Áramótaannáll 2015

Hlaupaárið 2015 var gott hlaupaár. Ég kom inn í árið byrjaður í prógrammi þar sem ég hafði skráð mig í Tokyo maraþonið þann 22. febrúar. Þar sem ég var að fóta mig á ný í hlaupunum eftir hjartabrennsluaðgerðina haustið 2014 fór ég frekar varlega og hélt magninu hóflegu. Þegar til kom gekk bara ljómandi vel og ég kláraði á ágætum tíma. Næsta maraþon var í París þann 12. apríl. Það var sama sagan þar, hóflegar æfingar og hlaupið gekk vel. Um bæði þessi hlaup hef ég bloggað áður. Tveimur vikum eftir Parísarþonið ætlaði ég að vera með í vormaraþoninu en þegar ég fór að finna fyrir eymslum í öðru hnénu eftir tæplega hálft maraþon lét ég það bara gott heita og hætti eftir hálft. Hvíldi mig vel eftir þetta og náði mér góðum í hnénu. Mjög skynsamur og til eftirbreytni.

Þegar fór að líða að sumarbyrjun fór að fæðast sú hugmynd að gaman gæti verið að hlaupa Mývatnsmaraþonið sem ég hafði aldrei gert. Ég fór því aftur af stað og hafði það markmið að koma mér í þannig form að ég gæti amk klárað vegalengdina skammlaust. Þar sem ónæmiskerfið er ekki alveg í toppstandi er ég viðkvæmur fyrir kalsasömum veðrum og því hafði ég varann á mér og ætlaði ekki að hlaupa nema spáin væri þokkaleg. Á mánudegi fyrir hlaup var spáð hita um frostmarki og töluverðum vindi. Ég afskrifaði því hlaupið. Tók góðar styrktaræfingar á miðvikudegi og gat varla gengið fyrir harðsperrum næstu dagana. Á föstudagsmorgni sá ég að spáin hafði breyst og var bara orðin nokkuð þokkaleg, hiti nokkrar gráður og minni vindur. Því var skipt um skoðun og keyrt norður seinni partinn. Pastamáltíðin í þetta skiptið saman stóð af tvöföldum hamborgara og Brynju ís. Dálítið óhefðbundið en sérlega gott! Hlaupadagurinn var hinn fallegasti, bjartur en auðvitað frekar kalt. Þarna var ég mættur á ráslínuna ásamt 9 öðrum! Ótrúlegar andstæður miðað við að vera í ráshólfum ásamt tugum þúsunda! En maraþon er alltaf maraþon og öll hafa þau sinn sjarma. Það hefur Mývatnsmaraþonið svo sannarlega líka. Þetta var alveg bráðskemmtilegt hlaup og öðru vísi en öll önnur sem ég hef tekið þátt í. Eftir nokkra km var ég orðinn einn í þriðja sæti og þannig var það allt hlaupið. Ég sá tvo fremstu menn framan af en upp úr miðju hlaupi hætti ég að sjá þá nema af og til. Eftir það sá ég ekki annað fólk en glaðlegt starfsfólk á drykkjarstöðvum og einn og einn bíll fór fram hjá mér. En dýralífið og umhverfið maður! Alveg dásamlegt. Ég sá endur í hrönnum, ég sá mófuglana, ég sá rollur, ég sá hesta og ég sá beljur. Reyndi meira að segja að skima eftir silungum þegar ég hljóp yfir brýrnar. Já og ég sá víst líka fleira fólk því það var auðvitað allt fullt af túristum við Skútustaði þegar ég hljóp þar framhjá. Ég gat nú ekki séð á þeim að þeir gerðu sér grein fyrir því að ég væri að taka þátt í alvarlegri maraþon keppni þegar ég hljóp þar í gegn. Engin hvatning heldur horft á mig eins og ég væri viðundur að vera þarna á hlaupum og það án þess að vera með net um höfuðið eins og þeir voru flestir með. Það var reyndar ekki að ástæðulausu því eitt kvikindi í viðbót sá ég í umtalsverðu magni og það er að sjálfsögðu hinn afskaplega geðþekki mývargur. Það var nóg af honum en hann var frekar staðbundinn. Það var mikið af honum á þeim stöðum þar sem vegurinn er mjög nálægt vatninu en annars var þetta alveg í lagi. Sennilega hefur nú vindurinn haft nokkuð um það að segja. En það er skemmst frá því að segja að þetta var mikil náttúruupplifun og mjög skemmtilegt. Ekki skemmdi það upplifunina að skella sér í baðlón þeirra Mývetninga og skella í sig ísköldum orkudrykk eftir hlaupið! Rúsínan í þessari ferð var síðan að Þóra vann í sínum aldursflokki í 10 km hlaupinu!

Eftir Mývatnsmaraþonið tók ég því rólega í nokkrar vikur en ákvað síðan að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. Það var því ekki annað að gera en að byrja að trekkja upp. Það gekk ágætlega og í þeim undirbúningi tók ég þátt í skemmtilegu nýju hlaupi sem var Adidas Boost hlaupið. Ég skellti mér líka í stystu vegalengdina í Hengilshlaupinu. Það gekk ágætlega líka. Ég fór reyndar hægt upp brekkurnar því eftir að hjartavesenið hófst hef ég átt erfiðara með að fara upp brekkur en áður. Mér gekk hins vegar vel niður og náði öllum sem fóru fram úr mér á uppleiðinni nema Oddi. Ég réð ekkert við hann. Næsta verkefni var Jökulsárhlaupið. Þetta var í 5. skipti sem ég tek þátt í því hlaupi. Að mínu mati er þetta skemmtilegasta hlaupaleið sem ég tek þátt í hér á Íslandi. Atvik hafa háttað því þannig að ég hef ekki hlaupið þarna síðan árið 2011. Það var því heilmikil tilhlökkun í gangi og þar til viðbótar bættist að Hlaupahópur Stjörnunnar sendi fjölmennt lið á svæðið. Hlaupið sjálft gekk afbragðs vel. Við Unnar vorum búnir að æfa saman fyrir Reykjavíkurmaraþonið og vorum komnir í þokkalegt form miðað við aldur og fyrri störf. Við hlupum þetta öxl í öxl alveg þar til um 4 km voru eftir. Þá dró örlítið í sundur og sá sem var með fleiri aukakíló þurfti að borga fyrir það. En þetta var mjög taktískt hlaup hjá okkur. Eftir startið þá reyndum við að ná okkur í stöðu og vorum komnir í ca. 20. sæti áður en við fórum inn á göngustíginn eftir malbikið. Við héldum þeirri stöðu nokkurn veginn alveg fram að Hljóðaklettum. Við fórum fram úr einhverjum og einhverjir fóru fram úr okkur á þessum kafla. En eftir Hljóðaklettana gekk okkur vel. Þá fórum við að pikka upp keppendur og misstum engan fram úr okkur. Enduðum í 12. og 14. sæti og vorum ánægðir með það. Þegar svona pistill er settur saman þarf stundum að halda vel um tölfræðina þannig að það er rétt að geta þess að Oddur lenti í 16. sæti, mörgum, mörgum mínútum á eftir okkur. En hann stóð sig samt vel!

Reykjavíkurmaraþonið fór ekki alveg eins og það átti að fara. Um viku fyrir hlaupið fékk ég eitthvert tak í annan kálfann við það eitt að ganga niður tröppur heima hjá mér. Það var bölvað ólán því mér fannst ég vera kominn á ágætt ról. Ég hljóp ekkert síðustu dagana fyrir hlaupið og vonaðist eftir skjótum bata. Það gekk ekki upp þannig að strax frá fyrsta skrefi var þetta bölvuð pína. Ég hefði auðvitað aldrei átt að fara af stað en þar sem ég hafði sett í gang áheitasöfnun í minningu Möggu minnar fannst mér ekki hægt annað en að reyna að klára. Þetta gekk þokkalega fyrstu 7 km en þá þurfti ég að hægja á mér. Við 18. km hélt ég að eitthvað væri að gefa sig en það lagaðist aftur þannig að með því að hlaupa eins og ég væri að fara yfir glerbrot gekk þetta þokkalega. En við 32. km var eins eitthvað hefði slitnað í kálfanum. Ég varð að stoppa og gekk síðan rúmlega hálfan km. Eftir það gat ég farið að skjögta áfram og það endaði þannig að ég hálf hljóp og hálf gekk síðustu 10 km en komst þó í mark. Þetta endaði með því að verða mitt langhægasta maraþon til þessa en þegar upp er staðið skipti það engu máli því ég kláraði. Það var fyrir Möggu.

Nú tók við þriggja vikna algjör hlaupahvíld. Eftir hana var byrjað aftur því þá voru fjórar vikur í næsta verkefni sem var Chicago maraþonið. Það var ákveðið í Tokýó að það væri hlaup sem þyrfti að hlaupa. Enda tilefnið ærið. Þetta var síðasta hlaupið af hinum stóru 6 sem Unnar átti eftir og því ákváðum við félagarnir að fara með honum í hlaupið. Hlaupið gekk mjög vel og eiginlega betur en ég hafði átt von á fyrirfram. Ég náði mjög jöfnu hlaupi og var innan við mínútu hægari með seinni hlutann en þann fyrri. Þegar upp var staðið var ég töluvert fljótari en mínar bjartsýnustu ímyndanir höfðu látið sér detta í hug. Það var því greinilegt að grunnurinn hafði verið til staðar þótt brösuglega hefði gengið frá miðju sumri.

En sem sagt. Fyrirfram vissi ég ekki hverju ég gæti átt von á þetta hlaupaárið. Ég vissi ekki hvernig mér myndi ganga að komast af stað eftir hjartabrennsluna og hvort ég myndi yfirhöfuð geta hlaupið. Við árslok veit ég það. Í ár bættust við þessi 5 maraþon þannig að heildartalan er komin upp í 16. Það er eiginlega allt að því skrítin tilhugsun. Þegar hjartsláttaróreglan byrjaði hafði ég hlaupið 6 maraþon. Um tíma hélt ég að ég myndi ekki hlaupa framar. Það reyndist rangt. Ég komst aftur af stað eftir um árs hlé þar sem ég hafði verið meira og minna úr takti. Eftir að hafa verið startað í gang í fyrsta skiptið gat ég hlaupið þótt ég dytti reglulega úr takti. Þannig tókst að klára 5 maraþon á tveimur árum til viðbótar. Nú er stefnan hiklaust sett á enn fleiri maraþon.

Markmið næsta árs eru nokkur. Ég er skráður í Boston í vor. Það verður spennandi. Þangað var ferðinni heitið vorið 2012 áður en ég datt úr takti. Þá var ég kominn í fantaform og var að stefna á tíma sem væri sem næst 2:50. Ég reikna með að slíkar tímahugsanir séu liðin tíð hvað mig varðar en engu að síður ætla ég að reyna að æfa vel og markmiðið er að vera sem næst 3:05. En þá verð ég líka að losa mig við nokkur vel valin kíló. Næsta verkefni þar á eftir er ekki síður spennandi en Boston. Við félagarnir ætlum ásamt okkar betri helmingum að leggja land og höf undir fót og skella okkur í maraþonhlaup í Suður-Afríku í byrjun næsta sumars. Það er hlaup sem hlaupið er í þjóðgarði innan um dýr merkurinnar. Það er hlaupið undir árvökulum augum vopnaðra þjóðgarðsvarða. En til öryggis er eina markmið mitt í hlaupinu að geta hlaupið aðeins hraðar en Unnar. Bara ef vera skyldi að enginn byssumaður verði nálægur ef við mætum úrillum Nashyrningi. Þar sem þetta hlaup er í raun trail hlaup með töluverðum hæðarmismun þá er ansi freistandi að nýta æfingarnar fyrir hlaupið og taka þátt í Laugaveginum ca. 4 vikum síðar. Ég sé til með það. Næsta haust er planið að fara með hlaupahópnum og taka þátt í Munchen maraþoninu. Það verður örugglega skemmtileg ferð enda félagsskapurinn alveg frábær. Nú og svo er því ekki að neita að það kitlar aðeins að hlaupa í NY. Ef mér myndi takast að klára Boston og NY þá ætti ég ekki eftir nema Berlín til að vera búinn með stóru 6. Þegar því verkefni verður lokið verður þá hægt að fara að einbeita sér að því að finna spennandi og óvenjuleg hlaup. Við erum reyndar þegar komnir með plan í huga sem við erum byrjaðir að vinna með. Nánar um það síðar.

Eins og ég hef oft bloggað um áður þá hafa hlaupin gefið mér mikið. Eitt af því er að nota þau til að búa til spennandi framtíðarsýn. Eitthvað til að hlakka til og eitthvað sem heldur manni við efnið. Eitthvað sem veitir manni ánægju að hugsa um. Það verður síðan bara að koma í ljós hvernig úr rætist. Það er bara eins og með lífið almennt. Margt getur breyst og þá getur þurfta að breyta um kúrs eða jafnvel skipta um skoðun. Það má. Aðalatriðið í mínum huga er hins vegar að njóta ferðalagsins. Eitt tekur við af öðru. Ferðin þarf ekki að vera misheppnuð þótt fyrirhugaður áfangastaður náist ekki. Ferðin verður bara öðru vísi og nýir og jafnvel ófyrirséðir áfangastaðir skjóta upp kollinum. En þótt áfangastaðirnir sjálfir séu oft nauðsynlegir og stundum ákveðinn hápunktur má ekki gleyma ferðalaginu, tilhlökkuninni, skipulagningunni, þrotlausum æfingum aftur og aftur. Lífið er allt fullt af endurtekningum, aftur og aftur. Endurtekningum sem gera mann betur í stakk búinn til að takast á við það sem að er stefnt. En jafnvel þótt upphaflegur áfangastaður breytist þá nýtast æfingarnar og endurtekningarnar. Maður er betur undir það búinn að mæta hverju sem er. En það þarf að muna að njóta hversdagsins, endurtekninganna. Hversdagurinn getur nefnilega verið ótrúlega dýrmætur. Eftir því sem ferðalaginu vindur fram lærist það betur og betur.

Að lokum er það hin hefðbundna áramótaupprifjun. Þetta árið urðu kílómetrarnir á hlaupum 2.280 og þá tel ég með 10 km í gamlárshlaupinu á morgun. Það þýðir að frá því að ég fór að hlaupa skipulega þann 10. apríl árið 2008 þá eru kílómetrarnir þessi 8 ár orðnir 23.643.

Gleðilegt nýtt ár!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband