Óveðursský yfir Berlín

Að þessu sinni blogga ég um þrjú hlaup. Þau voru hvert með sínu lagi. Það þriðja, í Berlín, verður eftirminnilegt af röngum ástæðum.

Brisbane Ástralíu.

Þann 6. ágúst sl. hlupum við hjónin maraþon í Brisbane Ástralíu ásamt vinum okkar Unnari og Unni. Þetta hlaup var partur af verkefninu að klára maraþon í öllum heimsálfum og var þetta 5. álfan af 7 sem við Unnar klárum. Stelpurnar eru rétt á eftir okkur og verða báðar búnar með 4 álfur ef Þóra klárar NY maraþonið í haust.

Unnar og Unnur fóru af stað í ferðalagið aðeins á undan okkur Þóru og dvöldu í Bangkok í nokkra daga áður en við hittumst þar og héldum för okkar áfram til Brisbane. Það er alveg óhætt að segja að þetta sé ferðalag í lengra lagi til að eltast við tiltekna 42,2 km. En svona er þetta bara. Sumir eltast við einhverjar holur út um allar koppagrundir til að slá kúlur í á meðan aðrir berjast upp alla hóla, hæðir og fjöll sem þeir komast yfir, hvort sem er gangandi, hjólandi eða klifrandi, og enn aðrir setja sér markmið um að komast á pólana. Allt er þetta ágætt og skiptir í sjálfu sér ekki máli hvað er gert heldur bara að það sem gert er skapi gerendunum einhvers konar fullnægju.

Við Þóra lögðum af stað frá Íslandi rétt eftir miðnættið 2. ágúst og flugum til Osló. Þar biðum við í rúma 9 tíma áður en flogið var til Bangkok. Þar þurftum við að bíða í tæpa 18 tíma þannig að við bókuðum okkur inn á hótel á flugvellinum til að reyna að hvíla okkur aðeins. Kl. 00:01 þann 4. ágúst hófst síðasti leggurinn með rúmlega 8 tíma flugi til Brisbane. Að teknu tilliti til tímamismunar var kl. að verða 11 að morgni þegar við lentum í Brisbane og á hótelið vorum við komin skömmu eftir hádegið. Það var nú pínu skrítið að hafa lagt af stað í ferðalag að kvöldi 1. ágúst á Íslandi og tékka sig inná hótel á áfangastað uppúr hádegi þann 4. ágúst. Sumarfríið eiginlega ekki byrjað en samt að verða búnir 3 dagar af því!

En hvað um það. Eftir að hafa skilað af okkur töskunum fórum við beint á Expóið. Það var nú í minna lagi því gögnin voru afhent í lítilli sportvöruverslun. En það var svo sem hægt að kaupa eitt og annað þar og eiginlega ekki vöntun á neinu. Það sem eftir lifði dags röltum við um miðbæjarkjarna Brisbane, sem nb. er mjög flottur og afskaplega hreinlegur svo ekki sé meira sagt – enda bannað að reykja þar, sem er til mikillar fyrirmyndar!

Þegar fór að líða á kvöldið tókum við til fötin og fórum snemma í háttinn. Enda kannski eins gott því ræsing í hlaupinu var kl. 6 að morgni og því þurfti að vakna fyrir kl. 4. Við stilltum báða símana til að vekja okkur og datt jafnvel í hug að láta lobbýið hringja í okkur líka. Bara svona til öryggis. En þegar til kom þurftum við alls ekki að hafa áhyggjur af því að vakna ekki. Hvort sem það var spenningur fyrir hlaupinu eða ferðalagið og tímamismunurinn þá tókst okkur bara alls ekkert að sofna. Þetta varð að nóttu hinna mörgu snúninga og tilrauna til að sofna svona eða hinsegin, talning á rollum og hvað eina sem á að slökkva ljósin. Ég varð eiginlega þeirri stundu fegnastur þegar klukkan hringdi loksins og ég gat hætt að reyna að sofna.

Loksins var hægt að hefja lokaundirbúning. Koma sér á lappir, borða morgunmat og gera sig kláran fyrir startið. Já startið maður – það var ca 60 metrum frá hótel dyrunum okkar og ca 20 metrum frá hólfinu okkar Þóru! Styttra gat það varla verið nema ef það hefði hreinlega verið inni í lobbýi. Það var ennþá niðamyrkur úti og frekar svalt. Því var gott að geta hangið inní í lobbýinu þar til ekki voru nema nokkrar mínútur í að hlaupið skyldi hefjast. Fjörið fyrir hlaup var í minna lagi því engin músík var spiluð og kynnirinn talaði ekki nema endrum og sinnum í hátalarakerfið. Þess á milli var bara lágvært skvaldur frá keppendum. En loks þegar um 5 mínútur voru í að við ættum byrja fór kynnirinn loksins almennilega í gang. M.a. tilkynnti hann um það að keppendur væru frá um rúmlega 20 löndum og þar á meðal Íslandi! Það þótti þeim greinilega vera nokkur tíðindi og þar sem við Þóra vorum merkt Íslandi í bak og fyrir fengum við mikla hvatningu í brautinni og margir ástralskir hlauparar höfðu áhuga á að spjalla við okkur á leiðinni. En svo varð kl. 6. Og ekkert gerðist annað en það að kynnirinn hélt áfram að mala. Greinilega ekkert að stressa sig á tímanum þarna niður frá. En ca 3 til 4 mínútur yfir 6 var okkur loksins hleypt af stað. Það var eiginlega eins gott því það var ekki nema 7-8 stiga hiti og okkar var farið að verða frekar kalt. Þar sem við reiknuðum með heiðskýru veðri þegar færi að birta vorum við léttklædd og ætluðum að láta sólina verma okkur upp.

Hlaupið hjá okkur Þóru gekk í raun eins og í sögu. Ég vissi að hún hafði ekki hlaupið mikið magn um sumarið en þó tekið góðar langar æfingar. Ég var því með það plan að við myndum reyna að hlaupa nálægt hennar besta tíma því þótt hún hefði verið betur æfð fyrir fyrstu tvö maraþonhlaupin þá voru þau komin í reynslubankann og aðstæður voru í raun mjög góðar. Eina spurningin var sú hvenær sólin færi að skína beint á okkur. Þegar til kom reyndist þetta vera eini morguninn í Ástralíu þar sem það var skýjað fram eftir morgni þannig að sólin skein ekki á okkur að ráði fyrr en síðasta klukkutímann. Okkur gekk mjög vel með fyrri hlutann þannig að ég var orðinn nokkuð bjartsýnn á markmiðið myndi nást. Næstu 10 km voru líka fínir þótt það hægði aðeins á okkur. En þegar það voru eftir um 8-10 km þá fór Þóra að finna fyrir krömpum, nokkuð sem hún hafði ekki upplifað í fyrri hlaupunum. Væntanlega var þarna um að kenna að heildarhlaupamagnið fyrir hlaupið hafði verið í naumara lagi. Þannig að síðustu kílómetrana var horft stíft á klukkuna og reiknað og reiknað. Það lá í raun ekki fyrir fyrr en við komumst yfir marklínuna hvort markmiðið myndi nást eða ekki þar sem svona krampar geta verið óútreiknanlegir og stoppað mann alveg í töluverðan tíman þegar verst lætur. En þegar upp var staðið vorum við réttu megin við besta tímann hennar og hún bætti sig þarna um rúmar 30 sekúndur. Þótt það sé ekki svo mikið er PB alltaf PB og við hlauparar þiggjum alltaf eitt slíkt.

Brautin í Brisbane er frekar skemmtileg þar sem hlaupið er meðfram ánni sem liðast í gegnum borgina. Í grófum dráttum má segja að þetta séu tveir hringir en þó ekki alveg eins. Það eru ekki mjög margar brekkur í henni en þó ein ágætlega myndarleg eftir 5-6 km þegar hlaupið er yfir mikla brú sem er einkennisbrú Brisbane. Að öðru leyti voru brekkur ekki margar og þær sem við hittum voru ekki svo brattar né langar. En brautin er ansi hlykkjótt og á fyrri hlutanum er hún víða ansi þröng enda eru hálfmaraþonhlaupararnir ræstir um leið og maraþonhlaupararnir. Við þetta bætist að á seinni hringnum er að hluta til hlaupin sama leið og 10 km hlaupararnir hlaupa þannig að við fengum þá hröðustu í bakið á fleygiferð með undanfara á hjólum flautandi og kallandi. Og síðustu kílómetrana þegar styttist í markið þá voru margir gangandi vegfarendur að spígspora meðfram ánni og þar með á hlaupabrautinni og þeir voru hreint ekki allir á því að þetta hlaupalið ætti að hafa einhvern forgang! Þannig að í restina var þetta orðið töluvert zik zak sem auðveldaði ekki þreyttum fótum vinnuna.

En allt var þetta dásamleg upplifun!

 

Reykjavík.

Daginn fyrir Reykjavíkurmaraþonið, föstudaginn 19. ágúst sl., lentum við Þóra á Íslandi eftir vel heppnaða för til Thailands og Ástralíu. Í þetta skiptið var hugmyndin sú að vera á hliðaralínunni og fylgjast með hlaupinu enda vorum við ekkert búin að hlaupa frá því í Brisbane. En þegar við lentum þá var þetta fína veður í bænum og spáin mjög góð fyrir laugardaginn. Ég stóðst því ekki mátið og í stað þess að taka upp úr töskum þegar heim var komið brunaði ég beint niður í Laugardagshöll og skráði mig í maraþonið. Planið var að hlaupa þetta bara á þeim hraða sem væri þægilegur og njóta þess að vera í brautinni með öðrum hlaupurum og upplifa stemninguna. Allt gekk þetta eftir og dagurinn hinn besti. Ég náði að stilla mig ágætlega af en var samt vissulega orðinn nokkuð lúinn eftir um 36 – 37 km. En þegar þangað var komið tók heimþráin völdin þannig að ég náði að spretta ágætlega úr spori síðustu kílómetrana. Þegar upp var staðið var ég um 5 mínútum hægari með seinni hlutann en þann fyrri sem var bara alveg ágætt miðað við hóglífið vikurnar á undan.

 

Berlín – óveðursský og lærdómur til hlaupara

Til Berlínar var lagt af stað eldsnemma að morgni föstudaginn 22. september. Með okkur Þóru í för voru Unnar og Unnur. Í þetta skiptið voru það bara við Unnar sem ætluðum að hlaupa maraþonið en stelpurnar ekki. Þær voru hins vegar báðar með hlaupafötin með sér því báðar eru þær að undirbúa sig fyrir maraþon seinna í haust. Í þetta skiptið vorum við ekki á sama hóteli því ég hafði fengið skráningu í hlaupið í gegnum lottóið en Unnar fór með Bændaferðum. Eins og venjulega var byrjað á því að fara á Expóið og sækja gögnin og síðan hittumst við um kvöldið og borðuðum saman. Til stóð að hafa svipaðan háttinn á daginn eftir og hittast um kvöldið til að borða saman og leggja línurnar fyrir hlaupið. En það breyttist.

Á laugardagsmorguninn fór Bændaferðahópurinn í létt morgun jogg. Það var búið að skipuleggja stuttan hring fyrirfram en þegar til kom þá hlupu þau tveimur götum of langt miðað við planið. Þegar þau beygðu loks þá voru þau ekki búin að hlaupa nema í skamma stund þegar þau komu að næstu gatnamótum. Þar var mikið í gangi. Augljóst var að slys hafði átt sér stað þar sem á staðnum voru bæði lögreglu og sjúkrabílar. Fljótt áttuðu þau sig á því að sennilega hefði verið keyrt á hlaupara. Eftir nokkra stund á vettvangi spyr einn úr hópnum hvort verið geti að þetta sé Unnur. Unnar sem var ekki búinn að leiða hugann að því, enda hafði Unnur ráðgert að hlaupa meðfram ánni á allt öðrum stað, fór þá að virða betur fyrir sér manneskjuna sem var verið að stumra yfir. Ekki sást í höfuð hennar en allt í einu fannst honum hann kannast við klæðnaðinn. Hann gekk nær og spurði sjúkrafólk að því hvort hægt væri að spyrja hvort hin slasaða væri íslensk. Það reyndist ekki unnt. En eftir skamma stund var komið með ökuskírteini sem hlauparinn hafði á sér. Þá fékkst það staðfest að það var Unnur sem keyrt hafði verið á.

Tildrögin voru þau að hún hljóp yfir á gangbraut á móti grænu ljósi. Rúta hafði stöðvað við gangbrautina þannig að hún hefur eðlilega talið í lagi að fara yfir. Hún sá hins vegar ekki að bílstjóri við hlið rútunnar stöðvaði ekki heldur ók áfram á móti rauðu ljósi. Svo virðist sem Unnur hafi lent utan í bílnum og kastast þaðan í götuna. Rúðan í bílnum farþegamegin var brotin þannig að sennilegt er að hún hafi ekki lent beint framan á bílnum. Sem betur fer. Hún var óbrotin en mikið lemstruð og fékk auk þess þungt höfuðhögg.

Við tóku dagar á spítala þar sem segja má að líðan sé eftir atvikum.

Um kvöldið þegar Unnar var komin af spítalanum ræddum við nokkur í anddyri hótelsins um atburð dagsins. Fram kom að flestir sem hafa verið að hlaupa einir í útlöndum hafa ekki haft á sér nein persónuskilríki. Amk vorum við Unnar báðir í þeim hópi. Við ræddum þá stöðu sem upp hefði komið ef Unnur hefði ekki verið með skilríki á sér og forlögin hefðu ekki gripið í taumana og teymt Unnar á slysstað. Þá hefði atburðurinn orðið ennþá ömurlegri þótt maður vilji engum að koma að slysstað þar sem maki manns er hinn slasaði. En engu að síður var það skárra en að upplifa það að koma upp á hótelherbergi og makinn skilar sér ekki heim á áætluðum tíma. Fyrst koma smávægilegar áhyggjur sem síðan aukast. Að lokum hefst leit. Sú leit getur verið taugatrekkjandi og tekið tíma. Ekki síst í milljónaborgum. Framvegis mun ég aldrei hlaupa einn í útlöndum öðru vísi en að hafa á mér upplýsingar um sjálfan mig, tengilið og hótelið sem ég dvel á. Ég skora hér með á alla þá sem lesa þennan pistil að gera hið sama.

Við Þóra og Unnar borðuðum seint kvöldið fyrir hlaup. Þar sem fyrir lá að Unnur var ekki í lífshættu en á sterkum verkjalyfjum og svaf mikið ákvað Unnar að hann myndi hlaupa maraþonið. Þar sem Þóra ætlaði hvort sem er ekki að hlaupa var ákveðið að hún myndi fara upp á spítala morguninn eftir og vera hjá Unni þar til Unnar kæmi að loknu hlaupi.

Því verður ekki á móti mælt að það var skrítið að vakna morguninn eftir og fara að taka sig til í maraþonhlaup vitandi af Unni inni á spítala eftir bílslys. En því varð ekki breytt og því ekki annað að gera en að hysja upp um sig brækurnar. Við Unnar höfðum sammælst um að hringja okkur saman þegar inn á hlaupasvæðið væri komið. En áður en að því kom tók við smá viðbótar taugatrekkjari. Þóra gekk með mér að hliðunum inn á svæðið og kvöddumst við áður en ég fór þangað inn og hún héldi upp á spítala. Þegar kom að mér að fara inn á svæðið vildi vörðurinn fá að sjá bæði númerið framan á skyrtunni og úlnliðsbandið sem við vorum skildug að hafa á okkur til að komast innfyrir. Þegar hann sá mitt úlnliðsband hristi hann bara hausinn og vísaði mér burt. Það var alveg sama hvað ég reyndi að tala við hann, engu tauti varð við hann komið og hann gerði enga tilraun til að aðstoða eða leiðbeina mér. Ég reyndar kveikti strax á því hvað ég hafði gert vitlaust en þurfti aðstoð til að reyna að leysa úr vandanum. Málið var nefnilega það að áður en við fengum afhent númerin á Expóinu fengum við sérstakt úlnliðsband á okkur sem var meira að segja innsiglað þannig að ekki var hægt að ná því af nema rífa það og eyðileggja um leið. Þegar ég var kominn upp á hótel eftir að hafa verið á Expóinu sá ég í pokanum annað úlnliðsband úr teygju. Ég hugsaði þá með mér að það væri úlnliðsbandið sem ég ætti að hafa á mér til að komast inná hlaupasvæðið og að hinu bandinu hefði verið ætlað að þjóna því hlutverki að sýna og sanna að búið væri að þukla mig og sprengjuleita áður en ég kæmist til að sækja númerið mitt inni á Expóinu. Ég reif því það band af mér og henti því. Ég áttaði mig auðvitað strax á mistökunum þegar vörðurinn neitaði mér inngöngu. En hvern fj. átti ég nú að taka til bragðs? Ég náði að kalla í Þóru og ræddi stöðuna við hana. Úr varð að ég gerði aðra tilraun hjá öðrum verði og fékk sömu viðtökurnar. Burt með þig vinur! Þegar ég reyndi að fá upplýsingar um hvað ég gæti gert þá benti hann mér á einhverja starfsmenn sem áttu að vera framan við hliðin í áberandi vestum. Ég fann einn slíkan en hann horfði á mig hálf tómum augum og gerði mér ljóst að hann kynni enga ensku. Ekki hafði hann nokkurn áhuga á að reyna að aðstoða mig eða finna enskumælandi starfsfélaga sinn. Mér leist satt besta að segja ekkert á blikuna og sá fyrir mér að ég væri bara ekkert að fara að hlaupa þetta hlaup. Og tíminn leið og það styttist í ræsingu. Ég ákvað að gera enn eina tilraunina til inngöngu og valdi mér í þetta skiptið kvenstarfsmann. Þegar kom að mér þá hófst sama sagan. Rangt úlnliðsband og ég átti að fara. Ég ákvað að fara ekki neitt og maldaði í móinn. Þar sem hún skildi smávegis í ensku gat ég útskýrt fyrir henni hvað hafði gerst. Þessi ágæta kona gerði þá nokkuð sem hinir höfðu ekki viljað og kallaði til einhvern starfsmann sem virtist vita hvað ég ætti að gera. Hann benti mér á að ég ætti að fara töluvert langt til baka og finna þar upplýsingabás. Þar gæti ég fengið leiðbeiningar. Við Þóra nánast hlupum til baka að leita að básnum. Hann var lengra í burtu en ég hafði átt von á og þegar þangað kom nánast réðst ég að fyrsta starfsmanninn sem ég sá og bunaði út úr mér allri sögunni. Hann leit hinn rólegasti á mig og bað um að fá að sjá númerið mitt, síðan vildi hann sjá númerið á fatapokanum sem ég var með og leit loksins á Þóru, svona eins og til að fá það staðfest hjá henni að ég væri ekki alveg bilaður – og smellti síðan á mig nýju úlnliðsbandi! Málið leyst og dautt! Ég varð svo feginn að ég upplýsti hann um á staðnum að ég elskaði hann! En lengra náðu þau kynni nú ekki og við Þóra hlupum af stað til baka. Í þetta skiptið gekk allt eins og í sögu og ég komst inná start svæðið. Ég var hins vegar orðinn svo stressaður að ég ætlaði aldrei að finna fatatjaldið mitt og þurfti að láta Unnar lóðsa mig í gegnum svæðið í gegnum símann. En þetta tókst allt saman og á startlínunni var ég á réttum tíma.

Hlaupið sjálft. Í sjálfu sér er ekki mikið um það að segja. Allt það sem á undan var gengið var miklu viðburðaríkara en þetta blessaða hlaup. En fyrst ég var kominn þá var ekki annað að gera en að klára það og tékka þannig í boxið. Ef mér tækist að klára þá væri þetta 5. hlaupið af þeim 6 stóru og bara eitt eftir. En dagurinn var fínn hlaupalega. Það voru ca 12-13 gráður þegar við byrjuðum og léttur rigningarúði í upphafi sem síðan hætti. Þannig að það var ágætlega hlýtt, rakt og lítill vindur. Kjöraðstæður. Þar sem ég hafði lítið hlaupið frá því í Brisbane voru væntingar um tíma mjög hóflegar. Mér fannst samt að ég ætti að geta hlaupið hraðar en í Reykjavíkurmaraþoninu því þrátt fyrir allt var ég búinn að hlaupa nokkrum sinnum síðan þá og var ekki að koma úr ferðalagi yfir hálfan hnöttinn dagana á undan. Ég setti mér því það markmið að reyna að hlaupa á undir 3:45 og bónusmarkmiðið var að reyna að komast á 3:39:xx. Miðað við þetta var planið að fara út á ca 5:10 og sjá til hversu lengi ég myndi hanga á því. Innst inni vonaðist ég auðvitað eftir því að geta haldið þeim hraða út hlaupið og ef allt gengi 100% reyna að vera sem næst negatívu splitti. Þegar upp var staðið gekk þetta fullkomlega upp og gott betur en það. Fyrstu 10 km hljóp ég á 5:09 pace, næstu 10 km á 5:07 pace, þar næstu 10 km á 5:04 pace, km 30-40 á 4:59 pace og endaði síðustu 2,2 km á 4:37 pace. Þannig að þetta endaði með því að ég var 3 mínútum fljótari með seinni helminginn en þann fyrri og endaði á 3:33:24. Þetta gekk því mun betur en ég átti von á og var langt undir því tímaviðmiði sem ég hélt að innistæða væri fyrir.

Enn einu maraþoninu er því lokið en því miður verður þetta hlaup eftirminnilegt af öðrum ástæðum en vonir stóðu til. Eins og ég hef oft sagt áður er ekkert maraþon eins og hvert maraþon fyrir sig er sérstök upplifun. Rétt eins og lífið sjálft. Það fer ekki eftir fyrirfram skrifuðu handriti og kemur okkur stöðugt á óvart. Bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. En hvað sem að okkur er rétt þá höfum við ekki annað val en að taka á móti því og gera það besta sem við getum úr hverjum þeim aðstæðum sem okkur eru skapaðar.

Njótið dagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 146
  • Frá upphafi: 70200

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 117
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband