Það er ótrúlegt að hugsa til þess að nú eru rétt rúm þrjú ár frá því að sú hugmynd fæddist að hlaupa maraþon í öllum heimsálfunum 7. Í febrúar 2015 á leið yfir hafið frá því að hlaupa Tókýó maraþonið þá fór ég að velta því fyrir mér að þá um haustið stæði til að hlaupa í Chicago og þá yrði ég búinn að hlaupa maraþon í 3 heimsálfum. Það væri í sjálfu sér bara nokkuð gott en því að láta staðar numið þar? Fyrst að Asía væri búin þá væri alveg eins hægt að finna hlaup í öðrum heimsálfum og safna fleirum. Amk 6 eða kannski jafnvel 7? Þegar heim var komið hófst ég strax handa við að skoða málið og komst auðvitað að því að nánast alls staðar er verið að hlaupa maraþon. Meira að segja á Suðurskautinu. En ekki nóg með að þar sé hægt að finna skipulagt maraþon heldur er hægt að velja á milli tveggja! Að sjálfsögðu eru skipuleggjendur þessara tveggja hlaupa búnir að búa til sérstaka klúbba sem þeir kalla 7 álfu klúbbana. Í öðrum þeirra, Seven Continents club, eru nú 455 karlar og 221 kona og í hinum klúbbnum, The 7 continents marathon club, eru 212 karlar og 59 konur eða samtals 947 manns. En enginn Íslendingur. Það gengur náttúrulega bara alls ekki og þessu þarf að breyta! Ég bar þessa hugmynd undir Unnar hlaupafélaga og vin og við urðum samstundis sammála um það að við skyldum taka verkefnið að okkur fyrir hina íslensku þjóð.
Ég hef áður bloggað um heimsálfu 4, sem var Afríka, og heimsálfu 5 sem var Eyjaálfa. Á þessu ári var komið að heimsálfu 6 sem er S-Ameríka. Það er skemmtilegt verkefni að skoða hvaða hlaup eru í boði í hverri heimsálfu fyrir sig. Í raun er allt opið og bara spurning um að velja það sem manni líst best á og hentar best inn í það tímaplan sem upp er sett. Hvað S-Ameríku varðar þá að sjálfsögðu eru hlaupin maraþon í öllum höfuðborgum ríkjanna í álfunni. Þar til viðbótar eru ógrynnin öll af öðrum spennandi hlaupum. T.d. er afar spennandi trail maraþon í boði til borgarinnar Machu Picchu í Perú, The Inca Trail Marathon to Machu Picchu. Það er aldrei að vita nema það verði hlaupið einn góðan veðurdag þótt það hlaup hafi ekki orðið fyrir valinu í þetta skiptið. Ég skoðaði aðeins hlaup í Venesúela sem mér leist í sjálfu sér vel á en vegna ástandsins í landinu þá hætti ég fljótt að hugsa um það. En snemma í ferlinu þá dúkkaði upp á yfirborðið hlaup í Mendoza í Argentínu. Það varð strax mjög spennandi kostur og í raun má segja að það hafi strax orðið það hlaup sem okkur þótti hvað mest spennandi staður til að hlaupa á. Ástæðan er einföld, þarna var hægt að sameina tvö af okkar helstu áhugamálum í eina ferð – hlaupa maraþon og smakka á dýrindis rauðvínum frá einu af frægustu vínræktarhéruðum heimsins! Ef einhverjum finnst þetta ekki fara vel saman þá er sá hinn sami vaðandi í villu því þessi áhugamál eiga einstaklega vel saman – bara spurning um gott skipulag og hófsemi í hvívetna. Ekki skemmdi það fyrir að okkur fannst brautin verulega spennandi. Keyrt er með þátttakendur upp í fjallaskarð í Andesfjöllunum og hlaupið til baka til Mendoza. Í heildina er fallhæðin í brautinni um 450 metrar þannig að við töldum að þarna gætum við loksins fengið maraþon sem yrði bara tiltölulega þægilegt að hlaupa þar sem þetta væri mest niður á við. Já góðan daginn! Niður á við? Já. Þægilegt? Nei!
En hvað um það. Þetta var slegið! Við ræddum þessa fyrirhuguðu ferð við ýmsa hlaupafélaga og að sjálfsögðu var þetta eitthvað sem þau heiðurshjón Frikki í Melabúðinni og Rúna gátu alls ekki látið fram hjá sér fara. Einhvern veginn hafa forlögin háttað því þannig að við höfum oft á undanförnum árum verið að hlaupa á sömu stöðum, m.a. í Tókýó - þar sem við tókum þátt í besta eftirmaraþonpartýi ever með þeim og fleirum - án þess að hafa skipulagt það sérstaklega. Að auki ákvað Bjarki hlaupafélagi okkar úr Stjörnunni og Hafdís hans að slást í för. Við vorum því átta Íslendingar sem lögðum af stað til Mendoza í Argentínu þann 26. apríl sl. til að taka þátt.
Eins og ég hef oft bloggað um áður þá er hvert maraþon sérstakt og yfirleitt kemur alltaf eitthvað nýtt upp sem þarf að bregðast við. Jafnframt hef ég alltaf sagt að ekki skuli telja neitt maraþon fyrr en búið er að hlaupa það. Það er svo margt sem getur gerst. Númer eitt er auðvitað að komast á ráslínuna á hlaupadegi sem er bara alls ekkert sjálfsagt. Náist það markmið þá er eftir heilt ævintýri með alls konar áskorunum og við þekkjum mörg dæmi annað hvort frá okkur sjálfum eða hlaupavinum okkar sem hafa náð að klára marga kílómetra í hlaupinu og jafnvel allt að 35-41 km, en ekki 42,2 km. Í þetta skiptið hélt ég í smá stund að við kæmumst ekki lengra en til Brasílíu og alls ekki á ráslínuna. Þannig er mál með vexti að Þóra mín á það til að verða aðeins ómótt í flugi og líða ekki vel í smá tíma. Hingað til hefur þetta þó ekki verið meira en tímabundin vanlíðan sem hefur rjátlast af henni. Núna varð þetta aðeins meira og nóg til þess að ég sá fyrir mér að lenda þyrfti flugvélinni á fyrsta flugvelli í Brasilíu. Þegar við vorum rétt rúmlega hálfnuð yfir hafið frá Evrópu til Brasilíu og flestir í fastasvefni um miðja nótt þá vaknaði Þóra upp með vanlíðunartilfinningu. Við ákváðum að standa upp og ganga aftur í vélina og sjá hvort þetta myndi ekki lagast. Þegar við vorum ný staðin upp þá hné hún niður á ganginum í yfirliði. Flugþjónarnir voru fljótir til og hún var lögð á gólfið í þjónusturými flugvélarinnar og allt tiltækt læknadót var dregið fram. Púlsinn var mældur reglulega og tékkað á blóðþrýstingi, sett undir lappirnar og ég spurður allra spurninganna í manualnum. En þar sem ég vissi að Þóra átti það til að verða ómótt í flugi og ég sá að hún var býsna fljót að hjarna við þegar búið var að leggja hana til og gefa henni að drekka þá sá ég nú fljótt að sennilega væri þetta nú ekki svo alvarlegt. En engu að síður þá hvarflaði það að mér í smá tíma að við yrðum að lenda á næsta flugvelli, ekki síst þegar við vorum spurð að því hvort þau ættu að kalla upp hvort um borð væri læknir. Sem betur fer þurfti ekki að koma til þess og Þóra mín jafnaði sig vel eftir smá tíma og ferðalagið var tíðindalaust hvað þetta varðaði það sem eftir var. En þetta dæmi sýnir svo sannarlega að alltaf getur eitthvað komið uppá sem gerir það að verkum að maraþon sem til stendur að hlaupa verður ekki hlaupið.
Mendoza. Í Mendoza búa um milljón manns. Samt fannst mér hálfvegis eins og Mendoza væri bara stórt sveitaþorp. Ég hef aldrei áður sest upp í jafn lélega leigubíla og þarna voru. Þetta voru litlir bílar sem rétt rúmuðu tvær manneskjur með tvær ferðatöskur. Sá bíll sem við fengum frá flugvellinum hefur sjálfsagt einhvern tíman verið með dempara en það er mjög, mjög langt síðan. Þegar keyrt var í holur eða yfir hraðahindranir verkjaði mann í rófubeinið. En á hótelið komumst við og það reyndist ljómandi gott. Enda var búið að ráðleggja okkur að kaupa gistingu á 5 stjörnu hóteli, sem ekki eru mörg í Mendoza, til að fá hótelgistingu sem væri á pari við það sem maður kannaðist við annars staðar frá þótt stjörnurnar þar væru færri. Við lentum í Mendoza um hádegisbilið á föstudegi og hlaupið var á sunnudegi. Upphaflega höfðum við ætlað að sækja hlaupagögnin síðdegis á föstudeginum en komumst síðan að því að hlaupagögn voru eingöngu afhent á laugardeginum. Ekkert mál, þá bara ætluðum við að skjótast snemma á laugardeginum og sækja gögnin. Við vorum frekar tímanlega í því að því er við töldum en þegar við komum á staðinn þá var röð fyrir utan húsið þar sem gögnin voru afhent. Og hún var löng, hún var bara býsna löng, eiginlega fáránlega löng! Við biðum í rúma tvo klukkutíma fyrir utan áður en við komumst inn. Þegar inn var komið tók í sjálfu sér ekki langan tíma að fá gögnin en mikið rosalega hafa þeir mendózku mikið rými til að bæta sig þarna. Allt í allt þá tók þetta næstum því hálfan daginn, að koma sér á staðinn, bíða, og koma sér til baka. Ekki alveg beinlínis eins og maður vill eyða deginum fyrir maraþon. En allt er þetta auðvitað liður í því að upplifa aðra menningu og sjá eitthvað öðru vísi en maður er vanur. Og þetta var gaman!
Hlaupadagurinn. Þá var komið að því! Stóri dagurinn og allir Íslendingarnir í góðum gír. Við Þóra, Unnar og Unnur, Frikki og Bjarki ætluðum öll að hlaupa heilt maraþon. Rúna ætlaði að hlaupa hálft maraþon og Hafdís 10 km. Við vorum því bara 6 sem þurftum að vakna upp um miðja nótt til að ná okkar rútum því rútur Rúnu og Hafdísar fóru af stað aðeins seinna. Hefðbundin morgunverk gengu vel og við vorum frekar snemma í því. Fórum um borð í rútu númer 2 en þar sem við vorum með kappsaman bílstjóra var hann fljótur að ná þeirri fyrstu þannig að við urðum fyrsta fólkið til að komast á rásstað. Sem kom á daginn að kom sér vel. Á leiðinni upp í fjallaskarðið keyrðum við að miklu leyti þá leið sem við áttum að hlaupa til baka. Það var mjög gott því á leiðinni fór maður að átta sig á því að þótt leiðin væri í heildina niðurhallandi þá voru ansi margar brekkur sem við myndum þurfa að hlaupa upp og sumar þeirra bara ansi langar. Þetta yrði þá kannski ekkert svo auðvelt eftir allt saman? Jæja en á leiðarenda komumst við. Og sem betur fer í fyrstu rútunni. Þannig er mál með vexti að ég var búinn að skoða myndbönd frá fyrri árum og sá að hlaupinu hafði verið startað í litlu þorpi í fjallaskarðinu. En þegar þangað var komið snéri rútan við og fór aftur til baka, yfir smá hæð og þar út í vegarkannt. Okkur var skipað að fara út og auðvitað hlýddum við því. En þegar út var komið sáum við að þar var ekkert, nema lítið malarplan. Engin salernisaðstaða og engir starfsmenn – bara nákvæmlega ekkert nema malarplan og myrkur. En þar sem ég hafði séð myndbandið áður og litla þorpið þar sem við snérum við ákváðum við að ganga til baka og yfir hæðina. Væntanlega hafði ekki verið pláss fyrir allar rúturnar í þorpinu og okkur því hleypt úr þarna. Þegar upp á hæðina var komið sáum við að þar var búið að stilla upp startinu en ekki í þorpinu sjálfu – en þarna voru engir starfsmenn og því ekki hægt að spyrja um eitt né neitt. Við gengum áfram og niður hæðina. Þar var lítil veitingasala sem var opin. Nokkur okkar fóru þar inn og var vísað á salernisaðstöðu. Þar sem ég var í góðum málum hvað magamál snerti gekk ég inn í litla þorpið og var þess fullviss að þar hlyti að vera einhver salernisaðstaða fyrir keppendur og ákvað ég að finna hana til öryggis. En Þetta var náttúrulega ekki þorp heldur eiginlega bara nokkur hús. Það var allt myrkvað og hvergi ljóstýru að sjá. Þegar ég nálgaðist fyrstu húsin byrjuðu hundar að gelta. Þegar nær kom sá ég að við hvert hús var girðing og inni í hverri girðingu var hundur. Þeir voru nú allir vaknaðir og byrjaðir að taka á móti hinum óboðna gesti með háværri raust. Ljós byrjuðu að kvikna hvert á fætur öðru og ég sá fljótt að augljóst væri að þarna væri ekki að finna neina salernisaðstöðu fyrir keppendur í maraþoni. Þegar ég kom til baka á veitingasöluna kom í ljós að hún var orðin troðfull af keppendum sem voru í sömu erindagjörðum og við- að leita að salernisaðstöðu. Af lýsingum félaga minna að dæma voru þeir heppnir að vera þeir fyrstu á staðinn því salernispappír var af mjög skornum skammti auk þess sem vatn til niðurskolunar virtist vera lúxus á þessum stað sem ekki var verið að spreða með. En þeim sem kynntust aðstöðunni náið virtist hún vera ofarlega í huga það sem eftir lifði ferðar og jafnvel lengur! Þegar styttist í ræsingu ákváðum við að yfirgefa þessa dásamlegu veitingasölu og ganga út í morgunkulið og aftur til baka að rásmarkinu. Við sáum þar að rúturnar á malarplaninu voru orðnar fjölmargar og einhverja skúra var búið að reisa þar upp. Það hlaut líka að vera, einhvers staðar hlutu þeir að hafa sett upp salernisaðstöðu fyrir þátttakendur í maraþoni sem allir eru eins og beljur sem þurfa að losa á sama tíma. En nei aldeilis ekki! Þegar við komum á malarplanið var ljóst að enga salernisaðstöðu var þar að finna heldur var fólk á harðahlaupum upp í hlíðina til að finna sér runna til að setjast á hækjur sér bakvið eða spræna út í loftið ef það átti betur við. Ekki nema von að hlíðin væri gróðursæl.
Hlaupið. Þar kom að því. Allir kallaðir á ráslínu. Spilaður einhver argentínskur bragur og þátttakendur tóku undir. Gæsahúð alla leið. Drónar flugu yfir og spennan magnaðist. Uno, dos, tres og allir af stað! Þetta var byrjað! Til að byrja með hlupum við niður ansi bratta brekku, hún var það brött að hún var eiginlega óþægileg. Það var ekki hægt að rúlla hana þægilega heldur þurfti að gæta þess að vera ekki með bremsuvöðvana í fullri vinnu. Eftir um ca km tók við brött brekka upp í móti sem var um ca 500 metrar og síðan aftur brekka niður. Þetta reyndist vera forsmekkurinn af því sem koma skyldi. Sem betur fer voru þó brekkurnar niður í móti meira aflíðandi eftir þetta en alltaf komu síðan brekkur upp í móti sem voru töluvert brattar og sumar óþægilega langar. En hvað sem því líður þá var brautin skemmtileg. Eftir um ca. 5 km vorum við komin úr fjallaskarðinu og niður á flatann og hlupum þá í breytilegu landslagi. Á tímabili hlupum við í gegnum mikil trjágöng í fallegu umhverfi og á tímabili hlupum við í töluverðri bílaumferð þar sem brautin var látin krossa mikinn akveg. Það var auðvitað ekkert sérstakt en tók sem betur fer frekar fljótt af. Þegar við nálguðumst Mendoza þá breyttist umhverfið úr fallegu dreifbýli með útsýni til Andesfjallanna í borgarútsýni með lágreistri byggð. Það er ekki hægt að segja að það sé mikil stemning í brautinni þar sem áhorfendur eru mjög af skornum skammti lengstum en þó höfðu þeir sett á nokkra staði trommara til að peppa mannskapinn upp. Það verður að segjast alveg eins og er að þegar í borgina var komið og rétt um 7-8 km eftir og þeir að mestu niðurhallandi og í huganum hafði planið verið að gefa þar vel í þá var það bara alls ekki hægt. Framanverð lærin voru bara búin að fá nóg og höfðu ekki áhuga á neinum sperringi og hitinn hafði stigið úr því að vera þægilegur 7-8 stigi hiti um morguninn í rúmlega 20 gráður þannig að lokaspretturinn varð bara eins og í júróvisjón um árið- hægt og hljótt! En yfir marklínuna var farið með mikla gleði í hjarta og ánægju með að hafa náð að klára þetta skemmtilega maraþon og það í 6. heimsálfunni!
Niðurstaða. Allir Íslendingarnir skiluðu sér í mark sem er aldeilis frábært! Það er sko ekki sjálfgefið að 8 manns skili sér á ráslínu og í mark. Frikki sló öllum við og varð fyrstur af okkur Íslendingunum og ekki nóg með það þá vann hann í gamalmennaflokknum eins og hans ástkæra Rúna uppnefndi hinn virðulega flokk 55-60 ára. Sjálfur var ég ánægður með minn tíma þar sem ég lenti í smá basli undir lok æfingatímabilsins og vissi ekki alveg hverju ég mætti búast við. Þegar upp var staðið gekk hlaupið ljómandi vel og ég var nálægt mínu ýtrasta markmiði og endaði 4. í mínum aldursflokki. Bjarki var að hlaupa sitt fyrsta maraþon og sló í gegn með því að ná undir 4 tímana. Aðrir kláruðu sínar vegalengdir með sóma og sérstaklega má geta þess að Unnur var að klára sitt annað maraþon á árinu einungis um sex mánuðum eftir bílslysið í Berlín. Það er auðvitað alveg ótrúlegt afrek út af fyrir sig.
Við tóku dagar í gleði og glaumi sem ekki er viðeigandi að greina mikið frá í virðulegum hlaupapistli. Þess má þó geta að það er afar góð hugmynd að skipuleggja rólegan hjóladag um vínekrur daginn eftir maraþon. Vín, nautakjöt og hjól er gott combo. Síðan er alveg bráðsnjallt að skipuleggja heilan dag í heitum böðum eftir hjóladaginn. Risa hlaðborð í hádeginu með ennþá meira nautakjöti og argentínskum eðalvínum er allt í lagi.
Eftirmáli. Ég er náttúrulega búinn að komast að því að ég held að yfirliðið í flugvélinni yfir hafið gæti hafa verið sviðsett. Við vorum nefnilega búin að ákveða að panta ekki flugið til Buenos Aires á næsta ári, þegar Suðurskautið verður vonandi sigrað, fyrr en eftir þetta ferðalag. Nú er búið að panta það flug. Það verður flogið í tveimur leggjum en ekki þremur eins og nú. Og í betri sætum.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.