Áramótaannáll 2014

Í áramótapistli síðasta árs gat ég þess að markmið ársins 2014 væri að halda áfram að hlaupa og vonandi taka þátt í fleiri maraþonum. Þau markmið gengu að hluta til eftir. Ég hljóp London maraþonið þann 13. apríl á tímanum 03:06:38 og tveimur vikum seinna tók ég þátt í Vormaraþoninu hér heima og kláraði það á tímanum 03:15:52. Ég hljóp lítið eftir þessi hlaup en byrjaði þó aftur af auknum krafti eftir hjartabrennslu í september.

Þessi tvö maraþon sem ég hljóp á árinu voru númer 10 og 11. En það sem meira er, þetta eru maraþonhlaup númer 4 og 5 eftir að ég fékk hjartsláttaróregluna. Það var ekki eitthvað sem ég átti von á sumarið 2012 þegar ég var í þunglyndi yfir því að geta sennilega aldrei hlaupið aftur. Nú sé ég meira að segja fram á að geta mögulega hlaupið aftur án þess að hjartsláttaróreglan sé að trufla mig. Brennsluaðgerðin sem ég fór í sl. haust lofar góðu. Ég hef nánast ekki dottið úr takti og endurhæfingin hefur gengið ljómandi vel. Ég byrjaði léttar hlaupaæfingar rúmum tveimur vikum eftir aðgerð og fjórum vikum eftir aðgerðina hljóp ég í fyrsta skiptið yfir 10 km á einni æfingu. Þann 17. nóvember tók ég síðan fyrstu æfinguna í formlegu maraþonprógrammi, innan við tveimur mánuðum frá aðgerð. Fimm dögum síðar hljóp ég í fyrsta sinn yfir 20 km og gekk bara vel.

Frá því að ég fór að hlaupa árið 2008 hef ég haldið saman þeim kílómetrum sem ég hef hlaupið á ári hverju. Í ár urðu þeir tiltölulega fáir en þó 2.309. Það þýðir að á þessum 7 árum eru kílómetrarnir orðnir 21.363.

Markmið næsta árs eru í raun svipuð og í fyrra, þ.e. hlaupa fleiri maraþon og helst sem flest. Ég er nú þegar skráður í Tokyo maraþonið þann 22. feb. og París þann 12. apríl. Ef allt gengur að óskum verða einhver hlaup síðar á árinu.

Ég hef áður sagt í pistlum að hlaupin séu mín leið til að takast á við hlutina. Ef eitthvað bjátar á er fátt betra en að fara og hlaupa og tæma þannig hugann. Einnig ef þarf að brjóta mál til mergjar þá er ekki síður gott að hlaupa og kryfja málin á meðan. Hlaupin eru því sannarlega alhliða. Þetta ár varð mér og eiginkonu minni, Margréti Gunnarsdóttur, sérlega mótdrægt. Hún varð undir í baráttu við illvígan sjúkdóm þann 23. ágúst sl. Það var dálítið sérstakt og skrítið að hún skildi skilja við þennan heim á þessum degi og það þegar tæp þrjár og hálf stund voru liðnar frá því að hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu voru ræstir. En það að er önnur saga sem ég hef bloggað smávegis um áður.

Veruleikinn er eins og hann er. Honum verður ekki breytt. Það sem gerist, gerist. Við getum valið hvernig við tökum því sem að höndum ber. Drúpa höfði eða reisa það upp. Ég hef valið að horfa fram á veginn. Ég á mínar minningar sem munu fylgja mér til enda en ég á líka líf framundan. Líf sem ég get reynt eftir bestu getu að hafa áhrif á hvernig kemur til með að þróast. Hlaupin sem hafa gefið mér svo margt hafa haldið áfram að gefa. Við lok þessa erfiða árs er lífið allt í einu fullt af tilhlökkunarefnum aftur. Ástin hefur kviknað á ný.

Gleðilegt nýtt ár!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 147
  • Frá upphafi: 70201

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 118
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband