Um skattastyrki og samsköttun hjóna

Mér varð það á að glugga í fjárlagafrumvarpið í gær. Ég hefði betur sleppt því þar sem ég svaf ekki vel í nótt og dreymdi illa. Ég hef þess vegna ákveðið að reyna að skrifa mig í gegnum áfallið. Það sem gerði mér mest órótt var sá rökstuðningur sem er fyrir því að fella niður samsköttun hjóna.

Það er eitt að segja í kosningabaráttu að til standi að hækka skatta á ákveðna þjóðfélagshópa. Þá liggur það fyrir og er vitað. Þeir sem aðhyllast slíka hækkun geta þá kosið viðkomandi flokk með opin augu og huga. En það er annað þegar skattar eru í raun hækkaðir með þeim hætti að halda því fram að ekki sé verið að hækka skatta heldur sé verið að fella niður sérstaka skattastyrki (eða leiðrétta eftir atvikum). Niðurstaðan er sú sama. Þeir sem fyrir verða borga hærri skatta en áður. Og það er blekking að láta ekki vita um þessar fyrirætlanir í kosningabaráttu. Og halda því síðan blákalt fram að ekki sé verið að hækka skatta.

Skattastyrkir.

Í kafla 4 um tekjur A1 hluta ríkissjóðs segir í undirkafla 4.5 um skattastyrki:

Með skattastyrkjum er átt við eftirgjöf á skattkröfu sem leiðir til fráviks frá grunngerð skattkerfisins og veldur tekjutapi fyrir hið opinbera.

Með öðrum orðum þá er litið svo á að ef ekki eru innheimtir eins háir skattar og hverju sinni er heimilt að innheimta skv. lögum þá sé um ræða frávik frá grunngerð skattkerfisins með tilheyrandi tekjutapi ríkissjóðs. Sem sagt grunngerð skattkerfisins felst í að innheimta eins háa skatta og hverju sinni er heimilt. Þannig að það er ekki horft á skattkerfið sem eina heild þar sem búið er að ákveða að misjöfn skattlagning geti átt sér stað á mismunandi hópa samfélagsins. Það má vissulega snúa þessari hugsun við og segja að ef innheimtir eru hærri skattar af einhverjum þjóðfélagsþegnum þá sé það frávik frá grunngerð skattkerfisins með því að hærri byrðar eru settar á þá sem taldir eru þola það. Í því tilviki mætti þá tala um sérstakan gróða fyrir hið opinbera vegna þessa fráviks frá grunngerð skattkerfisins. Eða sérstaka rentu frá þeim sem þola slíkt.

Þetta er skuggaleg lesning. Það blasir við að þeir sem skrifa texta sem þennan líta á fjármuni almennings í grunninn sem eign þess opinbera. Að öðru leyti en því sem hinu opinbera þóknast að skilja eftir í vasa þessa sama almennings. Það er allt sem er umfram grunngerð skattkerfisins. Sem er hæsta leyfilega skattprósenta samkvæmt lögum hverju sinni. Og megum við þá í framtíðinni gera ráð fyrir að þessi leyfilega skattprósenta verði hækkuð hressilega? Og þar með grunngerð skattkerfisins? Megum við kannski gera ráð fyrir að grunngerðin verði fljótlega komin í það að hið opinbera eigi aðra hverja krónu sem hver einstaklingur aflar sér með vinnuframlagi sínu? Eða ættum við kannski að miða við að ríkið haldi tveimur af hverjum þremur krónum? Það ætti þá að verða auðveldara líf fyrir alla. Pólitíkusar hvers tíma geta þá uppfyllt óskir allra hópa og við sem búum hér á skerinu lifum í sátt og samlyndi um alla framtíð? Þetta er reyndar tilraun sem búið er að gera annars staðar og gekk ekki upp.

Samsköttun.

Rökstuðningur fyrir því að afnema rétt til samsköttunar er tvíþættur.

Annars vegar segir í kafla 4.2.1 að afnám samnýtingar þrepa sé í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD. Þetta er ekki útskýrt neitt nánar þannig að almennur lesandi getur enga grein gert sér fyrir hver séu hin efnislegu rök. Er þetta kannski það sem koma skal ef við göngum í ESB?

Hins vegar segir í kafla 4.3 um áhrif á jafnrétti kynjanna að með því að fella niður þennan rétt til samnýtingar þrepa þá stuðli það að kynjajafnrétti. Það er rökstutt nánar með því að segja að það séu konur sem hafi að jafnaði lægri laun en karlar og beri að auki meiri ábyrgð á ólaunuðum heimilis og umönnunarstörfum. Það er sem sagt, með vísan í þennan rökstuðning, búið að reikna út að við álagningu opinberra gjalda 2025 hafi konur fengið 19% af ávinningnum af samnýtingu þrepa en karlar 81%.

Það er tæplega hægt að hafa nógu sterk orð um þennan rökstuðning. Sá sem á heiðurinn að þessum texta er annað hvort viljandi að reyna að afvegaleiða umræðuna eða honum er ekki sjálfrátt og þekkir ekki reglur um sameiginlega framfærsluskyldu hjóna.

Hvernig er hægt að setja þennan texta í það samhengi að hann stuðli að kynjajafnrétti? Eðli málsins samkvæmt hefur þessi breyting neikvæð áhrif á báða aðila í parasambandi sem hafa notið þess að geta samnýtt skattþrep. Samanlagt kemur parið verr út úr þessari breytingu óháð því hvor aðilinn er tekjuhærri. Fjölskyldan er verr sett en áður. En vissulega breytast hlutföllin 19% af ávinningi kvenna og 81% af ávinning karla í 0% ávinning kvenna og 0% ávinning karla. Að því leytinu til hefur textahöfundur rétt fyrir sér. Í stað þess að fjölskyldan njóti einhvers ávinnings fyrir breytingu nýtur hún einskis ávinnings eftir breytingu. Enda skv. höfundum fjárlagafrumvarpsins er alls ekki verið að hækka skattana heldur fella niður skattastyrk. Með þeirri fínu afleiðingu að jafnrétti kynjanna eykst. Það er reyndar athyglisvert að höfundar frumvarpsins virðast alveg hafa gleymt því að það er búið að lögfesta reglur um staðfesta samvist. Þannig að í íslensku samfélagi í dag eru parasambönd alls ekki alltaf á milli karls og konu.

Í þessu samhengi, um jafnrétti kynjanna, verður að hafa í huga að löggjafinn hefur gert ráð fyrir því að framlög hvors aðila um sig geta verið í misjöfnu formi. Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 kemur fram að hjón og aðilar í staðfestri samvist bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar, sem felur í sér heimilisrekstur, sameiginlegar þarfir, uppeldi og menntun barna og sérþarfir beggja aðila. Þá er tekið fram í lögunum að framfærsluframlög geti verið fólgin í peningagreiðslum, vinnu á heimili, eða öðrum stuðningi við fjölskyldu. Sérstaklega er tekið fram að framlög skiptist á milli hjóna eftir getu þeirra og aðstæðum.

Þannig er gert ráð fyrir því í löggjöf að þessi sameiginlega ábyrgð er hornsteinn fjármálaskipulagsins í hjúskap og skiptir ekki máli hvort framlagið er með peningum eða vinnu á heimili eða öðru. Það er því fráleitt að reyna að rökstyðja réttlætingu þess að fella niður samsköttun hjóna með þeim rökum að konur hafi að jafnaði lægri laun en karlar og beri að auki meiri ábyrgð á ólaunuðum heimilis og umönnunarstörfum.

Þessu til viðbótar má benda á að þessi einkaréttarlega framfærsluskylda er lögð til grundvallar í opinberum rétti. Í 1. mgr. 19. gr. l. nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga segir að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18. ára. Í frumvarpi því sem varð að þessum lögum er tekið fram að þótt frumvarpið mæli fyrir um skyldur sveitarfélaga til að grípa inni í framfærslu sé þess þörf í einstökum tilvikum þá er um leið lögð áhersla á ábyrgð einstaklinga á sjálfum sér og sínum. Í Hrd. 13/2020 var deilt um lögmæti þess að sveitarfélag synjaði einstaklingi um fjárhagsaðstoð á grundvelli tekna maka. Hæstiréttur staðfesti að slíkt fyrirkomulag ætti sér fullnægjandi stoð í lögum og vísaði beint til framfærsluskyldunnar í 1. mgr. 19. gr. l. nr. 40/1991 og 46. og 47. gr. hjúskaparlaga. Að auki vísaði Hæstiréttur til þess að þótt telja megi það aðalreglu íslensks réttar að einstaklingar eigi rétt til greiðslna úr opinberum sjóðum án tillits til tekna maka sinna sé víða í lögum tekið tillit til hjúskaparstöðu fólks og megi sem dæmi í því sambandi nefna skattalög og fyrrgreint ákvæði 1. mgr. 19. gr. l. nr. 40/1991.

Með öðrum orðum Hæstiréttur tekur af öll tvímæli um að í íslenskri löggjöf, sem snertir gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna, er beinlínis gert ráð fyrir að fjárhagslegt framlag geti verið mismunandi og að framlag hins geti þá að öllu leyti eða hluta verið af öðrum toga.

Ég get því miður ekki sagt að þetta skrifelsi hafi róað mig mikið niður. Þvert á móti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og sextán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 462
  • Sl. sólarhring: 462
  • Sl. viku: 464
  • Frá upphafi: 71462

Annað

  • Innlit í dag: 410
  • Innlit sl. viku: 412
  • Gestir í dag: 383
  • IP-tölur í dag: 374

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband