13.1.2018 | 15:28
30.000 km á hlaupum er hreyfing allra meina bót?
Í dag náði ég því á æfingu að hlaupa þrjátíuþúsundasta kílómetrann frá því að ég fór að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Nánar tiltekið náði ég því þegar ég hafði lokið við 24,5 km af æfingu dagsins.
Ekki hvarflaði það að mér þegar ég byrjaði að ég myndi ná þessum áfanga. Reyndar gerði ég ekkert frekar ráð fyrir því að ég væri yfir höfuð á ferðinni árið 2018. Þegar ég ákvað að reima á mig skóna og fara út og hlaupa þá voru liðin rúm 2 ár frá því að ég greindist með krabbamein, nánar tiltekið blóðkrabbamein eða hvítblæði. Fyrst þegar ég greindist fékk ég þær fréttir að erfitt væri að greina nákvæmlega þá tegund sem ég væri með en að útlitið væri ekki endilega bjart. Kannski væri þetta ólæknandi. En um þremur vikum eftir greiningu lá þó fyrir að sjúkdómurinn væri ekki þess eðlis að talað væri um mánaðar lífslíkur heldur væru þær mældar í árum. Það var að sjálfsögðu betra. Ég hef síðan mætt í eftirlit á 3 til 6 mánaða fresti til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Framan af kallaði ég þessar heimsóknir dauðatékkið. En eftir nokkur ár fór þetta að venjast betur og þessar heimsóknir trufluðu mig minna. En þær eru ennþá í dagatalinu og ég mæti á mínum tímum og fæ nýjar fréttir af gildum og framförum í læknavísindunum til að bregðast við.
En aftur að hlaupunum. Ég hafði byrjað óreglulega að hlaupa á árinu 2004. Hljóp stundum þegar ég var í stuði en aldrei langar vegalengdir. Oftast annan af tveimur hringjum sem báðir voru á bilinu 7-8 km. Í þessum hringjum voru nokkrar brekkur sem var ágætt. Þegar fór að líða að hausti 2005 fór það að gerast að ég átti erfiðara með brekkurnar. Að lokum urðu þær það erfiðar að ég hætti að hlaupa þær en gekk þær þess í stað. Í september eða október það ár hætti ég að reyna að hlaupa. Þann 23. desember 2005 fékk ég að vita ástæðuna fyrir því af hverju brekkurnar fóru að verða svona erfiðar.
Reynslan af brekkunum árið 2005 ýtti mér af stað í hlaupin árið 2008. Ég hugsaði með mér að ef ég myndi hlaupa reglulega þá ætti ég að geta fundið það á sjálfum mér ef eitthvað væri farið af stað aftur. Það hélt mér við efnið. Ég fór að hlaupa og hljóp og hljóp. Í upphafi varð ég stressaður ef æfing gekk ekki nógu vel. En með tímanum lærði ég að það væri eðlilegt að eiga erfiðan eða erfiða æfingadaga án þess að nokkuð væri að.
En hlaupin gáfu mér meira. Eftir því sem tíminn leið áttaði ég mig á því að ég notaði hlaupin mikið til að hugsa. Stundum meðvitað en stundum ómeðvitað. Ég hugsaði mikið. Um lífið og tilveruna. Ég æfði mig. Hugsaði um það hvernig ég myndi mögulega bregðast við í tilteknum aðstæðum. Í dag veit ég að þetta getur hjálpað. Ég hef lent í aðstæðum þar sem ég æfði mig fyrirfram í huganum um að venjast tilteknum aðstæðum sem ég vissi að myndu koma upp. Þegar aðstæðurnar komu upp hjálpaði það mér að hafa æft mig. Eftir að ég hafði upplifað þessar aðstæður las ég bók eftir Dalai Lama. Í henni talar hann m.a. um mikilvægi þess að hugsa um mögulegar aðstæður sem upp geta komið og reyna að hugleiða hvernig maður muni líklega bregðast við. Ég tengdi umsvifalaust við þessa frásögn hans.
Ég veit ekki hvort það er hrein tilviljun eða eitthvað annað að í gær og fyrradag las ég tvær athyglisverðar greinar sem báðar eru skrifaðar þann 11. janúar á þessu ári. Annars vegar er um fínan pistil að ræða úr smiðju Stefáns Gíslasonar sem birtur er hlaup.is:
https://www.hlaup.is/displayer.asp?cat_id=1272&module_id=220&element_id=28984
sem ber heitið Hlaupið frá þunglyndi og kvíða og fjallar um gildi hlaupa fyrir andlega heilsu. Hins vegar las ég grein á bandarískri vefsíðu um rannsókn sem verið er að gera á Gundersen spítalanum í USA um mögulega gagnsemi hreyfingar í baráttunni gegn krabbameinum:
http://www.wxow.com/story/37247179/2018/01/11/gundersen-clinical-trial-targets-link-between-exercise-and-cancer-treatment
En amk get ég staðfest að hlaupin hafi gagnast mér gríðarlega vel á margan hátt. Ég hef ekki bara notið þeirra sem líkamlegrar þjálfunar heldur hafa þau verið mín aðferð til að hugleiða. Þar fyrir utan er hinn félagslegi þáttur sem getur fylgt hlaupunum ómetanlegur.
Árið 2012 hélt ég að hlaupaferlinum væri lokið þegar ég greindist með gáttatif í hjarta. Um nokkurra mánaða skeið var hjartað ekki í takti og allt var ótrúlega erfitt. Um haustið fór ég í svokallaða rafvendingu sem kom hjartanu aftur í takt. En reglulega datt það úr takti aftur. Stundum komst það í takt með því að taka aukaskammt af lyfjum en stundum þurfti rafvendingu til. En blessunarlega hélt ég áfram að hlaupa. Og á hlaupunum að hugsa. Árið 2013 greindist eiginkona mín með krabbamein. Það var hörð barátta í 14 mánuði sem endaði ekki vel. En áfram hljóp ég. Og áfram hugsaði ég.
Í vikunni hitti ég einn af góðu hlaupafélögunum mínum á bretti í Kringlunnni þar sem við æfum oft saman. Hann var einn af albestu hlaupurum landsins þegar hann fékk skyndilegt áfall tengt hjartanu. Það er með ólíkindum að hann hafi lifað af og má með sanni segja að forlögin hafi raðað aðstæðum rétt upp sem gerðu það að verkum að hann hélt lífi. Eftir þetta áfall fékk hann græddan í sig svokallaðan bjargráð sem á að grípa inn í ef hjartað ákveður skyndilega að fara í verkfall. Það er mikið inngrip inn í líf manns á besta aldri og í frábæru líkamlegu formi að þurfa að aðlagast. Þessi góði hlaupavinur minn hefur þó ekki bara aðlagast þessum aðstæðum af æðruleysi heldur tók upp á því fljótlega að halda áfram að hlaupa. Ekki með nein markmið heldur bara að hlaupa. Æfa sig. Aðspurður framan af ekki fyrir neitt sérstakt. Bara að hlaupa. En svo. Fór hraðinn að aukast. Nú hleypur hann aftur hraðar en flestir. Líkamlegu afreki verður varla lýst með orðum. Hinu andlega afreki verður hreint ekki lýst.
Ég er sannfærður um að minn góði hlaupafélagi hefur með hlaupunum náð að vinna sig í gegnum andlega þáttinn. Það getur enginn sett sig í hans spor nema að hafa upplifað þau sjálfur eða kannski eitthvað sem nálgast hans upplifun. Aðrir geta það ekki. Að koma frá því að vera vart hugað líf og geta hlaupið maraþon á 3:00:xx er afrek sem tæpast á sér samanburð. Í því samhengi má geta þess að undanfarin ár eru einungis 10-20 Íslendingar sem ná þeim árangri árlega.
Ég er sannfærður um að það sem Stefán Gíslason segir frá í pistli sínum er rétt. Þegar ég hugsa um það þá held ég að ég sé búinn að vera í ákveðinni meðferð síðan ég byrjaði að hlaupa. Ég held að það sama eigi við um hlaupafélaga minn sem ég geri hér að umtalsefni.
Niðurstaða mín er því sú að hreyfing sé allra meina bót.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.