15.12.2023 | 14:35
Sýndarverkföll eða raunveruleg verkföll.
Af tilefni frétta í dag.
Tvær vinnustöðvanir hjá flugumferðarstjórum eru nú að baki. Sú þriðja boðaða er nk. mánudag og hefur Félagsdómur í dag komist að þeirri niðurstöðu að boðunin sé lögleg. Eins og staðan er núna eru yfirgnæfandi líkur á að hún komi til framkvæmda.
Í Vísbendingu, birt í dag 15. desember 2023, er grein eftir hagfræðing BHM þar sem hann bendir m.a. á að sumir hópar, hluti millistéttarinnar og efri tekjuhópar, hafi setið eftir um langt skeið meðan félagsmenn sumra stéttarfélaga hafa upplifað verulega kaupmáttaraukningu.
Hagfræðingurinn bendir á að þessir hópar, sem hafa setið eftir, munu leitast við að verja hlutfallslaun sín og sækja bætur aftur í tímann í komandi kjarasamningsgerð. Komið gæti til átaka á vinnumarkaði, í það minnsta ef almenni markaðurinn og opinberi markaðurinn taka ekki tillit til þarfa hvors annars.
Hann bendir á að hverfa þurfi af þeirri braut að krefjast krónutöluhækkana og krónutöluþaks hjá öllum hópum launafólks. Staðreyndin sé sú að hluta millistéttarinnar hafi verið gert að undirgangast kaupmáttarrýrnun frá 2019, að kröfu almenna markaðarins og með samþykki stjórnvalda.
Það eru í gangi verkföll og það stefnir í fleiri verkföll.
Það minnti mig á efni sem ég las um fyrir nokkrum árum og hef rifjað upp. Ég sakna þess að hafa aldrei rekist á opinbera umræðu um efnið.
Sýndarverkföll.
Þeim hefur verið beitt í einhver ár með því er að virðist með nokkrum árangri í Ísrael og á Ítalíu. Því þá ekki Íslandi?
Í stuttu máli felast sýndarverkföll í því að launamenn halda áfram vinnu sinni en laun þeirra, meðan á sýndarverkfalli stendur, ganga til einhvers tiltekins góðgerðarmálefnis. Á sama tímabili renna allar tekjur vinnuveitanda til góðgerðarmálefnis. Með þessu móti er tjón samfélagsins takmarkað og verkfallið bitnar fyrst og fremst á deiluaðilum.
Á það hefur verið bent að bæði í Ísrael og Ítalíu er tiltölulega þróuð löggjöf á sviði félagslegra réttinda fyrir launafólk hvað varðar ráðningarsamband og vinnuskilyrði. Það sama á við á Íslandi.
En til að unnt væri að taka upp sýndarverkföll myndi þurfa heilmikla umræðu og lagabreytingar. Slíkt verður ekki gert fyrir komandi kjarasamningsgerð. En það má vel velta fyrir sér, í ljósi sögunnar á Íslandi, hvort slík umræða og vinna væri tilraunarinnar virði?
Það eru vissulega fjölmörg álitaefni sem þyrfti að leysa úr. T.d. hvernig ætti að boða slík verkföll, hvort þeir sem eru í verkfalli megi vekja sérstaka athygli á verkfallinu og þá hvernig? Hvernig skal fara með skattlagningu á tekjum sem launafólk vinnur fyrir en rennur ekki til launafólks? Á sýndarverkfall að koma í stað raunverulegs verkfalls eða á það eingöngu að vera mögulegur undanfari? Á að setja reglu um að fyrst verði að eiga sér stað sýndarverkfall áður en heimilt er að boða til raunverulegs verkfalls? Hvernig nákvæmlega á að ráðstafa fjármunum sem safnast upp í sjóð á meðan á sýndarverkfalli stendur? Hver á að sjá um ráðstöfunina? Osfrv.
Kannski er þetta vonlítil umræða og ástæða þess að þetta hefur ekki verið tekið upp víðar? Á það hefur verið bent að þar sem tjón þriðju aðila er tekið út úr jöfnunni þá verði þrýstingur ekki nægilega mikill á samningsaðila. Sumir hafa sagt að ef sýndarverkföll væru tekin upp í meira mæli þá myndi það draga úr völdum stéttarfélaga.
En það hefur líka verið bent á að þetta hafi reynst vel til að fá samningsaðila til að setjast að raunverulegu samningaborði.
Er þetta ekki umhugsunarinnar virði? Eða eru allir aðilar vinnumarkaðarins sammála um að hafa þetta óbreytt og búa við kollsteypur verkfalla reglulega inn í framtíðina?
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 70306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.