15.2.2023 | 11:03
Hvort á löggjafarviljinn árið 1978 eða 1996 að ráða? Eru Félagsdómur og Landsréttur úti í skurði?
Ég heyrði í viðtali við Láru V. Júlíusdóttur að hún efaðist um að löggjafarvilji frá árinu 1978 ætti að hafa eitthvert gildi við túlkun á vinnulöggjöfinni í dag. Af því tilefni ákvað ég að rifja betur upp átökin sem áttu sér stað árið 1996 þegar umtalsverðar breytingar voru gerðar á vinnulöggjöfinni. Eftir þá upprifjun er ég sammála Láru um að löggjafarviljinn árið 1978 hefur enga þýðingu. Löggjafinn árið 1996 var að gera umtalsverðar breytingar á löggjöfinni eftir víðtækt samráð þótt ekki hafi allir aðilar á vinnumarkaði verið sammála um útfærsluna.
Ég tel það hafið yfir allan vafa að vilji og ætlun löggjafans árið 1996 var og er sá að kosning um miðlunartillögu sáttasemjara skuli fara fram skv. kjörskrám vinnuveitenda og stéttarfélaga, sem þýðir að hvorugur þessara aðila hefur heimild til þess að neita að afhenda kjörskrá sína.
Enda myndi slík niðurstaða fela í sér að annar deiluaðila, félag vinnuveitanda eða stéttarfélag, hefði í hendi sér hvort lög sett af Alþingi hefðu eitthvert sjálfstætt innihald eða ekki. Það þarf tæpast lögfróða til að átta sig á að slík niðurstaða gengur ekki upp.
Það er því fullt og nauðsynlegt tilefni til að fá fram endurskoðun Hæstaréttar á dómi Landsréttar.
Hér að neðan tek ég upp valda kafla úr greinargerð með breytingalögunum árið 1996. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað textann sem frá löggjafanum árið 1996 kemur fram og lagt á það mat hvað felst í honum. En ég ítreka að textinn er mun lengri og stundum tek ég stakar setningar út til að draga fram áherslur löggjafans.
Sums stað set ég inn athugasemdir og vangaveltur. Þar sem þessi ágæti bloggmiðill mbl býður ekki uppá mikla möguleika í ritvinnslu hef ég sett mínar athugasemdir fram á milli XXX merkinga.
Úr greinargerðinni.
Hér á landi hafa um langt skeið farið fram umræður um nauðsyn þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði með það að markmiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Þannig yrði stuðlað að friðsamlegum samningum og dregið úr átökum á vinnumarkaði og oft langvinnum vinnustöðvunum
Þannig virðist hafa skort á að leikreglur hafi með fullnægjandi hætti stuðlað að frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Aðilar kunna að hafa treyst um of á íhlutun stjórnvalda.
Mjög fámennir hópar geta knúið fram sérhagsmuni sína í krafti lykilaðstöðu. Þá skortir á að tryggt sé að vel sé vandað til afgreiðslu kjarasamninga og ákvarðana um vinnustöðvanir. Á það bæði við um samtök atvinnurekenda og stéttarfélög. Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á vinnulöggjöf, eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, enda miða þær að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum félagsmanna í stéttarfélögum. Nauðsynlegt er því að taka til endurskoðunar ýmis ákvæði gildandi vinnulöggjafar, þ.e. bæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, og laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, og breyta þeim í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu.
XXX
Hér er rétt að veita því sérstaka eftirtekt að löggjafinn árið 1996 tekur beinlínis fram að verið sé að endurskoða og breyta lögunum frá 1938 og einnig frá 1978. Berum orðum er tekið fram að þetta sé gert í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu. Miðað við að þarna er enginn efi um það að löggjafinn árið 1996 er breyta þáverandi gildandi löggjöf er ótækt af Landsrétti að horfa til löggjafarvilja árið 1978 til að túlka lög sem löggjafinn árið 1996 setti.
XXX
Félagsmálaráðherra skipaði 4. október 1994 vinnuhóp til að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði.
Fyrir hópinn var lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni.
Hugmyndir hópsins, sem fram koma í áfangaskýrslunni, lúta fyrst og fremst að svonefndri viðræðuáætlun, miðlunartillögu, tengingarreglu og meðferð samningsumboðs, en hópurinn leggur í umfjöllun sinni áherslu á leiðir til að gera kjaraviðræður markvissari og styttri.
Í niðurlagi skýrslunnar kemur og fram að hópurinn telur að einnig þurfi að huga að reglum um vinnudeilur, inntak þeirra og hvort efni séu til að setja nánari formreglur um ákvarðanir um vinnustöðvanir og framkvæmd þeirra. Í áfangaskýrslunni kemur loks fram að ýmis atriði, sem tengjast þeim hugmyndum sem fram eru settar, hafi ekki verið rædd til hlítar, svo sem miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun vinnustöðvana, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðarfyrirkomulag.
Eftir að áfangaskýrslan var lögð fram í nóvember 1995 hafa fulltrúar aðila vinnumarkaðarins í nefndinni ekki náð samstöðu um tillögur til breytinga á ákvæðum gildandi laga til að hrinda í framkvæmd framangreindum hugmyndum vinnuhópsins. Lagafrumvarp þetta hefur því verið samið á vegum félagsmálaráðherra, m.a. á grundvelli ábendinga sem fram koma í áfangaskýrslu vinnuhópsins og umræðna sem hafa farið fram í vinnuhópnum. Rétt þykir nú að fella lög um sáttastörf í vinnudeilum inn í lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem III. kafli um sáttatilraunir í vinnudeilum var upphaflega, enda þykja öll þessi efnisatriði eiga heima í einum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið gætt að stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga, svo og að alþjóðasamþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að á sviði vinnuréttar.
Helstu nýmæli.
Póstatkvæðagreiðsla.
Heimiluð er póstatkvæðagreiðsla um gerða kjarasamninga og um ákvörðun um vinnustöðvun. Ef sú heimild er nýtt þarf að jafnaði ekki að ná tilteknu hlutfalli mótatkvæða gegn samningsniðurstöðu eða tiltekinni þátttöku við almenna ákvörðun um vinnustöðvun. Ríkissáttasemjara er veitt heimild til að ákveða í samráði við aðila að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með pósti (2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 4. gr. og 3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).
Skýrari miðlunarheimildir.
Lagaskilyrði fyrir heimild sáttasemjara til að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu eru gerð mun skýrari.
XXX
Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðsla fari fram?
XXX
Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.
Ríkissáttasemjara eru fengnar heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Ávallt skal haft samráð við aðila vinnudeilu áður en slíkar ákvarðanir eru teknar (3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).
XXX
Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðsla fari fram?
XXX
Afgreiðsla miðlunartillögu.
Miðlunartillaga er felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða og jafnframt að minnsta kosti þriðjungur atkvæða alls er mótatkvæði. Er sú breyting gerð með vísan til heimilda ríkissáttasemjara til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ef þær heimildir verða nýttar mun þátttaka aukast. Skilyrðið um lágmarkshlutfall mótatkvæða á við óháð tilhögun atkvæðagreiðslu (l-liður 6. gr. (31. gr.)).
XXX
Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir að atkvæðagreiðsla fari fram? Þarna er beinlínis gert ráð fyrir því að ríkissáttasemjari geti nýtt þessar nýju heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Niðurstaða Landsréttar felur í sér að hann geti það bara alls ekki af annar hvor deiluaðila ákveður að hann geti það ekki.
XXX
Formleg skilyrði fyrir vinnustöðvun.
Vinnustöðvun hefur víðtækar afleiðingar ekki aðeins fyrir samningsaðila og einstaka félagsmenn þeirra heldur einnig fyrir aðra, bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem ekki hafa nokkurn möguleika á að hafa áhrif á kjaradeilu þeirra. Því úrræði á ekki að beita fyrr en fullreynt er að ekki gengur saman með samningsaðilum.
Kröfur samningsaðila verða einnig að vera þess eðlis að gagnaðili geti mætt þeim án þess að það brjóti gegn öðrum skuldbindingum hans. Þessi meginregla kemur skýrt fram í dómum Félagsdóms, sbr. t.d. dóm hans frá 5. desember 1993. Gert er að skilyrði að leitað hafi verið milligöngu sáttasemjara áður en tillaga um vinnustöðvun er borin fram. Í því felst jafnframt að sáttasemjara hafi gefist tóm til að leita sátta í samræmi við reglur þar um og í samræmi við viðræðuáætlun.
XXX
Fram er komið að búið er að semja við þorra launafólks á vinnumarkaði. Með því að ganga að kröfum Eflingar væru SA að brjóta gegn skuldbindingum sínum gagnvart þeim hópi.
XXX
Því er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur, og þá fyrst og fremst kröfur þess aðila sem ráðgerir vinnustöðvun, hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
XXX
Þarna tekur löggjafinn árið 1996 sérstaklega fram að það sé skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Í þeirri stöðu sem nú er uppi hefur sáttasemjara ekki gefist færi á að beita þeim úrræðum sem löggjafinn árið 1996 ætlaðist til að hann hefði til að miðla málum. Ekki hefur farið fram kosning um miðlunartillögu hans þannig að sú staða er ekki uppi að stéttarfélagið hafi fellt tillöguna. Því eru ekki lögbundin skilyrði fyrir því verkföll nái fram að ganga. Skilyrði 14. gr. vinnulöggjafarinnar eru ekki fyrir hendi. Dómur meirihluta Félagsdóms er því rangur.
XXX
Ákvörðun um vinnustöðvun.
Boðun vinnustöðvana og framkvæmd getur haft mikil áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem ýmist eiga beina aðild að deilunni eða verða fyrir áföllum vegna deilna sem þeir hafa engin áhrif á. Að sjálfsögðu hefur vinnustöðvun áhrif á gagnaðila, enda er henni ætlað að knýja á um kröfur í vinnudeilu. Auk gagnaðilans eru hins vegar margir sem vinnustöðvun bitnar beinlínis jafnharkalega á og þeim sem henni er ætlað að knýja til samninga.
Þolendur vinnustöðvunar geta jafnvel orðið fyrir meira tjóni en þeir sem að henni standa beint, þ.e. félagsmenn þess stéttarfélags sem gerir verkfall. Því er í frumvarpinu lagt til að ákveðnar reglur gildi um almennan vinnumarkað rétt eins og nú er um opinbera starfsmenn.
Póstatkvæðagreiðsla.
Samkvæmt frumvarpinu er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma.
Með póstatkvæðagreiðslu er í frumvarpi þessu átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim.
XXX
Þarna segir löggjafinn árið 1996 að senda skuli öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá kjörgögn heim. Þessi fyrirmæli eru ekki háð því að það sé háð vilja samningsaðila hvort svo sé gert eða ekki. Niðurstaða Landsréttar er því röng.
XXX
Þegar greidd eru atkvæði um miðlunartillögu skal slík póstatkvæðagreiðsla framkvæmd með sama hætti og hér er greint frá, en frumkvæði og stjórn póstatkvæðagreiðslu er þá í höndum ríkissáttasemjara auk þess sem embætti hans greiðir kostnað við póstatkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Þá skal áritað umslag merkt ríkissáttasemjara. Svipaður háttur á atkvæðagreiðslu hefur verið viðhafður í nokkrum stéttarfélögum hér á landi og er því ekki nýlunda. Þessi leið gefur möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum.
Skýrari miðlunarheimildir.
Í gildandi lögum eru mjög rúmar heimildir fyrir sáttasemjara til að setja fram miðlunartillögur. Þeim hefur hins vegar lítið verið beitt. Gerð er tillaga um að sáttasemjari haldi þessum heimildum en með nokkrum takmörkunum sem eiga að tryggja að miðlunartillaga verði ekki borin fram nema áður hafi reynt á samningsleiðir til þrautar.
Hafi samningsaðilar hvorki komist að niðurstöðu innan þess tíma sem tilgreindur er í viðræðuáætlun né náð sáttum fyrir atbeina sáttasemjara metur sáttasemjari hvort og þá hvenær rétt er að setja fram miðlunartillögu fyrir þá hópa sem í hlut eiga, þ.e. þá hópa sem eru enn með lausa samninga.
Meginskilyrðið er að sameiginleg miðlunartillaga sé til þess fallin að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Er skilyrðið háð mati sáttasemjara sem ræðst ekki síst af afstöðu samtaka á vinnumarkaði og hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum. Gert er ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu.
XXX
Hér er sérstök ástæða til að staldra við og skoða löggjafarviljann árið 1996. Hér er sagt að það sé sáttasemjari sem meti það hvort og þá hvenær rétt sé að setja fram miðlunartillögu. Meginskilyrði sé að hún leiði til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Með öðrum orðum að reynt sé að koma í veg fyrir verkföll. Tekur löggjafinn sérstaklega fram að mat sáttasemjara ráðist m.a. af hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum og að gert sé ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu. Fyrir liggur að almenn sátt er um þær niðurstöður kjaraviðræðna sem átt hafa sér stað. Eingöngu Efling hefur efnt til ófriðar. Á þessa stöðu á sáttasemjari horfa samkvæmt löggjafarviljanum árið 1996.
XXX
Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.
Beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara hvað varðar tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu eru auknar í samræmi við hugmyndir sem fram komu í vinnuhóp félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði og ábendingar ríkissáttasemjara.
XXX
Hvernig samrýmist þessi vilji löggjafans árið 1996 niðurstöðu Landsréttar?
XXX
Breytingarnar eru til þess fallnar að auka þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Er það í samræmi við lýðræðishefðir að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um svo mikilvæg réttindi manna.
XXX
Hvernig samrýmist þessi vilji löggjafans árið 1996 niðurstöðu Landsréttar? Löggjafinn árið 1996 segist vera að auka heimildir sáttasemjara til afskipta og jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um mikilvæg réttindi manna. Með því að annar aðili geti tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu þá er það í fullkominni andstöðu við þennan löggjafarvilja.
XXX
Einnig er sem mest þátttaka eðlileg með hliðsjón af því að ríkissáttasemjari leggur því aðeins fram miðlunartillögu að samninganefndum aðila einstakrar vinnudeilu hafi ekki sjálfum tekist með frjálsum samningum að ná saman um gerð eða endurnýjun kjarasamnings.
XXX
Löggjafinn árið 1996 gerir augljóslega ekki ráð fyrir því að engin þátttaka sé í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara.
XXX
Afgreiðsla miðlunartillögu.
Lagt er til að meiri hluta greiddra atkvæða og jafnframt þriðjung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þurfi til þess að fella miðlunartillögu sem sáttasemjari leggur fram. Er það töluverð breyting frá gildandi lögum sem kveða á um lágmarksþátttöku 20% atkvæðisbærra manna. Þarf þá minnst 65% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu sáttasemjara. Samkvæmt gildandi lögum lækkar tilskilið hlutfall atkvæða í hlutfalli við aukna þátttöku miðað við fjölda atkvæðisbærra þannig að ef 35% eða fleiri atkvæðisbærra taka þátt þarf minnst 50% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu. Hér er því gert ráð fyrir verulegri efnisbreytingu en um leið einföldun ákvæðisins.
Efnisbreytingin er rökrétt afleiðing af þeim formbreytingum sem felast í auknum heimildum ríkissáttasemjara um tilhögun atkvæðagreiðslu. Einnig þykir eðlilegt að í þessu efni gildi sömu reglur um atvinnurekendur og launafólk, en samkvæmt orðanna hljóðan tekur 12. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, aðeins til launafólks.
Með þriðjungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá hér og víðar í frumvarpi þessu er annars vegar átt við þriðjung atkvæða samkvæmt gildandi atkvæðaskrá hjá samtökum atvinnurekenda en þar er fjöldi atkvæða jafnan miðaður við útgreidd laun, þ.e. í raun fjölda launamanna. Hins vegar er átt við þriðjung atkvæðisbærra launamanna sem eru fullgildir félagar í því stéttarfélagi eða þeim stéttarfélögum sem eiga í hlut. Um það hvort miðlunartillaga ríkissáttasemjara eða samningur, sem samninganefndir hafa undirritað, telst felld munu því gilda nákvæmlega sömu reglur hvort sem atvinnurekendur eða launamenn eiga í hlut. Jafnræði er því með aðilum.
XXX
Ofangreindur texti er athyglisverður. Rétt er að taka fram að með breytingatillögu var ákveðið að nóg væri að fjórðungur atkvæðisbærra félagsmanna greiddi atkvæði gegn miðlunartillögu þannig að hún teldist felld.
Löggjafinn árið 1996 tekur fram að sáttasemjari sé kominn með auknar heimildir frá því sem var um tilhögun atkvæðagreiðslu. Jafnframt tekur hann fram að sömu reglur gildi um bæði atvinnurekendur og launafólk. Löggjafinn útskýrir nákvæmlega hvernig skuli haga talningu og við hvað skuli miða. Í tilfelli launamanna eru það fullgildir félagar í því stéttarfélagi sem á í hlut.
Með því að tiltaka skýrt að með lagabreytingunni árið 1996 sé verið að auka heimildir sáttasemjara er ótækt að horfa til löggjafarviljans árið 1978 eins og Landsréttur gerir.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 70306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll
Smá viðbót við umræður okkar í gær.
Höfundurinn er lögmaður sem var að vinna með mér hjá VHE.
Bkv
KJör
Jón Ólafsson (IP-tala skráð) 16.2.2023 kl. 10:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.