Áramótahlaupaannáll 2016

Í byrjun árs, þegar ég var að velta fyrir mér hlaupamarkmiðum fyrir árið 2016, staldraði hugurinn fljótt við þá staðreynd að um sumarið myndu verða liðin 10 ár frá því að ég lauk lyfjameðferð vegna hvítblæðis. Þegar 5 ár voru liðin, árið 2011, ákvað ég að hlaupa nokkur löng hlaup af því tilefni og safna áheitum fyrir Krabbameinsfélagið. Mér fannst tilvalið að endurtaka leikinn núna 5 árum seinna. Í upphafi var hugmyndin ekki fullmótuð en þó þannig að ég setti strax stefnuna á Bostonmaraþonið, maraþon í Suður-Afríku, Reykjavíkurmaraþonið, maraþon í Munchen og Aþenumaraþonið. Þessu til viðbótar var ég ákveðinn í að hlaupa tvö utanvega hlaup, sem ég hljóp bæði 2011, sem samtals náðu tveimur maraþonvegalengdum, Jökulsárhlaupið sem er 32,7 km og Laugaveginn sem er tæpir 55 km. Samtals eru þetta 7 löng hlaup sem í vegalengd samsvara 7 maraþonhlaupum. Þetta fannst mér ágæt markmið inn í árið og þessu til viðbótar var ég að gæla við að reyna að ná góðum tíma í Boston og reyna þar við 3:05-3:10. Amk ætti 3:15 þá að steinliggja. Jájá, einmitt, alltaf í boltanum og allt það.

En eins og ég hef áður bloggað um fór Boston töluvert öðru vísi en að var stefnt. Allt gekk á afturfótunum og ég skrönglaðist í mark á rúmlega 3:31 eftir erfiðasta maraþonhlaup sem ég hef hlaupið. Ekki hjálpaði veðrið mikið þar sem hitinn fór yfir 25 stig og framan af bærðist ekki hár á höfði. En engu að síður áhugaverð upplifun og nýjar áskoranir að takast á við. En klárað maraþon er klárað maraþon og hægt að tékka það í boxið.

Fljótlega eftir að heim var komið fæddist sú hugmynd að skjótast til Köben og reyna að laga tímann. Það gæti nú varla verið mikið mál eftir hremmingarnar í Boston. Og jú, jú ég lagaði tímann. Um heilar þrjár mínútur! En svona var vorið, heitt, heitt, heitt. Hitinn fór yfir 30 stig í Köben og því lítið annað að gera en að breyta um taktík og spila eftir aðstæðum.

Og þá var það Suður-Afríka. Um þá ferð hef ég bloggað áður og bara hægt að endurtaka aðalatriðið úr þeirri ferð. Vááááááááá!(http://garmur.blog.is/blog/garmur/entry/2176198/).

Hlaup númer 4 var Laugavegurinn um miðjan júlí. Hjartalæknirinn minn sagði reyndar við mig, þegar ég var að fara aftur af stað eftir að búið var að ná tökum á hjartsláttartruflununum haustið 2012, að ég skyldi ekkert vera að hlaupa lengra en maraþonvegalengdina. Það væri nóg áreynsla og ekki ástæða til meiri átaka. En þar sem fyrir lá að ég hafði þurft að æfa heilmikið í brekkum fyrir Suður-Afríku þá var það eiginlega of freistandi að láta ekki slag standa og nýta æfingarnar fyrir Suður-Afríku í einn Laugaveg. Ég hélt mér því vel við fyrir Laugaveginn og þegar til kom reyndist hann hin besta skemmtun og mér fannst mér ganga vel. Þótt tíminn væri heldur lakari en árið 2011 þá losnaði ég þó við að hlaupa með krampa frá Emstrum og öfugt við það sem gerðist 2011 þá vann ég mig upp um heilmörg sæti síðustu 8-10 km þannig að upplifunin var ólíkt skemmtilegri.

Hlaup númer 5 var Jökulsárhlaupið í byrjun ágúst. Það er sú hlaupaleið á Íslandi sem mér finnst hvað skemmtilegast að hlaupa. Enda var þetta í 6. sinn sem ég tek þátt. Þegar hér var komið sögu hafði sú hugmynd fæðst að klára sem samsvarar 10 maraþonum á 10 mánuðum úr því að 10 ár voru liðin. Ég var þegar skráður í Reykjavíkurmaraþonið og Munchen- og Aþenu maraþonin og var búinn að reikna það út að með því að telja apríl fyrsta mánuðinn í verkefninu þá myndi ég geta lokið því í janúar 2017. Þ.e. að hlaupa sem samsvarar 10 maraþonum á 10 mánuðum með því að telja Jökulsárhlaupið og Laugaveginn saman sem tvær maraþonvegalengdir. Ég var sem sagt búinn að bæta við skráningum í Oslómaraþonið í september og til stendur að ljúka við verkefnið í Dubaí þann 20. janúar nk. Það lá því fyrir að æfingamagn fyrir Jökulsárhlaupið var í algjöru lágmarki og hugmyndin var sú að reyna að hlaupa næstu hlaup skynsamlega þannig að ég myndi hvorki ofgera liðum eða vöðvum og helst að komast bæði skammlaust og óskaddaður í gegnum verkefnið. Mér gekk engu að síður ljómandi vel í hlaupinu og þótt ég hafi þrisvar áður náð betri tíma í hlaupinu þá hef ég ekki áður náð jafngóðu sæti eða 6. sæti karla (í 6. Jökulsárhlaupinu!) og 7. sæti í heildina. Rúsínan í þessum pylsuenda var að ná því að vera fyrstur í mark í mikilli endasprettskeppni þar sem við röðuðum okkur 6 í mark með innan við mínútu millibili.

Sjötta hlaup ársins var þátttaka í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var í 4. skiptið sem ég tek þátt í því og einhverra hluta vegna hefur mér í öll skiptin nema eitt gengið hálfbrösuglega í því hlaupi. Í fyrsta skiptið sem ég tók þátt tognaði ég aftan í lærvöðva eftir um 10 km þannig að hlaupið var erfitt eftir það. Í fyrra fór ég af stað meiddur og fór hægt en kláraði þó. Í þetta skiptið gekk mér reyndar alveg ágætlega upp í næstum 30 km en þá hljóp allt í einu slæmska í annað hnéð þannig að ég þurfti að stoppa og síðan ganga um 2 km. En eins og þeir muna sem voru á svæðinu þá var veðrið náttúrulega alveg frábært þannig að það var ekki alslæmt. Eftir göngutúrinn lagaðist þetta aftur og ég komst á góðan skrið og gat klárað á þokkalegum tíma rétt undir 3:33. Þegar upp var staðið reyndist þetta alveg afbragðs dagur því í fyrsta sinn á ævinni tókst mér að hlaupa maraþon og veiða lax sama daginn!

Sjöunda hlaupið, í Osló 17. september, reyndist nokkuð sérstakt þegar upp var staðið. Vegna slæmskunnar sem hljóp í hnéð á mér í Reykjavíkurmaraþoninu samanstóðu æfingar að mestu leyti af því að hvíla sem mest. Sú taktík reyndist vel því ég fann ekkert fyrir hnénu þegar á hólminn var komið. Fyrirfram hafði ég sett mér það markmið að reyna að hlaupa sem jafnast og reyna að komast undir 3:30 og helst með negatívu splitti. Það plan gekk vel og ég fylgdi 3:30 héranum alveg upp í 10 km. Þegar þangað var komið ákvað ég að reyna að hlaupa aðeins hraðar og komast úr mestu þvögunni því brautin í Osló er víða þröng og hlykkjótt. Allt gekk þetta að óskum þar til ég var kominn á 19. km. Þá er ég að koma úr einni beygjunni og stíg uppá gangstétt með frekar háum kantsteini. Þegar ég kem út úr beygjunni tek ég eftir því að það er strax önnur beygja. Þar sem ég er varkár hlaupari reyndi ég að átta mig strax á aðstæðum í þeirri beygju en vissi þá ekki fyrr en ég er skollinn kylliflatur í götuna þeytandi kerlingar eftir malbikinu og húfa og sólgleraugu á leið í aðra átt en ég sjálfur. Þetta var alveg afskaplega óvænt og fullkomlega fyrirvaralaust. Í varkárni minni við að skoða aðstæður framundan gleymdist alveg að sjá fótum mínum forráð og því fór alveg framhjá mér að stéttin sem ég hafði stigið uppá var búin og því ástæða til að taka niðurstig kantsteininn. En sem sagt, þarna lá ég með tvö hrufluð hné og allur skrapaður á annarri hliðinni og hafði að auki fengið olnbogann harkalega í síðuna í fallinu og fann því til í kviðnum að auki. En þegar ég hafði loksins gert mér fulla grein fyrir því að ég hafði í alvörunni dottið á hausinn staulaðist ég á lappir og hökti af stað aftur. Sem betur fer var ekki langt í næstu drykkjarstöð þannig að þar gat ég skvett á mig vatni og náð áttum. Þegar ég var búinn að jafna mig aðeins og fann að ég gat ennþá hlaupið var ekkert annað að gera en að halda áfram. Þegar af stað var komið helltist yfir mig mikil reiði fyrir klaufaskapinn og ég varð enn ákveðnari en áður að ég skildi ná að hlaupa á negatívu splitti. Ég hélt svipuðum hraða og áður uppí 21,1 km en ákvað að herða mig aðeins eftir það. Planið var að reyna að hlaupa heldur hraðar en áður upp í 30 km og reyna síðan eftir það að halda svipuðum hraða í mark og ég hafði gert fyrri hlutann. Þetta gekk eftir og ég náði mínum besta tíma í sumar og var næstum tveimur mínútum fljótari með seinni hlutann en þann fyrri (sami hringur hlaupinn tvisvar) og það þrátt fyrir dettið í fyrri hlutanum. Þannig að sennilega hefur það sannast enn eina ferðina í þessu hlaupi að fall getur verið fararheill, en ég hef samt alls engin áform um að halda þessari taktík áfram.

En þá var komið að 8. hlaupinu þann 9. október í Munchen. Þetta var hlaup þar sem heilmikil tilhlökkun fylgdi að hlaupa. Meginástæðan var sú að þarna fór hlaupahópurinn í sína árlegu hlaupaferð og Þóra mín og Þórey vinkona voru búnar að stefna að því lengi að hlaupa þarna sitt fyrsta maraþon. Ég hafði um sumarið tekið margar æfingar með þeim og til stóð að ég myndi hlaupa með þeim allt hlaupið. En vegna atviksins í Osló var það í raun algjört spurningamerki hvort ég myndi ná að klára með þeim þótt ég myndi leggja af stað. Á þriðjudeginum í vikunni fyrir hlaupið varð ég að hætta að hlaupa eftir 8 km og hvíla mig og náði með herkjum að bæta tveimur km við. Á fimmtudeginum tókst mér að hlaupa 10 km án hvíldar en lengra komst ég ekki. Þegar hlaupadagurinn rann upp frekar kaldur og fagur hafði ég bætt í vopnabúrið nokkrum parkódín forte ef á þyrfti að halda. Það er skemmst frá því að segja að öll komumst við í mark á sama tíma eftir alveg hreint frábæra hlaupaupplifun. Að mínu mati var þetta klárlega eitt af skemmtilegri maraþonhlaupum sem ég hef hlaupið um ævina. Mæli samt ekki með því að parkódín forte sé brutt í of miklum mæli því það fer illa saman við matarlystina um kvöldið.

Ekki löngu eftir maraþonið í Munchen fór ég að geta hlaupið án verkja í hnénu þannig að ég virtist hafa sloppið með skrekkinn. Því var ekki annað að gera en taka upp reglulegar æfingar því 9. hlaupið var handan við hornið. Þann 13. nóvember skyldi halda til upprunans og hefja maraþonhlaup í borginni Marathon þaðan sem Pheidippides hljóp árið 490 BC til Aþenu með þær fréttir að her Aþenu hefði tekist hið ómögulega, sem var að stökkva á flótta mun stærri her Persa sem ráðist hafði á land við Marathon og hrekja þá aftur til skipa sinna. Datt hann niður dauður eftir fréttaflutninginn. Þótt svona skuli hafa farið fyrir Pheidippides er ástæðulaust fyrir maraþonhlaupara dagsins í dag að hafa miklar áhyggjur af því að svona geti farið fyrir þeim. Það nefnilega fylgir yfirleitt ekki sögunni að Pheidippides hljóp skömmu áður 140 mílur (rúma 200 km) yfir erfitt fjalllendi til að biðja Spartverja um liðveislu. Þeir höfnuðu liðveislunni í fyrstu þannig að Pheidippides þurfti að hlaupa til baka sömu leið, þramma síðan með her Aþenu til Marathon og berjast þar daglangt í fullum herklæðum. Þegar fyrir lá að Aþenu her hafði haft sigur, með mikilli herkænsku, var aumingjans Pheidippides látinn hlaupa aftur til Aþenu með fréttirnar (einhverjar heimildir segja að það hafi tekið hann um þrjá tíma sem telst dágott í dag!), þannig að í þessu ljósi er afrek hans heldur betur ótrúlegt en örlögin ekki. Þess má geta í framhjáhlaupi að Persar réðust aftur til atlögu beint á Aþenu en í millitíðinni, fyrir tilstuðlan Pheidippides, hafði Aþenubúum gefist ráðrúm til að undirbúa sig og höfðu í þetta skiptið fengið Spartverja til liðs við sig. Þeir höfðu því á endanum betur og náðu að hrinda sókn Persa, the rest is history.

En hvað um það. Sagan er merkileg og gaman var að hlaupa þessa leið. Eiginlega alveg einstakt. Brautin er sjálfsagt auðveldari að mörgu leyti í dag en hún var þegar Pheidippides hljóp hana því nú höfðum við til umráða heila malbikaða akbraut alla leið. Væntanlega hefur Pheidippides hlaupið eftir ójöfnum slóðum og örugglega ekki í eins góðu skótaui og við notumst við í dag. En hlaupadagurinn var einstaklega fallegur, frekar sólríkt og hlýtt eða um og yfir 20 gráður, en sem betur fer var nokkur vindur sem var oftast á hlið eða aðeins á móti. Þá voru mjög margar drykkjarstöðvar á leiðinni þar sem vatn var afhent í 500 ml flöskum sem var afskaplega gott. Það var því hægt að fá sér sopa á hlaupum og hella restinni yfir sig. Brautin sjálf er frekar erfið því það er talsvert af brekkum í henni. Segja má að fyrstu brekkurnar séu frá km 11 til 16 en þá taka við tveir km með býsna brattri brekku niður. Frá km 20 til 31 má segja að sé ein samfelld brekka en aðeins mismunandi brött. Þegar upp var komið tekur síðan við um 10 km niðurhlaup sem getur tekið ansi vel í eftir allt puðið upp. Mér gekk bara ljómandi vel í þessu rúlli og náði að keyra mun hraðar síðustu 10 km en þeir sem voru í kringum mig. Að hluta til þakka ég það stífum æfingum á rjúpnaveiðum tvær síðustu vikurnar fyrir hlaupið því aðstæður þar höguðu því þannig að ég þurfti að ganga mjög hátt uppí bratt fjalllendi til að komast á rjúpnaslóðina og síðan auðvitað niður aftur. Þegar upp var staðið munaði ekki nema rúmri mínútu á fyrri og seinni hlutanum og ég endaði með að hlaupa á mínum næst besta tíma þetta árið á rúmlega 3:26.

Þegar þetta er skrifað standa yfir stífar æfingar til að reyna að klára verkefnið með sæmd þann 20. janúar nk. í Dubaí. Takist mér að klára það hlaup tekst mér að klára verkefnið 10 maraþon á 10 mánuðum. Ég reyndar tók smá forskot á sæluna með því að hlaupa maraþonvegalengdina á æfingu þann 17. desember sl. Það var eiginlega óvart því það stóð ekki til. Ég var í sveitinni með Þóru og hafði hugsað mér að taka 36 km æfingu. Við fórum saman af stað í kolsvarta myrkri og hlupum sem leið lá frá ættaróðalinu Snældubeinsstöðum sem er næsti bær við Kleppjárnsreyki í Reykholtsdal. Það er kannski rétt að geta þess í framhjáhlaupi að Snældubeinn og Kleppjárn voru tveir af landnámsmönnunum okkar og því sögufrægir í þeim skilningi. En hvað um það, við hlupum sem leið lá austur Reykholtsdal sunnanmegin, en þar er mishæðóttur malarvegur og frekar lítil umferð. Þegar komið var að bæ sem heitir Auðsstaðir og er innsti bærinn á afleggjara sem liggur framhjá svokölluðu Rauðsgili voru komnir 13 km og þar snerum við til baka. Það var ágætt því þegar við höfðum komið að Rauðsgili fór að hvessa hressilega og síðustu tveir km fyrir snúning voru býsna strembnir með sterkan mótvind beint í nebbann. Hann var síðan auðvitað með okkur til baka. Þegar við vorum komin aðeins lengra eða um 18 km skildu leiðir. Þóra hélt áfram sömu leið til baka heim að ættaróðalinu en ég tók afleggjara og skellti mér yfir dalinn og í hann norðanverðan og hélt aftur af stað í austur. Til að ná mínum 36 km þurfti ég að hlaupa 5 km aftur frameftir og sömu leið til baka. Það var heilmikið puð því þá var vindbelgingurinn á móti en sem betur fer þó aðeins skáhalt en ekki beint í smettið. Þegar 5 km voru komnir datt mér það snjallræði í huga að taka 1 km í viðbót og ná þannig 38 km æfingu. En það fór auðvitað eins og það fór þannig að ég stóðst ekki mátið og lengdi um 2 km til viðbótar þannig að 10 km lúppan sem mig vantaði uppá að ná 36 km endaði í 16 km lúppu og þar með varð ég að klára 42,2 km til að komast aftur heim. Ég er hins vegar harðákveðinn í að endurtaka þetta aftur næsta sumar. Aðstæður allar eru þannig að hægt væri að gera mjög skemmtilega helgaræfingu úr þessu og bjóða uppá ýmsar vegalengdir. Ég sé fyrir mér að mögulega vilji einhverjir þreyta með mér Snældubeinsstaðamaraþonið (sem er stytting á hinu raunverulega og markaðsvæna nafni sem er; Landnámsmannamaraþonið frá Snældubeinsstöðum í Reykholtsdal til Gilja í Hálsasveit í Borgarfirði) en síðan er í raun hægt að bjóða uppá hvaða vegalengd sem er. Hver og einn mælir einfaldlega hversu langt hann vill hlaupa út og þá er jafn langt til baka. Á Kleppsjárnsreykjum er þessi fína sundlaug og heitir pottar, gott tjaldstæði og síðast en ekki síst er hægt að fá sér borgara og bjór (eða aðra hleðslu) að hlaupi loknu á veitingastað Kleppsjárnsreykja. Þar fyrir utan er hver gististaðurinn á fætur öðrum að spretta upp í sveitinni eða að fá andlitslyftingu þannig að það væri auðvelt að gera úr þessu sveitarómantíska hlaupaferð. Ef áhugi væri fyrir hendi væri sennilega ekki stórmál að láta mæla löglegar vegalengdir þannig að hægt væri að hafa þetta opinber keppnishlaup í t.d. maraþoni, hálfu og 10 km. En það leiðir tíminn í ljós.

Eftir árið liggur fyrir að maraþon tölfræðin (opinber og viðurkennd hlaup) frá upphafi er þannig að 23 maraþon eru að baki í 10 löndum. Fjórtán þessara maraþona voru hlaupin erlendis og 9 á Íslandi. Sjö þessara hlaupa hafa verið hlaupin í höfuðborgum og þar af þremur á Norðurlöndunum. Hingað til eru heimsálfurnar orðnar 4 þar sem þessi hlaup hafa verið hlaupin. Þá eru 4 af þeim 6 stóru (Boston, NY, Chicago, London, Berlín og Tokyo) að baki og væntanlega verða þau tvö sem eftir eru kláruð á næsta ári ef allt fer að óskum. Þátttakendafjöldinn í hverju hlaupi fyrir sig hefur verið æði misjafn en í Parísarmaraþoninu 12. apríl 2015 var slegið met þegar yfir 50.000 manns voru skráðir þannig að vel yfir 40.000 manns luku því hlaupi og til samanburðar þá voru níu skráðir í Mývatnshlaupið 6. júní 2015 og komust þeir allir í mark!

Á árinu eru 3.244,1 km að baki á 203 æfingum og virkur hlaupatími er rúmar 285 klukkustundir. Samtals eru því km orðnir 26.887,1 síðan ég hóf að hlaupa skipulega á afmælisdaginn minn þann 10. apríl 2008. Ég er því rúmlega hálfnaður með hringinn í kringum hnöttinn ef miðað er við miðbaugslínu (40.075 km) þannig að héðan af tekur það því ekki að snúa við. Keppnishlaupin á árinu voru 10 en það eru eingöngu hlaupin í verkefni ársins og að auki gamlárshlaup ÍR. Vegalengdin í keppnishlaupum er því orðin 393 km.

Markmið næsta árs eru nokkur. Þann 10. apríl næ ég því vonandi að verða 50 ára. Takist það þá tekur við heilt afmælisár, eða til 10. apríl 2018. Af því tilefni er ég búinn að setja saman drög að afmælisdagskrá sem auðvitað getur tekið einhverjum breytingum eftir aðstæðum. En ég er þegar skráður í Stokkhólmsmaraþonið þann 3. júní. Þá er planið að hlaupa í ágúst í Brisbane í Ástralíu. Þá tekur við Berlín í lok september og New York í byrjun nóvember. Takist mér að klára þau tvö síðast nefndu mun ég ná að ljúka þeim 6 stóru. Hugmyndin er síðan að enda afmælisárið með því að hlaupa í mars 2018 á Suður-skautinu. Það á þó eftir að koma betur í ljós því uppselt er í hlaupið og því erum við hlaupafélagarnir á biðlista þar. Við erum samt komnir með staðfesta skráningu árið 2019 þannig að ef við fáum ekki að hlaupa vorið 2018 er planið að hlaupa þá í staðinn í Mendoza í Argentínu. Það er reyndar ekki fyrr en í maí þannig að ef það verður niðurstaðan verð ég bara að teygja örlítið á afmælisárinu! Hlaupið í Mendoza er reyndar mjög áhugavert fyrir ýmsar sakir. Augljóslega er áhugavert fyrir vínáhugafólk að heimsækja Mendoza sem er eitt frægasta vínhérað Argentínu. En sjálf hlaupbrautin er líka áhugaverð. Keyrt er með hlauparana uppí fjallaskörð Andesfjallanna og hlaupið til baka til Mendoza. Það þýðir að nánast öll brautin er ein löng brekka niðurá við!

Gleðilegt nýtt hlaupaár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband