Áramótahlaupaannáll 2022

Jæja enn einn pistillinn að loknu hlaupaári. Þetta ár var ekkert spes á hlaupabrautinni og í raun það lakasta síðan 2012. Í síðasta pistli fyrir ári síðan setti ég fram þær væntingar að geta hlaupið meira en 3000 km á árinu, í stað þess að rétt skríða yfir 2000 km síðustu tvö Covid ár. En það fór öðru vísi en ætlað var. Hafði sloppið við Covid pestina fram að þessu ári en kvikindið náði mér þrisvar í ár. Fyrst um miðjan febrúar sem gerði að verkum að ég hljóp mjög lítið í næstum því mánuð. Í annað skiptið í byrjun ágúst og þá náði paddan mér hressileg þannig að ég fékk ferð með þar til gerðu ökutæki á spítala og fékk að rifja upp kynni af misgóðum spítalamat. Þetta þýddi að sjálfsögðu að hlaupaæfingar voru fáar í ágúst og september. Í þriðja skiptið náði paddan mér helgina fyrir jól. Það var alveg týpískt. Var þá rétt einu sinna að komast af stað aftur og búinn að ná 5 æfingum eftir um sex vikna stopp vegna hjartavesens. Af þessu tilefni var mér bent á að það gæti verið góð hugmynd að setja saman stýrihóp um endurskoðun á þjónustuhandbók um viðbrögð við Covid veikindum. Vonast ég til að slík vinna komi í framtíðinni í veg fyrir fyrirséð en alveg óvænt veikindi af þessum sökum.

En sem sagt, ég datt úr hlaupagírnum í lok október í haustmaraþoninu. Síðasti leggurinn í hlaupinu var óvenju erfiður og þurfti ég að labba þær litlu brekkur sem eru á leiðinni frá Ægissíðunni og í mark. Þess hef ég nú ekki þurft hingað til. Og ofan á þreytuna sýndist mér hlaupaúrið hafa bilað þar sem púlsmælirinn fór alveg í ruglið. Ég áttaði mig síðan ekki á því fyrr en daginn eftir að það var ég sjálfur sem hafði farið alveg í ruglið því ég var dottinn úr takti. Ekki dugði að bryðja viðbótar hjartatöflur þannig ég hélt áfram að vera taktlaus. Að sumra mati er ég það nú alltaf hvort sem er. En hvað um það ég fór í rafvendingu um miðjan nóvember og komst þá loksins aftur í takt. Mátti samt ekki gera neitt skemmtilegt alveg strax og rétt náði síðustu rjúpnahelginni sem blessunarlega var fyrstu helgina í desember en ekki þá síðustu í nóvember eins og verið hefur síðustu ár. Þannig að þetta þýddi hlaupastopp í næstum sex vikur.

Mér telst til að hlaupnir kílómetrar þetta árið nái ekki einu sinn 1700. Það er minnsta magn síðan 2012 þegar ég var rúmlega 6 mánuði úr takti. En þetta var nú samt ekki alslæmt hlaupaár. Í maí sl. kláraði ég að hlaupa vegalengdina umhverfis hnöttinn, sem er 40.075 km um miðbaugslínu. Það var skemmtilegt að ná því og fínt að vera byrjaður á umferð tvö. Nema ég fari núna nýja leið og miði við vegalengdina með því að fara um pólana. Það er kannski gáfulegt því sú leið er víst um 43 km styttri. Maður er víst ekkert að yngjast.

En talandi um hlaupin, sem þessi pistill á að vera um, þá náði ég þó að trekkja í 4 maraþon á árinu þrátt fyrir skakkaföll. Eftir árið lít ég svo á að ég sé að verða búinn að mastera maraþonhlaup með því að taka bara tvær til þrjár langar æfingar í undirbúning. Það er reyndar ekkert sérlega skynsamlegt ef verið er að hugsa um einhverja tíma en nægjanlegt til að geta verið með og skemmt sér með hlaupafélögunum. Ég tók þátt í vormaraþoninu einu sinni sem oftar og einnig haustmaraþoninu eins og ég er búinn að nefna. Mér telst til að ég sé núna búinn að hlaupa þá braut í keppnismaraþonum 11 sinnum og er þetta sú braut sem ég hef oftast hlaupið heilt maraþon. Reykjavíkurmaraþonbrautin er sú braut sem ég hef hlaupið næst oftast eða 6 sinnum. Þá braut mun ég víst ekki hlaupa aftur þar sem búið er að breyta henni. Það stóð auðvitað til að hlaupa nýju brautina í sumar en eftirköst Covid pestarinnar komu í veg fyrir það. Ég skráði mig í tvöfalda Vesturgötu í sumar og ætlaði að hlaupa hana. En mér tókst sjálfum að koma í veg fyrir það með ógætilegri meðferð á sláttuorfi í sveitinni. Mér varð alveg hugsað til Sigga P sem hefur predikað það í mörg ár að gera ekkert ógáfulegt líkamlega rétt fyrir löng keppnishlaup. Ég fékk sem sagt hressilega í bakið og gat varla gengið þegar Vesturgatan fór fram. Ég hef svo sem aldrei reynt að halda því fram að ég sé beittasti hnífurinn.

En í vor þegar ég var búinn með vormaraþonið þá var ég bara í þokkalegu standi þannig að ég skellti mér í Mývatnsmaraþonið í annað skiptið um ævina. Það var bráðskemmtilegt í góðu veðri. Þegar ég var á leið að startlínu með Ívari Adolfs tókum við Þjóðverja tali sem virtist nokkuð sprækur og á okkar reki. Við auðvitað spurðum hann hvort hann væri búinn að hlaupa mörg maraþon og sagðist hann vera búinn með 15. Okkur fannst það nú bara nokkuð gott hjá honum. Alveg þangað til hann bætti því við að það væri bara á þessu ári. Já og flest þessi hlaup voru á tíma nálægt þremur klukkustundum. Það er bara önnur deild en við erum í og bara gaman að því!

Fjórða maraþonið sem ég hljóp á árinu var rauðvíns maraþonið í Medoc í Frakklandi þann 10. september. Bjössi læknir var reyndar búinn að banna mér að taka þátt í hlaupinu þar sem ég væri ekki búinn að klára eftirköst Covid. Ég brá því á það ráð að fá álit hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni, landsþekktum sjúkranuddara, og hann var alveg sammála mér um að það hlyti að gera mér gott að hlaupa rauðvínsmaraþon. Sem það auðvitað var. Þetta er náttúrulega þannig hlaup að þarna er markmiðið að hlaupa eins hægt og mögulegt er og njóta allra þeirra veitinga sem boðið er uppá á leiðinni. Til að gera langa sögu stutta þá er þetta skemmtilegasta maraþon sem ég hef tekið þátt í af þeim 50 sem ég hef hlaupið á ferlinum. Og þegar er búið að setja stefnuna á að hlaupa þetta hlaup aftur 2024.

Já 50 maraþona ferill. Ekki merkilegt í sjálfu sér og alls enginn ferill sem slíkur. En ferðalag. Og ferðalög. Maður minn lifandi hvað þessi hlaupa baktería hefur gefið mikið af skemmtilegum minningum, skemmtilegum hlaupafélögum og skemmtilegum stöðum að heimsækja. Þegar ég hugsa um það þá er partur af þessu öllu saman, og kannski drifkraftur, þetta blessaða heilsuvesen á mér. Ég fór ekki að hlaupa skipulega fyrr en eftir að ég greindist með blóðkrabbann. Þá m.a. til að geta fylgst betur með líkamsástandinu. Hvort blóðkrabbinn væri að fara af stað aftur. Enda vissi ég það sumarið 2018, áður en ég fékk niðurstöðu úr blóðsýnum, að það væri farið að styttast í aðra lyfjameðferð. Síðan hefur hjartað reglulega látið vita af sér og nú síðast bara fyrir fáum vikum. Það hefur því verið mitt hlutskipti að þurfa reglulega að vera að byrja uppá nýtt. Viðurkenni það alveg fúslega að stundum er þetta pirrandi og hefur truflað þegar markmiðið var að reyna að ná í einhverja tíma. En á hinn bóginn þá þekki ég orðið vel muninn á því að vera í litlu formi og í góðu formi til að geta hlaupið maraþon. Það lærist að það þarf ekkert endilega að hlaupa maraþon hratt til að geta notið þess. Það er samt staðreynd að það er auðveldara að hlaupa maraþon hratt ef maður er í formi til þess en að hlaupa maraþon hægt og vera ekki í formi til þess. Þess vegna er mikilvægt að reyna að finna þennan gullna meðalveg með að geta verið amk í þokkalegu formi til að geta hlaupið maraþon og haft þar af leiðandi meira gaman af því. Í mínum huga er þetta því alltaf sama keppnin, óháð endanlegum tíma, sem er að reyna að hlaupa hlaupið sem jafnast fyrri helminginn og þann seinni. Ef ég næ að hlaupa seinni helminginn ekki hægar en 4-5 mínútum hægar en fyrri helminginn þá er ég ánægður með útfærsluna. Þar sem maður er auðvitað hálfgerður njörður á þessu sviði þá á ég tölfræði yfir þetta. Ég hef 8 sinnum hlaupið á negatívu splitti, þ.e. seinni helminginn hraðar en þann fyrri. Og til viðbótar þá hef ég hlaupið 12 sinnum þannig að minna en fimm mínútum hefur munað á fyrri og seinni helmingi og þar af 5 sinnum þannig að munaði innan við 2 mínútum. Önnur hlaup hafa gengið alla vega og á ég ýmsar skrautlegar afsakanir til útskýringar í excel skjalinu mínu góða. T.d. má nefna tak aftan í læri eftir 10 km, mótvindur í 41 km, blóðrásarvesen niður í lappir eftir 12 km, farið af stað meiddur, mjög heitt, krampi í rasskinn eftir 25 km og í annað skiptið eftir 28 km (þetta er vondur staður til að fá krampa), stíf vestanátt (fyrri helmingur hlaupinn undan vindi og sá seinni á móti), slæmska í mjaðmakúlu, langt flug rétt fyrir hlaup, með gamla, skurðferð, illa æfður og datt úr takti.

Að baki eru nú 50 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum. Já og Madagascar sem sumir kalla áttundu heimsálfuna!

Markmið næsta árs eru þau sömu og síðasta ár og reyna að hlaupa meira en í ár og helst fleiri maraþon. Ég er með á dagskránni að hlaupa maraþon í Helsinki næsta vor og klára þar með að hlaupa maraþon í öllum höfuðborgum Norðurlanda. Það væri gaman að ná því.

Ég hleyp af því að ég get það. Og þegar ég get.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband