13.6.2014 | 12:31
Minning um Pino
Stundum á lífsleiðinni hittir maður fólk sem hefur meiri áhrif á mann en aðrir. Yfirleitt fer það saman að maður ber virðingu fyrir viðkomandi og telur sig geta lært af henni eða honum og reynir jafnvel að tileinka sér það sem manneskjan hefur fram að færa.
Í mínu tilfelli var Pino Becerra ein af þessum manneskjum.
Pino lést af slysförum í Fljótshlíðinni um helgina 7. 10. júní 2014.
Ég þekkti Pino aðeins í rétt um mánuð. Engu að síður dugði það henni til að hafa slík áhrif á mig að mér finnst kær vinur hafa horfið á braut.
Pino var ráðin sem þjálfari hjá hlaupahópi Stjörnunnar í maí sl. Þegar hún mætti á sína fyrstu æfingu hafði ég ákveðið að sleppa því að hlaupa úti en taka í staðinn létta lyftingaæfingu í Ásgarði. Ég ákvað samt að mæta til að hlusta á kynningu á nýja þjálfaranum og sjá hvernig mér litist á hana. Ég var því mættur í anddyri Ásgarðs í stuttbuxum og hlýrabol enda skipti smá vorrigning og léttur vindur mig ekki máli í lyftingasalnum. Eftir stutta kynningu á Pino vildi hún fá hópinn út og segja betur frá sínum áherslum í æfingum um leið og hún léti hópinn taka nokkrar teygjuæfingar. Þar sem það var ágætlega hlýtt úti ákvað ég að fara með á mínum hlýrabol og teygja mig smá með hópnum á meðan ég reyndi betur að átta mig á nýja þjálfaranum. Það er skemmst frá því að segja að Pino lét hópinn teygja og gera styrktaræfingar í næstum því einn og hálfan klukkutíma. Engin hlaupaæfing. Enda voru margir skrýtnir á svipinn í lok æfingar. Eftir æfinguna heyrðist líka hvíslað þannig að Pino heyrði ekki: eigum við ekki að hlaupa létta 5 km? Sumir fóru og fóru leynt með!
Pino hélt þessum æfingum áfram. Góðar upphitunaræfingar, styrktaræfingar, öndunaræfingar og teygjur. Lítil sem engin hlaup nema þá alls konar útfærslur af stuttum sprettum. Þeir sprettir voru æði oft býsna skrautlegir enda áhersla lögð á ósamræmi í handahreyfingum og fótaburði. En með því var hún að kenna okkar réttan hlaupastíl og styrkja okkur um leið. Hún útskýrði þetta vel fyrir hópnum. Hún ætlaði að stykja hópinn í maí og hefja síðan hefðbundnari hlaupaæfingar í júní. Við vissum að hún hafði bakgrunn frá Spáni sem þríþrautarþjálfari. Það var líka augljóst á öllu hennar fasi og hvernig hún byggði æfingarnar upp að hún vissi hvað hún var að tala um. En það var samt skrýtið að hafa hlaupaþjálfara sem var sífellt að segja: No running! En að sama skapi var samt líka gaman að heyra hana segja smile! og enjoy the stretch!, þegar fólk var við það að gefast upp með viðeigandi andlitsgrettum - og sjá þá fallega brosið hennar og kímnina í augunum.
Pino vildi ekki setja æfingaplanið sitt á netið. Hún sendi það í tölvupósti til fulltrúa hópsins. Ástæðan var sú að hún sagðist ekki geta tekið ábyrgð á æfingum fólks nema geta séð þá sem væru að æfa eftir hennar plani. Hún bæri ábyrgð á því að hver og einn æfði eftir sinni eigin getu. Ekki eftir plani sem tekið væri af netinu og engar leiðbeiningar fylgdu. Hún vildi líka geta aðlagað æfingarnar að getu hvers og eins eða smærri hópa sem væru á svipuðu getustigi. Hún var fagmanneskja fram í fingurgóma.
Æfingarnar hjá Pino voru skemmtilegar. Hún var skemmtileg. Hún var glettin og kunni að gera grín að tilburðum nemenda sinna án þess að gera lítið úr nokkrum. Henni tókst afar vel með leikrænum tilburðum að sýna okkur hvernig við gerðum æfingarnar vitlaust. Það var oft afar spaugilegt og efni í heilu skemmtiatriðin á árshátíðum hlaupahópa. Fyrir okkur Stjörnufólk sem urðum þeirra forréttinda aðnjótandi að sjá hvernig við litum út í augum þjálfarans okkar - hennar Pino - höfum við yndislegar minningar.
Pino bauðst til að setja upp sérstök æfingaplön fyrir þá sem þess óskuðu. Þá vildi hún fá nánari upplýsingar um fyrri afrek og framtíðarplön. Við vorum að minnsta kosti tveir úr hópnum sem það gerðum. Eftir að hafa hlustað á okkur í nokkra stund horfði hún á okkur með sínum einlægu augum og sagði mjög hægt og með mikilli áherslu (í lauslegri þýðingu): þið eruð bilaðir. Því næst spurði hún okkur hvort við hefðum ekki áhuga á að gera hlaup að lífsstíl? Þegar við játuðum því spurði hún okkur næst hvort við ætluðum ekkert að verða sérlega gamlir í þessum bransa? Það varð fátt um svör. Hennar sjónarmið voru þau að ef við vildum geta hlaupið fram á efri ár þá ættum við að hlaupa minna og æfa aðrar greinar með. Svo sem hjól, sund, cross fit eða hvað annað sem áhugi stæði til.
Á þessum upphafsfundi spurði hún mig hvort ég myndi ekki vilja prófa að æfa fyrir þríþraut. Því var fljótsvarað: ég er hlaupari, kann ekki að synda og leiðist að hjóla. Tveimur vikum seinna var ég byrjaður á sund- og hjólaæfingum. Búinn að kaupa mér nýja flotta Speedo sundskýlu sem lítur út eins hnésíðar hlaupabuxur og farinn að skoða alvöru hjól í hjólabúðum.
Eftir upphafsfundinn sendi ég Pino mína skýrslu um fyrri hlaupasögu. Skýrði út hvers vegna ég fór að hlaupa og einnig hvers vegna ég væri að hlaupa svona mikið. Ég sagði henni einnig frá mínum fyrri veikindum og veikindum eiginkonunnar. Næst þegar ég hitti Pino sagðist hún skilja mig betur. En að það væri skynsamlegra af mér að auka fjölbreytileikann í æfingum. Þannig myndi ég endast lengur. - Eins og hún sagði það, trúði ég því.
Eftir þennan fund kom hún alltaf til mín og spurði frétta. Af einlægni. Hún ráðlagði mér. Ég fór eftir því og fann að það skipti máli. Hlýleiki hennar og einlægur áhugi á vellíðan annarra snart mig.
Pino skilur eftir sig djúp spor hjá mér og ég veit að hún gerir það einnig hjá öðrum Stjörnuhlaupurum sem æfðu undir hennar leiðsögn.
Aðstandendum Pino votta ég mína dýpstu samúð.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 70678
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég hef ekki komið þarna upp, en grunar að gjlúfrið sé hulið gróðri og þurfi að merkja með aððvörun. Gljúfrið er þröngt þarna uppi og heyrt hef ég að gangnamenn hafi gert sér það að leik að stökkva yfir, þar til maður féll niður.
Jón Benediktsson (IP-tala skráð) 14.6.2014 kl. 02:12
Sérstök kona, sem hlaut sérstök örlög.
Sigurbjörn Sveinsson, 15.6.2014 kl. 21:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.