Áramótahlaupaannáll 2019

Viðgerðarárið mikla.

Þetta hlaupaár reyndist þegar upp er staðið hið ágætasta. Ég byrjaði árið rólega þar sem ég var að jafna mig eftir handaruppskurð sem ég fór í sl. desember. Eftir því sem leið á janúar mánuð tókst mér að bæta í æfingarnar þrátt fyrir minnkandi blóðmagn og þar með minna þrek. En samt sem áður fann ég að æfingarnar gerðu mér gott og ég fann að ég tók smávægilegum framförum þótt blóðmagnið væri minnkandi. Ég ákvað á þessum tíma að ég ætlaði mér að reyna að hlaupa eins mikið og ég gæti á árinu og í gegnum fyrirséða lyfjameðferð. Ég hugsaði þetta sem áhugaverða tilraun og að forvitnilegt gæti verið að sjá hvort þetta væri hægt og þá hvaða áhrif þetta myndi mögulega hafa.

Í mars stóð til að hlaupa maraþon í 7. heimsálfunni á Suðurskautinu. Eins og ég hef áður bloggað um stóð það tæpt að ég fengi fararleyfi frá lækninum en með því að fara í gegnum blóðskilju og hreinsa tiltekið prótein úr blóðinu sem var að safnast upp slapp það fyrir horn. Ég fékk fararleyfið daginn fyrir fyrirhugaða brottför. En þessi ferð á Suðurskautið var náttúrulega bara frábær og sennilega eitt mesta ævintýri sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hlaupið gekk upp og ferðin gekk vel. (https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2232760/)

Þegar heim var komið stóð til að hefja lyfjameðferð. Ég fékk upphafinu frestað til að unnt væri að setja mig í uppskurð til að laga hvimleitt kyngingarvandamál sem var búið að há mér í nokkur ár og fór sífellt versnandi. Þessi aðgerð gekk vel en gerði það að verkum að ég gat ekkert hlaupið í tvær og hálfa viku. En í lok apríl komst ég aftur af stað og hóf þá æfingar aftur. Hlaupamagnið í apríl var þó frekar lítið af þessum orsökum eða rúmir 60 km. Um miðjan maí fór ég í fyrstu lyfjainngjöfina og til þess að eiga einhvern viðmiðunarpunkt þá tók ég þátt í 10 km hlaupi Stjörnunnar daginn eftir og hljóp eins hratt og ég gat-á rúmlega 62 mínútum. Þrátt fyrir lyfjainngjöfina og lítil hlaup í vikunni á eftir náði ég að hlaupa um 150 km í mánuðinum.

Í byrjun júní fórum við hjónin til Madagaskar ásamt vinum og hlupum þar maraþon í 7. heimsálfu Þóru. Ég hef áður bloggað um þá ferð og sagði ég í því bloggi að þetta hefði verið erfiðasta maraþon sem ég hefði hlaupið og stend ég enn við það. (https://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2236758/). Þessi mánuður reyndist mér erfiður æfingalega og hljóp ég ekki nema 4 sinnum í mánuðinum samtals rúmlega 70 km og er þá maraþonið meðtalið. Júlí var ekki heldur neitt sérstakur hlaupalega og náði ég ekki nema 8 æfingum og tæplega 80 km í mánuðinum.

Í ágúst fóru hins vegar hlutir að gerast. Ég fann allt í einu að æfingarnar urðu léttari og ég fór að taka framförum bæði í magni og hraða. Og það sem meira var, ég vissi að framfarirnar voru meiri en svo að eingöngu væri æfingunum að þakka. Það var augljóst að meðferðin var farin að skila árangri. Ég fór í ágúst meðferðina um miðjan mánuðinn. Ég hljóp ekkert fyrstu dagana á eftir en tók æfingu á fimmtudeginum fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Á þeirri æfingu ætlaði ég að kanna hvort ég myndi treysta mér í 10 km vegalengdina. Þegar til kom þá fannst mér ég það sprækur að ég skellti mér í hálfmaraþon vegalengdina. Eins og venjulega setti ég mér tímamarkmið og stefndi á að reyna að komast vegalengdina á undir 2 tímum. Það gekk eftir og meira að segja 5 mínútum betur. Í lok ágúst skellti ég mér í Fossvogshlaupið hjá Víkingunum og tók þátt í 10 km hlaupinu. Mér tókst að klára það á rétt rúmlega 50 mínútum og var harla ánægður með það. Ekki á hverjum degi sem maður nær að bæta sig um rúmar 10 mínútur í 10 km hlaupi! Þegar ágúst var liðinn kom í ljós að ég hafði náð 16 æfingum og hljóp tæplega 200 km og á töluvert betri meðalhraða heldur en mánuðina á undan.

Í byrjun september fór ég að gæla við þá hugmynd hvort ég gæti mögulega náð að æfa mig nóg til þess að geta tekið þátt í haustmaraþoninu í lok október. Ég reyndi því að halda mér eins vel við efnið í september og ég gat og náði að hlaupa rúma 200 km á 17 æfingum. Ég tók aftur þátt í 10 km hlaupi í lok september og kláraði það á rúmum 53 mínútum. Það var inni í 30 km laugardagsæfingu þannig að ég notaði það hlaup sem góðan tempó kafla í löngu æfingunni.

Um miðjan október kláraði ég inngjöf þess mánaðar og hafði þá rétt rúma viku til að jafna mig fyrir haustmaraþonið. Það tókst vel og þegar hlaupadagurinn rann upp var ég bara býsna sprækur. Ég vissi svo sem ekki alveg hvað ég gæti hraðalega séð en þóttist vita að ég ætti alltaf að geta klárað. Ég setti mér nú samt tímamarkmið og stefndi á að reyna að vera innan við 4 tíma. Það gekk eftir og þremur mínútum betur. Þegar upp var staðið náði ég að hlaupa í mánuðinum rúmlega 250 km á 20 æfingum og meðalhraðinn næstum því sá sami og hann hafði verið ári fyrr.

Þegar hér var komið sögu fór ég að hugsa um að fyrst ég hljóp maraþon fyrir og eftir fyrstu meðferð og væri nú búinn að hlaupa maraþon fyrir síðustu inngjöf þá yrði ég helst að reyna að ljúka þessari hlaupatilraun með því að hlaupa maraþon rétt eftir síðustu inngjöf. Ég fór að skoða hvaða hlaup væru í boði í byrjun desember og staldraði fljótt við Bergen í Noregi. Með því að hlaupa þar gætum við hjónin slegið nokkrar flugur í sama höfuðið og heimsótt góða vini okkar þar og upplifað norska jólastemmingu. Þar fyrir utan var desember orðinn einn mánaða ársins sem ég hafði aldrei hlaupið maraþon í og því tímabært að bæta úr því.

Í nóvember fór ég í mína tvo hefðbundnu rjúpnaveiðitúra og missti því úr tvær hlaupahelgar. Mér fannst það þó ekki koma mikið að sök því í stað hlaupanna þá fylgdi þessum túrum heilmikið fjallabrölt. Um miðjan mánuðinn fór ég í síðustu lyfjainngjöfina og aldrei þessu vant gat ég hlaupið nánast óhindrað dagana eftir inngjöf. Þegar upp var staðið endaði ég með því að ná að hlaupa rúmlega 170 km á 16 æfingum sem var alls ekki svo slæmt.

Til Bergen var haldið föstudaginn 6. des til að hlaupa þar maraþon daginn eftir. Þetta hlaup er liður í hlauparöð þeirra Bergen manna og mjög svipað fyrirkomulag og er í vor og haustmaraþonunum okkar. Um er að ræða fram og til baka braut sem er hlaupin tvisvar. Maraþonhlaupararnir eru sendir af stað fyrst og einum og hálfum tíma síðar eru hálfmaraþon hlaupararnir settir í gang. Maraþonhlaupararnir voru 62 og hálfmaraþonhlaupararnir voru rúmlega 300. Meðal hlauparanna í maraþoninu var Norðmaður sem var að hlaupa sitt 595. hlaup sem er alveg magnað. Brautin sem er hlaupin er alveg afskaplega falleg og í raun fjölbreytt. Hún er að mestu leyti á góðum gangstíg sem hlykkjast meðfram þremur vötnum, í gegnum skóga og kletta og rúsínan er að hlaupa í gegnum hlaðið á hestabúgarði. Allt fyrirkomulag var til fyrirmyndar og voru 4 vatnsstöðvar í brautinn með fjölbreyttu drykkjar og snakk úrvali. Þessi braut er heldur erfiðari en okkar braut og leiðinda brekka rétt fyrir leikvanginn þar sem hlaupinu er startað og því lokið. Þar sem brautin er hlaupin tvisvar var brekkan til skemmtunar eftir hálft maraþon og síðan aftur í lokin á heilu maraþoni. Mér sýndist á strava að heildar hækkun væri um 320 metrar á móti rúmlega 200 metrum í okkar braut. En hlaupið sjálft gekk í sjálfu sér vel þótt ég hefði lent í smá basli á þriðja legg. Ég fór að fá verki í aðra mjaðmakúluna og varð að hægja verulega á mér á km 24-33 og var farinn að halda að ég þyrfti að ganga rest. Fyrir einhverja rælni mundi ég eftir því að ég var með panódíl í hlaupatöskunni minni sem hafði verið þar í einhver ár. Ég skellti henni í mig og verkurinn fór skömmu síðar og ég gat hlaupið síðasta fjórðunginn töluvert hraðar en þann þriðja. Ég hélt að ég væri búinn að missa af því að komast undir 4 tíma en með því að halda einbeitingu síðustu 9 km og sleppa drykkjarstöðvunum tókst mér að skríða undir 4 tímana svo munaði nokkrum sekúndum. Þannig að þegar upp var staðið var þetta alveg frábært hlaup þrátt fyrir þessi vandræði sem ég skrifa á of lítið æfingamagn til að hlaupa tvö maraþon með stuttu millibili. En tilraunin tókst!

Í nóvember sl. hélt ég stutt erindi á málþingi krabbameinshjúkrunarfræðinga. Ég fékk frjálsar hendur um efnið sem ég myndi tala um þannig að ég ákvað að tala um það efni sem ég þekki best, þ.e. sjálfan mig. Ég ákvað að kalla erindið Hreyfing sem meðferðarúrræði. Þegar ég var að undirbúa erindið þá rakst ég á frétt í NYTIMES.COM sem vakti óskipta athygli mína. Þar var sagt frá rannsókn 40 vísindamanna frá 17 mismunandi alþjóðlegum hópum sem tóku sig til og skoðuðu allar rannsóknir síðustu 10 ára sem fjölluðu um hreyfingu krabbameinssjúkra. Niðurstaða þeirra var bæði afdráttarlaus og áhugaverð. Eftir að hafa skoðað þessi gögn sögðu þeir að það væru fyrirliggjandi nægar sannanir til að halda því fram að líkamsæfingar ættu að vera partur af hefðbundinni krabbameinsmeðferð, að það sýndi sig að æfingar hefðu jákvæð áhrif á framgang krabbameina eftir að þau væru farin af stað, að æfingar á meðan og á eftir krabbameinsmeðferð hefðu jákvæði áhrif á lífslíkur, að æfingar hefðu jákvæð áhrif á kvíða og þunglyndi og jafnvel á hina svokölluðu krabbameins þreytu. Rúsínan í þessum pylsuenda var meira að segja sú að rannsakendur héldu því fram að þeim mun meira sem æft væri, þeim mun betra. Þeir sögðust reyndar ekki vita hvort það væru einhver efri mörk!

En sem sagt, svo mörg voru þau orð. Hafandi byrjað mína tilraun í byrjun árs þá staðfesti ég allt ofangreint eftir því sem ég get.

Ég ætla á morgun, gamlársdag, að hlaupa í gamlárshlaupi ÍR 10 km. Með því hlaupi hef ég hlaupið 2019 km árinu á 154 æfingum (og keppnum) og notað til þess um 209 klst. Samtals eru því km í árslok 34.488,3 síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Það er reyndar athyglisvert, og kannski alls ekki skrítið, að í ár hef ég hlaupið færri kílómetra en ég hef hlaupið á einu ári síðan 2012 þegar ég lenti í hjartsláttaróreglunni. Kílómetra fjöldinn er í sjálfu sér ekki það athyglisverða heldur hitt að ég hef eytt í þessi hlaup meiri tíma en ég gerði árin 2014 og 2015 þegar ekkert (amk lítið!) var að mér. Auðvitað stafar þetta af því að meðalhraðinn er umtalsvert hægari en breytir ekki því að gæðastundir á hlaupum voru fleiri.

Að baki eru nú 42 maraþon í 19 löndum, 11 höfuðborgum og 7 heimsálfum.

Markmið næsta árs eru númer eitt að geta hlaupið áfram. Ég stefni á að hlaupa í Helsinki í vor og ljúka með því að hlaupa maraþon í öllum höfuðborgum Norðurlanda. Vonandi næ ég að hlaupa nokkur maraþon til viðbótar og stefni á rúmlega maraþon í Eco trail hlaupinu í byrjun sumars. Að lokum er stefnan, aftur, sett á lystisemdarhlaup í Medoc í september þar sem ég sleppti þessu hlaupi í ár sem ég hafði þó sett á dagskrá um síðustu áramót.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 70306

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband