14.9.2016 | 12:50
Fyrsta maraþonið
Ég sat undirbúningsfund með hlaupahópnum mínum fyrir Munchen maraþonið þann 9. október nk. í gærkvöldi. Þar var verið að leggja línurnar og sérstök áhersla lögð á að upplýsa þá sem koma til með að hlaupa sitt fyrsta langa keppnishlaup þar. Hvers má vænta og hvað ber að varast. Þessi fundur minnti mig mikið á mína eigin tilhlökkun og spennu fyrir mitt fyrsta maraþon vorið 2009. Eftir það hlaup skrifaði ég frásögn um hlaupið sem birt var á gömlu hlaupasíðunni hlaup.com. Við hrun þeirrar síðu hélt ég að frásögnin hefði glatast að eilífu. Nú í morgun þurfti ég að leita að gögnum úr gamalli tölvu og rakst þá á hinn löngu týnda og minn fyrsta hlaupapistil.
Þar sem nú styttist mjög í mitt 21. maraþon finnst mér vel við hæfi að birta pistilinn aftur ef verið gæti að einhverjir gætu haft gagn af.
24. maí 2009 maraþon í Kaupmannahöfn
Vaknað kl. 6:45 eftir ágætan nætursvefn, enda gengið snemma til náða kvöldið áður. Morgunmatur, 3 ristaðar brauðsneiðar með banana og drukkið grænt te með. Græna teið er góð leið til að koma meltingunni af stað, auk þess sem það hefur verið sannað að það hefur lækningamátt. Uppúr kl. 7:30 var farið í gallann sem tekinn hafði verið til kvöldið áður. Hlaupanúmerið nælt á viðeigandi stað og pósað fyrir myndatöku. Allt til reiðu. Út kl. rúmlega átta. Við Margrét höfðum fengið í lið með okkur vini okkar, Þórð og Sune, sem skutu yfir okkur skjólshúsi meðan dvalið var í Köben. Það kom mér mest á óvart að Þórður skyldi nenna að fara á fætur þetta snemma og fylgjast með startinu. Hann hafði miklar væntingar til mín og taldi mig hiklaust eiga að stefna á þriðja sætið. Eftir að ég hafði útskýrt fyrir honum að hóflegar væntingar væri að ná því að vera meðal fyrstu þúsund í mark fannst mér hann missa dálítið áhugann. En hvað um það hann var vaknaður og kominn á fætur og með í för. Við höfðum mælt okkur mót við Björn Rúnar Lúðvíksson, hlaupafélaga úr Skokkhópi Garðabæjar, og fjölskyldu hans, Rósu og syni þeirra Brynjar og Guðbjörn. Við Bjössi tókum létta upphitun eftir uppskrift og teygðum eftir reglum. Hittum aftur fjölskyldur og vini og fórum úr utanyfirgallanum og stóðum þá í fullum herklæðum dagsins. Þau samanstóðu af hlýrabolum, stuttum stuttbuxum, sokkum - sem í mínu tilviki náðu upp að hnjám, og skóm. Í samræmi við tilefnið vorum við vopnaðir tveimur vatnsbrúsum hvor og nokkrum gelbréfum. Aftur pósað fyrir myndatöku. Knús og heillaóskir og við lagðir af stað á Vestre Voldegade þar sem startað skyldi. Á leiðinni sáum við þessa fínu runna sem beinlínis kölluðu á vökvun og urðum við góðfúslega við þeirri ósk. Það kom mér frekar á óvart að sjá tvo karla húka þar á hækjum sér í mestu makindum og ganga örna sinna undir runnunum fyrir allra augum. Veit ekki hversu brátt þeim varð í brók en að minnsta kosti virtist þetta ekki hafa komið þeim á óvart því þeir voru alvopnaðir pappírsþurrkum og vissu greinilega í hvaða aðstæðum þeir gætu lent. Þetta læri ég kannski seinna. Sá reyndar skömmu síðar að röðin á klósettin var orðin ansi löng þannig að kannski var þeim vorkunn, ég hefði þó að minnsta kosti farið hinum megin við runnann eða inn í hann, ég er líka frekar viðkvæmur fyrir að gera þetta fyrir allra augum. Jæja en hvað um það, Vestre Voldgade var mætt á réttan stað og við líka. Við vorum tímanlega í því og ekki orðið mjög þröngt í götunni. Við gátum því þrætt okkur auðveldlega áfram og leitað að réttu blöðrunum, 4:00, 3:45, 3:30 og loks 3:15. Fórum fram fyrir hana og stilltum okkur upp mitt á milli 3:15 og 3:00 blöðrunnar. Þar var gott pláss. Á meðan við biðum spjölluðum við aðeins um skótau samhlaupara okkar og annað markvert sem fyrir augun bar. Óvísindaleg könnun leiddi í ljós að þeir sem voru í kring um okkur voru flestir í Asics þar skammt á eftir voru NewBalance og í þriðja sæti lentu Nike skórnir. Adidas átti fjórða sætið. Lengra nær þekking mín ekki á skótaui. Mér til nokkurrar ánægju sá ég amk tvo aðra keppendur í hnéháum sokkum. Hjarðhegðunin lætur ekki að sér hæða. Nú var prinsinn byrjaður að tala og keppendur farnir að líta á úrin og hoppa meira. Þetta var að fara að gerast. Niðurtalning, ...3,2,1 og bang. Hlaupið var byrjað.
Veðrið var eins og best verður á kosið. Skýjað, lítill vindur og hiti sennilega í kring um 14, 15 gráður. Hersingin liðaðist af stað. Ég setti Garminn af stað um leið og farið var yfir rásmarkið og einnig skeiðklukku sem ég hafði á hinni hendinni. Það kom sér vel því eins og Rúnar Marínó hafði bent mér á var ekki alveg hægt að stóla á Garminn. Hann var góður til að fylgjast með pace-inu en ekki alveg nákvæmur á vegalengdinni. Þá kom skeiðklukkan sér vel. Hraðinn jókst smám saman og fyrsti km var á ca 4:50. Eftir það var hægt að byrja hlaupið og ég var á áætluðum tíma eftir 3 km eða 13:30. Eftir það var stillt á áætlaðan ferðahraða sem átti að vera nálægt 4:30 pace. Til að byrja með hlupum við Björn Rúnar saman en þar sem ég ætlaði heldur hraðar skildu leiðir í rólegheitunum þótt Björn væri alltaf skammt undan framan af. Ég setti stefnuna á að vera alltaf á rétt innan við 4:30 tempói en stóð mig að því að vera stundum að hlaupa nálægt 4:20. Það var ekki planið þannig að ég reyndi að hemja mig. Ótal ráðleggingar góðra félaga flugu í gegnum hugann – ekki of hratt til að byrja með, sekúnda grædd í upphafi er þrjár sekúndur tapaðar í seinni hlutanum. Ekki flókinn útreikningur það. Ég fékk mér ekki vatn á fyrstu drykkjarstöð eftir 4 km en alltaf eftir það. Ég gekk í gegnum stöðvarnar og drakk alveg úr einu glasi - það er framför frá því sem ég hef áður gert í þeim hálfu maraþonum sem ég hef tekið þátt í. Þá hef ég drukkið á hlaupum sem þýðir einn til tveir vatnssopar og restin úr glasinu hefur skilað sér annað. Það er kannski í lagi í 21 km en ég vildi fá allt vatnið á sinn stað í þessu hlaupi.
Fyrstu km liðuðust tíðindalítið hjá og ég naut þess virkilega að horfa í kring um mig og fylgjast með mannhafinu sem bæði voru þátttakendur með mér í hlaupinu og hinum sem stóðu og horfðu á og hvöttu hlauparana. Það er sannarlega mikilsvert að fá góða hvatningu og gefur hlaupinu aukið vægi. Á hinn bóginn er ekki spurning að ég vil sem oftast í framtíðinni vera í þeim hópnum sem fær hvatninguna frekar en vera í hvatningarhópnum. Upplifunin er einstök alla leiðina og verður bara magnaðri eftir því sem á hlaupið líður og þreytan fer að segja til sín. Þá fer spurningin að snúast meira um baráttu viljans við vöðvana en nokkuð annað og þá má með sanni segja að lífið sé í algleymingi. Vinur minn lýsti þessu frábærlega þegar við töluðum saman um hlaupið að því loknu; Lífið er ekki keppni í áhorfi heldur þátttöku. En áður en kom að alvöru baráttu viljans við vöðvana var ég þess mjög meðvitaður að síðustu kílómetrarnir hefðu tilhneigingu til að vilja lengjast. Því varð að spila af skynsemi. Þegar um 10 km voru að baki var ég aðeins á undan áætlun eða á tímanum 44:27. Þetta var ekki mikið en þó um 30 sec sem gat þýtt ein og hálf mínúta í refsingu síðar skv. formúlunni. Á þriðju drykkjarstöðinni við 12 km markið hljóp fram hjá mér par sem var í hrókasamræðum. Eftir að hafa drukkið úr vatnsglasinu hljóp ég aftur af stað og ákvað að hlaupa í humátt á eftir parinu. Mér leist þannig á þau að þar færu vanir hlauparar sem væru ekki að gera þetta í fyrsta skipti. Hann var lágvaxinn og sköllóttur og hljóp að mér fannst eins og maður kominn á virðulegan aldur sem gæti verið kominn nálægt sjötugsaldri. Hún var eitthvað yngri en bæði voru þau í bolum merktum dönskum hlaupaklúbbi og úr því þau gátu verið á spjallinu á hlaupunum virtist þetta ekki vera þeim erfitt. Ég fann fljótt að þetta var gott plan því þau héldu mjög jöfnum hraða rétt innan við 4:30 pace. Ég var viss um að þessu mætti þakka áratuga æfingum þess gamla og var búinn að komast að því að mögulega væri það dóttir hans sem var að hlaupa með honum. Það kom reyndar í ljós eftir hlaupið, þegar ég kannaði hvar parið hafði endað, að þau voru bæði í mínum eigin aldurshópi! Mér til afsökunar þá sá ég aldrei framan í kallinn og hann hljóp dálítið hjólbeinóttur og leit því þannig út aftan frá að hann væri eldri en augljóslega reyndist vera raunin. Við 16 km hlupum við í gegnum Svarta Demantinn þar sem hlaupinu myndi ljúka rúmum 26 km síðar. Mér leið vel og hér var gaman. Margt fólk að hvetja hlauparana enda vorum við hér skammt frá startinu. Ég sá eiginkonuna og vini sem hvöttu mig óspart. Ég varð bæði hnarreistari og skreflengri og gott ef brjóstkassinn færði sig ekki ögn framar. Héðan lá leiðin áfram meðfram Kalvebod Brygge. Skyndilega var nafnið mitt kallað ásamt hvatningarhrópum. Ég leit við og veifaði og sá mann sem ég þekkti ekki í fljótu bragði. Ég velti því fyrir mér nokkra stund hver maðurinn væri og komst helst að því að hér væri gamall skólafélagi úr grunnskólanum. Þegar heim var komið og ég leit á allar góðu kveðjurnar sem mér höfðu borist í gegnum Hlaupadagbókina sá ég kveðju frá manni sem sagðist hafa séð mig á Kalvebod Brygge. Þar var á ferðinni enginn annar en Stefán Þórðarson höfundur Hlaupadagbókarinnar. Alveg makalaust að hann skyldi þekkja mig í þessu mannhafi því væntanlega hefur hann bara séð af mér vonda mynd á dagbókinni. En svo því sé til haga haldið vil ég taka fram að framtakið með Hlaupadagbókina er aldeilis frábært og svo sannarlega hvetjandi tól í alla staði. Hafðu þökk fyrir Stefán!
Þegar hér var komið sögu urðu breytingar. Það fór að rigna – og síðan að blása. Ekki mikið í byrjun en það ágerðist. Vindurinn var kannski ekki mikill á íslenskan mælikvarða en þó þannig að fyrir honum fannst þegar hlaupið var í fangið á honum. Rigningin var einnig köld á köflum. Ég hélt mig við planið og elti gamla og dóttur hans. Þau létu hvorki vind né rigningu á sig fá – og ég ekki heldur. Við 20 km markið sá ég að ég hafði farið síðust 10 km á 45:24 eða á pari eftir 20 km. Gott, planið var að virka og ég var ekki byrjaður að tapa tíma fyrir síðustu kílómetrana ef formúlan myndi ganga upp. Við hálfmaraþonmarkið var ég á tímanum 1:34:45 sem var fínt. Ég hafði fengið mér eitt gel tæplega hálftíma fyrir hlaup og annað um 10 mínútum fyrir hlaup. Ég fékk mér gel við 10 km markið og nú stóð til að fá mér annað. Það reyndist nokkuð erfiðara en ég hélt. Ég var orðinn svo krókloppinn á höndunum að ég ætlaði ekki að ná gelinu úr beltinu. Það kom mér á óvart því mér var ekki kalt að öðru leyti. Eftir smá barning náði ég þó gelinu og innbyrti það. Þá hafði ég dregist aðeins aftur úr hérunum mínum en þó ekki lengra en svo að ég náði þeim von bráðar. Við hlupum áfram og nálguðumst aftur Vestre Voldegade þar sem hlaupið byrjaði. Við hlupum inn í götuna og þar var drykkjarstöð. Hér var eins gott að gæta að sér. Bananahýði og appelsínuberkir ásamt tómum vatnsglösum lágu eins hráviði um allt. Eins gott að stíga ekki á neitt hér. Rúnar Marínó hafði sagt mér lygilega sögu af hlaupara sem í fyrra steig á bananahýði og steinlá og gat ekki lokið hlaupinu. Við veltum fyrir okkur saman hvernig afsökunin fyrir að ljúka ekki hlaupinu hefði hljóðað! Skyldi einhver hafa trúað aumingja manninum? Ég var farinn að skima eftir konunni og vinum og átti hálft í hvoru von á að þau væru hér. Ég hugsaði þó með mér að nú væru þau örugglega komin á einhvern veitingastað aðeins ofar með brautinni og ég myndi allt í einu heyra í þeim hvatningarhrópin. Það stóð algjörlega heima því skömmu seinna sá ég þau þjóta frá borðum sem voru á veitingastað sem var alveg við brautina og hrópa og kalla hvatningarorð. Enn var pósað og reynt að bera sig mannalega. Myndin var flott sem ég sá eftir hlaupið. Ekki að sjá að ég væri að reyna eitthvað á mig. Merkilegt hvað maður getur gert þegar maður er viðbúinn og þykist vera flottur!
Áfram leið hlaupið. Við 26 km urðu nokkur kaflaskipti. Ég veitti því eftirtekt að ég var farinn að hlaupa fram úr býsna mörgum hlaupurum. Ég hélt fyrst að hérarnir mínir væru farnir að auka hraðann en sá fljótt að svo var ekki. Það var farið að hægjast á öðrum hlaupurum. Svona gekk þetta næstu 4 – 5 km, við fórum fram úr tugum og jafnvel hundruðum hlaupara. Þetta var næstum því óraunverulegt. Eins og að horfa á mynd í slow motion. Við 30 km markið sá ég að síðustu 10 km voru hlaupnir á 44:04 mín þannig að eitthvað höfðum við aukið hraðann. En mér leið vel. Nú voru -bara- um 12 km eftir og því fannst mér orðið tímabært að segja skilið við hérana mína. Tími til kominn að taka á því! Ég hljóp upp að hérunum og fram hjá þeim og leit aldrei um öxl eftir það. Hefði kannski betur gert það því þá hefði ég komist að því að sá gamli var um það bil jafngamall mér. En hvað um það 31 og 32. Nú var eitthvað nýtt að gerast. Ég fór að finna til þreytu. Allt í einu var ekki eins auðvelt að halda hraðanum. Snarlega skipti ég um taktík og hætti að hugsa um að auka hraðann heldur skyldi nú einbeitt sér að því að halda. Halda, halda, halda. Nú kom sér vel að vera vanur fj.. hlaupabrettinu. Hversu oft var ég ekki í vetur búinn að hlaupa eins og hamstur á brettinu á fyrirfram ákveðnum hraða þar sem ég taldi niður km og hélt hraðanum sama hvað. Nú skyldi það endurtekið. Þetta gekk vel, 33, 34, 35 og ég hélt hraða. Við 35 km bættist þó við að ég fór að finna fyrir verkjum framan í lærvöðvunum. Þetta var líka nýtt og þetta var erfiðara. Áfram hafði ég þó haldið að fara fram úr hlaupurum hvort sem þeir voru farnir að ganga, hættir að hlaupa eða á hlaupum. Þegar hér var komið sögu gerðist það í fyrsta sinn í langan tíma að það kom hlaupari upp að hliðinni á mér og fór fram úr mér. Léttur í spori og fjarlægðist. Ég kannaði hraðann hjá mér og sá að ég hélt hraða. Þá var þetta í lagi. Ég stefndi enn að því að klára á undir 3:10. Halda, halda, halda. Ég var á brettinu, einn km í einu 36, 37. Bara 5 eftir, bara rúmar 20 mín. Nú sá ég að ég var farinn að nálgast þann sporlétta. Fínt, nýr héri. Við 38 km var ég kominn á hælana á honum, hann leit við og sá að hann fékk fylgd. Örlítil hraðaaukning hjá honum og bilið jókst á ný. Hjá mér var aðeins ein hugsun, halda, halda, halda. Við 39 km var ég kominn aftur í hælana á héranum, 40 km og við hlupum samsíða. Við 40,5 km heyrði ég andardráttinn í honum, við 41 km hætti ég að heyra í honum. Ég var aftur orðinn einn. Áfram, áfram, áfram, ná sem flestum. Við 42 km voru nokkrir í hnapp. Ég skyldi fram úr. Hljóp upp að þeim en þá tóku tveir sig til og gáfu í. Ég átti ekki séns. En hvað um það, ég elti og við hirtum nokkra upp í rennunni. Síðustu rúmir tveir km voru hlaupnir á rétt rúmum 9 mínútum eða nálægt 4:10 pacei. Ég sá að ég var vel undir 3:10 skv. klukkunni og vissi að ég átti einhverjar sekúndur upp á að hlaupa þar sem þetta var tími miðað við startklukkuna. Markmiðinu var náð. Tíminn 3:09:16 með negatívu splitti, 1:34:45 og 1:34:31.
Að eigin mati fullkomlega heppnað hlaup og alveg eftir áætlun. Mér leið eins og ég get ímyndað mér að silfurverðlaunahöfunum okkar hafi liðið á Ólympíuleikunum þegar ég fékk verðlaunapeninginn um hálsinn. Þeim leið vel. Ég gekk áfram og fékk mér drykk. Drakk hann rólega eins og ég ætti allan heiminn og hann væri að bíða eftir mér. Til mín kom kona og rétti mér plastyfirbreiðslu. Ég klaufaðist eitthvað við hana þannig að konan aumkvaði sig yfir mig og bjó til skikkju úr yfirbreiðslunni sem leit út eins og skikkjan sem Zorro notar við vandasöm verkefni, nema þessi var blá. Skikkjan var góð, hélt rigningunni frá og ég fékk mér orkustöng og annan drykk. Ég gekk um svæðið og horfði á áhorfendurna sem horfðu til baka á mig. Ég var að leita að konu og vinum og áttaði mig á því að við hefðum átt að ákveða fyrirfram hvernig við myndum hittast. Þetta var ekki alveg einfalt. Ég ákvað að snúa að markinu og bíða og sjá hvort ég myndi ekki finna Bjössa. Ég beið nokkra stund en sá hann ekki. Ég hugsaði með mér að hann væri sennilega kominn í markið og væri byrjaður að svolgra í sig ljúffenga drykki og gæða sér á appelsínum og banönum þannig að ég snéri til baka til að leita að honum. Síðar kom í ljós að ég hafði snúið við rétt áður en hann kom í mark með allar tegundir krampa sem hægt er að nefna. Ég skil reyndar ekki enn hvernig hann gat klárað hlaupið eins og hann var útleikinn eftir þennan ófögnuð. Sennilega hefur það bjargað honum í horn að litli strákurinn hljóp með honum síðustu 2 km. Þessi litli á eftir að gera fína hluti og ekki bíð ég í keppni við hann þegar hann verður árinu eldri! Pabbinn verður sennilega að sætta sig við það að hann mun héðan í frá aðeins sjá í afturendann á stráknum ef þeir hlaupa saman. En bæting hjá pabbanum upp á næstum hálftíma er ekkert kex þótt kallinn blóti og bölsótist yfir tímanum sem hann fékk. Hann ætti bara að vera ánægður enda kall kominn flokk eldri en 45 ára!
Ég gekk um svæðið í sæluvímu. Fékk mér banana og meira að drekka. Á einum stað var boðið upp á heitt kakó sem var vel þegið. Við enda svæðisins var boðið upp á öl. Ég sem sannur íþróttamaður sneiddi hjá þessum bás – enda var ölið áfengislaust. Tilgangslaust. Ég hugsaði með mér að það væri ómögulegt að finna Bjössa við þessar aðstæður enda vissi ég ekki hvort hann væri kominn og farinn eða að koma og fara eða löngu farinn. Ég ákvað því að rölta að útganginum og finna mitt fólk. Það reyndist erfiðara en ég hélt því keppendur komust ekki út af svæðinu vegna fjölda vina og vandamann sem biðu við útganginn. Þegar ég var um það bil að komast út sá ég mína heittelskuðu sem kastaði til mín poka með þurrum fötum þannig að ég gat snúið við og skipt um föt inni á keppnissvæðinu en þurfti ekki að gera það fyrir allra augum. Það var gott að skipta um föt og ganga út sæmilega heitur og nokkuð góður. Þegar út var komið fórum við að velta fyrir okkur hvernig við myndum finna Björn og hans fölskyldu. Það gekk vel enda eins og Íslendinga er siður rekast þeir alltaf hver á annan í útlöndum. Við Rósa, kona Björns, töluðum okkur saman í gegnum gsm símana og enduðum símtalið á því að horfa hvort á annað. Örfáum sekúndum seinna mætti Björn í fylgd sinna krampa. Dálítið eins og að horfa til miðalda þar sem menn riðu um héruð með sína drauga í eftirdragi. Viðeigandi, enda Björn útlítandi eins og héraðshöfðingi sem kann að temja sitt lið. Hér skyldu leiðir í bili því við ætluðum hvorir til síns heima og hittast um kvöldið yfir góðri nautasteik. Við Margrét vorum ein á ferð því vinir okkar, Þórður og Sune, höfðu gefist upp á rigningunni og farið heim áður en hlaupinu lauk. Þeir máttu þó eiga það að afsökunin sem þeir höfðu fyrir því að fylgja okkur ekki alla leið var sú að þeir fóru heim og létu renna í heitt bað og volgt rauðvínsglas. Við það stóðu þeir með sóma. Á leiðinni heim fundum við stað sem afgreiddi öl miðað við réttar forsendur. Það voru góð kolvetni!
Um þetta fyrsta, og vonandi ekki síðasta, maraþonhlaup mitt er ekki mikið meira að segja. Enda þykir sennilega mörgum sem nennt hafa að lesa alla þessa leið löngu nóg komið. Mér til afsökunar hef ég það að ég vil gjarnan skrá þessa sögu fyrir sjálfan mig mér til upprifjunar síðar og ef einhverjir hafa gagn eða gaman af er það fínt.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.