Draumfarir um heilbrigðismál

Fyrir okkur flestum liggur að kynnast heilbrigðisþjónustunni einhvern tíman á lífsleiðinni. Hvenær það gerist er eðli málsins samkvæmt misjafnt en oftast hefur það áhrif á þá sem það upplifa. Það er öðru vísi að upplifa á eigin skinni eða skinni nákominna hvernig kerfið er, en að lesa um það frásagnir. Því er sennilega til lítils unnið að bæta við enn einni frásögninni. Nema ef vera skildi í sjálfshjálpartilgangi. Það getur stundum verið ágætt að skrifa sig frá hlutunum því ef það tekst er til einhvers unnið.

Ég man eftir að hafa setið við gluggann á Landspítalanum að kvöldi þann 23. desember 2005 og horft á sjúkrabíl með blikkandi ljós reyna að skjóta sér á milli bíla í umferðinni niður Öskjuhlíðina þetta kvöldið. Umferðin var þung og mjög lítið svigrúm fyrir bílstjóra til að víkja þannig að ferðin sóttist hægt. Ég man að ég nefndi við Möggu að mér þætti skrítið að ætla að byggja nýja sjúkrahúsið á þessum stað miðað við óbreytt vegakerfi. En það stæði þó til bóta með hugmyndum um nýjar vegtengingar þannig að sennilega yrði þetta nú í lagi. Já og glugginn lak.

Ég man að ég fékk að prófa ýmsar útgáfur af sjúkrastofum. Og ýmsar tegundir af herbergisfélögum. Sumir voru skrafhreifnari en ég hefði kosið sem herbergisfélaga og aðrir þurftu meiri aðstoð hjúkrunarfólks um nætur en svo að unnt væri að sofa meðan þeir nutu aðhlynningar. Ég man að ég fékk einn morguninn heilan sjúkragang til afnota því rýma þurfti mitt pláss og annað ekki laust fyrr en síðar. Þetta var ágætt því nokkuð mikill erill var og því lítil hætta á að maður sofnaði og missti af einhverju. Mér fannst þó gott að hugsa til þess að það styttist í einkastofurnar.

En starfsfólkið gerði sitt besta. Í raun og veru lítil og stór kraftaverk á hverjum einasta degi. Við erfiðar aðstæður og oft og tíðum án mikilla þakka. En ljósið var líka handan gangsins. Nýr spítali og nýjar aðstæður áður en langt um liði. Merkilegt hvað hægt er að kreista út mikinn vilja og aukaorku þegar marklínan er sjáanleg.

Sumarið 2013. Aftur heimsóknir á krabbadeildina. Deildin undirmönnuð. Tilfinningin sú að ekkert hefði áunnist síðan 2006. Skorturinn á starfsfólki meiri. Þreytan meiri. Þrengslin meiri. Engin marklína sjáanleg. Glugginn lak ennþá. (Já, já, ég veit að hér varð hrun).

Vorið 2014. Það dró af Möggu. Til að byrja með fékk hún lyfin sín á almenningsstofunum. Þegar leið á var hún sett inná tveggja manna stofu. Þar voru fullorðin hjón og af samtölum þeirra og lækna var augljóst að það þeirra sem veikt var átti ekki langt eftir. Það var óþægilegt að þurfa að hlusta á þessi samtöl. Þetta voru erfiðar prívatstundir þessa fólks sem áttu ekki að þurfa að hafa ókunnug vitni. Þetta voru líka erfiðar prívatstundir okkar Möggu og við áttum ekki að þurfa að hlusta á þessi samtöl. Þótt við vissum að hverju stefndi var óþarft að þurfa að láta minna sig á það með þessum hætti. Þar fyrir utan var baráttuandinn enn til staðar og þetta var ekki til að byggja hann upp.

Íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið gott vegna þess að við höfum átt því láni að fagna að eiga gott starfsfólk. Sem leggur sig fram þrátt fyrir kerfið sem hefur verið byggt upp. Kerfi sem virðist því miður vera að dragast aftur úr í samanburði við kerfi annarra landa á vesturlöndum. Að margra mati hefur vantað heildstæða stefnumörkun í málaflokknum. Stefnumörkun til margra ára. Óháð tímabundnum mismunandi áherslum stjórnmálaflokka sem stundum virðast hafa það helst að markmiði að breyta því sem fyrri stjórnmálaöfl höfðu ætlað sér. Afleiðingin sú að heilbrigðiskerfið þróast bara einhvernvegin, án skýrrar stefnumörkunar. Og við sitjum uppi með kerfi sem enginn hafði fyrirfram hugsað sér eða tekið ákvörðun um að skyldi vera með þessum hætti.

Við sitjum uppi með það að okkur virðist vera ómögulegt að ræða á málefnalegan hátt um mögulegar leiðir. Ef einhver nefnir eitthvað þá er viðkomandi umsvifalaust stimplaður með einhverjum stimpli. Annarleg sjónarmið búi að baki, tilraun til að komast í kjötkatlana, amerískt kerfi, albanskt kerfi, kommúnískt kerfi eða önnur viðeigandi uppnefni.

Ár eftir ár sjáum við í könnunum að Hollendingar eru að gera ýmislegt vel. Þar í landi tóku yfirvöld sig til og eyddu nokkrum árum í stefnumótun og að því er virðist málefnalega umræðu og breyttu kerfinu hjá sér. Ekki er þó víst að þeirra leið hugnist öllum hér því þar eru tryggingarfélögin látin sjá um að tryggja þegnana. Það eitt væntanlega grefur umræðuna hér á landi. En þeir búa við það að eiga þingmenn sem treystu sér til þess að setja lagaramma utan um kerfið sem sátt hefur orðið um. Hér virðast þingmenn hafa takmarkaðan áhuga á málaflokknum nema þeir hafi fengið að prófa kerfið á sjálfum sér. Ég veit því ekki hvort það er gott eða vont að eiga heilsuhrausta þingmenn.

Nú á sér stað undirskriftasöfnun sem Kári Stefánsson átti upptökin að. Það hafa yfir 75.000 manns skráð sig á þennan lista. Um er að ræða ákall um bætt heilbrigðiskerfi. En að venju hefur umræðan að miklu leyti snúist um orðalag eða ónákvæmni eða framsetningu eða eitthvað. Á meðan lekur glugginn.

Þegar Magga fór í sína aðra lyfjameðferð vorið 2014 sagði vinur okkar, krabbameinslæknir sem starfar í USA, okkur frá lyfi sem hann myndi vilja reyna með öðrum lyfjum. Það væri ekki örugg lækning en hann myndi telja það geta hjálpað. Í íslenska heilbrigðiskerfinu er ekki búið að samþykkja þetta lyf. Um það var sótt en því var hafnað. Við fáum aldrei að vita hvort það hefði getað hjálpað.

Á morgun fer mér nákominn í uppskurð vegna krabba. Viðkomandi er því að hefja ferð sína í lottói heilbrigðiskerfisins. Vegna framúrskarandi starfsfólks sem leggur sig fram eigum við von á góðum árangri. En í kerfi þar sem glugginn hriplekur.

Mig dreymdi Möggu í nótt. Hún leit út eins og áður en hún veiktist. Það veit á gott.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband