Er forysta Eflingar að segja sig úr lögum við íslenskt samfélag?

Þannig að því sé til haga haldið þá fela skrif þessi ekki í sér neina afstöðu til þess hvað séu sanngjörn laun fyrir hvaða starf sem er í íslensku samfélagi. Hér er horft á formið, regluverkið, sem íslenskt samfélag hefur á áratugum sett upp. En kannski snýst núverandi deila í raun um að verið sé að reyna að kollvarpa þessu regluverki? Takist það geta afleiðingarnar verið ófyrirséðar. En kannski er það tilgangurinn? Getur íslenska réttarríkið staðið af sér slíkt áhlaup?

En um hvað snýst þá efnislega deilan?

Snýst hún um að Eflingarfólk hafi það svo mikið verra en aðrir að rétt sé að láta sverfa til stáls núna þegar verið er að reyna að semja til skamms tíma? Er Eflingarfólk Eyland á vinnumarkaði sem réttlætir aðra nálgun viðsemjenda þeirra? Ekki skv. því sem aðrir forkólfar launþegasamtaka segja. Kostar það atvinnulífið einungis 6 milljarða að ganga að kröfum Eflingar eins og sums staðar er haldið fram? Ekki skv. því sem forkólfar annarra stéttarfélaga segja. Þeir segja sjálfir að þeir muni koma á eftir með uppfærðar kröfur sínar.

Það þýðir með öðrum orðum að mikil hætta er á aukinni verðbólgu og rýrnun kaupmáttar almennings og auknu atvinnuleysi. Það er staða sem Seðlabankastjóri og fleiri hafa varað við. Til að bregðast við þessari mögulegu sviðsmynd hafa samninganefndir SA og launþegasamtaka samið til skamms tíma fyrir um 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Þar af hafa náðst samningar við 18 af 19 aðildarfélögum SGS. Efling stendur eitt eftir samningslaust.

Þeir sem stjórna Eflingu virðast hafa valið sér það hlutskipti að gera alla að andstæðingum sínum sem ekki eru sammála þeim. Þar með talið SA og aðildarfélögum sem eru viðbjóðsleg og eru að sögn að fremja níðingsverk þegar þau voga sér að nýta sér lögbundinn rétt til að bregðast við verkföllum. Skipaður sáttasemjari þegar hann reynir að nýta sér lögbundinn rétt til að miðla málum. Félagsdómur þegar hann dæmir ekki að skapi þeirra sem stjórna Eflingu vegna uppsagnar trúnaðarmanns VR hjá Eflingu. Ritari stjórnar Eflingar sem vill láta reyna á rétt félagsmanna til að kjósa um miðlunartillögu sáttasemjara. Varaformaður Eflingar sem upplýsir félagsmenn um að reglugerð vinnudeilusjóðs Eflingar, sem sett er af þar til bærum aðila sem er aðalfundur félagsins, kveði á um rétt félagsmanna til greiðslna komi til verkbanna þegar félagið á í vinnudeilum. Fyrrverandi starfsmenn Eflingar á skrifstofu félagsins. Aðrir forkólfar verkalýðsfélaga sem stóðu að gerðum samningum við SA fyrir hönd um 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði.

Það er athyglisvert að sjá lögmann ASÍ halda því fram að breytingarnar á vinnulöggjöfinni árið 1996 sé afrakstur af langri og erfiðri deilu sem hafi endað með sátt það ár. Að löggjöfin hafi þjónað okkur afskaplega vel um áratuga skeið og að verið sé að búa til einhverjar aðstæður til að réttlæta inngrip ríkisins í þessa deilu nú með einhvers konar lagasetningu við skilyrði sem séu ekki til staðar.

Við þessa lýsingu lögmannsins er amk tvennt athugavert.

Annars vegar er það svo að það var engin sérstök sátt um löggjöfina árið 1996. Til marks um það má benda á að 184 mismunandi aðilar sendu inn formlegar umsagnir um lagafrumvarpið. Allir þessir aðilar gerðu athugasemdir við frumvarpið og vöruðu við því að öllu leyti eða hluta og vildu breytingar á því. Er tekið fram sérstaklega í áliti minnihluta félagsmálanefndar að þegar frumvarpið hafi verið lagt fram hafi það kallað á gífurleg mótmæli. Þingmönnum hafi borist áskoranir frá fjölda stéttarfélaga um að leggja málið til hliðar og að þegar frumvarpið hafi verið sent til umsagnar hafi borist svar frá nánast hverju einasta stéttarfélagi í landinu sem hafi mótmælt því harðlega og gagnrýnt innihald þess. Í niðurstöðum minnihlutans var tekið fram að þær breytingar sem gera hafi átt á frumvarpinu hafi sýnt betur en flest annað hve frumvarpið var illa unnið og vanhugsað. Breytingarnar væru til lítilla bóta því eftir stæði að heildarhugsun væri engin og markmiðin löngu glötuð.

Sérhver er nú sáttin sem lögmanninum er hugleikin. Kannski þóknast það hagsmunum lögmanns ASÍ í því samhengi hlutanna sem nú er uppi að gera að því skóna að sátt hafi ríkt um frumvarpið þegar félag innan ASÍ hefur fundið lögfræðitrix sem engum öðrum hafði áður í áratugi hugkvæmst?

Hins vegar þá er staðreyndin sú að svo virðist sem vissulega sé búið að búa til aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisins. Stjórnendur Eflingar eru þar að verki og engir aðrir. Það hefur engum öðrum dottið til hugar að neita því að afhenda kjörskrá sína þannig að unnt sé að halda kosningar um miðlunartillögu sáttasemjara sem sett er fram í samræmi við löggjöfina. Með því að viðurkenna það ástand að ekki sé unnt að láta fara fram kosningu um miðlunartillöguna er sú staða uppi að lagagreinarnar, sem löggjafinn árið 1996 samþykkti m.a. með þeim rökum að auka ætti valdheimildir sáttasemjara, eru hrein markleysa ef annar aðila kjaradeilu ákveður það.

Afleiðingin er sú sem við blasir. Annar deiluaðila heldur sínu striki án tillits til fram kominnar miðlunartillögu. Félagsmenn fá ekki tækifæri til að segja hug sinn um miðlunartillöguna og því er ekki vitað hvort það sé almennt fylgi félagsmanna við framgöngu stjórnenda Eflingar í málinu. Af fréttum að dæma og viðtölum við Eflingarfólk er margt sem bendir til að svo sé ekki.

Það kann því að vera rétt mat hjá lögmanni ASÍ að verið sé að búa til aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisins. Aðstæðurnar eru hins vegar af öðrum ástæðum en hann heldur fram.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með síðustu vendingum málsins. Nú hefur formaður Eflingar aftur lýst yfir sinni skoðun á því hvernig skuli túlka vinnulöggjöfina sem og regluverk síns eigin félags. Ekki er ólíklegt að á þá túlkun kunni að reyna aftur fyrir dómstólum. Það verður fróðlegt að sjá rökstuðning dómstóla í þetta skiptið.


Úr hringleikahúsi fáránleikans

Af fréttum að dæma er staðan í kjaradeilu Eflingar og SA óljós. Nýr sáttasemjari er sagður hlaupa á milli herbergja. Hann segist vera að reyna að finna út úr því hvort hægt sé að koma sér saman um á hvaða leikvangi eigi að spila. Guð einn virðist vita eitthvað. En á meðan eru verkföll Eflingar í gangi. Og óafgreidd miðlunartillaga sáttasemjara.

Fer þetta saman? Af lestri greinargerðar löggjafans með breytingum á vinnulöggjöfinni 1996 er ljóst að löggjafinn gerði ekki ráð fyrir því að þessi staða gæti komið upp. Löggjafinn var að auka valdheimildir sáttasemjara til að reyna að minnka líkur á ófriði á vinnumarkaði með tilheyrandi verkföllum með alvarlegum neikvæðum afleiðingum fyrir fjölmarga sem standa utan kjaradeilu hverju sinni.

Nú reynir á löggjöfina með nýjum hætti. Það hafði engum dottið til hugar að sú staða gæti komið upp að aðili að vinnudeilu myndi einfaldlega neita að afhenda kjörskrá til að koma í veg fyrir að unnt væri að afgreiða framkomna miðlunartillögu sáttasemjara.

Meirihluti Félagsdóms er búinn að skera úr um það að þrátt fyrir að óafgreidd sé miðlunartillaga sáttasemjara þá teljist boðaðar verkfallsaðgerðir og framfylgd þeirra vera í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þrátt fyrir að stéttarfélagið hunsi framkomna miðlunartillögu sem sett er fram samkvæmt ákvæðum sömu laga. Að auki byggði meirihluti Félagsdóms niðurstöðu sína á því að hann teldi að ríkissáttasemjari væri að leita þeirra leiða sem lög byðu til að tryggja að atkvæðagreiðsla um tillöguna gæti farið fram, m.a. með því að óska heimildar dómstóla til innsetningar í skrá yfir félagsmenn.

Ofangreint er athyglisvert. Meirihluti Félagsdóms virðist þarna gera ráð fyrir því að það sé til leið til að tryggja að atkvæðagreiðsla fari fram. Sem sagt meirihlutinn virðist þeirrar skoðunar að atkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram. Og að sáttasemjari væri að fara rétta leið til að ná í atkvæðaskrána. Við þetta er tvennt að athuga. Nú hefur Landsréttur sagt að þessi leið sé sáttasemjara ófær. Og þar með er ekki hægt að láta kosningu fara fram. Ætli meirihluti Félagsdóms myndi ennþá vera sömu skoðunar, að þessari niðurstöðu Landsréttar fenginni, að stéttarfélagið sé ekki að brjóta gegn 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur? Að stéttarfélaginu sé í raun heimilt að láta eins og miðlunartillaga hafi ekki verið sett fram og halda sínu striki með ófrið sinn. Án þess að sáttasemjara hafi tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu til að stilla til friðar.

Landsréttur kaus við úrlausn sína að horfa til löggjafarviljans árið 1978 í stað þess að kanna til hlítar hver löggjafarviljinn var árið 1996. Það er framsækið. Eða væri kannski réttara að segja að það væri afturhvarf? En hvað um það Landsréttur hafnaði því að sáttasemjari ætti rétt til þess að fá afhenta félagaskrá til unnt væri láta kjósa póstkosningu um miðlunartillögu skv. 3. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Samt var það yfirlýstur vilji löggjafans árið 1996 að bæta þessari aðferð við til þess m.a. gefa möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum. Landsréttur 2023 er ekki á því að löggjafinn 1996 hafi gert þetta með réttum hætti. Enda hafði hann m.a. sér til stuðnings við túlkun sína álit löggjafans 1978.

Og þar við situr. Stéttarfélagi, eða félagi atvinnurekanda eftir atvikum, er heimilt að sitja sem fastast á sinni kjörskrá og koma í veg fyrir að vilji löggjafans árið 1996 nái fram að ganga. Ákvæðin um sáttamiðlun sáttasemjara eru bara í plati ef annar hvor samningsaðilanna ákveður það. Löggjafarvilji hvað? Jú, þessi frá 1978 alveg rétt.

Eru þá bara allir mát? Nei, aldeilis ekki. Nokkrir stjórnendur Eflingar eiga sviðið. Þeir einfaldlega fara sínu fram í boði Félagsdóms og Landsréttar, já og sáttasemjara og SA. Það horfa bara allir á, hlaupa á milli herbergja og brosa vandræðalega framan í fjölmiðlafólk. Á sama tíma spyr bílstjóri í ljósvakamiðli af hverju félagar í Eflingu mega ekki kjósa um samning eins og félagar í VR. Þar var formaðurinn þó mótfallinn samningi. Samningur við VR var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Já, nú er Bleik brugðið. Rétturinn til að fá að greiða atkvæði hefur almennt verið talinn heilagastur af öllu heilögu og lærðar ræður verið haldnar þess vegna. T.d. af hverju má ekki kjósa um nýja stjórnarskrá? En nú hafa nokkrir stjórnendur Eflingar ákveðið að félagsmenn þeirra fái ekki að kjósa um sambærilega samninga og félagsmenn annarra stéttarfélaga hafa fengið að gera. Til öryggis vilja þeir frekar hafa verkföll. Frekar en að lenda í því að félagsmenn þeirra myndu ekki hafna tillögu sáttasemjara. Og halda þar með friðinn fram að næstu kjarasamningum, sem eru rétt handan við hornið.

En er eitthvað til ráða? Að mínu mati á sáttasemjari að boða til kosninga um miðlunartillögu sína annað hvort á kjörfundi eða utan kjörfundar ef það þykir heppilegra. Sem sagt skv. 1. eða 2. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna. Með því fullnægir hann lagaskyldu skv. lögunum. Þeir einir fá að kjósa sem geta sannað að þeir séu félagsmenn í Eflingu. T.d. með framlagningu launaseðils þar sem fram kemur að stéttarfélagsgjöld séu greidd til Eflingar.

Þá kunna einhverjir að segja að þessi leið sé ekki fær nema fyrir liggi kjörskrá. Ég er í sjálfu sér sammála því að það hafi verið ætlan löggjafans 1996 að slík kjörskrá myndi liggja fyrir. En nú hefur Landsréttur 2023 sagt að aðili að vinnudeilu þurfi bara ekkert að afhenda slíka skrá. Það hlýtur þá að gilda í báðar áttir. Þ.e. fyrst stéttarfélag þarf ekki að leggja fram skrána þá einfaldalega sættir sáttasemjari sig við það og heldur sína kosningu án skrárinnar. Ef stéttarfélagið vill halda því fram að miðlunartillaga hafi verið felld af fjórðungi félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þá er það stéttarfélagsins að sanna það. Með því að leggja skrána fram. Annars telst miðlunartillagan samþykkt. Ef hins vegar meira en fjórðungur félagsmanna Eflingar myndi fella miðlunartillöguna, miðað við framlagða kjörskrá, þá myndi raunverulegur vilji félagsmanna Eflingar liggja fyrir. Þá þyrfti ekki lengur að efast um rétt þeirra til verkfallsaðgerða.

En hvað svo ef miðlunartillagan er ekki felld? Það blasir við að önnur af tveimur leiðum yrði farin. Stjórnendur Eflingar halda áfram að láta eins og engin miðlunartillaga hafi verið sett fram eða um hana kosið. Og halda sínu verkfalli áfram. Eða stjórnendur Eflingar halda því fram að þessi aðferð hafi ekki verið heimil af hálfu sáttasemjara. Af hverju? Jú af því að hann hafði ekki félagaskrána. (Og af hverju hafði hann hana ekki?). Í fyrra tilvikinu yrði SA að leita aftur til Félagsdóms. Í seinna tilvikinu yrðu stjórnendur Eflingar að leita til Félagsdóms.

Þar með væri Félagsdómur aftur kominn með málið til úrlausnar. En nú á aðeins öðrum grunni. Sáttasemjari hélt sína kosningu og fékk niðurstöðu. Meirihluti Félagsdóms veit núna að sáttasemjari hafði enga leið til að fá kjörskrána frá stjórnendum Eflingar.

Ef niðurstaða Félagsdóms í þessu seinna máli yrði sú að sáttasemjara hefði ekki verið heimilt að halda kosninguna af því að hann hafði ekki félagsskrána þá er komin ný staða.

Þá væri búið að staðfesta að sáttasemjari hefur enga leið til að láta kosningu fara fram um miðlunartillögu sína ef annar hvor deiluaðila ákveður að afhenda ekki kjörskrá sína.

Það er niðurstaða sem er þvert á löggjafarviljann árið 1996. Það er almenn lögskýringarregla að sett lög skuli túlka á þann hátt að þau hafi einhverja skilgreinda merkingu. Ef þetta yrði niðurstaða Félagsdóms þá myndi liggja fyrir að sett lagaákvæði af hálfu Alþingis hafa enga sjálfstæða þýðingu ef einhver aðili úti í bæ ákveður það. Jafnvel þótt þessi aðili úti í bæ sé annar aðili að kjaradeilu.

Ef þessi staða kæmi upp þá yrði löggjafarvaldið að stíga inn í og tala með skýrum og skiljanlegum hætti en skilja ekki þjóðfélagið eftir í hringleikahúsi fáránleikans.


Hvort á löggjafarviljinn árið 1978 eða 1996 að ráða? Eru Félagsdómur og Landsréttur úti í skurði?

Ég heyrði í viðtali við Láru V. Júlíusdóttur að hún efaðist um að löggjafarvilji frá árinu 1978 ætti að hafa eitthvert gildi við túlkun á vinnulöggjöfinni í dag. Af því tilefni ákvað ég að rifja betur upp átökin sem áttu sér stað árið 1996 þegar umtalsverðar breytingar voru gerðar á vinnulöggjöfinni. Eftir þá upprifjun er ég sammála Láru um að löggjafarviljinn árið 1978 hefur enga þýðingu. Löggjafinn árið 1996 var að gera umtalsverðar breytingar á löggjöfinni eftir víðtækt samráð þótt ekki hafi allir aðilar á vinnumarkaði verið sammála um útfærsluna.

Ég tel það hafið yfir allan vafa að vilji og ætlun löggjafans árið 1996 var og er sá að kosning um miðlunartillögu sáttasemjara skuli fara fram skv. kjörskrám vinnuveitenda og stéttarfélaga, sem þýðir að hvorugur þessara aðila hefur heimild til þess að neita að afhenda kjörskrá sína.

Enda myndi slík niðurstaða fela í sér að annar deiluaðila, félag vinnuveitanda eða stéttarfélag, hefði í hendi sér hvort lög sett af Alþingi hefðu eitthvert sjálfstætt innihald eða ekki. Það þarf tæpast lögfróða til að átta sig á að slík niðurstaða gengur ekki upp.

Það er því fullt og nauðsynlegt tilefni til að fá fram endurskoðun Hæstaréttar á dómi Landsréttar.

Hér að neðan tek ég upp valda kafla úr greinargerð með breytingalögunum árið 1996. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað textann sem frá löggjafanum árið 1996 kemur fram og lagt á það mat hvað felst í honum. En ég ítreka að textinn er mun lengri og stundum tek ég stakar setningar út til að draga fram áherslur löggjafans.

Sums stað set ég inn athugasemdir og vangaveltur. Þar sem þessi ágæti bloggmiðill mbl býður ekki uppá mikla möguleika í ritvinnslu hef ég sett mínar athugasemdir fram á milli XXX merkinga.

Úr greinargerðinni.

Hér á landi hafa um langt skeið farið fram umræður um nauðsyn þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði með það að markmiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Þannig yrði stuðlað að friðsamlegum samningum og dregið úr átökum á vinnumarkaði og oft langvinnum vinnustöðvunum…

Þannig virðist hafa skort á að leikreglur hafi með fullnægjandi hætti stuðlað að frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Aðilar kunna að hafa treyst um of á íhlutun stjórnvalda.

Mjög fámennir hópar geta knúið fram sérhagsmuni sína í krafti lykilaðstöðu. Þá skortir á að tryggt sé að vel sé vandað til afgreiðslu kjarasamninga og ákvarðana um vinnustöðvanir. Á það bæði við um samtök atvinnurekenda og stéttarfélög. Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á vinnulöggjöf, eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, enda miða þær að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum félagsmanna í stéttarfélögum. Nauðsynlegt er því að taka til endurskoðunar ýmis ákvæði gildandi vinnulöggjafar, þ.e. bæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, og laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, og breyta þeim í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu.

XXX

Hér er rétt að veita því sérstaka eftirtekt að löggjafinn árið 1996 tekur beinlínis fram að verið sé að endurskoða og breyta lögunum frá 1938 og einnig frá 1978. Berum orðum er tekið fram að þetta sé gert í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu. Miðað við að þarna er enginn efi um það að löggjafinn árið 1996 er breyta þáverandi gildandi löggjöf er ótækt af Landsrétti að horfa til löggjafarvilja árið 1978 til að túlka lög sem löggjafinn árið 1996 setti.

XXX

Félagsmálaráðherra skipaði 4. október 1994 vinnuhóp til að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði. …

Fyrir hópinn var lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni. …

Hugmyndir hópsins, sem fram koma í áfangaskýrslunni, lúta fyrst og fremst að svonefndri viðræðuáætlun, miðlunartillögu, tengingarreglu og meðferð samningsumboðs, en hópurinn leggur í umfjöllun sinni áherslu á leiðir til að gera kjaraviðræður markvissari og styttri.

Í niðurlagi skýrslunnar kemur og fram að hópurinn telur að einnig þurfi að huga að reglum um vinnudeilur, inntak þeirra og hvort efni séu til að setja nánari formreglur um ákvarðanir um vinnustöðvanir og framkvæmd þeirra. Í áfangaskýrslunni kemur loks fram að ýmis atriði, sem tengjast þeim hugmyndum sem fram eru settar, hafi ekki verið rædd til hlítar, svo sem miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun vinnustöðvana, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðarfyrirkomulag.

Eftir að áfangaskýrslan var lögð fram í nóvember 1995 hafa fulltrúar aðila vinnumarkaðarins í nefndinni ekki náð samstöðu um tillögur til breytinga á ákvæðum gildandi laga til að hrinda í framkvæmd framangreindum hugmyndum vinnuhópsins. Lagafrumvarp þetta hefur því verið samið á vegum félagsmálaráðherra, m.a. á grundvelli ábendinga sem fram koma í áfangaskýrslu vinnuhópsins og umræðna sem hafa farið fram í vinnuhópnum. Rétt þykir nú að fella lög um sáttastörf í vinnudeilum inn í lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem III. kafli um sáttatilraunir í vinnudeilum var upphaflega, enda þykja öll þessi efnisatriði eiga heima í einum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið gætt að stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga, svo og að alþjóðasamþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að á sviði vinnuréttar.

Helstu nýmæli.

Póstatkvæðagreiðsla.

Heimiluð er póstatkvæðagreiðsla um gerða kjarasamninga og um ákvörðun um vinnustöðvun. Ef sú heimild er nýtt þarf að jafnaði ekki að ná tilteknu hlutfalli mótatkvæða gegn samningsniðurstöðu eða tiltekinni þátttöku við almenna ákvörðun um vinnustöðvun. Ríkissáttasemjara er veitt heimild til að ákveða í samráði við aðila að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með pósti (2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 4. gr. og 3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).

Skýrari miðlunarheimildir.

Lagaskilyrði fyrir heimild sáttasemjara til að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu eru gerð mun skýrari.

XXX

Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðsla fari fram?

XXX

Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.

Ríkissáttasemjara eru fengnar heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Ávallt skal haft samráð við aðila vinnudeilu áður en slíkar ákvarðanir eru teknar (3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).

XXX

Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðsla fari fram?

XXX

Afgreiðsla miðlunartillögu.

Miðlunartillaga er felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða og jafnframt að minnsta kosti þriðjungur atkvæða alls er mótatkvæði. Er sú breyting gerð með vísan til heimilda ríkissáttasemjara til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ef þær heimildir verða nýttar mun þátttaka aukast. Skilyrðið um lágmarkshlutfall mótatkvæða á við óháð tilhögun atkvæðagreiðslu (l-liður 6. gr. (31. gr.)).

XXX

Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir að atkvæðagreiðsla fari fram? Þarna er beinlínis gert ráð fyrir því að ríkissáttasemjari geti nýtt þessar nýju heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Niðurstaða Landsréttar felur í sér að hann geti það bara alls ekki af annar hvor deiluaðila ákveður að hann geti það ekki.

XXX

Formleg skilyrði fyrir vinnustöðvun.

Vinnustöðvun hefur víðtækar afleiðingar — ekki aðeins fyrir samningsaðila og einstaka félagsmenn þeirra heldur einnig fyrir aðra, bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem ekki hafa nokkurn möguleika á að hafa áhrif á kjaradeilu þeirra. Því úrræði á ekki að beita fyrr en fullreynt er að ekki gengur saman með samningsaðilum. …

Kröfur samningsaðila verða einnig að vera þess eðlis að gagnaðili geti mætt þeim án þess að það brjóti gegn öðrum skuldbindingum hans. Þessi meginregla kemur skýrt fram í dómum Félagsdóms, sbr. t.d. dóm hans frá 5. desember 1993. Gert er að skilyrði að leitað hafi verið milligöngu sáttasemjara áður en tillaga um vinnustöðvun er borin fram. Í því felst jafnframt að sáttasemjara hafi gefist tóm til að leita sátta í samræmi við reglur þar um og í samræmi við viðræðuáætlun.

XXX

Fram er komið að búið er að semja við þorra launafólks á vinnumarkaði. Með því að ganga að kröfum Eflingar væru SA að brjóta gegn skuldbindingum sínum gagnvart þeim hópi.

XXX

Því er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður — eða viðræðutilraunir — um framlagðar kröfur, og þá fyrst og fremst kröfur þess aðila sem ráðgerir vinnustöðvun, hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.

XXX

Þarna tekur löggjafinn árið 1996 sérstaklega fram að það sé skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Í þeirri stöðu sem nú er uppi hefur sáttasemjara ekki gefist færi á að beita þeim úrræðum sem löggjafinn árið 1996 ætlaðist til að hann hefði til að miðla málum. Ekki hefur farið fram kosning um miðlunartillögu hans þannig að sú staða er ekki uppi að stéttarfélagið hafi fellt tillöguna. Því eru ekki lögbundin skilyrði fyrir því verkföll nái fram að ganga. Skilyrði 14. gr. vinnulöggjafarinnar eru ekki fyrir hendi. Dómur meirihluta Félagsdóms er því rangur.

XXX

Ákvörðun um vinnustöðvun.

Boðun vinnustöðvana og framkvæmd getur haft mikil áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem ýmist eiga beina aðild að deilunni eða verða fyrir áföllum vegna deilna sem þeir hafa engin áhrif á. Að sjálfsögðu hefur vinnustöðvun áhrif á gagnaðila, enda er henni ætlað að knýja á um kröfur í vinnudeilu. Auk gagnaðilans eru hins vegar margir sem vinnustöðvun bitnar beinlínis jafnharkalega á og þeim sem henni er ætlað að knýja til samninga. …

Þolendur vinnustöðvunar geta jafnvel orðið fyrir meira tjóni en þeir sem að henni standa beint, þ.e. félagsmenn þess stéttarfélags sem gerir verkfall. Því er í frumvarpinu lagt til að ákveðnar reglur gildi um almennan vinnumarkað rétt eins og nú er um opinbera starfsmenn.

Póstatkvæðagreiðsla.

Samkvæmt frumvarpinu er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma.

Með póstatkvæðagreiðslu er í frumvarpi þessu átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim.

XXX

Þarna segir löggjafinn árið 1996 að senda skuli öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá kjörgögn heim. Þessi fyrirmæli eru ekki háð því að það sé háð vilja samningsaðila hvort svo sé gert eða ekki. Niðurstaða Landsréttar er því röng.

XXX

Þegar greidd eru atkvæði um miðlunartillögu skal slík póstatkvæðagreiðsla framkvæmd með sama hætti og hér er greint frá, en frumkvæði og stjórn póstatkvæðagreiðslu er þá í höndum ríkissáttasemjara auk þess sem embætti hans greiðir kostnað við póstatkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Þá skal áritað umslag merkt ríkissáttasemjara. Svipaður háttur á atkvæðagreiðslu hefur verið viðhafður í nokkrum stéttarfélögum hér á landi og er því ekki nýlunda. Þessi leið gefur möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum.

Skýrari miðlunarheimildir.

Í gildandi lögum eru mjög rúmar heimildir fyrir sáttasemjara til að setja fram miðlunartillögur. Þeim hefur hins vegar lítið verið beitt. Gerð er tillaga um að sáttasemjari haldi þessum heimildum en með nokkrum takmörkunum sem eiga að tryggja að miðlunartillaga verði ekki borin fram nema áður hafi reynt á samningsleiðir til þrautar.

Hafi samningsaðilar hvorki komist að niðurstöðu innan þess tíma sem tilgreindur er í viðræðuáætlun né náð sáttum fyrir atbeina sáttasemjara metur sáttasemjari hvort og þá hvenær rétt er að setja fram miðlunartillögu fyrir þá hópa sem í hlut eiga, þ.e. þá hópa sem eru enn með lausa samninga.

Meginskilyrðið er að sameiginleg miðlunartillaga sé til þess fallin að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Er skilyrðið háð mati sáttasemjara sem ræðst ekki síst af afstöðu samtaka á vinnumarkaði og hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum. Gert er ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu.

XXX

Hér er sérstök ástæða til að staldra við og skoða löggjafarviljann árið 1996. Hér er sagt að það sé sáttasemjari sem meti það hvort og þá hvenær rétt sé að setja fram miðlunartillögu. Meginskilyrði sé að hún leiði til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Með öðrum orðum að reynt sé að koma í veg fyrir verkföll. Tekur löggjafinn sérstaklega fram að mat sáttasemjara ráðist m.a. af hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum og að gert sé ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu. Fyrir liggur að almenn sátt er um þær niðurstöður kjaraviðræðna sem átt hafa sér stað. Eingöngu Efling hefur efnt til ófriðar. Á þessa stöðu á sáttasemjari horfa samkvæmt löggjafarviljanum árið 1996.

XXX

Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.

Beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara hvað varðar tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu eru auknar í samræmi við hugmyndir sem fram komu í vinnuhóp félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði og ábendingar ríkissáttasemjara.

XXX

Hvernig samrýmist þessi vilji löggjafans árið 1996 niðurstöðu Landsréttar?

XXX

Breytingarnar eru til þess fallnar að auka þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Er það í samræmi við lýðræðishefðir að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um svo mikilvæg réttindi manna.

XXX

Hvernig samrýmist þessi vilji löggjafans árið 1996 niðurstöðu Landsréttar? Löggjafinn árið 1996 segist vera að auka heimildir sáttasemjara til afskipta og jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um mikilvæg réttindi manna. Með því að annar aðili geti tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu þá er það í fullkominni andstöðu við þennan löggjafarvilja.

XXX

Einnig er sem mest þátttaka eðlileg með hliðsjón af því að ríkissáttasemjari leggur því aðeins fram miðlunartillögu að samninganefndum aðila einstakrar vinnudeilu hafi ekki sjálfum tekist með frjálsum samningum að ná saman um gerð eða endurnýjun kjarasamnings.

XXX

Löggjafinn árið 1996 gerir augljóslega ekki ráð fyrir því að engin þátttaka sé í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara.

XXX

Afgreiðsla miðlunartillögu.

Lagt er til að meiri hluta greiddra atkvæða og jafnframt þriðjung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þurfi til þess að fella miðlunartillögu sem sáttasemjari leggur fram. Er það töluverð breyting frá gildandi lögum sem kveða á um lágmarksþátttöku 20% atkvæðisbærra manna. Þarf þá minnst 65% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu sáttasemjara. Samkvæmt gildandi lögum lækkar tilskilið hlutfall atkvæða í hlutfalli við aukna þátttöku miðað við fjölda atkvæðisbærra þannig að ef 35% eða fleiri atkvæðisbærra taka þátt þarf minnst 50% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu. Hér er því gert ráð fyrir verulegri efnisbreytingu en um leið einföldun ákvæðisins.

Efnisbreytingin er rökrétt afleiðing af þeim formbreytingum sem felast í auknum heimildum ríkissáttasemjara um tilhögun atkvæðagreiðslu. Einnig þykir eðlilegt að í þessu efni gildi sömu reglur um atvinnurekendur og launafólk, en samkvæmt orðanna hljóðan tekur 12. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, aðeins til launafólks.

Með þriðjungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá hér og víðar í frumvarpi þessu er annars vegar átt við þriðjung atkvæða samkvæmt gildandi atkvæðaskrá hjá samtökum atvinnurekenda en þar er fjöldi atkvæða jafnan miðaður við útgreidd laun, þ.e. í raun fjölda launamanna. Hins vegar er átt við þriðjung atkvæðisbærra launamanna sem eru fullgildir félagar í því stéttarfélagi eða þeim stéttarfélögum sem eiga í hlut. Um það hvort miðlunartillaga ríkissáttasemjara eða samningur, sem samninganefndir hafa undirritað, telst felld munu því gilda nákvæmlega sömu reglur hvort sem atvinnurekendur eða launamenn eiga í hlut. Jafnræði er því með aðilum.

XXX

Ofangreindur texti er athyglisverður. Rétt er að taka fram að með breytingatillögu var ákveðið að nóg væri að fjórðungur atkvæðisbærra félagsmanna greiddi atkvæði gegn miðlunartillögu þannig að hún teldist felld.

Löggjafinn árið 1996 tekur fram að sáttasemjari sé kominn með auknar heimildir frá því sem var um tilhögun atkvæðagreiðslu. Jafnframt tekur hann fram að sömu reglur gildi um bæði atvinnurekendur og launafólk. Löggjafinn útskýrir nákvæmlega hvernig skuli haga talningu og við hvað skuli miða. Í tilfelli launamanna eru það fullgildir félagar í því stéttarfélagi sem á í hlut.

Með því að tiltaka skýrt að með lagabreytingunni árið 1996 sé verið að auka heimildir sáttasemjara er ótækt að horfa til löggjafarviljans árið 1978 eins og Landsréttur gerir.


Hugleiðing Jóns Sigurðssonar (f. 1934, d. 15.1.2023) um hvort verkfall sé frambærilegt vopn í launabaráttu

Hefur ekkert áunnist sl. tæpu 50 ár í fyrirkomulagi kjarabaráttu? Á árinu 1996 var hart tekist á um fyrirhugaðar breytingar á vinnulöggjöfinni. Nánast öll stéttarfélög og mörg önnur hagsmunafélög skiluðu umsögnum til Alþingis með alvarlegum athugasemdum um fyrirliggjandi frumvarp. M.a. skilaði Lagastofnun ítarlegu áliti með margvíslegum ábendingum. Þá voru fjölmargir aðilar kallaðir til funda við félagsmálanefnd um málið til frekari útskýringa. M.a. var ég í þeim hópi fyrir hönd BHM og sáum við marga meinbugi á fyrirhuguðum breytingum. Að lokum var frumvarpið afgreitt af meirihlutanum gegn mjög hörðum andmælum minnihlutans.

Eins og segir í nýjum Landsréttardómi var þó tilgangurinn m.a. með breytingunum sá að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði í því augnamiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Hafi breytingunum verið ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum og draga úr átökum á vinnumarkaði og langvinnum vinnustöðvunum með skýrari leikreglum sem ættu að stuðla að frjálsum samningum á vinnumarkaði.

Í þessu samhengi er afar fróðlegt að lesa grein Jóns Sigurðssonar sem birtist í Morgunblaðinu 14. mars 1974. Á þessum tíma sem hann ritaði greinina hafði hann m.a. verið ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, hagsýslustjóri 1966-1967 og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis 1967-1974.

Við lestur greinarinnar hvarflar sú hugsun óneitanlega að manni að lítið hafi áunnist á þessu sviði frá því að greinin var skrifuð.

Ég hef ritað upp valda kafla úr grein hans, sem er töluvert lengri, og fært stafsetningu til nútímans en aðrar breytingar á texta hef ég ekki gert.

XXXXX

Þegar litið er á launabaráttu allra launþega samtaka sem heild, er hún í eðli sínu pólitísk. Þá er ekki átt við, að hún sé flokkspólitísk, heldur pólitísk að því leyti, að henni verður ekki ráðið til lykta með neinum rökrænum hætti, heldur verður að koma til pólitískt mat, þar sem andstæðir hagsmunir eru vegnir hverjir gegn öðrum. Hér er að nokkru fjallað um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, en jafnframt ákveðið, hver skuli vera fjármálalegur styrkur atvinnufyrirtækja. Þá fela ákvarðanir á þessu sviði í sér mikilvægustu forsendur allrar hagþróunar á samningstímanum.

Hvernig sem á þessa baráttu er litið, er öllum aðilum að ágreiningnum nauðsynlegt, að honum verði ráðið til lykta, hverju sinni sem hann rís. Sé það ekki gert án þess að til verkfallsátaka komi, skaðast allir aðilar að málinu, oft mest þeir, sem síst skyldi. Auk þess bitna afleiðingarnar á blásaklausu og óviðkomandi fólki, eins og dæmin sanna.

Eðlilegt er að líta á beitingu verkfalls í upphafi sem neyðarrétt í þeim almenna skilningi, sem því hugtaki er fenginn, þ.e. að hagsmunum eða verðmætum sé þegar svo ber undir heimilt að fórna, sé það nauðsynlegt til að varðveita aðra hagsmuni eða verðmæti, sem eru miklum mun meiri.

Þegar verkalýðsfélög voru að berjast fyrir því, sem nú er litið á sem sjálfsagðan rétt, að geta sest niður við sama borð og atvinnurekendur og samið við þá um kjör félagsmanna sinna, var verið að slást um mannréttindi. Þar voru hagsmunir, sem eru meira virði en svo, að þeir verði metnir til fjár. Þess vegna átti hin almenna regla neyðarréttarins algerlega við. Sú eyðilegging verðmæta og sú röskun, sem verkfallið hafði í för með sér, var réttlætanlegt eins og á stóð til að tryggja verkalýðnum ómetanleg mannréttindi.

Viðhorfið til verkfallsbeitingar sem neyðarréttar við núverandi aðstæður hlýtur að endurskoðast og spurningar að rísa um það, hvort þeir hagsmunir, sem verið er að sækja, séu raunverulega meiri, þegar á heildina er litið en þeir, sem fórnað er með verkfalli. Því verður heldur ekki trúað, að ekki sé finnanleg önnur, greiðari og ódýrari leið til að koma þeim raunhæfu kjarabótum, sem rúmast innan getu hagkerfisins, til skila til þeirra, sem launþegasamtökin telja á hverjum tíma mest þurfandi fyrir slíkar kjarabætur.

Það, sem mestu ræður um þessa bjartsýni, er að vitneskjan um raunverulega afkomu atvinnugreina og þjóðarbúsins til að byggja á raunhæfar ákvarðanir um kjör er nú að verða svo góð, að hún verður að teljast grundvöllur að nýju fyrirkomulagi í þessu efni. Þessi vitneskja er öllum aðilum vinnumarkaðarins aðgengileg og engum á að líðast að starfa eins og svo sé ekki.

Liður í umsköpun ákvarðanatöku á þessu sviði yrði að vera nýtt verksvið og aukið valdsvið sáttasemjara ríkisins til að koma í veg fyrir verkföll og jafnvel skera úr ágreiningi hjá einstökum félögum og innan einhverra marka í heildarsamningum. Meiri háttar ágreiningi þyrfti sáttasemjari að mega skjóta til Alþingis, enda væri þar um að ræða stórpólitískt mál, sem telja verður rökrétt, að Alþingi ráði til lykta eins og stjórnskipun ríkisins gerir ráð fyrir og þegnarnir beygi sig fyrir niðurstöðu þess, hvernig sem þeim líkar, rétt eins og um væri að ræða hegningarlög, skattalög eða lög um almannatryggingar.

Næst á eftir því að víkja sé undan að fást við vandamál er íhaldssemi alltaf auðveldasta viðbragð við þeim. Og það þarf kjark til að snúa af þeirri leið, sem lengi hefur verið gengin. Það er að mínu mati allt of kostnaðarsöm íhaldssemi hjá launþegasamtökum að halda áfram þeirri verkfallsstefnu, sem þau hafa haft uppi. Samfélagið hefur ekki efni á að láta hnefaréttinn ráða til að lykta ágreiningi á þessu sviði fremur en öðrum.


Landsréttur staðfestir að félagsmenn Eflingar fái að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara

Rétt í þessu staðfesti Landsréttur að ríkissáttasemjari geti látið kjósa um miðlunartillögu sína á kjörfundi.

Landsréttur bendir á að meginregla laganna, sbr. 1. málslið 3. mgr. 29. gr., sé sú að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skuli fara fram á kjörfundi sem standi yfir í fyrirfram ákveðinn tíma.

Landsréttur fer síðan ítarlega yfir undantekningarreglurnar, sem er að finna í 2. og 3. málslið sömu greinar, sem felur í sér heimild til að atkvæðagreiðsla fari við ákveðin skilyrði fram utan kjörfundar eða að almenn póstatkvæðagreiðsla fari fram meðal félagsmanna. Landsréttur segir um þessar undantekningarreglur að það leiði af eðli máls að til þess að unnt sé að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu þurfi kjörskrá aðila vinnudeilu að liggja fyrir. Það sé hins vegar hvergi í lögunum kveðið á um að sáttasemjara sé heimilt að knýja aðila vinnudeilu til afhendingar kjörskrár eða aðgangs að henni við þær aðstæður að stéttarfélag telji sér ekki skylt að afhenda hana.

Það liggur því fyrir, gagnstætt niðurstöðu meirihluta Félagsdóms, að þessi leið er ekki fær fyrir sáttasemjara til að láta kjósa um tillöguna. Þess í stað verður hann að fara eftir meginreglunni í 1. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna og boða til kjörfundar þar sem atkvæðagreiðsla getur farið fram úr því að stéttarfélagið kýs að ljá ekki atbeina sinn til að undantekningarreglunum verði beitt.

Þessi staða er í raun og veru öfugsnúin því með þessum breytingum var tilgangurinn sá að auðvelda félagsmönnum að nýta kosningarétt sinn. Í því samhengi vitnar Landsréttur í lögskýringargögn og bendir á að auk kjörfundaratkvæðagreiðslu sé ríkissáttasemjara heimilað að efna til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Sé þá unnt að nýta hvers konar tækni til utankjörfundaratkvæðagreiðslu hvar sem er í lögsögu íslenska ríkisins án þess að öllum félagsmönnum sem miðlunartillaga tekur til, sé gert að mæta á kjörfund, t.d. bifreiðastjóra og sjómenn.

Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í samfélaginu er fullt tilefni til að vekja sérstaka athygli á umfjöllun Landsréttar um lögskýringargögn um breytingalög frá 1996 á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar tekur Landsréttur m.a. fram að af almennum athugasemdum með frumvarpinu megi ráða að þessum breytingum hafi meðal annars verið ætlað að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði í því augnamiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Hafi breytingunum verið ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum og draga úr átökum á vinnumarkaði og langvinnum vinnustöðvunum með skýrari leikreglum sem ættu að stuðla að frjálsum samningum á vinnumarkaði. Með lögunum hafi meðal annars verið gerðar breytingar á lagaskilyrðum fyrir heimild ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu. Er í því samhengi vísað til undantekningarreglnanna í 2. og 3. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna. Tekur Landsréttur sérstaklega fram að í athugasemdum með frumvarpinu sé tekið fram að beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara til að taka ákvörðun um tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu væru auknar til samræmis við hugmyndir sem komu fram í vinnuhópi félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði og ábendingar ríkissáttasemjara.

Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er ekki annað að sjá en að einu mögulegu mistök ríkissáttasemjara hafi verið þau að boða ekki strax til kjörfundar í stað þess að láta reyna á skyldu stéttarfélagsins til að afhenda kjörskrá. Á kjörfundi skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg og leynileg og þeim einum heimilt að kjósa sem sanna á sér deili og að þeir séu félagsmenn í Eflingu. T.d. með framvísuna launaseðla þar sem fram kemur hvert stéttarfélagsgjöld eru greidd. Með þessu móti má fá skjóta niðurstöðu um hvort miðlunartillaga telst samþykkt eða felld og hvort friðarskylda sé komin á eða hvort stéttarfélag heldur áfram undirbúningi verkfallsaðgerða sinna.

Það amk hlýtur að vera hverjum sanngjörnum manni augljóst að sú staða sem nú er uppi er ekki í samræmi við þá lýsingu sem Landsréttur gerir að umtalsefni í umfjöllun sinni um löggjafarviljann 1996.


Bananalýðræði í boði meirihluta Félagsdóms

Fyrir dómsuppkvaðningu Félagsdóms var ég sannfærður um að dómurinn myndi dæma á þann veg að boðað verkfall Eflingar væri ólögmætt. Ástæðan var ekki sú að ég sem löglærður hefði greint lagaumhverfið og komist þannig að niðurstöðunni. Mér fannst einfaldlega augljóst að með því að beita rökhugsun, þá væri útilokað annað en að fá þá niðurstöðu að á Íslandi gilti sú regla að sá sem kemur í veg fyrir að lögbundin fyrirmæli nái fram að ganga hagnist á því. Ég taldi einfaldlega víst að íslenskt regluverk væri með þeim hætti að slík staða gæti ekki komið upp–amk ekki ef leitað væri úrlausnar þar til bærra aðila.

Það verður því að segjast eins og er að það kom mér verulega á óvart að einn löglærður dómari, hvað þá þrír, skyldu komast að niðurstöðu í málinu sem leiðir af sér að sá sem ekki fer að lögum kemst upp með það, en sá sem fer að lögum verði að leita réttar síns.

Ég hef núna, til að reyna að skilja málið, sett upp lögfræðigleraugun og lesið bæði meirihlutaákvæðið og minnihlutaákvæðið. Minnihlutaákvæðið er vel rökstutt og þar er beitt lögfræðilegri aðferðafræði til að komast að rökréttri niðurstöðu.

Í 111. málsgrein í dómi Félagsdóms er að finna afar sérkennilega rökleiðslu meirihlutans, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að hið boðaða verkfall, sem ekki fari í bága við fyrirmæli laga, komi til framkvæmda. Þarna er að finna það skemmtilega orðalag að stefndi hafi ekki ljáð atbeina sinn til að miðlunartillaga ríkissáttasemjara fái þann framgang sem lög mæla fyrir um. Með öðrum orðum stefndi er að brjóta lögin með framgöngu sinni. Næsta setning er í raun algjört gullkorn því meirihlutinn orðar það svo ekki verði betur séð en að ríkissáttasemjari hafi leitað þeirra leiða sem lög bjóða til að tryggja að atkvæðagreiðslan fari fram, með innsetningarbeiðni í skrá yfir félagsmenn stefnda. Sem sagt, ríkissáttasemjara ber að fara að lögum til að reyna að fá því framfylgt að miðlunartillaga hans fái þann framgang sem lög mæla fyrir um. Sá brotlegi, stefndi í þessu tilviki, þarf hins vegar ekkert að aðhafast heldur getur hann haldið áfram að fylgja meintum lagabókstaf um hvernig skuli boða til og framkvæma verkföll án þess í nokkru að taka tillit til þess að fram sé komin miðlunartillaga sem á að hafa tiltekinn framgang sem hin sömu lög mæla fyrir um hvernig eigi að vera. Þannig að sá sem fer að lögum er lentur einhvers staðar að fjallabaki á meðan sá sem brýtur lögin heldur áfram sinni ferð á breiðgötu réttlætisins–eða þannig. Að lokum klykkir meirihlutinn út í þessari málsgrein með því að fullyrða að hið löglega boðaða verkfall fari ekki í bága við fyrirmæli laga, þar með talið 14. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er beinlínis röng niðurstaða eins og minnihlutinn bendir réttilega á.

Eins og minnihlutinn bendir á þá eru skilyrði í nefndri 14. gr. sem fara þarf eftir til að verkfall teljist heimilt. Það er ekki flókið því fara þarf að skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum. Í 27. gr. laganna er kveðið á um að þegar miðlunartillaga er komin fram þá skuli leggja hana fram til samþykkis eða synjunar. Það segir ekki í greininni að það megi gera hvorugt. Eða að það megi láta það vera að ljá atbeina sinn – eins og meirihlutinn virðist telja að sé mögulegt. Löggjafinn hefur tekið af allan vafa að þegar fram er komin miðlunartillaga þá skal kjósa um hana og fá niðurstöðu. Segir þannig í 2. mgr. 29. gr. laganna að miðlunartillaga skuli borin undir atkvæði og henni svarað játandi eða neitandi. Þetta er lögbundin skylda að gera og felur í sér að þeir sem þurfa að koma að framkvæmdinni verða að ljá atbeina sinn til þess. Að fenginni niðurstöðu er þá annað hvort komin á friðarskylda og kjarasamningur eða ekki. Ef ekki þá getur viðkomandi stéttarfélag haldið áfram verkfallsundirbúningi sínum ef það svo kýs.

Hvað varðar mögulegan ágreining um embættistakmörk ríkissáttasemjara þá leysir minnihlutinn það mál með því einfaldlega að vísa til viðeigandi ákvæðis í stjórnarskrá og hvernig skuli leysa slíkan ágreining. Og klykkir út með því að benda á að skv. ákvæðinu beri að hlýða yfirvaldsboði í bráð. Með öðrum orðum það er bundið í stjórnarskrá að hlíta skuli fyrirmælum stjórnavalda þar til um þau hefur verið fjallað af dómstól og breytt eftir atvikum.

Það er ekki í boði að neita að hlýða úrskurðum, dómum, ákvörðunum eða fyrirmælum opinberra aðila jafnvel þótt unnt sé að leita endurskoðunar fyrir dómstólum eða æðri dómstól eftir atvikum. Sé slík háttsemi látin viðgangast er það viðurkenning á bananalýðræði.


Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Feb. 2023
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband