Árið er 2017 – Maraþon heima og heiman.

Dubai, Fossvogsdalur, Stokkhólmur, Kópavogur, Brisbane, Snældubeinsstaðir, Berlín, Vesturgatan, NY.

 

Á síðasta ári ákvað ég að hlaupa 10 hlaup sem jafngiltu 10 maraþonvegalengdum á 10 mánuðum af því tilefni að 10 ár voru liðin frá því að ég lauk lyfjameðferð vegna hvítblæðis. Það verkefni tókst ljómandi vel og lauk ég verkefninu með því að hlaupa 10. hlaupið í Dubai maraþoninu í janúar sl. Það vill síðan þannig til að á þessu ári tókst mér að verða 50 ára. Þar sem það er alls ekki sjálfgefið að ná þeim áfanga fannst mér við hæfi að gera eitthvað sérstakt á afmælisárinu og setti upp hlaupaplan fyrir árið. Þar sem þessir tveir merkilegu áfangar eru aðliggjandi sitt hvort árið má því segja að ég sé að upplifa stanslausa hlaupaveislu tvö ár í röð!

Það er kannski vel við hæfi að síðasta hlaupaverkefnið af tilefni framangreinds 10 ára afmælis sé þá um leið nokkurs konar inngangur að 50 ára afmælisárinu en formlega náði ég áfanganum 10. apríl. Hugmyndin er síðan að halda reglulega uppá áfangann til 10. apríl 2018. Ef ég byrja talninguna á Dubai maraþoninu þá eru maraþonhlaupin á þessu ári orðin 5 og um síðustu helgi bættist við tvöföld Vesturgata sem er 45 km hlaup í stórbrotnu landslagi á Vestfjörðum eða nánar tiltekið í Arnarfirði og Dýrafirði. Á þessu ári eru amk 3 maraþonhlaup til viðbótar fyrirhuguð, 6. ágúst í Brisbane, 24. september í Berlín og 5. nóvember í NY, og væntanlega reyni ég að klára enn eitt til viðbótar fyrir afmælisdaginn á næsta ári.

Ég hef haft það fyrir venju að blogga eitthvað um þessi hlaup áður en þau fyrnast í minningunni. Fyrst og fremst er það gert fyrir sjálfan mig til að geta rifjað þau upp síðar og jafnvel í ellinni. Takist mér að komast á elliheimili er nánast öruggt að ég mun skemmta (?!) samferðafólki mínu þar með því að lesa þetta upp fyrir þau aftur og aftur og aftur…og aftur….

Dubai.

Dubai maraþonið var þreytt þann 20. janúar 2017. Eins og venjulega var heilmikill spenningur fyrir hlaupið og þá ekki síst hvernig veðrið myndi verða. Það eru reyndar hefðbundnar bollaleggingar hjá okkur Íslendingum en nú var ástæðan þó önnur en venjulega heima á Íslandi. Það voru engar áhyggjur af því hvort það myndi verða rok og rigning heldur var spurningin fyrst og fremst sú hvort það yrði of heitt. Hlaupinu er reyndar startað snemma eða kl. 06:30 til þess að losna við mesta hitann. Það er auðvitað fínt og mjög gott reyndar fyrir þá sem klára á rúmlega 2 klst. Því það er ekki fyrr en uppúr kl. 8:30 sem fer að hitna að ráði en frá þeim tíma hitnar líka býsna hratt. Það sem þá gerðist líka var að það fór að blása aðeins meira en fyrr um morguninn. Það var svo sem ekki blástur eins og við þekkjum hér á Íslandi sem getur verið full mikill á köflum en þessi blástur var bara allt annarrar tegundar. Í stað þess að veita kælingu var blásturinn heitur þannig að upplifunin var eins og að stinga höfðinu í blástursofn sem er bara alls ekki góð hugmynd. Þannig að hækkandi hitastig og heitur blástur var það sem var á matseðlinum þegar fór að líða á hlaupið.

En hvað um það – þetta var auðvitað bráðskemmtilegt eins og alltaf. Sjálfur held ég því alltaf fram að ekkert maraþon sé eins, jafnvel þótt hlaupið sé í sömu braut, því alltaf gerist eitthvað sem er öðruvísi. Það geta verið utanaðkomandi aðstæður eins og mismunandi veður eða eitthvað persónubundið. Í þetta skiptið upplifði ég það að fá krampa í aðra rasskinnina eftir um 22 km. Það er frekar óþægilegt og losnaði ég ekki við krampann fyrr en við 35 km drykkjarstöðina. Það varð þess valdandi að hlaupið hjá mér varð ansi kaflaskipt. Ég hafði náð að halda ágætis dampi fram að krampanum en eftir það hægði jafnt og þétt á mér og auðvitað hjálpaði hækkandi hitastig ekki heldur. Þetta varð þess auðvitað valdandi að heilu bílfarmarnir af hlaupurum fóru fram úr mér á þessum kafla sem er nú frekar niðurdrepandi til lengdar. En ljósi punkturinn var þó sá að þegar ég losnaði við krampann við 35 km gat ég aukið hraðann töluvert sem þeir gátu ekki sem þá voru í kringum mig. Þannig að mér tókst að ljúka við síðustu 7 km án þess að fleiru færu fram úr mér og ég náði að fara fram úr dágóðum hópi. Niðurstaðan því sú að ég endaði í 217. sæti í heildina (af 2424 sem kláruðu) og 18. sæti í mínum nýja flokki, 50 ára (þeir miða þarna við afmælisár en ekki afmælisdag), á tímanum 03:31:27. Það er alveg ásættanlegt miðað við aðstæður þótt þetta hafi nú verið nokkuð frá upphaflega markmiðinu. Ég var næstum 11 mínútum lengur með seinni hlutann en þann fyrri sem er allt of mikill munur ef allt er með felldu. En engu að síður ný og athyglisverð upplifun – krampi í rasskinn!

En þá aðeins að umgjörðinni. Expóið er haldið í risastórri byggingu við kappreiðavöll þeirra Dúbæinga. Þegar að er komið þá gerði maður ráð fyrir að þetta yrði nú eitthvað. Og þetta var eitthvað. Lyfta (?!) uppá 4. hæð og þar voru keppnisgögn afhent. Og á expóinu var hægt að kaupa gel. Og ekkert annað. En þetta var eitthvað. Vá hvað þeir hafa mikið rými til að bæta sig þarna! Kemur manni mjög á óvart því Dúbæingar eru til í að selja allt og reyna að gera allt stærra og flottara en allir aðrir. En þennan manual hafa þeir bara ekki lesið. En allt annað hjá þeim í tengslum við hlaupið var samt alveg ágætt. Dálítið skringilegt fyrirkomulag samt við að koma dótinu sínu í geymslu fyrir hlaupið því þeim tókst með aðdáunarverðum hætti að búa til kraðak og raðir við töskugeymsluna sem manni sýndist fullkomlega óþarft. En þar sem þetta er ekki nema rúmlega 2000 manna maraþon þá slapp það til. Þeir eru reyndar með tæplega 24.000 þátttakendur í öllum vegalengdum (einnig 10 og 4 km hlaup sem eru ræst aðeins seinna) en þeir hópar voru annars staðar með sitt dót þannig að ég veit ekki nákvæmlega fyrirkomulagið hjá þeim þar.

Brautin er ekki flókin. Eftir ræsingu er 90° beygja til vinstri eftir tæpa 500 metra, þá er hlaupin bein leið í ca 5 km og þá tekin 180° beygja. Hlaupin sama leið til baka og þegar kemur að fyrstu 90° beygjunni kemur smá hlykkur á brautina og þaðan er hlaupið beina leið í rúma 15 km þegar kemur aftur að 180° gráðu beygju. Þaðan er sama leið hlaupin til baka þar til beygt er aftur inn í 90° beygjuna í upphafi og þá er hlaupið búið. Á leiðinn er ein brú yfir Dubai canal þar sem gæti verið um 100-200 metra löng brekka bæði upp og niður. Þessi brú er hlaupin tvisvar, fram og til baka, þannig að segja má að í brautinni séu tvær brekkur upp og tvær brekkur niður. En þótt brautin sé svona bein þá er samt gaman að hlaupa hana því umhverfið breytist og það er mjög flott að sjá turnana, Burj Khalifa ofl., nálgast smátt og smátt.

Að lokum. Það er lítið mál að skjótast til Dubai og hlaupa þar maraþon og ná sér í smá yl í kroppinn í kaldasta skammdeginu á Íslandi. Ég og ferðafélagarnir flugum með British Airways frá Keflavík með smá stoppi í London og þaðan til Dubai. Miðinn á manninn alla leið fram og til baka kostaði í kringum 50 þúsund kall og skráningargjaldið í hlaupið er lágt. Gistinguna er síðan hægt að velja eftir efnum og aðstæðum en það eru fjölbreyttir gistimöguleikar í boði, m.a. hið sívinsæla Airbnb. Ferðalag til að hlaupa maraþon í Dubai er því í raun ekki meira mál en hvert annað maraþon í Evrópu. Helsti munurinn er auðvitað sá að leggurinn frá London til Dubaí er aðeins lengri í tíma en að fljúga til Evrópu.

Vormaraþon FM.

Ég var búinn að ákveða fyrir nokkru síðan að ég ætlaði að reyna að ná þokkalegum tíma í maraþoni fljótlega eftir að 50 árunum yrði náð. Stefnan var sú að gera atlögu að slíkum tíma í Stokkhólmsmaraþoninu. En áður en að því kom og eftir að ég varð 50 ára var vormaraþon Félags maraþonhlaupara á dagskrá þann 22. apríl. Það hlaup var hugsað sem æfingahlaup og því var ekki gerð atlaga þar að ákveðnum tíma. Ég hljóp fyrsta fjórðunginn frekar rólega en eftir það jók ég hraðann og hljóp nokkuð jafnt það sem eftir var. Þegar upp var staðið var tíminn bara ágætur, eða 3:27:42, og var ég rúmlega 6 mínútum fljótari með seinni hlutann en þann fyrri. Þetta var í 5. skiptið sem ég næ því að hlaupa á negatívu splitti en aldrei hefur samt munað svona miklu.

Kópavogsmaraþonið.

Þann 13. maí sl. var Kópavogsmaraþonið á dagskrá. Ég stóðst ekki mátið og ákvað að hlaupa það sem æfingahlaup. Planið var að hlaupa það sem jafnast og helst þannig að það myndi ekki taka of mikið úr mér. Á hlaupadaginn var nokkuð stíf austan átt þannig að það voru tveir góðir kaflar þar sem vindurinn var í fangið. Vissulega var vindurinn einnig í bakið en þó ekki með sama hætti og mótvindurinn. Það var til að mynda frekar þreytandi að hafa mótvind frá Kársnesinu og að Elliðaánum. En allt hafðist þetta nú eins og venjulega og ég fékk að prófa brautina. Brautin já, eitthvað var hún nú málum blandin. Í leiðarlýsingu um hlaupið, sem ég reyndar finn ekki lengur á hlaup.is (?), sagði að hlaupnir skyldu tveir hringir hjá maraþonhlaupurunum, hringur A, eins og hálfmaraþonhlaupararnir, hringur inná völlinn og síðan hringur B (með nánari lýsingu). Þegar ég kom að Kópavogsvellinum var mér bent á af starfsmanni hlaupsins að elta næsta hlaupara á undan mér inná völlinn. Það fannst mér hið eðlilegasta mál, enda búinn að lesa mér til um það á vefnum auk þess sem þannig fengist skráður millitími í hálfu, og hljóp því sem leið lá inná völlinn. Þegar ég hins vegar kom í gegnum markið og ætlaði að fá mér vatnssopa og halda áfram kom starfsmaður hlaupsins og ætlaði að taka af mér tímatökuflöguna. Ég sagðist ekki vera nema hálfnaður og neitaði að láta flöguna af hendi. Þá kom í ljós að annar maraþonhlaupari hafði komið þarna á undan mér og misst sína flögu í hendur starfsmanna. Sá hætti keppni en ég kom mér út af svæðinu og aftur inná brautina. Þegar ég kom út af vellinum þá sá ég hvar tveir hlauparar voru að nálgast Kópavogsvöllinn og var þeim báðum bent á að halda áfram en beygja ekki inná völlinn. Það er því ljóst að þarna er rými fyrir betrumbætur á skipulagningu hjá Kópavogsmönnum. En hlaupinu lauk ég á tímanum 03:35:13 og munaði 15 sekúndum á fyrri og seinni helmingi. Í raun var ég aðeins fljótari að hlaupa seinni hlutann því inni í tímamælingu hans var rekistefnan við starfsmann hlaupsins vegna flögunnar. En þegar upp var staðið fékk ég bikar fyrir að verða fyrstur í mínum aldursflokki – 50 ára og eldri!

Stokkhólmsmaraþonið.

Öll umgjörð í kringum Stokkhólmsmaraþonið er mjög flott og greinilega fagmenn þar á ferðinni. Þeir eru náttúrulega með frábæra aðstöðu sem er gamli Ólympíuleikvangurinn. Þar við hliðina eru þeir einnig með mjög góða aðstöðu bæði fyrir og eftir hlaupið. Á sama stað voru þeir með expóið sem var alveg ágætt þótt maður hafi séð meira vöruúrval. Brautin sjálf er mjög falleg og alls staðar nóg pláss fyrir hlauparana. Í grófum dráttum má segja að hlaupnir séu tveir hringir en þó ekki að öllu leyti eins þótt stór partur sé það. Mest er hlaupið inni í sjálfri borginni en þó er smá útúrdúr út á Djurgarden þar sem hlaupið er á malbikuðum skógarstígum. Það sem kom mér helst á óvart var hversu margar brekkur voru í brautinni. Ég var vissulega búinn að lesa mér til um að svo væri en samt voru brekkurnar meiri og fleiri en ég átti von á. Fyrirfram var ég að gera mér vonir um að ná að hlaupa undir 3:15 og lagði ég út með það. Ég var í raun á pari eftir 10 km en þá var búið að hlaupa nokkrar af stærstu brekkunum í fyrra skiptið. Ég fann að það hafði tekið of mikið úr mér þannig að ég fór þá strax að horfa á B markmiðið sem var að hlaupa á undir 3:20. Næstu 15 km einbeitti ég mér að því að hlaupa án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því. Á þeim kafla hlupum við m.a. um Djurgarden sem er nokkuð rúllandi án þess þó að um stórar brekkur sé að ræða. En engu að síður langt frá því að vera slétt braut. Á þessum kafla virtist ég halda nokkuð sjó miðað við aðra keppendur því það fóru ekki margir fram úr mér og ég fór ekki fram úr mörgum. En við 25 km markið breyttist þetta töluvert því mér tókst að mestu að halda sama hraðanum á meðan þeir sem voru í kringum mig virtust heldur gefa eftir. Þegar upp var staðið gat ég séð á heimasíðu hlaupsins að eftir 15 km var ég í sæti nr. 1531 en ég endaði í sæti 1061 af rúmlega 12.500 manns. Í mínum virðulega aldursflokki, 50 til 55 ára endaði ég í 90. sæti. Bónusinn var síðan sá að með ágætum endaspretti síðustu 2 km náði ég að klára á tímanum 3:19:25. Það er í raun ansi merkilegur tími þegar betur er að gáð. Á veraldarvefnum er nefnilega hægt að aldursleiðrétta sig. Öllu heldur væri nákvæmara að segja að hægt sé að láta reiknivél aldursleiðrétta tímann miðað við tiltekinn aldur. Ef ég set þennan tíma í þessa bráðskemmtilegu aldursleiðréttingu miðað við að ég væri 42 ára þá hefði ég 42 ára átt að geta hlaupið á tímanum 3:08:35. En þegar ég var 42 ára hljóp ég mitt fyrsta maraþon á tímanum 3:09.16 þannig að ekki munar nema 41 sekúndu! En kannski er þetta bara ekkert svo sniðugt eftir allt? Því það má vel halda því fram að allt þetta puð í öll þessi ár hafi nánast ekki skilað neinum framförum!

Snældubeinsstaðamaraþonið í Reykholtsdal í Borgarfirði.

Í desember sl. slysaðist ég eiginlega til þess að hlaupa maraþonvegalengdina á æfingu í Reykholtsdalnum. Það var leiðindaveður, suðaustan strekkingur, snjóföl og hálka, sem endaði með dágóðri snjókomu en sem betur fer var ég þá kominn með vindinn í bakið. En þetta var gaman! Bara fjári mikið gaman! Ég byrjaði hlaupið með Þóru og aðstæður gáfu nú ekki tilefni til mikils hraða eða átaka, nema að halda sér uppistandandi í hálkunni. Ég lauk við vegalengdina á rúmum 4 tímum og var í fínu standi á eftir. Þetta ævintýri leiddi hugann að því að gaman gæti verið að hlaupa þessa leið að sumarlagi, helst frekar snemma þannig að lömb og folöld væru farin að hlaupa um grundir og sumarfuglarnir mættir með sinn hljómfagra söng. Það vill þannig til að á milli þeirra sveitabæja þaðan sem foreldrar Þóru eru ættuð eru 17,5 km. Þannig að mér datt í hug að gaman gæti verið að hlaupa á milli þeirra og síðan væri hægt að taka einn krók til að ná maraþonvegalengdinni. Þannig að hlaupið var skipulagt á þann hátt að startað yrði við Snældubeinsstaði og hlaupið sem leið liggur fram eftir Reykholtsdal að sunnanverðu, á fínum hæðóttum malarvegi, beygt til vinstri á gatnamótum við Steindórsstaði eftir 8 km og hlaupið þar yfir í Hálsasveitina og að afleggjaranum heim að Giljum. Þar skyldi snúið við og hlaupin sama leið til baka nema að á gatnamótunum við Steindórsstaði skyldi nú beygt aftur frameftir og hlaupið nánast að bænum Búrfelli, 3,6 km, og þar snúið við og hlaupið sem leið liggur heim að Snældubeinsstöðum aftur. Þetta eru nákvæmlega 42,2 km í fallegu sveitaumhverfi með öllu því dýralífi sem tilheyrir.

Til að hafa þetta aðeins öðruvísi en hefðbundin keppnishlaup var ákveðið að hver og einn keppandi skyldi sjá sjálfur um sína tímatöku og þá vegalengd sem viðkomandi vildi hlaupa eða ganga nú eða hjóla eftir atvikum. Allir keppendur yrðu ræstir á sama tíma og það væri undir hverjum og einum komið hvenær hann vildi snúa við og þannig ákveða sína eigin keppnisvegalengd. Vatnsstöðvar væru nokkrar á leiðinni í formi lækja og áa og þyrfti hver keppandi að bera sig sjálfur eftir björginni.

Laugardaginn 1. júlí 2017 fór síðan fyrsta formlega Snældubeinsstaðamaraþonið fram. Keppendur voru 8 talsins á aldrinum 14 til 88 ára. Þegar upp var staðið var keppt í 6 vegalengdum, 4 km, 10 km, 21 km, 22 km, 30 km og 42,2 km. Elsti keppandinn gekk 4 km og sjálfur var ég einn í maraþonvegalengdinni. Veður var alveg prýðilegt en þó má kannski segja að vindátt hafi verið frekar óhagstæð. Það voru 5-6 metrar á sekúndu að vestan sem þýddi það að keppendur voru með vindinn í bakið fyrri helming hlaupsins en fengu hann síðan á móti seinni partinn þegar farið var að þyngjast undir fæti. Sjálfur endaði ég með því að hlaupa þetta heldur hraðar en til stóð og að einhverju leyti því um að kenna að 14 ára keppandinn í 10 km hlaupinu var ansi sprækur og ég vildi ekki láta hann skilja mig alveg eftir á fyrstu 5 km þegar kom að snúningspunkti hjá honum! En síðan í stað þess að hægja á mér eftir 5 km hljóp ég fyrstu 10 km á rétt rúmlega 50 mínútum í töluverðum brekkum sem hefði gefið lokatíma í kringum 3:30 klst. ef ég hefði haldið þeim hraða. En vissulega hjálpaði að þarna var vindurinn í bakið. En eftir þessa fyrstu 10 km hægði ég aðeins á mér en endaði samt hlaupið á fínum tíma eða á 3:42:01 og það var með einni ferð niður að á við Rauðsgil til að sækja mér vatn.

Það var samdóma álit allra keppenda að vel hefði tekist til og allir ætla að mæta aftur að ári. Þess má geta að gott tjaldstæði er að Kleppjárnsreykjum, sem er bókstaflega við hliðina á startinu að Snældubeinsstöðum, og þar er einnig fín sundlaug ásamt veitingasölu. Nú þá eru fjölmargir aðrir gistimöguleikar á nokkrum hótelum í sveitinni og næsta nágrenni. Það er því allt til alls til að gera þennan viðburð að árlegri fjölskyldu- og hlaupahátíð í sveitinni fyrir þá sem það vilja. Smá spurning hvernig best verður að hafa kynningarefni á enskri tungu þegar hlaupið spyrst betur út, því það skal viðurkennt að til eru þjálli nöfn á maraþonhlaupum!

Tvöföld Vesturgata.

Síðustu árin hefur hlauphópur Stjörnunnar skipulegt amk eina ferð að sumri eða hausti til að fara saman og taka þátt í hlaupaviðburði. Þetta árið varð Hlaupahátíðin á Vestfjörðum fyrir valinu sl. helgi. Þar var reyndar einnig synt og hjólað en ég lét eitt hlaup duga. Þetta eina hlaup var líka bara alveg nóg. Ég get vel viðurkennt það að þessi vika eftir hlaupið er búin að vera afskaplega stirðbusaleg af minni hálfu. Ég hef ekki fengið jafn mikla strengi eftir hlaup síðan ég veit ekki hvenær, ef bara nokkurn tímann. Þar er svo sem ekki við neinn að sakast nema sjálfan mig. Þetta árið hef ég nánast eingöngu einbeitt mér að hlaupum á jafnsléttu með þeirri undantekningu að ég hef nokkrum sinnum hlaupið í sveitinni þar sem er rúllandi malarvegur. Það er hins vegar langt frá því nægjanlegt sem æfing fyrir alvöru fjallahlaup eins og tvöfalda Vesturgatan sannarlega er. Í fyrra var fyrsta maraþon ársins Boston maraþonið og í kjölfarið tók ég þátt í erfiðu utanvegahlaupi í Afríku og síðan Laugaveginum þannig að ég var búinn að æfa niðurhlaup vel og búinn að fara nokkrar ferðir á Helgafellið. Núna vantaði þessar æfingar alveg og ég heiti því hér með að þetta læt ég aldrei henda aftur ef til stendur að fara í keppnishlaup í fjalllendi! Ég þykist svo sem vita að sennilega er það niðurhlaupið eftir fjallaskarðið í Kirkjubólsdal, ca 5 km, sem er aðal sökudólgurinn. Fyrir utan auðvitað sjálfan mig.

En hvað um það. Þetta var alveg bráðskemmtilegt og mikil upplifun. Ég hef aldrei farið þess leið áður og því var það auðvitað spennandi að upplifa leiðina í fyrsta skiptið. Ekki þótti mér verra að það yrði gert á tveimur jafnfljótum þannig að hægt yrði að njóta útsýnisins og umhverfisins. En íslenska sumarið var í stuði þennan sunnudag og ákvað að takmarka útsýnið sem mest en þess í stað troða sér í orðsins fyllstu merkingu framan í keppendur með hávaða roki og mígandi rigningu. Spáið í muninn á aðstæðum að vetrarlagi í Dubai og íslenska sumrinu!

Við vorum 17 talsins sem röðuðum okkur upp í startinu á Þingeyri kl. 8. Þá var svo sem skaplegt veður, nokkur vestan vindur en lítil úrkoma. Keppendur fóru frekar rólega af stað fyrstu kílómetrana enda nóg eftir. Þar sem ég er frekar linur upp brekkur eftir að ég fékk hjartsláttaróregluna 2012 ákvað ég að fylgja í humátt á eftir forystusauðnum, Gunnari Atla, að Kirkjubóli sem er í um tæplega 6 km fjarlægð frá startinu. Leiðin þangað er enda nokkuð flöt þannig að þar var ég í ágætum málum. En fljótlega eftir að brekkurnar byrjuðu fóru aðrir keppendur að fara fram úr mér og fyrr en varði var ég kominn úr 2. sæti í það 7. Það skipti svo sem engu máli því ég var fyrst og fremst með ákveðið tímamarkmið í huga fyrir hlaupið en ekki í hvað sæti ég myndi lenda. Ég hafði auðvitað lesið pistlana hans Stefáns Gíslasonar eins og margir, ef ekki flestir, gera sem hlaupa þess leið eftir að hann birti sína pistla. Ég var sértaklega að horfa til áætlunarinnar hans fyrir hlaupið 2014 þar sem hann setti sér það markmið að hlaupa á um 4:30 klst. Hann auðvitað fór létt með að ná því markmiði, og gerði mikið betur en það, en mér fannst það fínt markmið fyrir mig til að hafa eitthvert viðmið. Þá hafði hann áætlað að vera ca. 2:20 klst. að startinu í heilli Vesturgötu í Stapadal og klára þaðan á ca. 2:10 klst. Þetta plan mitt gekk bærilega framan af. Ég var á pari við Kirkjuból á rúmlega 28 mínútum. Ég þóttist vita að ég yrði hægari upp en Stefán um árið, og það þótt hann hafi þá nýtt uppgönguna í spjall við ferðafélaga, en það var allt í lagi því ég var að stefna á áætlaðan tíma Stefáns árið 2014 en ekki rauntíma. Þegar upp var komið var orðið nokkuð um liðið síðan ég sá síðasta keppandann á undan mér hverfa í skarðinu en hins vegar voru þrír keppendur til viðbótar við það að ná mér. Ég ákvað að láta vaða niður eins hratt og ég gæti því þótt ég sé linur á uppleið þá gengur mér yfirleitt vel að hlaupa niður. Þegar ég var kominn langleiðina niður fór ég að finna fyrir því að kálfarnir voru ekkert sérlega hressir með þessa meðferð þannig að ég fór að hafa smá áhyggjur af þeim. Það reyndist þó ástæðulaust þegar upp var staðið því ferðahraðinn eftir niðurhlaupið bauð ekkert uppá frekari misnotkun. Þegar ég var að verða hálfnaður með niðurhlaupið, eftir ca. 2-3 km, þá fann ég að vindurinn var farinn að ná að slá sér upp í dalinn á móti mér. Ekki nóg með það þá jókst rigningin til muna þannig að ég þóttist vita að framundan mætti eiga von á töluverðum barningi. Þegar ég kom niður á veg og beygði inn í áttina að Stapadal sá ég að tíminn var ekki nema um þremur mínútum lakari en hjá Stefáni árið 2014. Það þótti mér ljómandi fínt því þótt ég væri ekki á sama tíma og hann þá myndi ég amk verða töluvert fljótari en 2:20 inn í Stapadal þannig að þá ætti ég borð fyrir báru með að reyna að ná undir 4:30 klst. En vá maður hvað ég skipti um skoðun! Þegar ég var kominn niður á veg og fór að hlaupa á móti rigningunni og rokinu þá ákvað ég fljótt að ég ætlaði að hætta að hugsa um tímann en fara þess í stað yfir í survivor mode og bara njóta þess að fara leiðina. Þegar í Stapadal var komið má eiginlega segja að það hafi verið allt að því spaugilegt að sjá þar þá keppendur í heilli Vesturgötu sem voru komnir á staðinn. Þeir voru reyndar ekki mjög margir og komust flestir fyrir í bílnum sem notaður var sem drykkjarstöð fyrir keppendur. Þeir sem ekki voru í bílnum voru flestir karlmenn sem stóðu hér og þar í móanum og sprændu út í loftið undan vindinum. Ég reyndi að gleypa sem minnst vatn meðan ég hljóp fram hjá þeim. Meðan ég fékk mér hressingu og spjallaði við starfsmenn hlaupsins við vatnsbílinn sá ég glitta í augu keppenda innan úr bílnum sem kíktu út og hrylltu sig. Ég gat í raun ekki annað en vorkennt þeim því það var miklu betra að vera orðinn blautur og vanur barningnum en eiga eftir að fara þurr og heitur út í þetta slagveður.

En af stað aftur. Eftir að hafa hlaupið um stund upp í vindinn og rigninguna datt mér til hugar að ég ætti bara alls ekki til allar nauðsynlegar hlaupagræjur fyrir íslenskt sumarveður. Mér hafði nefnilega ekki fyrr dottið til hugar hvort gæti verið gott að vera hreinlega með sundgleraugu og snorkl græjur. Maður myndi þá sennilega sjá betur og gleypa minna vatn. En svona var þetta í ca 14-15 km. Því þótt leiðin færi að færast fyrir nesið þá hætti vindurinn ekki að blása framan í mann fyrr en farið var að hlaupa inn Dýrafjörð þegar eftir voru ca 8 km af hlaupinu. Mér leið samt bara ljómandi vel þennan kafla. Hljóp bara á þægilegum hraða og labbaði upp brekkur. Ég fann líka að kálfarnir voru sáttir við hraðann þannig að við vorum bara allir góðir. Ég hafði séð til Þóris í fjarska, sem var næstur á undan mér, frekar snemma eftir að komið var niður af heiðinni en síðan ekki meir. Ég sá aldrei neinn á eftir mér þannig að mér leið dálítið eins og í Snældubeinsstaðamaraþoninu í mínum eigin félagsskap. Sem ég kann sem betur fer ágætlega við! En eins og venjulega þegar fer að styttast í markið þá fer hugarreikningurinn af stað. Þegar ég átti um 7 km eftir þá reiknaðist mér til að ég ætti kannski smá séns á að ná undir 4:45 klst. ef ég myndi halda mig við efnið. Ég fór því að fylgjast betur með klukkunni og hætti að ganga þær brekkur sem urðu á vegi mínum. Mér fannst reyndar það sem ég hélt vera síðustu brekkuna frekar óárennilegt viðfangsefni en mundi að Stefán hafði skrifað árið 2014 að hann hefði þá hlaupið brekkuna og það veitt honum kraft í fyrra til að gera það aftur. Ég lét mig því hafa það og hljóp upp alla brekkuna þótt ekki hafi það nú verið hratt. Þegar upp var komið þá fannst mér ég ennþá eiga möguleika á að fara undir 4:45 en þá þurfti náttúrlega að vera eftir ein brekka til viðbótar, eða kannski réttara að kalla hana kryppu. En þar með hélt ég samt að ég myndi ekki ná undir 4:45. Ég lét mig samt hafa það að reyna að fara þarna upp eins hratt og ég gat og gefa svo allt í botn niður brekkuna og í markið. Ég var líka ánægður að sjá það á hlaupaúrinu að mér hafði tekist að hlaupa síðustu 400 metrana á rúmlega 16 km hraða, eða pace 3:43, sem mér finnst bara bærilegt fyrir 50 ára kall sem er búinn að vera á ferðinni tæpa 45 km í slagveðurs rigningu. Og viti menn, þegar í mark var komið þá kom í ljós að mér tókst að komast undir 4:45 klst. og það svo munaði heilli sekúndu!

Að lokum er ekki hægt annað en að hrósa mótshöldurum. Vel var að öllu staðið sem ég varð vitni að og veitingarnar að hlaupi loknu virkilega flottar. Ég er ákveðinn í því að ef aðstæður leyfa þá ætla ég að hlaupa þessa leið aftur og vera þá búinn að æfa betur fjallabrölt – og þá ætla ég líka að hafa sól og gott veður.

Takk fyrir mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 144
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 115
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband