Íslenska heilbrigðiskerfið að niðurlotum komið?

Fékk í dag birta grein í Mogga sem á að vera innlegg í umræðu um heilbrigðismál. Undirtitill greinarinnar gæti verið tilbrigði við þekktan frasa: "Er til eitthvað annað?"

Síðustu vikurnar hefur átt sér stað nokkuð lífleg umræða um íslenska heilbrigðiskerfið eftir að heilbrigðisráðherra reið á vaðið með athyglisverðri grein. Að venju eru þeir sem taka þátt í umræðunni iðulega vændir um undirhyggju og sérhagsmunagæslu. Við það verður víst að búa samkvæmt íslenskri umræðuhefð. Engu að síður er nauðsynlegt að opinber umræða eigi sér stað um þessi mál og mikilvægt að þeir sem til þekkja eða telja sig hafa eitthvað fram að færa haldi því áfram.

Ég hef áður spurt hvort gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu séu lakari árið 2012 en 2009. Tilefnið var mæling Euro Health Consumer Index (EHCI) þessi ár á gæðum þjónustunnar í ríkjum Evrópu. Á vef velferðarráðuneytisins var þessarar niðurstöðu getið og bent á að Ísland sæti í þriðja sæti listans bæði þessi ár. Var það talið vitnisburður um góða stöðu landsins í þessum samanburði. Ef rýnt er í tölurnar kemur hins vegar í ljós að sá munur er á milli áranna að 2012 eru mörg lönd komin á hælana á Íslandi og Ísland, eitt Norðurlanda, lækkar í stigum á milli mælinga. Ef þróuninni verður ekki snúið við þá er beinlínis hætta á að Ísland verði ekki á topp 10 listanum næst þegar hann verður birtur.

En hvað er til ráða? Þegar settar eru fram hugmyndir er þeim oft tekið með fullyrðingum og alhæfingum um að við viljum ekki sjá svona kerfi eða hitt kerfið í stað þess að rökræða kosti og galla kerfanna og skoða hvort eitthvað geti hentað okkar samfélagi. Í könnun EHCI kemur fram að Hollenska kerfið skorar hæst í báðum mælingunum 2009 og 2012. Árið 2012 hefur bilið í næsta land aukist frá árinu 2009. Eitthvað virðast því Hollendingar vera að gera betur en aðrir þótt sjálfsagt sé þeirra kerfi ekki gallalaust.

Í sumum löndum eru menn óhræddir við að skoða nýjar hugmyndir og reyna að læra af þeim sem eru að gera góða hluti. Meðal annars hafa amerísku heimilislæknasamtökin tekið hollenska kerfið til sérstakrar skoðunar með það í huga að bæta sitt eigið kerfi. Þá hafa fræðimenn á sviði heilbrigðisréttar og alþjóðlegrar mannréttindaverndar bent á að mörg Evrópuríki hafi verið að stíga skref í áttina að ameríska kerfinu, þó með sínum útfærslum, og að Bandaríkjamenn séu að stíga skref í áttina að „evrópska“ kerfinu. Þannig virðist sem einhvers konar blanda af ríkisrekstri og einkarekstri sé að skila bestum árangri.

Hollendingar tóku sér mörg ár til að rökræða hvernig þeir vildu byggja upp heilbrigðiskerfið sitt. Niðurstaðan varð sú að fara blandaða leið og fela tryggingarfélögum að sjá þegnum landsins fyrir sjúkratryggingum. Ríkisvaldið setur leikreglurnar og fylgist vel með að þeim sé framfylgt. M.a. geta tryggingarfélögin ekki neitað neinum um kaup á heilbrigðistryggingum og öllum er tryggð lágmarks trygging óháð efnahag. Ekkert samband er á milli tryggingarfélaganna og þjónustuveitenda, sem getur verið hvort heldur sem er undir formerkjum ríkisrekstrar eða einkarekstrar. Innan tryggingarfélaganna skapast sú sérfræðiþekking sem sögð er nauðsynleg þegar kemur að kaupum á heilbrigðisþjónustu fyrir þegnana. Með því móti minnkar hættan á að seljendur þjónustunnar geti í krafti sérfræðiþekkingar sinnar „yfirselt“ tiltekna þjónustu. Jafnframt hefur sýnt sig í Hollandi að ákvarðanir um hvaða þjónustu er þörf á hverju sinni eru í meira mæli teknar af sérfræðingum á heilbrigðissviði með þátttöku sjúklinga sjálfra og samtökum þeirra.

Sagt hefur verið að veiting heilbrigðisþjónustu sé mögulega flóknasta viðfangsefnið sem yfirvöld þurfa að fást við. Því er eðlilegt að sífellt sé leitað nýrra leiða og reynt að hámarka gæði þjónustunnar fyrir það fé sem unnt er að veita til hennar. Kannski getum við leitað í smiðju Hollendinga í leit að lausnum?


Enn ein sagan

Varúð: þetta er sjálfmiðuð frásögn um maraþonhlaup og aðdraganda þess. Þar sem ég hef sjálfur gaman að því að lesa frásagnir annarra hlaupara held ég þessu áfram, bæði fyrir mig sjálfan síðar meir og hina sem eru haldnir sama áhuganum.

Þar sem síðast var frá horfið í sagnabálknum; „ég, um mig, frá mér, til mín“ -  var sólin tekin að rísa. Ég var farinn að geta æft hlaup. Ekki vandræðalaust en samt. Þetta æfingatímabil fólst í því að reyna að komast meira magn hverja viku fyrir sig og auka við hraðann smám saman. Hvert það myndi leiða átti bara að koma í ljós. Ég á marga góða æfingafélaga en eins og gengur standa sumir manni nær. Einn þeirra vill helst æfa um hádegisbilið sem hentar mér vel. Hann er þrjóskari enn andskotinn, missir aldrei úr æfingu og svindlar aldrei á magni. Þess vegna gerði ég það ekki heldur, þ.e. með æfingarnar – en magnið var svona upp og ofan. Hann var ákveðinn í að fara í maraþon í vor og æfði fyrir það. Þar sem ég hafði ekki að neinu sérstöku að stefna annað en að reyna,  reyndi ég eins og ég gat að fylgja honum eftir. Smátt og smátt fór að vakna með mér hugmynd um að kannski ætti ég bara að setja stefnuna sjálfur á maraþon. Það yrði að vísu að vera seint í vor þar sem magnið var ekki búið að vera mikið fyrstu mánuði ársins, að minnst kosti miðað við það magn sem ég hef venjulega hlaupið fyrir maraþon (des 130 km, jan 252 km, feb 205 km , mars 370 km, apríl 338 km).

Við hjónin höfum undanfarin ár oft farið til Kaupmannahafnar um hvítasunnuna. Þar hljóp ég mitt fyrsta maraþon árið 2009. Þar þurfti ég fyrst að hætta í miðju maraþoni 2010 og þar skráði ég mig til leiks árið 2012 og var síðan bara á hliðarlínunni þegar til kom. „Three´s the charm“ eins og sagt er þannig að ég þóttist viss um að í þriðju tilraun eftir tvær misheppnaðar þá hlyti það að vera happa – enda 13 í lokatölunni. Því skráði ég mig til leiks frekar seint og tók formlega stefnuna á að taka þátt í maraþoni vorið 2013 (gert í samráði við doktorinn).

Þetta var skemmtileg ákvörðun og það að vera að stefna á þátttöku í maraþonhlaupi aðeins rúmu ári eftir að ég hélt að hlaupum væri lokið var bara frábært. Ég var hins vegar meðvitaður um að ekkert væri í húsi fyrr en hlaupið væri búið. Nokkrar ástæður voru fyrir því. Auk þessara venjulegu um meiðsli, veikindi og annað sem getur komið upp hjá öllum þá veit ég aldrei hvernig hver dagur fyrir sig verður. Ég er enn að eiga við þessa hjartsláttartruflun og veit í raun aldrei fyrr en að morgni hvort ég er í takti eða ekki. Stundum koma tímabil þar sem ég næ nokkrum vikum í röð án þess að detta úr takti en síðan koma vikur þar sem ég dett oft úr takti. Þá daga sem ég vakna taktlausari en ella get ég ekki hlaupið. Því er það spennuhlaðið að vakna að hlaupamorgni og tékka á taktinum!

Í aðdragandanum að þessu hlaupi var það reyndar ekki taktleysið sem var mér verst heldur annað hnéð. Ég fór í liðþófaaðgerð í september sl. og hnéð var mér miklu erfiðara á æfingatímabilinu heldur en hjartað nokkurn tímann. En kannski var það bara ágætt því það amk þýddi að ég þurfti að fara hægar af stað en hugurinn vildi. Þannig að kannski æfði ég tiltölulega skynsamlega þegar allt kom til alls?

En hvað um það, til Köben fór ég með það í huga að hlaupa maraþon! Spenntur? Já! Stressaður? Já! Það var margt sem gat farið úrskeiðis og þegar til kom var líka eitt og annað sem ég hafði ekkert spáð í  sem fór úrskeiðis. Kannski einmitt vegna þess að ég var stressaður út af nýjum hlutum og því ekki með fókusinn eins stilltan og oftast áður.

Daginn fyrir hlaup fór ég að hugsa um keppnisskóna sem ég tók með mér að heiman. Fór að reikna og komst að því að sennilega væri ég búinn að hlaupa meira en 800 km á þeim sem er of mikið fyrir létta keppnisskó. Ég gerði því það sem er sagt að ekki eigi að gera, þ.e. að kaupa sér keppnisskó daginn fyrir keppni. En ég hef það mér til varnar að einn af góðum æfingafélögum mínum segist oft gera þetta og hann ætt að vita það, búinn að hlaupa tugi keppnishlaupa. Ég fór og skoðaði skó sem ég þekki vel og veit að henta mínum fæti vel. Niðurstaðan varð sú að kaupa Adidas adizero feather 2, 205 gr.. Ég sá ekki eftir því þótt mögulega hefði ég átt að hlaupa á þyngri skóm eins og ég kem að síðar.

En á hvaða tíma átti ég að stefna? Til að byrja með í prógramminu átti ég í basli með að hlaupa einn km á 5 min tempói. Það hins vegar breyttist furðu fljótt og greinilegt að líkaminn „mundi“ eftir hraðara tempói. Þess vegna fóru tímamörkin í huganum smátt og smátt að breytast í takt við aukna getu.  Í vikunni fyrir hlaup fór ég og hitti Janus Guðlaugsson, sem ég tengist fjölskylduböndum, og gerði hann mjólkursýrutest á mér. Þar kom í ljós að mjólkursýruþröskuldurinn hjá mér var á svipuðum stað og ég átti von á en hins vegar kom líka í ljós að hann steig nokkuð bratt upp þegar ég náði honum. Það þýddi þá að eins gott var að hlaupa fyrir neðan þröskuldinn því annars myndi ég að öllum líkindum sprengja mig frekar fljótt. Ég tók því þá ákvörðun að reyna ekki við mitt ýtrasta markmið sem hafði skotið upp kollinum sem var 4:30 tempó pr. km. Því var gameplanið að stefna á 4:37 tempó og reyna að komast í mark í kringum 3:15.

Á hlaupadegi var ljómandi gott veður. Skýjað en þurrt. Það reyndar breyttist hressilega um leið og hlaupið byrjaði því það rigndi stanslaust allt hlaupið og stundum mjög mikið. Það gerði okkur hlaupurunum kannski ekki mikið til því það var ekki mikill vindur. En mikið óskaplega voru margir áhorfendur orðnir blautir og kaldir í lokin. En hvað um það. Í upphafi hlaups stillti ég mér upp með Pétri Ívars, Möggu Elíasar og Sigurði Inga sem öll voru að stefna á tíma sem næst 3:10. Rúnar Marinó og Pétur Helga voru að stefna á 3:30 þannig að annað hvort var að byrja einn einhvers staðar í þvögunni mitt á milli eða velja aðra hvora grúppuna. Mér leist betur á að vera aðeins framar og vera á undan 3:10 blöðrunni í gegnum fyrstu beygjuna og yfir brúna og canalinn. Þetta plan virkaði fínt því eftir ca 2-3 km hægði ég á mér og fór aftur fyrir blöðru hópinn. Hlaupafélagana úr startinu sá ég auðvitað ekki aftur fyrr en í markinu þar sem þau náðu öll frábærum tímum. En um fyrstu kílómetrana er lítið að segja. Ég hljóp á 4:33-4:37 tempói og leið vægast sagt frábærlega! Fannst eins og ég flygi áfram í gleðivímu. Veifaði til áhorfenda og tónlistarmanna brosandi hringinn og hef sjálfsagt verið óvenju ógáfulegar í öllu fasi. Þegar búnir voru um 15 km þá skyndilega fór ég að fá verk í vinstri kálfann. Það var ekki planið og leist mér ekkert sérlega vel á þessa viðvörun. Upp rifjaðist hlaupið frá 2010 þegar ég þurfti að fara út úr brautinni við 16. km til að teyja á vinstri hamstrings vöðvanum sem var þá kominn í tómt tjón. Í þetta skiptið var ég þó orðinn góður við 16. km og hélt áfram á sama hraða. Þegar ég nálgaðist hálf maraþon markið leið mér vel og ég fór að hugsa um að kannski ætti ég aðeins að fara að auka við hraðann. Mér reiknaðist til að með sama hraða ætti ég að geta endað á innan við 3:15 og með því að bæta aðeins við seinni hlutann þá gæti ég mögulega skorið 1-2 mínútur af loka tímanum. Þessar skemmtilegu og bjartsýnu hugsanir stöldruðu þó ekki lengi við. Skyndilega var eins hnífi væri stungið í vinstri kálfann og hann herptist allur saman. Það var því ekkert annað að gera en að snarhægja ferðina og reyna að losa um krampann. Þannig að á einu augabragði fóru hugsanirnar frá því að velta fyrir sér hraðaaukningu yfir í hugsanir um hvort að sagan frá 2010 væri að endurtaka sig þar sem þá hætti ég við brúna yfir canalinn við 24. km markið.  Þegar ég nálgaðist brúna og var að velta því fyrir mér hvort ég kæmist síðustu „lúppuna“ tók ég þá ákvörðun að ég skyldi amk hlaupa í gegnum mannhafið sem þar var. Ég vissi að eiginkonan og vinur minn væru þar og ég ætlaði mér ekki að endurtaka leikinn frá 2010. Þannig að upp fór kassinn, grettan af og bitið á jaxlinn og blótað í hljóði! Þegar ég var kominn fram hjá mannhafinu og gat farið að vorkenna mér aftur fór ég að velta fyrir mér hvað skyldi til bragðs taka. Kálfinn var ekki góður og ég sá ekki fyrir mér að með sama áframhaldi myndi ég komast á leiðarenda. Ég var búinn að átta mig á því þarna að ég hafði auðvitað gleymt að taka með mér salttöflur þannig að ekki þýddi að gúffa þeim í sig. Ég tók eitt gel á næstu vatnsstöð og gekk í gegnum hana. Fór aftur af stað og hugsaði með mér að ég skyldi amk koma mér á næstu vatnsstöð. Þegar þangað kom fékk ég mér banana og powerade – sem ég geri annars aldrei. Einhvers staðar við 30 km var spurt kunnuglegri röddu hvort eitthvað væri að? Þar var kominn Rúnar Marinó sem hljóp þarna framhjá mér rétt á eftir 3:20 blöðruhópnum. Á þessum tíma fannst mér ég nánast standa í stað.  En við þessu var bara ekkert að gera –annað en að halda áfram á mínum hraða. Við 34 km markið náði ég áfanga. Ég hafði fyrirfram verið búinn að ákveða að þegar ég kæmi á þennan stað þá ætlaði ég að reyna að auka við hraðann og leggja drög að endaspretti. Bara 8 km eftir og ég var alveg búinn að kortleggja hvar og hvenær ég ætlaði að reyna við hraðaaukningar. Á þessum stað fór ég að hugsa um það eitt að klára 2 km í viðbót. Ef ég kæmist þessa tvo km þá væru bara sex eftir og í versta falli myndi ég hoppa þá kílómetra á annarri löppinni. Ég gekk í gegnum næstu drykkjarstöð og drakk meira powerade. Hresstist heldur við þetta og gat aukið hraðann smávegis. Þegar upp var staðið reyndust km 30-35 vera þeir hægustu þannig að hvort sem það var powerade drykkjan eða eitthvað annað þá amk skánaði þetta í restina. Við 36 km erum við farin að hlaupa í gegnum bæinn og frá Söerne. Þarna fann ég að ég gat enn aukið smávegis við án þess að krampinn versnaði. Við 39 - 40 km sá ég allt í einu Rúnar Marinó framundan. Ég náði honum og ætlaði að fylgja honum í markið. Fann að ég gat meira þannig að ég jók ferðina heldur. Hélt mínu að km 41 og hugsaði með mér að ef ég kæmist yfir brúna og beygjuna á þessum hraða án þess að fá krampa þá myndi ég reyna við almennilegan endasprett síðustu 7-800 metrana á Íslandsbryggju. Þegar beini lokakaflinn hófst stækkaði ég skrefin smátt og smátt og fann að kálfinn hélt. Þá varð aftur gaman. Gaman, gaman! Hraðar, hraðar! Það jafnast fátt ef nokkuð við það að eiga í góðan endasprett í fjölmennu maraþonhlaupi. Það er eins og allt annað standi í stað. Aðrir keppendur eru eins og í slow motion og sjálfum líður manni eins og maður sé óstöðvandi – ódrepandi. Maraþonhlaup eru önnur upplifun. Það getur svo margt gerst. Það gerist svo margt.

 

Lærdómur af hlaupinu og undirbúningnum? Muna eftir salttöflum. Athuga fyrirhugaða keppnisskó með góðum fyrirvara. Annars reyndust nýju skórnir í raun alveg frábærlega. Ég fékk engar blöðrur og engin eymsli. Ég var með skó með fullri dempun sem ég hefði ekki verið með ef ég hefði hlaupið á gömlu skónum. En mér finnst líklegt samt að miðað við mínar aðstæður þá hefði ég ekki átt að hlaupa í svona léttum keppnisskóm. Undirbúningstímabilið hljóp ég nánast allt á hlaupabretti. Ég tók eina 21 km æfingu úti. Ég held að mér hafi í hlaupinu verið refsað fyrir að vera búinn að hlaupa of lítið úti og of léttir hlaupaskór hafa ekki bætt málin neitt. Kálfinn einfaldlega réði ekki við þessar aðstæður. Þannig að sennilega er krampinn algjörlega í mínu eigin heimatilbúna boði.

 

En hvað með það? Ég fékk líka allt fyrir peninginn! Fyrri hlutinn leið eins og í draumi og dramatík og barátta í seinni hlutanum  - með endaspretti og allt. Verður nú ekki mikið betra!

Óvæntur bónus í restina að ég náði Boston lágmarkinu fyrir kalla í flokki 45-49. Tímatakmörkin þar í þessum flokki eru undir 3:25. Ég endaði á 3:23:12!

Skrítin tilfinning sem amk fyllir mig að afloknu maraþonhlaupi - söknuður og eftirsjá. En ég veit að fljótlega breytist það – breytist í spennu! Hvar og hvenær á ég að hlaupa næsta maraþon?!


Erlend fjárfesting

Í sumum löndum eru sett fram markmið til lengri tíma um erlenda fjárfestingu. Þau markmið eru kynnt hagsmunaaðilum á skýran hátt og reynt er að hrinda þeim í framkvæmd. Markmiðið er að styrkja innviði viðkomandi samfélags og er litið svo á að samstarf og samvinna út fyrir landsteinana sé betur til þess fallin en haftastefna og einangrun.

Hér að neðan eru tvö dæmi um það hvernig hægt er að koma skýrum skilaboðum á framfæri. Annað dæmið er raunverulegt en hitt er tilbúningur.

 

Doing business in Iceland.

In keeping with the goals enunciated in its National Vision 2030, Iceland has worked to shift its economic and developmental focus away from a reliance on fish and electricity production for aluminum plants by promoting a policy of economic diversification as evidenced by the now internationally recognized brands of Icelandair and Iceland Seafood, and its successful  music festival Iceland Airwaves. Recognizing that the participation of non-Icelandic investors is an integral part of the successful realization of this policy, Iceland continues to implement new legislation aimed at liberalizing the business environment for such investors, and introducing incentives and exemptions that supplements the country’s already considerable investment appeal.

 

Doing business in Qatar

In keeping with the goals enunciated in its National Vision 2030, Qatar has worked to shift its economic and developmental focus away from a reliance on oil and gas by promoting a policy of economic diversification as evidenced by the now internationally   recognized   brands of Qatar Airways and Al Jazeera, and its successful bid to host the 2022 FIFA World Cup. Recognizing that the participation of non-Qatari investors is an integral part of the successful realization of this policy, Qatar continues to implement new legislation aimed at liberalizing the business environment for such investors, and introducing incentives and exemptions that supplements the country’s already considerable investment appeal.


Aftur af stað.

Í gær rifjaðist það upp fyrir mér að þá var liðið eitt ár uppá dag síðan ég var lagður inná spítala og fékk þá greiningu að ég væri kominn með gáttatif í hjarta og yrði að hætta að hlaupa. Ég hélt fyrst að það yrði til allrar framtíðar, að minnsta kosti fullyrti þunglyndispúkinn það. Þá hafði ég allar 11 vikur ársins 2012 hlaupið yfir 100 km á viku. Í 12. vikunni snarhætti ég að hlaupa og þar með var löng samfelld hlaupalota rofin. Nú einu ári síðar í 12. viku ársins 2013 rauf ég aftur 100 km múrinn á einni viku. Jibbíííí!


Ég spáði því í síðasta pistli að hlaupaárið 2013 yrði mér gott hlaupaár. Það er auðvitað of snemmt að segja til um það en byrjunin lofar þó góðu. Frá áramótum hef ég smám saman verið að auka við hlaupin og finn að styrkurinn er að koma smátt og smátt. Hingað til hef ég haldið mig við hlaupabrettin en verður hleypt út í vorið um svipað leyti og beljunum. Þá verður fjör!


Ég hef leyfi frá doktornum til að hlaupa allt að maraþoni. Ekki lengra. Maraþon er reyndar ekkert sérlega holl vegalengd en það ætti að sleppa. Að minnsta kosti sagði hann það ekki þjóna tilgangi að rökræða við mig nánar hvar mörkin nákvæmlega liggja.


Planið í sumar er óplanað. Nú verður það bara látið ráðast hvernig ástandið verður hverju sinni. Taktleysið gerir engin boð á undan sér og þegar það gerist er sá dagur ónýtur til hlaupa. Pilluát kemur því í lag en truflar samt. Truflar samt?! Það er náttúrulega ekki í lagi með mann. Fyrir ári hélt ég að ég myndi aldrei hlaupa framar. Hefði sennilega verið til í að skipta á annarri hendinni og getunni til að hlaupa. Núna ári seinna bölva ég því að geta ekki hlaupið aðeins hraðar og aðeins lengra. Er maður þá bara vanþakklátur andskoti eftir allt saman? Kannski, en samt held ég ekki. Er það ekki bara mannlegt að vilja alltaf reyna aðeins meira?


En hvað um það, nú eru einkunnarorðin þekkt stef: einn dag í einu (og þakka fyrir hann).

 


Áramótahlaupaannáll

Hlaupaárið 2012 hefur verið holóttara en ég átti von á. Það byrjaði ljómandi vel en síðan tók við óregla og það varð bara ekki neitt úr neinu. Reyndar týpísk afleiðing óreglu.

 

Árið fór vel af stað. Í upphafi þess lenti ég í þriðja sæti í vali á hlaupara ársins 2011. Aldeilis ótrúlegt og eitthvað sem hefði aldrei hvarflað að mér þegar ég var að stíga mín fyrstu hlaupaspor á árinu 2008 - og reyndar ekki heldur síðar. En árið 2011 hafði verið mér gott hlaupaár og því voru væntingar fyrir árið 2012 miklar. Ég setti mér háleit markmið fyrir árið 2012 og hugði á þátttöku í mörgum spennandi hlaupum innanlands sem utan.

 

Æfingarnar gengu vel og gáfu góð fyrirheit. Ég var að hlaupa töluvert betur en ég hafði gert á sama tíma ári fyrr. Þegar ekki voru nema um fjórar vikur í Boston maraþonið og bara ein erfið vika í maraþonprógramminu eftir má segja að hlaupaguðinn hafi ákveðið að kenna mér lexíu. Þrekið hvarf eins og hendi væri veifað. Í ljós kom að hjartað var dottið úr takti þannig að það dældi blóði um líkamann með óreglulegum hætti. Ekki heppilegt með tilliti til þolþjálfunar. Að auki varasamt því við þessar aðstæður geta myndast blóðtappar  með óæskilegum afleiðingum. Sem betur fer eru læknavísindin ótrúleg og hægt að bregðast við með ýmsum hætti.

 

Til að koma hjartanu aftur í takt við þessar aðstæður er því einfaldlega gefið rafstuð. En áður en það er gert þarf að þynna blóðið þannig að ekki sé hætta á að mögulegir blóðtappar fari af stað. Það reyndist þrautin þyngri að þynna í mér blóðið og þrátt fyrir heilmikla heimavinnu var ekki hægt að stuða mig fyrr en í lok júlí. Fjórir mánuðir er langur tími að vera kippt fyrirvaralaust úr miklum æfingum í nánast algjört hreyfingaleysi annað en það sem felst í að ganga undir sjálfum sér á milli staða.

 

En hvað um það. Þegar búið var endurræsa dæluna átti nú heldur betur að vinna upp glataðan tíma. Á mánudegi, miðvikudegi og fimmtudegi voru hlaupnir ca 10 km í hvert skipti. Á laugardegi voru hlaupnir um 20 km. Eftir þá æfingu var arkað upp á Esjuna og aftur niður. Á sunnudeginum var legið í sófanum með stokkbólgið og aumt hægra hné. Jæja, maður er bara ekki skynsamari en þetta...   

 

Þetta þýddi stopp í mánuð. Í lok ágúst datt dælan aftur úr takti en nú var hægt að stuða strax því ég er ennþá á blóðþynningu. Aftur var farið í hlaupagallann og í þetta sinn átti að fara varlega. En hnéð var ekki orðið gott. Á annarri eða þriðju æfingu small í hnénu og ljóst að eitthvað hafði gefið sig. Það reyndist vera liðþófi sem var rifinn. Gert var við hann í byrjun september sem þýddi auðvitað að ekkert varð úr frekari hlaupaæfingum að sinni.

 

Í október gat ég loks farið að æfa eitthvað þótt það hafi í byrjun bara verið hjólið og lyftingar sem urðu að nægja. Í nóvember fór ég að láta reyna á hnéð og byrja smátt og smátt. Það gekk reyndar hægar en ég vonaðist eftir að komast á skrið. Þrjár ferðir á rjúpnaveiðar í frekar bröttu fjalllendi eru að vísu ekkert sérlega góð endurhæfing eftir liðþófa viðgerð. En eins og fram er komið er skynsemin ekkert alltaf í framsætinu.

 

Þetta er búið að vera lærdómsríkt og frekar leiðinlegt ár í hlaupalegu tilliti. Það er enginn stikkfrí þótt hann hafi einu sinni komist í gegnum eitthvað. Það getur alltaf komið eitthvað nýtt. Því er eins gott að njóta dagsins þegar vel gengur. Ég veit ekki hvort hlaupin hafa eitthvað með hjartaóregluna að gera. Sumir segja það en aðrir ekki. Mér er alveg sama. Ég ætla samt að reyna að komast aftur af stað. Ég er ekki búinn að hreyfa mig mikið síðustu mánuði en er samt að detta endurtekið úr takti. Það gerist oftast í hvíld þannig að sennilega er hvíld ofmetin. Þar fyrir utan hefur öll þessi hvíld vond áhrif á viktina. Hún segir mér að ég hafi bætt við mig amk 10 ferðafélögum frá því í mars, sem allir eru frekar þunglamalegir. Ég þarf að reyna að hlaupa þá af mér áður en þeir ná í fleiri vini sína.

 

Á æfingu þann 10. desember fór ég loks að finna fyrir einhverjum framförum. Hnéð varð ögn skárra og ég gat hlaupið aðeins hraðar. Smátt og smátt gat ég líka farið að lengja hlaupin þótt ekki væri það mikið. En samt var áfram tröppugangur í þessu og viðbúið að svo verði eitthvað áfram. Stundum er hnéð í óstuði og stundum er það dælan. En inn á milli er þetta bara ágætt. Eftir eina slíka æfingu var ákveðið að taka þátt í gamlárshlaupinu. Markmiðið var fyrst að reyna bara að klára en eftir góðar æfingar þá breyttist það markmið að sjálfsögðu - en einnig eftir lélegar æfingar. En samandregið þá má kannski segja að markmiðið fyrir hlaupið hafi legið á bilinu 50 - 47:30 mínútur.

 

Hlaupið  í dag var að venju bráðskemmtilegt. Töluvert mikill vindur sem hafði sín áhrif og gerði hlaupið erfiðara. Fleiri og fleiri koma uppábúnir í óhefðbundnum klæðnaði. Það er skemmtileg hefð. Mér fannst hlaupið í dag erfitt. Ég fann vel á útleiðinni að mig vantar kraft til að takast á við mótvind og eins þegar brautin fer að halla uppá við. En hvað um það. Ég hafði hlaupafélagann með mér sem dró mig áfram. Þegar við vorum búnir með um 6-7 km gat ég farið að greikka sporið smátt og smátt. Þannig tókst okkur að vinna upp tapaðan tíma og komast „á par" miðað við 5 min tempó. Þegar upp var staðið gerðum við gott betur því við enduðum á ca 48:50. Miðað við allt og allt er það bara fínt og innan þeirra marka sem ég hafði sett stefnuna á.

 

Eins og margir aðrir hlauparar týndi ég niður öllum skráðum æfingum þegar hlaupasíðan hlaup.com var eyðilögð. Ég er því ekki með tölfræði ársins alveg á hreinu eins og fyrri ár og veit því ekki nákvæmlega hvað ég var búinn að hlaupa mikið á árinu þegar ég datt úr takti. Mig minnir samt að það hafi verið nálægt 1.500 km. Ég hef bætt við tæplega 200 km þannig að á árinu öllu eru það þá í kring um 1.700 km. Það er töluvert mikið minna en í fyrra þegar ég fór yfir 4.000 km. Þegar fór að líða á vorið og þrekið aðeins að skána tók ég taktlaus þátt í þremur hlaupum sem voru 5 km eða styttri. Þar háði ég harða keppni við krakka sem náðu mér rétt rúmlega í mitti og annað sóma fólk sem var að taka sín fyrstu skref á hlaupabrautinni. Það var bráðskemmtilegt. Ég tók þátt í einu 10 km hlaupi taktlaus um mitt sumar og var það nú mest til að geta sagst hafa gert það - og hef ég nú sagt það. 

 

Jæja, það er víst ekki mikið meira um hlaupaárið mitt 2012 að segja. Í það minnsta verður það ekki eftirminnilegt fyrir afrek á hlaupabrautinni.

 

En það glittir í hlaupaárið 2013. Eins og veiðimanna er siður þá skiptir engu máli hversu liðið veiðisumar var lélegt - það næsta er alltaf spennandi og verður örugglega gott!

 

 

Gleðilegt ár og skál!

 


Umferðarlottó á Íslandi

Í gær, sunnudaginn 18. nóvember, var alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa.

 

Í gær var ég á leið frá Eyjafirði til Reykjavíkur í frekar leiðinlegu vetrarveðri og færð. Í Húnavatnssýslunum skóf víða yfir veginn og var sums staðar farið að draga í skafla. Sumir þeirra voru orðnir erfiðir yfirferðar, amk fyrir eindrifs bíla. Ég og ferðafélaginn ræddum hversu lítið mætti út af bregða til að bíll sem kæmi á móti lenti þversum á veginum í einum af sköflunum og kæmi beint framan á okkur.  

 

Af því tilefni ryfjaðist upp fyrir mér þáttur sem ég sá í sjónvarpi fyrir viku um veg sem sagður er einn sá hættulegasti í heimi. Um er að ræða 800 km þvert yfir Alaska. Þáttastjórnendur sem óku veginn töldu sig heppna að hafa sloppið lifandi frá ferðalaginu vegna vinds, skafrennings, hálku og umferðar á móti. Mér sýndist Alaskavegurinn, sem NB er ekki opinn almennri umferð, vera um helmingi breiðari en þjóðvegur nr. 1 á Íslandi.

 

Umhugsunarvert?


Vangaveltur vegna gengislánadóma, hringavitleysa.

Ég hef eins og margir aðrir landsmenn fylgst með niðurstöðum dómstóla vegna gengislánadóma. Síðast í gær féll dómur í svo kölluðu P. Árnasonar máli, nr. 66/2012. Þar er því, eins og áður, slegið föstu að ekki skipti máli til hvers hafi átt að nota hið erlenda lán.

 

Þessi niðurstaða sýnist mér fela í sér að bankar muni geta lánað íslenskum lántakendum íslenskar krónur til notkunar á Íslandi en jafnframt tryggt sér gengisbindingu við erlenda gjaldmiðla. Aðeins þarf að gæta að því að hafa texta lánssamningsins réttan og jafnframt byrja á því að lána erlendan gjaldeyri.  Síðan er sett af stað ákveðin hringekja sem nánar er gerð grein fyrir síðar í þessum pistli.

 

Mér sýnist efnisleg niðurstaða hringekjunnar, þar sem raunverulega eru lánaðar íslenskar krónur, í raun stangast á við lögin um verðtryggingu. Ég get þó ekki betur séð en að Hæstiréttur sé að túlka lögin með þeim hætti að þetta sé unnt. Það þurfi einungis að færa lánið í búning erlends löglegs láns – og þá er alfarið litið fram hjá því til hvers eigi að nota lánið eða kannski öllu heldur hvar (á Íslandi í viðskiptum milli íslenskra aðila sem nota krónur sem lögeyri).

 

Í hinum svokallaða Mótormax dómi, nr. 155/2011, var því m.a. haldið fram að heimilt hafi verið að gengisbinda lán í íslenskum krónum skv. 2. gr. l. nr. 38/2001 þar sem það hafi verið til hagsbóta fyrir skuldarann. Því hafnað Hæstiréttur með eftirfarandi rökstuðningi:

 „Um þetta verður að gæta að því að reynslan sýnir ekki aðeins þegar til lengri tíma er litið að gengi íslensku krónunnar fari lækkandi miðað við gengi algengustu erlendu gjaldmiðla, heldur einnig að þessar gengisbreytingar hafa á stundum komið í stökkum og ekki verið fyrirsjáanlegar með löngum fyrirvara. Lán í íslenskum krónum til fimm ára, sem bundið var við gengi erlendra gjaldmiðla, fylgdi því augljóslega töluverð áhætta sem síðar kom í ljós að var í hæsta máta raunhæf...“  

 

Það er fróðlegt að skoða þennan rökstuðning Hæstaréttar og bera saman við umfjöllun í greinargerð með lögum nr. 38/2001 um 14. gr.:  

 

„Nefndin sem samdi frumvarpið var þeirrar skoðunar að opinberar reglur um verðtryggingu fjárskuldbindinga þjónuðu fyrst og fremst þeim tilgangi að verja almennt sparifé og lánsfé landsmanna fyrir rýrnun af völdum innlendrar verðbólgu eins og hún er venjulega mæld, þ.e. sem meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu.“  

 

Með öðrum orðum þá er heimilt að verðtryggja íslensk lán með íslenskri verðtryggingu enda er verðtryggingunni ætlað að bregðast við rýrnun íslensks lánsfjár af völdum innlendrar verðbólgu miðað við breytingar á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu (á Íslandi). 

Miðað við fyrirliggjandi dómafordæmi vaknar sú spurning hvort mögulegt sé að komast fram hjá því að notast við íslenska verðtryggingu og miða frekar við gengi erlendra gjaldmiðla vegna lána sem eru í raun í íslenskum krónum. Eins og segir í Mótormax dóminum hefur sýnt sig að gengi íslensku krónunnar getur lækkað í stökkum og ekki verið fyrirsjáanlegt. Því geta lánveitendur haft af því augljósa hagsmuni að losna við hina séríslensku áhættu og tengja lán til notkunar í íslenskum viðskiptum við erlenda gjaldmiðla. Íslenska verðtryggingin, sem er heimil, getur ekki varið lán gegn miklu verðfalli íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum þótt hún geti varið lán gagnvart breytingu á verði og þjónustu á Íslandi. Er unnt að færa lán sem ætlað er til kaupa á vöru og þjónustu á Íslandi, og þar með í íslensku hagkerfi, í búning erlends „löglegs“ láns? Með öðrum orðum útbúa lánaskjöl til samræmis við það sem dómstólar telja heimilt, greiða lánið inná gjaldeyrisreikning og jafnvel (ekki endilega) fara fram á endurgreiðslur í erlendum gjaldmiðli? Í þessu samhengi skiptir væntanlega máli hvort bankinn geti í raun varið sig. Þarf hann að fá lánið greitt til baka í hinum erlenda gjaldmiðli til að verjast gengisáhættunni eða getur hann varið sig strax í upphafi? Því er haldið fram að bankinn þurfi að kaupa erlendan gjaldeyri til að geta lánað og borgar fyrir það  xx íslenskar krónur. Til að bankinn geti staðið skil á hinum erlenda gjaldeyri sem hann tók að láni til að endurlána þarf hann að fá sömu fjárhæð til baka, þ.e. annað hvort í hinum erlenda gjaldeyri eða nógu margar íslenskar krónur til að geta keypt erlendan gjaldeyri að sömu fjárhæð. Ef langur tími líður þarna á milli getur íslenska krónan hafa rýrnað mikið þannig að mun fleiri íslenskar krónur þurfi til að kaupa sömu erlendu fjárhæð. Þessi rýrnun getur verið mun meiri en íslensk vísitala myndi hafa bætt íslenskt lán. Ef bankinn getur varið sig og í raun strax keypt erlendan gjaldeyri til að endurgreiða upphaflega erlenda lánið sem hann tók til endurlánunar á nánast sama verði þá má líta svo á að bankinn sé búinn að verðtryggja lán til notkunar á Íslandi miðað við gengi erlendra gjaldmiðla en ekki íslenska vísitölu. Þar með fær bankinn fleiri íslenskar krónur en annar banki sem strax í upphafi lánaði íslenskar verðtryggðar krónur.

Til að átta sig betur á þessu er ágætt að setja þetta upp í tveimur mismunandi dæmum:  

 

1. Íslenskt fyrirtæki þarf að fá 10.000 krónur lánaðar hjá banka til að kaupa hús á Íslandi. Fær lánað í íslenskum krónum bundið við íslenska vísitölu. Til einföldunar er lánið greitt í einu lagi í lok lánstímans en vextir fyrir lánið greiddir jafnóðum yfir lánstímann. Eftir 10 ár borgar lántakinn höfuðstólinn til baka. Vegna vísitölubindingar („meðaltalsbreyting á verði í stóru úrtaki vöru og þjónustu.“) þarf lántakinn að greiða til baka 12.000 krónur. Þessar 12.000 krónur eru þá jafnverðmætar og 10.000 krónur voru fyrir 10 árum og stafar mismunurinn af vertryggingunni (verðgildi hverrar krónu hefur rýrnað yfir tímabilið).  

 

2. Íslenskt fyrirtæki þarf að fá 10.000 krónur lánaðar hjá banka til að kaupa hús á Íslandi. Til boða stendur að taka lán í erlendum gjaldmiðli og það almennt talið hagstæðara miðað gengisþróun undangenginna ára. Til að einfalda dæmið er miðað við USD og að 1000 USD jafngildi 10.000 kr. í upphafi. Til frekari einföldunar er gert ráð fyrir að kaup og sölugengi í upphafi sé það sama. Höfuðstóllinn er allur greiddur til baka í einu lagi í lok lánstímans en vextir jafnóðum.  

 

Af stað fer hringekja. Bankinn kaupir 1000 USD af erlendum banka fyrir 10.000 ikr. Bankinn leggur 1000 USD inná reikning íslenska lántakans sem þá skuldar íslenska bankanum 1000 USD (og íslenski bankinn skuldar erlenda  bankanum 1000 USD). Lántakinn þarf að borga fasteignasala 10.000 ikr. Þar sem hann á þær ekki til en á í þess stað 1000 USD þá selur hann bankanum sínum 1000 USD fyrir 10.000 ikr samdægurs. Lántakinn fær í hendur 10.000 ikr og borgar fasteignasalanum. Bankinn fær í hendur 1000 USD frá lántakanum en lætur hann fá í staðinn 10.000 ikr. Lántakinn skuldar því bankanum í raun 10.000 ikr. en vegna hringekjunnar er sagt að hann skuldi bankanum 1000 USD en ekki 10.000 ikr.  

 

Nú er staðan sú að íslenski bankinn er búinn að kaupa af erlendum banka 1000 USD fyrir 10.000 ikr. Hann afhendir lántakanum þessar 1000 USD að láni. Síðan tekur hann samdægurs við þessum sömu 1000 USD og afhendir lántakanum 10.000 ikr. Þennan sama dag og bankinn keypti 1000 USD fyrir 10.000 ikr af erlenda bankanum getur hann borgað erlenda bankanum til baka þessar 1000 USD (ath ekki er gert ráð fyrir mismunandi sölu og kaup gengi í dæminu). Þá skuldar íslenski bankinn erlenda bankanum ekkert. Hins vegar hefur íslenski bankinn raunverulega afhent íslenska lántakanum 10.000 ikr. sem lántakanum ber að greiða verðbættan eftir 10 ár. En með þessari hringekju eru þessar 10.000 ikr ekki bundnar við íslenska vísitölu heldur gengi erlends gjaldmiðils.  

 

Eins og fram kom í Mótormax dóminum sýnir reynslan að gengi ikr getur lækkað mikið gagnvart erlendum gjaldmiðlum og jafnvel í stökkum og verið ófyrirsjáanleg – eins og raunverulega gerðist. Þegar 10 ára lánstíminn er liðinn er því staðan sú hjá þessum lántaka að í stað þess að þurfa að greiða 12.000 ikr. eins og  lántakinn í dæmi 1 þarf hann að greiða 20.000 ikr. Þegar upp er staðið í þessu dæmi fær því bankinn mun fleiri ikr til baka en í dæmi 1 og þar sem hann skilaði 1000 USD sem hann fékk lánaðar hjá erlenda bankanum samdægurs þarf hann ekki að kaupa 1000 USD að lánstíma loknum fyrir 20.000 ikr. Bankinn fær því 8.000 kr. meira í vasann en ef hann hefði ekki notað þessa hringekju. Þetta segir Hæstiréttur að sé í lagi.

Kók og/eða pepsí.

Ég man ekki hvernig það byrjað en mér fannst bragðið gott. Svona mátulega sykrað fyrir mig og einhvern veginn bara „passlegt“. Ég man eftir því í sveitinni að þegar ég komst í bæinn þá var hægt að kaupa þessar guðdómlegu eins lítra flöskur sem voru fullar af svörtu kólagosi. Ég smyglaði þessu heim í sveitina og tókst að fela í búrinu innan um tunnur með súrum sláturkeppum og öðru sveitagóðmeti þar sem síst var von á nýmóðins „heilsudrykkjum.“ Á milli verka þá laumaðist ég stundum inn í kompu og fékk mér gúlsopa af ískaldri kók. Það var nú aldeilis góður sopi! Þessu deildi ég með engum. Þetta var mitt! (gollum syndrom?!). Ég fylgdist mjög nákvæmlega með því hvort lækkaði í flöskunni á milli sopa eða ekki. Mér til óblandinnar ánægju komst ég að því að sennilega vissi enginn um leyndarmálið mitt nema ég. Ég sjálfur réði því hver drakk úr flöskunni! Þannig liðu unglingsárin. Ég fékk mitt „dóp“ í sveitasjoppunni á milli bæjarferða án þess að vekja nokkra eftirtekt.

 

Ég fór í MA. Árin þar liðu fljótt við glens og glaum. Ég man eftir árunum á Eyrinni þar sem ég vaknaði upp á nóttunni til að fara niður og fá mér einn gúlsopa af „svarta kókinu“ (sem þá var orðið Pepsí). Ég fór í HÍ og alltaf fylgdi mér þörfin fyrir svart gos - en gos er auðvitað bara gos.

 

Ég lenti í vandræðum. Allt í einu fór ég að eiga í vandræðum með að koma niður sumum fæðutegundum.  Það var erfitt að kyngja. Sérstaklega átti ég í vandræðum með sumt fuglakjöt og einnig aðra fæðu. Það kallaði á rannsóknir. Þær sýndu lítið og það jafnvel þótt reynt væri að útvíkka vélindað með þar til gerðum aðferðum.

 

Fyrir áeggjan eiginkonunnar þá prufaði ég að draga úr neyslu kóladrykkja. Hvort sem það var því að þakka eða einhverju öðru þá allt í einu hættu kyngingarvandamálin. Að sjálfsögðu trúði ég því ekki að þetta gæti verið tengt við mína eigin neyslu þannig að ég hóf aftur að drekka kóladrykki eins og áður. Ekki leið á löngu þar til allt var komið í sama horf. Þá hætti ég aftur að neyta kóladrykkja. Einhverra hluta vegna batnaði strax kyngingarvandamálið. Síðan þá hef ég í nokkur skipti gert tilraunir á sjálfum mér og alltaf er niðurstaðan sú sama. Ef ég drekk kóladrykki þá byrja kyngingarvandamálin (ég get drukkið aðra gosdrykki og/eða vatn með gosi án þess að það hafi áhrif).

 

Ég drakk kóladrykki í miklu magni frá því að ég var 14-15 ára gamall þar til ég var ca. 30 ára gamall. Sennilega hef ég drukkið á bilinu 1 – 2 lítra á dag, meira síðari hluta tímabilsins.

Ég veit ekki hvort þessi kóla drykkja hefur haft önnur heilsufarsáhrif á mig – en kannski?
  

 

http://cocacolapoison.com/

 

 


Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónusta lakari árið 2012 en 2009?

Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónusta lakari árið 2012 en 2009 skv. vísitölu notenda heilbrigðisþjónustu í Evrópu (Euro Health Consumer Index– EHCI)?

 

Í maí sl. birtist frétt á heimasíðu Velferðarráðuneytisins þar sem sagt var frá niðurstöðum EHCI fyrir árið 2012 um gæði heilbrigðisþjónustu í 34 löndum Evrópu. Fréttin virtist ekki vekja mikla athygli en þar var réttilega bent á að Ísland sæti í 3 sæti listans yfir gæði heilbrigðisþjónustunnar í umræddum löndum (með 799 stig af 1000 mögulegum). Á það var bent að Ísland héldi sæti sínu frá sambærilegri könnun frá árinu 2009 (þá með 811 stig af 1000 mögulegum).

 

Þegar skýrsla EHCI er skoðuð nánar kemur í ljós að full ástæða er til að gefa henni betri gaum. Það má sjá vísbendingar um að gæði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi séu að verða lakari í samanburði við mörg önnur (ekki öll) lönd Evrópu á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt vekja skýrsluhöfundar athygli á því að blandað kerfi greiðslu og þjónustu (greiðsla og þjónusta ekki á sömu hendi) virðist mögulega vera að sanna sig sem árangursríkasta kerfið við veitingu heilbrigðisþjónustu.

  

Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

 

Þótt Ísland sitji ennþá í þriðja sæti listans er Ísland aðeins eitt af þremur löndum á topp tíu listanum þar sem stigafjöldinn lækkar á milli áranna 2012 og 2009. Hin tvö löndin eru Sviss (-19 stig) og Frakkland (- 12 stig). Önnur ríki á topp tíu listanum og þar á meðal öll hin ríki Norðurlandanna hækka stigatölu sína (frá + 3 stigum í Danmörk sem situr aftur í öðru sæti listans með 822 stig og upp í + 31 stig sem er Finnland og síðan eru Noregur með + 16 stig og Svíþjóð + 13 stig). Þróunin er því verst á Íslandi þegar litið er til gæða heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlöndum á þessu þriggja ára tímabili.

 

Á það er bent sérstaklega í skýrslu EHCI að svo virðist sem heilbrigðisþjónustan í þeim löndum sem harðast hafa orðið úti í fjármálakreppunni hafi ekki orðið lakari að ráði. Er það útskýrt þannig í skýrslunni að erfitt geti verið að stjórna læknum og þeir séu almennt ekki mjög viljugir að hlusta á embættismenn og pólitíkusa og fórna þannig hagsmunum sjúklinga. Eitt helsta einkenni íslenskrar heilbrigðisþjónustu, að mati yfirmanns EHCI, eru umframafköst hennar sem tryggja góða þjónustu. Helsta skýringin á þessu er talin sú staðreynd að langflestir íslenskir læknar þurfa að sækja sérmenntun sína til annarra landa. Þeir snúi síðan til baka með menntun sína og ekki síst tengslanetið sem geri að verkum að þeir geta tryggt sjúklingum sínum bestu þjónustu þótt það gerist ekki endilega á Íslandi.

 

Eins og bent hefur verið á undanfarin misseri hefur dregið úr komum íslenskra sérfræðilækna aftur til Íslands að sérnámi loknu. Þá virðist færast í vöxt að bæði hjúkrunarfræðingar og læknar leiti fyrir sér með störf annars staðar á Norðurlöndum. Það er athyglisvert að í skýrslu EHCI er tekið fram að aðeins sé einn spítali á Íslandi og því sé ekki hægt að raða íslenskum spítölum í gæðaröð – sem er einn mælikvarðinn á gæði heilbrigðisþjónustu skv. skýrslunni. Því ætti það að vera sérstakt kappsmál að búa þennan eina spítala, sem stenst mál skv. skýrslunni, fullnægjandi tækjakosti og annarri aðstöðu. Þá vaknar enn og aftur sú spurning hvort þessi eini spítali gæti haft gott af auknu aðhaldi þótt ekki væri nema á afmörkuðum sviðum, hvort sem sú samkeppni kæmi frá ríkisrekinni stofnun eða einkarekinni?

 

Það er mikilvægt að spyrna strax við fótum því hætt er við að það geti tekið nokkurn tíma að snúa skútunni aftur á rétta braut. Af ýmsum fréttum að dæma steðjar margskonar vandi að íslenska heilbrigðiskerfinu. Má þar t.d. nefna aukna ásókn erlendra spítala í okkar besta heilbrigðisstarfsfólk, yfirlýsingar pólitíkusa um einhæfari rekstrarform, lélegan tækjakost á Landspítalanum og fjárhagsvandræði minni stofnana úti á landi. Að óbreyttu er því hætt við að nokkuð sé í land til að hægt verði að breyta um stefnu í íslenskum heilbrigðismálum og raunveruleg hætta er á að við höldum ekki 3ja sætinu í næstu mælingu EHCI.

  

Blandað kerfi betra?

 

Í skýrslunni er athyglin sérstaklega dregin að Hollandi sem ár eftir ár situr á toppnum og eykur forskot sitt. Á það er bent að í Hollandi er blandað kerfi þar sem fleiri tryggingafélög keppa á markaði um að veita heilbrigðistryggingar. Ekkert samband er á milli tryggingafélaganna og þjónustuveitenda, ríkisrekinna jafnt sem einkarekinna. Ákvarðanir um hvaða þjónustu er þörf á hverju sinni eru í meira mæli teknar af sérfræðingum á heilbrigðissviði með þátttöku sjúklinga sjálfra og samtökum þeirra.

  The Netherlands example seems to be driving home the big, final nail in the coffin of Beveridge healthcare systems [greiðsla fyrir þjónustuna og veiting þjónustunnar á sömu hendi, t.d. á Norðurlöndum], and the lesson is clear: Remove politicians and other amateurs from operative decision-making in what might well be the most complex industry on the face of the Earth: Healthcare!”  

Í skýrslunni er bent á að þrátt fyrir að Hollenska kerfið (svokallað „Bismarck“ kerfi) virðist skila betri árangri þá hafi þó lítil lönd eins og Norðurlöndin náð góðum árangri með „Beveridge“ kerfinu. Það er skýrt á þann hátt að þar sem löndin séu svo fámenn, og þar með heilbrigðiskerfin lítil, þá geti stjórnendur þrátt fyrir allt náð utan um verkefni sín. Hættan við „Beveridge“ kerfið sé þó sú að stjórnendur, bæði pólitíkusar og embættismenn, missi sjónar af hagsmunum sjúklinganna sjálfra og fari að beina sjónum sínum í of miklu mæli að hagsmunum kerfisins sjálfs, sem þeir hafa jafnvel tekið þátt í að koma á.

Þá er bent á að í þeim kerfum þar sem þjónustan og greiðslan er á sömu hendi þá virðist sem áherslur stjórnenda snúi frekar að því að mæla það sem sett er inn í kerfin (e. input, t.d starfsmenn og hvers konar kostnaður) í stað þess að horfa meira á að mæla þann árangur (e.output) sem næst með þjónustunni. Sérstaklega þá með því að tengja saman kostnað við árangur og finna þannig mælikvarða sem mæla framleiðni, gæði og nýtni miðað við kostnað.

Tíu taktlausir kílómetrar - og aftur í takt!

ARM2012_388Inngangur

 Fyrir flesta er 10 km keppnishlaup erfitt. Hver og einn keppir á sínum forsendum. Sumir eru að berjast um verðlaunasæti á meðan aðrir eru að eiga við einhver ákveðin markmið. Að bæta sig, komast undir einhvern ákveðinn tíma, koma sér aftur af stað, vera á undan hlaupafélaganum eða bara hreinlega að klára hlaupið. Þessi pistill er um að klára hlaupið – í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

 

Þeir sem fylgst hafa með þekkja forsöguna. Ég hef aðeins verið að gæla við þá hugsun hvort ég geti klárað 10 km hlaup. Á mánudaginn þann 9. júlí fór ég af stað með hundana upp Flatirnar og ætlaði að skokka mína 5 km. Þegar til kom var veðrið gott og mér leið vel þannig að ég endaði á því að hlaupa upp að Vífilstaðavatni og heim aftur. Þá voru komnir 6 km og ég var bara býsna sprækur. Ég skilaði því hundunum inn og ákvað að hlaupa af stað og sjá hversu langt ég kæmist áður en ég teldi ráð að snúa við. Þetta gekk vel og ég kláraði 10 km. Tíminn auðvitað ekki merkilegur en það skipti svo sem ekki máli; 1 klst. 1 mínúta og 39 sec, púlsinn 178/203.

 

Þetta var bara fínt þannig að ég tók þá ákvörðun að skrá mig í Ármannshlaupið. Ég setti mér þrjú  markmið fyrir hlaupið. Fyrsta markmiðið að klára. Annað markmiðið var að reyna að halda meðalpúlsi undir 190 og helst ekki fara mikið yfir 200. Síðasta markmiðið var að reyna að klára á undir klukkutíma en það var þó háð fyrri tveimur markmiðunum.

 

1. kafli

 

Gott veður og fín stemning fyrir hlaupið. Met þátttaka, ný braut og við Kári Steinn báðir með. Spennandi! Þegar kallað var að startlínunni stilltum við Kári okkur báðir upp á réttum stöðum, hann við startlínuna og ég við hina „línuna“, aftast.

 

Skotið reið af og hersingin liðaðist af stað. Ég vissi að það hentaði mér vel að byrja aftarlega. Bæði til að láta ekki hrífast of mikið með í upphafi og eins vegna þess að fyrsti kílómetrinn er yfirleitt frekar þungur. Það er eins og það taki nokkur hundruð metra fyrir pumpuna að átta sig á því hvað hún á að fara að gera.

 

1. km hlaupinn á 5:32 og púlsinn 170/212. Nokkuð gott og heldur hraðar en ég átti von á að geta hlaupið. En eins og venjulega rauk púlsinn frekar hátt upp í byrjun en hann jafnaði sig á tiltölulega skömmum tíma.

 

2. kafli

 

Nú var málið að reyna að stilla hraðann og halda púlsinum góðum. Á þessum kílómetra fer brautin að verða aðeins upphallandi. Brekkur þótt litlar séu eru versti óvinur pumpunnar þannig að ég vissi að hér yrði ég að fara varlega.

 

2. km hlaupinn á 5:21 og púlsinn 191/214. Þetta var bara í lagi, brekka og allt.

 

3. kafli

 

Á þessum kílómetra var aðeins eftir af brekkunni en síðan kláraðist hún og við beygðum inná Sæbrautina og þar snéri brekkan við og var í hina áttina sem var alveg hreint ljómandi.

 

3. km hlaupinn á 5:20 og púlsinn 182/191. Aldeilis gott, búinn með brekkuna og náði að stilla púlsinn vel af seinni hlutann þegar brekkan snéri í rétta átt.

 

4. kafli

 

Á þessum kílómetra mættum við Kára Steini sem var að koma til baka. Þvílík sigling á drengnum. Undanfarinn á hjólinu mátti hreinlega hafa sig allan við til að tefja ekki fyrir honum. Kári Steinn hvarf á augabragði og það leið alveg ótrúlega langur tími þar til við sáum næstu menn á eftir honum sem þó eru engir aukvisar.

 

4. km hlaupinn á 5:25 og púlsinn 185/195. Hér var ég fyrst og fremst að hugsa um passa púlsinn því enn voru 6 km eftir. Ég var samt farinn að gæla við það að með þessu áframhaldi ætti ég að geta haldið meðalpúlsi undir 190 og meðalhraða í kring um 5:30 og komast þannig undir 55 mínútur.

 

5. kafli

 

Fram að þessu hafði ég lítið verið að fara fram úr öðrum hlaupurum, ef frá er skilinn fyrsti kílómetrinn, en á þessum kafla þá annað hvort fór að draga af sumum hlaupurunum í kring um mig eða sporið hjá mér fór aðeins að léttast.

 

5. km hlaupinn á 5:17 og púlsinn 189/200. Þetta var í lagi.

 

6. kafli

 

Hlaupið hálfnað, mér leið vel og púlsinn í lagi. Getur ekki verið betra! Mér leið eins og hrossi á heimleið og skeiðaði af stað til baka. Á þessum kafla fór ég fram úr býsna mörgum hlaupurum og enginn náði mér. Þetta er lífið - að bruna áfram með vindinn í hárinu og tæta og trylla (!).

 

6. km hlaupinn á 5:09 og púlsinn 194/217 – úpps! Jæja það var auðvitað, gleymdi mér aðeins í gleðinni. Nú varð augljóslega að taka skynsemina á þetta og hægja aðeins á aftur. Ennþá fjórir kílómetrar eftir og brekkan á 8. km í öfuga átt.

 

7. kafli

 

Frekar fúlt að þurfa að hægja aftur á sér og heyra í hlaupara nálgast og fara fram úr. En hvað um það – skynsemin ræður. Ég gaf honum nú samt auga og ákvað að muna hvernig bakhlutinn á honum liti út þannig að ef ég sæi hann á endasprettinum mætti kannski athuga með smá atlögu.

 

7. km hlaupinn á 5:17 og púlsinn 189/209. Þetta var nú eiginlega bara betra en ég þorði að vona. Meðalpúlsinn kominn undir mörkin og hámarkspúlsinn væntanlega frá því í byrjun kílómetrans áður en ég fór að slá af.

 

8. kafli

 

Á þessum kafla náðu tveir hlauparar mér til viðbótar. Bölvað. Þá var ég búinn að missa þrjá hlaupara fram úr mér frá snúningspunkti. En hér var auðvitað „brekkan“ góða sem var svo ljómandi fín í hina áttina og ég varð að gæta mín. Það var þó huggun harmi gegn að hugsa til þess að brekkan sem tæki við á næsta kílómetra snéri í rétta átt og þá væri kannski lag að bæta aðeins í og reyna að ná þeim aftur.

 

8. km hlaupinn á 5:14 og púlsinn 197/212. Þetta var óvænt. Hraðinn bara nokkuð góður og miðað við það að vera að hlaupa upp brekku þá var púlsinn ekkert svo slæmur – og bara tveir kílómetrar eftir!

 

9. kafli

 

Jæja þetta leit bara vel út. Þegar ég var kominn upp brekkuna hélt ég sama hraða til að byrja með. Ætlaði síðan að greikka sporið þegar brekkan niður byrjaði. Ég náði fljótt stráknum sem hafði farið fram úr mér á leiðinni upp hina brekkuna og síðan stelpunni. Hún ætlaði hins vegar ekkert að hleypa einhverjum karlfauski fram úr sér og bætti í. En þar sem skriðþunginn hjá mér var meiri þá varð hún að gefa eftir. Skömmu seinna skeiðað ég fram úr þeim sem fyrstur hafði farið fram úr mér á bakaleiðinni. Þetta var keppnis. Mitt eigið keppnis.

 

9. km hlaupinn á 4:50 og púlsinn 203/213. Kannski aðeins of hár en þar sem stutt var eftir átti þetta að vera í lagi.

 

10. kafli

 

Þegar niður brekkuna var komið og einn kílómetri eftir fylgdist ég vel með púlsinum. Mér til bæði furðu og ánægju þá lækkaði hann jafnt og þétt. Ég hélt því áfram að bæta aðeins í og hélt áfram að fara fram úr öðrum hlaupurum. Þegar ég kom úr síðustu beygjunni sá ég framundan 5-6 hlaupara í hnapp sem nálguðustu hringtorgið. Ég sá að ég átti alveg möguleika á að ná þeim þannig ég herti vel á mér síðustu 100 metrana og fór fram úr þeim.

 

10. km hlaupinn á 4:37 og púlsinn 191/221. Síðustu 100 metrarnir hlaupnir á 15 km hraða og púlsinn 192/204. Stórfínt!

 

Niðurstaða

 

Það er ekki ónýtt að fá tækifæri til að taka þátt í sama hlaupi og Ólympíufari. Ég efast um að í mörgum öðrum íþróttagreinum en götu- og víðavangshlaupum fái óbreyttir áhugamenn að spreyta sig „í keppni“ við atvinnumenn og þá allra bestu.

 

Það var kannski óþarfi af mér að gefa Kára Steini þetta forskot í startinu. En þetta hefði víst samt ekki orðið neitt spennandi. En ég náði negatívu splitti – ekki hann!

 

10 km hlaupnir á 52:33 og púlsinn 188/221, 250. sæti. Öll markmið dagsins í húsi!

  

In Fine

 Nú eru fimm mánuðir síðan ég datt úr takti. Okkar frábæru heilbrigðisstarfsmönnum fannst nóg komið. Ég var stuðaður í dag og hrökk í takt. Nú hefst alvöru endurhæfing, tikk, takk, tikk, takk .......  

ARM2012_387ARM2012_388ARM2012_389

  

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband