15.11.2024 | 10:47
Besti vinur aðal. Spillingin. Lífsbaráttan og pólitíkin. Bókadómar.
Ég hef í haust lesið nokkrar bækur. Sú sem er áhrifaríkust er tvímælalaust bók Sverris Garðarssonar; Býr Íslendingur hér. Hryllingnum í þeirri bók er ekki hægt að lýsa. Mánuðina á undan las ég bækur Tryggva Emilssonar í fyrsta sinn, Fátækt fólk, Baráttan við brauðið og Fyrir sunnan. Ég veit að margir af eldri kynslóðunum hafa lesið þessar bækur. Það væri hollt fyrir þær yngri að gera það líka. Hvernig lífsbaráttan var fyrir ekki svo löngu síðan. Ég t.d. tengi sérstaklega við lýsingu Tryggva á lífsbaráttunni í Fátæku fólki. Hann lýsir því þegar faðir hans seldi bæinn Bakkasel, sem var fremsti bær í Öxnadal, ungum manni sem tókst vel til við búskapinn. Sá var stórhuga og bjó ekki lengi að Bakkaseli en flutti neðar í sveitina þar sem landgæði voru meiri. Þá tóku við búskap þar, hjón sem voru langaafi og langaamma mín. Faðir minn man eftir þeirri sögu þegar amma mín, mamma hans, kom gangandi yfir Öxnadalsheiðina með yngri systur sinni og ráku þær kvígu á undan sér úr Skagafirði. Þær voru 12 og 9 ára gamlar og fannst ganga hægt að komast yfir um því kvígan var baldin. Og leiðin löng fyrir ungar stúlkur. Faðir minn hefur lýst því fyrir mér að eitt af verkum ömmu var að draga sauðskinnsskó og sokka af póstburðarmönnum sem komu gangandi yfir heiðina úr Skagafirði í vondum veðrum. Enda var bærinn fremstur í dalnum. Fengust greiðslur fyrir að taka á móti. Lágreistur og þröngur torfbær. Og heimafólk og gestkomandi gengu örna sinna á sama stað og kúin.
Það er ekki lengra síðan.
Sjálfur ólst ég að hluta upp í sveit. Eyjafirði. Hjá föðurfólki mínu. Á sumrin. En líka í bænum. Hafnarfirði. Dásamlegur bær og þar eignaðist ég mína æskuvini.
Faðir minn var leigubílstjóri í meira en 25 ár. Reyndar 40 ár. Og er enn við hesta heilsu. Enda stutt á milli okkar. Fórum saman á rjúpu í sveitinni okkar um þar síðustu helgi. Mjög vel heppnuð ferð. Mamma er ári yngri en pabbi og því enn yngri en hann þegar ég átti að fara í lakið. Mér er sagt að ég sé getinn í séníver. Trúi því alveg. Þau voru ekki par þá og mér skilst að föðuramma mín hafi lagt það til að pabbi byði henni til dvalar í sveitinni með þungann. Enda móðuramma mín á þeim tíma ein með 6 börn. Ég lít á þetta sem mína blessun. Hefur gengið vel síðan og ég hef bara spjarað mig ágætlega þótt ég segi sjálfur frá. Ég hef fengið að prófa alls konar um ævina. Eins og þeir vita sem hafa fylgst með blogginu mínu undanfarin ár.
Það var ekki lagt að mér að fara í langskólanám en ég var vel studdur til að gera það sem mig langaði. Og þar sem föðuramma mín sagði víst, þegar ég var mjög ungur, eftir að hafa horft á mig reyna að negla nagla í spýtu, að þessi drengur yrði aldrei smiður þá var það afgreitt. Ömmubræður mínir voru nefnilega margir miklir handverksmenn til handa og kunnu að búa til fallegt.
Þannig að mín örlög urðu þau að ég endaði sem lögfræðingur. Eftir að hafa velt fyrir mér um stund hvort væri áhugaverðara að verða lögfræðingur eða líffræðingur. En þetta var áður en Kári Stefáns kom heim með Decode. Ég sá bara ekkert annað fyrir mér á þeim tíma en að ég hefði orðið kennari, ef ég hefði lært líffræði. Og þá væri ég alltaf í verkföllum. Enda upplifði ég tvö slík sem menntaskólanemi. Að því sögðu tek ég fram að ekki er við kennara að sakast heldur kerfið sem við höfum búið þeim og okkur.
Pólitíkin.
Ég veit ekkert alveg af hverju ég varð hægri maður. Sennilega hefur það eitthvað með það að gera hvað var fyrir manni haft. Í sveitinni voru keypt nokkur blöð og þar voru fyrirferðamest Mogginn og Tíminn. Sjallar og Framsókn. Föðurbræður mínir aðhylltust hvorn sinn flokkinn. En það var samt ekkert mikið talað um pólitík nema rétt um kosningar. Og þegar þær voru fékk ég að horfa á sjónvarp lengi, lengi, lengi. Og svo lengi stundum að ég vissi ekki hvort það var dagur eða nótt. Og var jafnvel sofandi þegar beljur voru sóttar að morgni, sem var mitt hlutverk á þessum árum.
En á þessum árum við þetta uppeldi varð þessi vísa til af kúasmala sem var ca. 9 eða 10 ára gamall:
Sjálfstæðisflokkurinn bestur er,
Framsóknarflokkinn næst ég tel,
Alþýðuflokkurinn ekkert sér
og Alþýðubandalagið ekkert er.
En af hverju hægri maður?
Jú, að sjálfsögðu munu vinstri menn segja að ég hafi einfaldlega verið heilaþveginn ungur og geti ekki skipt um skoðun þess vegna. Og sem ég hef vissulega heyrt.
Það er bara í fínu lagi og lýsir best þeirra eigin hugsunarhætti. En staðreyndin er sú að ég hef reynt að kynna mér söguna og lesið mér til um aðra strauma og stefnur. Ég hef reynt að læra af sögunni. Móta mér mínar eigin skoðanir á því hvernig mér hugnast sjálfum að þjóðfélagið og samfélagið eigi að virka.
Mér finnst Geir Haarde orða hægri stefnuna vel í nýútkominni ævisögu hans: ... þeirri grundvallarahugmynd að hver einstaklingur ætti að hafa frelsi og skilyrði til að njóta og þroska hæfileika sína og atorku fyrir sjálfan sig og samfélagið allt en yrði jafnframt að bera ábyrgð á gjörðum sínum og orðum. Allir einstaklingar ættu að hafa möguleika á að leita lífshamingjunnar með þeim hætti sem þeir teldu sér fyrir bestu innan ramma viðtekinna samfélagsreglna. Með þeim hætti fengi fjölbreytileiki mannlífsins best dafnað og einstaklingar væru ekki allir steyptir í sama mót eins og í þjóðfélögum þar sem hóphyggja er ríkjandi en umburðarlyndi fyrir viðhorfum annarra víkjandi. Þannig mætti einnig skapa efnahagsumgjörð sem veitti einstaklingum, fyrirtækjum þeirra og samtökum, svigrúm til að spreyta sig og vera sinnar eigin gæfu smiður. Slík umgjörð tryggir jafnframt að sem mest verði til ráðstöfunar fyrir þá sem minna mega sín eða standa af einhverjum ástæðum höllum fæti í lífinu en umhyggja og virðing fyrir þeim er mikilvægur þáttur í þeirri hugmyndafræði ...
Þetta er mín eigin skoðun en ég virði skoðanir annarra þótt þær séu ekki þær sömu og mínar eigin. Og ég trúi því að það sé mér hollt að aðrir hafi aðrar skoðanir ef svo skyldi vilja til að mínar skoðanir væru ekki réttar. Sem að sjálfsögðu getur gerst (en auðvitað ekki líklegt (!)). Og þess vegna er kannski ágætt að við búum við samsteypustjórnir þótt ég fái ekki alltaf öllum mínum skoðunum framgengt í þeim.
Og einu sinni kaus ég næstum ekki Sjálfstæðisflokkinn. Það var eftir hrun. Ég var ekki par ánægður með ástandið frekar en aðrir og fannst Sjálfstæðisflokkurinn bera mikla ábyrgð. Meira að segja svo mikla að ég held ég hafi látið hafa það eftir mér einhvers staðar að við ættum að hætta að vera með handónýta íslenska þingmenn og gangast aftur undir erlend yfirráð. En þetta var auðvitað sagt í hálfkæringi og uppnámi vegna ástandsins. En það fór samt svo að ég kaus Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan var einfaldlega sú að eins og talsmenn annarra flokka töluðu á þessum árum þá leist mér ekki vel á blikuna. Því var ljóst í mínum huga að Sjálfstæðisflokkurinn yrði að hafa eins sterka rödd á Alþingi og hægt væri til að spyrna við fótum í stjórnarandstöðunni og verja hægri stefnuna gegn vinstri sósíalismanum sem var í pípunum.
Og þá má spyrja, fyrst ég hef þessar miklu skoðanir, af hverju fór ég ekki í pólitík?
Ég ætlaði þangað og varð virkur í pólitík um stund. Fór í stjórn Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og kynntist þar mörgu góðu fólki. Og ég valdi mér málaflokk. Málefni aldraðra. Fannst ekki nógu vel hugað að þeirra þörfum. Það var fyrir næstum 20 árum. Þá fékk ég ólæknandi blóðkrabbamein sem tók hug minn allan og ég ákvað að hætta afskiptum af pólitík. Og nú er ég ennþá lifandi og 20 árum nær því að verða gamall. Já og talandi um það. Í vikunni sótti ég málþing á vegum HÍ ofl. í tilefni af hundrað ára afmæli Vatnalaga sem tóku gildi 1. janúar 1924. Og það var eins og ég væri kominn aftur í lagadeildina árið 1990. Þarna sá ég marga af mínum fyrrum mentorum á þeim árum, sumir orðnir ansi gamlir á meðan aðrir voru furðu lítið breyttir. Einn reyndar augljóslega með sama hárgreiðslumeistara og pabbi. Litur sem mér finnst alls ekki fallegur. Já og þarna sá ég unga prófessora sem ég mundi ekkert eftir meðan ég var í náminu en hef vissulega séð síðan. Og sumir hafa skrifað merkilegar bækur sem eru góðar. Já og þarna sá ég haug af dómurum. Alls konar dómurum. Fyrrverandi dómurum og núverandi dómurum. Dómara sem jafnvel langar að hætta að vera dómarar eða dómarar sem vilja verða öðru vísi dómarar. Komast á næsta stig fyrir ofan það stig sem þeir eru núna á. Það er gott fyrir bæði þá, þær, þau og okkur hin. Já og lögmennirnir. Þetta eru sko engin smámenni. Klappandi hver öðrum á axlirnar og hlæjandi hrossahlátri sem glumdi um salinn. Þarna var sem sagt rjóminn kominn, jú og tveir rafmagnsverkfræðingar að sögn rektors, og ég.
Ótrúlegt að sjá hvað sumir hafa breyst. Og meira að segja bekkjarfélagar mínir. Þetta er bara að verða síðmiðaldra fólk! Það er ákaflega heppilegt hvað ég líkist þeim lítið.
En að bókardómum.
Í inngangi vísaði ég til þess að ég hefði lesið nokkrar bækur. Ein af þeim er bók eftir Hlyn Níels Grímsson lækni. Súkkulaðileikur. Hlyni kynntist ég ágætlega þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands á árunum 2002-2007. Við vorum saman í samninganefnd lækna um tíma og varð ágætlega til vina þá. Eftir veru mína hjá læknafélaginu hafa leiðir okkur stundum legið saman, þó ekki oft, og þá helst í gegnum fésbók. Þegar hann tilkynnti um útgáfu sína á bókinni Súkkulaðileikur, pantaði ég bók hans. Hann bað kurteislega fésbókarvini sína að birta ritdóma um bókina, ef þeir hefðu nennu til. Ég gerði það og finnst bókin góð. Bókin er gagnrýnin á samtímann og höfundur hlífir fáum. Hann fer ekki í manngreinaálit heldur beinir hvössum stíl sínum til að benda á ýmsar brotalamir. Að mati höfundar virðist spilling og vangeta vera víða í samfélaginu.
Björn Þorláksson þekki ég úr menntaskóla MA og við höfum á ská tengst fjölskylduböndum þótt ekki séum við nátengdir. Ég hef fylgst með málefnum hans í gegnum fésbók í nokkur ár, enda notar hann þann miðil vel.
Þegar hann hóf að auglýsa bók sína Besta vin aðal á fésbókarsíðu sinni til fjáröflunar rann mér blóðið til skyldunnar og keypti af honum bókina. Og las hana. Síðan opna ég ekki fésbókina öðru vísi en að sjá Björn auglýsa bók sína með lofsamlegum umsögnum um bókina. Og þær eru margar. Svo margar að forleggjarinn er að sögn að láta prenta annað upplegg.
Þetta er virkilega vel gert hjá Birni. Því eins og hann sjálfur lýsir þá er þetta gerlegt með vinum hans á fésbók. Meginstraumsmiðlar taka nefnilega bókina ekki til umfjöllunar.
Og af hverju skyldi það nú vera?
Kannski er það vegna efnistakanna. Strax í inngangi er tónninn sleginn rækilega með umfjöllun um Bjarna Ben og augljóst hvaða hug höfundur hefur til hans. Þá næst ber hann saman meðferð blaða- og fréttamanna á frambjóðanda til forseta, Höllu Hrund, sem höfundi er greinilega þóknanleg. Honum finnst kollegarnir gera mikinn mannamun hvenær þeir setja á sig silkihanskana og hvenær þeir taka þá af. Hann skýtur fast á kollegana og finnst þeir oft vera vanmáttugir.
Höfundur segist leggja í dóm lesenda hvort Besti vinur aðal, sem sé yfirlit pælinga, skoðana og rannsókna verði til gagns í þjóðmálaumræðu.
Vegna upptakts í inngangi og efnistaka fellur bókin að þessu leyti. Hún getur ekki orðið til gagns í þjóðmálaumræðu. Höfundur staðsetur sig rækilega. Þeir sem eru sammála lífsskoðunum og afstöðu höfundar elska bókina. Hinir gera það ekki. Og ég er ekki viss um að margir þeirra komi til með að lesa bókina. Bókin verður því hróp í bergmálshelli.
Þetta er samt lipurlega skrifuð bók og lítið um stafavillur því Björn er mjög vel pennafær.
En hann velur viðmælendur eftir sínum þörfum sem hann veit fyrirfram hvaða skoðanir hafa á hlutunum og þær falla oftast að hugmyndafræði höfundar. Brynjar Níelsson er þar undantekningin. Enda fjallar höfundur með öðrum hætti um samtal sitt við hann en aðra viðmælendur. Hann bendir m.a. á að Brynjar sé pólitískur refur og liðtækur spunameistari. Samherjamálið er höfundi hugleikið. Hann nefnir ýmis dæmi þar sem hann telur vera um að ræða spillingu. Allt eru þetta dæmi sem hafa margoft áður verið til umfjöllunar. Það kemur fátt nýtt fram í bókinni heldur er höggvið í sama knérunn og hefur margoft verið gert. Helst má nefna sögur hans sjálfs um samskipti við fyrrum ráðherra, sem honum finnst rétt að rifja upp að hafi verið fyrrum Samherjaskipstjóri, og síðar við sjálfan Samherjaforstjórann. Og við þær sögur renna upp hugrenningatengsl við nýútkomna bók Ólafs Ragnars Grímssonar þar sem hann segist engu hafa breytt eða bætt við dagbókarfærslur sínar. Heimildarmenn Björns eru æði oft nafnlausir af ótta við spillingaröflin. Og hann sleppir miklu. Mörgum dæmum öðrum sem ratað hafa í fjölmiðla í gegnum árin. En það eru líka dæmi sem snúa ekki að Sjálfstæðismönnum.
Í bókinni er mikið orðasalat. En æði oft innihaldslítið. Nema kannski þegar höfundur talar um sjálfan sig. Sem hann gerir oft. Að sumu leyti má líta á bókina sem upptakt að sjálfsævisögu. Merkilegt hvað margir höfundar þurfa að koma sjálfum sér að í skrifum sínum án þess að vera að skrifa ævisögu!
Í bókinni eru dylgjur, margar. Hálfkveðnar vísur sem eiga að sýna spillingu. Má sem dæmi nefna þegar höfundur segist ekki staðhæfa að spillt öfl hafi brugðið fyrir hann fæti en vísar síðan til þess að í lögfræði sé til hugtak sem kallast skynsamlegur vafi. Punktur.
Orðhengilsháttur, tittlingaskítur, þöggun, mælskubrögð eru allt orð sem höfundur notar um þá sem hann segir reyna að trufla einbeitingu almúgans við greiningu á kjarna málsins. Sækir hann þessi orð í skrif listaskáldsins Halldórs Laxness í Innansveitarkróniku hans. En það má allt eins nota þessi sömu orð til lýsingar á Besta vin aðal. Aðferðafræði þessara orða er hiklaust beitt til að undirbyggja þá miklu spillingu sem höfundur telur einkenna marga innan Sjálfstæðisflokksins.
Ég ætlaði alls ekki að taka bókina Besta vin aðal til umfjöllunar. Höfundur má vel hafa sínar skoðanir á Sjálfstæðisflokknum og einstökum persónum í honum án afskipta minna.
En það var tvennt sem fékk mig til að skipta um skoðun. Höfundur fór í framboð korteri eftir útkomu bókarinnar. Og hann fer mikinn á fésbókarsíðu sinni um Hvalamálið.
Það að höfundur ákvað að fara í framboð fyrir stjórnmálaafl setur bók hans í annað samhengi. Vissulega var höfundur ekki hlutlaus samfélagsrýnir þegar hann skrifaði bókina. Hann var augljóslega með markmið sem hann kemur rækilega til skila í bókinni. En með framboðinu verður hann beinn þátttakandi í kapphlaupinu um atkvæði kjósenda. Og beinir með því kastljósinu enn frekar að sjálfum sér og því stjórnmálaafli sem hann býður sig fram fyrir.
Og hann beitir bókinni hiklaust í stjórnmálabaráttu sinni. Þegar honum er bent á að hann sé mögulega á gráu svæði með þessu framboði sínu ýfist hann upp og segir á móti að hann hafi skrifað bók um spillingu og ætti að þekkja hana. Og hvernig gagnast það honum? Er hann orðinn handhafi sannleikans eftir skrifin? Kannski Besti vinur aðal?
Björn skrifar texta á heimasíðu sína um mikla spillingu innan Sjálfstæðisflokksins með því að Jón Gunnarsson var gerður að aðstoðarmanni Bjarna Ben í ráðuneyti matvæla. Þessum texta er dreift víða, enda telst Björn núna af sumum sérfræðingur í spillingu.
Hann segir að ef ekki hefði verið sagt frá hinni leyndu upptöku þá hefðu Jón, Bjarni og Kristján Lofts komist upp með að gefa út hvalveiðileyfi. Þetta sé enn eitt dæmið um skefjalausa spillingu sem hann telur styðja að sínu mati við trúverðugleika Besta vinar aðal. Já og ekki gleyma því að hann segir að sennilega hagnist ættingjarnir um hundruð milljóna. Sennilega. Dylgjur.
Þarf ekki að staldra aðeins við? Skv. lögum er heimilt að veiða hval. Ráðherrar VG komust upp með að gefa ekki út hvalveiðileyfi í raun. Það var í trássi við lög. Má sem sagt fara á svig við lög ef það hentar málstaðnum? Er það ekki spilling? Kannski efni í aðra bók? Hvenær þarf að breyta lögum til að þurfa ekki að fara eftir þeim og hvenær þarf þess ekki? Hvaða skoðanir réttlæta að ekki sé farið að lögum?
Þetta er orðið ansi öfugsnúið. Hver er nú besti vinur aðal? Riddari lyklaborðsins, margreyndur fjölmiðlamaður réttlætir lögbrot ráðherra VG. Og fer sjálfur í framboð. Og sakar alla aðra um spillingu.
Ætli ég sé ekki núna orðinn besti vinur aðal?
Gunnar Ármannsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2024 | 10:03
Enn um málefni Þóru Tómasdóttur á RUV
Hermt er að mikil ólga sé innan RUV vegna umfjöllunar Þóru Tómasdóttur í þættinum Þetta helst á RUV um Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlækni. Sumum heimildaramönnum finnst sem hún hafi farið offari í umfjöllun sinni um plastbarkamálið og tilraunir hennar til að sverta mannorð Tómasar. Jafnvel svo að henni sé ekki sætt sem starfsmanni fjölmiðilsins.
Hafa einhverjir samstarfsmenn hennar haft á orði að hún sé að misnota aðstöðu sína til að koma höggi á Tómas af persónulegum ástæðum. Sagt er að hún beri kaldan hug til Tómasar vegna væringa innan Ferðafélags Íslands.
Vegna nálægðar hafa heimildarmenn ekki viljað koma fram undir nafni.
Haft er eftir Þóru í DV.is þann 4. febrúar sl. að umfjöllunin hafi verið unnin að ígrunduðu máli. Janframt að umfjöllunin hafi ekki snúist um sekt að sakleysi Tómasar heldur stöðu hans innan spítalans á þeim tíma sem fréttin var unnin.
Með þessum orðum virðist Þóra vera að staðfesta þær ásakanir sem á hana eru bornar. Ekkert nýtt hafði komið fram um stöðu Tómasar vegna plastbarkamálsins þegar umfjöllunin átti sér stað. Því hljóta það að vera aðrar ígrundaðar ástæður sem voru kveikjan að umfjölluninni.
Fullyrðing Þóru í DV.is um að umfjöllunin hafi ekki snúist um sekt eða sakleysi Tómasar stenst ekki skoðun. Í lok þáttarins, þann 3. janúar sl.,endaði hún þáttinn með að spyrja hvort ekki þyrfti að rannsaka aðkomu annarra sem tóku þátt í aðgerðinni þegar fyrir lægi að búið væri að dæma Paolo Macchiarini fyrir sinn þátt í aðgerðinni. Viðmælandi Þóru bætti því við að málið hefði aldrei komið til kasta lögreglu hér heima.
Í þættinum Þetta helst þann 19. janúar sl. var Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, til viðtals við Þóru. Þar gerði Þóra ítrekaðar tilraunir til þess að reyna að láta málið snúast um Tómas persónulega og spurði hvort ekki væri betra fyrir hann að fá að hreinsa sig af ásökunum og fá almennilega rannsókn á því hvort lög hefðu verið brotin. Um þetta má lesa betur í grein Ólafs Haukssonar á visir.is. frá 4. febrúar sl.
Málsvörn Þóru verður heldur aumkunarverð þegar ofangreint er skoðað. Og að enda síðan á því að fullyrða að ekkert sem fram hafi komið í þættinum hafi verið borið til baka af spítalanum sem sérstaka málsvörn er dapurt. Hvað átti spítalinn að bera til baka? Annars vegar slúðursögur og fabúlasjónir þáttastjórnanda og viðmælanda hennar og hins vegar frásagnir af ótengdum málum sem vitað er að áttu sér stað?
Það er eftirtektarvert sem haft er eftir Fanneyju Birnu Jónsdóttur, dagskrárstjóra Rásar 1, í frétt DV um málið þann 4. febrúar sl. Þar fullyrðir hún að innan RUV sé talið að umfjöllunin hafi átt erindi við almenning og að hún hafi byggst á faglegum vinnubrögðum í samræmi við viðurkennd viðmið og rúmist innan þess frelsis sem fjölmiðlum er játað skv. 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Það er ansi langt seilst þegar yfirmaður starfsmanns þarf að teygja sig alla leið í stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu til að réttlæta umfjöllun starfsmannsins. Það bendir til þess að viðkomandi hafi vondan málstað að verja og vekur enn fleiri spurningar en áður um fagleg vinnubrögð útvarps allra landsmanna.
Höfundur er lögmaður og starfaði sem framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands árin 2002-2009.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2024 | 09:46
Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?
Þessi fleygu orð Jóns Hreggviðssonar úr Íslandsklukku Halldórs Kiljan Laxness flugu mér í hug eftir að hafa hlustað á þáttinn Þetta helst á Ruv.is frá 3. janúar sl. Útgangspunktur umfjöllunarinnar er sagður sá að fjalla um stöðu Tómasar Guðbjartssonar við LSH vegna plastbarkamálsins.
Ástæða þess að ég hlustaði á þáttinn voru skrif Magnúsar Karls Magnússonar, læknis og kennara við læknadeild HÍ, sem hann birti á fésbókarsíðu sinni í tilefni umfjöllunar þáttarins um stöðu Tómasar. Honum fannst umfjöllunin ekki fagleg og að skortur væri á vönduðum fréttaflutningi um málið. Þar sem ég átti fyrir höndum kennslu 6. árs læknanema við HÍ um lækna og lögfræði ákvað ég að lesa sjálfur ítarlega og að flestra mati vandaða skýrslu sérstakrar rannsóknarnefndar undir forsæti Páls Hreinssonar um þann hluta málsins sem snýr að aðkomu íslenskra heilbrigðisstarfsmanna og stofnana. Sú skýrsla kom út 6. nóvember 2017.
Kveikjan að umfjöllun í þættinum Þetta helst á Rúv er væntanlega tilkynning frá skrifstofu forstjóra LSH á heimasíðu þann 15.12. sl. og í framhaldinu umfjöllun í fjölmiðlum um plastbarkamálið. Ástæða tilkynningarinnar frá skrifstofu forstjóra virðist vera sú að lögmaður ekkju Andemariam Beyene, Sigurður Guðni Guðjónsson, sendi forstjóranum erindi þar sem hann óskaði þess að spítalinn myndi kynna erindið fyrir ríkislögmanni með það í huga að sátt yrði gerð um bætur til handa ekkjunni með hans aðkomu.
Spítalinn vísar einnig til þess að í kjölfar dóms yfir Paolo Macchiarini sl. sumar hafi spítalinn ákveðið að taka málið til umfjöllunar að nýju með hliðsjón af þætti spítalans í meðferð fyrsta sjúklingsins sem undirgekkst aðgerð hjá Macchiarini.
Það þarf ekki að koma á óvart að íslenskir fjölmiðlar sýni málinu áhuga og rifji upp helstu atvik málsins enda hefur það vakið heimsathygli allt frá árinu 2011.
Nálgun þáttastjórnanda í þættinum Þetta helst kemur hins vegar á óvart og hlýtur að kalla fram spurningar um tilgang þáttastjórnandans með nálgun sinni.
Síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom út hefur fátt gerst annað í málinu en að grein sú sem birt var í Lancet um aðgerðina hefur verið dregin til baka og Macchiarini hefur nú hlotið tveggja og hálfs árs dóm í fangelsi fyrir sinn þátt í málinu. Var hann fundinn sekur um grófa líkamsárás. Var tekið fram í dómnum að ekki væri efast um að læknirinn hafi vonast eftir því að aðferð hans myndi virka en engu að síður hefði hann hagað sér með saknæmum ásetningi. Rannsókn hefði sýnt að læknirinn hafi gert sér grein fyrir áhættunni og að aðferð sú sem hann beitti myndi valda sjúklingum líkamlegum meiðslum og þjáningum. Hann hafi hins vegar kært sig kollóttan um áhættuna.
Í ljósi þess að lítið nýtt hefur komið fram, og alls ekkert sem varðar Tómas, af hverju er þá þessi áhersla þáttastjórnanda á stöðu Tómasar við LSH?
Ef það er svo að einhverjum líki ekki við Tómas eða hvernig hann hefur kosið að hafa samskipti við fjölmiðla á undanförnum árum er þá hægt að panta umfjöllun á Rúv, nafnlaust, um þau samskipti og gera þau tortryggileg? Hvað hafa ýmis samskipti Tómasar við fjölmiðla vegna annarra mála með plastbarkamálið að gera?
Rannsóknarnefndin tók m.a. samskipti Tómasar við fjölmiðla vegna plastbarkamálsins til sérstakrar skoðunar og skilað niðurstöðu sinni um þau árið 2017. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, hvað varðar þennan þátt málsins, að Tómas hefði haft uppi villandi ummæli opinberlega og gert með því hlut sinn í aðgerðinni meiri en efni hafi staðið til. Það hafi síðan valdið því að í opinberri umræðu hafi orðið óljóst hver ábyrgð Tómasar hefði verið við framkvæmd aðgerðarinnar, þegar fréttir bárust af því að öll opinber leyfi hefði skort fyrir framkvæmd hennar. Hér er rétt að staldra sérstaklega við. Niðurstaða nefndarinnar um þennan þátt er alls ekki hafin yfir gagnrýni hvað varðar þá ályktun að Tómas hafi gert sinn hlut meiri en efni hafi staðið til. Nefndin byggir þessa niðurstöðu á því að Tómas hafi viðhaft orðalagið VIÐ um þætti í meðferðinni sem hann hafi sjálfur ekki tekið þátt í eða eingöngu horft á. Hér er rétt að hafa í huga að þeir þættir sem þarna ræðir um eru ekki flóknar læknisfræðilegar aðgerðir heldur einföld læknisfræðileg framkvæmd eins og að taka stofnfrumur úr Andemariam eða bera þær á plastbarkann. Þá er sagt að hann hafi ekki tekið þátt í að taka slímhúð úr koki og festa inn á plastígræðið. Hins vegar átti hann, ásamt öðrum aðalskurðlækni, þátt í að gera aðgerð á Andemariam og ná út æxlinu sem var mjög flókið verkefni. Í því verkefni voru margir viðstaddir sem þó tóku ekki þátt í þeim hluta aðgerðarinnar. Með því að nota orðið VIÐ um allan hópinn sem stóð að aðgerðinni má þá alveg eins segja að Tómas hafi verið að gera hlut þeirra meiri en efni hafi staðið til. Um er að ræða teymisvinnu margra þar sem hlutverk hvers og eins er vel skilgreint fyrirfram og því eðlilegt að meðlimir hópsins tali um sig sem slíkan, þ.e. sem hluta af hópi. Það hefði í raun verið beinlínis skrítið ef svo hefði ekki verið gert í almennri frásögn heldur hefði hver og einn af hópmeðlimum farið að skilgreina nákvæmlega í hverju hann tók þátt og hverju ekki.
Þá er rétt að hafa í huga að það stóð ekki til að Tómas tæki þátt í aðgerðinni fyrr en með mjög stuttum fyrirvara. Og til að byrja með neitaði Tómas því að hann gæti tekið þátt þar sem hann væri upptekinn við annað. Það var hins vegar lagt hart að honum að koma og taka þátt þar sem það var hann sem gerði aðgerðina á Andemariam árið 2009 og lokaði honum eftir þá aðgerð. Macchiarini og stjórnendur á Karolinska háskólasjúkrahúsinu óskuðu eftir aðkomu Tómasar. Hér er vert að hafa í huga að áður en fyrsti sjúklingurinn í þessa aðgerð kom til sögu, Eritríumaðurinn Andemariam frá Íslandi, hafði Karolinska Institutet (KI) með Karolinska háskólasjúkrahúsið sem samstarfsaðila, framtíðarsýn sem hafði það að markmiði í náinni framtíð, að geta gert þess konar aðgerðir sem voru gerðar. Þ.e. áður en Macchiarini kom til sögunnar. KI hafði hins vegar þær væntingar að Macchiarini myndi styrkja bæði klíníska og vísindalega endurnýjunarlæknisfræði (regenerativ medicin). Það var við framangreindar aðstæður sem fulltrúi Sjúkratrygginga á Íslandi lagði sérstaklega til að málið yrði tekið upp við stjórnendur Landspítala og var það gert og samþykkt. Landspítalinn greiddi Tómasi laun og ferðakostnað vegna aðgerðarinnar. Það hafði einnig þýðingu í þessu samhengi að fyrir lá að Tómas átti að sjá um eftirlit á Íslandi eftir aðgerðina.
Á þeim tíma sem aðgerðin var gerð voru engar grunsemdir um að Macchiarini væri svikahrappur. Það hafði því enginn úr teyminu sérstaka ástæðu til að reyna að aðgreina sig frá honum eða störfum hans. Því var ekki nein sérstök ástæða fyrir nokkurn úr teyminu að hafa fyrirvara á aðkomu sinni að verkefninu. Það að í ljósi sögunnar hafi það orðið tímabundið óljóst hver ábyrgð hvers og eins úr teyminu væri á einstökum verkefnum við aðgerðina skiptir í raun og veru engu sjálfstæðu máli hvað varðar hina endanlegu ábyrgð. Hún skýrðist við rannsókn málsins. Aðkoma allra sem að aðgerðinni komu var rannsökuð sérstaklega þegar í ljós var komið að svik voru í tafli. Í þeirri rannsókn kom fram að Tómas kom ekkert að þeim þætti meðferðarinnar sem flokkaðist undir tilraunstarfsemi í aðgerðinni. Og hér er einnig rétt að hafa í huga að í samningi Sjúkratrygginga við Karólinska var sérstaklega tekið fram að Sjúkratryggingarnar myndu eingöngu greiða fyrir þann hluta meðferðar sem teldist til gagnreyndrar læknismeðferðar- og ekkert fyrir þann hluta sem teldist til tilraunameðferðar. Að auki var tekið sérstaklega fram að ef Andemariam myndi þarfnast eftirmeðferðar á Karolinska þá myndi íslenska ríkið eingöngu greiða fyrir það ef um væri að ræða afleiðingar vegna hinnar gagnreyndu læknismeðferðar en ef kostnaður tengdist tilraunmeðferð þá myndi Karolinska greiða. Því var ekki um það að ræða að íslenskir skattgreiðendur væru að greiða fyrir tilraunameðferð þar sem hinn ábyrgi aðili var dæmdur fyrir líkamsárás, eins og haldið er fram í umfjöllun á Rúv í viðtali við Björn Zoega, stjórnarformann Landspítalans.
Meginniðurstaða nefndarinnar er sú að í ljósi allra málavaxta var tilvísun Tómasar á Andemariam til Karolinska eðlileg. Nefndin sá ástæðu til að taka fram sérstaklega (bls. 217) að þótt við hafi bæst síðar að meta einnig hvort ígræðsla væri fýsilegur kostur, hafi tilvísun Tómasar gert ráð fyrir því að Andemariam kæmi til Íslands þremur dögum eftir mat sænsku læknanna og að síðan yrði í framhaldinu tekin ákvörðun um hvaða úrræði hentaði Andemariam best og hann sendur síðar aftur til Svíþjóðar í þá aðgerð.
Í umfjöllun þáttarins segir viðmælandi þáttastjórnanda að nefndin geri margvíslegar athugasemdir við störf Tómasar. Og í inngangi þáttarins er vitnað til 9 ónafngreindra lækna um að Tómas þurfi að sæta ábyrgð fyrir þátttöku sína í málinu. Og að sumir telji að hann verði að hætta störfum við spítalann svo afdrifarík hafi þátttaka hans verið.
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar styður framangreindar ályktanir ekki. Það eru vissulega gerðar athugasemdir við ákveðna þætti en þeir lúta m.a. að vinnubrögðum innan spítalans og varða Tómas ekki sérstaklega. Má þar t.d. nefna færslur í sjúkraskrár þegar verið er að senda sjúklinga til aðgerða erlendis. Nefndin sá sérstaka ástæðu til að nefna að þessi ábending ætti erindi við flesta lækna sjúkrahússins og e.t.v. aðra starfsmenn, svo sem ritara. Þá gerði nefndin ákveðnar athugasemdir við þátttöku Andemariams í umræddu málþingi og jafnframt lagði nefndin til ákveðnar breytingar sem varða vísindasiðanefnd. En hvað varðar Tómas sérstaklega þá er meginniðurstaðan sú að Tómas hafi ekki brotið af sér heldur fyrst og fremst haft hagsmuni Andemariam í fyrirrúmi. Og það svo mjög að hann hafi gert mun meira heldur en til hafi verið hægt að ætlast. Nefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að Tómas hafi látið Macchiarini gabba sig með því að breyta texta í bréfi til Macchiarini sem hann hélt að ætti að nota til þess að fá leyfi vísindasiðanefndar fyrir plastbarkaígræðslu ef til hennar myndi þurfa að grípa. Með því hafi hann tæplega fylgt eftir fyrirmælum 11. gr. læknalaga. Hér er rétt að hafa í huga að í sænskri rannsókn var komist að þeirri niðurstöðu að samskipti sænsku lyfjastofnunarinnar og Karolinska/KI hafi verið verulega ábótavant og séu í reynd rót þeirra vandamála sem sköpuðust. M.a. var bent á að ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins um að formleg samskipti þessara aðila hafi átt sér stað meðan á starfseminni stóð, hvað snertir t.d. formsatriði vegna leyfisveitinga eða skilgreiningar og afmörkunar til að hægt væri að þróa starfsemina innan gildandi lagaramma. Á þessu samskiptaleysi þar til bærra aðila í Svíþjóð gat Tómas enga ábyrgð borið.
Allt framangreint hefur legið fyrir síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar var birt 6. nóvember 2017. En þáttastjórnandi kaus að láta umfjöllun sína snúast um persónu læknisins Tómasar og meintrar óánægju nafnlausra kollega hans með framgöngu hans í fjölmiðlum. Skýrsla nefndarinnar fjallaði að óverulegu leyti um þennan þátt og er aukaatriði í plastbarkamálinu.
Sé það svo að ónafngreindum læknum finnist Tómas fara offari í samskiptum við fjölmiðla á að taka slíkt mál upp á öðrum vettvangi, t.d. annað hvort innan spítalans sjálfs eða Læknafélagsins. Það að tengja þessa óánægju við plastbarkamálið er hins vegar grafalvarlegt mál því með því er verið að láta líta svo út að Tómas hafi brotið af sér með ámælisverðum hætti og að því ýjað að hann verði að bera sérstaka ábyrgð þess vegna. Mögulega hætta störfum við spítalann svo afdrifarík hafi þátttaka hans verið. Þegar fyrir liggur í skýrslu rannsóknarnefndar með skýrum hætti að Tómas braut ekki af sér með ámælisverðum hætti í málinu.
Umfjöllun þáttastjórnanda hefur verið ósanngjörn, einhliða og beinlínis villandi.
Má benda á tvennt til viðbótar í því samhengi.
Annars vegar er á það bent að sá hluti málsins sé óuppgerður sem varðar bætur til ekkju Andemariam í samræmi við ábendingar rannsóknarnefndarinnar. Það er út af fyrir sig rétt en það er ekki skýrt nánar í hverju ábendingar nefndarinnar felast. En ábending nefndarinnar er nefnilega mjög sértæk.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknir sem gerðar voru hér á landi á Andemariam eftir meðferðina hefðu fallið undir að vera leyfisskyldar vísindarannsóknir. Slíkt leyfi hafi hins vegar ekki legið fyrir. Nefndin hins vegar segir að þarna hafi ekki verið um að ræða ásetning og lagði það sérstaklega á sig að grafast fyrir um í hverju misskilningur gæti hafa falist. Jafnframt taldi nefndin að meðferð persónuupplýsinga um Andemariam í þágu vísindagreinarinnar sem birtist í Lancet hefði verið ábótavant.
Af framangreindu tilefni telur nefndin ástæðu til að Landspítali taki til athugunar hvort rétt geti verið að veita ekkjunni fjárhagsaðstoð í því skyni að ráða lögmann til að fara yfir það hvort mögulega sé um bótaskyld atvik að ræða, þ.e. vegna skorts á leyfi til vísindarannsóknar og vegna meðferðar á persónuupplýsingum. Nefndin slær því alls ekki föstu að bótaskylda sé fyrir hendi en að aðstoða eigi ekkjuna við að fá úr því skorið. Það vekur aftur á móti athygli að nefndin tók það sérstaklega fram að það vekti undrun að Karólinska háskólasjúkrahúsið hefði ekki haft samband við ekkjuna til þess að fara yfir mögulega bótaskyldu fyrir þau mistök sem gerð voru í aðgerðinni sjálfri.
Hins vegar þá endaði þáttastjórnandinn á því að setja málið þannig upp að spyrja hvort ekki þyrfti að rannsaka aðkomu annarra sem tóku þátt í aðgerðinni þegar fyrir lægi að búið er að dæma höfuðpaurinn fyrir sinn þátt. Viðmælandinn bætti um betur með því að taka fram að málið hafi aldrei komið til kasta lögreglu hér heima. Svo mörg voru þau orð og þættinum lokið.
Hvaða spurningar eru þá hlustendur skyldir eftir með? Braut Tómas af sér með refsiverðum hætti? Á eftir að dæmi Tómas til refsingar? Mun íslenska lögreglan rannsaka aðkomu Íslendinganna að málinu? Já það er nefnilega það, er nema von að spurt sé hvenær drepur maður mann og hvenær ekki?
Þessi framsetning er með eindæmum lúaleg. Með þessari fullyrðingu tek ég undir með Óðni Jónssyni, fyrrverandi fréttastjóra Rúv, þar sem hann segir í athugasemd við fésbókarfærslu Magnúsar Karls: Það er auðvitað ekki boðlegt að vitna í ónafngreinda einstaklinga til að grafa undan mannorði nafngreindrar persónu. Það er ekki fréttamennska heldur lúaleg aðför.
Það er ekkert í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem gefur í skyn að Tómas hafi brotið af sér með refsiverðum hætti. Íslensk löggæsluyfirvöld eru fullfær um að meta það sjálfstætt hvort þau telji ástæðu til að taka upp rannsókn á meintu sakamáli eða ekki. Það hefur ekki verið gert og verður ekki gert.
Í Svíþjóð voru allir sem komu að málum Andemariam til rannsóknar. Að endingu var einn ákærður og hann síðar sakfelldur. Rannsókn á öðrum var felld niður þar sem ekki var talið líklegt að frekari rannsókn myndi leiða til sakfellingar. Refsiþætti málsins í Svíþjóð er þar með lokið.
Að lokum.
Heilbrigðisstarfsfólk sem lendir í kastljósi fjölmiðla er almennt í veikri stöðu ef bornar eru sakir á það. Það er ekki auðvelt að sitja undir rangindum og einhliða málflutningi. Það er ekki skrítið að þeir sem fyrir slíku verða geti þurft að draga sig í hlé, a.m.k. tímabundið. En vonandi eingöngu tímabundið.
Á Íslandi er skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Á sumum sviðum mjög mikill skortur. Sérstaklega þegar um er að ræða mjög sérhæft heilbrigðisstarfsfólk.
Það varðar öryggi sjúklinga ef mjög sérhæfðu starfsfólki er gert ókleift að sinna störfum sínum.
Um höfund.
Undirritaður er lögmaður og var framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands á árunum 2002-2009. Síðan þá hefur undirritaður látið sig heilbrigðiskerfið varða á margvíslegan hátt. M.a. með stundakennslu við Læknadeild HÍ frá árinu 2009 og kennt þar um þagnarskyldu lækna. Frá árinu 2022 einnig sinnt stundakennslu hjá 6. árs læknanemum um löggjöf á sviði heilbrigðismála.
Ég þekki Tómas Guðbjartsson ekki persónulega. Á árum mínum sem framkvæmdastjóri Læknafélagsins hitti ég Tómas nokkrum sinnum en ekki síðar.
Magnús Karl þekki ég ekki persónulega en hitti hann í einhver skipti á árum mínum hjá Læknafélaginu.
Runólf Pálsson forstjóra Landspítala og Björn Zoega stjórnarformann Landspítala þekki ég ekki en hef hitt báða.
Sigurð Guðna Guðjónsson lögmann þekki ég ekki en hef hitt.
Hef notið þjónustu starfsmanna Landspítalans margítrekað, þó aldrei Tómasar, og er atvinnumaður í nokkrum sjúkdómum sem sjúklingur.
Bloggar | Breytt 25.1.2024 kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2023 | 11:45
Áramótahlaupaannáll 2023
Í síðasta áramótapistli mínum var smá væll í pípunum eftir að hafa slegist við Covid pödduna í þrígang á árinu og í síðasta skiptið vikuna fyrir jól. Að auki var ég úr takti allan nóvember mánuð og gat þá ekkert hlaupið. Þannig að ég var ekkert sérlega upplitsdjarfur fyrir hlaupaárinu 2023. En nú í lok árs get ég samt ekki annað en glaðst yfir hlaupnum kílómetrum og 7 skemmtilegum keppnishlaupum, sem voru að meðaltali 43,3 km. En það var Pósthlaupið, sem er 50 km, sem náði að hífa meðaltalið upp fyrir maraþonvegalengdina. Það reyndar stendur til að taka þátt í gamlárshlaupi ÍR þannig að gangi það eftir þá riðlast þessi skemmtilega tölfræði. En því hlaupi er ekki lokið við ritun þessa pistils og ég hef það að venju að telja aldrei hlaup fyrr en þeim er lokið í marki.
En það er ekki hægt að halda því fram að ég hafi verið í góðu formi þegar ég hóf æfingar 2023. Engir km hlaupnir í nóvember og desember endaði í 66 km þar sem ég missti alveg viku 51 vegna Covid og vika 52 voru heilir 25 km. Þannig að það var hægt hlaupið í janúar og febrúar en samt voru það ágætir æfingamánuðir þar sem fyrri mánuðurinn endaði í rúmlega 200 km og sá seinni slagaði í 300 km. Mars var síðan bara mjög góður með rúmlega 350 km og hraðinn fór aðeins að aukast. Þannig að þegar komið var að vormaraþoninu í apríl var ég bara orðinn nokkuð brattur og setti mér tímamarkmið um að reyna við sub 3:45.
Þegar kom að hlaupadegi þann 22. apríl var venju samkvæmt ljómandi gott hlaupaveður og aðstæður því góðar. Mér tókst að ná fínu hlaupi og endaði á 3:40 eitthvað. Og ég náði að útfæra hlaupið ágætlega þar sem ég var ekki nema rúmlega mínútu lengur með seinni helminginn. Þetta telst vera mitt hraðasta maraþon síðan vorið 2018 þegar blóðgildin fóru að lækka. Þannig að vonandi veit þetta á gott.
Þremur vikum seinna var ég mættur til Helsinki ásamt eiginkonu og mágkonu. Þar var markmið eiginkonunnar að hlaupa á 5 tímum. Ég hljóp með henni og þrátt fyrir nokkra erfiðleika í hlaupinu náðum við að hlaupa á 5 tímum sléttum. Þar með lauk ég við að hlaupa maraþon í öllum höfuðborgum Norðurlandanna og að auki í Þórshöfn í Færeyjum. Það var haldið maraþonhlaup í Nuuk á Grænlandi til nokkurra ára en því var aflýst 2020 eins og fleiri hlaupum vegna Covid. Ég get ekki fundið upplýsingar í fljótu bragði um að þetta hlaup hafi verið gangsett að nýju. En það er samt á to do listanum að hlaupa maraþon á Grænlandi þótt það verði ekki endilega í Nuuk.
Í lok maí skellti ég mér í Mývatnsmaraþonið í þriðja skiptið á æfinni. Það var alveg ævintýralega leiðinlegt veður þann daginn. Hitastig var um frostmark og var startinu seinkað um eina klukkustund því þegar átti að starta var glórulaus snjóbylur í gangi. En sem betur fer gekk veðurspá eftir þannig að það stytti upp og birti til. En það var ótrúlega hvasst úr norðvestri. Þar sem brautin er hringur lá auðvitað fyrir að vindur yrði bæði með og á móti. Fyrstu 13-14 km voru ágætir því þá var vindur að mestu á hlið og jafnvel aðeins í bakið. En km 14 til ca 22-23 voru strembnir. Beint í smettið. Ég hélt að ég hefði verið ágætlega skynsamur á þessum kafla og ekki tekið of mikið úr mér. En það reyndist bara alls ekki rétt. Ég komst aldrei almennilega í gang seinni hlutann og náði ekki markmiðinu um að vera undir 4 tíma að klára. En það er bara allt í lagi, þetta var samt ævintýri og gaman. Það sem kannski stóð upp úr í þessu hlaupi eru frábærir fyrstu tímar í þessum aðstæðum. Sigurjón Ernir á rúmlega 2:55, sem ég veit ekki hvort er brautarmet en amk langbesti sigurtími síðan 2016, og Atli Steinn Sveinbjörnsson á rúmlega 3:03. Og það er engin smá bæting frá fyrra ári þegar hann vann á tímanum 3:11 í miklu betri aðstæðum.
Hið sívinsæla Snældubeinsstaðamaraþon var þreytt í byrjun júlí. Keppendur voru samtals 26. Þeir yngstu voru 10 mánaða og 1,5 ára og ferðuðust báðir í kerrum. Einn tæplega fjögurra ára fór fyrir eigin vélarafli 4 km á tímanum 53:57. Innifalið í þeim tíma er blómaskoðun og lambaskoðun og almennar vangaveltur um lífið og tilveruna. Einn á áttræðisaldri og úr takti lét sig hafa það að fara 11,13 km og vann í þeirri vegalengd. Samtals 12 keppendur voru lengur í brautinn en 2 tíma. Til viðbótar voru 7 keppendur sem voru milli einn og tvo tíma. Sjálfur fór ég 42,2 km og var einn í þeirri keppnisvegalengd. Minnstu munaði ég næði ekki sigri. Strax í upphafi fann ég fyrir leiðinda taki framan í nára og varð að fara niður í gönguhraða eftir ca 15 km. Var þá að hugsa um að snúa við og stytta keppnisvegalengdina. En þar sem þetta er fram og til baka braut ákvað ég að þrjóskast við og halda áfram að snúningspunkti við 21,1 km. Ég þyrfti þá einhvern veginn að koma mér heim og myndi þá enda með að klára alla maraþonvegalengdina. Ég hélt því áfram á mjög rólegu joggi og á þessum kafla að auki í mótvindi. En þegar ég snéri við og hljóp undan vindi þá fann ég smátt og smátt að takið í náranum linaðist. Og á endanum varð þetta að enn einni kennslunni í lífsleikni kúrsinum. Eftir því sem lengra leið tókst mér að greikka sporið og síðustu 8-10 km leið mér orðið ljómandi vel og var kominn á hinn þokkalegasta hlaupahraða. Og eins og svo oft áður þá þarf að stilla markmiðin miðað við aðstæður. Þegar ég var búinn að snúa við á snúningspunkti og jogga til að byrja með af aukinni ákefð þá var komið nýtt markmið og það var að reyna að klára á undir 4:30. Þegar upp var staðið kláraði ég á undir 4:25 og fannst ég hafa unnið stórsigur.
Enn eins og sumir vina minna vita þá safna ég sjúkdómum. Í fyrra haust fór ég í læknisrannsókn þar sem m.a. lungnastarfsemi er skoðuð. Ég lenti í úrtaki fyrir um 30 árum síðan og er þessari rannsókn fylgt eftir á um 10 ára fresti. Hingað til hefur ekkert markvert hvað mig sjálfan varðar komið út úr þessum rannsóknum. Nema að nú í vor fékk ég símhringingu þar sem mér var tilkynnt að ég væri kominn með kæfisvefn. Það kom mér verulega á óvart því það hafði ekki hvarflað að mér. Ég er oftast ekki mjög feitur og að sögn hrýt ég ekki. Þannig að ég er ekki alveg týpískt eintak til að vera með þennan kvilla. Það kom mér reyndar á óvart að heyra að allt að 30% kæfisvefnssjúklinga væru í svipuðum sporum og ég. En þessi niðurstaða þýddi að nú í sumar eignaðist ég nýja hjásvæfu. Ég er sem sagt kominn með kæfisvefnsvél sem á að hjálpa mér að hætta að kafna á nóttunni. En ég sem sagt mældist hætta að anda 19 sinnum á klukkustund sem færði mér þennan gleðigjafa inn í líf mitt. En það skal viðurkennt að vélin gerir gagn. Eins og ég hef stundum sagt áður er ég ekki endilega skarpasti hnífurinn í skúffunni. Ég var ekkert að fatta að aukin þreyta yfir daginn ætti sér þessar skýringar. Ekki einu sinni það að ég var farinn að finna að eftir hádegismat gat ég varla unnið fyrstu klukkustundina fyrir syfju. Hafði meira að segja komið fyrir að ég lagði mig í sófa og tók kríu í nokkrar mínútur. Ég hugsaði alltaf með mér að þetta væri bara af því hvað ég er búinn að vera duglegur að hlaupa í ár. Sem sagt endurtekning frá árinu 2005 þegar ég gat með engu móti tengt sjúkdóm við versnandi líkamsástand. Kannski læri ég þetta á efri árum, eða bara alls ekki. Sem er líklegra.
Næsta hlaup sem ég tók þátt í árinu var Pósthlaupið. Það er 50 km hlaup frá Hrútafirðinum, yfir Haukadalsheiði, niður Haukadalinn að þjóðveginum og meðfram honum í Búðardal. Mjög skemmtilegt hlaup. Það var kalt í Hrútafirðinum og þokuslæðingur á heiðinni. En þegar niður var komið efst í Haukadal var sól og blíða og hinar bestu aðstæður. Mér fannst mér ganga ljómandi vel og kláraði 42,2 km á rúmum 4:17 sem mér fannst gott að teknu tilliti til þess að yfir heiði var að fara og ég átti eftir um 8 km. Ég komst á topp 10 í hlaupinu og var ánægður með það. Finnst í raun óþarft að nefna að það voru bara 12 þátttakendur í þessari vegalengd. En þetta hlaup var merkilegt fyrir mig persónulega. Ég var langelsti þátttakandinn og held að það sé í fyrsta sinn sem það gerist, fyrir utan þau tilviki þegar ég keppi einn í minni vegalengd í Snældubeinsstaðamaraþoninu!
Þremur vikum eftir Pósthlaupið hljóp ég nýju brautina í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta sinn. Ég var bjartsýnn fyrir hlaupið og stefndi á sub 3:45 eins og í vormaraþoninu. Ég var ekki búinn að æfa jafnmarkvisst fyrir þetta hlaup eins og vormaraþonið þannig að ég taldi ekki vera innistæðu fyrir meiru. En þegar til kom tókst mér vel til og endaði á 3:41. Útfærslan var vel ásættanleg. Þar sem ég vissi að seinni hlutinn er ekki alveg eins flatur og fyrri hlutinn þá tók ég smá áhættu með hraðann til að byrja með. Fór fyrstu 10 km á 50 mínútum sléttum og var á um 1:46 eftir hálft maraþon, hraði sem ég hef ekki verið á í æfingum í mjög langan tíma. Markmiðið fyrir seinni hluta hlaupsins var síðan alltaf það að skríða undir 3:45 þannig að ég var himinlifandi með þetta.
Að venju dró ég mjög úr æfingum eftir Reykjavíkurmaraþonið. Ég hef til margra ára hlaðið í nokkra veiðitúra í lok ágúst og inn í september. Þá er minna hlaupið. Og að auki fór ég í tæplega viku ferð um miðjan september til Frakklands þar sem áherslan var lögð á góðan mat og góð rauðvín. Æfingafötin voru meira að segja skilin eftir heima. Hlaupaárinu var síðan lokið með haustmaraþoninu (nema ef ég klára gamlárshlaupið). Það var auðvitað bráðgaman og hljóp ég í góðum félagsskap Trausta Vald og Kiddó fyrri hlutann. Þegar fór að nálgast snúning eftir fyrri ferðina fór líferni haustviknanna og minna æfingamagn að segja til sín þannig að ég varð að gefa eftir. En það var í fínu lagi og enn eitt maraþonið í húsi.
Þá er heildarfjöldi maraþona kominn í 56 í 20 löndum, 12 höfuðborgum og 7 heimsálfum. Þess má geta að ég hef hlaupið 28 á maraþon á Íslandi þannig að ennþá eru maraþonin hlaupin erlendis fleiri. En það hefur dregið býsna hratt saman frá því eftir Covid. Nú það bættist við eitt ultra maraþon þannig að þá eru þau samtals orðin 7. Að ógleymdum 6 Jökulsárhlaup sem eru 32,7 km. Það er orðið allt of langt síðan ég hef tekið þátt þar þannig að það er orðið löngu tímabært að bæta úr því. Þá er það síðasta talan sem ég veit að hlaupaheimurinn bíður spenntur eftir. Hlaupnir km í ár reyndust vera rúmlega 2600 þannig að síðan ég byrjaði skipulega að hlaupa 10. apríl 2008 eru heildar kílómetrar komnir í tæplega 43.400. Þar sem sporbaugur jarðar er sagður vera um 40.075 km verð ég að hlaupa annan hring, eða taka stefnuna til tunglsins. Það myndi reyndar taka býsna mörg ár með þessu framhaldið því stysta vegalengd til tunglsins frá jörðu, þegar tungl er næst jörðu, er sögð vera 363.300 km. En áhugaverður fróðleiksmoli. Nú og svo er auðvitað hægt að leggja að stað í enn eina ferð um hringveginn. Ég er sem sagt að verða búinn með sem samsvarar 33 hringjum.
Markmið næsta árs eru þau sömu og síðustu ár og reyna að hlaupa meira en í ár og helst fleiri maraþon. Hlaupadagskrá næsta árs felst í því að taka þátt í sem flestum maraþonum hér heima og eins og er hef ég augastað á Prag í Tékklandi. Plan B er hlaupið í Kaupmannahöfn en það er alveg að verða tímabært að hlaupa þar einu sinni enn.
Og lífið heldur áfram að endurtaka sig. Rétt fyrir jólin fyrir 18 árum, þá 38 ára gamall, greindist ég með blóðkrabbamein. Rétt fyrir jólin í ár greindist litli bróðir, 40 ára, með blóðkrabbamein. Tilviljun?
Ég hleyp af því að ég get það, og þegar ég get.
Gleðilegt nýtt hlaupaár!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2023 | 14:35
Sýndarverkföll eða raunveruleg verkföll.
Af tilefni frétta í dag.
Tvær vinnustöðvanir hjá flugumferðarstjórum eru nú að baki. Sú þriðja boðaða er nk. mánudag og hefur Félagsdómur í dag komist að þeirri niðurstöðu að boðunin sé lögleg. Eins og staðan er núna eru yfirgnæfandi líkur á að hún komi til framkvæmda.
Í Vísbendingu, birt í dag 15. desember 2023, er grein eftir hagfræðing BHM þar sem hann bendir m.a. á að sumir hópar, hluti millistéttarinnar og efri tekjuhópar, hafi setið eftir um langt skeið meðan félagsmenn sumra stéttarfélaga hafa upplifað verulega kaupmáttaraukningu.
Hagfræðingurinn bendir á að þessir hópar, sem hafa setið eftir, munu leitast við að verja hlutfallslaun sín og sækja bætur aftur í tímann í komandi kjarasamningsgerð. Komið gæti til átaka á vinnumarkaði, í það minnsta ef almenni markaðurinn og opinberi markaðurinn taka ekki tillit til þarfa hvors annars.
Hann bendir á að hverfa þurfi af þeirri braut að krefjast krónutöluhækkana og krónutöluþaks hjá öllum hópum launafólks. Staðreyndin sé sú að hluta millistéttarinnar hafi verið gert að undirgangast kaupmáttarrýrnun frá 2019, að kröfu almenna markaðarins og með samþykki stjórnvalda.
Það eru í gangi verkföll og það stefnir í fleiri verkföll.
Það minnti mig á efni sem ég las um fyrir nokkrum árum og hef rifjað upp. Ég sakna þess að hafa aldrei rekist á opinbera umræðu um efnið.
Sýndarverkföll.
Þeim hefur verið beitt í einhver ár með því er að virðist með nokkrum árangri í Ísrael og á Ítalíu. Því þá ekki Íslandi?
Í stuttu máli felast sýndarverkföll í því að launamenn halda áfram vinnu sinni en laun þeirra, meðan á sýndarverkfalli stendur, ganga til einhvers tiltekins góðgerðarmálefnis. Á sama tímabili renna allar tekjur vinnuveitanda til góðgerðarmálefnis. Með þessu móti er tjón samfélagsins takmarkað og verkfallið bitnar fyrst og fremst á deiluaðilum.
Á það hefur verið bent að bæði í Ísrael og Ítalíu er tiltölulega þróuð löggjöf á sviði félagslegra réttinda fyrir launafólk hvað varðar ráðningarsamband og vinnuskilyrði. Það sama á við á Íslandi.
En til að unnt væri að taka upp sýndarverkföll myndi þurfa heilmikla umræðu og lagabreytingar. Slíkt verður ekki gert fyrir komandi kjarasamningsgerð. En það má vel velta fyrir sér, í ljósi sögunnar á Íslandi, hvort slík umræða og vinna væri tilraunarinnar virði?
Það eru vissulega fjölmörg álitaefni sem þyrfti að leysa úr. T.d. hvernig ætti að boða slík verkföll, hvort þeir sem eru í verkfalli megi vekja sérstaka athygli á verkfallinu og þá hvernig? Hvernig skal fara með skattlagningu á tekjum sem launafólk vinnur fyrir en rennur ekki til launafólks? Á sýndarverkfall að koma í stað raunverulegs verkfalls eða á það eingöngu að vera mögulegur undanfari? Á að setja reglu um að fyrst verði að eiga sér stað sýndarverkfall áður en heimilt er að boða til raunverulegs verkfalls? Hvernig nákvæmlega á að ráðstafa fjármunum sem safnast upp í sjóð á meðan á sýndarverkfalli stendur? Hver á að sjá um ráðstöfunina? Osfrv.
Kannski er þetta vonlítil umræða og ástæða þess að þetta hefur ekki verið tekið upp víðar? Á það hefur verið bent að þar sem tjón þriðju aðila er tekið út úr jöfnunni þá verði þrýstingur ekki nægilega mikill á samningsaðila. Sumir hafa sagt að ef sýndarverkföll væru tekin upp í meira mæli þá myndi það draga úr völdum stéttarfélaga.
En það hefur líka verið bent á að þetta hafi reynst vel til að fá samningsaðila til að setjast að raunverulegu samningaborði.
Er þetta ekki umhugsunarinnar virði? Eða eru allir aðilar vinnumarkaðarins sammála um að hafa þetta óbreytt og búa við kollsteypur verkfalla reglulega inn í framtíðina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2023 | 09:26
Er forysta Eflingar að segja sig úr lögum við íslenskt samfélag?
Þannig að því sé til haga haldið þá fela skrif þessi ekki í sér neina afstöðu til þess hvað séu sanngjörn laun fyrir hvaða starf sem er í íslensku samfélagi. Hér er horft á formið, regluverkið, sem íslenskt samfélag hefur á áratugum sett upp. En kannski snýst núverandi deila í raun um að verið sé að reyna að kollvarpa þessu regluverki? Takist það geta afleiðingarnar verið ófyrirséðar. En kannski er það tilgangurinn? Getur íslenska réttarríkið staðið af sér slíkt áhlaup?
En um hvað snýst þá efnislega deilan?
Snýst hún um að Eflingarfólk hafi það svo mikið verra en aðrir að rétt sé að láta sverfa til stáls núna þegar verið er að reyna að semja til skamms tíma? Er Eflingarfólk Eyland á vinnumarkaði sem réttlætir aðra nálgun viðsemjenda þeirra? Ekki skv. því sem aðrir forkólfar launþegasamtaka segja. Kostar það atvinnulífið einungis 6 milljarða að ganga að kröfum Eflingar eins og sums staðar er haldið fram? Ekki skv. því sem forkólfar annarra stéttarfélaga segja. Þeir segja sjálfir að þeir muni koma á eftir með uppfærðar kröfur sínar.
Það þýðir með öðrum orðum að mikil hætta er á aukinni verðbólgu og rýrnun kaupmáttar almennings og auknu atvinnuleysi. Það er staða sem Seðlabankastjóri og fleiri hafa varað við. Til að bregðast við þessari mögulegu sviðsmynd hafa samninganefndir SA og launþegasamtaka samið til skamms tíma fyrir um 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Þar af hafa náðst samningar við 18 af 19 aðildarfélögum SGS. Efling stendur eitt eftir samningslaust.
Þeir sem stjórna Eflingu virðast hafa valið sér það hlutskipti að gera alla að andstæðingum sínum sem ekki eru sammála þeim. Þar með talið SA og aðildarfélögum sem eru viðbjóðsleg og eru að sögn að fremja níðingsverk þegar þau voga sér að nýta sér lögbundinn rétt til að bregðast við verkföllum. Skipaður sáttasemjari þegar hann reynir að nýta sér lögbundinn rétt til að miðla málum. Félagsdómur þegar hann dæmir ekki að skapi þeirra sem stjórna Eflingu vegna uppsagnar trúnaðarmanns VR hjá Eflingu. Ritari stjórnar Eflingar sem vill láta reyna á rétt félagsmanna til að kjósa um miðlunartillögu sáttasemjara. Varaformaður Eflingar sem upplýsir félagsmenn um að reglugerð vinnudeilusjóðs Eflingar, sem sett er af þar til bærum aðila sem er aðalfundur félagsins, kveði á um rétt félagsmanna til greiðslna komi til verkbanna þegar félagið á í vinnudeilum. Fyrrverandi starfsmenn Eflingar á skrifstofu félagsins. Aðrir forkólfar verkalýðsfélaga sem stóðu að gerðum samningum við SA fyrir hönd um 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði.
Það er athyglisvert að sjá lögmann ASÍ halda því fram að breytingarnar á vinnulöggjöfinni árið 1996 sé afrakstur af langri og erfiðri deilu sem hafi endað með sátt það ár. Að löggjöfin hafi þjónað okkur afskaplega vel um áratuga skeið og að verið sé að búa til einhverjar aðstæður til að réttlæta inngrip ríkisins í þessa deilu nú með einhvers konar lagasetningu við skilyrði sem séu ekki til staðar.
Við þessa lýsingu lögmannsins er amk tvennt athugavert.
Annars vegar er það svo að það var engin sérstök sátt um löggjöfina árið 1996. Til marks um það má benda á að 184 mismunandi aðilar sendu inn formlegar umsagnir um lagafrumvarpið. Allir þessir aðilar gerðu athugasemdir við frumvarpið og vöruðu við því að öllu leyti eða hluta og vildu breytingar á því. Er tekið fram sérstaklega í áliti minnihluta félagsmálanefndar að þegar frumvarpið hafi verið lagt fram hafi það kallað á gífurleg mótmæli. Þingmönnum hafi borist áskoranir frá fjölda stéttarfélaga um að leggja málið til hliðar og að þegar frumvarpið hafi verið sent til umsagnar hafi borist svar frá nánast hverju einasta stéttarfélagi í landinu sem hafi mótmælt því harðlega og gagnrýnt innihald þess. Í niðurstöðum minnihlutans var tekið fram að þær breytingar sem gera hafi átt á frumvarpinu hafi sýnt betur en flest annað hve frumvarpið var illa unnið og vanhugsað. Breytingarnar væru til lítilla bóta því eftir stæði að heildarhugsun væri engin og markmiðin löngu glötuð.
Sérhver er nú sáttin sem lögmanninum er hugleikin. Kannski þóknast það hagsmunum lögmanns ASÍ í því samhengi hlutanna sem nú er uppi að gera að því skóna að sátt hafi ríkt um frumvarpið þegar félag innan ASÍ hefur fundið lögfræðitrix sem engum öðrum hafði áður í áratugi hugkvæmst?
Hins vegar þá er staðreyndin sú að svo virðist sem vissulega sé búið að búa til aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisins. Stjórnendur Eflingar eru þar að verki og engir aðrir. Það hefur engum öðrum dottið til hugar að neita því að afhenda kjörskrá sína þannig að unnt sé að halda kosningar um miðlunartillögu sáttasemjara sem sett er fram í samræmi við löggjöfina. Með því að viðurkenna það ástand að ekki sé unnt að láta fara fram kosningu um miðlunartillöguna er sú staða uppi að lagagreinarnar, sem löggjafinn árið 1996 samþykkti m.a. með þeim rökum að auka ætti valdheimildir sáttasemjara, eru hrein markleysa ef annar aðila kjaradeilu ákveður það.
Afleiðingin er sú sem við blasir. Annar deiluaðila heldur sínu striki án tillits til fram kominnar miðlunartillögu. Félagsmenn fá ekki tækifæri til að segja hug sinn um miðlunartillöguna og því er ekki vitað hvort það sé almennt fylgi félagsmanna við framgöngu stjórnenda Eflingar í málinu. Af fréttum að dæma og viðtölum við Eflingarfólk er margt sem bendir til að svo sé ekki.
Það kann því að vera rétt mat hjá lögmanni ASÍ að verið sé að búa til aðstæður sem réttlæta inngrip ríkisins. Aðstæðurnar eru hins vegar af öðrum ástæðum en hann heldur fram.
Það verður forvitnilegt að fylgjast með síðustu vendingum málsins. Nú hefur formaður Eflingar aftur lýst yfir sinni skoðun á því hvernig skuli túlka vinnulöggjöfina sem og regluverk síns eigin félags. Ekki er ólíklegt að á þá túlkun kunni að reyna aftur fyrir dómstólum. Það verður fróðlegt að sjá rökstuðning dómstóla í þetta skiptið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.2.2023 | 15:25
Úr hringleikahúsi fáránleikans
Af fréttum að dæma er staðan í kjaradeilu Eflingar og SA óljós. Nýr sáttasemjari er sagður hlaupa á milli herbergja. Hann segist vera að reyna að finna út úr því hvort hægt sé að koma sér saman um á hvaða leikvangi eigi að spila. Guð einn virðist vita eitthvað. En á meðan eru verkföll Eflingar í gangi. Og óafgreidd miðlunartillaga sáttasemjara.
Fer þetta saman? Af lestri greinargerðar löggjafans með breytingum á vinnulöggjöfinni 1996 er ljóst að löggjafinn gerði ekki ráð fyrir því að þessi staða gæti komið upp. Löggjafinn var að auka valdheimildir sáttasemjara til að reyna að minnka líkur á ófriði á vinnumarkaði með tilheyrandi verkföllum með alvarlegum neikvæðum afleiðingum fyrir fjölmarga sem standa utan kjaradeilu hverju sinni.
Nú reynir á löggjöfina með nýjum hætti. Það hafði engum dottið til hugar að sú staða gæti komið upp að aðili að vinnudeilu myndi einfaldlega neita að afhenda kjörskrá til að koma í veg fyrir að unnt væri að afgreiða framkomna miðlunartillögu sáttasemjara.
Meirihluti Félagsdóms er búinn að skera úr um það að þrátt fyrir að óafgreidd sé miðlunartillaga sáttasemjara þá teljist boðaðar verkfallsaðgerðir og framfylgd þeirra vera í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þrátt fyrir að stéttarfélagið hunsi framkomna miðlunartillögu sem sett er fram samkvæmt ákvæðum sömu laga. Að auki byggði meirihluti Félagsdóms niðurstöðu sína á því að hann teldi að ríkissáttasemjari væri að leita þeirra leiða sem lög byðu til að tryggja að atkvæðagreiðsla um tillöguna gæti farið fram, m.a. með því að óska heimildar dómstóla til innsetningar í skrá yfir félagsmenn.
Ofangreint er athyglisvert. Meirihluti Félagsdóms virðist þarna gera ráð fyrir því að það sé til leið til að tryggja að atkvæðagreiðsla fari fram. Sem sagt meirihlutinn virðist þeirrar skoðunar að atkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram. Og að sáttasemjari væri að fara rétta leið til að ná í atkvæðaskrána. Við þetta er tvennt að athuga. Nú hefur Landsréttur sagt að þessi leið sé sáttasemjara ófær. Og þar með er ekki hægt að láta kosningu fara fram. Ætli meirihluti Félagsdóms myndi ennþá vera sömu skoðunar, að þessari niðurstöðu Landsréttar fenginni, að stéttarfélagið sé ekki að brjóta gegn 14. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur? Að stéttarfélaginu sé í raun heimilt að láta eins og miðlunartillaga hafi ekki verið sett fram og halda sínu striki með ófrið sinn. Án þess að sáttasemjara hafi tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu til að stilla til friðar.
Landsréttur kaus við úrlausn sína að horfa til löggjafarviljans árið 1978 í stað þess að kanna til hlítar hver löggjafarviljinn var árið 1996. Það er framsækið. Eða væri kannski réttara að segja að það væri afturhvarf? En hvað um það Landsréttur hafnaði því að sáttasemjari ætti rétt til þess að fá afhenta félagaskrá til unnt væri láta kjósa póstkosningu um miðlunartillögu skv. 3. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur. Samt var það yfirlýstur vilji löggjafans árið 1996 að bæta þessari aðferð við til þess m.a. gefa möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum. Landsréttur 2023 er ekki á því að löggjafinn 1996 hafi gert þetta með réttum hætti. Enda hafði hann m.a. sér til stuðnings við túlkun sína álit löggjafans 1978.
Og þar við situr. Stéttarfélagi, eða félagi atvinnurekanda eftir atvikum, er heimilt að sitja sem fastast á sinni kjörskrá og koma í veg fyrir að vilji löggjafans árið 1996 nái fram að ganga. Ákvæðin um sáttamiðlun sáttasemjara eru bara í plati ef annar hvor samningsaðilanna ákveður það. Löggjafarvilji hvað? Jú, þessi frá 1978 alveg rétt.
Eru þá bara allir mát? Nei, aldeilis ekki. Nokkrir stjórnendur Eflingar eiga sviðið. Þeir einfaldlega fara sínu fram í boði Félagsdóms og Landsréttar, já og sáttasemjara og SA. Það horfa bara allir á, hlaupa á milli herbergja og brosa vandræðalega framan í fjölmiðlafólk. Á sama tíma spyr bílstjóri í ljósvakamiðli af hverju félagar í Eflingu mega ekki kjósa um samning eins og félagar í VR. Þar var formaðurinn þó mótfallinn samningi. Samningur við VR var samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Já, nú er Bleik brugðið. Rétturinn til að fá að greiða atkvæði hefur almennt verið talinn heilagastur af öllu heilögu og lærðar ræður verið haldnar þess vegna. T.d. af hverju má ekki kjósa um nýja stjórnarskrá? En nú hafa nokkrir stjórnendur Eflingar ákveðið að félagsmenn þeirra fái ekki að kjósa um sambærilega samninga og félagsmenn annarra stéttarfélaga hafa fengið að gera. Til öryggis vilja þeir frekar hafa verkföll. Frekar en að lenda í því að félagsmenn þeirra myndu ekki hafna tillögu sáttasemjara. Og halda þar með friðinn fram að næstu kjarasamningum, sem eru rétt handan við hornið.
En er eitthvað til ráða? Að mínu mati á sáttasemjari að boða til kosninga um miðlunartillögu sína annað hvort á kjörfundi eða utan kjörfundar ef það þykir heppilegra. Sem sagt skv. 1. eða 2. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna. Með því fullnægir hann lagaskyldu skv. lögunum. Þeir einir fá að kjósa sem geta sannað að þeir séu félagsmenn í Eflingu. T.d. með framlagningu launaseðils þar sem fram kemur að stéttarfélagsgjöld séu greidd til Eflingar.
Þá kunna einhverjir að segja að þessi leið sé ekki fær nema fyrir liggi kjörskrá. Ég er í sjálfu sér sammála því að það hafi verið ætlan löggjafans 1996 að slík kjörskrá myndi liggja fyrir. En nú hefur Landsréttur 2023 sagt að aðili að vinnudeilu þurfi bara ekkert að afhenda slíka skrá. Það hlýtur þá að gilda í báðar áttir. Þ.e. fyrst stéttarfélag þarf ekki að leggja fram skrána þá einfaldalega sættir sáttasemjari sig við það og heldur sína kosningu án skrárinnar. Ef stéttarfélagið vill halda því fram að miðlunartillaga hafi verið felld af fjórðungi félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þá er það stéttarfélagsins að sanna það. Með því að leggja skrána fram. Annars telst miðlunartillagan samþykkt. Ef hins vegar meira en fjórðungur félagsmanna Eflingar myndi fella miðlunartillöguna, miðað við framlagða kjörskrá, þá myndi raunverulegur vilji félagsmanna Eflingar liggja fyrir. Þá þyrfti ekki lengur að efast um rétt þeirra til verkfallsaðgerða.
En hvað svo ef miðlunartillagan er ekki felld? Það blasir við að önnur af tveimur leiðum yrði farin. Stjórnendur Eflingar halda áfram að láta eins og engin miðlunartillaga hafi verið sett fram eða um hana kosið. Og halda sínu verkfalli áfram. Eða stjórnendur Eflingar halda því fram að þessi aðferð hafi ekki verið heimil af hálfu sáttasemjara. Af hverju? Jú af því að hann hafði ekki félagaskrána. (Og af hverju hafði hann hana ekki?). Í fyrra tilvikinu yrði SA að leita aftur til Félagsdóms. Í seinna tilvikinu yrðu stjórnendur Eflingar að leita til Félagsdóms.
Þar með væri Félagsdómur aftur kominn með málið til úrlausnar. En nú á aðeins öðrum grunni. Sáttasemjari hélt sína kosningu og fékk niðurstöðu. Meirihluti Félagsdóms veit núna að sáttasemjari hafði enga leið til að fá kjörskrána frá stjórnendum Eflingar.
Ef niðurstaða Félagsdóms í þessu seinna máli yrði sú að sáttasemjara hefði ekki verið heimilt að halda kosninguna af því að hann hafði ekki félagsskrána þá er komin ný staða.
Þá væri búið að staðfesta að sáttasemjari hefur enga leið til að láta kosningu fara fram um miðlunartillögu sína ef annar hvor deiluaðila ákveður að afhenda ekki kjörskrá sína.
Það er niðurstaða sem er þvert á löggjafarviljann árið 1996. Það er almenn lögskýringarregla að sett lög skuli túlka á þann hátt að þau hafi einhverja skilgreinda merkingu. Ef þetta yrði niðurstaða Félagsdóms þá myndi liggja fyrir að sett lagaákvæði af hálfu Alþingis hafa enga sjálfstæða þýðingu ef einhver aðili úti í bæ ákveður það. Jafnvel þótt þessi aðili úti í bæ sé annar aðili að kjaradeilu.
Ef þessi staða kæmi upp þá yrði löggjafarvaldið að stíga inn í og tala með skýrum og skiljanlegum hætti en skilja ekki þjóðfélagið eftir í hringleikahúsi fáránleikans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.2.2023 | 11:03
Hvort á löggjafarviljinn árið 1978 eða 1996 að ráða? Eru Félagsdómur og Landsréttur úti í skurði?
Ég heyrði í viðtali við Láru V. Júlíusdóttur að hún efaðist um að löggjafarvilji frá árinu 1978 ætti að hafa eitthvert gildi við túlkun á vinnulöggjöfinni í dag. Af því tilefni ákvað ég að rifja betur upp átökin sem áttu sér stað árið 1996 þegar umtalsverðar breytingar voru gerðar á vinnulöggjöfinni. Eftir þá upprifjun er ég sammála Láru um að löggjafarviljinn árið 1978 hefur enga þýðingu. Löggjafinn árið 1996 var að gera umtalsverðar breytingar á löggjöfinni eftir víðtækt samráð þótt ekki hafi allir aðilar á vinnumarkaði verið sammála um útfærsluna.
Ég tel það hafið yfir allan vafa að vilji og ætlun löggjafans árið 1996 var og er sá að kosning um miðlunartillögu sáttasemjara skuli fara fram skv. kjörskrám vinnuveitenda og stéttarfélaga, sem þýðir að hvorugur þessara aðila hefur heimild til þess að neita að afhenda kjörskrá sína.
Enda myndi slík niðurstaða fela í sér að annar deiluaðila, félag vinnuveitanda eða stéttarfélag, hefði í hendi sér hvort lög sett af Alþingi hefðu eitthvert sjálfstætt innihald eða ekki. Það þarf tæpast lögfróða til að átta sig á að slík niðurstaða gengur ekki upp.
Það er því fullt og nauðsynlegt tilefni til að fá fram endurskoðun Hæstaréttar á dómi Landsréttar.
Hér að neðan tek ég upp valda kafla úr greinargerð með breytingalögunum árið 1996. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað textann sem frá löggjafanum árið 1996 kemur fram og lagt á það mat hvað felst í honum. En ég ítreka að textinn er mun lengri og stundum tek ég stakar setningar út til að draga fram áherslur löggjafans.
Sums stað set ég inn athugasemdir og vangaveltur. Þar sem þessi ágæti bloggmiðill mbl býður ekki uppá mikla möguleika í ritvinnslu hef ég sett mínar athugasemdir fram á milli XXX merkinga.
Úr greinargerðinni.
Hér á landi hafa um langt skeið farið fram umræður um nauðsyn þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði með það að markmiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Þannig yrði stuðlað að friðsamlegum samningum og dregið úr átökum á vinnumarkaði og oft langvinnum vinnustöðvunum
Þannig virðist hafa skort á að leikreglur hafi með fullnægjandi hætti stuðlað að frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Aðilar kunna að hafa treyst um of á íhlutun stjórnvalda.
Mjög fámennir hópar geta knúið fram sérhagsmuni sína í krafti lykilaðstöðu. Þá skortir á að tryggt sé að vel sé vandað til afgreiðslu kjarasamninga og ákvarðana um vinnustöðvanir. Á það bæði við um samtök atvinnurekenda og stéttarfélög. Þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á vinnulöggjöf, eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, enda miða þær að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum félagsmanna í stéttarfélögum. Nauðsynlegt er því að taka til endurskoðunar ýmis ákvæði gildandi vinnulöggjafar, þ.e. bæði laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, og laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, og breyta þeim í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu.
XXX
Hér er rétt að veita því sérstaka eftirtekt að löggjafinn árið 1996 tekur beinlínis fram að verið sé að endurskoða og breyta lögunum frá 1938 og einnig frá 1978. Berum orðum er tekið fram að þetta sé gert í samræmi við nýjar aðstæður í þjóðfélaginu. Miðað við að þarna er enginn efi um það að löggjafinn árið 1996 er breyta þáverandi gildandi löggjöf er ótækt af Landsrétti að horfa til löggjafarvilja árið 1978 til að túlka lög sem löggjafinn árið 1996 setti.
XXX
Félagsmálaráðherra skipaði 4. október 1994 vinnuhóp til að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði.
Fyrir hópinn var lagt að taka saman skýrslu um niðurstöðuna af athugun sinni. Ef í ljós kæmi að breyta þyrfti íslenskri löggjöf var hópnum falið að setja fram tillögur um það efni.
Hugmyndir hópsins, sem fram koma í áfangaskýrslunni, lúta fyrst og fremst að svonefndri viðræðuáætlun, miðlunartillögu, tengingarreglu og meðferð samningsumboðs, en hópurinn leggur í umfjöllun sinni áherslu á leiðir til að gera kjaraviðræður markvissari og styttri.
Í niðurlagi skýrslunnar kemur og fram að hópurinn telur að einnig þurfi að huga að reglum um vinnudeilur, inntak þeirra og hvort efni séu til að setja nánari formreglur um ákvarðanir um vinnustöðvanir og framkvæmd þeirra. Í áfangaskýrslunni kemur loks fram að ýmis atriði, sem tengjast þeim hugmyndum sem fram eru settar, hafi ekki verið rædd til hlítar, svo sem miðlun sáttasemjara og fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun vinnustöðvana, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðarfyrirkomulag.
Eftir að áfangaskýrslan var lögð fram í nóvember 1995 hafa fulltrúar aðila vinnumarkaðarins í nefndinni ekki náð samstöðu um tillögur til breytinga á ákvæðum gildandi laga til að hrinda í framkvæmd framangreindum hugmyndum vinnuhópsins. Lagafrumvarp þetta hefur því verið samið á vegum félagsmálaráðherra, m.a. á grundvelli ábendinga sem fram koma í áfangaskýrslu vinnuhópsins og umræðna sem hafa farið fram í vinnuhópnum. Rétt þykir nú að fella lög um sáttastörf í vinnudeilum inn í lög nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem III. kafli um sáttatilraunir í vinnudeilum var upphaflega, enda þykja öll þessi efnisatriði eiga heima í einum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Við samningu frumvarpsins hefur sérstaklega verið gætt að stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga, svo og að alþjóðasamþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að á sviði vinnuréttar.
Helstu nýmæli.
Póstatkvæðagreiðsla.
Heimiluð er póstatkvæðagreiðsla um gerða kjarasamninga og um ákvörðun um vinnustöðvun. Ef sú heimild er nýtt þarf að jafnaði ekki að ná tilteknu hlutfalli mótatkvæða gegn samningsniðurstöðu eða tiltekinni þátttöku við almenna ákvörðun um vinnustöðvun. Ríkissáttasemjara er veitt heimild til að ákveða í samráði við aðila að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með pósti (2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 4. gr. og 3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).
Skýrari miðlunarheimildir.
Lagaskilyrði fyrir heimild sáttasemjara til að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu eru gerð mun skýrari.
XXX
Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðsla fari fram?
XXX
Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.
Ríkissáttasemjara eru fengnar heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu og utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Ávallt skal haft samráð við aðila vinnudeilu áður en slíkar ákvarðanir eru teknar (3. mgr. j-liðar 6. gr. (29. gr.)).
XXX
Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir það að atkvæðagreiðsla fari fram?
XXX
Afgreiðsla miðlunartillögu.
Miðlunartillaga er felld í atkvæðagreiðslu ef meiri hluti greiddra atkvæða og jafnframt að minnsta kosti þriðjungur atkvæða alls er mótatkvæði. Er sú breyting gerð með vísan til heimilda ríkissáttasemjara til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en ef þær heimildir verða nýttar mun þátttaka aukast. Skilyrðið um lágmarkshlutfall mótatkvæða á við óháð tilhögun atkvæðagreiðslu (l-liður 6. gr. (31. gr.)).
XXX
Hvernig getur þessi vilji löggjafans samræmst því að annar samningsaðila geti komið í veg fyrir að atkvæðagreiðsla fari fram? Þarna er beinlínis gert ráð fyrir því að ríkissáttasemjari geti nýtt þessar nýju heimildir til að ákveða póstatkvæðagreiðslu eða utankjörfundaratkvæðagreiðslu. Niðurstaða Landsréttar felur í sér að hann geti það bara alls ekki af annar hvor deiluaðila ákveður að hann geti það ekki.
XXX
Formleg skilyrði fyrir vinnustöðvun.
Vinnustöðvun hefur víðtækar afleiðingar ekki aðeins fyrir samningsaðila og einstaka félagsmenn þeirra heldur einnig fyrir aðra, bæði einstaklinga og fyrirtæki, sem ekki hafa nokkurn möguleika á að hafa áhrif á kjaradeilu þeirra. Því úrræði á ekki að beita fyrr en fullreynt er að ekki gengur saman með samningsaðilum.
Kröfur samningsaðila verða einnig að vera þess eðlis að gagnaðili geti mætt þeim án þess að það brjóti gegn öðrum skuldbindingum hans. Þessi meginregla kemur skýrt fram í dómum Félagsdóms, sbr. t.d. dóm hans frá 5. desember 1993. Gert er að skilyrði að leitað hafi verið milligöngu sáttasemjara áður en tillaga um vinnustöðvun er borin fram. Í því felst jafnframt að sáttasemjara hafi gefist tóm til að leita sátta í samræmi við reglur þar um og í samræmi við viðræðuáætlun.
XXX
Fram er komið að búið er að semja við þorra launafólks á vinnumarkaði. Með því að ganga að kröfum Eflingar væru SA að brjóta gegn skuldbindingum sínum gagnvart þeim hópi.
XXX
Því er það skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur, og þá fyrst og fremst kröfur þess aðila sem ráðgerir vinnustöðvun, hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.
XXX
Þarna tekur löggjafinn árið 1996 sérstaklega fram að það sé skilyrði lögmætrar ákvörðunar um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Í þeirri stöðu sem nú er uppi hefur sáttasemjara ekki gefist færi á að beita þeim úrræðum sem löggjafinn árið 1996 ætlaðist til að hann hefði til að miðla málum. Ekki hefur farið fram kosning um miðlunartillögu hans þannig að sú staða er ekki uppi að stéttarfélagið hafi fellt tillöguna. Því eru ekki lögbundin skilyrði fyrir því verkföll nái fram að ganga. Skilyrði 14. gr. vinnulöggjafarinnar eru ekki fyrir hendi. Dómur meirihluta Félagsdóms er því rangur.
XXX
Ákvörðun um vinnustöðvun.
Boðun vinnustöðvana og framkvæmd getur haft mikil áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem ýmist eiga beina aðild að deilunni eða verða fyrir áföllum vegna deilna sem þeir hafa engin áhrif á. Að sjálfsögðu hefur vinnustöðvun áhrif á gagnaðila, enda er henni ætlað að knýja á um kröfur í vinnudeilu. Auk gagnaðilans eru hins vegar margir sem vinnustöðvun bitnar beinlínis jafnharkalega á og þeim sem henni er ætlað að knýja til samninga.
Þolendur vinnustöðvunar geta jafnvel orðið fyrir meira tjóni en þeir sem að henni standa beint, þ.e. félagsmenn þess stéttarfélags sem gerir verkfall. Því er í frumvarpinu lagt til að ákveðnar reglur gildi um almennan vinnumarkað rétt eins og nú er um opinbera starfsmenn.
Póstatkvæðagreiðsla.
Samkvæmt frumvarpinu er ríkissáttasemjara heimilt að höfðu samráði við aðila vinnudeilu að ákveða að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu fari fram með leynilegri almennri póstatkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sem lokið skal innan fyrir fram ákveðins tíma.
Með póstatkvæðagreiðslu er í frumvarpi þessu átt við þá tilhögun atkvæðagreiðslu að öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá, þ.e. atkvæðaskrá samtaka atvinnurekenda eða félagaskrá stéttarfélaga, sem eiga í hlut, séu send kjörgögn heim.
XXX
Þarna segir löggjafinn árið 1996 að senda skuli öllum atkvæðisbærum félagsmönnum á kjörskrá kjörgögn heim. Þessi fyrirmæli eru ekki háð því að það sé háð vilja samningsaðila hvort svo sé gert eða ekki. Niðurstaða Landsréttar er því röng.
XXX
Þegar greidd eru atkvæði um miðlunartillögu skal slík póstatkvæðagreiðsla framkvæmd með sama hætti og hér er greint frá, en frumkvæði og stjórn póstatkvæðagreiðslu er þá í höndum ríkissáttasemjara auk þess sem embætti hans greiðir kostnað við póstatkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Þá skal áritað umslag merkt ríkissáttasemjara. Svipaður háttur á atkvæðagreiðslu hefur verið viðhafður í nokkrum stéttarfélögum hér á landi og er því ekki nýlunda. Þessi leið gefur möguleika á að tryggja enn betur þátttöku félagsmanna í mikilvægum ákvörðunum.
Skýrari miðlunarheimildir.
Í gildandi lögum eru mjög rúmar heimildir fyrir sáttasemjara til að setja fram miðlunartillögur. Þeim hefur hins vegar lítið verið beitt. Gerð er tillaga um að sáttasemjari haldi þessum heimildum en með nokkrum takmörkunum sem eiga að tryggja að miðlunartillaga verði ekki borin fram nema áður hafi reynt á samningsleiðir til þrautar.
Hafi samningsaðilar hvorki komist að niðurstöðu innan þess tíma sem tilgreindur er í viðræðuáætlun né náð sáttum fyrir atbeina sáttasemjara metur sáttasemjari hvort og þá hvenær rétt er að setja fram miðlunartillögu fyrir þá hópa sem í hlut eiga, þ.e. þá hópa sem eru enn með lausa samninga.
Meginskilyrðið er að sameiginleg miðlunartillaga sé til þess fallin að leiða til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Er skilyrðið háð mati sáttasemjara sem ræðst ekki síst af afstöðu samtaka á vinnumarkaði og hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum. Gert er ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu.
XXX
Hér er sérstök ástæða til að staldra við og skoða löggjafarviljann árið 1996. Hér er sagt að það sé sáttasemjari sem meti það hvort og þá hvenær rétt sé að setja fram miðlunartillögu. Meginskilyrði sé að hún leiði til friðsamlegrar samtímalausnar kjaramála. Með öðrum orðum að reynt sé að koma í veg fyrir verkföll. Tekur löggjafinn sérstaklega fram að mat sáttasemjara ráðist m.a. af hugsanlegri niðurstöðu í heildarviðræðum og að gert sé ráð fyrir að sáttasemjari taki mið af slíkri niðurstöðu. Fyrir liggur að almenn sátt er um þær niðurstöður kjaraviðræðna sem átt hafa sér stað. Eingöngu Efling hefur efnt til ófriðar. Á þessa stöðu á sáttasemjari horfa samkvæmt löggjafarviljanum árið 1996.
XXX
Tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu.
Beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara hvað varðar tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu eru auknar í samræmi við hugmyndir sem fram komu í vinnuhóp félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði og ábendingar ríkissáttasemjara.
XXX
Hvernig samrýmist þessi vilji löggjafans árið 1996 niðurstöðu Landsréttar?
XXX
Breytingarnar eru til þess fallnar að auka þátttöku í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu. Er það í samræmi við lýðræðishefðir að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um svo mikilvæg réttindi manna.
XXX
Hvernig samrýmist þessi vilji löggjafans árið 1996 niðurstöðu Landsréttar? Löggjafinn árið 1996 segist vera að auka heimildir sáttasemjara til afskipta og jafnframt að stuðla að aukinni þátttöku í atkvæðagreiðslu um mikilvæg réttindi manna. Með því að annar aðili geti tekið ákvörðun um að taka ekki þátt í atkvæðagreiðslu þá er það í fullkominni andstöðu við þennan löggjafarvilja.
XXX
Einnig er sem mest þátttaka eðlileg með hliðsjón af því að ríkissáttasemjari leggur því aðeins fram miðlunartillögu að samninganefndum aðila einstakrar vinnudeilu hafi ekki sjálfum tekist með frjálsum samningum að ná saman um gerð eða endurnýjun kjarasamnings.
XXX
Löggjafinn árið 1996 gerir augljóslega ekki ráð fyrir því að engin þátttaka sé í atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara.
XXX
Afgreiðsla miðlunartillögu.
Lagt er til að meiri hluta greiddra atkvæða og jafnframt þriðjung atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá þurfi til þess að fella miðlunartillögu sem sáttasemjari leggur fram. Er það töluverð breyting frá gildandi lögum sem kveða á um lágmarksþátttöku 20% atkvæðisbærra manna. Þarf þá minnst 65% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu sáttasemjara. Samkvæmt gildandi lögum lækkar tilskilið hlutfall atkvæða í hlutfalli við aukna þátttöku miðað við fjölda atkvæðisbærra þannig að ef 35% eða fleiri atkvæðisbærra taka þátt þarf minnst 50% greiddra atkvæða til þess að fella miðlunartillögu. Hér er því gert ráð fyrir verulegri efnisbreytingu en um leið einföldun ákvæðisins.
Efnisbreytingin er rökrétt afleiðing af þeim formbreytingum sem felast í auknum heimildum ríkissáttasemjara um tilhögun atkvæðagreiðslu. Einnig þykir eðlilegt að í þessu efni gildi sömu reglur um atvinnurekendur og launafólk, en samkvæmt orðanna hljóðan tekur 12. gr. laga nr. 33/1978, um sáttastörf í vinnudeilum, aðeins til launafólks.
Með þriðjungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá hér og víðar í frumvarpi þessu er annars vegar átt við þriðjung atkvæða samkvæmt gildandi atkvæðaskrá hjá samtökum atvinnurekenda en þar er fjöldi atkvæða jafnan miðaður við útgreidd laun, þ.e. í raun fjölda launamanna. Hins vegar er átt við þriðjung atkvæðisbærra launamanna sem eru fullgildir félagar í því stéttarfélagi eða þeim stéttarfélögum sem eiga í hlut. Um það hvort miðlunartillaga ríkissáttasemjara eða samningur, sem samninganefndir hafa undirritað, telst felld munu því gilda nákvæmlega sömu reglur hvort sem atvinnurekendur eða launamenn eiga í hlut. Jafnræði er því með aðilum.
XXX
Ofangreindur texti er athyglisverður. Rétt er að taka fram að með breytingatillögu var ákveðið að nóg væri að fjórðungur atkvæðisbærra félagsmanna greiddi atkvæði gegn miðlunartillögu þannig að hún teldist felld.
Löggjafinn árið 1996 tekur fram að sáttasemjari sé kominn með auknar heimildir frá því sem var um tilhögun atkvæðagreiðslu. Jafnframt tekur hann fram að sömu reglur gildi um bæði atvinnurekendur og launafólk. Löggjafinn útskýrir nákvæmlega hvernig skuli haga talningu og við hvað skuli miða. Í tilfelli launamanna eru það fullgildir félagar í því stéttarfélagi sem á í hlut.
Með því að tiltaka skýrt að með lagabreytingunni árið 1996 sé verið að auka heimildir sáttasemjara er ótækt að horfa til löggjafarviljans árið 1978 eins og Landsréttur gerir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.2.2023 | 10:55
Hugleiðing Jóns Sigurðssonar (f. 1934, d. 15.1.2023) um hvort verkfall sé frambærilegt vopn í launabaráttu
Hefur ekkert áunnist sl. tæpu 50 ár í fyrirkomulagi kjarabaráttu? Á árinu 1996 var hart tekist á um fyrirhugaðar breytingar á vinnulöggjöfinni. Nánast öll stéttarfélög og mörg önnur hagsmunafélög skiluðu umsögnum til Alþingis með alvarlegum athugasemdum um fyrirliggjandi frumvarp. M.a. skilaði Lagastofnun ítarlegu áliti með margvíslegum ábendingum. Þá voru fjölmargir aðilar kallaðir til funda við félagsmálanefnd um málið til frekari útskýringa. M.a. var ég í þeim hópi fyrir hönd BHM og sáum við marga meinbugi á fyrirhuguðum breytingum. Að lokum var frumvarpið afgreitt af meirihlutanum gegn mjög hörðum andmælum minnihlutans.
Eins og segir í nýjum Landsréttardómi var þó tilgangurinn m.a. með breytingunum sá að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði í því augnamiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Hafi breytingunum verið ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum og draga úr átökum á vinnumarkaði og langvinnum vinnustöðvunum með skýrari leikreglum sem ættu að stuðla að frjálsum samningum á vinnumarkaði.
Í þessu samhengi er afar fróðlegt að lesa grein Jóns Sigurðssonar sem birtist í Morgunblaðinu 14. mars 1974. Á þessum tíma sem hann ritaði greinina hafði hann m.a. verið ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu, hagsýslustjóri 1966-1967 og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis 1967-1974.
Við lestur greinarinnar hvarflar sú hugsun óneitanlega að manni að lítið hafi áunnist á þessu sviði frá því að greinin var skrifuð.
Ég hef ritað upp valda kafla úr grein hans, sem er töluvert lengri, og fært stafsetningu til nútímans en aðrar breytingar á texta hef ég ekki gert.
XXXXX
Þegar litið er á launabaráttu allra launþega samtaka sem heild, er hún í eðli sínu pólitísk. Þá er ekki átt við, að hún sé flokkspólitísk, heldur pólitísk að því leyti, að henni verður ekki ráðið til lykta með neinum rökrænum hætti, heldur verður að koma til pólitískt mat, þar sem andstæðir hagsmunir eru vegnir hverjir gegn öðrum. Hér er að nokkru fjallað um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, en jafnframt ákveðið, hver skuli vera fjármálalegur styrkur atvinnufyrirtækja. Þá fela ákvarðanir á þessu sviði í sér mikilvægustu forsendur allrar hagþróunar á samningstímanum.
Hvernig sem á þessa baráttu er litið, er öllum aðilum að ágreiningnum nauðsynlegt, að honum verði ráðið til lykta, hverju sinni sem hann rís. Sé það ekki gert án þess að til verkfallsátaka komi, skaðast allir aðilar að málinu, oft mest þeir, sem síst skyldi. Auk þess bitna afleiðingarnar á blásaklausu og óviðkomandi fólki, eins og dæmin sanna.
Eðlilegt er að líta á beitingu verkfalls í upphafi sem neyðarrétt í þeim almenna skilningi, sem því hugtaki er fenginn, þ.e. að hagsmunum eða verðmætum sé þegar svo ber undir heimilt að fórna, sé það nauðsynlegt til að varðveita aðra hagsmuni eða verðmæti, sem eru miklum mun meiri.
Þegar verkalýðsfélög voru að berjast fyrir því, sem nú er litið á sem sjálfsagðan rétt, að geta sest niður við sama borð og atvinnurekendur og samið við þá um kjör félagsmanna sinna, var verið að slást um mannréttindi. Þar voru hagsmunir, sem eru meira virði en svo, að þeir verði metnir til fjár. Þess vegna átti hin almenna regla neyðarréttarins algerlega við. Sú eyðilegging verðmæta og sú röskun, sem verkfallið hafði í för með sér, var réttlætanlegt eins og á stóð til að tryggja verkalýðnum ómetanleg mannréttindi.
Viðhorfið til verkfallsbeitingar sem neyðarréttar við núverandi aðstæður hlýtur að endurskoðast og spurningar að rísa um það, hvort þeir hagsmunir, sem verið er að sækja, séu raunverulega meiri, þegar á heildina er litið en þeir, sem fórnað er með verkfalli. Því verður heldur ekki trúað, að ekki sé finnanleg önnur, greiðari og ódýrari leið til að koma þeim raunhæfu kjarabótum, sem rúmast innan getu hagkerfisins, til skila til þeirra, sem launþegasamtökin telja á hverjum tíma mest þurfandi fyrir slíkar kjarabætur.
Það, sem mestu ræður um þessa bjartsýni, er að vitneskjan um raunverulega afkomu atvinnugreina og þjóðarbúsins til að byggja á raunhæfar ákvarðanir um kjör er nú að verða svo góð, að hún verður að teljast grundvöllur að nýju fyrirkomulagi í þessu efni. Þessi vitneskja er öllum aðilum vinnumarkaðarins aðgengileg og engum á að líðast að starfa eins og svo sé ekki.
Liður í umsköpun ákvarðanatöku á þessu sviði yrði að vera nýtt verksvið og aukið valdsvið sáttasemjara ríkisins til að koma í veg fyrir verkföll og jafnvel skera úr ágreiningi hjá einstökum félögum og innan einhverra marka í heildarsamningum. Meiri háttar ágreiningi þyrfti sáttasemjari að mega skjóta til Alþingis, enda væri þar um að ræða stórpólitískt mál, sem telja verður rökrétt, að Alþingi ráði til lykta eins og stjórnskipun ríkisins gerir ráð fyrir og þegnarnir beygi sig fyrir niðurstöðu þess, hvernig sem þeim líkar, rétt eins og um væri að ræða hegningarlög, skattalög eða lög um almannatryggingar.
Næst á eftir því að víkja sé undan að fást við vandamál er íhaldssemi alltaf auðveldasta viðbragð við þeim. Og það þarf kjark til að snúa af þeirri leið, sem lengi hefur verið gengin. Það er að mínu mati allt of kostnaðarsöm íhaldssemi hjá launþegasamtökum að halda áfram þeirri verkfallsstefnu, sem þau hafa haft uppi. Samfélagið hefur ekki efni á að láta hnefaréttinn ráða til að lykta ágreiningi á þessu sviði fremur en öðrum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2023 | 18:07
Landsréttur staðfestir að félagsmenn Eflingar fái að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara
Rétt í þessu staðfesti Landsréttur að ríkissáttasemjari geti látið kjósa um miðlunartillögu sína á kjörfundi.
Landsréttur bendir á að meginregla laganna, sbr. 1. málslið 3. mgr. 29. gr., sé sú að atkvæðagreiðsla um miðlunartillögu skuli fara fram á kjörfundi sem standi yfir í fyrirfram ákveðinn tíma.
Landsréttur fer síðan ítarlega yfir undantekningarreglurnar, sem er að finna í 2. og 3. málslið sömu greinar, sem felur í sér heimild til að atkvæðagreiðsla fari við ákveðin skilyrði fram utan kjörfundar eða að almenn póstatkvæðagreiðsla fari fram meðal félagsmanna. Landsréttur segir um þessar undantekningarreglur að það leiði af eðli máls að til þess að unnt sé að efna til slíkrar atkvæðagreiðslu þurfi kjörskrá aðila vinnudeilu að liggja fyrir. Það sé hins vegar hvergi í lögunum kveðið á um að sáttasemjara sé heimilt að knýja aðila vinnudeilu til afhendingar kjörskrár eða aðgangs að henni við þær aðstæður að stéttarfélag telji sér ekki skylt að afhenda hana.
Það liggur því fyrir, gagnstætt niðurstöðu meirihluta Félagsdóms, að þessi leið er ekki fær fyrir sáttasemjara til að láta kjósa um tillöguna. Þess í stað verður hann að fara eftir meginreglunni í 1. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna og boða til kjörfundar þar sem atkvæðagreiðsla getur farið fram úr því að stéttarfélagið kýs að ljá ekki atbeina sinn til að undantekningarreglunum verði beitt.
Þessi staða er í raun og veru öfugsnúin því með þessum breytingum var tilgangurinn sá að auðvelda félagsmönnum að nýta kosningarétt sinn. Í því samhengi vitnar Landsréttur í lögskýringargögn og bendir á að auk kjörfundaratkvæðagreiðslu sé ríkissáttasemjara heimilað að efna til atkvæðagreiðslu utan kjörfundar á tilteknum stöðum eða svæðum. Sé þá unnt að nýta hvers konar tækni til utankjörfundaratkvæðagreiðslu hvar sem er í lögsögu íslenska ríkisins án þess að öllum félagsmönnum sem miðlunartillaga tekur til, sé gert að mæta á kjörfund, t.d. bifreiðastjóra og sjómenn.
Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í samfélaginu er fullt tilefni til að vekja sérstaka athygli á umfjöllun Landsréttar um lögskýringargögn um breytingalög frá 1996 á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar tekur Landsréttur m.a. fram að af almennum athugasemdum með frumvarpinu megi ráða að þessum breytingum hafi meðal annars verið ætlað að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði í því augnamiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga. Hafi breytingunum verið ætlað að stuðla að friðsamlegum samningum og draga úr átökum á vinnumarkaði og langvinnum vinnustöðvunum með skýrari leikreglum sem ættu að stuðla að frjálsum samningum á vinnumarkaði. Með lögunum hafi meðal annars verið gerðar breytingar á lagaskilyrðum fyrir heimild ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu. Er í því samhengi vísað til undantekningarreglnanna í 2. og 3. málslið 3. mgr. 29. gr. laganna. Tekur Landsréttur sérstaklega fram að í athugasemdum með frumvarpinu sé tekið fram að beinar lagaheimildir ríkissáttasemjara til að taka ákvörðun um tilhögun atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu væru auknar til samræmis við hugmyndir sem komu fram í vinnuhópi félagsmálaráðherra um samskiptareglur á vinnumarkaði og ábendingar ríkissáttasemjara.
Í ljósi niðurstöðu Landsréttar er ekki annað að sjá en að einu mögulegu mistök ríkissáttasemjara hafi verið þau að boða ekki strax til kjörfundar í stað þess að láta reyna á skyldu stéttarfélagsins til að afhenda kjörskrá. Á kjörfundi skal atkvæðagreiðsla vera skrifleg og leynileg og þeim einum heimilt að kjósa sem sanna á sér deili og að þeir séu félagsmenn í Eflingu. T.d. með framvísuna launaseðla þar sem fram kemur hvert stéttarfélagsgjöld eru greidd. Með þessu móti má fá skjóta niðurstöðu um hvort miðlunartillaga telst samþykkt eða felld og hvort friðarskylda sé komin á eða hvort stéttarfélag heldur áfram undirbúningi verkfallsaðgerða sinna.
Það amk hlýtur að vera hverjum sanngjörnum manni augljóst að sú staða sem nú er uppi er ekki í samræmi við þá lýsingu sem Landsréttur gerir að umtalsefni í umfjöllun sinni um löggjafarviljann 1996.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 958
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 820
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar