5.8.2020 | 15:53
Hlaupið í gegnum Covid 19-eða ekki?
Þetta er búið að vera skrítið ár. Lauk við mína aðra krabbameinsmeðferð í nóvember sl. þannig að til stóð að taka aldeilis á því árið 2020 og koma fílefldur til baka á hlaupabrautina. Árið byrjaði svo sem ágætlega. Náði að hlaupa um 270 km í janúar og næstum 350 km í febrúar. Allt leit vel út og hraðinn var að aukast. Þá kom Covid 19. En blessunarlega hef ég ennþá sloppið við þá óáran. Hef reyndar engan áhuga á að gera tilraun á sjálfum mér með það hvernig ónæmiskerfið tekur á slíkri heimsókn. En það þarf ekki endilega Covid til. Ég fór að finna fyrir einkennum flensu þann 29. febrúar sl. og ég náði ekki að hrista hana af mér fyrr en í lok maí. Ég fór í test og fékk staðfest að ég væri ekki með Covid 19. En þetta var samt skítapest sem gerði það að verkum að ég gat lítið hlaupið í mars og apríl þótt apríl hafi verið heldur skárri. Ég hafði sett stefnuna á Helsinki maraþonið í lok maí og var að vonast eftir því að geta hlaupið þar á skikkanlegum tíma. Sem betur fer sá Covid 19 um að ég þurfti ekki að láta á það reyna.
Í maí fór sólin heldur að rísa og fyrri hluti mánaðarins var ágætur hlaupalega séð. Ég fór að geta hlaupið heldur meira og hraðar og var eins og belja að vori sem hleypt er út eftir langan vetur. Ég náði meira að segja í fyrsta skiptið í næstum tvö ár að hlaupa með hlaupafélögunum á skikkanlegum hraða á einni laugardagsæfingunni og dróst ekki aftur úr eins verið hefur síðan sumarið 2018. En það var skammvinn sæla. Í vikunni á eftir ætlaði ég að hlaupa með félögunum eitthvert brekkubrölt en var ekki búinn að hlaupa lengi þegar ég fór að finna fyrir eymslum í annarri hásininni. Týpísk byrjenda mistök með að fara of hratt af stað eftir hlé. En svona er þetta bara, maður er ekki klókari en þetta þrátt fyrir nokkra reynslu. Þetta var auðvitað grábölvað því ég hafði tekið stefnuna á að hlaupa heilt maraþon í hinu margrómaða Snældubeinsstaðamaraþoni seinni hlutann í júní.
Snældubeinsstaðamaraþonið er eitt fárra maraþonhlaupa í heiminum sem ekki var blásið af vegna Covid 19. Það var haldið þann 27. júní sl. og tókst í alla staði mjög vel. Að þessu sinni var met þátttaka með 30 keppendum. Eins og venjulega eru vegalengdir valkvæðar. Mældar leiðir eru heilt maraþon, hálft maraþon, 10 km og 5 km. Keppendur mega hins vegar ráða því hversu langt þeir hlaupa og mega skipta um skoðun oft á leiðinni. Eina skilyrðið er að keppendur þurfa að vera ræstir af löggiltum verndara hlaupsins, sem er íþróttaþjálfari svæðisins, og hann þarf einnig að staðfesta lokatíma og vegalengd skv. hlaupaúri. Þess má geta að umræddur íþróttaþjálfari hefur sér til fulltingis þaulvanann mótshaldara sem á 6. besta maraþonatíma Íslendings frá upphafi og er einn fárra sem hefur hlaupið maraþon á undir 2:30. Í ár var einn keppandi sem þreytti heilt maraþon og setti hann aldursflokkamet í flokki gamalmenna eldri en 70 ára. En þess ber að geta að enginn svo gamall hlaupari hefur áður klárað heilt maraþon í Snældunni. Í ár tók góður hópur fólks úr Hlaupahópi Stjörnunnar þátt í hlaupinu sem setti skemmtilegan svip á hlaupið. Þar sem þetta er frjálslegt hlaup gerði ekkert til þótt einn keppandi kæmist seint af stað úr bænum og missti af ræsingu. Viðkomandi keppandi, og annar til sem beið eftir komu hins keppandans, voru einfaldlega ræstir af stað seinna en hinir og luku við sínar vegalengdir. Það er talið að áhorfendur hafi skemmt sér vel þennan dag, amk voru rollur, hestar, beljur og ýmis konar fiðurfénaður dugleg við að láta heyra í sér þegar hlauparar þustu fram hjá og brutu upp hversdaginn. Það má í framhjáhlaupi nefna að sett voru nokkur brautarmet til viðbótar við metið í flokki gamalmenna, en þar má m.a. nefna met í 7 km, 9,150 km, 12,5 km, 13 km og 17 km. Að venju voru veitingar að hlaupi loknu sérlega ljúffengar og má þar m.a. nefna heimabakkelsi og grænmeti í boði grænmetisbónda af svæðinu. Flestir hlauparar úr hópi Stjörnunnar gistu á tjaldsvæðinu á Kleppsjárnsreykjum og í gistirýmum þar og var slegið upp mikilli veislu í lok dags sem stóð fram á nótt.
Af sjálfum mér er það að frétta að hásinin var ekkert sérlega hamingjusöm með að láta útjaska sér í hálft maraþon í Snældunni og kvartaði hressilega næstu daga á eftir. Það var því áfram lítið hlaupið. Til að bæta gráu ofan á svart þá hafði ég verið frekar hraustur á pinnanuddboltum á hásinina og hafði þannig tekist að búa til lítil sár á utanverðri hásininni. Það endaði auðvitað með því að ég fékk blóðsýkingu sem kallaði á öflugan 10 daga sýklalyfjakúr. Og þá var ekkert hlaupið í marga daga.
Ég var búinn að skrá mig í Reykjavíkurmaraþonið eins og margir og ætlaði þar að hlaupa heilt maraþon með föður mínum. Mér leist satt að segja ekkert of vel á þá hugmynd þar sem æfingarnar hafa verið fáar og hásinin er ennþá aum. En þar sem plan okkar feðga var að klára þetta hlaup á 6 til 6,5 tímum taldi ég að ég ætti mögulega að geta ráðið við þetta. En þökk sé Covid 19 þarf ég ekki að láta á þetta reyna.
En að gamni slepptu þá er þetta auðvitað búið að vera glatað keppnisár fyrir flesta hlaupara. Margir búnir að leggja vel inn, jafnvel í sínu toppformi, og fá ekki tækifæri til að taka út. En þá er gott að hafa í huga að æfingarnar einar og sér gera margs konar kraftaverk. Fyrir utan að bæta líkamlegt úthald þá gera þær ótrúlegustu hluti fyrir sálartetrið. Af tvennu illu er því ótrúlegur munur á því að geta æft vel þótt keppni sem að er stefnt falli niður en að geta ekki einu sinn æft eins og hugur stendur til. Á síðasta ári hljóp ég lítið um 5 mánaða skeið eftir að ég byrjaði lyfjameðferðina. Mér telst til að á þessu tímabili hafi ég hlaupið um 450 km. Ég var samt mjög sáttur við það þar sem fyrirfram vissi ég ekki hvort ég myndi geta hlaupið yfirhöfuð. Á þessu ári eru nú komnir 5 mánuðir síðan ég fékk kvefpestina og ofan í það hásinar meiðslin. Á þessu tímabili er ég búinn að hlaupa samtals um 350 km. Og ég er bara alls ekki sáttur við það. Mér finnst alveg óþolandi eða vera nánast úr leik í langan tíma vegna kvefpestar og smávægilegra meiðsla. En vonandi er ég að komast í gegnum þetta tímabil. Síðustu nokkrar æfingar gefa fyrirheit um að það versta sé að baki. Þannig að nú er stefnan sett á haustmaraþonið. Þ.e.a.s. ef Covid 19 leyfir.
En aðalatriðið er að komast aftur af stað og geta hlaupið. Ég hef um nokkuð langan tíma sagt að ég hlaupi af því að ég geti það. Nú er mottóið: Ég hleyp þegar ég get það.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Eg nálgast meðferð múmer 100. Dásamlegt hvernig vísindin hjálpa okkur að halda lífi. Gangi þér vel að hlaupa og lifa og geta það
Halldór Jónsson, 7.8.2020 kl. 03:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.