Áramótahlaupaannáll 2023

Í síðasta áramótapistli mínum var smá væll í pípunum eftir að hafa slegist við Covid pödduna í þrígang á árinu og í síðasta skiptið vikuna fyrir jól. Að auki var ég úr takti allan nóvember mánuð og gat þá ekkert hlaupið. Þannig að ég var ekkert sérlega upplitsdjarfur fyrir hlaupaárinu 2023. En nú í lok árs get ég samt ekki annað en glaðst yfir hlaupnum kílómetrum og 7 skemmtilegum keppnishlaupum, sem voru að meðaltali 43,3 km. En það var Pósthlaupið, sem er 50 km, sem náði að hífa meðaltalið upp fyrir maraþonvegalengdina. Það reyndar stendur til að taka þátt í gamlárshlaupi ÍR þannig að gangi það eftir þá riðlast þessi skemmtilega tölfræði. En því hlaupi er ekki lokið við ritun þessa pistils og ég hef það að venju að telja aldrei hlaup fyrr en þeim er lokið í marki.

En það er ekki hægt að halda því fram að ég hafi verið í góðu formi þegar ég hóf æfingar 2023. Engir km hlaupnir í nóvember og desember endaði í 66 km þar sem ég missti alveg viku 51 vegna Covid og vika 52 voru heilir 25 km. Þannig að það var hægt hlaupið í janúar og febrúar en samt voru það ágætir æfingamánuðir þar sem fyrri mánuðurinn endaði í rúmlega 200 km og sá seinni slagaði í 300 km. Mars var síðan bara mjög góður með rúmlega 350 km og hraðinn fór aðeins að aukast. Þannig að þegar komið var að vormaraþoninu í apríl var ég bara orðinn nokkuð brattur og setti mér tímamarkmið um að reyna við sub 3:45.

Þegar kom að hlaupadegi þann 22. apríl var venju samkvæmt ljómandi gott hlaupaveður og aðstæður því góðar. Mér tókst að ná fínu hlaupi og endaði á 3:40 eitthvað. Og ég náði að útfæra hlaupið ágætlega þar sem ég var ekki nema rúmlega mínútu lengur með seinni helminginn. Þetta telst vera mitt hraðasta maraþon síðan vorið 2018 þegar blóðgildin fóru að lækka. Þannig að vonandi veit þetta á gott.

Þremur vikum seinna var ég mættur til Helsinki ásamt eiginkonu og mágkonu. Þar var markmið eiginkonunnar að hlaupa á 5 tímum. Ég hljóp með henni og þrátt fyrir nokkra erfiðleika í hlaupinu náðum við að hlaupa á 5 tímum sléttum. Þar með lauk ég við að hlaupa maraþon í öllum höfuðborgum Norðurlandanna og að auki í Þórshöfn í Færeyjum. Það var haldið maraþonhlaup í Nuuk á Grænlandi til nokkurra ára en því var aflýst 2020 eins og fleiri hlaupum vegna Covid. Ég get ekki fundið upplýsingar í fljótu bragði um að þetta hlaup hafi verið gangsett að nýju. En það er samt á to do listanum að hlaupa maraþon á Grænlandi þótt það verði ekki endilega í Nuuk.

Í lok maí skellti ég mér í Mývatnsmaraþonið í þriðja skiptið á æfinni. Það var alveg ævintýralega leiðinlegt veður þann daginn. Hitastig var um frostmark og var startinu seinkað um eina klukkustund því þegar átti að starta var glórulaus snjóbylur í gangi. En sem betur fer gekk veðurspá eftir þannig að það stytti upp og birti til. En það var ótrúlega hvasst úr norðvestri. Þar sem brautin er hringur lá auðvitað fyrir að vindur yrði bæði með og á móti. Fyrstu 13-14 km voru ágætir því þá var vindur að mestu á hlið og jafnvel aðeins í bakið. En km 14 til ca 22-23 voru strembnir. Beint í smettið. Ég hélt að ég hefði verið ágætlega skynsamur á þessum kafla og ekki tekið of mikið úr mér. En það reyndist bara alls ekki rétt. Ég komst aldrei almennilega í gang seinni hlutann og náði ekki markmiðinu um að vera undir 4 tíma að klára. En það er bara allt í lagi, þetta var samt ævintýri og gaman. Það sem kannski stóð upp úr í þessu hlaupi eru frábærir fyrstu tímar í þessum aðstæðum. Sigurjón Ernir á rúmlega 2:55, sem ég veit ekki hvort er brautarmet en amk langbesti sigurtími síðan 2016, og Atli Steinn Sveinbjörnsson á rúmlega 3:03. Og það er engin smá bæting frá fyrra ári þegar hann vann á tímanum 3:11 í miklu betri aðstæðum.

Hið sívinsæla Snældubeinsstaðamaraþon var þreytt í byrjun júlí. Keppendur voru samtals 26. Þeir yngstu voru 10 mánaða og 1,5 ára og ferðuðust báðir í kerrum. Einn tæplega fjögurra ára fór fyrir eigin vélarafli 4 km á tímanum 53:57. Innifalið í þeim tíma er blómaskoðun og lambaskoðun og almennar vangaveltur um lífið og tilveruna. Einn á áttræðisaldri og úr takti lét sig hafa það að fara 11,13 km og vann í þeirri vegalengd. Samtals 12 keppendur voru lengur í brautinn en 2 tíma. Til viðbótar voru 7 keppendur sem voru milli einn og tvo tíma. Sjálfur fór ég 42,2 km og var einn í þeirri keppnisvegalengd. Minnstu munaði ég næði ekki sigri. Strax í upphafi fann ég fyrir leiðinda taki framan í nára og varð að fara niður í gönguhraða eftir ca 15 km. Var þá að hugsa um að snúa við og stytta keppnisvegalengdina. En þar sem þetta er fram og til baka braut ákvað ég að þrjóskast við og halda áfram að snúningspunkti við 21,1 km. Ég þyrfti þá einhvern veginn að koma mér heim og myndi þá enda með að klára alla maraþonvegalengdina. Ég hélt því áfram á mjög rólegu joggi og á þessum kafla að auki í mótvindi. En þegar ég snéri við og hljóp undan vindi þá fann ég smátt og smátt að takið í náranum linaðist. Og á endanum varð þetta að enn einni kennslunni í lífsleikni kúrsinum. Eftir því sem lengra leið tókst mér að greikka sporið og síðustu 8-10 km leið mér orðið ljómandi vel og var kominn á hinn þokkalegasta hlaupahraða. Og eins og svo oft áður þá þarf að stilla markmiðin miðað við aðstæður. Þegar ég var búinn að snúa við á snúningspunkti og jogga til að byrja með af aukinni ákefð þá var komið nýtt markmið og það var að reyna að klára á undir 4:30. Þegar upp var staðið kláraði ég á undir 4:25 og fannst ég hafa unnið stórsigur.

Enn eins og sumir vina minna vita þá safna ég sjúkdómum. Í fyrra haust fór ég í læknisrannsókn þar sem m.a. lungnastarfsemi er skoðuð. Ég lenti í úrtaki fyrir um 30 árum síðan og er þessari rannsókn fylgt eftir á um 10 ára fresti. Hingað til hefur ekkert markvert hvað mig sjálfan varðar komið út úr þessum rannsóknum. Nema að nú í vor fékk ég símhringingu þar sem mér var tilkynnt að ég væri kominn með kæfisvefn. Það kom mér verulega á óvart því það hafði ekki hvarflað að mér. Ég er oftast ekki mjög feitur og að sögn hrýt ég ekki. Þannig að ég er ekki alveg týpískt eintak til að vera með þennan kvilla. Það kom mér reyndar á óvart að heyra að allt að 30% kæfisvefnssjúklinga væru í svipuðum sporum og ég. En þessi niðurstaða þýddi að nú í sumar eignaðist ég nýja hjásvæfu. Ég er sem sagt kominn með kæfisvefnsvél sem á að hjálpa mér að hætta að kafna á nóttunni. En ég sem sagt mældist hætta að anda 19 sinnum á klukkustund sem færði mér þennan gleðigjafa inn í líf mitt. En það skal viðurkennt að vélin gerir gagn. Eins og ég hef stundum sagt áður er ég ekki endilega skarpasti hnífurinn í skúffunni. Ég var ekkert að fatta að aukin þreyta yfir daginn ætti sér þessar skýringar. Ekki einu sinni það að ég var farinn að finna að eftir hádegismat gat ég varla unnið fyrstu klukkustundina fyrir syfju. Hafði meira að segja komið fyrir að ég lagði mig í sófa og tók kríu í nokkrar mínútur. Ég hugsaði alltaf með mér að þetta væri bara af því hvað ég er búinn að vera duglegur að hlaupa í ár. Sem sagt endurtekning frá árinu 2005 þegar ég gat með engu móti tengt sjúkdóm við versnandi líkamsástand. Kannski læri ég þetta á efri árum, eða bara alls ekki. Sem er líklegra.

Næsta hlaup sem ég tók þátt í árinu var Pósthlaupið. Það er 50 km hlaup frá Hrútafirðinum, yfir Haukadalsheiði, niður Haukadalinn að þjóðveginum og meðfram honum í Búðardal. Mjög skemmtilegt hlaup. Það var kalt í Hrútafirðinum og þokuslæðingur á heiðinni. En þegar niður var komið efst í Haukadal var sól og blíða og hinar bestu aðstæður. Mér fannst mér ganga ljómandi vel og kláraði 42,2 km á rúmum 4:17 sem mér fannst gott að teknu tilliti til þess að yfir heiði var að fara og ég átti eftir um 8 km. Ég komst á topp 10 í hlaupinu og var ánægður með það. Finnst í raun óþarft að nefna að það voru bara 12 þátttakendur í þessari vegalengd. En þetta hlaup var merkilegt fyrir mig persónulega. Ég var langelsti þátttakandinn og held að það sé í fyrsta sinn sem það gerist, fyrir utan þau tilviki þegar ég keppi einn í minni vegalengd í Snældubeinsstaðamaraþoninu!

Þremur vikum eftir Pósthlaupið hljóp ég nýju brautina í Reykjavíkurmaraþoninu í fyrsta sinn. Ég var bjartsýnn fyrir hlaupið og stefndi á sub 3:45 eins og í vormaraþoninu. Ég var ekki búinn að æfa jafnmarkvisst fyrir þetta hlaup eins og vormaraþonið þannig að ég taldi ekki vera innistæðu fyrir meiru. En þegar til kom tókst mér vel til og endaði á 3:41. Útfærslan var vel ásættanleg. Þar sem ég vissi að seinni hlutinn er ekki alveg eins flatur og fyrri hlutinn þá tók ég smá áhættu með hraðann til að byrja með. Fór fyrstu 10 km á 50 mínútum sléttum og var á um 1:46 eftir hálft maraþon, hraði sem ég hef ekki verið á í æfingum í mjög langan tíma. Markmiðið fyrir seinni hluta hlaupsins var síðan alltaf það að skríða undir 3:45 þannig að ég var himinlifandi með þetta.

Að venju dró ég mjög úr æfingum eftir Reykjavíkurmaraþonið. Ég hef til margra ára hlaðið í nokkra veiðitúra í lok ágúst og inn í september. Þá er minna hlaupið. Og að auki fór ég í tæplega viku ferð um miðjan september til Frakklands þar sem áherslan var lögð á góðan mat og góð rauðvín. Æfingafötin voru meira að segja skilin eftir heima. Hlaupaárinu var síðan lokið með haustmaraþoninu (nema ef ég klára gamlárshlaupið). Það var auðvitað bráðgaman og hljóp ég í góðum félagsskap Trausta Vald og Kiddó fyrri hlutann. Þegar fór að nálgast snúning eftir fyrri ferðina fór líferni haustviknanna og minna æfingamagn að segja til sín þannig að ég varð að gefa eftir. En það var í fínu lagi og enn eitt maraþonið í húsi.

Þá er heildarfjöldi maraþona kominn í 56 í 20 löndum, 12 höfuðborgum og 7 heimsálfum. Þess má geta að ég hef hlaupið 28 á maraþon á Íslandi þannig að ennþá eru maraþonin hlaupin erlendis fleiri. En það hefur dregið býsna hratt saman frá því eftir Covid. Nú það bættist við eitt ultra maraþon þannig að þá eru þau samtals orðin 7. Að ógleymdum 6 Jökulsárhlaup sem eru 32,7 km. Það er orðið allt of langt síðan ég hef tekið þátt þar þannig að það er orðið löngu tímabært að bæta úr því. Þá er það síðasta talan sem ég veit að hlaupaheimurinn bíður spenntur eftir. Hlaupnir km í ár reyndust vera rúmlega 2600 þannig að síðan ég byrjaði skipulega að hlaupa 10. apríl 2008 eru heildar kílómetrar komnir í tæplega 43.400. Þar sem sporbaugur jarðar er sagður vera um 40.075 km verð ég að hlaupa annan hring, eða taka stefnuna til tunglsins. Það myndi reyndar taka býsna mörg ár með þessu framhaldið því stysta vegalengd til tunglsins frá jörðu, þegar tungl er næst jörðu, er sögð vera 363.300 km. En áhugaverður fróðleiksmoli. Nú og svo er auðvitað hægt að leggja að stað í enn eina ferð um hringveginn. Ég er sem sagt að verða búinn með sem samsvarar 33 hringjum.

Markmið næsta árs eru þau sömu og síðustu ár og reyna að hlaupa meira en í ár og helst fleiri maraþon. Hlaupadagskrá næsta árs felst í því að taka þátt í sem flestum maraþonum hér heima og eins og er hef ég augastað á Prag í Tékklandi. Plan B er hlaupið í Kaupmannahöfn en það er alveg að verða tímabært að hlaupa þar einu sinni enn.

Og lífið heldur áfram að endurtaka sig. Rétt fyrir jólin fyrir 18 árum, þá 38 ára gamall, greindist ég með blóðkrabbamein. Rétt fyrir jólin í ár greindist litli bróðir, 40 ára, með blóðkrabbamein. Tilviljun?

Ég hleyp af því að ég get það, og þegar ég get.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 70306

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband