Úr hringleikahúsi fáránleikans

Af fréttum að dæma er staðan í kjaradeilu Eflingar og SA óljós. Nýr sáttasemjari er sagður hlaupa á milli herbergja. Hann segist vera að reyna að finna út úr því hvort hægt sé að koma sér saman um á hvaða leikvangi eigi að spila. Guð einn virðist vita eitthvað. En á meðan eru verkföll Eflingar í gangi. Og óafgreidd miðlunartillaga sáttasemjara.

Fer þetta saman? Af lestri greinargerðar löggjafans með breytingum á vinnulöggjöfinni 1996 er ljóst að löggjafinn gerði ekki ráð fyrir því að þessi staða gæti komið upp. Löggjafinn var að auka valdheimildir sáttasemjara til að reyna að minnka líkur á ófriði á vinnumarkaði með tilheyrandi verkföllum með alvarlegum neikvæðum afleiðingum fyrir fjölmarga sem standa utan kjaradeilu hverju sinni.

Nú reynir á löggjöfina með nýjum hætti. Það hafði engum dottið til hugar að sú staða gæti komið upp að aðili að vinnudeilu myndi einfaldlega neita að afhenda kjörskrá til að koma í veg fyrir að unnt væri að afgreiða framkomna miðlunartillögu sáttasemjara.

Meirihluti Félagsdóms er búinn að skera úr um það að þrátt fyrir að óafgreidd sé miðlunartillaga sáttasemjara þá teljist boðaðar verkfallsaðgerðir og framfylgd þeirra vera í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þrátt fyrir að stéttarfélagið hunsi framkomna miðlunartillögu sem sett er fram samkvæmt ákvæðum sömu laga. Að auki byggði meirihluti Félagsdóms niðurstöðu sína á því að hann teldi að ríkissáttasemjari væri að leita þeirra leiða sem lög byðu til að tryggja að atkvæðagreiðsla um tillöguna gæti farið fram, m.a. með því að óska heimildar dómstóla til innsetningar í skrá yfir félagsmenn.

Ofangreint er athyglisvert. Meirihluti Félagsdóms virðist þarna gera ráð fyrir því að það sé til leið til að tryggja að atkvæðagreiðsla fari fram. Sem sagt meirihlutinn virðist þeirrar skoðunar að atkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram. Og að sáttasemjari væri að fara rétta leið til að ná í atkvæðaskrána. Við þetta er tvennt að athuga. Nú hefur Landsréttur sagt að þessi leið sé sáttasemjara ófær. Og þar með er ekki hægt að láta kosningu fara fram. Ætli meirihluti Félagsdóms myndi ennþá vera sömu skoðunar, að þessari niðurstöðu Landsréttar fenginni, að stéttarfélagið sé ekki að brjóta gegn 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur? Að stéttarfélaginu sé í raun heimilt að láta eins og miðlunartillaga hafi ekki verið sett fram og halda sínu striki með ófrið sinn. Án þess að sáttasemjara hafi tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu til að stilla til friðar.

Landsréttur kaus við úrlausn sína að horfa til löggjafarviljans árið 1978 í stað þess að kanna til hlítar hver löggjafarviljinn var árið 1996. Það er framsækið. Eða væri kannski réttara að segja að það væri afturhvarf? En hvað um það Landsréttur hafnaði því að sáttasemjari ætti rétt til þess að fá afhenta félagaskrá til unnt væri láta kjósa póstkosningu um miðlunartillögu skv. 3. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Samt var það yfirlýstur vilji löggjafans árið 1996 að bæta þessari aðferð við til þess m.a. gefa möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum. Landsréttur 2023 er ekki á því að löggjafinn 1996 hafi gert þetta með réttum hætti. Enda hafði hann m.a. sér til stuðnings við túlkun sína álit löggjafans 1978.

Og þar við situr. Stéttarfélagi, eða félagi atvinnurekanda eftir atvikum, er heimilt að sitja sem fastast á sinni kjörskrá og koma í veg fyrir að vilji löggjafans árið 1996 nái fram að ganga. Ákvæðin um sáttamiðlun sáttasemjara eru bara í plati ef annar hvor samningsaðilanna ákveður það. Löggjafarvilji hvað? Jú, þessi frá 1978 alveg rétt.

Eru þá bara allir mát? Nei, aldeilis ekki. Nokkrir stjórnendur Eflingar eiga sviðið. Þeir einfaldlega fara sínu fram í boði Félagsdóms og Landsréttar, já og sáttasemjara og SA. Það horfa bara allir á, hlaupa á milli herbergja og brosa vandræðalega framan í fjölmiðlafólk. Á sama tíma spyr bílstjóri í ljósvakamiðli af hverju félagar í Eflingu mega ekki kjósa um samning eins og félagar í VR. Þar var formaðurinn þó mótfallinn samningi. Samningur við VR var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Já, nú er Bleik brugðið. Rétturinn til að fá að greiða atkvæði hefur almennt verið talinn heilagastur af öllu heilögu og lærðar ræður verið haldnar þess vegna. T.d. af hverju má ekki kjósa um nýja stjórnarskrá? En nú hafa nokkrir stjórnendur Eflingar ákveðið að félagsmenn þeirra fái ekki að kjósa um sambærilega samninga og félagsmenn annarra stéttarfélaga hafa fengið að gera. Til öryggis vilja þeir frekar hafa verkföll. Frekar en að lenda í því að félagsmenn þeirra myndu ekki hafna tillögu sáttasemjara. Og halda þar með friðinn fram að næstu kjarasamningum, sem eru rétt handan við hornið.

En er eitthvað til ráða? Að mínu mati á sáttasemjari að boða til kosninga um miðlunartillögu sína annað hvort á kjörfundi eða utan kjörfundar ef það þykir heppilegra. Sem sagt skv. 1. eða 2. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna. Með því fullnægir hann lagaskyldu skv. lögunum. Þeir einir fá að kjósa sem geta sannað að þeir séu félagsmenn í Eflingu. T.d. með framlagningu launaseðils þar sem fram kemur að stéttarfélagsgjöld séu greidd til Eflingar.

Þá kunna einhverjir að segja að þessi leið sé ekki fær nema fyrir liggi kjörskrá. Ég er í sjálfu sér sammála því að það hafi verið ætlan löggjafans 1996 að slík kjörskrá myndi liggja fyrir. En nú hefur Landsréttur 2023 sagt að aðili að vinnudeilu þurfi bara ekkert að afhenda slíka skrá. Það hlýtur þá að gilda í báðar áttir. Þ.e. fyrst stéttarfélag þarf ekki að leggja fram skrána þá einfaldalega sættir sáttasemjari sig við það og heldur sína kosningu án skrárinnar. Ef stéttarfélagið vill halda því fram að miðlunartillaga hafi verið felld af fjórðungi félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þá er það stéttarfélagsins að sanna það. Með því að leggja skrána fram. Annars telst miðlunartillagan samþykkt. Ef hins vegar meira en fjórðungur félagsmanna Eflingar myndi fella miðlunartillöguna, miðað við framlagða kjörskrá, þá myndi raunverulegur vilji félagsmanna Eflingar liggja fyrir. Þá þyrfti ekki lengur að efast um rétt þeirra til verkfallsaðgerða.

En hvað svo ef miðlunartillagan er ekki felld? Það blasir við að önnur af tveimur leiðum yrði farin. Stjórnendur Eflingar halda áfram að láta eins og engin miðlunartillaga hafi verið sett fram eða um hana kosið. Og halda sínu verkfalli áfram. Eða stjórnendur Eflingar halda því fram að þessi aðferð hafi ekki verið heimil af hálfu sáttasemjara. Af hverju? Jú af því að hann hafði ekki félagaskrána. (Og af hverju hafði hann hana ekki?). Í fyrra tilvikinu yrði SA að leita aftur til Félagsdóms. Í seinna tilvikinu yrðu stjórnendur Eflingar að leita til Félagsdóms.

Þar með væri Félagsdómur aftur kominn með málið til úrlausnar. En nú á aðeins öðrum grunni. Sáttasemjari hélt sína kosningu og fékk niðurstöðu. Meirihluti Félagsdóms veit núna að sáttasemjari hafði enga leið til að fá kjörskrána frá stjórnendum Eflingar.

Ef niðurstaða Félagsdóms í þessu seinna máli yrði sú að sáttasemjara hefði ekki verið heimilt að halda kosninguna af því að hann hafði ekki félagsskrána þá er komin ný staða.

Þá væri búið að staðfesta að sáttasemjari hefur enga leið til að láta kosningu fara fram um miðlunartillögu sína ef annar hvor deiluaðila ákveður að afhenda ekki kjörskrá sína.

Það er niðurstaða sem er þvert á löggjafarviljann árið 1996. Það er almenn lögskýringarregla að sett lög skuli túlka á þann hátt að þau hafi einhverja skilgreinda merkingu. Ef þetta yrði niðurstaða Félagsdóms þá myndi liggja fyrir að sett lagaákvæði af hálfu Alþingis hafa enga sjálfstæða þýðingu ef einhver aðili úti í bæ ákveður það. Jafnvel þótt þessi aðili úti í bæ sé annar aðili að kjaradeilu.

Ef þessi staða kæmi upp þá yrði löggjafarvaldið að stíga inn í og tala með skýrum og skiljanlegum hætti en skilja ekki þjóðfélagið eftir í hringleikahúsi fáránleikans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gunnar; sem og aðrir gestir þínir !

Gunnar !

Ertu meðvitað; að afvegaleiða þessa, annarrs þörfu umræðu ?

Efling; gaf það strax til kynna, að hún hefði sjerkröfur fram að færa, gagnvart Samtökum atvinnulífsins / ekki: á forsendum Starfsgreinasambandsins nje Verzlunarmannafjelagsins, eða::

var það þjer ekki alveg ljóst, frá upphafi ?

Nóvmeber/ Desember samningar þeirra Vilhjálms Birgissonar (SGS) og Ragnars Þórs Ingólfssonar (VR) voru einfaldlega gönuhlaup þeirra sjálfra Gunnar minn, sem þau Sólveig Anna

og hennar fólk höfðu einfaldlega ekki áhuga á, að taka þátt í.

Hvar; t.d., voru kröfur þeirra Vilhjálms og Ragnars Þórs á hendur ríkinu ?

Burt sjeð; frá þessum skammtíma samningi þeirra, við SA ?

Verðtrygging útlána; á fullu spani / á meðan launafólk býr við ÓVERÐTRYGGÐ laun.

Alþingismenn / embættismanna ofur- kerfið, fær sínar SJÁLFVIRKU launahækkanir, með reglubundnu millibili, ekkert:: já ekkert segir þú við því Gunnar,

að bil þeirra launalægstu og ofur- launa liðsins í landinu breikkar:: jafnt og þjett.

Sjáum t.d.; forseta nefnuna (skreytimaður tyllidaganna, Guðni Th. Jóhannesson) hann ku vera með, cirka 3.5 - 3.6 Milljónir Króna í mánaðarlaun.

Fyrir hvað svo sem;  mætti almenningur spyrja ?

Megin klaufska; Aðalsteins Leifssonar fólst einfaldleaga í því, að hann var einungis í ráðum með Halldóri Benjamín Þorbergssyni og hans liðssveit /

hunzaði aftur á móti Sólveigu Önnu Jónsdóttur og hennar fólk, því fór sem fór - og Ástráður Haraldsson var til kallaður, þar af leiðandi.

Þessi raunasaga öll; sýnir okkur Gunnar, hversu stjettaskiptingin hefur magnazt í landinu seinni árin, og má raunar þakka fyrir, að ekki verði

jafnvel viðlíka, að öllum ömurleika, eins og hjá vinum okkar:: Hindúunum austur á Indlandi - fari: sem horfir ?

Með beztu kveðjum; engu að síður, af Suðurlandi /      

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.2.2023 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 69020

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband