður og verður að segjast eins og er að það var vel af sér vikið að ná í tíma en þegar við renndum í hlað voru rúturnar settar í gang. Af stað var haldið með óblásið hár, tannburstann á lofti og stírurnar í augunum.

 

Í Hrauneyjum var eðli málsins samkvæmt margt um manninn og fiðringur í loftinu. Þar sem við höfðum lent í síðustu rútunni fengum við að bíða eftir útlendum strandaglópum sem höfðu villst af leið. Þegar við fórum af stað var okkur sagt að við yrðum 1:45 á leiðinni upp í Landmannalaugar. Hmmm, þá myndum við renna í hlað kl. 09 en þá átti að starta fyrsta hópnum. Þetta var sem sagt svona dagur. Allt á síðustu stundu og ennþá meiri spenna. En sennilega hefur tíminn eitthvað verið ofáætlaður og rútubílstjórinn stóð sig vel. Við vorum komin á svæðið rétt um kl. 08.

 

Mér fannst vera frekar svalt og var á báðum áttum með klæðnað. Ætlaði að hlaupa í hnébuxum og hlýrabol en ákvað á síðustu stundu að fara í síðermabol undir hlýrabolinn og losa mig þá við hann á leiðinni. Það reyndist ágætt því mér leið vel upp í Hrafntinnusker og það var ekki fyrr en komið var niður Jökultungurnar sem mér fór að hitna verulega. Því ákvað ég að koma við í Bláfjallakvíslinni og skilja bolinn þar eftir.

 

Á leiðinni upp í Hrafntinnusker fann ég vel fyrir því að ég hef ekki æft fjallahlaup fyrir þetta tímabil. Strax eftir 3 km fann ég að kálfarnir voru ekki alveg sáttir við hraðann þannig að ég reyndi að slaka aðeins á án þess þó að hægja mikið á mér. Það slapp til en ég var þó hræddur um að ég gæti átt eftir að borga fyrir þennan þjösnaskap síðar. Á þessum kafla fóru nokkrir fram úr mér en þó ekkert mjög margir. Þegar nálgaðist skálann í Hrafntinnuskeri náði ég einhverjum til baka og leið bara býsna vel. Þegar ég fór frá drykkjarstöðinni voru 69 mínútur liðnar frá startinu þannig að ég hafði verið tveimur mínútum fljótari en árið áður – en leið þó mun betur núna.

 

Þegar ég fór af stað frá Hrafntinnuskeri hljóp á eftir mér einhver sem hafði komið þangað rétt á undan mér og var að láta fylla á vatnsbrúsa hjá sér. Hann náði mér fljótlega og hljóp síðan með mér þar til við komum niður Jökultungurnar. Við náðum engum og enginn náði okkur. Á leiðinni tókum við spjall saman og kom í ljós að hann heitir Bjarni og hafði helgina áður gengið 24 tinda gönguna í Eyjafirðinum. Þegar við komum á flatann neðan við Jökultungurnar skildi á milli okkar og þegar ég var að fara frá drykkjarstöðinni við Álftavatn var hann að koma. Þar sem hann var með derhúfu með (eyðimerkur) slöri þekkti ég hann ekki og mundi ekki til þess að hafa séð hann áður. En til marks um það hversu tómur maður getur verið í höfðinu eftir 55 km fjallahlaup þá sá ég mann að nafni Bjarni í „heita“ pottinum eftir hlaupið og heyrði hann spjalla við einhvern í pottinum um að hann hefði helgina áður gengið 24 tindana í Eyjafirðinum. En það var ekki nóg fyrir mig til að kveikja á perunni um þetta væri sá sami Bjarni og var samferða mér milli Hrafntinnuskers og Álftavatns. Ég kveikti ekki á því fyrr en daginn eftir þegar ég fór að kanna hvar þessi Bjarni hefði endað en hann kom í mark á góðum tíma skammt á eftir mér.

 

Frá Álftavatni fór ég af stað eftir 2:14 og að Bláfjallakvísl fóru engir fram úr mér en við Kvíslina náðu mér þó einhverjir. Ég sá einn þjóta framhjá án þess að stoppa við töskurnar og þar hefur væntanlega verið Siggi Kiernan á ferðinni en ég sá hann aldrei fara fram úr þótt ljóst sé á millitímum við Hrafntinnusker og Álftavatn að hann hafi verið á eftir. Hann lenti líka í smá basli á þessum legg en náði að vinna vel úr því.

 

Frá Bláfjallakvísl og að Emstrum fannst mér ganga vel. Ég hljóp þessa ca 16 km á 1:36 og fannst ég frekar halda aftur af mér þar sem ég hafði áhyggjur af síðasta kaflanum frá Emstrum. Á þessum kafla náði ég þó 4 hlaupurum og enginn fór fram úr mér. Þarna nýttist mér vel að lítið var um brekkur en í staðinn langir sléttir kaflar á söndunum. Þarna fannst mér allar löngu æfingarnar fyrir 100 km hlaupið nýtast vel. Á drykkjarstöðinni við Emstrur leið mér vel og þaðan fór ég þegar 3:50 voru liðnar frá startinu. Það hvarflaði að mér augnablik að ef ég héldi sama dampi þá væri séns á að klára hlaupið á 5:30-5:35. Þessi hugsun dvaldi hins vegar stutt við því um leið og ég lagði af stað niður brekkuna frá Emstruskála fékk ég krampakippi í báða kálfana. Það var því ekkert annað að gera í stöðunni en að hægja á og reyna að komast niður án þess að læsast. Þessi kafli og þar til komið var upp úr giljunum var vægast sagt leiðinlegur. Tveir af þeim sem ég hafði farið fram úr áður þutu framhjá mér þegar ég var rétt búinn að paufast upp eina brekkuna. Og ég sá fleiri nálgast. Nálgast eins og orm sem liðaðist um slóðann og var að reyna að ná í skottið á mér. Þegar ég loksins komst upp úr síðasta gilinu komu á siglingu Agga, sem vann glæsilegan sigur í kvennaflokki, og einhver þjóðverji. Þarna voru brekkurnar – í bili amk – loksins búnar og við tók frekar sléttur kafli að Kápunni. Þarna tókst mér að greikka sporið án þess að allt færi í lás og náði að halda í við Öggu og þjóðverjann. Ég elti reyndar þjóðverjann einhverja bölvaða vitleysu og við lentum ofan í einhverju smá gili en komust þó upp úr því án of mikils tímataps. Kálfarnir voru hins vegar ekkert sérlega hressir með þennan vitleysisgang. En hvað um það mér tókst að hanga nokkuð vel á eftir þeim að Kápunni og það virtist aftur fara að lengjast bilið í þá sem komu þar á eftir. Kápan var erfið og þá alveg sérstaklega niðurferðin. Þar sá ég á eftir Öggu á harðaspretti á meðan ég „læddist“ niður Kápuna eins og ósmurður staurkarl. Ég fékk krampakippi reglulega en gat samt haldið áfram á gönguhraða. Frá Þröngánni og í mark gekk sæmilega og virtist sem kælingin í ánni gerði gott. Það var svo sem ekki hratt farið en ég þurfti ekki að ganga nema bröttustu brekkurnar. Þarna hljóp ég fram á Jón Ebba sem hafði farið enn verr úr krampakeppninni en ég sjálfur og þótt það sé honum eflaust lítil huggun þá hefur hann sennilega unnið þá keppni þetta árið.

 

Í mark kom ég á tímanum 5:52 og einhverjar sekúndur. Alveg frábært! Bæting frá því í fyrra um 58 mínútur og ólíkt skemmtilegri upplifun nú en þá þótt síðasti kaflinn hafi verið erfiður. En til marks um það hversu tvísýnt þetta getur verið þá var ég ekki viss um að komast undir 6 tímana fyrr en minna en 1 km var eftir í markið. Þótt hvarflað hafi að mér eitt augnablik að ég gæti verið nálægt 5:30 þá var það áður en kramparnir byrjuðu. Eftir það var þetta allt saman óljóst og ekkert í hendi fyrr en það var í hendi. Það skyldi enginn vanmeta krampa.

 

Þrjár vikur í næsta hlaup, Jökulsárhlaupið. Hvíla sig og snúa síðan enn og aftur í gang. Hingað til hef ég verið heppinn með meiðsl á tímabilinu. Fann aðeins fyrir eymslum í öðru hné í kringum 100 km hlaupið en ekkert sem hefur verið til stórra vandræða. Tók tvær stuttar liðkunar æfingar á þriðjudegi og miðvikudegi eftir Laugaveginn. Hvíldi á fimmtudeginum og tók síðan 25 km æfingu á föstudeginum. Sú æfing gekk vel og var með frekar erfiðu undirlagi. Ætlaði að taka rúmlega 20 km æfingu á laugardeginum en varð að stytta hana þar sem hnéð fór að angra mig eftir rúmlega 10 km. Hafði þó ekki miklar áhyggjur af þessu þar sem ég þóttist vita að komandi veiðitúr með hvíld fram á þriðjudag myndi gera gott. Það stóð heima, hef nánast ekkert fundið fyrir hnénu síðan.

 

Veiðitúrinn var auðvitað mjög skemmtilegur en segja má að ég hafi verið sérlega heppinn að hlaupasumrinu skyldi ekki ljúka þarna. Fyrsta vaktin byrjaði hálf brösuglega. Ég var að hnýta nýja flugu á tauminn og þegar ég var að herða hnútinn missti flugan gripið í renniláslykkjunni hjá mér og stakkst á kaf í vísfingur og þumalfingur. Sá krókur sem fór í vísifingur fór á kaf og uppfyrir agnhald. Það er í fyrsta sinn sem ég prófa það. Ég náði honum ekki úr og varð að finna mér töng til að ná taki á króknum og gat þannig rifið hann út. Sem betur fer var þetta ekki stór krókur og því gatið ekkert sérlega stórt. En mikið getur blætt úr litlu gati. Þegar ég var rétt búinn að klára að hnýta fluguna almennilega á án þess að tjóna mig meira var komið að mér að kasta. Út á lítinn klett og kastað út. Bamm! Flugan tekin með látum og lax rauk um hylinn og ætlaði sér niður strauminn fjær. Með því að taka fast á honum tókst mér að lempa hann og fá hann til að snúa við. Hann tók þá ákvörðun að skella sér niður strauminn nær, sem var ágætt því þá fældi hann síður fiskana sem eftir voru. Ég þurfti að stökkva yfir á annan klett sem gekk vel en síðan var eftir að koma sér niður. Ég tók skrefið á brúnina og hélt ég myndi síðan taka næsta skref niður. Það var öðru nær. Það næsta sem ég vissi var að ég missti undan mér löppina sem átti á stíga á brúnina og ég skall niður á spjaldhrygginn. Ég missti andann og fann að þetta var vont. Ég þorði ekki að standa strax upp og lét félagann sem var rétt á eftir mér taka stöngina. Sem betur fer hafði mér tekist að halda strekktu á laxinum í fallinu og hann á húrrandi siglingu niður strauminn – en ennþá fastur. Ég náði að jafna mig og komst að því að ég var óbrotinn og skakklappaðist til félagans og tók aftur við stönginni. Fallegum nýrunnum laxi var landað skömmu síðar, en mikið var haft fyrir honum. En sennilega var ég stálheppinn, aðeins ofar og þá hefði ég lent á mjóbakinu, aðeins neðar og þá hefði ég lent á rófubeininu. Ekki víst að ég hefði þá sloppið jafn vel. Það sem eftir lifði veiðitúrsins voru bruddar verkjatöflur og haldið áfram að veiða.

 

Næstu daga bruddi ég bólgueyðandi og hljóp varlega. Á fimmtudeginum hljóp ég 25 km hring sem gekk ágætlega þótt ég væri ekki verkjalaus. Á laugardeginum, viku fyrir keppni, hljóp ég 16 km inni í Þórsmörk. Hljóp að hluta til sömu leið og hlaupin er í Laugavegshlaupinu. Ólíkt léttara nú heldur en sem lokaspretturinn fyrir tveimur vikum. Í gær, mánudag, hljóp ég í fyrsta skipti í langan tíma interval æfingu sem samanstóð af þremur settum með þremur eins km sprettum hvert eða samtals 9 sprettir. Ég er staddur á Dalvík og tók þessa æfingu á malarbrautinni í bænum. Þessi æfing gekk vonum framar og mér fannst ég ágætlega sprækur. Í dag verður tekin róleg 10-15 km æfing og sennilega eitthvað svipað á morgun eða fimmtudag. Að öðru leyti tek ég því rólega fram á laugardag.

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið, sem verður  síðasta hlaupið mitt í átakinu, er búið að opna styrktarsíðu. Þar er hægt að fara inná meðfylgjandi vefslóð og slá inn nafnið mitt og nota þá leið til áheita:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar 

Laugavegurinn 2011 – þriðja hlaup af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu

Laugardaginn nk. mun ég hlaupa Laugavegshlaupið 2011 sem er þriðja hlaupið af fimm til styrktar Krabbameinsfélaginu. Spennan er farin að byggjast upp og fylgst er vel með veðurspánni – sem stendur er hún mjög góð og eykur það eftirvæntinguna. Ég hljóp þessa leið í fyrsta sinn í fyrra í sérlega góðu veðri. Samt eru minningarnar æði blendnar. Ég hafði stefnt á að komast leiðina á undir 6 tímum en það fór töluvert öðruvísi. Fékk magakrampa á leið upp í Hrafntinnusker eftir um 8 km og losnaði ekki við hann það sem eftir lifði hlaups. Hljóp í keng 45 km og gat enga næringu innbyrt á leiðinni og satt að segja var þetta frekar leiðinleg lífsreynsla. En eins og mottóið segir: það sem ekki drepur mann styrkir mann. Nú verður reynt aftur og vonandi verður þetta hlaup skemmtilegra en fyrir ári og enn er stefnt að því að komast undir 6 tímana.

 

Ég skal játa það að ég er töluvert forvitinn að sjá hvernig líkaminn bregst nú við í löngu og erfiðu fjallahlaupi rétt um mánuði eftir 100 km hlaupið. Þótt ég hafi sennilega aldrei á æfinni verið í jafn góðu formi verður því ekki neitað að álagið síðustu mánuðina hefur verið umtalsvert. Það tók tíma að jafna sig eftir 100 km hlaupið og síðan að koma sér af stað aftur. Ég var ekki fyrr farinn að hreyfa mig þegar aftur var komið að því að trappa niður. Ég renni því nokkuð blint í sjóinn en er þó ánægður með nokkrar lykilæfingar sem ég náði á þessu tímabili.

 

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með átakinu þá er markmið mitt að safna 1.000.000 kr. til styrktar Krabbameinsfélaginu. Nú þegar hafa margir lagt málefninu lið og styrkt átakið með því að leggja inná söfnunarreikning félagsins 0301-26-102005, kt. 700169-2789. Í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið, sem verður  síðasta hlaupið mitt í átakinu, er búið að opna styrktarsíðu. Þar er hægt að fara inná meðfylgjandi vefslóð og slá inn nafnið mitt og nota þá leið til áheits:

 http://www.hlaupastyrkur.is/einstaklingar  

Fyrir sjálfan mig og aðra áhugasama um hlaup og æfingar ætla ég að lýsa aðeins 100 km hlaupinu og þeim undirbúningi sem ég hef náð fyrir Laugaveginn eftir 100 km hlaupið.

 

Morguninn 11. júní var vaknað snemma til að sinna hefðbundnum morgunverkum og koma sér í gallann. Hlaupið átti að hefjast kl. 7 og mælt var með því að keppendur væru mættir um kl. 6:30. Á hlaupasvæðinu var undirbúningur á fullu þegar ég mætti og hlauparar að týnast inn. Sigurjón Sigurbjörnsson mætti með bikarinn frá síðasta 100 km hlaupi og það var auðséð að þann bikar ætlaði hann með heim aftur, amk þurfti Gísli Ásgeirsson að rykkja vel í til að Sigurjón sleppti takinu. En hvað um það, það styttist í ræsingu og eftirvæntingin augljós hjá keppendum. Það eina sem hægt var að setja út á skipulagninguna hjá keppnishöldurum var að veðrið sem lofað hafði verið var eitthvað að flýta sér og fór mun hraðar yfir en til stóð. Strekkingsvindur var að austan og því ljóst að við myndum þurfa að hlaupa til skiptis með hann í fangið og bakið. Það eru ekki kjöraðstæður til hlaupa því einhvern vegin er það svo að vindurinn í bakið skilar ekki því sem hann tekur úr á móti. Ofan á þetta bættist að það fór að rigna aðeins þegar líða tók á morguninn en sem betur fer stóð það þó ekki lengi. Upp úr hádeginu fór aðeins að draga úr vindstyrknum og má segja að þetta hafi verið þokkalega bærilegt eftir það.

 

Það lá strax fyrir að þetta hlaup gæti orðið sögulegt. Sigurjón gaf það út að hann stefndi á að slá sitt eigið Íslandsmet og það myndarlega því hann ætlaði að reyna að hlaupa á undir 8 klst. Sjálfur stefndi ég á að komast undir 9 klst. og helst sem næst 8:30. Jói Gylfa og Trausti Valdimars voru áræðanlega með svipuð markmið í huga þótt ég viti ekki þeirra ýtrustu markmið. Þá voru þarna fleiri keppendur sem voru líklegir til að fara undir 10 klst. tímamörkin. Þess má geta að fram að þessu hlaupi hafði aðeins tveimur Íslendingum tekist að rjúfa þann múr og þeir báðir reyndar einnig 9 klst. múrinn (Sigurjón 8:20 og Ágúst Kvaran 8:43).

 

Strax eftir ræsinguna tók Sigurjón á mikinn sprett og skildi aðra keppendur eftir í reyk. Ég, Jói og Trausti héldum hópinn til að byrja með og Sæbjörg Logadóttir kom í humátt á eftir okkur. Á eftir henni komu síðan Elín Reed og Anton Magnússon. Þannig hélst þetta lengi framan af en á endasprettinum náði Björn Ragnarsson að skjóta sér á milli Elínar og Antons og smeygja sér undir 10 klst. tímamörkin.

 

Fyrstu ca 30 km hlupum við þremenningarnir saman og skiptumst á að brjóta vindinn á bakaleiðinni. Það gekk vel en verður að viðurkennast að við hlupum of hratt á móti vindinum. Sigurjón gerði það auðvitað að verkum að okkur fannst við ekkert fara sérlega hratt! Við vorum oftast á kringum 4:40 pace á bakaleiðinni þótt einstaka ferð hafi verið hægari og þá nálægt 5:00 pace. Þessi kafli var léttur eins og við mátti búast og mikið spjallað. Við dáðumst að sjálfsögðu að Sigurjóni sem hljóp listilega vel og ekki má gleyma því að hann hafði engan að skiptast á við að brjóta vindinn fyrstu kílómetrana – frekar en sigurvegarinn í kvennaflokki hún Sæbjörg.

 

Eftir þessa fyrstu ca 30 km þurfti ég að kasta af mér vatni. Við það missti ég Jóa og Trausta nokkuð framúr mér. Þegar ég lagði aftur af stað ætlaði ég að ná þeim til að geta nýtt áfram samvinnuna á móti vindinum. Þeir voru hins vegar ekkert á þeim buxunum að slaka á og héldu sínu spori giska léttir. Trausti hafði reyndar einnig tekið pissustopp um leið og ég en verið fljótari þannig að það var alltaf styttra í hann. Ég náði honum eftir einn eða tvo leggi og við hlupum síðan saman þar til fór að draga af Trausta vegna kvilla sem hann fékk í annað lærið. Það var afar leitt að þurfa að sjá á eftir honum úr hlaupinu eftir ca 55 km.

 

Eftir um 45 km fannst mér ég vera búinn að hlaupa heldur of hratt miðað við ástandið á mér þá. Vindurinn var erfiður og tveimur dögum fyrir hlaup vaknaði ég upp með hálsbólgu sem hafði heldur verið að færast í aukana fram að hlaupadegi. Ég ákvað því á þessum tímapunkti að slá aðeins af og einbeita mér að því að komast vegalengdina á undir 9 klst. og jafnframt að halda þriðja sætinu sem ég var þá í. Þeir keppendur sem á þeim tíma voru næstir mér voru Trausti og Sæbjörg. Eins og ég nefndi þurfti Trausti því miður að hætta en Sæbjörg hélt sínu striki og endaði á að setja glæsilegt Íslandsmet í kvennaflokki á 9:12. Þegar upp var staðið mátti ég hafa mig allan við að ljúka hlaupinu á undan henni og þess má geta að hún hljóp seinni 50 km heldur hraðar en ég.

 

Við 60 km markið sagði Gunnlaugur Júlíusson ofurhlaupari mér að nú væri hlaupið fyrst að hefjast. Það voru sérlega upplífgandi upplýsingar! Mér leið reyndar ágætlega á þessum tímapunkti og aðeins minna en heilt maraþon eftir. En auðvitað hafði Gunnlaugur rétt fyrir sér. Nú fór þreytan að segja verulega til sín og andlega hliðin fór að skipta miklu máli. Á hverjum snúningi frá 30 km markinu jókst alltaf bilið milli mín og Jóa og frá 45 km markinu hafði bilið milli mín og Sæbjargar annað hvort verið það sama eða örlítið minna. Þegar ég fór af stað í legginn eftir 60 km fór ég að hugsa um það eitt að nú þyrfti ég að „ýta“ markinu upp í 70 km, reyndi að hugsa ekkert um þá 30 km sem þá væru eftir. Þegar 65 km voru komnir þá var hugsunin sú að nú þyrfti ég bara að klára þennan legg og þá gæti ég „ýtt“ markinu upp í 80 km. Við 70 km markið tók ég eftir því að bilið á milli mín og Jóa hafði ekki aukist. Km 70 til 80 voru ansi erfiðir en ég tók þó eftir því að ég var farinn að minnka bilið á milli okkar Jóa. Ég vissi það þá alla vega að honum leið ekkert betur en mér og var örugglega í sömu baráttunni í hausnum. Við 80 km markið fannst mér ég ná góðum áfanga. Þá var „bara“ tæpt hálft maraþon eftir. Þegar ég var að koma í marksvæðið við 85 km snúninginn sá ég að Jói var ekki enn farinn út. Ég ætlaði að herða aðeins á mér en fékk þá strax aðkenningu að krampa í annað lærið. Ég varð því að slá strax af aftur og nánast læðast upp brekkuna að markinu. Sem betur fer þá losnaði ég fljótt við krampann og gat farið út rétt á eftir Jóa. Það kom fljótlega í ljós að Jói var í enn meiri vandræðum en ég þannig að ég náði honum brátt þótt ekki hafi verið neinn glæsibragur á því. Við 90 km var bara eitt 10 km hlaup eftir. Þótt það væri ekki langt varð þó að fara gætilega því lítið mátti út af bregða til að krampinn léti ekki aftur á sér kræla. Síðasti 5 km leggurinn var allt að því skemmtilegur. Það var frábær tilfinning þegar einungis um tveir km voru eftir og mér var orðið ljóst að ég kæmist vel undir 9 klst. og myndi að auki komast á pall og það í annað sætið.

 

Þetta var mjög skemmtilegt hlaup og vel getur verið að ég eigi eftir að endurtaka það síðar. Að sjálfsögðu var sérlega ánægjulegt að hafa verið þátttakandi í því hlaupi þar sem sett voru tvö glæsileg Íslandsmet í flokkum karla og kvenna. Í báðum tilvikum tímar sem skipa sigurvegurunum í fremstu röð hlaupara í þessari vegalengd á Norðurlöndunum og jafnvel í heiminum. Að auki stimplaði Sigurjón sig inn sem einn af allra bestu hlaupurum í þessari vegalengd í sínum aldursflokki frá upphafi. Þessum frábæra árangri til viðbótar komumst við Jói báðir undir 9 klst. markið og Elín Reed bætti sinn tíma verulegu og fór langt undir 10 klst. markið. Björn náði því einnig eins og áður hefur verið nefnt. Í þessu eina hlaupi bættust því við 5 Íslendingar sem náð hafa að hlaupa vegalengdina á undir 10 klst. og þar af tveir undir 9 klst.

 

Þetta hlaup tók í. Ég gerði lítið næstu daga annað en að hvíla mig. Á miðvikudeginum eftir hlaup var ég kominn á árbakka norður í Mývatnssveit í árlegan veiðitúr. Það var að venju ánægjulegt þótt kalt hafi verið í veðri. Ég var stirður og skakkur fyrstu dagana en það lagaðist þegar á leið veiðitúrinn. Einkennum hálsbólgunnar var haldið niðri með mismunandi tegundum verkjalyfja. Á laugardeginum var haldið heim á leið og þá sagði líkaminn hingað og ekki lengra. Ég lá flatur fram á miðvikudag með þá alverstu hálsbólgu sem ég hef náð mér í.

 

Á föstudeginum 24. júní varð mér litið á dagatalið og fór að telja. Það voru víst ekki nema þrjár vikur þar til Laugvegshlaupið var á dagskrá. Ekki seinna vænna að fara að láta reyna á skrokkinn þótt hálsbólgan væri enn til staðar. Ég byrjaði á léttri brettaæfingu á föstudeginum sem gekk ágætlega. Næst var að skella sér á sæmilega langa laugardagsæfingu. Ég mætti í sundlaug Garðabæjar kl. 09:30 og ætlaði að hlaupa með Ragga hring sem átti að vera 20-25 km. Þegar til kom vorum við þeir einu sem mættum úr skokkhópnum okkar en hittum þess í stað galvaskan hóp undir stjórn Sigurðar P. sem var að fara í sína lengstu æfingu fyrir Laugaveginn. Við ákváðum að slást í för með þeim og sjá til hversu langt við myndum fara með þeim. Ég hafði þá þegar lokið við rúmlega 5 km hring og fannst frekar langt að fara 37-38 km og var hreint ekki viss um hvort ég myndi ráða við það. Þegar komið var upp að lykkju og hópurinn tók strikið yfir í norðurenda Heiðmerkur stóðst ég ekki mátið og skellti mér með. Ég hafði farið frekar rólega af stað en gaf vel í upp Vífilstaðahlíðina. Ég fór í humátt á eftir næst fremstu mönnum og náði þeim við stóra hringinn í norðurendanum. Var ánægður með stöðuna og gaf vel í niður brekkurnar og að Gvendarbrunnum. Þegar þangað var komið var vegurinn hlaupinn til baka og þar tæmdist tankurinn skyndilega. Ég þurfti að hægja verulega á mér og var samt að drepast. Þegar við vorum að nálgast Vífilstaðahlíðina sá ég mér þann kost vænstan að hringja í eiginkonuna og fá hana til að bjarga mér úr minni sjálfsköpuðu prísund. Þegar upp var staðið hljóp ég um 32 km og var sprækur fram að 25-26 km. Það var í sjálfu sér ágætt en augljóst að töluvert vantaði upp á að ég væri tilbúinn í alvöru átök á Laugaveginum.

 

Í vikunni á eftir tók ég 12 og 18 km æfingar á brettinu á mánudeginum og þriðjudeginum sem gengu ágætlega. Á fimmtudeginum skellti ég mér góðan túr upp í Heiðmörk og hljóp að Helgafellinu, gekk upp og hljóp niður. Fór torfæra leið til baka yfir að Búrfelli og niður Búrfellsgjána og þaðan heim. Fann vel fyrir lærunum daginn eftir og hvíldi því. Á laugardeginum tók ég þátt í Snæfellsjökulshlaupinu sem var þreytt í fyrsta sinn. Mjög skemmtilegt hlaup og við vorum heppin með veður. Fyrstu tæpu 9 km voru allir á fótinn og stundum nokkuð bratt auk þess sem skaflar voru okkur til skemmtunar á efsta hlutanum. Ég fann það á leiðinni upp að framanverð lærin voru ekki alveg að fíla þessa meðferð þannig að ég hægði aðeins á mér og gekk upp bröttustu brekkurnar. Þegar upp var komið spretti ég úr spori eins og ég gat og reyndist það frekar létt. Niðurhlaupið gekk því mun betur en hlaupið upp og náði ég að mjaka mér upp um nokkur sæti. Fann hins vegar æði vel fyrir hlaupinu daginn eftir og einnig á mánudeginum. Læri og mjaðmaliðir aumir og ekki frá því að ég fyndi aðeins til í öðru hnénu.

 

Fyrsta heila æfingavikan að baki og bara tvær vikur í Laugaveginn og því í raun komið að niðurtröppun. Frekar skrítin tilhugsun því mér fannst ég ekki enn vera búinn að ná úr mér hundraðkallinum og því langt frá því að vera tilbúinn. Ég hvíldi alveg á mánudag og þriðjudag og tók mjög stutt hlaup á miðvikudeginum. Þá virtist allt vera komið í lag þannig að ég ákvað að taka langa hlaup þessarar viku á fimmtudeginum. Ég fór upp í Heiðmörk með það í huga að hlaupa amk 30-35 km og reyna að þræða brekkur eins og hægt væri. Það er skemmst frá því að segja að þessi æfing gekk vel og þegar ég var kominn heim var ég búinn með um 41 km þannig að það var ekki um annað að ræða en að bæta við 1,2 km til að klára maraþonvegalengdina. Mér telst til að með þessu hlaupi sé ég búinn að hlaupa 11 hlaup á æfingum og keppni á árinu sem eru 42,2 km eða lengri. Á laugardeginum var ég í fjölskylduútilegu í Fljótstungu (hinu megin við Húsafell) þannig að ég hljóp sama hring og ég gerði fyrir ári síðan af sama tilefni. Í fyrra var hringurinn 25 km en ég lét mér duga 24 km nú. Þessi æfing gekk vel en ég fann þó að ég var aumur í öðru hnénu. Ein vika í Laugaveginn. Á mánudaginn tók ég léttan 14 km hring með Bjössa uppí Heiðmörk og fann ekkert fyrir hnénu. Ég var búinn að ákveða að taka þátt í Ármannshlaupinu á þriðjudag og átti það að vera smá test á ástandið. Ég hef lítið hlaupið hratt undanfarnar vikur þannig að það var nokkuð óljóst hvernig þetta myndi ganga. Mig langaði að reyna að hlaupa á undir 40 mín en ætlaði þó ekki að keyra mig út í hlaupinu. Þegar til kom gekk þetta vel og mér fannst þetta léttara nú en fyrir ári síðan þegar ég sló af eftir 5 km til að taka ekki of mikið úr mér. En eins og síðar kom í ljós reyndist það síðan til lítils.

 

En sem sagt, mér sýnist ég vera búinn að stilla drusluna eins og hægt er og nú er það bara hvíld fram að hlaupi. Það yrði reyndar kærkomið ef þessi ólánshálsbólga yrði ekki með í för en mér finnst eins og hún sé nú loksins á einhverju undanhaldi. Ég er svo sem búinn að halda það áður og hafa rangt fyrir mér þannig að það verður að koma í ljós eins og annað.

 

Aftur til lífsins - að geta dregið andann, hlaupið 100 km eða unnið Tour De France

„Ég vildi frekar greinast með krabbamein en vinna „Tour De France““ segir hjólreiðakappinn Lance Armstrong, sem vann keppnina 7 sinnum eftir að hafa gengið í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð.

 

Ég er ekki viss um að ég taki undir þessi orð Lance en ég held ég skilji hvað hann á við. Það vill enginn greinast með krabbamein. En hann segir sjálfur í bók sinni „It´s not about the bike; My journey back to life“ að sýn hans til lífsins hafi breyst og gert hann að betri manneskju að hans eigin mati. Ég get örugglega tekið undir þau orð; sýn mín til lífsins hefur breyst en auðvitað veit ég ekki hvort ég er betri manneskja en ég hefði orðið. Ég get vonað það en mig skortir samanburðinn.

 

Síðustu daga hef ég legið flatur með sérlega vonda hálsbólgu. Eiginkonan gaf mér ofangreinda bók Lance Armstrong og ég kláraði lestur hennar í gær. Þetta er góð bók og margir sameiginlegar fletir sem ég sé með hans upplifun og minni á að berjast við krabbamein. Ég er ekki sammála öllu sem hann segir en það er þó mjög margt sem hann segir sem snart mig.

 

Ástæða þess að konan gaf mér bókina var sú að ég lauk nýlega við að hlaupa 100 km keppnishlaup og af því tilefni gaf hún mér bókina. Fyrir mér var það að ljúka umræddu hlaupi mikil áskorun. Til að byrja með var það mikil áskorun að geta yfir höfuð hlaupið. Það var líka áskorun að geta klárað 10 km keppnishlaup. Þá var það næstum ókleifur veggur að geta klárað maraþon. Síðar fæddust drög að  draumi. Það var að ná því að komast á verðlaunapall í viðurkenndri hlaupakeppni á Íslandsmóti. Draumur sem ég hélt fyrir greininguna að myndi aldrei rætast. Ég valdi mér að sjálfsögðu grein sem frekar fáir leggja stund á til að auka möguleikana! En grein sem kallar á þolinmæði og úthald. Nokkuð sem krabbameinssjúklingar fá ágæta þjálfun í. Það var því sérlega ánægjulegt að heyra fyrir ræsinguna að þetta 100 km hlaup hefði verið viðurkennt sem opinbert Íslandsmeistaramót í greininni – og ég komst á pall! Ekki gleyma því að fyrir ekki svo löngu síðan var draumurinn einfaldlega sá að geta dregið lífsandann. Lance Armstrong átti sér sama draum – áður en honum datt til hugar að hann gæti unnið Tour De France.

 

Þar sem panta þurfti bókina fékk ég hana ekki í hendur fyrr enn á mánudaginn var, sem kom sér vel í flensunni. Sjálfsagt get ég að einhverju leyti kennt sjálfum mér um hversu svæsin hálsbólgan er búin að vera. Eftir meðferðina hefur ónæmiskerfið verið heldur lakara en það var áður. Rúmri viku fyrir hlaup fór ég að finna fyrir kvefpest og á fimmtudeginum fyrir hlaup vaknaði ég upp með hálsbólgu. Í síðustu viku var síðan haldið í fyrsta veiðitúr sumarsins og þar var reynt að halda hálsbólgunni niðri með verkjalyfjum og bjór. Ekkert sérlega skynsamlegt ekki síst þar sem það styttist í næsta stóra hlaup, Laugaveginn þann 16. júlí. En ég sagði ekki að maður yrði skynsamari af því að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð – kannski stundum þvert á móti. Ég að minnsta kosti geri orðið ýmislegt sem ég myndi ekki hafa gert áður. Carpe diem, seize the day!

 

Mér fannst athyglisvert í frásögn Lance að lesa um baráttu hans við að komast aftur í fremstu röð hjólreiðakappa. Það var erfitt ferðalag með miklum sjálfsefasemdum. Hann gafst upp á leiðinni, oftar en einu sinni. Ef hann veiktist hélt hann að krabbinn væri aftur kominn á stjá. Ef hann var slappur á æfingu var hann viss um krabbinn væri á ferðinni. Þetta eru tilfinningar sem ég þekki hjá sjálfum mér. Efasemdirnar og hræðslan við að fá bakslag. En einhver innri þrá rak Lance aftur af stað. Einhver þörf hans til að sanna fyrir sjálfum sér að hann gæti. Sú upplifun hans held ég að margir krabbameinssjúklingar eigi sameiginlega. Einhverja þrá til að sanna eitthvað fyrir sjálfum sér.  Eitthvert markmið sem hver og einn setur sér. Einhver fortíðardraumur. Gera eitthvað sem aldrei hafði verið gert áður. Eða gera eitthvað aftur. Eða gera það betur. Auðvitað fara fæstir í skó Lance Armstrong og vinna Tour De France. En flestir eiga sér sitt eigið Tour De France. Það er það sem skiptir máli. Í mínu tilviki var Tour De France að geta hlaupið. Þess vegna hleyp ég – af því að ég get það.

 

Ég held að margir sem hafa gengið í gegnum krabbameinsmeðferð geti fundið sér samsvörun í sögu Lance. Það að fá annað tækifæri í lífinu er ekki öllum gefið. Það að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð gerir mann sjálfkrafa að hluta af mjög sérstöku samfélagi. Samfélagi þar sem einstök samkennd ríkir og samfélagi þar sem fólk skilur vel hvert annað. Sjálfum er mér ekkert sérlega vel við að tala um líkur. Tilteknar líkur gera afskaplega lítið fyrir einstaklinginn – bara svo fremi sem það eru einhverjar líkur, von. Annað hvort finnst lækning – eða ekki. Annað hvort ertu 100% réttu megin – eða ekki.

 

Hvað er það sem gerir sumum okkar kleift að komast í gegnum krabbameinsmeðferð og öðrum ekki? Er það eitthvað í okkur sjálfum, eru það vísindin eða einfaldlega kraftaverk? Lance svarar þessari spurningu að mínu mati vel (lausl. þýðing):

 „Ég veit það ekki. Ég veit að sumt fólk lítur til mín í von um svar. En ef ég vissi svarið hefðum við lækningu við krabbameini og það sem meira er, við myndum vita tilganginn með tilverunni. Ég get veitt hvatningu, von og ráðgjöf en ég get ekki svarað því sem ekki er hægt að vita. Persónulega þarf ég þess ekki. Ég er ánægður með að vera á lífi og geta upplifað leyndardóminn“.  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 70681

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband