4.8.2016 | 08:28
Svör við nokkrum spurningum yfirlækna á hjartadeild Landspítala.
Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu þann 30. júlí sl. er að finna grein eftir þrjá yfirlækna hjartadeildar Landspítalans. Annars vegar er þar að finna ágæta lýsingu á heilbrigðiskerfinu á Íslandi og starfsemi hjartalækninga á Landspítala. Hins vegar er að finna bollaleggingar læknanna vegna áforma um nýjan einkaspítala og spyrja þeir nokkurra spurninga vegna þeirra áforma. Það er sjálfsagt að verða við ósk þeirra um svör.
Eins og fram kemur í greininni finnst læknunum það vekja furðu hvert umfang hugmyndanna virðist vera því það sé meira en áður hafi verið kynnt. Í því samhengi er rétt að rifja upp að á árunum 2009-2012 voru áform uppi um liðskiptaspítala og hótel á sömu lóð og gert er ráð fyrir undir Medical Center Pedro Brugada. Þá var gert ráð fyrir spítala með 120-150 herbergjum og hóteli með 250-300 herbergjum. Þá eins og nú var gert ráð fyrir að allt að 1000 varanleg störf yrðu til vegna verkefnisins. Þess misskilnings virðist gæta að verið sé að ræða um 1000 heilbrigðisstarfsmenn. Svo er ekki. Almennt er gert ráð fyrir að á fjögurra stjörnu hóteli starfi að meðaltali 12 manns fyrir hver 10 herbergi. Sé hótelið 5 stjörnu þá er talan 20 manns. Það liggur því fyrir að eingöngu vegna hótelsins geti komið til með að starfa allt að 600 manns.
Tilgangur heimsóknar Brugada til Íslands í byrjun maí sl.
Í byrjun maí sl. kom Brugada til Íslands. Megintilgangur hans með þeirri heimsókn var sá að hitta einhverja af forvígismönnum hjartalækninga á Íslandi. Lagði hann strax í upphafi á það áherslu að hann myndi vilja hitta amk einn nafngreindan yfirlækni hjartadeildar Landspítalans. Ástæðan var sú að hann sagðist verða að vera sannfærður um það sjálfur að ef hann kæmi til landsins með starfsemi þá yrði það í góðri sátt og samvinnu við hjartadeild Landspítalans. Á þessum fundi, með yfirlæknum hjartadeildar Landspítala, kom það skýrt fram hverjar áhyggjur þeir hefðu ef Brugada kæmi til starfa á Íslandi. Að sama skapi kom það skýrt fram af hálfu Brugada að hann myndi undir engum kringumstæðum sækjast eftir starfsfólki úr hinu opinbera íslenska heilbrigðiskerfi. Þvert á móti sæi hann fyrir sér að hann gæti lagt íslensku heilbrigðiskerfi lið með bæði samstarfi og samvinnu. Í því samhengi var bæði rætt um þjálfun íslenskra lækna og að jafnvel gæti Brugada og teymi hans aðstoðað Landspítalann ef á þyrfti að halda með því að leggja honum til starfsmenn ef spítalinn ætti við tímabundinn mönnunarvanda. Að auki var rætt um rannsóknarsamvinnu.
Í þessari sömu heimsókn hitti Brugada heilbrigðisráðherra og landlækni, Birgi Jakobsson, og greindi þeim báðum frá áformum sínum. Honum var vel tekið á báðum stöðum en jafnframt bent á að þeir hefðu sínum skyldum að gegna við íslenska heilbrigðiskerfið og að þeirra hlutverk væri að gæta þess. Á þessum tíma lá ekki fyrir hvar einkaspítala Brugada yrði fundinn staður.
Eftir þessa heimsókn Brugada til landsins taldi hann forsendur vera fyrir því að hann gæti komið hingað til starfa í sátt og samvinnu við íslenskt samfélag. Því var hafist handa við að leita að heppilegri lóð undir starfsemina og eftir viðræður við nokkra aðila varð niðurstaðan sú að semja við Mosfellsbæ um leigu á lóð undir starfsemina með kaupréttarákvæði sem fyrirhugað er að nýta fáist ívilnanir vegna verkefnisins frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Hvers vegna ívilnanir?
Ég deili ekki áhyggjum yfirlæknanna yfir því að mögulega verði efnahagslegum stöðugleika hérlendis ógnað ef ráðist verði í tvær stórar spítalabyggingar samtímis. Fyrir það fyrsta liggur fyrir að þótt einkaspítalinn verði ekki lítill þá verður hann heldur ekki sérlega stór. Um er að ræða sérhæfðan spítala þar sem gera má ráð fyrir að 200 - 400 starfsmenn komi til með að vinna á. Í samanburði við Landspítalann telst það ekki stór spítali. Þar fyrir utan er verið að byggja fjölmörg hótel um alla borg sem ættu þá alveg eins að ógna efnahagslegum stöðugleika ef uppbygging þeirra heldur áfram á sama tíma og nýr Landspítali verður reistur.
Það er hins vegar út af fyrir sig rétt að það er ekki endilega gott fyrir efnahagslegan stöðugleika að byggja um of á mörgum séríslenskum verkefnum á sama tíma. Enda segir í frumvarpi til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi: ... er áhyggjuefni að hagkerfið verði á næstu árum keyrt áfram af innlendri eftirspurn sem leitt geti til þess að þjóðhagslegur sparnaður mun minnka á ný og viðskiptaafgangur snúast í halla. Til að að sporna við þeirri þróun er mikilvægt að renna styrkari stoðum undir fjárfestingar sem skapa auknar útflutningstekjur til framtíðar og viðhalda eðlilegum vexti fyrir íslenskt hagkerfi. Í frumvarpinu er jafnframt bent á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar sé tekið fram að ríkisstjórnin muni leggja kapp á að skapa starfsumhverfi sem ýti undir fjárfestingu og fjölgun starfa og að sérstök áhersla verði lögð á vöxt útflutningsgreina, nýsköpun og nýtingu vaxtatækifæra framtíðarinnar.
Yfirlæknarnir segja réttilega í grein sinni að margt sé óljóst hvað fyrirhugaða starfsemi varðar sem og um eignarhaldið. Því ætti það að vera þeim og öðrum fagnaðarefni að til stendur að sækja um ívilnanir skv. lögum nr. 41/2015.
Meðal skilyrða fyrir því að ívilnanir verði veittar er eftirfarandi:
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um viðkomandi fjárfestingarverkefni, meðal annars upplýsingar um tímaáætlun framkvæmda verkefnis, ítarlega lýsingu á verkefni, rekstraráætlun, stærð verkefnis og hvernig fjármögnun verði háttað.
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um þá aðila sem að standa að fjárfestingarverkefni og hvernig skiptingu eignarhluta er háttað milli þeirra.
Að fyrir liggi rökstuðningur fyrir því að ívilnun sé forsenda þess að verkefni verði að veruleika hér á landi.
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um þá sem koma að fjármögnun verkefnis.
Að fyrir liggi greinargóðar upplýsingar um markaðinn sem félagið hyggst starfa á, markaðslönd og markaðsstöðu.
Að starfsemi félags sem ívilnunar nýtur sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi.
Aðstandendur verkefnisins hafa frá upphafi gert ráð fyrir að það muni taka tíma að útbúa öll þau gögn sem til þarf áður en sótt verður um ívilnun. Það er því ekki tilviljun að í samningnum um lóðina í Mosfellsbæ sé gert ráð fyrir tímafresti til 1. desember 2017 til að leggja sambærileg gögn fyrir bæjarfélagið.
Það þarf engum að detta til hugar að fjárfestar séu tilbúnir til að setja allt að 50 milljarða í uppbyggingu á einkaspítala og hóteli á Íslandi fyrir erlenda sjúklinga án þess að vera búnir að fá samþykki íslenskra stjórnvalda fyrir framkvæmdinni. Það samþykki sem þeir treysta á er ívilnunarsamningur við íslenska ríkið. Það er hins vegar allt annað mál og önnur spurning að samkvæmt íslenskum lögum þarf einungis úttekt og samþykki Landlæknis fyrir því að mega opna hér á landi spítala.
Niðurlag.
Eitt af skilyrðum þess að einkaspítali eins og sá sem fyrirhugaður er í Mosfellsbæ geti gengið upp er að fyrir hendi sé samningur við alhliða sjúkrahús sem geti tekið að sér að bregðast við ef eitthvað kemur upp á í aðgerð eða ef sjúklingar fá alvarlega fylgikvilla meðferðar. Um þessi atriði hafði verið rætt áður við þáverandi spítalaforstjóra þegar fyrra verkefnið í Mosfellsbæ var í undirbúningi. Þá var gert ráð fyrir að Landspítalinn yrði sá bakhjarl sem hægt yrði að leita til gegn því að fyrir þjónustuna yrði greitt fullt verð.
Af framangreindu má sjá að enn er langt í að hægt sé að slá því föstu að af verkefninu verði. Aðstandendur verkefnisins töldu að gefast myndi ráðrúm til að svara viðeigandi embættismönnum og yfirvöldum öllum þeim spurningum sem þau óskuðu svara við beint og milliliðalaust. En það má einnig hafa þennan háttinn á.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 144
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 115
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.