Madagascar maraþon 2019

Sumt fer öðru vísi en ætlað er. Það er hægt að skipuleggja sig í þaula og gera alls konar áætlanir en þegar upp er staðið þá verður bara að taka því sem að höndum ber og reyna að gera það besta úr því hverju sinni. Ætli megi ekki segja að Madagascar maraþonið sé ágætt dæmi um það. Þóra hafði fengið þá hugdettu að það gæti verið gaman ef hún gæti lokið við álfu hlaupin 7 í Madagascar og við höfðum upphaflega gert ráð fyrir að reyna að ljúka því árið 2020 þegar hún yrði 55 ára. Í fyrrasumar þegar ljóst var að sjúkdómurinn var farinn að láta kræla á sér þá fékk ég hins vegar þá snilldarhugmynd að flýta fyrirhuguðu hlaupi á Madagascar um eitt ár. Bara svona til öryggis þannig að við yrðum búin með það áður en meðferð þyrfti að hefjast. Ég var sem sagt búinn að skipuleggja það að meðferð þyrfti ekkert að hefjast fyrr en næsta vetur og því um að gera að skipuleggja einhver maraþon áður. En auðvitað hafði sjúkdómurinn sjálfstæðan vilja og vildi fá athygli fyrr.

Þegar dró að áramótum fengum við tilkynningu um að það væri ekki öruggt að hlaupið yrði haldið þar sem þátttaka væri ekki nægjanleg. Það var að sumu leyti ágætt í ljósi aðstæðna en þó vorum við búin að kaupa flugfar frá París til Madagascar og það yrði ekki endurgreitt. Þannig að við vildum nú heldur að af hlaupinu yrði og við yrðum bara að sjá til hvort við gætum farið eða ekki. Þóra myndi þá vonandi geta hlaupið þótt ég yrði mögulega bara á pöllunum. Unnar og Unnur ásamt Frikka Meló og Rúnu ákváðu að láta slag standa og sækja um þátttöku. Hvort sem það voru þau ein og sér sem réðu úrslitum eða ekki þá amk bókuðu nógu margir sig til viðbótar þannig að hægt var að halda upphaflegt plan og láta hlaupið fara fram.

Eins og ég hef bloggað um áður þá komst ég á Suðurskautið áður en meðferð þurfti að hefjast en fyrir lá að hún myndi byrja þegar ég kæmi til baka. Ég ræddi fyrirhugaða Madagascar ferð við lækninn og það var ákveðið að ég myndi byrja í meðferð um miðjan maí mánuði. Með því móti þá ætti ég að geta farið í ferðina til Madagascar í fjórðu viku frá upphafi meðferðar þegar ég ætti að vera farinn að jafna mig eftir fyrstu umferðina. Að auki þá notuðum við tækifærið og mér var skellt í skurðaðgerð þann 11. apríl sl. til að reyna að laga kyngingarvandamál í vélinda sem ég hef verið með síðustu ár og sem hefur verið ágerast mjög síðustu tvö árin. Þetta er enn einn sjaldgæfur sjúkdómur sem ég er víst að safna. En þessi kyngingarvandi var orðinn verulega bagalegur því ég var eiginlega hættur að geta tekið inn vatn og næringu á hlaupum og var farinn að léttast af þeirri einföldu ástæðu að ég borðaði ekki nóg. Fáránlega hvimleiður sjúkdómur sem hafði orðið meiri áhrif á daglegt líf hjá mér en blóðsjúkdómurinn og gáttatifið til samans. En það er skemmst frá því að segja að aðgerðin tókst mjög vel og má eiginlega segja að ég finni ekki fyrir þessu lengur enda finnst mér ég hafa öðlast nýtt líf!

En þetta þýddi að ég gat ekkert hlaupið í næstum 3 vikur eftir aðgerðina og lítið var hlaupið í maí. En samt. Ég náði þó að hlaupa 2-4 sinnum í viku á bilinu 20-40 km. Tveimur vikum fyrir maraþonið í Madagascar hljóp ég 27 km í sveitinni á rétt rúmlega gönguhraða og reiknaði út að ef ég myndi geta gengið 5 km á klst. eftir það þá ætti ég möguleika á að klára maraþonið á undir 7 tímum sem voru tímamörkin sem við höfðum. Ég var því kominn með áætlun á bak við eyrað áður en lagt var af stað í ferðalagið!

Já ferðalagið, maður minn! Þetta var sko ferðalag. Við byrjuðum á því að fljúga til Parísar og eyddum þar tveimur góðum dögum. Á þriðjudagsmorgni lögðum við af stað með Air France í rúmlega 10 tíma flug. Það var búið að segja okkur að allt gengur hægt fyrir sig í Madagascar og að við skildum vera vel vopnuð þolinmæði. En fyrr má nú rota en dauðrota! Ég hef farið víða um heiminn og beðið víða í biðröðum en þessi ferð sló öll met í biðröðum. Það voru meira að segja biðraðir til að geta komist í biðraðir! En hvað um það, við komumst að lokum í gegnum flugstöðina og í rútu og á hótel í höfðuborginni. Þá var klukkan orðin rúmlega miðnætti og við áttum að vera mætt í lobbýið um kl. 4 um nóttina til að taka innanlandsflug áfram. Það gekk allt vandræðalítið fyrir sig með nokkrum biðröðum. Eftir flug í einn og hálfan tíma þá tók við rútuferð. Rúmlega 260 km leið sem tók rúma 6 tíma að keyra. Vissulega var vegurinn malbikaður en hann var holóttari en svissneskur ostur þannig að bílferðin minnti frekar á góða skíðasvigbraut en hefðbundinn akveg. En þetta var í sjálfu sér ekki leiðinleg bílferð því afar margt bar fyrir augun sem of langt mál er að gera skil í pistli sem á að mestu að snúast um hlaup. En því verður ekki á móti mælt að mikið vorum við fegin þegar við vorum loksins komin á áfangastað og gátum lagst útaf og hvílt okkur.

Staðurinn sem við dvöldum á var mjög fallegur og hótelið alveg fyrsta flokks. Eða amk allt það sem var sjáanlegt. Eimitt. Það var nefnilega eitthvað þarna sem var ekki sjáanlegt en átti eftir að hafa heilmikil áhrif á okkur. Á fyrsta heila deginum fórum við í sérlega skemmtilega 8 km fjallagöngu þar sem við sáum víða og rákumst á Lemúra. Það var ágæt skemmtun og vel heppnaður dagur. Næsta dag, daginn fyrir maraþonið, stóð til að fara í Safírnámur og í safír verslun. Þetta var ekki langt prógram og átti að vera búið uppúr hádegi. En aðfaranótt þessa safír dags eyddi ég að verulegu leyti á dollunni. Jújú, þessi líka hressilega niðurgangspest. Ég var orðinn skárri um morguninn og ákvað að fara í Safírferðina. Það gekk allt saman vel fyrir sig og engin þörf á leit að þar til gerðum postulínsskálum. En þegar til baka var komið hófst fjörið aftur. Postulínið mátti helst ekki vera úr augsýn þegar verst lét. En nú fengum við þær fréttir að við vorum 5 af 6 Íslendingunum sem vorum komin með þessa skemmtilegu pest og þar til viðbótar einhver hópur fleiri hlaupara. Þannig að þótt hótelið væri flott og almennt góður matur var eitthvað þarna sem fór ekki vel í mannskapinn. Það kom líka í ljós að í síðasta hlaupi þá lenti stór hópur í því sama. Kannski sem betur fer því læknirinn í hópnum var afskaplega vel vopnaður pillum til að takast á við svona vandamál, amk tímabundið. Það fór sem sagt lítið fyrir pastahleðslunni um kvöldið en þess í stað fengum við vænan skammt af pillum í alls konar stærðum og litum. Við Þóra fengum meira að segja sprautu í afturendann vegna flökurleika sem herjaði á okkur með magapestinni. Það var út af fyrir sig áhugaverð upplifun, farið bak við húshorn úr útiljósinu og notast við birtu innan úr hótelinu þannig að ég ímynda mér að það hafi verið skemmtilegar skuggamyndir sem bargestir sáu út um gluggann! En þetta var ekki spennandi nótt. Ég hef upplifað svefnlitlar og jafnvel alveg svefnlausar nætur fyrir maraþon en að sitja á dollunni þar til hálftíma fyrir ræsingu í maraþoni er ný upplifun og alls ekki skemmtileg.

En út fórum við, tókum þar til gerðar stopp töflur og vonuðum það besta. Sem sagt búin að tæma allt sem hægt var að tæma, allan vökva, öll steinefni, alla hleðslu og lítið getað nærst síðasta sólarhringinn. Og framundan 42,2 km í glampasólskini og afar litlum vindi sem spáð var að myndi breytast í logn þegar liði á daginn. Jibbí! Þetta minnir mig verulega á brandara sem hefur stundum gengið á netinu á milli maraþonhlaupara: I am a marathoner, I must run. Jájá, einmitt, jafnvel fótbrotinn, hryggbrotinn eða með í maganum. Það er augljóslega ekki í lagi með þessa maraþonara!

Eftir myndatöku var talið niður og af stað fór hersingin. Fyrst voru hlaupnir 3-4 km upp á aðalveg og smá spotti eftir honum og síðan beygt inní þjóðgarðinn. Þar átti að hlaupa fyrri hringinn af tveimur eða um 24 km. Um þennan spotta er svo sem ekki mikið að segja. Það var samt pínu skrítið að stilla sér upp með öftustu hlaupurunum og hafa ekki nema þrjá hlaupara á eftir okkur Þóru sem allt var fólk komið á mun virðulegri aldur en við höfum náð. En annað var ekki í boði. Planið var að hlaupa þetta eins taktískt og hægt væri og eyða eins lítilli orku og mögulegt var. Þessi hringur í þjóðgarðinum var virkilega fallegur en þarna var ekki nokkur sála á ferðinni nema við hlaupararnir og starfsmenn á þeim fáu drykkjarstöðvum sem þarna voru. Það kom okkur dálítið á óvart hversu sendin hlaupaleiðin var. Mest voru þetta hjólför með mjúkum og gljúpum sandi og með gróðri á milli hjólfara þannig að það var eiginlega ekkert hægt að gera til að komast úr sandinum. Þá var leiðin eiginlega afskaplega aflíðandi ef svo má segja. Þetta voru ekki brattar brekkur en eiginlega alltaf langar aflíðandi brekkur upp eða niður. Á þessum kafla var sem betur fer smá gjóla á flestum stöðum þannig að hitinn var viðráðanlegur. Af magamálum var það helst að frétta að ég var stöðugt að fá magakrampa en slapp við að þurfa að fara út í runna. Þannig að það er ljóst að læknavísindin geta gert kraftaverk á æði mörgum sviðum. Þegar út úr þjóðgarðinum var komið var um tvennt að velja. Annað hvort að beygja til hægri og fara stystu leið niður á hótel og hætta þessari vitleysu. Eða beygja til vinstri og hlaupa seinni hringinn og reyna að klára. Á þessum tímapunkti leið mér í sjálfu sér ágætlega og mér fannst ég alveg eiga séns á að klára hlaupið ef ekkert sérstakt kæmi uppá þannig að ég þurfti ekkert að hugsa mig um. Vinstri beygjan var tekin. Fyrsti spölurinn á seinni hringnum var á malbikinu eftir aðalveginum sem var kærkomin tilbreyting. Meira að segja um heill km sem var allur niður á við þannig að þarna leið manni næstum eins og hlaupara. En eftir þennan kafla var beygt út af veginum og við tók hringur um gresjuna og framhjá nokkrum þorpum innfæddra. Það er alveg óhætt að segja að þarna hafi verið mun meira líf en í fyrri hlutanum. Við fórum að rekast á gangandi fólk og töluvert marga vagna sem voru dregnir af Zebu sem eru nautgripir heimamanna. Það eru kvikindi sem eru eiginlega heilög í þeirra augum og stór hluti lífs heimamanna snýst um með einum eða öðrum hætti. Þessi dýr skipa veglegan sess við allar útfarir en þá er þeim fórnað og slegið upp margra daga eða vikna veislum. Nú dýrin eru samgöngutæki og síðast en ekki síst líta heimamenn á þau sem banka eða fjárfestingakost. Ef menn eiga aur og vilja fjárfesta þá setja menn peninginn í Zebu. Sá maður er ríkur sem á nóg af Zebu. Á þessu svæði er það einnig þekkt að til að ungir menn komist í fullorðinna manna tölu þá þurfa þeir að stela Zebu. En það er áhættusamt og getur kostað allt að 5-6 mánaða fangelsi ef upp um þá kemst og alveg upp í 5 ára fangelsi ef þeir drepa mann í leiðinni. Jamm og já. Sinn er siðurinn í landi hverju!

En nú fór þetta að þyngjast. Hitinn jókst og vindurinn datt niður. Undirlagið að sumu leyti betra en á móti kom að nú þurftum við að fara að vaða hvern lækinn á fætur öðrum og koma okkur niður og uppúr lækjarfarvegum. Kosturinn var þó sá að það var gott að fá kælinguna í vatninu og hægt að skella húfunni ofaní og hella yfir sig vatni. Þótt fjölbreytileiki leiðarinnar hafi verið meiri á seinni hlutanum, og þá sérstaklega fyrri hluta seinni hlutans, þá fannst okkur nú stundum nóg um. Börnin voru mjög forvitin og eiginlega sums staðar mjög ágeng. Á einum stað hrúgaðist í kringum okkur hópur af ungum stúlkum og reyndi ein þeirra að rífa hálsmen af Þóru á hlaupunum. Auðvitað var það klaufagangur í okkur að hafa ekki munað eftir að skilja slíkt eftir á hótelinu því í augum ungra stúlkna var þetta augljóslega eitthvað sem bara var þarna og því sjálfsagt að reyna að ná þessu. Á öðrum stað þar sem við þurftum að vaða yfir töluvert breiðan læk eða eiginlega litla á þá allt einu heyrðist skvamp ekki langt frá okkur og síðan annað. Þegar þriðja skvampið kom síðan innan við metra frá okkur snéri ég mér við og lét nokkur kjarnyrt góð íslensk orð vaða á strákahrúguna sem stóð á bakkanum og var að kasta til okkar grjóti. Þá loksins hættu þeir. Alveg merkilegt að þeir skildu skilja íslenskuna!

Tuttuguogsjökílómetrar. Þarna var eins og ég hefði verið skotinn. Ég gat ekki hlaupið meira. Allt búið. Ég var búinn að vera með það í kollinum allan tímann að ég yrði að geta hlaupið 27 km. Ef ég gæti það þá ætti ég að geta gengið restina eins og ég hafði hugsað tveimur vikum fyrr í sveitinni. Ekki veit ég af hverju ég gat ekki hlaupið 28 km nú eða 26 km en 27 km voru þetta. Andlegt? Hlýtur að vera. Merkilegt hvað hausinn skiptir alltaf miklu máli í hlaupunum. Sérstaklega í maraþonhlaupum. En ég held líka að það sá ástæðan fyrir því hversu skemmtileg vegalengd mér finnst maraþonhlaupið vera. Það eru alltaf einhverjar nýjar áskoranir í hverju einasta maraþoni og því er bara hreinlega ekki hægt að fá leið á því að hlaupa maraþon. Hvert maraþon er í raun sjálfstætt ævintýri. En það var ekki nóg að komast 27 km. Ég átti 15 km eftir. En til þess hafði ég rúma 3 tíma þannig að ef að planið gengið upp þá átti þetta að hafast. Það sem kannski var að valda mér smá áhyggjum og Þóru miklum, sem hún sagði mér ekki fyrr en eftir hlaupið, var að þegar við vorum nýhafin gönguna þurfti ég að stoppa til að reima annan skóinn. Þegar ég beygði mig niður munaði minnstu að það steinliði yfir mig. Mig svimaði og það tók mig smá stund að ná áttum. En sem betur fer gerði ég það þannig að við gátum haldið áfram. Fyrstu 10 km af þessum 15 gengum við eins rösklega og við gátum þannig að það var alveg ljóst að við hefðum vel rúman klukkutíma til að klára restina. En sá hluti leiðarinnar sem var eftir var erfiður viðureignar. Þarna var klukkan á milli eitt og tvö og hitinn orðinn mikill og algjört logn. Við gengum yfir hálfgerða gresju og hvergi nokkurs staðar skugga að fá. Þóra sagði mér að þarna hefði hún verið að velta því alvarlega fyrir sér hvað hún ætti til bragðs að taka ef ég liði út af því það hefði verið ómögulegt að skilja mig þarna eftir í sólinni á meðan hún myndi sækja hjálp. En þetta hafðist allt saman með því að hægja bara á okkur og ganga þetta rólega. En tilfellið var að ég var ekki viss um að geta klárað fyrr en við áttum innan við km eftir og við vorum komin inná hótelsvæðið. Þá hugsaði ég með mér að héðan í frá færi ég nú ekki að fá sólsting eða örmagnast þannig að ég þorði í huganum að telja þetta maraþon með hinum og þar með komst ég í töluna 40. Því er ekki að neita að ég held að ég hafi aldrei verið jafnánægður og í þetta skiptið að sjá endamarkið og geta hætt þessu brölti. Já og við vorum ekki síðust og áttum rúmar 12 mínútur inni til að geta klárað innan tímamarka!

In fine.
Þessari tilraun er lokið. Er hægt að hlaupa maraþon í miðri lyfjameðferð? Ætli ég verði ekki svara þeirri spurningu játandi. En er skynsamlegt að gera það? Alveg örugglega ekki! Ég hitti hjartalækninn minn í gær í reglulegu eftirliti. Ég sagði honum að nú væri ég hættur að hlaupa maraþon þar til eftir meðferð. Mér fannst hann segja óþarflega oft að það væri mjög góð ákvörðun hjá mér. Mér leið dálítið eins og skólastrák þar sem kennarinn var með jákvæðum hætti að reyna að stimpla inn í kollinn að ég væri svaka duglegur að hafa tekið þessa ákvörðun og ætti og mætti alls ekki skipta um skoðun! Sem ég ætla ekki að gera. En á næsta ári er nýtt ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband