Valkvæð mannréttindi og óafturkræfar afleiðingar

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um lögbannsmálið gegn Stundinni síðustu daga. Fjölmargir aðilar hafa stigið fram og lýst vanþóknun sinni á því að sýslumaður skuli hafa samþykkt að leggja lögbannið á. Flestir þeir sem hafa tjáð sig opinberlega hafa lýst þeirri skoðun sinni að verið sé að brjóta gegn tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Með því er verið að segja að tjáningarfrelsis-ákvæðið trompi ákvæðið um friðhelgi einkalífs í sömu stjórnarskrá.

Þar sem ég hef mörg undanfarin ár séð um stundakennslu í Læknadeild HÍ um þagnarskylduákvæði gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum og sit auk þess í stjórn fjármálafyrirtækis finnst mér áhugavert að skoða málið nánar.

Í málinu liggur fyrir að tvenns konar réttindum lýstur saman. Flestir þeir sem hafa tjáð sig eru þess fullvissir að meginreglan um tjáningarfrelsi eigi að ganga framar og hafa sumir í málflutningi sínum vísað til þess að hagsmunir almennings og opinberrar umræðu séu ríkari en ákvæði um þagnarskyldu, skv. 58. gr. laga nr. 161/2002, og bankaleynd, skv. 13. gr. laga nr. 87/1998, sem taka til einkalífsverndar. Ekki hef ég rekist á mikla umfjöllun um þau stjórnarskrárvernduðu réttindi, þ.e. um friðhelgi einkalífs, og því ekki úr vegi að skoða þau nánar í þessu samhengi.

Hæstiréttur Íslands hefur í mörgum dómum fjallað um einkalífsverndina skv. 1. mgr. 71. gr. stjskr. M.a. hefur Hæstiréttur sagt, í máli nr. 263/2015 sbr. og mál nr. 329/2014, að þegar meginreglur rekast á þurfi að taka afstöðu til þess við úrlausn máls hvor reglan skuli víkja. Í því sambandi þurfi að gæta þess að reglur um þagnarskyldu og bankaleynd eigi samstöðu með ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjskr. sem tryggir friðhelgi einkalífs, heimili og fjölskyldu og lagaákvæðum sem sett eru til verndar þeim stjórnarskrárvörðu réttindum. Í þessu sama máli sagði Hæstiréttur að við túlkun á þagnarskylduákvæðum væri gerður greinarmunur á almennum þagnarskylduákvæðum og sérstökum þagnarskylduákvæðum. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að þagnarskylduákvæðið skv. 58. gr. l. nr. 161/2002 og um bankaleynd skv. 13. gr. l. nr. 87/1998 væru sérstök þagnarskylduákvæði. Sú niðurstaða réttarins fól í sér að meiri kröfur þyrfti að gera til að unnt væri að víkja þeim til hliðar.

Í dómi Hæstaréttar nr. 252/1998 sagði Hæstiréttur að vernd persónuupplýsinga sé nauðsynleg til að menn fái notið þeirra réttinda sem varin eru með ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómi réttarins nr. 151/2003 sagði að til að tryggja friðhelgi skv. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar verði löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra sem ekki eigi réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds.

Hvað varðar tjáningarfrelsisákvæðið þá hefur það ákvæði einnig verið til umfjöllunar hjá Hæstarétti oftar en einu sinni og dómar hans hafa ratað inn á borð mannréttindadómstóls Evrópu. Þegar þessir dómar eru skoðaðir kemur í ljós að tiltekið hagsmunamat þarf að fara fram og er afdráttarlaust af hálfu mannréttindadómstólsins að þetta hagsmunamat er í höndum aðildarríkja þótt það mat sé síðan háð eftirliti dómstólsins.

Hæstiréttur Íslands hefur m.a. sagt um þessi réttindi, í máli nr. 252/1998, að þrátt fyrir að tjáningarfrelsi hafi löngum verið talið til mikilvægustu mannréttinda hafi því engu að síður verið játað að því megi setja vissar skorður. Sé það gert með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem heimilað sé að setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða sigðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í dóminum segir jafnframt að við ákvörðun á mörkum tjáningarfrelsis hafi í dómaframkvæmd verið litið mjög til þess að vegna lýðræðishefða verði að tryggja að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða. Gildi það meðal annars við úrlausn um mörk tjáningarfrelsis rithöfunda og blaðamanna.

Mannréttindadómstóllinn hefur í umfjöllunum sínum sagt að mikilvægt atriði í mati dómstólsins, þegar gæta þarf jafnvægis milli réttinda sem stangist á, sé hið nauðsynlega hlutverk sem fjölmiðlar gegna í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þótt fjölmiðlar megi ekki fara yfir tiltekin mörk, einkum að því er varðar æru og réttindi annarra og nauðsyn þess að koma í veg fyrir birtingu trúnaðarupplýsinga, sé það engu að síður skylda þeirra að miðla upplýsingum og hugmyndum um öll mál sem erindi eiga við almenning á þann hátt að það samrýmist skyldum þeirra og ábyrgð. En einnig að það sé ekki eingöngu hlutverk fjölmiðla að miðla slíkum upplýsingum og hugmyndum, heldur sé það einnig réttur almennings að fá þær. Það þurfi að gera fjölmiðlum kleift að sinna nauðsynlegu hlutverki sínu sem - varðhundur almennings - við miðlun upplýsinga um alvarleg mál sem eiga erindi við almenning.

En mannréttindadómstóllinn hefur einnig sagt að 10. gr. mannréttindasáttmálans tryggi ekki ótakmarkað tjáningarfrelsi, jafnvel þegar um sé að ræða fjölmiðlaumfjöllun um alvarleg mál sem eigi erindi við almenning. Af þessum réttindum leiði -skyldur og ábyrgð- sem einnig eiga við um fjölmiðla.

Af framangreindri umfjöllun má sjá að sannanlega er um mikilsverð réttindi að ræða, hvort heldur um er að ræða tjáningarfrelsið eða persónuverndina. Ef þessum tvennum réttindum myndi ekki ljósta saman geri ég ráð fyrir að flestir sanngjarnir menn myndu halda því fram að hvor réttindin um sig væru mjög mikilvæg og að þau bæri að tryggja með öllum löglegum ráðum. En nú er staðreyndin sú að þessi réttindi vegast á og meta þarf hvor réttindin eigi að ganga framar. Skv. stjórnskipun Íslands liggur þetta mat hjá dómstólum. Eðli málsins samkvæmt mun það taka dómstóla einhvern tíma að skera úr um hvor réttindin eigi að víkja. Í málinu liggur einnig fyrir að lögbannsbeiðandi telur að umfjöllun Stundarinnar brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Ef hann þarf að sæta því að fá úrlausn dómstóla um þá skoðun sína, þar til eftir að fjölmiðlaumfjöllun sú sem beiðst er lögbanns gegn er afstaðin, er hin stjórnarskrárbundna einkalífsvernd til lítils ef í ljós kemur það mat dómstóla, eftir atvikum mannréttindadómstólsins, að í þessu tilviki hefði tjáningarfrelsisverndin átt að víkja. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að lögbann verður ekki lagt við athöfn nema gerðarbeiðandi sanni eða geri sennilegt að athöfn brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans.

Ef í ljós kemur við mat dómstóla að í þessu tilviki skuli þagnarskyldan víkja þá getur fjölmiðillin óhindrað haldið umfjöllun sinni áfram. En þá hefur líka verið úr því skorið í samræmi við leikreglur réttarríkisins hvað telst vera rétt.

Við stöndum því frammi fyrir því að annað hvort geti stjórnarskrárvarin réttindi verið brotin með óafturkræfum hætti, ef lögbann hefði ekki verið samþykkt og niðurstaða dómstóla sú að persónuverndin væri rétthærri, eða tafir verði á því að stjórnarskrárvörðum réttindum verði beitt, ef niðurstaða dómstóla verður sú að tjáningarfrelsið sé rétthærra í þessu tilviki.

Í stundakennslu minni við HÍ hef ég lagt á það áherslu að ef vafi leikur á því hvort upplýsingagjöf brjóti í bága við þagnarskylduákvæði þá skuli túlka þann vafa þagnarskyldunni í vil þar til úr hefur verið skorið hvað telst rétt. Því brot gegn þagnarskylduákvæðum eru með öllu óafturkræf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er gaman að heyra annað sjónarmið á þetta efni heldur en það sem er mjög einhliða upphrópað í fjölmiðlum og pólítískri umræðu um þessar  mundir.  Ég hef lengi verið ósáttur við þá túlkun sem hefur verið í tísku undanfarið að tjáningarfrelsi fjölmiðla eigi að vega þyngra heldur en friðhelgi einkalífsins. Því miður hafa dómstólar bæði hér og erlendis og þar með mannréttindardómstóllinn sett vond fordæmi. Í því sambandi hafa tveir þættir verið dregnir fram sem rök þ.e. að óheft umfjöllun fjölmiðla hafi mikið lýðræðislegt og gildi og það felist almannahagsmunir í því að allar upplýsingar um suma séu opinberar. Þar hafa dómstólar ákveðið að sumt fólk eigi minni rétt á friðhelgi einkalífs en annað fólk. Þessi túlkun virðist eiga við stjórnmálamenn og frægt fólk almennt.  Getur einhver bent mér hvar það stendur í stjórnarskránni að sumt fólk eigi minni rétt á friðhelgi einkalífs en aðrir?  Með þessum dómafordæmum hafa dómstólar að mínu mati tekið sér löggjafarvald.  Að lokum, hvaða almannahagsmunir felast í því að fjölmiðlar fjalli um skuldastöðu Eiðs Smára?

Stefán Örn Valdimarsson (IP-tala skráð) 18.10.2017 kl. 19:32

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Mætti ég beina þeirri  ósk minni til síðuhafa, að rita pistla sína með svörtu letri, á hvítum bakgrunni?

 Hvítir stafir, á rauðum bakgrunni, eru ólæsilegir alltof mörgum, sama hve viskan er mikil. 

 Svart á hvítu er ávallt best.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 19.10.2017 kl. 04:21

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Takk fyrir þetta og þakka góðan pistil.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 21.10.2017 kl. 02:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 147
  • Frá upphafi: 70201

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 118
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband