Færsluflokkur: Bloggar

Bananalýðræði í boði meirihluta Félagsdóms

Fyrir dómsuppkvaðningu Félagsdóms var ég sannfærður um að dómurinn myndi dæma á þann veg að boðað verkfall Eflingar væri ólögmætt. Ástæðan var ekki sú að ég sem löglærður hefði greint lagaumhverfið og komist þannig að niðurstöðunni. Mér fannst einfaldlega augljóst að með því að beita rökhugsun, þá væri útilokað annað en að fá þá niðurstöðu að á Íslandi gilti sú regla að sá sem kemur í veg fyrir að lögbundin fyrirmæli nái fram að ganga hagnist á því. Ég taldi einfaldlega víst að íslenskt regluverk væri með þeim hætti að slík staða gæti ekki komið upp–amk ekki ef leitað væri úrlausnar þar til bærra aðila.

Það verður því að segjast eins og er að það kom mér verulega á óvart að einn löglærður dómari, hvað þá þrír, skyldu komast að niðurstöðu í málinu sem leiðir af sér að sá sem ekki fer að lögum kemst upp með það, en sá sem fer að lögum verði að leita réttar síns.

Ég hef núna, til að reyna að skilja málið, sett upp lögfræðigleraugun og lesið bæði meirihlutaákvæðið og minnihlutaákvæðið. Minnihlutaákvæðið er vel rökstutt og þar er beitt lögfræðilegri aðferðafræði til að komast að rökréttri niðurstöðu.

Í 111. málsgrein í dómi Félagsdóms er að finna afar sérkennilega rökleiðslu meirihlutans, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að hið boðaða verkfall, sem ekki fari í bága við fyrirmæli laga, komi til framkvæmda. Þarna er að finna það skemmtilega orðalag að stefndi hafi ekki ljáð atbeina sinn til að miðlunartillaga ríkissáttasemjara fái þann framgang sem lög mæla fyrir um. Með öðrum orðum stefndi er að brjóta lögin með framgöngu sinni. Næsta setning er í raun algjört gullkorn því meirihlutinn orðar það svo ekki verði betur séð en að ríkissáttasemjari hafi leitað þeirra leiða sem lög bjóða til að tryggja að atkvæðagreiðslan fari fram, með innsetningarbeiðni í skrá yfir félagsmenn stefnda. Sem sagt, ríkissáttasemjara ber að fara að lögum til að reyna að fá því framfylgt að miðlunartillaga hans fái þann framgang sem lög mæla fyrir um. Sá brotlegi, stefndi í þessu tilviki, þarf hins vegar ekkert að aðhafast heldur getur hann haldið áfram að fylgja meintum lagabókstaf um hvernig skuli boða til og framkvæma verkföll án þess í nokkru að taka tillit til þess að fram sé komin miðlunartillaga sem á að hafa tiltekinn framgang sem hin sömu lög mæla fyrir um hvernig eigi að vera. Þannig að sá sem fer að lögum er lentur einhvers staðar að fjallabaki á meðan sá sem brýtur lögin heldur áfram sinni ferð á breiðgötu réttlætisins–eða þannig. Að lokum klykkir meirihlutinn út í þessari málsgrein með því að fullyrða að hið löglega boðaða verkfall fari ekki í bága við fyrirmæli laga, þar með talið 14. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er beinlínis röng niðurstaða eins og minnihlutinn bendir réttilega á.

Eins og minnihlutinn bendir á þá eru skilyrði í nefndri 14. gr. sem fara þarf eftir til að verkfall teljist heimilt. Það er ekki flókið því fara þarf að skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum. Í 27. gr. laganna er kveðið á um að þegar miðlunartillaga er komin fram þá skuli leggja hana fram til samþykkis eða synjunar. Það segir ekki í greininni að það megi gera hvorugt. Eða að það megi láta það vera að ljá atbeina sinn – eins og meirihlutinn virðist telja að sé mögulegt. Löggjafinn hefur tekið af allan vafa að þegar fram er komin miðlunartillaga þá skal kjósa um hana og fá niðurstöðu. Segir þannig í 2. mgr. 29. gr. laganna að miðlunartillaga skuli borin undir atkvæði og henni svarað játandi eða neitandi. Þetta er lögbundin skylda að gera og felur í sér að þeir sem þurfa að koma að framkvæmdinni verða að ljá atbeina sinn til þess. Að fenginni niðurstöðu er þá annað hvort komin á friðarskylda og kjarasamningur eða ekki. Ef ekki þá getur viðkomandi stéttarfélag haldið áfram verkfallsundirbúningi sínum ef það svo kýs.

Hvað varðar mögulegan ágreining um embættistakmörk ríkissáttasemjara þá leysir minnihlutinn það mál með því einfaldlega að vísa til viðeigandi ákvæðis í stjórnarskrá og hvernig skuli leysa slíkan ágreining. Og klykkir út með því að benda á að skv. ákvæðinu beri að hlýða yfirvaldsboði í bráð. Með öðrum orðum það er bundið í stjórnarskrá að hlíta skuli fyrirmælum stjórnavalda þar til um þau hefur verið fjallað af dómstól og breytt eftir atvikum.

Það er ekki í boði að neita að hlýða úrskurðum, dómum, ákvörðunum eða fyrirmælum opinberra aðila jafnvel þótt unnt sé að leita endurskoðunar fyrir dómstólum eða æðri dómstól eftir atvikum. Sé slík háttsemi látin viðgangast er það viðurkenning á bananalýðræði.


Áramótahlaupaannáll 2022

Jæja enn einn pistillinn að loknu hlaupaári. Þetta ár var ekkert spes á hlaupabrautinni og í raun það lakasta síðan 2012. Í síðasta pistli fyrir ári síðan setti ég fram þær væntingar að geta hlaupið meira en 3000 km á árinu, í stað þess að rétt skríða yfir 2000 km síðustu tvö Covid ár. En það fór öðru vísi en ætlað var. Hafði sloppið við Covid pestina fram að þessu ári en kvikindið náði mér þrisvar í ár. Fyrst um miðjan febrúar sem gerði að verkum að ég hljóp mjög lítið í næstum því mánuð. Í annað skiptið í byrjun ágúst og þá náði paddan mér hressileg þannig að ég fékk ferð með þar til gerðu ökutæki á spítala og fékk að rifja upp kynni af misgóðum spítalamat. Þetta þýddi að sjálfsögðu að hlaupaæfingar voru fáar í ágúst og september. Í þriðja skiptið náði paddan mér helgina fyrir jól. Það var alveg týpískt. Var þá rétt einu sinna að komast af stað aftur og búinn að ná 5 æfingum eftir um sex vikna stopp vegna hjartavesens. Af þessu tilefni var mér bent á að það gæti verið góð hugmynd að setja saman stýrihóp um endurskoðun á þjónustuhandbók um viðbrögð við Covid veikindum. Vonast ég til að slík vinna komi í framtíðinni í veg fyrir fyrirséð en alveg óvænt veikindi af þessum sökum.

En sem sagt, ég datt úr hlaupagírnum í lok október í haustmaraþoninu. Síðasti leggurinn í hlaupinu var óvenju erfiður og þurfti ég að labba þær litlu brekkur sem eru á leiðinni frá Ægissíðunni og í mark. Þess hef ég nú ekki þurft hingað til. Og ofan á þreytuna sýndist mér hlaupaúrið hafa bilað þar sem púlsmælirinn fór alveg í ruglið. Ég áttaði mig síðan ekki á því fyrr en daginn eftir að það var ég sjálfur sem hafði farið alveg í ruglið því ég var dottinn úr takti. Ekki dugði að bryðja viðbótar hjartatöflur þannig ég hélt áfram að vera taktlaus. Að sumra mati er ég það nú alltaf hvort sem er. En hvað um það ég fór í rafvendingu um miðjan nóvember og komst þá loksins aftur í takt. Mátti samt ekki gera neitt skemmtilegt alveg strax og rétt náði síðustu rjúpnahelginni sem blessunarlega var fyrstu helgina í desember en ekki þá síðustu í nóvember eins og verið hefur síðustu ár. Þannig að þetta þýddi hlaupastopp í næstum sex vikur.

Mér telst til að hlaupnir kílómetrar þetta árið nái ekki einu sinn 1700. Það er minnsta magn síðan 2012 þegar ég var rúmlega 6 mánuði úr takti. En þetta var nú samt ekki alslæmt hlaupaár. Í maí sl. kláraði ég að hlaupa vegalengdina umhverfis hnöttinn, sem er 40.075 km um miðbaugslínu. Það var skemmtilegt að ná því og fínt að vera byrjaður á umferð tvö. Nema ég fari núna nýja leið og miði við vegalengdina með því að fara um pólana. Það er kannski gáfulegt því sú leið er víst um 43 km styttri. Maður er víst ekkert að yngjast.

En talandi um hlaupin, sem þessi pistill á að vera um, þá náði ég þó að trekkja í 4 maraþon á árinu þrátt fyrir skakkaföll. Eftir árið lít ég svo á að ég sé að verða búinn að mastera maraþonhlaup með því að taka bara tvær til þrjár langar æfingar í undirbúning. Það er reyndar ekkert sérlega skynsamlegt ef verið er að hugsa um einhverja tíma en nægjanlegt til að geta verið með og skemmt sér með hlaupafélögunum. Ég tók þátt í vormaraþoninu einu sinni sem oftar og einnig haustmaraþoninu eins og ég er búinn að nefna. Mér telst til að ég sé núna búinn að hlaupa þá braut í keppnismaraþonum 11 sinnum og er þetta sú braut sem ég hef oftast hlaupið heilt maraþon. Reykjavíkurmaraþonbrautin er sú braut sem ég hef hlaupið næst oftast eða 6 sinnum. Þá braut mun ég víst ekki hlaupa aftur þar sem búið er að breyta henni. Það stóð auðvitað til að hlaupa nýju brautina í sumar en eftirköst Covid pestarinnar komu í veg fyrir það. Ég skráði mig í tvöfalda Vesturgötu í sumar og ætlaði að hlaupa hana. En mér tókst sjálfum að koma í veg fyrir það með ógætilegri meðferð á sláttuorfi í sveitinni. Mér varð alveg hugsað til Sigga P sem hefur predikað það í mörg ár að gera ekkert ógáfulegt líkamlega rétt fyrir löng keppnishlaup. Ég fékk sem sagt hressilega í bakið og gat varla gengið þegar Vesturgatan fór fram. Ég hef svo sem aldrei reynt að halda því fram að ég sé beittasti hnífurinn.

En í vor þegar ég var búinn með vormaraþonið þá var ég bara í þokkalegu standi þannig að ég skellti mér í Mývatnsmaraþonið í annað skiptið um ævina. Það var bráðskemmtilegt í góðu veðri. Þegar ég var á leið að startlínu með Ívari Adolfs tókum við Þjóðverja tali sem virtist nokkuð sprækur og á okkar reki. Við auðvitað spurðum hann hvort hann væri búinn að hlaupa mörg maraþon og sagðist hann vera búinn með 15. Okkur fannst það nú bara nokkuð gott hjá honum. Alveg þangað til hann bætti því við að það væri bara á þessu ári. Já og flest þessi hlaup voru á tíma nálægt þremur klukkustundum. Það er bara önnur deild en við erum í og bara gaman að því!

Fjórða maraþonið sem ég hljóp á árinu var rauðvíns maraþonið í Medoc í Frakklandi þann 10. september. Bjössi læknir var reyndar búinn að banna mér að taka þátt í hlaupinu þar sem ég væri ekki búinn að klára eftirköst Covid. Ég brá því á það ráð að fá álit hjá öðrum heilbrigðisstarfsmanni, landsþekktum sjúkranuddara, og hann var alveg sammála mér um að það hlyti að gera mér gott að hlaupa rauðvínsmaraþon. Sem það auðvitað var. Þetta er náttúrulega þannig hlaup að þarna er markmiðið að hlaupa eins hægt og mögulegt er og njóta allra þeirra veitinga sem boðið er uppá á leiðinni. Til að gera langa sögu stutta þá er þetta skemmtilegasta maraþon sem ég hef tekið þátt í af þeim 50 sem ég hef hlaupið á ferlinum. Og þegar er búið að setja stefnuna á að hlaupa þetta hlaup aftur 2024.

Já 50 maraþona ferill. Ekki merkilegt í sjálfu sér og alls enginn ferill sem slíkur. En ferðalag. Og ferðalög. Maður minn lifandi hvað þessi hlaupa baktería hefur gefið mikið af skemmtilegum minningum, skemmtilegum hlaupafélögum og skemmtilegum stöðum að heimsækja. Þegar ég hugsa um það þá er partur af þessu öllu saman, og kannski drifkraftur, þetta blessaða heilsuvesen á mér. Ég fór ekki að hlaupa skipulega fyrr en eftir að ég greindist með blóðkrabbann. Þá m.a. til að geta fylgst betur með líkamsástandinu. Hvort blóðkrabbinn væri að fara af stað aftur. Enda vissi ég það sumarið 2018, áður en ég fékk niðurstöðu úr blóðsýnum, að það væri farið að styttast í aðra lyfjameðferð. Síðan hefur hjartað reglulega látið vita af sér og nú síðast bara fyrir fáum vikum. Það hefur því verið mitt hlutskipti að þurfa reglulega að vera að byrja uppá nýtt. Viðurkenni það alveg fúslega að stundum er þetta pirrandi og hefur truflað þegar markmiðið var að reyna að ná í einhverja tíma. En á hinn bóginn þá þekki ég orðið vel muninn á því að vera í litlu formi og í góðu formi til að geta hlaupið maraþon. Það lærist að það þarf ekkert endilega að hlaupa maraþon hratt til að geta notið þess. Það er samt staðreynd að það er auðveldara að hlaupa maraþon hratt ef maður er í formi til þess en að hlaupa maraþon hægt og vera ekki í formi til þess. Þess vegna er mikilvægt að reyna að finna þennan gullna meðalveg með að geta verið amk í þokkalegu formi til að geta hlaupið maraþon og haft þar af leiðandi meira gaman af því. Í mínum huga er þetta því alltaf sama keppnin, óháð endanlegum tíma, sem er að reyna að hlaupa hlaupið sem jafnast fyrri helminginn og þann seinni. Ef ég næ að hlaupa seinni helminginn ekki hægar en 4-5 mínútum hægar en fyrri helminginn þá er ég ánægður með útfærsluna. Þar sem maður er auðvitað hálfgerður njörður á þessu sviði þá á ég tölfræði yfir þetta. Ég hef 8 sinnum hlaupið á negatívu splitti, þ.e. seinni helminginn hraðar en þann fyrri. Og til viðbótar þá hef ég hlaupið 12 sinnum þannig að minna en fimm mínútum hefur munað á fyrri og seinni helmingi og þar af 5 sinnum þannig að munaði innan við 2 mínútum. Önnur hlaup hafa gengið alla vega og á ég ýmsar skrautlegar afsakanir til útskýringar í excel skjalinu mínu góða. T.d. má nefna tak aftan í læri eftir 10 km, mótvindur í 41 km, blóðrásarvesen niður í lappir eftir 12 km, farið af stað meiddur, mjög heitt, krampi í rasskinn eftir 25 km og í annað skiptið eftir 28 km (þetta er vondur staður til að fá krampa), stíf vestanátt (fyrri helmingur hlaupinn undan vindi og sá seinni á móti), slæmska í mjaðmakúlu, langt flug rétt fyrir hlaup, með gamla, skurðferð, illa æfður og datt úr takti.

Að baki eru nú 50 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum. Já og Madagascar sem sumir kalla áttundu heimsálfuna!

Markmið næsta árs eru þau sömu og síðasta ár og reyna að hlaupa meira en í ár og helst fleiri maraþon. Ég er með á dagskránni að hlaupa maraþon í Helsinki næsta vor og klára þar með að hlaupa maraþon í öllum höfuðborgum Norðurlanda. Það væri gaman að ná því.

Ég hleyp af því að ég get það. Og þegar ég get.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


Ammæli

Enn eitt árið að baki og nýr afmælisdagur. Því ber að fagna því eðli málsins samkvæmt fer þeim fækkandi. En það er nú samt reyndar ekki sú nálgun sem ég hef gagnvart afmælisdögum. Þvert á móti fagna ég hverjum og einum og tel mig í hvert skipti sem slíkur rennur upp hafa grætt einn í viðbót. Því eins og þekkt er þá er víst bara tvennt öruggt í þessu lífi, þ.e. að því líkur einhvern tímann og þangað til greiðum við helling af sköttum. En þangað til er um að gera að njóta daganna og borga sem mest af sköttunum.

Þetta sl. ár er búið að vera ágætt og loksins virðist Kóvit krumlan vera farin að losa takið. Vonandi losar hún það bara alveg sem fyrst og mér væri alveg sama þó ég sæi hana aldrei aftur. Paddan náði mér um miðjan febrúar sl. og mér fannst hún ekkert sérlega viðkunnaleg. Þótt ég hafi ráðið betur við hana en ég þorði að vona þá að sjálfsögðu setti hún allar hlaupaæfingar úr skorðum. Það verður því enn og aftur að aðlaga sett markmið að raunveruleikanum. Alveg óþolandi.

Annað markvert í mínu lífi er að í mars sl. fór ég í síðustu lyfjagjöfina í eftirmeðferðinni. Gott að vera laus undan því. Nú er bara að vona að ég fái sem flest ár í friði fyrir þessari óværu og geti farið að æfa hlaup aftur án þessarar íhlutunar.

Þetta eru víst orðin 55 ár. (Er það ekki kallað snemm miðaldra?). Lengi fram eftir aldri var ég viss um að ég myndi ekki ná þessum áfanga. Hélt að í besta falli yrðu þetta 52-53 ár. Var stundum skammaður af Möggu heitinni fyrir að halda þessu fram, þar sem henni fannst þetta vera arfa vitlaust. Þannig að eins og stundum (sjaldan) áður þá hafði ég augljóslega rangt fyrir mér.

En þetta með aldurinn maður. Skrítið hvað sumir eldast en aðrir ekki. Í vikunni kom ég við á fyrrverandi vinnustað og hitti þar fyrir þrjár fyrrverandi samstarfskonur sem eru hver annarri skemmtilegri og fallegri. En maður minn, þær eru nú engin unglömb lengur! Enda búnar að vinna þarna eins lengi og elstu menn muna. Ég aftur á móti ber að sögn aldurinn mjög vel. En svona er þetta bara. Kannski ég sé ekkert að heimsækja þær aftur alveg á næstunni ef þær skyldu slysast til að lesa þetta skrifelsi.


Áramótahlaupaannáll 2021

Þetta skrýtna ár - var fyrirsögn pistilsins í fyrra. Þar sem alltaf er verið að hvetja okkur til meiri umhverfisvitundar ætla ég að endurnýta fyrirsögnina í ár því að mörgu leyti er árið búið að vera déja vu ársins í fyrra.

Þetta skrýtna ár.

Árið í ár er í tvennum skilningi búið að vera endurómur ársins í fyrra. Að sjálfsögðu allt sem tengist Covid 19 og síðan hitt að nú er ég um það bil að verða búinn að ljúka seinna árinu í eftirmeðferðinni. Á bara eitt skipti eftir sem ég klára í mars nk. ef allt gengur að óskum.

Heilsufarslega er árið búið að vera svipað og í fyrra. Ég hef náð að næla mér í pest eftir pest en þó hingað til sloppið við kóvítis kóvítið (höf. Þráinn Bertelsson, facebook), 7,9,13. Þetta pestavesen er búið að hafa svipuð áhrif og í fyrra á þann hátt að ég hef getað hlaupið minna en ég vildi. Yfirleitt alltaf þegar ég hef verið að ná mér á strik þá hef ég orðið að hætta eða draga úr æfingum í einhvern tíma. Þannig að þetta er búið að einkennast af því að það er eins og maður sé alltaf nánast á byrjunarreit. En það ber þó að þakka fyrir það að geta aftur og aftur komist á byrjunarreit. Sumir sem þurfa að stoppa af heilsufarsástæðum komast nefnileg ekki alltaf aftur á byrjunarreit. Af tvennu illu er mun betra að komast þangað aftur og aftur og aftur -en ekki.

En þetta ár var þó skárra en árið í fyrra að því leytinu til að ég náði að klára þrjú maraþon og einn Laugaveg þótt engin hraðamet hafi verið slegin. Að auki náði ég einu fínu hálfmaraþoni á vegum HHHC liða daginn sem Reykjavíkurmaraþonið átti að vera. Ég hljóp aðeins of langt en var á meðal hraðanum 4:45 min. pr. km. sem kom mér skemmtilega á óvart því fram að þessu hlaupi hafði ég nánast ekkert verið að hlaupa á undir 6:00 min. pr. km. Þannig að þetta sannaði ágætlega fyrir mér að hægar æfingar þær gefa.

En núna undir lok árs varð sú breyting á inngjöfum vegna ónæmiskerfisins að í stað þess að fara á fjögurra vikna fresti inn á spítala og fá inngjöf í æð þá er ég nú farinn að gefa mér ónæmislyf sjálfur undir húð á vikufresti. Með því fæ ég meira magn af lyfinu og inngjöfin verður jafnari. Það eru því heilmiklar væntingar á þessum bæ um að það fari að sjá fyrir endann á þessu pesta standi. Og það er því aldrei að vita nema ég geti farið að hlaupa með markvissari hætti og jafnvel að nálgast einhverja tíma í maraþonhlaupum sem ég hef ekki séð síðan á fyrri hluta ársins 2018.

En talandi um árið 2018. Það var um mitt það ár sem blóðsjúkdómurinn fór aftur að láta kræla á sér og það dró smátt og smátt af mér í hlaupunum. Það ár endaði ég með að hlaupa 2600,3 km og eyddi í það tæplega 241 kls.t á hlaupum í 175 æfingum. Árið 2019 urðu kílómetrarnir 2019 á 208 klst. í 154 æfingum. Árið 2020 urðu kílómetrarnir 2020 á 196 klst. í 160 æfingum. Nú þegar árið 2021 er að klárast kemur í ljós að æfingamagnið í kílómetrum er nánast það sama og árið 2018, eða 2600, en klukkutímarnir á hlaupum þó töluvert fleiri eða um 263 í rúmlega 190 æfingum. Þannig að þótt magnið sé sama og árið 2018 er ég þó búinn að ná fleiri klukkustundum á hlaupum þó að ég fari hægar yfir.

Þannig að ef hin nýja aðferð við að gefa mér ónæmislyfið gagnast vel, og eftirmeðferðinni verður lokið, er aldrei að vita nema ég nái aftur að komast yfir 3.000 km hlaupna á næsta ári.

Þá er það tölfræðin. Ég endaði síðasta ár með því að hafa hlaupið samtals frá 10. apríl 2008 36.508,3 km. Með því að bæta við núna 2.600 eru kílómetrarnir orðnir 39.108,3. Mig vantar því ekki nema rúmlega 900 km til ná að klára hringinn í kringum hnöttinn um miðbaugslínu sem eru 40.075 km. Ef mér tekst að halda mér sæmilega við efnið fyrstu mánuði ársins gæti þetta tekist í afmælismánuðinum í apríl 2022. Þetta verða þá engir 80 dagar eins og í skáldsögu Jules Verne heldur 14 ár!

Að baki eru nú 46 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum. Að auki eru að baki 6 hlaup sem eru lengri en maraþonvegalengdin.

Markmið næsta árs eru einfaldlega þau að ná að hlaupa meira en í ár og helst fleiri maraþon. Ég á skráningu í rauðvínsmaraþonið í Frakklandi í haust og vonandi verður ástandið þannig að hægt verði að hlaupa það. Að auki stefni ég auðvitað á sem flest maraþon hér innanlands og aldrei að vita nema hægt verði að skjótast eitthvað út fyrir landsteinana í fleiri hlaup en rauðvínshlaupið.

Ég hleyp af því að ég get það -og þegar ég get.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


Maður á sextugsaldri lést úr Covid 19 í gær – en hann var hvort sem er með undirliggjandi sjúkdóm.

Þessari hugsun laust í kollinn á mér sl. mánudag þar sem ég lá klæddur í ullarnærföt, liggjandi undir tveimur sængum og hríðskalf. Stöðug hóstaköst og andardráttur ekki góður. Ég fór að velta því fyrir mér hvort verið gæti að ég væri ekki með mín hefðbundnu kvefeinkenni, sem ég fæ reglulega, heldur hefði ég smitast af Covid 19. Það var ekki góð tilhugsun og ég svitnaði meira. Var sú staða komin upp að ég þyrfti að leggjast inná spítala og fá aðstoð við öndun? Mér hefur ekki fundist frásagnir af þeirri lífsreynslu spennandi og vil gjarnan losna við raunhæfa tilraun um hvort ég lifi eina slíka af.

Mér finnst fyrirsögn eins og er á þessum pistli eiginlega ekki koma mér við því hvorki upplifi ég sjálfan mig sem mann á sextugsaldri né mann með undirliggjandi sjúkdóm. En staðreyndirnar segja mér þó að þetta er minn raunveruleiki. Og færi ég þessa leið sem í fyrirsögninni segir myndi ég enda í hugum flestra, annarra en þeirra sem þekkja mig, nákvæmlega svona. Þ.e. enn eitt nafnlaust fórnarlamb Covid 19, en auðvitað var ég með undirliggjandi sjúkdóm. Það var auðvitað skýringin. Einn enn, tölfræði á blaði.

Ég var ekki lítið feginn þegar ég fékk skilaboð um kl. 23:00 að ég væri ekki með Covid 19. Þetta var þá bara þetta venjulega sem ég ætti að geta ráðið við eins og hingað til. En mér var verulega brugðið og þetta voru ekki góðir tímar þar sem ég var kominn í vafa. En af hverju fór ég í Covid test?

Vegna undirliggjandi sjúkdóms fæ ég á fjögurra vikna fresti inngjöf með lyfi til að styrkja ónæmiskerfið. Sú inngjöf er virk í ca 3 vikur. Þannig að fjórðu hverju viku er ónæmiskerfið hjá mér lakara en ella. Það gerist oftar en ekki þessa viku að það fer að snörla í nefinu á mér og ég fæ kvefeinkenni. Stundum, en ekki alltaf, breytist það í fullvaxið kvef. Það hefur gerst að ég hef endað með hita í stuttan tíma þannig að ég þekki einkennin orðið býsna vel.

Síðasta vika var ein af þessum fjórum þegar ónæmiskerfið er lélegra en venjulega. Ég fór í inngjöf á fimmtudeginum en var þá farinn að finna fyrir þessu snörli í nefi. Á föstudeginum var ég fínn og fann ekki fyrir neinu. Aðfaranótt laugardags vaknaði ég um miðja nótt til að taka rútu upp í Landmannalaugar og hlaupa þar Laugaveginn. Þá fann ég fyrir því að ég var farinn að hósta og blótaði því að sjálfsögðu í sand og ösku. En hvað um það þetta var ekkert öðru vísi en venjulega þannig að ég hugsaði ekki meira um það. Fyrr en í hlaupinu sjálfu. Eftir 2 til 3 km upp fyrstu brekkurnar fór ég að finna fyrir því að þetta var að há mér og ég var orðinn alveg kraftlaus eftir rúma 20 km þegar komið var í Álftavatn. Ég kláraði samt hlaupið þótt ég hafi farið heldur hægar yfir en ég ætlaði mér.

Daginn eftir, á sunnudeginum, var ég í fínu standi. Við konan fórum í sund í Hveragerði og fórum Suðurstrandarveginn heim. Fínn dagur. Á mánudag fór ég í vinnu á venjulegum tíma. Um tíuleytið byrjuðu hins vegar nánast óstöðvandi hóstaköst. Þau ágerðust eftir því sem á daginn leið og um tvö leytið fann ég að ég var kominn með heilmikinn hita og hristist og skalf. Ég ákvað því að drífa mig heim, en í ljósi umfjöllunar um fjölgun smita núna allra síðustu daga, ákvað ég einnig að drífa mig í sýnatöku áður en heim væri farið. Einkennin voru vissulega býsna hressileg og komu ansi skyndilega fram fyrir minn smekk. Og sagt er að ef minnsti grunur leikur á um smit þá eigi að bregðast við því eins og um smit sé að ræða þar til það afsannast. Ég taldi reyndar ekki miklar líkur á að ég væri með Covid 19 þar sem allur undanfari var eins og oft áður. En þessi snögga breyting skaut mér skelk í bringu. Eftir á að hyggja þá er líklegasta skýringin á þessari skyndilegu versnun að 55 km utanvegahlaup sé kannski ekki rétta meðalið í þessum aðstæðum.

Ég er tvíbólusettur. En það sem ég les mér til um áhrif bólusetningar á þá sjúklinga sem eru með sjúkdóm eins og ég er með, er að við séum líklega að fá lakari vörn en aðrir. Sumir jafnvel enga. Sérstaklega hef ég séð að lyfin frá Pfizer og Moderna séu þannig samsett að þau gagnist okkur ekki vel.

Ég fékk Pfizer.

Ég styð hertari innanlandsaðgerðir gegn Covid 19.


Vorið er komið enn á ný.

Eftir drunga síðasta árs og byrjun þessa var dásamlegt að geta loksins tekið þátt í almenningshlaupi hér á Íslandi. Vakna að morgni hlaupadags með spenning í maganum og hefja sinn vanabundna undirbúning síðustu klukkutímana fyrir maraþon. Jú því þann 24. apríl sl. var blásið til maraþonhlaups á vegum Félags maraþonhlaupara frá Elliðaárdal og inn á Ægissíðu og til baka, tvisvar. Eitt það besta við vor- og haustmaraþonin hér á Íslandi er að mínu mati upphitunin. Það er algjörlega frábært að geta hitað upp inni í bíl, með hitann í botni á sætinu og stýrishjólinu, músíkina í botni og stökkva síðan út úr bílnum funheitur og fínn að ráslínunni þremur mínútum í start. Ég hef til þessa hvergi annars staðar rekist á þennan lúxus í ferðum mínum um heiminn að eltast við maraþonhlaup.

Það var þvílíkt gaman að rekast á gamalkunnug andlit hlaupafélaga á ráslínunni og mæta þeim síðan aftur nokkrum sinnum í brautinni, hvetja áfram og fá hvatningu til baka. Síðan þegar hálfmaraþonararnir bættust við í brautina fjölgaði enn frekar í kunningjahópnum og kveðjurnar flugu. Sumir hægðu á sér og hlupu stuttan spöl með mér og Pálmari, sem hlupum þetta saman eins og samlokur, og spurðu frétta og sögðu sjálfir fréttir. Geggjað!

Já að hlaupa eins og samlokur á tímum Covid 19 er ekki endilega gáfulegt. Þar sem töluverður strekkingur var að austan þá hjálpuðumst við Pálmar að við að brjóta vindinn í bæði skiptin sem við hlupum í austur átt. Sem var gott og blessað. En það er alveg öruggt að ef annar okkur hefur verið kominn með pestina fyrir hlaupið án þess að vita af því þá er hinn búinn að ná í hana eftir hlaupið. Því auðvitað hlupum við í svitaperlum hvors annars til skiptis þegar við brutum vindinn fyrir hvorn annan. En samstarfið gekk vel og engin einkenni komin fram ennþá. Við vorum ekki nema rétt um tveimur og hálfri mínútu lengur með seinni legginn, sem telst ágætt í maraþoni og ekki síst þar sem vindurinn varð meiri eftir því sem leið á hlaupið. Loka tíminn ekkert endilega frábær en undir því sem við ætluðum og í góðu samræmi við æfingamagn og almennt líkamsástand.

Talandi um líkamsástand. Ég er bara nokkuð góður og allur að koma til. Síðasta ár var auðvitað erfitt á margan hátt eins og við þekkjum. Í byrjun þessa árs lauk ég við fyrra árið af tveimur í eftirmeðferðinni og því bara eitt ár eftir. Það þýðir fjórar inngjafir í viðbót með einhverju styrkjandi. Ég hefði átt að fá inngjöf fyrir um tveimur vikum en í samráði við doktorinn var því frestað þar sem ekki er heppilegt að ég sé nýbúinn að fá lyfið þegar kemur að Covid sprautunni margþráðu. En mér sýnist reyndar á öllu að ég hefði ekkert þurft að fresta inngjöfinni því enn bíð ég og vona og ekkert bólar á bóluefninu. Allir í kringum mig eru að fara á taugum og ég er spurður daglega hvort ég sé búinn að fá þetta blessaða sms. Steininn tók nú eiginlega úr í gær þegar konan fékk boð um að koma í bólusetningu. Sem var svo auðvitað bara plat eins og hjá svo mörgum.

Sem sagt, allt í góðu en ég þoli ekki fésbókarvini mína sem eru að pósta þessum helv. myndum úr Laugardalshöllinni. Haldið þessu bara fyrir ykkur og gleðjist innra með ykkur yfir blessun ykkar.

Að minnsta kosti er ég ekki að pósta endalausum gosmyndum.


Áramótahlaupaannáll annus horribilis 2020

Þetta skrýtna ár.

Það er ekki mikið um það að segja í pistli sem á að heita hlaupapistill. Velti því meira að segja fyrir mér að sleppa því að skrifa hann þetta árið. Svona eins og ýmsu sem við höfum þurft að sleppa í ár. En þar sem maður er einn vani varð úr að setja nokkur orð niður á blað, þótt ekki væri nema til að uppfæra tölfræðina. Rétt kíkja við en stoppa ekki lengi-þetta er nú einu sinni mitt eigið boð. Allar sóttvarnir í lagi og skál fyrir því!

Í síðasta pistli skældi ég yfir því hversu lítið ég hefði getað hlaupið á árinu vegna ýmis konar heilsufars vandamála. Endaði reyndar pistilinn á því að segja að síðustu æfingar gæfu fyrirheit um að það versta væri að baki. Þetta var í byrjun ágúst og þá sá ég að það myndi standa tæpt að ég myndi ná að hlaupa 2000 km á árinu. Mér fannst það nú ekki góð tilhugsun að á þessu ári myndi ég mögulega hlaupa minna heldur en árið í fyrra þegar ég fór í gegnum 7 mánaða lyfjameðferð og kláraði samt 2019 km á árinu. En hvað um það, þessi tilhugsun gaf mér amk markmið til að keppa að á þessu annars keppnislausa ári. Mér reiknaðist til á þessum tíma að ég þyrfti að hlaupa rúmlega 200 km á mánuði það sem eftir lifði árs til að ná 2000 km markmiðinu. Í venjulegu árferði væri þetta nú ekki mikið mál því oft hafa verið hlaupnir 300 til 500 km á mánuði. En þetta skrýtna ár.

Í gegnum tíðina hef ég ekki hlaupið mikið úti á vetrum nema þá helst á laugardögum. Skýringin er f. o. f. sú að vegna míns lélega ónæmiskerfis hef ég kosið að hlaupa inni í hitanum á hlaupabrettum. Að auki hefur mín rútína verið sú að hlaupa í hádeginu á virkum dögum. Af þekktum orsökum hefur þetta ekki verið hægt síðustu vikurnar og mér liggur við að segja að ég sé jafnpirraður á þessu og Bjössi sjálfur. En þegar ekkert annað er í boði tekur maður því sem er í boði og sættir sig við það. Það er amk betra að hafa eitthvað í boði en ekkert. Þannig að ég hef látið mig hafa það að fara út í myrkrið eftir vinnu og hlaupa úti eins og venjulegt fólk gerir. Skrýtið ár.

Og þetta hefur gengið vel. Það rættist loks úr líkamlegu ástandi og ég gat aftur farið að hlaupa reglulega. Í stað 7 æfinga í mánuði og km fjölda langt undir 100 fóru æfingarnar í það að vera 16 til 20 á mánuði og fjöldi km komst yfir 200 á mánuði. Eins og við var að búast hafði þetta í alla staði jákvæð áhrif, bæði á vigtina og geðprýðina. Nú er svo komið ég er búinn að ná markmiðinu með því að komast yfir 2000 km á árinu. Þannig að þetta skrýtna ár varð ekki alslæmt. Staðan er meira að segja sú að við ritun þessa pistils eru kílómetrarnir orðnir 2012,6. Þar sem ekkert hefðbundið keppnishlaup verður þetta árið á gamlársdag segir einhverfan í mér að ég eigi ekki að hlaupa fleiri km til viðbótar á árinu en 7,4 og enda árið þannig í 2020 km. Það verður þá auðvelt að rifja upp í ellinni hvað ég hljóp marga kílómetra árin 2019 og 2020!

Keppnishlaupin. Já keppnishlaupin. Þau voru ekki mörg á árinu. Ég tel í raun og veru bara tvö. Það var Snældan sem haldin var í júní. Það var vel heppnaði í alla staði. Þar hljóp ég hálft maraþon ásamt góðum félögum úr Hlaupahópi Stjörnunnar. Þar lét karl faðir minn sig hafa það að hlaupa heilt maraþon. Það var hans 4 á æfinni og öll eftir að hann varð löggilt gamalmenni. En þar sem hann gat ekki hlaupið neitt maraþon í fyrra vegna hjartsláttaróreglu fannst honum sem hann skuldaði eitt maraþon. Markmið hans er nefnilega að hlaupa eitt maraþon á hverju ári frá 67 ára aldri og eins lengi og hann getur. Þar sem hann er 71 árs í ár ætti hann því að vera búinn með 5 maraþon. Því var stefnan sett á haustmaraþonið. Sem auðvitað féll niður eins og margt annað í ár. Skrýtið ár.

En hlaupahaldarar hafa ekki endilega dáið ráðalausir. Pétur maraþonBossari þefaði auðvitað uppi Dublin virtual maraþon og lét vita af því. Það var hlaupið sömu helgina og haustmaraþonið hafði verið sett á dagskrá. Þetta var bráðsniðugt fyrirkomulag. Með því að skrá sig í hlaupið fengu hlauparar sent sérstakt app þar sem fylgst var með hlaupinu. Þegar af stað var farið þurfti að setja appið í gang og hlaupa þar til það sagði að nú væru að baki 42,195 km eða eitt stykki maraþon. Í appinu var hægt að fylgjast með hvar hlauparar voru á hverjum tíma og því auðvelt fyrir þá sem vildu fylgjast með að gera það. Hvort heldur sem var í sýndarheimi eða fara út í brautina og hvetja. Við feðgar fengum til liðs við okkur Hjölla tengdason og lögðum í hann á laugardagsmorgninum. Markmiðið var að klára hlaupið á sem næst 6 klukkutímum. Það gekk svona ljómandi vel eftir og vorum við réttu megin við 6 tímana þegar hlaupinu lauk. Þarna náði kallinn sér í sitt 5. maraþon og ég hafði það af að ljúka einu maraþoni á þessu skrýtna ári.

En hvað svo? Hvernig ætli næsta ár verði? Það veit auðvitað enginn en erum við hlauparar ekki eins og veiðimenn almennt? Sama hversu léleg síðasta vertíð var þá erum menn alltaf bjartsýnir á næstu vertíð. Þá verður allt betra. Jafnvel miklu betra. Ég ætla að trúa því. Framtíðin er alltaf björt. Það að eiga framtíð er eitt og sér frábært. Ómálaður strigi til notkunar.

Þá er það tölfræðin. Ég ætla að bæta 2020 km við uppsafnaða kílómetra síðan ég fór að hlaupa reglulega þann 10 apríl 2008. Það þýðir að frá þeim degi hef ég hlaupið 36.508,3 km. Eins og ég hef nefnt áður er ætlunin að ná að hlaupa sem samsvarar hringinn í kringum hnöttinn um miðbaugslínu sem eru 40.075 km. Ef heilsan leyfir og önnur óáran lætur mann í friði þá ætti þetta að geta tekist á 55 ára afmælisárinu 2022.

Að baki eru nú 43 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum.

Markmið næsta árs eru hófleg. Númer eitt er að geta hlaupið. Vonandi verður hægt að taka þátt í einhverjum alvöru keppnishlaupum með alvöru hlaupurum en ekki í einhverjum sýndarveruleika. Sannarlega yrði það jákvætt ef unnt verður að fara eitthvert út fyrir landsteinana og hlaupa þar maraþon. Ég á reyndar skráningu í Helsinki maraþonið í vor en það verður bara að koma í ljós hvort af því verður eða ekki. Annað er nú ekki planað.

Ég hleyp af því að ég get það ... og þegar ég get.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


Hlaupið í gegnum Covid 19-eða ekki?

Þetta er búið að vera skrítið ár. Lauk við mína aðra krabbameinsmeðferð í nóvember sl. þannig að til stóð að taka aldeilis á því árið 2020 og koma fílefldur til baka á hlaupabrautina. Árið byrjaði svo sem ágætlega. Náði að hlaupa um 270 km í janúar og næstum 350 km í febrúar. Allt leit vel út og hraðinn var að aukast. Þá kom Covid 19. En blessunarlega hef ég ennþá sloppið við þá óáran. Hef reyndar engan áhuga á að gera tilraun á sjálfum mér með það hvernig ónæmiskerfið tekur á slíkri heimsókn. En það þarf ekki endilega Covid til. Ég fór að finna fyrir einkennum flensu þann 29. febrúar sl. og ég náði ekki að hrista hana af mér fyrr en í lok maí. Ég fór í test og fékk staðfest að ég væri ekki með Covid 19. En þetta var samt skítapest sem gerði það að verkum að ég gat lítið hlaupið í mars og apríl þótt apríl hafi verið heldur skárri. Ég hafði sett stefnuna á Helsinki maraþonið í lok maí og var að vonast eftir því að geta hlaupið þar á skikkanlegum tíma. Sem betur fer sá Covid 19 um að ég þurfti ekki að láta á það reyna.

Í maí fór sólin heldur að rísa og fyrri hluti mánaðarins var ágætur hlaupalega séð. Ég fór að geta hlaupið heldur meira og hraðar og var eins og belja að vori sem hleypt er út eftir langan vetur. Ég náði meira að segja í fyrsta skiptið í næstum tvö ár að hlaupa með hlaupafélögunum á skikkanlegum hraða á einni laugardagsæfingunni og dróst ekki aftur úr eins verið hefur síðan sumarið 2018. En það var skammvinn sæla. Í vikunni á eftir ætlaði ég að hlaupa með félögunum eitthvert brekkubrölt en var ekki búinn að hlaupa lengi þegar ég fór að finna fyrir eymslum í annarri hásininni. Týpísk byrjenda mistök með að fara of hratt af stað eftir hlé. En svona er þetta bara, maður er ekki klókari en þetta þrátt fyrir nokkra reynslu. Þetta var auðvitað grábölvað því ég hafði tekið stefnuna á að hlaupa heilt maraþon í hinu margrómaða Snældubeinsstaðamaraþoni seinni hlutann í júní.

Snældubeinsstaðamaraþonið er eitt fárra maraþonhlaupa í heiminum sem ekki var blásið af vegna Covid 19. Það var haldið þann 27. júní sl. og tókst í alla staði mjög vel. Að þessu sinni var met þátttaka með 30 keppendum. Eins og venjulega eru vegalengdir valkvæðar. Mældar leiðir eru heilt maraþon, hálft maraþon, 10 km og 5 km. Keppendur mega hins vegar ráða því hversu langt þeir hlaupa og mega skipta um skoðun oft á leiðinni. Eina skilyrðið er að keppendur þurfa að vera ræstir af löggiltum verndara hlaupsins, sem er íþróttaþjálfari svæðisins, og hann þarf einnig að staðfesta lokatíma og vegalengd skv. hlaupaúri. Þess má geta að umræddur íþróttaþjálfari hefur sér til fulltingis þaulvanann mótshaldara sem á 6. besta maraþonatíma Íslendings frá upphafi og er einn fárra sem hefur hlaupið maraþon á undir 2:30. Í ár var einn keppandi sem þreytti heilt maraþon og setti hann aldursflokkamet í flokki gamalmenna eldri en 70 ára. En þess ber að geta að enginn svo gamall hlaupari hefur áður klárað heilt maraþon í Snældunni. Í ár tók góður hópur fólks úr Hlaupahópi Stjörnunnar þátt í hlaupinu sem setti skemmtilegan svip á hlaupið. Þar sem þetta er frjálslegt hlaup gerði ekkert til þótt einn keppandi kæmist seint af stað úr bænum og missti af ræsingu. Viðkomandi keppandi, og annar til sem beið eftir komu hins keppandans, voru einfaldlega ræstir af stað seinna en hinir og luku við sínar vegalengdir. Það er talið að áhorfendur hafi skemmt sér vel þennan dag, amk voru rollur, hestar, beljur og ýmis konar fiðurfénaður dugleg við að láta heyra í sér þegar hlauparar þustu fram hjá og brutu upp hversdaginn. Það má í framhjáhlaupi nefna að sett voru nokkur brautarmet til viðbótar við metið í flokki gamalmenna, en þar má m.a. nefna met í 7 km, 9,150 km, 12,5 km, 13 km og 17 km. Að venju voru veitingar að hlaupi loknu sérlega ljúffengar og má þar m.a. nefna heimabakkelsi og grænmeti í boði grænmetisbónda af svæðinu. Flestir hlauparar úr hópi Stjörnunnar gistu á tjaldsvæðinu á Kleppsjárnsreykjum og í gistirýmum þar og var slegið upp mikilli veislu í lok dags sem stóð fram á nótt.

Af sjálfum mér er það að frétta að hásinin var ekkert sérlega hamingjusöm með að láta útjaska sér í hálft maraþon í Snældunni og kvartaði hressilega næstu daga á eftir. Það var því áfram lítið hlaupið. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafði ég verið frekar hraustur á pinnanuddboltum á hásinina og hafði þannig tekist að búa til lítil sár á utanverðri hásininni. Það endaði auðvitað með því að ég fékk blóðsýkingu sem kallaði á öflugan 10 daga sýklalyfjakúr. Og þá var ekkert hlaupið í marga daga.

Ég var búinn að skrá mig í Reykjavíkurmaraþonið eins og margir og ætlaði þar að hlaupa heilt maraþon með föður mínum. Mér leist satt að segja ekkert of vel á þá hugmynd þar sem æfingarnar hafa verið fáar og hásinin er ennþá aum. En þar sem plan okkar feðga var að klára þetta hlaup á 6 til 6,5 tímum taldi ég að ég ætti mögulega að geta ráðið við þetta. En þökk sé Covid 19 þarf ég ekki að láta á þetta reyna.

En að gamni slepptu þá er þetta auðvitað búið að vera glatað keppnisár fyrir flesta hlaupara. Margir búnir að leggja vel inn, jafnvel í sínu toppformi, og fá ekki tækifæri til að taka út. En þá er gott að hafa í huga að æfingarnar einar og sér gera margs konar kraftaverk. Fyrir utan að bæta líkamlegt úthald þá gera þær ótrúlegustu hluti fyrir sálartetrið. Af tvennu illu er því ótrúlegur munur á því að geta æft vel þótt keppni sem að er stefnt falli niður en að geta ekki einu sinn æft eins og hugur stendur til. Á síðasta ári hljóp ég lítið um 5 mánaða skeið eftir að ég byrjaði lyfjameðferðina. Mér telst til að á þessu tímabili hafi ég hlaupið um 450 km. Ég var samt mjög sáttur við það þar sem fyrirfram vissi ég ekki hvort ég myndi geta hlaupið yfirhöfuð. Á þessu ári eru nú komnir 5 mánuðir síðan ég fékk kvefpestina og ofan í það hásinar meiðslin. Á þessu tímabili er ég búinn að hlaupa samtals um 350 km. Og ég er bara alls ekki sáttur við það. Mér finnst alveg óþolandi eða vera nánast úr leik í langan tíma vegna kvefpestar og smávægilegra meiðsla. En vonandi er ég að komast í gegnum þetta tímabil. Síðustu nokkrar æfingar gefa fyrirheit um að það versta sé að baki. Þannig að nú er stefnan sett á haustmaraþonið. Þ.e.a.s. ef Covid 19 leyfir.

En aðalatriðið er að komast aftur af stað og geta hlaupið. Ég hef um nokkuð langan tíma sagt að ég hlaupi af því að ég geti það. Nú er mottóið: Ég hleyp þegar ég get það.


Áramótahlaupaannáll 2019

Viðgerðarárið mikla.

Þetta hlaupaár reyndist þegar upp er staðið hið ágætasta. Ég byrjaði árið rólega þar sem ég var að jafna mig eftir handaruppskurð sem ég fór í sl. desember. Eftir því sem leið á janúar mánuð tókst mér að bæta í æfingarnar þrátt fyrir minnkandi blóðmagn og þar með minna þrek. En samt sem áður fann ég að æfingarnar gerðu mér gott og ég fann að ég tók smávægilegum framförum þótt blóðmagnið væri minnkandi. Ég ákvað á þessum tíma að ég ætlaði mér að reyna að hlaupa eins mikið og ég gæti á árinu og í gegnum fyrirséða lyfjameðferð. Ég hugsaði þetta sem áhugaverða tilraun og að forvitnilegt gæti verið að sjá hvort þetta væri hægt og þá hvaða áhrif þetta myndi mögulega hafa.

Í mars stóð til að hlaupa maraþon í 7. heimsálfunni á Suðurskautinu. Eins og ég hef áður bloggað um stóð það tæpt að ég fengi fararleyfi frá lækninum en með því að fara í gegnum blóðskilju og hreinsa tiltekið prótein úr blóðinu sem var að safnast upp slapp það fyrir horn. Ég fékk fararleyfið daginn fyrir fyrirhugaða brottför. En þessi ferð á Suðurskautið var náttúrulega bara frábær og sennilega eitt mesta ævintýri sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hlaupið gekk upp og ferðin gekk vel. (https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2232760/)

Þegar heim var komið stóð til að hefja lyfjameðferð. Ég fékk upphafinu frestað til að unnt væri að setja mig í uppskurð til að laga hvimleitt kyngingarvandamál sem var búið að há mér í nokkur ár og fór sífellt versnandi. Þessi aðgerð gekk vel en gerði það að verkum að ég gat ekkert hlaupið í tvær og hálfa viku. En í lok apríl komst ég aftur af stað og hóf þá æfingar aftur. Hlaupamagnið í apríl var þó frekar lítið af þessum orsökum eða rúmir 60 km. Um miðjan maí fór ég í fyrstu lyfjainngjöfina og til þess að eiga einhvern viðmiðunarpunkt þá tók ég þátt í 10 km hlaupi Stjörnunnar daginn eftir og hljóp eins hratt og ég gat-á rúmlega 62 mínútum. Þrátt fyrir lyfjainngjöfina og lítil hlaup í vikunni á eftir náði ég að hlaupa um 150 km í mánuðinum.

Í byrjun júní fórum við hjónin til Madagaskar ásamt vinum og hlupum þar maraþon í 7. heimsálfu Þóru. Ég hef áður bloggað um þá ferð og sagði ég í því bloggi að þetta hefði verið erfiðasta maraþon sem ég hefði hlaupið og stend ég enn við það. (https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2236758/). Þessi mánuður reyndist mér erfiður æfingalega og hljóp ég ekki nema 4 sinnum í mánuðinum samtals rúmlega 70 km og er þá maraþonið meðtalið. Júlí var ekki heldur neitt sérstakur hlaupalega og náði ég ekki nema 8 æfingum og tæplega 80 km í mánuðinum.

Í ágúst fóru hins vegar hlutir að gerast. Ég fann allt í einu að æfingarnar urðu léttari og ég fór að taka framförum bæði í magni og hraða. Og það sem meira var, ég vissi að framfarirnar voru meiri en svo að eingöngu væri æfingunum að þakka. Það var augljóst að meðferðin var farin að skila árangri. Ég fór í ágúst meðferðina um miðjan mánuðinn. Ég hljóp ekkert fyrstu dagana á eftir en tók æfingu á fimmtudeginum fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Á þeirri æfingu ætlaði ég að kanna hvort ég myndi treysta mér í 10 km vegalengdina. Þegar til kom þá fannst mér ég það sprækur að ég skellti mér í hálfmaraþon vegalengdina. Eins og venjulega setti ég mér tímamarkmið og stefndi á að reyna að komast vegalengdina á undir 2 tímum. Það gekk eftir og meira að segja 5 mínútum betur. Í lok ágúst skellti ég mér í Fossvogshlaupið hjá Víkingunum og tók þátt í 10 km hlaupinu. Mér tókst að klára það á rétt rúmlega 50 mínútum og var harla ánægður með það. Ekki á hverjum degi sem maður nær að bæta sig um rúmar 10 mínútur í 10 km hlaupi! Þegar ágúst var liðinn kom í ljós að ég hafði náð 16 æfingum og hljóp tæplega 200 km og á töluvert betri meðalhraða heldur en mánuðina á undan.

Í byrjun september fór ég að gæla við þá hugmynd hvort ég gæti mögulega náð að æfa mig nóg til þess að geta tekið þátt í haustmaraþoninu í lok október. Ég reyndi því að halda mér eins vel við efnið í september og ég gat og náði að hlaupa rúma 200 km á 17 æfingum. Ég tók aftur þátt í 10 km hlaupi í lok september og kláraði það á rúmum 53 mínútum. Það var inni í 30 km laugardagsæfingu þannig að ég notaði það hlaup sem góðan tempó kafla í löngu æfingunni.

Um miðjan október kláraði ég inngjöf þess mánaðar og hafði þá rétt rúma viku til að jafna mig fyrir haustmaraþonið. Það tókst vel og þegar hlaupadagurinn rann upp var ég bara býsna sprækur. Ég vissi svo sem ekki alveg hvað ég gæti hraðalega séð en þóttist vita að ég ætti alltaf að geta klárað. Ég setti mér nú samt tímamarkmið og stefndi á að reyna að vera innan við 4 tíma. Það gekk eftir og þremur mínútum betur. Þegar upp var staðið náði ég að hlaupa í mánuðinum rúmlega 250 km á 20 æfingum og meðalhraðinn næstum því sá sami og hann hafði verið ári fyrr.

Þegar hér var komið sögu fór ég að hugsa um að fyrst ég hljóp maraþon fyrir og eftir fyrstu meðferð og væri nú búinn að hlaupa maraþon fyrir síðustu inngjöf þá yrði ég helst að reyna að ljúka þessari hlaupatilraun með því að hlaupa maraþon rétt eftir síðustu inngjöf. Ég fór að skoða hvaða hlaup væru í boði í byrjun desember og staldraði fljótt við Bergen í Noregi. Með því að hlaupa þar gætum við hjónin slegið nokkrar flugur í sama höfuðið og heimsótt góða vini okkar þar og upplifað norska jólastemmingu. Þar fyrir utan var desember orðinn einn mánaða ársins sem ég hafði aldrei hlaupið maraþon í og því tímabært að bæta úr því.

Í nóvember fór ég í mína tvo hefðbundnu rjúpnaveiðitúra og missti því úr tvær hlaupahelgar. Mér fannst það þó ekki koma mikið að sök því í stað hlaupanna þá fylgdi þessum túrum heilmikið fjallabrölt. Um miðjan mánuðinn fór ég í síðustu lyfjainngjöfina og aldrei þessu vant gat ég hlaupið nánast óhindrað dagana eftir inngjöf. Þegar upp var staðið endaði ég með því að ná að hlaupa rúmlega 170 km á 16 æfingum sem var alls ekki svo slæmt.

Til Bergen var haldið föstudaginn 6. des til að hlaupa þar maraþon daginn eftir. Þetta hlaup er liður í hlauparöð þeirra Bergen manna og mjög svipað fyrirkomulag og er í vor og haustmaraþonunum okkar. Um er að ræða fram og til baka braut sem er hlaupin tvisvar. Maraþonhlaupararnir eru sendir af stað fyrst og einum og hálfum tíma síðar eru hálfmaraþon hlaupararnir settir í gang. Maraþonhlaupararnir voru 62 og hálfmaraþonhlaupararnir voru rúmlega 300. Meðal hlauparanna í maraþoninu var Norðmaður sem var að hlaupa sitt 595. hlaup sem er alveg magnað. Brautin sem er hlaupin er alveg afskaplega falleg og í raun fjölbreytt. Hún er að mestu leyti á góðum gangstíg sem hlykkjast meðfram þremur vötnum, í gegnum skóga og kletta og rúsínan er að hlaupa í gegnum hlaðið á hestabúgarði. Allt fyrirkomulag var til fyrirmyndar og voru 4 vatnsstöðvar í brautinn með fjölbreyttu drykkjar og snakk úrvali. Þessi braut er heldur erfiðari en okkar braut og leiðinda brekka rétt fyrir leikvanginn þar sem hlaupinu er startað og því lokið. Þar sem brautin er hlaupin tvisvar var brekkan til skemmtunar eftir hálft maraþon og síðan aftur í lokin á heilu maraþoni. Mér sýndist á strava að heildar hækkun væri um 320 metrar á móti rúmlega 200 metrum í okkar braut. En hlaupið sjálft gekk í sjálfu sér vel þótt ég hefði lent í smá basli á þriðja legg. Ég fór að fá verki í aðra mjaðmakúluna og varð að hægja verulega á mér á km 24-33 og var farinn að halda að ég þyrfti að ganga rest. Fyrir einhverja rælni mundi ég eftir því að ég var með panódíl í hlaupatöskunni minni sem hafði verið þar í einhver ár. Ég skellti henni í mig og verkurinn fór skömmu síðar og ég gat hlaupið síðasta fjórðunginn töluvert hraðar en þann þriðja. Ég hélt að ég væri búinn að missa af því að komast undir 4 tíma en með því að halda einbeitingu síðustu 9 km og sleppa drykkjarstöðvunum tókst mér að skríða undir 4 tímana svo munaði nokkrum sekúndum. Þannig að þegar upp var staðið var þetta alveg frábært hlaup þrátt fyrir þessi vandræði sem ég skrifa á of lítið æfingamagn til að hlaupa tvö maraþon með stuttu millibili. En tilraunin tókst!

Í nóvember sl. hélt ég stutt erindi á málþingi krabbameinshjúkrunarfræðinga. Ég fékk frjálsar hendur um efnið sem ég myndi tala um þannig að ég ákvað að tala um það efni sem ég þekki best, þ.e. sjálfan mig. Ég ákvað að kalla erindið Hreyfing sem meðferðarúrræði. Þegar ég var að undirbúa erindið þá rakst ég á frétt í NYTIMES.COM sem vakti óskipta athygli mína. Þar var sagt frá rannsókn 40 vísindamanna frá 17 mismunandi alþjóðlegum hópum sem tóku sig til og skoðuðu allar rannsóknir síðustu 10 ára sem fjölluðu um hreyfingu krabbameinssjúkra. Niðurstaða þeirra var bæði afdráttarlaus og áhugaverð. Eftir að hafa skoðað þessi gögn sögðu þeir að það væru fyrirliggjandi nægar sannanir til að halda því fram að líkamsæfingar ættu að vera partur af hefðbundinni krabbameinsmeðferð, að það sýndi sig að æfingar hefðu jákvæð áhrif á framgang krabbameina eftir að þau væru farin af stað, að æfingar á meðan og á eftir krabbameinsmeðferð hefðu jákvæði áhrif á lífslíkur, að æfingar hefðu jákvæð áhrif á kvíða og þunglyndi og jafnvel á hina svokölluðu krabbameins þreytu. Rúsínan í þessum pylsuenda var meira að segja sú að rannsakendur héldu því fram að þeim mun meira sem æft væri, þeim mun betra. Þeir sögðust reyndar ekki vita hvort það væru einhver efri mörk!

En sem sagt, svo mörg voru þau orð. Hafandi byrjað mína tilraun í byrjun árs þá staðfesti ég allt ofangreint eftir því sem ég get.

Ég ætla á morgun, gamlársdag, að hlaupa í gamlárshlaupi ÍR 10 km. Með því hlaupi hef ég hlaupið 2019 km árinu á 154 æfingum (og keppnum) og notað til þess um 209 klst. Samtals eru því km í árslok 34.488,3 síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Það er reyndar athyglisvert, og kannski alls ekki skrítið, að í ár hef ég hlaupið færri kílómetra en ég hef hlaupið á einu ári síðan 2012 þegar ég lenti í hjartsláttaróreglunni. Kílómetra fjöldinn er í sjálfu sér ekki það athyglisverða heldur hitt að ég hef eytt í þessi hlaup meiri tíma en ég gerði árin 2014 og 2015 þegar ekkert (amk lítið!) var að mér. Auðvitað stafar þetta af því að meðalhraðinn er umtalsvert hægari en breytir ekki því að gæðastundir á hlaupum voru fleiri.

Að baki eru nú 42 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum.

Markmið næsta árs eru númer eitt að geta hlaupið áfram. Ég stefni á að hlaupa í Helsinki í vor og ljúka með því að hlaupa maraþon í öllum höfuðborgum Norðurlanda. Vonandi næ ég að hlaupa nokkur maraþon til viðbótar og stefni á rúmlega maraþon í Eco trail hlaupinu í byrjun sumars. Að lokum er stefnan, aftur, sett á lystisemdarhlaup í Medoc í september þar sem ég sleppti þessu hlaupi í ár sem ég hafði þó sett á dagskrá um síðustu áramót.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


Madagascar maraþon 2019

Sumt fer öðru vísi en ætlað er. Það er hægt að skipuleggja sig í þaula og gera alls konar áætlanir en þegar upp er staðið þá verður bara að taka því sem að höndum ber og reyna að gera það besta úr því hverju sinni. Ætli megi ekki segja að Madagascar maraþonið sé ágætt dæmi um það. Þóra hafði fengið þá hugdettu að það gæti verið gaman ef hún gæti lokið við álfu hlaupin 7 í Madagascar og við höfðum upphaflega gert ráð fyrir að reyna að ljúka því árið 2020 þegar hún yrði 55 ára. Í fyrrasumar þegar ljóst var að sjúkdómurinn var farinn að láta kræla á sér þá fékk ég hins vegar þá snilldarhugmynd að flýta fyrirhuguðu hlaupi á Madagascar um eitt ár. Bara svona til öryggis þannig að við yrðum búin með það áður en meðferð þyrfti að hefjast. Ég var sem sagt búinn að skipuleggja það að meðferð þyrfti ekkert að hefjast fyrr en næsta vetur og því um að gera að skipuleggja einhver maraþon áður. En auðvitað hafði sjúkdómurinn sjálfstæðan vilja og vildi fá athygli fyrr.

Þegar dró að áramótum fengum við tilkynningu um að það væri ekki öruggt að hlaupið yrði haldið þar sem þátttaka væri ekki nægjanleg. Það var að sumu leyti ágætt í ljósi aðstæðna en þó vorum við búin að kaupa flugfar frá París til Madagascar og það yrði ekki endurgreitt. Þannig að við vildum nú heldur að af hlaupinu yrði og við yrðum bara að sjá til hvort við gætum farið eða ekki. Þóra myndi þá vonandi geta hlaupið þótt ég yrði mögulega bara á pöllunum. Unnar og Unnur ásamt Frikka Meló og Rúnu ákváðu að láta slag standa og sækja um þátttöku. Hvort sem það voru þau ein og sér sem réðu úrslitum eða ekki þá amk bókuðu nógu margir sig til viðbótar þannig að hægt var að halda upphaflegt plan og láta hlaupið fara fram.

Eins og ég hef bloggað um áður þá komst ég á Suðurskautið áður en meðferð þurfti að hefjast en fyrir lá að hún myndi byrja þegar ég kæmi til baka. Ég ræddi fyrirhugaða Madagascar ferð við lækninn og það var ákveðið að ég myndi byrja í meðferð um miðjan maí mánuði. Með því móti þá ætti ég að geta farið í ferðina til Madagascar í fjórðu viku frá upphafi meðferðar þegar ég ætti að vera farinn að jafna mig eftir fyrstu umferðina. Að auki þá notuðum við tækifærið og mér var skellt í skurðaðgerð þann 11. apríl sl. til að reyna að laga kyngingarvandamál í vélinda sem ég hef verið með síðustu ár og sem hefur verið ágerast mjög síðustu tvö árin. Þetta er enn einn sjaldgæfur sjúkdómur sem ég er víst að safna. En þessi kyngingarvandi var orðinn verulega bagalegur því ég var eiginlega hættur að geta tekið inn vatn og næringu á hlaupum og var farinn að léttast af þeirri einföldu ástæðu að ég borðaði ekki nóg. Fáránlega hvimleiður sjúkdómur sem hafði orðið meiri áhrif á daglegt líf hjá mér en blóðsjúkdómurinn og gáttatifið til samans. En það er skemmst frá því að segja að aðgerðin tókst mjög vel og má eiginlega segja að ég finni ekki fyrir þessu lengur enda finnst mér ég hafa öðlast nýtt líf!

En þetta þýddi að ég gat ekkert hlaupið í næstum 3 vikur eftir aðgerðina og lítið var hlaupið í maí. En samt. Ég náði þó að hlaupa 2-4 sinnum í viku á bilinu 20-40 km. Tveimur vikum fyrir maraþonið í Madagascar hljóp ég 27 km í sveitinni á rétt rúmlega gönguhraða og reiknaði út að ef ég myndi geta gengið 5 km á klst. eftir það þá ætti ég möguleika á að klára maraþonið á undir 7 tímum sem voru tímamörkin sem við höfðum. Ég var því kominn með áætlun á bak við eyrað áður en lagt var af stað í ferðalagið!

Já ferðalagið, maður minn! Þetta var sko ferðalag. Við byrjuðum á því að fljúga til Parísar og eyddum þar tveimur góðum dögum. Á þriðjudagsmorgni lögðum við af stað með Air France í rúmlega 10 tíma flug. Það var búið að segja okkur að allt gengur hægt fyrir sig í Madagascar og að við skildum vera vel vopnuð þolinmæði. En fyrr má nú rota en dauðrota! Ég hef farið víða um heiminn og beðið víða í biðröðum en þessi ferð sló öll met í biðröðum. Það voru meira að segja biðraðir til að geta komist í biðraðir! En hvað um það, við komumst að lokum í gegnum flugstöðina og í rútu og á hótel í höfðuborginni. Þá var klukkan orðin rúmlega miðnætti og við áttum að vera mætt í lobbýið um kl. 4 um nóttina til að taka innanlandsflug áfram. Það gekk allt vandræðalítið fyrir sig með nokkrum biðröðum. Eftir flug í einn og hálfan tíma þá tók við rútuferð. Rúmlega 260 km leið sem tók rúma 6 tíma að keyra. Vissulega var vegurinn malbikaður en hann var holóttari en svissneskur ostur þannig að bílferðin minnti frekar á góða skíðasvigbraut en hefðbundinn akveg. En þetta var í sjálfu sér ekki leiðinleg bílferð því afar margt bar fyrir augun sem of langt mál er að gera skil í pistli sem á að mestu að snúast um hlaup. En því verður ekki á móti mælt að mikið vorum við fegin þegar við vorum loksins komin á áfangastað og gátum lagst útaf og hvílt okkur.

Staðurinn sem við dvöldum á var mjög fallegur og hótelið alveg fyrsta flokks. Eða amk allt það sem var sjáanlegt. Eimitt. Það var nefnilega eitthvað þarna sem var ekki sjáanlegt en átti eftir að hafa heilmikil áhrif á okkur. Á fyrsta heila deginum fórum við í sérlega skemmtilega 8 km fjallagöngu þar sem við sáum víða og rákumst á Lemúra. Það var ágæt skemmtun og vel heppnaður dagur. Næsta dag, daginn fyrir maraþonið, stóð til að fara í Safírnámur og í safír verslun. Þetta var ekki langt prógram og átti að vera búið uppúr hádegi. En aðfaranótt þessa safír dags eyddi ég að verulegu leyti á dollunni. Jújú, þessi líka hressilega niðurgangspest. Ég var orðinn skárri um morguninn og ákvað að fara í Safírferðina. Það gekk allt saman vel fyrir sig og engin þörf á leit að þar til gerðum postulínsskálum. En þegar til baka var komið hófst fjörið aftur. Postulínið mátti helst ekki vera úr augsýn þegar verst lét. En nú fengum við þær fréttir að við vorum 5 af 6 Íslendingunum sem vorum komin með þessa skemmtilegu pest og þar til viðbótar einhver hópur fleiri hlaupara. Þannig að þótt hótelið væri flott og almennt góður matur var eitthvað þarna sem fór ekki vel í mannskapinn. Það kom líka í ljós að í síðasta hlaupi þá lenti stór hópur í því sama. Kannski sem betur fer því læknirinn í hópnum var afskaplega vel vopnaður pillum til að takast á við svona vandamál, amk tímabundið. Það fór sem sagt lítið fyrir pastahleðslunni um kvöldið en þess í stað fengum við vænan skammt af pillum í alls konar stærðum og litum. Við Þóra fengum meira að segja sprautu í afturendann vegna flökurleika sem herjaði á okkur með magapestinni. Það var út af fyrir sig áhugaverð upplifun, farið bak við húshorn úr útiljósinu og notast við birtu innan úr hótelinu þannig að ég ímynda mér að það hafi verið skemmtilegar skuggamyndir sem bargestir sáu út um gluggann! En þetta var ekki spennandi nótt. Ég hef upplifað svefnlitlar og jafnvel alveg svefnlausar nætur fyrir maraþon en að sitja á dollunni þar til hálftíma fyrir ræsingu í maraþoni er ný upplifun og alls ekki skemmtileg.

En út fórum við, tókum þar til gerðar stopp töflur og vonuðum það besta. Sem sagt búin að tæma allt sem hægt var að tæma, allan vökva, öll steinefni, alla hleðslu og lítið getað nærst síðasta sólarhringinn. Og framundan 42,2 km í glampasólskini og afar litlum vindi sem spáð var að myndi breytast í logn þegar liði á daginn. Jibbí! Þetta minnir mig verulega á brandara sem hefur stundum gengið á netinu á milli maraþonhlaupara: I am a marathoner, I must run. Jájá, einmitt, jafnvel fótbrotinn, hryggbrotinn eða með í maganum. Það er augljóslega ekki í lagi með þessa maraþonara!

Eftir myndatöku var talið niður og af stað fór hersingin. Fyrst voru hlaupnir 3-4 km upp á aðalveg og smá spotti eftir honum og síðan beygt inní þjóðgarðinn. Þar átti að hlaupa fyrri hringinn af tveimur eða um 24 km. Um þennan spotta er svo sem ekki mikið að segja. Það var samt pínu skrítið að stilla sér upp með öftustu hlaupurunum og hafa ekki nema þrjá hlaupara á eftir okkur Þóru sem allt var fólk komið á mun virðulegri aldur en við höfum náð. En annað var ekki í boði. Planið var að hlaupa þetta eins taktískt og hægt væri og eyða eins lítilli orku og mögulegt var. Þessi hringur í þjóðgarðinum var virkilega fallegur en þarna var ekki nokkur sála á ferðinni nema við hlaupararnir og starfsmenn á þeim fáu drykkjarstöðvum sem þarna voru. Það kom okkur dálítið á óvart hversu sendin hlaupaleiðin var. Mest voru þetta hjólför með mjúkum og gljúpum sandi og með gróðri á milli hjólfara þannig að það var eiginlega ekkert hægt að gera til að komast úr sandinum. Þá var leiðin eiginlega afskaplega aflíðandi ef svo má segja. Þetta voru ekki brattar brekkur en eiginlega alltaf langar aflíðandi brekkur upp eða niður. Á þessum kafla var sem betur fer smá gjóla á flestum stöðum þannig að hitinn var viðráðanlegur. Af magamálum var það helst að frétta að ég var stöðugt að fá magakrampa en slapp við að þurfa að fara út í runna. Þannig að það er ljóst að læknavísindin geta gert kraftaverk á æði mörgum sviðum. Þegar út úr þjóðgarðinum var komið var um tvennt að velja. Annað hvort að beygja til hægri og fara stystu leið niður á hótel og hætta þessari vitleysu. Eða beygja til vinstri og hlaupa seinni hringinn og reyna að klára. Á þessum tímapunkti leið mér í sjálfu sér ágætlega og mér fannst ég alveg eiga séns á að klára hlaupið ef ekkert sérstakt kæmi uppá þannig að ég þurfti ekkert að hugsa mig um. Vinstri beygjan var tekin. Fyrsti spölurinn á seinni hringnum var á malbikinu eftir aðalveginum sem var kærkomin tilbreyting. Meira að segja um heill km sem var allur niður á við þannig að þarna leið manni næstum eins og hlaupara. En eftir þennan kafla var beygt út af veginum og við tók hringur um gresjuna og framhjá nokkrum þorpum innfæddra. Það er alveg óhætt að segja að þarna hafi verið mun meira líf en í fyrri hlutanum. Við fórum að rekast á gangandi fólk og töluvert marga vagna sem voru dregnir af Zebu sem eru nautgripir heimamanna. Það eru kvikindi sem eru eiginlega heilög í þeirra augum og stór hluti lífs heimamanna snýst um með einum eða öðrum hætti. Þessi dýr skipa veglegan sess við allar útfarir en þá er þeim fórnað og slegið upp margra daga eða vikna veislum. Nú dýrin eru samgöngutæki og síðast en ekki síst líta heimamenn á þau sem banka eða fjárfestingakost. Ef menn eiga aur og vilja fjárfesta þá setja menn peninginn í Zebu. Sá maður er ríkur sem á nóg af Zebu. Á þessu svæði er það einnig þekkt að til að ungir menn komist í fullorðinna manna tölu þá þurfa þeir að stela Zebu. En það er áhættusamt og getur kostað allt að 5-6 mánaða fangelsi ef upp um þá kemst og alveg upp í 5 ára fangelsi ef þeir drepa mann í leiðinni. Jamm og já. Sinn er siðurinn í landi hverju!

En nú fór þetta að þyngjast. Hitinn jókst og vindurinn datt niður. Undirlagið að sumu leyti betra en á móti kom að nú þurftum við að fara að vaða hvern lækinn á fætur öðrum og koma okkur niður og uppúr lækjarfarvegum. Kosturinn var þó sá að það var gott að fá kælinguna í vatninu og hægt að skella húfunni ofaní og hella yfir sig vatni. Þótt fjölbreytileiki leiðarinnar hafi verið meiri á seinni hlutanum, og þá sérstaklega fyrri hluta seinni hlutans, þá fannst okkur nú stundum nóg um. Börnin voru mjög forvitin og eiginlega sums staðar mjög ágeng. Á einum stað hrúgaðist í kringum okkur hópur af ungum stúlkum og reyndi ein þeirra að rífa hálsmen af Þóru á hlaupunum. Auðvitað var það klaufagangur í okkur að hafa ekki munað eftir að skilja slíkt eftir á hótelinu því í augum ungra stúlkna var þetta augljóslega eitthvað sem bara var þarna og því sjálfsagt að reyna að ná þessu. Á öðrum stað þar sem við þurftum að vaða yfir töluvert breiðan læk eða eiginlega litla á þá allt einu heyrðist skvamp ekki langt frá okkur og síðan annað. Þegar þriðja skvampið kom síðan innan við metra frá okkur snéri ég mér við og lét nokkur kjarnyrt góð íslensk orð vaða á strákahrúguna sem stóð á bakkanum og var að kasta til okkar grjóti. Þá loksins hættu þeir. Alveg merkilegt að þeir skildu skilja íslenskuna!

Tuttuguogsjökílómetrar. Þarna var eins og ég hefði verið skotinn. Ég gat ekki hlaupið meira. Allt búið. Ég var búinn að vera með það í kollinum allan tímann að ég yrði að geta hlaupið 27 km. Ef ég gæti það þá ætti ég að geta gengið restina eins og ég hafði hugsað tveimur vikum fyrr í sveitinni. Ekki veit ég af hverju ég gat ekki hlaupið 28 km nú eða 26 km en 27 km voru þetta. Andlegt? Hlýtur að vera. Merkilegt hvað hausinn skiptir alltaf miklu máli í hlaupunum. Sérstaklega í maraþonhlaupum. En ég held líka að það sá ástæðan fyrir því hversu skemmtileg vegalengd mér finnst maraþonhlaupið vera. Það eru alltaf einhverjar nýjar áskoranir í hverju einasta maraþoni og því er bara hreinlega ekki hægt að fá leið á því að hlaupa maraþon. Hvert maraþon er í raun sjálfstætt ævintýri. En það var ekki nóg að komast 27 km. Ég átti 15 km eftir. En til þess hafði ég rúma 3 tíma þannig að ef að planið gengið upp þá átti þetta að hafast. Það sem kannski var að valda mér smá áhyggjum og Þóru miklum, sem hún sagði mér ekki fyrr en eftir hlaupið, var að þegar við vorum nýhafin gönguna þurfti ég að stoppa til að reima annan skóinn. Þegar ég beygði mig niður munaði minnstu að það steinliði yfir mig. Mig svimaði og það tók mig smá stund að ná áttum. En sem betur fer gerði ég það þannig að við gátum haldið áfram. Fyrstu 10 km af þessum 15 gengum við eins rösklega og við gátum þannig að það var alveg ljóst að við hefðum vel rúman klukkutíma til að klára restina. En sá hluti leiðarinnar sem var eftir var erfiður viðureignar. Þarna var klukkan á milli eitt og tvö og hitinn orðinn mikill og algjört logn. Við gengum yfir hálfgerða gresju og hvergi nokkurs staðar skugga að fá. Þóra sagði mér að þarna hefði hún verið að velta því alvarlega fyrir sér hvað hún ætti til bragðs að taka ef ég liði út af því það hefði verið ómögulegt að skilja mig þarna eftir í sólinni á meðan hún myndi sækja hjálp. En þetta hafðist allt saman með því að hægja bara á okkur og ganga þetta rólega. En tilfellið var að ég var ekki viss um að geta klárað fyrr en við áttum innan við km eftir og við vorum komin inná hótelsvæðið. Þá hugsaði ég með mér að héðan í frá færi ég nú ekki að fá sólsting eða örmagnast þannig að ég þorði í huganum að telja þetta maraþon með hinum og þar með komst ég í töluna 40. Því er ekki að neita að ég held að ég hafi aldrei verið jafnánægður og í þetta skiptið að sjá endamarkið og geta hætt þessu brölti. Já og við vorum ekki síðust og áttum rúmar 12 mínútur inni til að geta klárað innan tímamarka!

In fine.
Þessari tilraun er lokið. Er hægt að hlaupa maraþon í miðri lyfjameðferð? Ætli ég verði ekki svara þeirri spurningu játandi. En er skynsamlegt að gera það? Alveg örugglega ekki! Ég hitti hjartalækninn minn í gær í reglulegu eftirliti. Ég sagði honum að nú væri ég hættur að hlaupa maraþon þar til eftir meðferð. Mér fannst hann segja óþarflega oft að það væri mjög góð ákvörðun hjá mér. Mér leið dálítið eins og skólastrák þar sem kennarinn var með jákvæðum hætti að reyna að stimpla inn í kollinn að ég væri svaka duglegur að hafa tekið þessa ákvörðun og ætti og mætti alls ekki skipta um skoðun! Sem ég ætla ekki að gera. En á næsta ári er nýtt ár!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 70306

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband