Áramótahlaupaannáll 2018

Þetta hlaupaár varð heldur endasleppt og þróaðist með öðrum hætti en ég hefði viljað. Keppnishlaupin á árinu voru ekki nema 6 í heildina, 5 maraþon og Hvítasunnuhlaup Hauka. Ég stefndi á að hlaupa gott hlaup í Mendoza í Argentínu í vor og var markmiðið að fara amk undir 3:15 og helst undir 3:10. Æfingar gengu vel og ekkert sem átti að vera því til fyrirstöðu. Ég átti ágætt æfingahlaup í Barcelona í mars sem gaf góð fyrirheit þrátt fyrir að ég hafi fengið krampa í rasskinn sem hægði á mér. Þegar til kom þá fannst mér ég hins vegar vera kraftlaus og ég var sérstaklega óánægður með síðustu 10 km en oft hef ég verið hlutfallslega sterkur á þeim kafla. Það hins vegar gerðist ekki í þetta skiptið og ég var að missa fram úr mér óþarflega marga hlaupara. En svona er þetta bara, tíminn rúmlega 3:23 klst sem er ekki svo slæmt.

Ég skellti mér í Hvítasunnuhlaup Hauka í fyrsta sinn og fór þar lengstu leiðina. Ég var þungur á mér en skrifaði það á að of stutt hefði verið frá hlaupinu í Mendoza. Þriðja maraþon ársins var í Þórshöfn í Færeyjum. Það var bráðskemmtileg upplifun. Brautin er erfið með mörgum löngum brekkum. Mér gekk hins vegar ágætlega þar því ég hljóp fyrri hlutann rólega með Þóru minni sem var að hlaupa hálft maraþon. Síðari hlutann hljóp ég heldur hraðar en þar sem markmiðið var að vera rétt undir 4 klst. reyndist þetta hlaup mér ekki svo erfitt.

Ég var skráður í Laugaveginn þannig að ég tók til við að reyna að hlaupa upp Esjuna og önnur smærri fell og hæðir. Eftir því sem æfingunum fjölgaði versnaði úthaldið. Það er að sjálfsögðu ekki eðlilegt enda kom í ljós að ég var að falla í blóðgildum eða hemóglóbíni. En frá því að ég greindist með hvítblæðið um árið hafa mín blóðgildi oftast legið í kringum 120 en talað er um að meðalgildi fyrir karla sé 135 - 175 g pr l. Þetta skiptir máli því hemóglóbínið hefur það hlutverk að binda súrefni og flytja það til vefjanna þar sem það er losað og nýtt við orkumyndun.

Vikurnar fyrir Laugaveginn mældist hemóglóbínið 114 g pr.l og það er einfaldlega of lítið til að geta unnið almennilega í brekkunum. Ég ákvað því að hætta við að hlaupa Laugaveginn því ég var alls ekki viss um að ég myndi ná tímamörkum til að geta klárað hlaupið.

Ég lét mig hafa það að hlaupa Reykjavíkurmaraþonið og kláraði það á rétt undir 3:50 klst. Þar var ég ágætur uppí ca 25 km en næstu 10 km þar á eftir voru verulega erfiðir og mig langaði mest til að hætta. En við 35 km markið var eins og ég kæmist yfir baslið þannig að ég gat notið þess að hlaupa síðustu 7 km þokkalega.

Þar sem ég var skráður í Lissabon maraþonið um miðjan október var ekki annað að gera en að reyna að halda áfram æfingum. Ég náði 4 löngum æfingum frá Reykjavíkurmaraþoninu og að Lissabon hlaupinu. Þær æfingar voru frekar skrautlegar því þótt ég hlypi ekki nema á næstum 6 pace þá þurfti ég að stoppa og hvíla mig á 4 - 7 km fresti. Á einni æfingunni datt ég tvisvar úr takti en hrökk aftur í takt eftir smá hvíld. Það var því viðbúið að Lissabon hlaupið gæti orðið erfitt. En þegar til kom gat ég hlaupið það á 5:24 pace og það án þess að stoppa til að hvíla mig og mér leið bara ágætlega í hlaupinu allan tímann. Þegar upp er staðið tel ég þetta vera eitt af mínum betri hlaupum á ferlinum þótt tíminn bendi ekki til þess.

En þetta blessaða blóðleysi hefur sannarlega áhrif. Í síðustu mælingu var hemóglóbínið komið í 106 g pr. l og ég finn það vel á sjálfum mér. Á fimmtudag á milli hátíða í fyrra hljóp ég 15 km á 4:20 pace. Á fimmtudegi milli hátíða í ár hljóp ég 11 km á 5:30 pace – og þurfti svo sannarlega að hafa fyrir því. Það má því segja að sennilega hefur hægst á mér um rúmlega eina til tvær mínútu pr. km. á árinu.

Það skiptir svo sem ekki öllu máli svo fremi sem ég get hlaupið áfram.

Ég ætla á gamlársdag að hlaupa í gamlárshlaupi ÍR 10 km. Með því hlaupi rýf ég 2.600 km múrinn í ár og hef notað til þess 175 æfingar, að meðtöldum keppnum, og rúmlega 240 klst. Samtals eru því km í árslok 32.469,3 síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Ef ég næ að hlaupa svipað magn næstu þrjú árin þá ætti ég að ljúka við hringinn í kringum hnöttinn ef miða er við miðbaugslínu (40.075 km) í lok árs 2021. Það er gott markmið.

Að baki eru nú 38 maraþon í 17 löndum, 11 höfuðborgum og 6 heimsálfum.

Markmið næsta árs eru númer eitt að geta hlaupið áfram. Viðbótarmarkmið er að klára 7. heimsálfuna í mars nk. á Suðurskautinu. Þá er stefnan á maraþon í Madagascar eða Mauritius í byrjun sumars þannig að Þóra nái að klára sína 7. heimsálfu þar. Ég stefni á Reykjavíkurmaraþonið og er markmiðið þar að hlaupa með karli föður mínum og reyna að aðstoða hann við að komast undir 5 klst. á 70 ára afmælisárinu. Að lokum er stefnan sett á lystisemdarhlaup í Medoc í september þar sem markmiðið verður að hlaupa eins hægt og leyfilegt er og njóta þess sem verður boðið uppá á drykkjarstöðvunum!

Þetta eru vissulega nokkuð sérstæð tímamót. Að vera aftur staddur á sama stað og fyrir 13 árum með afar óljósa hugmynd um hvernig sjúkdómurinn kemur til með að þróast á næstu mánuðum. En síðast tókst vel til þannig að það er góð von til þess að það gerist aftur.

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þakka þér fyrir þennan pistil, Gunnar. Hef sjálfur verið við þessa iðju meira og minna frá 1980, með aukinni áherslu frá fertugsafmælinu á árinu 1991.

Blóðmeinafræðingur fylgist með mér þessi árin, og ég hef upplifað afturför í hraða eins og þú lýsir.

En er ekki bara málið að halda áfram, þó hægt fari?

Flosi Kristjánsson, 30.12.2018 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband