18.9.2015 | 08:38
Að horfast í augu við þjáningu
Nú er rúmt ár liðið. Rúmt ár síðan ég hætti að geta talað við Möggu. Það er ekki auðvelt að venjast því. En eitthvað sem er óbreytanlegt. Hún er samt ennþá með mér. Alla daga hugsa ég til hennar. Ég hugsa til hennar með hlýhug og þakklæti. Allra góðu stundanna og allra góðu tilfinninganna. Lífsins sem við áttum saman. Lífsins sem var svo gott. Lífsins sem við héldum að við myndum lifa til endalokanna, uns dauðinn myndi aðskilja okkur.
Sem við gerðum.
Endalokin komu bara úr óvæntri átt og ófyrirséð. En þannig er lífið. Ófyrirséð og fullt af óvæntum atburðum. Bæði velkomnum og óvelkomnum. Á sumt getum við haft áhrif en annað ekki. Við getum hins vegar haft áhrif á það hvernig við bregðumst við þeim atburðum sem ekki eru velkomnir. Það gerum við hvert með sínum hætti. Sorgin, missirinn og eftirsjáin getur verið nýstandi sár. Mjög sár.
En. Hver og einn er sá sem ber mesta ábyrgð á eigin lífi. Hver og einn getur valið hvaða afstöðu hann vill taka til þeirrar lífsreynslu sem hann upplifir. Kannski er ekki auðvelt að eiga við þær tilfinningar sem brjótast fram en þá getur verið hjálplegt að reyna að greina orsakirnar. Átta sig á því hver hin raunverulega undirliggjandi ástæða er fyrir þeim tilfinningum sem brjótast fram. Hvað er það sem veldur þeirri vanlíðan sem viðkomandi upplifir. Og, er eitthvað til ráða þegar allt sýnist sem svartast og tilveran breytt til hins verra?
Ég hafði tíma. Ég hafði tíma til að undirbúa mig. Ég vissi í hvað stefndi með meiri fyrirvara en aðrir. Ég vissi það í raun frá upphafi. Við vissum það bæði frá upphafi. Við vissum það bæði þegar við sátum við miðjarðarhafsströnd haustið 2013. Við fengum það staðfest í febrúar 2014. Ég sat á bekk í grænum garði eftir maraþon í London í apríl 2014 og hugsaði um það hvernig það yrði að geta ekki lengur talað við Möggu. Ég eyddi degi í garðinum og ímyndaði mér hvernig það yrði. Um kvöldið hringdi ég í hana og heyrði röddina hennar. Það var gott. Það var gott að geta tekið upp símann og hringt í hana. Og hún svaraði. Fyrstu vikurnar eftir að hún fór hugsaði ég oft um þessa stund í garðinum í London. Mér fannst gott að rifja upp þessa tíma þegar ég sat og hugsaði, og gat síðan hringt í hana og heyrt röddina hennar. Það hjálpaði. En það var ekki eins. Nú gat ég ekki hringt. Þetta var ekki eins og ég hafði ímyndað mér. Þetta var miklu verra. Þetta var miklu sárara. En ég var samt ekki óundirbúinn.
Mér voru færðar bækur. Ég tók bækur úr bókahillunni sem ég hafði ekki lesið. Það var eins og eitthvað stýrði valinu. Úr einni bók sem mér var færð að gjöf fann ég ljóð sem ég staðnæmdist við. Ég las það oft. Það veitti mér ákveðna hugarró. Að lokum ákvað ég að síðasta erindi ljóðsins skyldi standa á steini Möggu minnar inn í framtíðina. Fallegt ljóð eftir Gunnar Dal sem hann samdi til látinnar eiginkonu sinnar. Ljóð sem lýsir mikilli ást og trú á fallega framtíð hennar. Steinninn verður settur upp í byrjun október.
Bók sem leyndist í bókahillunni var bókin: Leiðin til lífshamingju; sem er viðtalsbók Howard C. Cutler við Dalai Lama. Þetta var bók sem Magga keypti og ég hafði aldrei litið í. Eitt kvöldið eftir að hún fór greip ég hana úr hillunni og kíkti á efnisyfirlitið. Ég staldraði við kaflaheitið á kafla 8: Að horfast í augu við þjáningu; og las kaflann. Ég las hann oft næstu vikurnar. Mér fannst margt merkilegt sem þarna kom fram. Margt sem manni getur virst sjálfsagt þegar á það er bent en við eigum oft í erfiðleikum með að viðurkenna. Og það getur valdið okkur meiri vanlíðan en ástæða þarf að vera til. Þar sem Dalai Lama segir þetta betur en ég get endursagt leyfi ég mér að birta nokkrar beinar tilvitnanir í bókina:
Dalai Lama rakti í smáatriðum þá aðferð sem hann beitir til að sigrast á þjáningu. Hún byggist á þeirri trú að unnt sé að frelsast frá þjáningu. En fyrst verður einstaklingurinn að sætta sig við að þjáning er eðlilegur fylgifiskur mannsins og horfast hugrakkur í augu við vandamálin. Menn líta kannski neikvæðum augum á elli og dauða. Þau fyrirbæri eru óæskileg svo þeir reyna bara að gleyma þeim. Frá þeim verður þó engum forðað. Hafi menn forðast að hugsa um slíkt verður þeim það áfall þegar þar að kemur og það getur orsakað óbærilega andlega vanlíðan. Hafi menn varið einhverjum tíma í að hugsa um elli og dauða og aðra miður æskilega hluti, taka þeir þeim af meira jafnaðargeði þegar þar að kemur. Þegar einstaklingurinn hefur sætt sig við að þjáning er hluti af daglegu lífi, er næsta skref að kanna þá þætti sem venjulega valda óánægju og andlegri vanlíðan. Honum líður vel ef hann sjálfur eða einhver nákominn öðlast frægð og frama, eða annað það sem gerir lífið þægilegra. Ef honum tekst það ekki heldur keppinautunum, verður hann óhamingjusamur og óánægður. Ef menn rifja upp hvernig daglegu lífi er yfirleitt háttað, komast þeir að raun um að þeir þættir sem valda kvöl, þjáningu og óánægju eru mun algengari en þeir sem valda gleði og hamingju. Við verðum að láta þetta yfir okkur ganga hvort sem okkur er það ljúft eða leitt. Þetta er sá veruleiki sem við blasir og þess vegna gætum við þurft að breyta viðhorfum okkar til þjáningar. Viðhorfið til þjáningar skiptir miklu því að það hefur áhrif á hvernig við glímum við þjáningu þegar þar að kemur. Venjulega höfum við megnustu óbeit á kvöl og þjáningu. Tækist okkur að breyta viðhorfinu til þjáningar þannig að við tækjum henni af meira umburðarlyndi, værum við betur í stakk búin til að sporna við andlegri vanlíðan og óánægju. Ég tel að afstaðan til lífsins skipti máli fyrir viðhorfið til þjáninga. Ef við teljum hana neikvæða og til marks um að okkur hafi mistekist, er líklegra að við fyllumst kvíða og óþolinmæði þegar við lendum í erfiðum aðstæðum, líkt og yfir okkur þyrmi. Ef við sættum okkur hins vegar við þjáningu sem eðlilegan hluta tilverunnar verðum við umburðarlyndari gagnvart andstreymi. Ef ekki verður lífið ömurlegt, líkt og martröð sem engan enda virðist taka.
Það er margt sem ég tek með mér inn í framtíðina sem Magga gaf mér. Eitt það mikilvægasta að mínu mati er trúin á gott og ástríkt samband við maka. Ég upplifði það með Möggu. Sú tilfinning sem ég upplifði með henni er tilfinning sem ég vil upplifa aftur. Upplifa fullnægjuna sem felst í því að deila lífinu með manneskju sem manni finnst bæta sjálfan sig og manneskju sem maður trúir að maður veiti eitthvað sambærilegt á móti.
Sumir upplifa æfina með einum maka sem þeir elska alla tíð, sem er eflaust yndisleg tilfinning. Tilfinning sem ekki allir fá að upplifa. En sumir þeirra sem það ekki fá, þeir fá að upplifa aðrar tilfinningar. Tilfinningar nýrrar ástar og nýs tilhugalífs. Nýtt æfiskeið. Nýja tilveru. Það er vissulega skrýtið og mikil breyting, sérstaklega þegar breytingin stafar af óvelkomnum og óumbeðnum aðstæðum. Þá verður til nýr veruleiki þar sem blandast saman eftirsjá, tregi, söknuður, jafnvel ótti, en líka eftirvænting, spenna, þessar nýju tilfinningar og nýja framtíðarsýn. Þetta er skrítinn veruleiki og oft nánast óraunverulegur, stundum eins og líf milli tveggja heima. En eftir því sem tíminn líður dofnar sársaukinn og nýju tilfinningarnar verða yfirsterkari. Minningin breytist úr sárum söknuði í dásamlega fallegar myndir sem gleðja og veita styrk.
Þeir sem eru í kring um þann sem í þessari stöðu er upplifa ekki það sama. Þeir búa við þann breytta veruleika að einn úr hópnum er horfinn og ekkert kemur í staðinn. Þeir upplifa bara missinn og tómið. Kannski reiðina og vonleysið. Kannski, ef þeir voru óundirbúnir, finnst þeim lífið verða ömurlegt, líkt og martröð sem engan enda virðist taka. En við höfum val. Það er unnt að frelsast frá þjáningunni eins og Dalai Lama heldur fram. En að því sögðu er sennilega ekki hægt að segja hvað er rétt sorgarferli og hvað er rangt. Allir eiga sitt sorgarferli og það verður ekki borið saman við sorgarferli annarra. En hver og einn ber ábyrgð á sinni leið og sinni líðan og enginn getur borið sorgir annarra. Það er sárt en sá raunveruleiki sem við búum við.
Mín leið var sú að sætta mig við það óumflýjanlega, halda áfram lífsgönguna og reyna að finna mér farveg. Í gegnum mánuðina þar sem ljóst var orðið að hið óumflýjanlega væri óumflýjanlegt velti ég því oft fyrir mér hvernig ég ætti að bregðast við framtíðinni þegar stundin myndi koma. Hvernig ætti ég að haga mér, hvernig ætti ég að nálgast lífið upp á nýtt? Ég var því ekki alveg óundirbúinn dauðanum þótt missirinn og sorgin hafi verið nokkuð sem ekki var unnt að sjá fyrir hversu sár yrði í raun.
En ég valdi að halda áfram og lifa lífinu lifandi, eins og Sigurbjörn Þorkelsson hvetur okkur svo skelegglega til að gera í skrifum sínum í blöð og á fésbókina.
Ég fór út á meðal fólks. Ég fór aftur að hlaupa. Ég fór aftur að lifa lífinu. Ég bauð konu út að borða. Ég vissi hvað það var sem hafði veitt mér hamingju. Hvaða tilfinningar það voru sem höfðu látið mér líða vel. Að elska og vera elskaður.
Forlögin höguðu því svo að við Þóra héldum áfram að hittast. Samvistir okkar hafa leitt til þess að undir lok þessa mánaðar ætlum við að gifta okkur.
Að elska og vera elskaður.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.12.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 23
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þessa einlægu og mannlegu sögu.
Sum orð á minningarkortum hitta mann og maður hugsar um þau lengi á eftir eins og þetta:
"Ekkert líf er án dauða og enginn dauði er án lífs"
Um einn mann vissi ég að hann hafði oft yfir: "Það sem verður að vera viljugur skal hver bera" veit ekki hvaðan en spaklega mælt.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.9.2015 kl. 11:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.