28.4.2021 | 15:17
Vorið er komið enn á ný.
Eftir drunga síðasta árs og byrjun þessa var dásamlegt að geta loksins tekið þátt í almenningshlaupi hér á Íslandi. Vakna að morgni hlaupadags með spenning í maganum og hefja sinn vanabundna undirbúning síðustu klukkutímana fyrir maraþon. Jú því þann 24. apríl sl. var blásið til maraþonhlaups á vegum Félags maraþonhlaupara frá Elliðaárdal og inn á Ægissíðu og til baka, tvisvar. Eitt það besta við vor- og haustmaraþonin hér á Íslandi er að mínu mati upphitunin. Það er algjörlega frábært að geta hitað upp inni í bíl, með hitann í botni á sætinu og stýrishjólinu, músíkina í botni og stökkva síðan út úr bílnum funheitur og fínn að ráslínunni þremur mínútum í start. Ég hef til þessa hvergi annars staðar rekist á þennan lúxus í ferðum mínum um heiminn að eltast við maraþonhlaup.
Það var þvílíkt gaman að rekast á gamalkunnug andlit hlaupafélaga á ráslínunni og mæta þeim síðan aftur nokkrum sinnum í brautinni, hvetja áfram og fá hvatningu til baka. Síðan þegar hálfmaraþonararnir bættust við í brautina fjölgaði enn frekar í kunningjahópnum og kveðjurnar flugu. Sumir hægðu á sér og hlupu stuttan spöl með mér og Pálmari, sem hlupum þetta saman eins og samlokur, og spurðu frétta og sögðu sjálfir fréttir. Geggjað!
Já að hlaupa eins og samlokur á tímum Covid 19 er ekki endilega gáfulegt. Þar sem töluverður strekkingur var að austan þá hjálpuðumst við Pálmar að við að brjóta vindinn í bæði skiptin sem við hlupum í austur átt. Sem var gott og blessað. En það er alveg öruggt að ef annar okkur hefur verið kominn með pestina fyrir hlaupið án þess að vita af því þá er hinn búinn að ná í hana eftir hlaupið. Því auðvitað hlupum við í svitaperlum hvors annars til skiptis þegar við brutum vindinn fyrir hvorn annan. En samstarfið gekk vel og engin einkenni komin fram ennþá. Við vorum ekki nema rétt um tveimur og hálfri mínútu lengur með seinni legginn, sem telst ágætt í maraþoni og ekki síst þar sem vindurinn varð meiri eftir því sem leið á hlaupið. Loka tíminn ekkert endilega frábær en undir því sem við ætluðum og í góðu samræmi við æfingamagn og almennt líkamsástand.
Talandi um líkamsástand. Ég er bara nokkuð góður og allur að koma til. Síðasta ár var auðvitað erfitt á margan hátt eins og við þekkjum. Í byrjun þessa árs lauk ég við fyrra árið af tveimur í eftirmeðferðinni og því bara eitt ár eftir. Það þýðir fjórar inngjafir í viðbót með einhverju styrkjandi. Ég hefði átt að fá inngjöf fyrir um tveimur vikum en í samráði við doktorinn var því frestað þar sem ekki er heppilegt að ég sé nýbúinn að fá lyfið þegar kemur að Covid sprautunni margþráðu. En mér sýnist reyndar á öllu að ég hefði ekkert þurft að fresta inngjöfinni því enn bíð ég og vona og ekkert bólar á bóluefninu. Allir í kringum mig eru að fara á taugum og ég er spurður daglega hvort ég sé búinn að fá þetta blessaða sms. Steininn tók nú eiginlega úr í gær þegar konan fékk boð um að koma í bólusetningu. Sem var svo auðvitað bara plat eins og hjá svo mörgum.
Sem sagt, allt í góðu en ég þoli ekki fésbókarvini mína sem eru að pósta þessum helv. myndum úr Laugardalshöllinni. Haldið þessu bara fyrir ykkur og gleðjist innra með ykkur yfir blessun ykkar.
Að minnsta kosti er ég ekki að pósta endalausum gosmyndum.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 70306
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.