Maður á sextugsaldri

Það er ekki langt síðan mér fannst fréttir um fólk á fimmtugsaldri ekki koma mér nokkurn skapaðan hlut við. Ástæðan var einfaldlega sú að ég samsamaði mig ekki með þessu fólki. Þetta var hér áður fyrr í mínum huga rígfullorðið fólk sem ég átti lítið sameiginlegt með. En svo leið tíminn. Allt í einu voru skólafélagarnir farnir að detta inná þennan aldur og ég sjálfur með. Og áfram leið tíminn. Hraðar og hraðar eins og þeir þekkja sem ná þessum aldri. Og nú eru önnur tímamót. Ég er víst formlega orðinn maður á sextugsaldri!

Dásamlegt! Og sjá, allt í kringum mig er fólk á sextugsaldri og sumir sem ég hef þekkt í gegnum áratugi og mér hefur aldrei fundist líta jafn vel út! Aldeilis frábært hvernig aldurinn eldist með manni og breytir sjónarhorninu. Rígfullorðið fólk á sextugsaldri eru í dag mínir helstu félagar og vinir í leik og starfi og ég finn ekki einu sinni fyrir því að aldurinn hái þeim á nokkurn hátt! Og þetta fólk sem var áður á fimmtugsaldri og mér fannst ekki koma mér við er nú orðið fólk á sjötugs-, áttræðis- og jafnvel ní- og tíræðisaldri. En í stað þess að finnast þetta fólk ekki koma mér við horfi ég nú til þeirra með aðdáunarbliki í auga og dáist að árangrinum. Að hafa náð þessum aldri og áorkað öllu því sem það hefur gert. Það eru forréttindi að komast inná nýjan áratug og þakkarvert.

Mér fannst merkilegt að verða 50 ára fyrir ári síðan. Mér finnst merkilegt að vera núna formlega kominn á sextugsaldurinn. Í gær lauk ég við 10. árið þar sem ég hef æft hlaup reglulega. Í dag hófst síðan 11. hlaupaárið með góðri æfingu í hádeginu. Ég þurfti á góðri æfingu að halda því ég hef aðeins verið að ströggla síðustu vikurnar. Fékk leiðinda pest og fór of fljótt af stað aftur og lenti þá í smá hjartsláttarveseni sem nú virðist að baki. En svona líður tíminn. Það skiptast á skin og skúrir, dalir og fjöll. Allt hefur þetta eitthvað við sig og í versta falli býr til reynslu sem hægt er að reyna að læra af. Þó ekki væri annað en þolinmæði og umburðarlyndi fyrir aðstæðum. Slíkt er ekki sjálfgefið.

Síðasta ár var bæði viðburðarríkt og skemmtilegt á hlaupasviðinu. Ég setti mér það markmið að hlaupa 10 maraþon á milli afmælisdaga og það tókst. Bætti meira að segja við einu skemmtilegu utanvegahlaupi í íslensku slagveðurssumarveðri eins og þau gerast eftirminnilegust þegar ég hljóp tvöfalda Vesturgötu. Hlaupin leiddu mig á nokkra staði sem ég hef ekki heimsótt áður auk staða sem ég hef áður heimsótt. Á milli afmælisdaga hljóp ég í 3 þremur heimsálfum og ef ég bæti við nokkrum vikum fyrir og eftir afmælisdaga þá bætast við 2 heimsálfur og samtals 7 lönd þannig að þetta er bara búið að vera býsna fjölbreytt.

Undanfarin ár hef ég haft það til siðs að hlaupa á afmælisdaginn þann fjölda kílómetra sem árafjöldinn segir til um. Ég ákvað hins vegar að hætta því núna. Þótt ánægjulegt sé að ná þessum árafjölda þá fer það að verða þreytandi á hlaupabrautinni að hlaupa þetta allt saman! En mér datt annað markmið til hugar. Nú þegar nýjum áratug er náð finnst mér ágætt að setja mér sem markmið að ná því að hlaupa jafn mörg maraþonhlaup og árafjöldinn segir til um. Ef mér endist aldur, heilsa og áhugi til þá stefni ég að því að ná því að hlaupa 60 maraþon þegar og ef ég næ 60 ára markinu. Ef vel gengur ætti það ekki að vera fráleitt markmið því á þessum 10 árum sem liðin eru síðan ég byrjaði á þessu þá eru 34 maraþon að baki og amk 2 til viðbótar á dagskránni þetta árið.

En af hverju maraþon? Ég féll fyrir vegalengdinni í mínu fyrsta maraþoni vorið 2009 í Kaupmannahöfn. Mér fannst stemningin í brautinni frábær og sagði að hlaupi loknu við vin minn að þetta væri upplifun á lífinu og að þetta vildi ég endurupplifa eins oft og ég gæti. Eins og ég hef oft sagt er ekkert maraþon eins og yfirleitt koma alltaf upp aðstæður í hlaupinu sem maður hefur ekki þurft að takast á við áður. Rétt eins og í lífinu sjálfu. Þar til viðbótar þekki ég ekki margar íþróttagreinar þar sem áhugamaðurinn getur beinlínis keppt við þá bestu í heimi, í sömu brautinni, á sama tíma og við sömu aðstæður. Til marks um þetta þá er núna mikil spenna fyrir Londonmaraþoninu sem haldið verður þann 22. apríl nk. Ástæðan er sú að þá munu þrír kappar, ásamt auðvitað mörgum fleirum, reyna með sér sem þykja allir líklegir til stórræða. Það eru þeir Eliud Kipchoge, sem á best 2:03:05, Kenenisa Bekele, sem á best 2:03:03, og Mohamed Farah eða Mo Farah eins og flestir þekkja hann, en hann á 2:08:21 í hans eina maraþonhlaupi til þessa sem hann hljóp í London 2014. En það er skemmst frá því að segja að ég er búinn að keppa við alla þessa kappa og hef bara tapað fyrir tveimur þeirra! Ég er meira að segja búinn að hafa Bekele tvisvar undir á sama árinu því ég keppti við hann í Dubai maraþoninu í janúar í fyrra og aftur í Berlín í fyrra. Í bæði skiptin komst ég í mark en hann ekki! Ég tapaði fyrir Mo Farah í London 2014 með tæplega klukkustundar lakari tíma en hann. Mér gekk ekki eins vel með Kipchoge því ég tapaði fyrir honum í Berlín í fyrrahaust með rétt um einni klukkustund og hálftíma að auki lakari tíma en hann. Ég ákvað þetta árið að gefa Bekele séns og skráði mig því í annað hlaup en hann þannig að ég hef fulla trú á honum í þetta skiptið.

En sem sagt við félagarnir Kipchoge, Bekele, Mo og Gunnar stefnum allir að góðum árangri á hlaupabrautinni þetta árið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert ótrúlegur Gunnar. Tek hatt minn ofan fyrir þér. 

Astridur Grimsdottir (IP-tala skráð) 11.4.2018 kl. 00:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband