30.12.2021 | 10:03
Áramótahlaupaannáll 2021
Þetta skrýtna ár - var fyrirsögn pistilsins í fyrra. Þar sem alltaf er verið að hvetja okkur til meiri umhverfisvitundar ætla ég að endurnýta fyrirsögnina í ár því að mörgu leyti er árið búið að vera déja vu ársins í fyrra.
Þetta skrýtna ár.
Árið í ár er í tvennum skilningi búið að vera endurómur ársins í fyrra. Að sjálfsögðu allt sem tengist Covid 19 og síðan hitt að nú er ég um það bil að verða búinn að ljúka seinna árinu í eftirmeðferðinni. Á bara eitt skipti eftir sem ég klára í mars nk. ef allt gengur að óskum.
Heilsufarslega er árið búið að vera svipað og í fyrra. Ég hef náð að næla mér í pest eftir pest en þó hingað til sloppið við kóvítis kóvítið (höf. Þráinn Bertelsson, facebook), 7,9,13. Þetta pestavesen er búið að hafa svipuð áhrif og í fyrra á þann hátt að ég hef getað hlaupið minna en ég vildi. Yfirleitt alltaf þegar ég hef verið að ná mér á strik þá hef ég orðið að hætta eða draga úr æfingum í einhvern tíma. Þannig að þetta er búið að einkennast af því að það er eins og maður sé alltaf nánast á byrjunarreit. En það ber þó að þakka fyrir það að geta aftur og aftur komist á byrjunarreit. Sumir sem þurfa að stoppa af heilsufarsástæðum komast nefnileg ekki alltaf aftur á byrjunarreit. Af tvennu illu er mun betra að komast þangað aftur og aftur og aftur -en ekki.
En þetta ár var þó skárra en árið í fyrra að því leytinu til að ég náði að klára þrjú maraþon og einn Laugaveg þótt engin hraðamet hafi verið slegin. Að auki náði ég einu fínu hálfmaraþoni á vegum HHHC liða daginn sem Reykjavíkurmaraþonið átti að vera. Ég hljóp aðeins of langt en var á meðal hraðanum 4:45 min. pr. km. sem kom mér skemmtilega á óvart því fram að þessu hlaupi hafði ég nánast ekkert verið að hlaupa á undir 6:00 min. pr. km. Þannig að þetta sannaði ágætlega fyrir mér að hægar æfingar þær gefa.
En núna undir lok árs varð sú breyting á inngjöfum vegna ónæmiskerfisins að í stað þess að fara á fjögurra vikna fresti inn á spítala og fá inngjöf í æð þá er ég nú farinn að gefa mér ónæmislyf sjálfur undir húð á vikufresti. Með því fæ ég meira magn af lyfinu og inngjöfin verður jafnari. Það eru því heilmiklar væntingar á þessum bæ um að það fari að sjá fyrir endann á þessu pesta standi. Og það er því aldrei að vita nema ég geti farið að hlaupa með markvissari hætti og jafnvel að nálgast einhverja tíma í maraþonhlaupum sem ég hef ekki séð síðan á fyrri hluta ársins 2018.
En talandi um árið 2018. Það var um mitt það ár sem blóðsjúkdómurinn fór aftur að láta kræla á sér og það dró smátt og smátt af mér í hlaupunum. Það ár endaði ég með að hlaupa 2600,3 km og eyddi í það tæplega 241 kls.t á hlaupum í 175 æfingum. Árið 2019 urðu kílómetrarnir 2019 á 208 klst. í 154 æfingum. Árið 2020 urðu kílómetrarnir 2020 á 196 klst. í 160 æfingum. Nú þegar árið 2021 er að klárast kemur í ljós að æfingamagnið í kílómetrum er nánast það sama og árið 2018, eða 2600, en klukkutímarnir á hlaupum þó töluvert fleiri eða um 263 í rúmlega 190 æfingum. Þannig að þótt magnið sé sama og árið 2018 er ég þó búinn að ná fleiri klukkustundum á hlaupum þó að ég fari hægar yfir.
Þannig að ef hin nýja aðferð við að gefa mér ónæmislyfið gagnast vel, og eftirmeðferðinni verður lokið, er aldrei að vita nema ég nái aftur að komast yfir 3.000 km hlaupna á næsta ári.
Þá er það tölfræðin. Ég endaði síðasta ár með því að hafa hlaupið samtals frá 10. apríl 2008 36.508,3 km. Með því að bæta við núna 2.600 eru kílómetrarnir orðnir 39.108,3. Mig vantar því ekki nema rúmlega 900 km til ná að klára hringinn í kringum hnöttinn um miðbaugslínu sem eru 40.075 km. Ef mér tekst að halda mér sæmilega við efnið fyrstu mánuði ársins gæti þetta tekist í afmælismánuðinum í apríl 2022. Þetta verða þá engir 80 dagar eins og í skáldsögu Jules Verne heldur 14 ár!
Að baki eru nú 46 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum. Að auki eru að baki 6 hlaup sem eru lengri en maraþonvegalengdin.
Markmið næsta árs eru einfaldlega þau að ná að hlaupa meira en í ár og helst fleiri maraþon. Ég á skráningu í rauðvínsmaraþonið í Frakklandi í haust og vonandi verður ástandið þannig að hægt verði að hlaupa það. Að auki stefni ég auðvitað á sem flest maraþon hér innanlands og aldrei að vita nema hægt verði að skjótast eitthvað út fyrir landsteinana í fleiri hlaup en rauðvínshlaupið.
Ég hleyp af því að ég get það -og þegar ég get.
Gleðilegt nýtt hlaupaár!
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.