20.9.2014 | 12:52
Vonin
Dauðinn var aldrei ræddur. Það var hennar leið. Leiðin til að lifa af. Halda í vonina, horfa á möguleikana. Vonin er óendanlega sterk. Hún tapaði henni aldrei. Ekki heldur eftir að læknirinn heimsótti okkur inn á stofu einn daginn og sagði að nú væri ekkert eftir annað en líknandi meðferð. Líkaminn væri of máttfarinn til að þola meiri lyfjagjöf og meinið var ekki að gefa sig. Þó væri það ekki útilokað að ef hún myndi braggast aðeins þá væri kannski hægt að reyna meira. Lyf sem hefðu miklar aukaverkanir í för með sér og óvíst um árangur. En kæmist hún á þann stað þá væri kannski hægt að taka nýja ákvörðun. Eftir að læknirinn fór var lítið sagt. Að lokum þó: það hefur ekkert breyst, það er ennþá von. Þegar ég kom morguninn eftir spurði hún hvernig ég hefði það. Ég endurtók það sem sagt hafði verið kvöldið áður: það hefur ekkert breyst, það er ennþá von. Þetta var ekki rætt aftur. Nú var horft til framtíðar. Gera þær æfingar sem hægt var. Sjúkraþjálfari kom og sýndi hvernig hægt væri að gera styrktaræfingar við þessar aðstæður. Það gekk þokkalega í nokkra daga. Á föstudegi var sagt að þjálfarinn væri lasinn. Hann var samt býsna hress að sjá þegar ég mætti honum á ganginum síðar um daginn við einn sjálfsalann. En það var allt í lagi. Hann tók þátt í því að halda voninni lifandi. Voninni sem viðheldur viljanum til að lifa - og gerir lífið bærilegra við þessar aðstæður. Dæmisögurnar eru ótalmargar þar sem líkurnar hafa verið mótdrægnar en lokaniðurstaðan jákvæð. Þessar dæmisögur sanna að vonin á alltaf rétt á sér. Sama hvað. Með nútíma læknismeðferð er hægt að halda þessu hugarástandi allt til loka. Þegar nær dregur blandast hinar sjálfráðu hugsanir við þær ósjálfráðu eins og heitt og kalt vatn allt þar til þær verða ylvolgar og að lokum slokknar á uppsprettunni. Án kvíða, án eftirsjár, án sársauka, án vitundar.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 70678
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er lítið eftir þegar vonin deyr. Falleg skrif. Megi vonin fleyta þér áfram í lífinu.
Bryndís Arnars (IP-tala skráð) 20.9.2014 kl. 16:31
Elsku Gunni. Ég dáist að þér að geta sett þetta á blað. Mágur minn fór fyrir hálfu ári. Aðstandendur vissu að hverju stefndi en hann var grjótharður í því að hann væri ekki að fara, alveg fram á síðasta dag. Hann hafði heldur ekkert á líknardeild að gera þegar hann fór þangað, hún var bara fyrir veikt fólk. Engum datt til hugar að taka vonina frá honum. Þegar allt er skoðað í hinni stóru mynd, sem og smáu, þá gerir vonin hið erfiða bærilegra. Ef vonin er ekki til staðar, þá er ekkert eftir. Gangi þér vel, elsku vinur.
Ásta Grímsdóttir (IP-tala skráð) 20.9.2014 kl. 17:03
Takk fyrir þessa sögu. Hún vekur til umhugsunar um margt. Er alltaf gott að reyna að halda í eitthvað? Er vonin alltaf góð? Þetta eru tvíeggjuð sverð.
Ég skal ekki tala fyrrir aðra, en fyrir mér er vonin stundum kvöl. Stundum er betra að lifa í núinu og sleppa því sem ekki verður haldið.
Hörður Þórðarson, 20.9.2014 kl. 23:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.