Af hverju ættu erlendir sjúklingar að vilja koma til Íslands?

Í umræðunni síðustu daga hafa margir spurt þeirrar spurningar af hverju erlendir sjúklingar ættu að vilja koma til Íslands til aðhlynningar á einkaspítala. Virðast margir þeirrar skoðunar að Íslendingar og Ísland hafi lítið að bjóða í þeim efnum. Það þarf hins vegar ekki mikla rannsókn á veraldarvefnum eða mikla umhugsun til að finna ýmislegt Íslandi í hag sem gæti gert landið að eftirsóknarverðum stað til að leita sér læknisþjónustu.

Á árunum 2009 – 2012 voru nokkur verkefni í gangi þar sem verið var að reyna að stofna fyrirtæki í heilbrigðistúrisma. Það lá alltaf fyrir að brekkan væri brött og að endingu náði ekkert þessara verkefna að raungerast. En eftir sat umtalsverð reynsla og þekking á þessu sviði sem vonandi á eftir að skila okkur nokkrum nýjum tækifærum í náinni framtíð. Á þessum árum var það kynnt rækilega hvað það væri sem gæti gert Ísland að fýsilegum kosti fyrir heilbrigðistúrisma. Miðað við umræðu dagsins í dag virðist fáir muna eftir umræðunni á þessum árum og því sjálfsagt að rifja það upp sem þá þóttu vera kostir Íslands og jafnframt velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi breyst:

1. Almennt viðskiptaumhverfi þótti vera Íslandi í hag og það þrátt fyrir þau vandamál sem hrunið skapaði.

a. Nú erum við væntanlega í náinni framtíð að sjá fram á það að fjármagnshöftum verði aflétt. Jafnframt virðist almennt viðskiptaumhverfi á Íslandi nú vera að mörgu leyti heilbrigðara en í mörgum öðrum löndum Evrópu.

2. Gæði heilbrigðiskerfisins þóttu vera góð. Á árunum 2009-2012 var Ísland t.d. í 3. sæti á svo kölluðum Euro Health Index mælikvarða. Það skipti máli vegna þess að kannanir hafa sýnt að sjúklingar sem ætla sér að fara yfir landamæri til að leita sér læknishjálpar kynna sér iðulega hvernig heilbrigðiskerfi viðkomandi lands er – jafnvel þótt verið sé að sækja þjónustu á einkaspítala.

a. Á þessum mælikvarða erum við verr stödd í dag þar sem nú hefur Íslandi færst niður í 8. sæti listans. Það telst þó engu að síður gott að vera á topp 10 listanum þannig að ennþá er þessi mælikvarði í ágætu lagi.

3. Uppbygging og skipulag heilbrigðiskerfisins á Íslandi taldist almennt vera gott í samanburði við önnur Evrópu lönd. Aðgengi sjúklinga almennt gott þótt það mætti bæta.

a. Til stendur í dag að opna tvær nýjar einkareknar heilsugæslustöðvar sem eykur fjölbreytni kerfisins. Í Hollandi, sem hefur verið nr. 1 á Euro Health Index mælikvarðanum til fjölda margra ára, er fjölbreytnin í veitingu þjónustunnar meiri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Er það talin ein af skýringum á hinum góða árangri í Hollandi.

4. Á árunum 2009-2012 þótti einn af styrkleikum Íslands felast í því hversu mjög ferðamannaiðnaðurinn væri að vaxa. Spáð var mikilli aukningu sem myndi gera Ísland ennþá eftirsóknarverðara. Það er þekkt í heilbrigðistúrismanum að oftast ferðast sjúklingar með einn eða fleiri fjölskyldumeðlimi með sér. Því skiptir máli fyrir þá hvar áfangastaðarinn er með tilliti til þeirra möguleika sem felast í almennum túrisma.

a. Á árinu 2016 hafa allar fyrri spár um fjölgun ferðamanna staðist og vel það. Spár til framtíðar gera ráð fyrir stöðugri aukningu ferðamanna.

5. Tæknivæðing Íslands og tengingar við umheiminn í víðu samhengi þóttu vera góður kostur.

a. Stöðug aukning flugferða til og frá landinu.

6. Lega landsins mitt á milli Evrópu og USA. Þetta þótti kostur því þá væri hægt að reyna að hasla sér völl í báðum heimsálfum.

a. Lega landsins hefur að sjálfsögðu ekki breyst en þó má segja að Ísland hafi færst nær Evrópu nú en var á árum áður. Ástæðan er sú að nú er búið að samþykkja tilskipun um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri í Evrópu. Nú geta sjúklingar innan Evrópu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, farið til annars Evrópuríkis og fengið þar læknisþjónustu sem heimaríkið greiðir upp að sama marki og greitt hefði verið í heimaríkinu. Þessi staðreynd opnar nýjar dyr fyrir sjúklinga í Evrópu.

7. Verðlag á læknisþjónustu í Evrópu var almennt lægra en í USA og því var talið fýsilegt að reyna að fá sjúklinga frá USA inn í hið evrópska umhverfi þar sem þjónustan væri á pari við þjónustuna í USA en gegn lægra verði. a. Þetta hefur ekki breyst árið 2016.

8. Heilnæmt umhverfi á Íslandi. Hreint vatn, hreint loft, umhverfisvitund. Ekki of heitt á sumrin og ekki of kalt á veturna, amk á suðvesturhorninu. Víða þar sem heilsutúrismi er stundaður er mjög heitt yfir sumarmánuðina og suma daga nánast ólíft úti. Það er umhverfi sem ekki telst gott til að jafna sig eftir læknisinngrip. Í fyrri hugmynd að spítala í Mosfellsbæ var gert ráð fyrir sérstöku glerhýsi sem myndi tengja hótelið og spítalann. Var hugsunin sú að þarna yrðir einhvers konar vetrargarður með gróðri, vatni og bekkjum og sumarhita allt árið.

a. Þetta hefur ekki breyst árið 2016.

9. Öryggi. Ísland taldist eitt öruggasta land í heimi og það var talið skipta máli.

a. Þetta hefur breyst árið 2016. Í samanburði við flest önnur lönd Evrópu er Ísland árið 2016 en öruggara í samanburði við önnur Evrópulönd en var á árunum 2009 – 2016.

Framangreindir þættir eru allir taldir gera Ísland að góðum kosti til að setja á fót einkaspítala á Íslandi og miður ef einhverjir eru með sérstaka minnimáttarkennd gagnvart landinu í þessu samhengi.

 

Sumir hafa bent á að fá dæmi séu um það að tekist hafi að reisa einkaspítala sem ætla sér eingöngu að byggja á erlendum sjúklingum.

Þótt það sé rétt að einkaspítalinn í Mosfellsbæ ætli að byggja sína starfsemi á erlendum sjúklingum er þó að finna í þeirri viðskiptahugmynd nýja útfærslu sem aðstandendur verkefnisins telja að geti gert gæfumunninn.

Læknirinn sem kemur til með að stýra starfseminni, Dr. Pedro Brugada, er alþjóðlega þekktur og hefur dregið til sín sjúklinga frá allri Evrópu. Undir hans stýringu eru nú reknir þrír einkaspítalar í Evrópu. Þeir anna ekki eftirspurn og eru biðlistar eftir þjónustunni. Það er ætlun hans að bjóða sjúklingum upp á styttri biðtíma með því að nýta sér þjónustuna á Íslandi. Það verður gert í samvinnu við Evrópsk tryggingarfélög. Með því má segja að læknirinn útvegi sjálfur spítalanum tiltekinn fjölda verkefna. Það er trú aðstandenda verkefnisins að þessi sjúklingafjöldi verði nægur til að byggja á og komi í staðinn fyrir heimamarkaðinn sem flestir spítalar sem stunda erlenda sjúklinga hafa aðgang að.

Þessu til viðbótar stendur til að leita nýrra viðskiptavina í Evrópu á grundvelli þess frelsis sem sjúklingar hafa fengið til að leita sér lækninga í Evrópu þvert á landamæri. Og að sjálfsögðu stendur einnig til að leita viðskiptavina í USA.

Væntanlega munu einhverjir spyrja hvað gerist ef ekki tekst að fá nægjanlega marga sjúklinga erlendis frá. Verður þá reynt að sækjast eftir íslenskum sjúklingum? Svarið við þeirri spurning er neikvætt enda er það alltaf í höndum yfirvalda að skilgreina það hvar þau vilja kaupa sína þjónustu.

Að lokum má nefna í framangreindu samhengi að íslenski markaðurinn er það smár að þótt yfirvöld myndu vilja kaupa þjónustu af spítalanum myndi það gera lítið fyrir spítalann í þeim skilningi hvort hann fái nægilega marga sjúklinga eða ekki til að bera sig. Má sem dæmi nefna að af einni tiltekinni sérhæfðri hjartaaðgerð gerir LSH 75-100 aðgerðir á ári meðan Brugada og teymi hans gera 1.800 sambærilegar aðgerðir á ári.

 

Gunnar Ármannsson

stjórnarmaður í MCPB ehf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband