10.8.2018 | 14:14
Hugleiðing í aðdraganda Reykjavíkurmaraþonsins 2018
Reykjavíkurmaraþonið hefur áunnið sér sérstakan sess í huga mínum undanfarin ár. Ég hljóp það í fyrsta sinn árið 2011 og var það þá lokahlaupið af fimm það árið sem ég hljóp til styrktar Krabbameinsfélaginu. Ástæðan fyrir söfnun minni það árið var til að halda uppá að þá voru liðin 5 ár frá því að ég lauk við krabbameinsmeðferð. Árið 2014 lést eiginkona mín af völdum krabbameins á hlaupadeginum þegar 3 tímar og 28 mínútur voru liðnar frá því að hlaupið hófst. Það var um það bil sá tími sem ég hafði fyrirfram hugsað mér að hlaupa á ef ég hefði tekið þátt. Árið 2015 hljóp ég í þriðja sinn í Reykjavíkurmaraþoninu og þá aftur til styrktar Krabbameinsfélaginu í minningu Möggu. Í ár er stefnan sú að hlaupa Reykjavíkurmaraþonið í sjötta sinn. Í þetta skiptið hleyp ég ekki til styrktar neinu málefni en hef styrkt nokkra hlaupavini mína sem eru að hlaupa til styrktar verðugum málefnum. Hlaupið í ár ætla ég að tileinka góðum hlaupavini mínum sem lést í vikunni langt um aldur fram eftir stutta en snarpa baráttu við hinn illa vágest krabbann. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að fyrir rétt um ári síðan var hann hress og kátur með okkur í hlaupahópnum að taka þátt í hlaupahátíðinni á Vestfjörðum. Ég átti þá gott spjall við hann um lífið og tilveruna og gildi þess að geta tekið þátt í líkamsrækt í íslenskri náttúru. Ég sé ennþá fyrir mér leiftrandi augun og brosið sem færðist yfir andlit hans þegar hann ræddi málefnið. Laugardaginn 18. ágúst nk. mun ég í brautinni fara í ferðalag um hugann og rifja upp fallegar minningar um allt fólkið sem ég hef þekkt á lífsleiðinni og sem hefur orðið undir í baráttunni.
Ég hef reglulega frá því að ég lauk lyfjameðferð árið 2006 mætt í eftirlit á 3 til 6 mánaða fresti til að fylgjast með framvindu sjúkdómsins. Ég fékk fyrr í sumar hressilega áminningu um að gleyma mér ekki í gleðinni yfir að vera einkennalaus. Allt í einu fékk ég mælingu þar sem nokkur gildi bentu til þess að sjúkdómurinn væri að sækja í sig veðrið og að nú væri komið að því að það þyrfti að grípa inní með lyfjagjöf. Það passaði reyndar vel við það að allt í einu fannst mér hlaupaformið ekki vera eins og það átti að vera miðað við æfingarnar sem ég var að taka. Esjan og önnur smærri fjöll og hólar urðu mér t.d. erfiðari eftir því sem ég æfði meira fyrir Laugavegshlaupið í ár. En skýring á því kom í ljós í þessari mælingu þar sem fram kom að ég hafði lækkað umtalsvert í blóði. Þetta var auðvitað hundfúlt en lítið við að segja. En sem betur fer reyndist þetta vera stök mæling þar sem nokkur gildi fóru á sama tíma í ranga átt og bentu til þess að nú væri tímabært að bregðast við. Í næstu mælingu hafði blóðmagnið aukist aftur og önnur gildi voru betri. Enda fann ég það á hlaupunum þar sem allt í einu urðu brekkurnar ekki eins erfiðar og áður. Ég lét hins vegar eiga sig að hlaupa Laugaveginn í ár og notaði tækifærið til að taka mér 4 vikna hlaupahvíld þar sem ég tók bara 2 æfingar á viku. Síðustu 4 vikurnar hef ég aftur aukið æfingamagnið og treysti því að það verði nóg til að ég geti klárað mig af Reykjavíkurmaraþoninu.
Þegar ég var að safna áheitum fyrir Krabbameinsfélagið árið 2011 bjó ég mér til einkunnarorðin: Ég hleyp af því að ég get það. Í blaðagrein þetta sumarið var eftir mér haft að það væri von mín að einhverjir finndu hjá sér hvatningu og finndu fyrir sömu tilfinningu; að hlaupa af því að þeir gætu það. Ég sagðist vonast til þess að fólk myndi leggja félaginu lið með því að styrkja það með fjárframlögum. Þessi orð eiga sannarlega ennþá við.
Það gladdi mig mjög þegar haft var samband við mig fyrir fáum dögum af forsvarsmanni Krabbameinsfélagins og mér sagt að félagið hygðist nota einkunnarorðin frá árinu 2011 nú í ár.
Ég hleyp af því að ég get það!
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Lífið, er lítið annað en útlegð frá "eden" ... því skal maður ekki syrgja þá sem
fengið hafa lausn frá henni. Við hinir, sem eftir sitjum þurfum að hugsa okkar
veg.
Örn Einar Hansen, 11.8.2018 kl. 00:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.