Besti vinur aðal. Spillingin. Lífsbaráttan og pólitíkin. Bókadómar.

Ég hef í haust lesið nokkrar bækur. Sú sem er áhrifaríkust er tvímælalaust bók Sverris Garðarssonar; Býr Íslendingur hér. Hryllingnum í þeirri bók er ekki hægt að lýsa. Mánuðina á undan las ég bækur Tryggva Emilssonar í fyrsta sinn, Fátækt fólk, Baráttan við brauðið og Fyrir sunnan. Ég veit að margir af eldri kynslóðunum hafa lesið þessar bækur. Það væri hollt fyrir þær yngri að gera það líka. Hvernig lífsbaráttan var fyrir ekki svo löngu síðan. Ég t.d. tengi sérstaklega við lýsingu Tryggva á lífsbaráttunni í Fátæku fólki. Hann lýsir því þegar faðir hans seldi bæinn Bakkasel, sem var fremsti bær í Öxnadal, ungum manni sem tókst vel til við búskapinn. Sá var stórhuga og bjó ekki lengi að Bakkaseli en flutti neðar í sveitina þar sem landgæði voru meiri. Þá tóku við búskap þar, hjón sem voru langaafi og langaamma mín. Faðir minn man eftir þeirri sögu þegar amma mín, mamma hans, kom gangandi yfir Öxnadalsheiðina með yngri systur sinni og ráku þær kvígu á undan sér úr Skagafirði. Þær voru 12 og 9 ára gamlar og fannst ganga hægt að komast yfir um því kvígan var baldin. Og leiðin löng fyrir ungar stúlkur. Faðir minn hefur lýst því fyrir mér að eitt af verkum ömmu var að draga sauðskinnsskó og sokka af póstburðarmönnum sem komu gangandi yfir heiðina úr Skagafirði í vondum veðrum. Enda var bærinn fremstur í dalnum. Fengust greiðslur fyrir að taka á móti. Lágreistur og þröngur torfbær. Og heimafólk og gestkomandi gengu örna sinna á sama stað og kúin.

Það er ekki lengra síðan.

Sjálfur ólst ég að hluta upp í sveit. Eyjafirði. Hjá föðurfólki mínu. Á sumrin. En líka í bænum. Hafnarfirði. Dásamlegur bær og þar eignaðist ég mína æskuvini.

Faðir minn var leigubílstjóri í meira en 25 ár. Reyndar 40 ár. Og er enn við hesta heilsu. Enda stutt á milli okkar. Fórum saman á rjúpu í sveitinni okkar um þar síðustu helgi. Mjög vel heppnuð ferð. Mamma er ári yngri en pabbi og því enn yngri en hann þegar ég átti að fara í lakið. Mér er sagt að ég sé getinn í séníver. Trúi því alveg. Þau voru ekki par þá og mér skilst að föðuramma mín hafi lagt það til að pabbi byði henni til dvalar í sveitinni með þungann. Enda móðuramma mín á þeim tíma ein með 6 börn. Ég lít á þetta sem mína blessun. Hefur gengið vel síðan og ég hef bara spjarað mig ágætlega þótt ég segi sjálfur frá. Ég hef fengið að prófa alls konar um ævina. Eins og þeir vita sem hafa fylgst með blogginu mínu undanfarin ár.

Það var ekki lagt að mér að fara í langskólanám en ég var vel studdur til að gera það sem mig langaði. Og þar sem föðuramma mín sagði víst, þegar ég var mjög ungur, eftir að hafa horft á mig reyna að negla nagla í spýtu, að þessi drengur yrði aldrei smiður þá var það afgreitt. Ömmubræður mínir voru nefnilega margir miklir handverksmenn til handa og kunnu að búa til fallegt.

Þannig að mín örlög urðu þau að ég endaði sem lögfræðingur. Eftir að hafa velt fyrir mér um stund hvort væri áhugaverðara að verða lögfræðingur eða líffræðingur. En þetta var áður en Kári Stefáns kom heim með Decode. Ég sá bara ekkert annað fyrir mér á þeim tíma en að ég hefði orðið kennari, ef ég hefði lært líffræði. Og þá væri ég alltaf í verkföllum. Enda upplifði ég tvö slík sem menntaskólanemi. Að því sögðu tek ég fram að ekki er við kennara að sakast heldur kerfið sem við höfum búið þeim og okkur.

Pólitíkin.

Ég veit ekkert alveg af hverju ég varð hægri maður. Sennilega hefur það eitthvað með það að gera hvað var fyrir manni haft. Í sveitinni voru keypt nokkur blöð og þar voru fyrirferðamest Mogginn og Tíminn. Sjallar og Framsókn. Föðurbræður mínir aðhylltust hvorn sinn flokkinn. En það var samt ekkert mikið talað um pólitík nema rétt um kosningar. Og þegar þær voru fékk ég að horfa á sjónvarp lengi, lengi, lengi. Og svo lengi stundum að ég vissi ekki hvort það var dagur eða nótt. Og var jafnvel sofandi þegar beljur voru sóttar að morgni, sem var mitt hlutverk á þessum árum.

En á þessum árum við þetta uppeldi varð þessi vísa til af kúasmala sem var ca. 9 eða 10 ára gamall:

Sjálfstæðisflokkurinn bestur er,
Framsóknarflokkinn næst ég tel,
Alþýðuflokkurinn ekkert sér
og Alþýðubandalagið ekkert er.

En af hverju hægri maður?

Jú, að sjálfsögðu munu vinstri menn segja að ég hafi einfaldlega verið heilaþveginn ungur og geti ekki skipt um skoðun þess vegna. Og sem ég hef vissulega heyrt.

Það er bara í fínu lagi og lýsir best þeirra eigin hugsunarhætti. En staðreyndin er sú að ég hef reynt að kynna mér söguna og lesið mér til um aðra strauma og stefnur. Ég hef reynt að læra af sögunni. Móta mér mínar eigin skoðanir á því hvernig mér hugnast sjálfum að þjóðfélagið og samfélagið eigi að virka.

Mér finnst Geir Haarde orða hægri stefnuna vel í nýútkominni ævisögu hans: ... þeirri grundvallarahugmynd að hver einstaklingur ætti að hafa frelsi og skilyrði til að njóta og þroska hæfileika sína og atorku fyrir sjálfan sig og samfélagið allt en yrði jafnframt að bera ábyrgð á gjörðum sínum og orðum. Allir einstaklingar ættu að hafa möguleika á að leita lífshamingjunnar með þeim hætti sem þeir teldu sér fyrir bestu innan ramma viðtekinna samfélagsreglna. Með þeim hætti fengi fjölbreytileiki mannlífsins best dafnað og einstaklingar væru ekki allir steyptir í sama mót eins og í þjóðfélögum þar sem hóphyggja er ríkjandi en umburðarlyndi fyrir viðhorfum annarra víkjandi. Þannig mætti einnig skapa efnahagsumgjörð sem veitti einstaklingum, fyrirtækjum þeirra og samtökum, svigrúm til að spreyta sig og vera sinnar eigin gæfu smiður. Slík umgjörð tryggir jafnframt að sem mest verði til ráðstöfunar fyrir þá sem minna mega sín eða standa af einhverjum ástæðum höllum fæti í lífinu en umhyggja og virðing fyrir þeim er mikilvægur þáttur í þeirri hugmyndafræði ...

Þetta er mín eigin skoðun en ég virði skoðanir annarra þótt þær séu ekki þær sömu og mínar eigin. Og ég trúi því að það sé mér hollt að aðrir hafi aðrar skoðanir ef svo skyldi vilja til að mínar skoðanir væru ekki réttar. Sem að sjálfsögðu getur gerst (en auðvitað ekki líklegt (!)). Og þess vegna er kannski ágætt að við búum við samsteypustjórnir þótt ég fái ekki alltaf öllum mínum skoðunum framgengt í þeim.

Og einu sinni kaus ég næstum ekki Sjálfstæðisflokkinn. Það var eftir hrun. Ég var ekki par ánægður með ástandið frekar en aðrir og fannst Sjálfstæðisflokkurinn bera mikla ábyrgð. Meira að segja svo mikla að ég held ég hafi látið hafa það eftir mér einhvers staðar að við ættum að hætta að vera með handónýta íslenska þingmenn og gangast aftur undir erlend yfirráð. En þetta var auðvitað sagt í hálfkæringi og uppnámi vegna ástandsins. En það fór samt svo að ég kaus Sjálfstæðisflokkinn. Ástæðan var einfaldlega sú að eins og talsmenn annarra flokka töluðu á þessum árum þá leist mér ekki vel á blikuna. Því var ljóst í mínum huga að Sjálfstæðisflokkurinn yrði að hafa eins sterka rödd á Alþingi og hægt væri til að spyrna við fótum í stjórnarandstöðunni og verja hægri stefnuna gegn vinstri sósíalismanum sem var í pípunum.

Og þá má spyrja, fyrst ég hef þessar miklu skoðanir, af hverju fór ég ekki í pólitík?

Ég ætlaði þangað og varð virkur í pólitík um stund. Fór í stjórn Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og kynntist þar mörgu góðu fólki. Og ég valdi mér málaflokk. Málefni aldraðra. Fannst ekki nógu vel hugað að þeirra þörfum. Það var fyrir næstum 20 árum. Þá fékk ég ólæknandi blóðkrabbamein sem tók hug minn allan og ég ákvað að hætta afskiptum af pólitík. Og nú er ég ennþá lifandi og 20 árum nær því að verða gamall. Já og talandi um það. Í vikunni sótti ég málþing á vegum HÍ ofl. í tilefni af hundrað ára afmæli Vatnalaga sem tóku gildi 1. janúar 1924. Og það var eins og ég væri kominn aftur í lagadeildina árið 1990. Þarna sá ég marga af mínum fyrrum mentorum á þeim árum, sumir orðnir ansi gamlir á meðan aðrir voru furðu lítið breyttir. Einn reyndar augljóslega með sama hárgreiðslumeistara og pabbi. Litur sem mér finnst alls ekki fallegur. Já og þarna sá ég unga prófessora sem ég mundi ekkert eftir meðan ég var í náminu en hef vissulega séð síðan. Og sumir hafa skrifað merkilegar bækur sem eru góðar. Já og þarna sá ég haug af dómurum. Alls konar dómurum. Fyrrverandi dómurum og núverandi dómurum. Dómara sem jafnvel langar að hætta að vera dómarar eða dómarar sem vilja verða öðru vísi dómarar. Komast á næsta stig fyrir ofan það stig sem þeir eru núna á. Það er gott fyrir bæði þá, þær, þau og okkur hin. Já og lögmennirnir. Þetta eru sko engin smámenni. Klappandi hver öðrum á axlirnar og hlæjandi hrossahlátri sem glumdi um salinn. Þarna var sem sagt rjóminn kominn, jú og tveir rafmagnsverkfræðingar að sögn rektors, og ég.

Ótrúlegt að sjá hvað sumir hafa breyst. Og meira að segja bekkjarfélagar mínir. Þetta er bara að verða síðmiðaldra fólk! Það er ákaflega heppilegt hvað ég líkist þeim lítið.

En að bókardómum.

Í inngangi vísaði ég til þess að ég hefði lesið nokkrar bækur. Ein af þeim er bók eftir Hlyn Níels Grímsson lækni. Súkkulaðileikur. Hlyni kynntist ég ágætlega þegar ég starfaði sem framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands á árunum 2002-2007. Við vorum saman í samninganefnd lækna um tíma og varð ágætlega til vina þá. Eftir veru mína hjá læknafélaginu hafa leiðir okkur stundum legið saman, þó ekki oft, og þá helst í gegnum fésbók. Þegar hann tilkynnti um útgáfu sína á bókinni Súkkulaðileikur, pantaði ég bók hans. Hann bað kurteislega fésbókarvini sína að birta ritdóma um bókina, ef þeir hefðu nennu til. Ég gerði það og finnst bókin góð. Bókin er gagnrýnin á samtímann og höfundur hlífir fáum. Hann fer ekki í manngreinaálit heldur beinir hvössum stíl sínum til að benda á ýmsar brotalamir. Að mati höfundar virðist spilling og vangeta vera víða í samfélaginu.

Björn Þorláksson þekki ég úr menntaskóla MA og við höfum á ská tengst fjölskylduböndum þótt ekki séum við nátengdir. Ég hef fylgst með málefnum hans í gegnum fésbók í nokkur ár, enda notar hann þann miðil vel.

Þegar hann hóf að auglýsa bók sína Besta vin aðal á fésbókarsíðu sinni til fjáröflunar rann mér blóðið til skyldunnar og keypti af honum bókina. Og las hana. Síðan opna ég ekki fésbókina öðru vísi en að sjá Björn auglýsa bók sína með lofsamlegum umsögnum um bókina. Og þær eru margar. Svo margar að forleggjarinn er að sögn að láta prenta annað upplegg.

Þetta er virkilega vel gert hjá Birni. Því eins og hann sjálfur lýsir þá er þetta gerlegt með vinum hans á fésbók. Meginstraumsmiðlar taka nefnilega bókina ekki til umfjöllunar.

Og af hverju skyldi það nú vera?

Kannski er það vegna efnistakanna. Strax í inngangi er tónninn sleginn rækilega með umfjöllun um Bjarna Ben og augljóst hvaða hug höfundur hefur til hans. Þá næst ber hann saman meðferð blaða- og fréttamanna á frambjóðanda til forseta, Höllu Hrund, sem höfundi er greinilega þóknanleg. Honum finnst kollegarnir gera mikinn mannamun hvenær þeir setja á sig silkihanskana og hvenær þeir taka þá af. Hann skýtur fast á kollegana og finnst þeir oft vera vanmáttugir.

Höfundur segist leggja í dóm lesenda hvort Besti vinur aðal, sem sé yfirlit pælinga, skoðana og rannsókna verði til gagns í þjóðmálaumræðu.

Vegna upptakts í inngangi og efnistaka fellur bókin að þessu leyti. Hún getur ekki orðið til gagns í þjóðmálaumræðu. Höfundur staðsetur sig rækilega. Þeir sem eru sammála lífsskoðunum og afstöðu höfundar elska bókina. Hinir gera það ekki. Og ég er ekki viss um að margir þeirra komi til með að lesa bókina. Bókin verður því hróp í bergmálshelli.

Þetta er samt lipurlega skrifuð bók og lítið um stafavillur því Björn er mjög vel pennafær.

En hann velur viðmælendur eftir sínum þörfum sem hann veit fyrirfram hvaða skoðanir hafa á hlutunum og þær falla oftast að hugmyndafræði höfundar. Brynjar Níelsson er þar undantekningin. Enda fjallar höfundur með öðrum hætti um samtal sitt við hann en aðra viðmælendur. Hann bendir m.a. á að Brynjar sé pólitískur refur og liðtækur spunameistari. Samherjamálið er höfundi hugleikið. Hann nefnir ýmis dæmi þar sem hann telur vera um að ræða spillingu. Allt eru þetta dæmi sem hafa margoft áður verið til umfjöllunar. Það kemur fátt nýtt fram í bókinni heldur er höggvið í sama knérunn og hefur margoft verið gert. Helst má nefna sögur hans sjálfs um samskipti við fyrrum ráðherra, sem honum finnst rétt að rifja upp að hafi verið fyrrum Samherjaskipstjóri, og síðar við sjálfan Samherjaforstjórann. Og við þær sögur renna upp hugrenningatengsl við nýútkomna bók Ólafs Ragnars Grímssonar þar sem hann segist engu hafa breytt eða bætt við dagbókarfærslur sínar. Heimildarmenn Björns eru æði oft nafnlausir af ótta við spillingaröflin. Og hann sleppir miklu. Mörgum dæmum öðrum sem ratað hafa í fjölmiðla í gegnum árin. En það eru líka dæmi sem snúa ekki að Sjálfstæðismönnum.

Í bókinni er mikið orðasalat. En æði oft innihaldslítið. Nema kannski þegar höfundur talar um sjálfan sig. Sem hann gerir oft. Að sumu leyti má líta á bókina sem upptakt að sjálfsævisögu. Merkilegt hvað margir höfundar þurfa að koma sjálfum sér að í skrifum sínum án þess að vera að skrifa ævisögu!

Í bókinni eru dylgjur, margar. Hálfkveðnar vísur sem eiga að sýna spillingu. Má sem dæmi nefna þegar höfundur segist ekki staðhæfa að spillt öfl hafi brugðið fyrir hann fæti en vísar síðan til þess að í lögfræði sé til hugtak sem kallast skynsamlegur vafi. Punktur.

Orðhengilsháttur, tittlingaskítur, þöggun, mælskubrögð eru allt orð sem höfundur notar um þá sem hann segir reyna að trufla einbeitingu almúgans við greiningu á kjarna málsins. Sækir hann þessi orð í skrif listaskáldsins Halldórs Laxness í Innansveitarkróniku hans. En það má allt eins nota þessi sömu orð til lýsingar á Besta vin aðal. Aðferðafræði þessara orða er hiklaust beitt til að undirbyggja þá miklu spillingu sem höfundur telur einkenna marga innan Sjálfstæðisflokksins.

Ég ætlaði alls ekki að taka bókina Besta vin aðal til umfjöllunar. Höfundur má vel hafa sínar skoðanir á Sjálfstæðisflokknum og einstökum persónum í honum án afskipta minna.

En það var tvennt sem fékk mig til að skipta um skoðun. Höfundur fór í framboð korteri eftir útkomu bókarinnar. Og hann fer mikinn á fésbókarsíðu sinni um Hvalamálið.

Það að höfundur ákvað að fara í framboð fyrir stjórnmálaafl setur bók hans í annað samhengi. Vissulega var höfundur ekki hlutlaus samfélagsrýnir þegar hann skrifaði bókina. Hann var augljóslega með markmið sem hann kemur rækilega til skila í bókinni. En með framboðinu verður hann beinn þátttakandi í kapphlaupinu um atkvæði kjósenda. Og beinir með því kastljósinu enn frekar að sjálfum sér og því stjórnmálaafli sem hann býður sig fram fyrir.

Og hann beitir bókinni hiklaust í stjórnmálabaráttu sinni. Þegar honum er bent á að hann sé mögulega á gráu svæði með þessu framboði sínu ýfist hann upp og segir á móti að hann hafi skrifað bók um spillingu og ætti að þekkja hana. Og hvernig gagnast það honum? Er hann orðinn handhafi sannleikans eftir skrifin? Kannski Besti vinur aðal?

Björn skrifar texta á heimasíðu sína um mikla spillingu innan Sjálfstæðisflokksins með því að Jón Gunnarsson var gerður að aðstoðarmanni Bjarna Ben í ráðuneyti matvæla. Þessum texta er dreift víða, enda telst Björn núna af sumum sérfræðingur í spillingu.

Hann segir að ef ekki hefði verið sagt frá hinni leyndu upptöku þá hefðu Jón, Bjarni og Kristján Lofts komist upp með að gefa út hvalveiðileyfi. Þetta sé enn eitt dæmið um skefjalausa spillingu sem hann telur styðja að sínu mati við trúverðugleika Besta vinar aðal. Já og ekki gleyma því að hann segir að sennilega hagnist ættingjarnir um hundruð milljóna. Sennilega. Dylgjur.

Þarf ekki að staldra aðeins við? Skv. lögum er heimilt að veiða hval. Ráðherrar VG komust upp með að gefa ekki út hvalveiðileyfi í raun. Það var í trássi við lög. Má sem sagt fara á svig við lög ef það hentar málstaðnum? Er það ekki spilling? Kannski efni í aðra bók? Hvenær þarf að breyta lögum til að þurfa ekki að fara eftir þeim og hvenær þarf þess ekki? Hvaða skoðanir réttlæta að ekki sé farið að lögum?

Þetta er orðið ansi öfugsnúið. Hver er nú besti vinur aðal? Riddari lyklaborðsins, margreyndur fjölmiðlamaður réttlætir lögbrot ráðherra VG. Og fer sjálfur í framboð. Og sakar alla aðra um spillingu.

Ætli ég sé ekki núna orðinn besti vinur aðal?

Gunnar Ármannsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og átján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband