23.2.2023 | 09:26
Er forysta Eflingar að segja sig úr lögum við íslenskt samfélag?
Þannig að því sé til haga haldið þá fela skrif þessi ekki í sér neina afstöðu til þess hvað séu sanngjörn laun fyrir hvaða starf sem er í íslensku samfélagi. Hér er horft á formið, regluverkið, sem íslenskt samfélag hefur á áratugum sett upp. En kannski snýst núverandi deila í raun um að verið sé að reyna að kollvarpa þessu regluverki? Takist það geta afleiðingarnar verið ófyrirséðar. En kannski er það tilgangurinn? Getur íslenska réttarríkið staðið af sér slíkt áhlaup?
En um hvað snýst þá efnislega deilan?
Snýst hún um að Eflingarfólk hafi það svo mikið verra en aðrir að rétt sé að láta sverfa til stáls núna þegar verið er að reyna að semja til skamms tíma? Er Eflingarfólk Eyland á vinnumarkaði sem réttlætir aðra nálgun viðsemjenda þeirra? Ekki skv. því sem aðrir forkólfar launþegasamtaka segja. Kostar það atvinnulífið einungis 6 milljarða að ganga að kröfum Eflingar eins og sums staðar er haldið fram? Ekki skv. því sem forkólfar annarra stéttarfélaga segja. Þeir segja sjálfir að þeir muni koma á eftir með uppfærðar kröfur sínar.
Það þýðir með öðrum orðum að mikil hætta er á aukinni verðbólgu og rýrnun kaupmáttar almennings og auknu atvinnuleysi. Það er staða sem Seðlabankastjóri og fleiri hafa varað við. Til að bregðast við þessari mögulegu sviðsmynd hafa samninganefndir SA og launþegasamtaka samið til skamms tíma fyrir um 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Þar af hafa náðst samningar við 18 af 19 aðildarfélögum SGS. Efling stendur eitt eftir samningslaust.
Þeir sem stjórna Eflingu virðast hafa valið sér það hlutskipti að gera alla að andstæðingum sínum sem ekki eru sammála þeim. Þar með talið SA og aðildarfélögum sem eru viðbjóðsleg og eru að sögn að fremja níðingsverk þegar þau voga sér að nýta sér lögbundinn rétt til að bregðast við verkföllum. Skipaður sáttasemjari þegar hann reynir að nýta sér lögbundinn rétt til að miðla málum. Félagsdómur þegar hann dæmir ekki að skapi þeirra sem stjórna Eflingu vegna uppsagnar trúnaðarmanns VR hjá Eflingu. Ritari stjórnar Eflingar sem vill láta reyna á rétt félagsmanna til að kjósa um miðlunartillögu sáttasemjara. Varaformaður Eflingar sem upplýsir félagsmenn um að reglugerð vinnudeilusjóðs Eflingar, sem sett er af þar til bærum aðila sem er aðalfundur félagsins, kveði á um rétt félagsmanna til greiðslna komi til verkbanna þegar félagið á í vinnudeilum. Fyrrverandi starfsmenn Eflingar á skrifstofu félagsins. Aðrir forkólfar verkalýðsfélaga sem stóðu að gerðum samningum við SA fyrir hönd um 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði.
Það er athyglisvert að sjá lögmann ASÍ halda því fram að breytingarnar á vinnulöggjöfinni árið 1996 sé afrakstur af langri og erfiðri deilu sem hafi endað með sátt það ár. Að löggjöfin hafi þjónað okkur afskaplega vel um áratuga skeið og að verið sé að búa til einhverjar aðstæður til að réttlæta inngrip ríkisins í þessa deilu nú með einhvers konar lagasetningu við skilyrði sem séu ekki til staðar.
Við þessa lýsingu lögmannsins er amk tvennt athugavert.
Annars vegar er það svo að það var engin sérstök sátt um löggjöfina árið 1996. Til marks um það má benda á að 184 mismunandi aðilar sendu inn formlegar umsagnir um lagafrumvarpið. Allir þessir aðilar gerðu athugasemdir við frumvarpið og vöruðu við því að öllu leyti eða hluta og vildu breytingar á því. Er tekið fram sérstaklega í áliti minnihluta félagsmálanefndar að þegar frumvarpið hafi verið lagt fram hafi það kallað á gífurleg mótmæli. Þingmönnum hafi borist áskoranir frá fjölda stéttarfélaga um að leggja málið til hliðar og að þegar frumvarpið hafi verið sent til umsagnar hafi borist svar frá nánast hverju einasta stéttarfélagi í landinu sem hafi mótmælt því harðlega og gagnrýnt innihald þess. Í niðurstöðum minnihlutans var tekið fram að þær breytingar sem gera hafi átt á frumvarpinu hafi sýnt betur en flest annað hve frumvarpið var illa unnið og vanhugsað. Breytingarnar væru til lítilla bóta því eftir stæði að heildarhugsun væri engin og markmiðin löngu glötuð.
Sérhver er nú sáttin sem lögmanninum er hugleikin. Kannski þóknast það hagsmunum lögmanns ASÍ í því samhengi hlutanna sem nú er uppi að gera að því skóna að sátt hafi ríkt um frumvarpið þegar félag innan ASÍ hefur fundið lögfræðitrix sem engum öðrum hafði áður í áratugi hugkvæmst?
Hins vegar þá er staðreyndin sú að svo virðist sem vissulega sé búið að búa til aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisins. Stjórnendur Eflingar eru þar að verki og engir aðrir. Það hefur engum öðrum dottið til hugar að neita því að afhenda kjörskrá sína þannig að unnt sé að halda kosningar um miðlunartillögu sáttasemjara sem sett er fram í samræmi við löggjöfina. Með því að viðurkenna það ástand að ekki sé unnt að láta fara fram kosningu um miðlunartillöguna er sú staða uppi að lagagreinarnar, sem löggjafinn árið 1996 samþykkti m.a. með þeim rökum að auka ætti valdheimildir sáttasemjara, eru hrein markleysa ef annar aðila kjaradeilu ákveður það.
Afleiðingin er sú sem við blasir. Annar deiluaðila heldur sínu striki án tillits til fram kominnar miðlunartillögu. Félagsmenn fá ekki tækifæri til að segja hug sinn um miðlunartillöguna og því er ekki vitað hvort það sé almennt fylgi félagsmanna við framgöngu stjórnenda Eflingar í málinu. Af fréttum að dæma og viðtölum við Eflingarfólk er margt sem bendir til að svo sé ekki.
Það kann því að vera rétt mat hjá lögmanni ASÍ að verið sé að búa til aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisins. Aðstæðurnar eru hins vegar af öðrum ástæðum en hann heldur fram.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með síðustu vendingum málsins. Nú hefur formaður Eflingar aftur lýst yfir sinni skoðun á því hvernig skuli túlka vinnulöggjöfina sem og regluverk síns eigin félags. Ekki er ólíklegt að á þá túlkun kunni að reyna aftur fyrir dómstólum. Það verður fróðlegt að sjá rökstuðning dómstóla í þetta skiptið.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Gunnar; og ENGAR ÞAKKIR, fyrir að svara mjer ekki (18. Febrúar s.l.) á dögunum.
Viltu ekki viðurkenna; í fullri hreinskilni, fyrir sjálfum þjer sem öðrum, að þú styðjir einfaldlega:: auðkýfinginn Halldór Benjamín Þorbergsson (hjá Samtökum atvinnulífsins) og
hans nóta, síðuhafi knái ?
Þú veizt jafnvel; sem þorri alls hugsandi fólks í landinu, að plott SA og auðnuleysingjanna í stjórnarráðinu og á alþingi (meirihluta þess) snýzt einfaldlega um, að grafa undan
Sólveigu Önnu Jónsdóttur og hennar fólki, skinhelgi þín sem allt of margra annarra leyfir þjer ekki, að viðurkenna það, eða: er það ekki raunin Gunnar minn ?
Eflingar deilan; hentar einmitt svo vel, hræætunum í íslenzku samfjelagi, sem eru jú leiddar af þeim : Bjarna Benediktssyni / Katrínu Jkaobsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni
og því UNDIR- máls fólki, sem þeim fylgja að málum, ekki satt ?
Fjandskapurinn ganvart Eflingu; er svo einkar hjálplegur, þegar þagnarmúrinn skal umlykja : Lindarhvols málin - grín- sölu Íslandsbanka - Borgunar scandala, svo aðeins örfá
dæmi sjeu tekin af þeim óþverra, sem forarvilpur alþingis og stjórnarráðs fela, í sínum undirdjúpum.
Væri; MINNSTA rjettlæti að finna af hálfu alþingis, væri það (fyrir einhverju síðan: jafnvel) búið að hækka skattleysismörkin upp í, a.m.k. 500.000.- Krónur / eða:: mjer
finnst rjett að minna á það, svona:: að lokum þessa ritlings míns til þín sem og annarra lesenda, síðu þinnar.
Með; fremur þungum kveðjum - en kveðjum þó /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 23.2.2023 kl. 15:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.