17.4.2014 | 13:13
London maraþon, markmið og vinir.
Formálinn. Í þessum pistli ætla ég að blogga um London maraþonið og mikilvægi markmiða og vina. Eins og ég hef oft sagt áður þá er það að geta hlaupið maraþon einstök upplifun. Væntanlega upplifir hver og einn sína eigin útgáfu og sjálfsagt fellur fólki misvel við þá lífsreynslu sem maraþonhlaup er. En að mínu mati er hvert maraþonhlaup ævintýri út af fyrir sig og hvert og eitt þeirra á sér sitt eigið upphaf, miðju og endi. Maraþoni sem tekst að ljúka er maraþon með góðum endi, er lífsreynsla með góðum endi, er ævintýri sem endar vel.
Undirbúningurinn. Hann gekk ágætlega. Ég hóf formlegar maraþonæfingar í byrjun janúar og setti upp 13 vikna prógram þar sem ég blandaði saman æfingum úr ýmsum áttum sem mér finnst skemmtilegar. Fjölmargar þeirra eru úr smiðju Þorláks Jónssonar sem ég hef notað með góðum árangri áður. Til viðbótar bætti ég við nokkrum nýjum æfingum og útfærslum og endaði með æfingaplan sem ég reikna með að nota aftur. Þar sem ég hafði lokið við maraþon í nóvember sl. og haldið mér við í desember var ég í ágætu standi þegar ég byrjaði í prógraminu. Ég hef alla tíð viljað hlaupa frekar mikið þannig að ég var kominn með yfir 100 km í annarri vikunni. Ég hélt mig í því magni næstu þrjár vikurnar en í vikunni þar á eftir lenti ég í basli með hjartað þannig að ég gat ekki tekið langa æfingu þá helgina. Það var líka kannski bara ágætt því ég notaði þá viku sem snemmbúna hvíldarviku. Næstu vikurnar þar á eftir jók ég magnið jafnt og þétt og endaði með að taka 150 km 6 vikum fyrir maraþonið. Eftir þá viku sló ég nokkuð af og tók síðan aftur stóra viku fjórum vikum fyrir hlaupið. Eftir það minnkaði ég magnið jafnt og þétt og síðustu tvær vikurnar voru tiltölulega léttar. Þegar upp var staðið fékk ég ágætan frið til að æfa og lenti ekki oft í að þurfa að breyta æfingum eða sleppa þeim. Ég taldi mig vera kominn í stand til að reyna við tíma sem væri undir 3 klukkustundum. Allar lykilæfingar síðustu vikurnar bentu til þess að þriggja tíma markið væri vel raunhæft og ef ekkert sérstakt kæmi upp á þá átti jafnvel að vera hægt að taka einhverjar mínútur til viðbótar. Ég taldi mig mögulega vera kominn í jafn gott form og ég var í árið 2011 þegar ég náði mínum besta tíma í maraþoni. Að minnsta kosti var ég í töluvert betra formi en ég var í sl. haust þegar mér tókst að hlaupa mjög gott maraþon í Nice í miklum mótvindi alla leiðina. Þá endaði ég á 3:10 eitthvað og taldi það vera mitt næst besta maraþon frá upphafi þótt tíminn væri það ekki. En sem sagt, ég var tilbúinn.
Aðdragandinn. Það var virkilega gaman að fylgjast með umfjöllun um hlaupið í aðdraganda þess. Margir af bestu maraþonhlaupurum samtímans voru skráðir til leiks og til viðbótar margfaldur heims- og ólympíumeistari í 5 og 10 km hlaupum, Bretinn Mo Farah, sem var að þreyta frumraun sína í vegalengdinni. Þar til viðbótar má auðvitað ekki gleyma því að við vorum fimm félagar úr hlaupahópi Stjörnunnar sem vorum skráðir til leiks, Bjössi, Raggi, Pálmar, Unnar og Gunnar. Einvalalið! Við höfðum í það minnst fram yfir Mo að hafa hlaupið vegalengdina áður í keppni! Enda kom það á daginn að þeir reyndu í elítu hópnum bjuggu að þeirri reynslu og höfðu á orði fyrir hlaupið að það væri öðruvísi að hlaupa maraþon en öll önnur hlaup. Þeir skyldu sýna nýgræðingnum Mo að maraþon væri sinnar eigin tegundar. Þeir stóðu sannarlega við stóru orðin því Mo átti aldrei möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna. Það áttum við félagarnir úr Stjörnunni reyndar ekki heldur enda lá það alltaf fyrir að við vorum allir í okkar eigin keppni, hver með sitt eigið markmið og keppni við sjálfan sig.
Markmiðin. Eftir að ég varð að taka mér tímabundið hlé frá hlaupum á árinu 2012 hef ég haft á orði að fyrsta markmiðið í maraþonhlaupum, og reyndar öðrum hlaupum, sé að geta byrjað. Það er ekki sjálfgefið. Næsta markmið er að geta klárað. Það er ekki heldur sjálfgefið. Allra síst í maraþonhlaupum og öðrum enn lengri hlaupum. En þó að segja megi að þetta séu markmið númer 1 og 2 eða A og B þá eru þetta þó ekki þau markmið sem sett eru fyrir hlaupið sjálft. Þetta eru einfaldlega sjálfgefin markmið sem eru hreint ekkert sjálfgefin. Í því samhengi má bæta því við að nú hef ég klárað 10 maraþon en ég hef verið skráður í 14. Í einu þessara fjögurra hlaupa sem ég hef ekki klárað er eitt þar sem ég byrjaði og varð að hætta en þrjú þar sem ég byrjaði aldrei. Sem sagt það er alls ekki öruggt að maður byrji hlaup þótt æfingaprógram hafi verið klárað, skráningargjöld greidd, flugfar keypt og hótel bókað. Það er hins vegar önnur saga að það er einnig mjög gaman að vera á hliðarlínu maraþonhlaups og fylgjast með og hvetja vini sína áfram við að reyna að ná sínum markmiðum og upplifa sín ævintýri. Taka þátt í gleðinni að afloknu hlaupi og hlusta á frásagnir úr því. Upplifa ævintýrið með vinum sínum.
Dagurinn. Bjartur og fagur. Hitastig um 10 - 11 gráður og því spáð að hitinn færi í 16-17 gráður. Smá vindur en ekki of mikill. Kjöraðstæður. Við tókum leigubíl frá hótelinu og á lestarstöðina þaðan sem lest fór beint á keppnisstað. Þegar þangað var komið tók við rölt upp stutta brekku og inná grænt stórt svæði. Allt vel merkt og augljóst hvert átti að fara. Þegar við komum inná afmarkaða svæðið fyrir hlaupara sáum við að það var löng röðin í pissuskálarnar. Við þangað því tíminn var nægur. Að þeirri heimsókn lokinni tók við smurning og fækkun fata þar til við stóðum í keppnisfötunum einum. Pokunum með fötum til að fara í eftir hlaupið og öðrum nauðsynjum var komið til skila í bílana sem ferjuðu dótið í endamarkið. Þá var bara eitt að gera. Aftur í pissuröðina.
Ráslínan. Spenna. Eftirvænting. Skoða skófatnað annarra hlaupara. Skoða aðra hlaupara. Slaka á. Upplifa stemninguna. Líta á klukkuna. Draga andann. Hlusta á kynningu á þekktustu maraþonhlaupurunum. Fagnaðarlæti. Hlusta á kynningu á Mo Farah. Brjáluð fagnaðarlæti. Þarna stóð ég og var eftir örfá augnablik að fara að keppa með þessum hetjum brautarinnar. Í sama hlaupi. Á sama tíma. Nefnið mér aðra íþróttagrein þar sem almúgamanninnum er þetta mögulegt?
Startið. Skotið reið af. Sagan byrjuð. Rólegt upphaf, intro. Eftir um 20 sekúndur fórum við yfir rauða dregilinn sem markaði byrjun 42,2 km ferðalags. Til að byrja með er þvagan mikil. Svo mikil að nánast öll orka og einbeiting fer í að stíga ekki á hælana á næsta manni eða láta ekki aðra stíga á sig eða bregða fyrir mann fæti. Mér til skelfingar tókst mér á þessum kafla að stíga þannig aftan á einn hælinn að eigandinn missti jafnvægið og var á leiðinni niður þegar mér tókst að grípa í handlegginn á honum og kippa honum til baka án þess að hann tapaði taktinum að ráði. Sem betur fer. Hitt hefði verið leiðinlegt. Að skemma fyrir öðrum upphafið. En það varð ekki.
Hlaupið. Fyrstu fimm kílómetrarnir liðu áfram tíðindalítið. Hraðinn var um það bil réttur. Meðaltími ca 4:15 mín pr. km. Þvagan vissulega mikil og mér fannst ég fara full hægt yfir. En ég hugsaði með mér að það væri í góðu lagi og í raun skynsamlegt. Ég ætti það þá bara inni síðar í hlaupinu. En eftir þessa fimm km fór ég að hugsa um að sennilega væri rétt að fara aðeins að bæta við og komast fram fyrir hópinn sem fylgdi 3 tíma blöðrukallinum. Ég hafði þó varla sleppt hugsuninni þegar ég fór skyndilega að finna fyrir þreytuverkjum í framanverðum lærunum. Þetta var alls ekki eins og það átti að vera. Hugsunin um að bæta við hraðann hvarf eins og dögg fyrir sólu. Næstu fimm kílómetrana hægði ég aðeins á og sá 3ja tíma blöðrukallinn fjarlægjast smátt og smátt. Nú var þetta allt í einu orðið erfitt. Allt of erfitt. Næstu fimm km versnaði þetta bara og ég fann hvernig mátturinn minnkaði og minnkaði. Bara komnir 15 km og ég var í stökustu vandræðum. Á næstu 5 km versnaði þetta enn meira. Ég fór að efast um að ég gæti klárað. Mögulega yrði ég að gefast upp. Þetta hætti að vera gaman. Á þessum tíma var þetta bara erfitt. Vondar hugsanir læddust að mér og ég sá fyrir mér vonbrigðin með að geta ekki klárað. Eins og dagurinn hafði byrjað vel. Það var eins og mig vantaði súrefni í lærin. Ég vissi að þetta var ekki eðlilegt þar sem ég var búinn að hlaupa á þessum hraða og oft hraðar á óteljandi æfingum. Þetta átti bara ekki að gerast. En þetta gerðist samt. Og ég hafði upplifað þetta áður. Á æfingu sem gekk ekki upp. En á æfingu þar sem mér tókst að komast í gegnum erfiðleikana. Með því að hægja ennþá meira á mér. Á æfingu þar sem ég byrjaði aftur. Hægar. Og komst af stað aftur. Og kláraði vel.
Hitt hlaupið. Hálf maraþon á 1.32 eitthvað. Ekki alslæmt. Rúmum þremur mínútum frá því sem ég hafði vonast eftir. En bíddu við! Ég var allt í einu farinn að fara fram úr öðrum hlaupurum! Þetta var eitthvað nýtt frá því sem hafði verið síðustu 15 km. Ég var farinn að finna miklu minna fyrir lærunum. Eiginlega bara mjög lítið. Og ég hljóp hraðar. Og mér leið vel. Og mér fannst gaman! Og ég sá umhverfið! Vá! Ég hljóp eins og vindurinn. Ég þekkti aftur bakhlutann á mörgum sem ég hafði séð hverfa í algleymið á undan mér fáum mínútum áður. Ég var villtur! Ég fór að hugsa. Hvaða tíma skyldi ég geta náð? Ég vissi að ég var búinn að missa frá mér A markmiðið sem var að fara undir 3 tímana. B markmiðið var að komast undir 3:05. Á þessum tíma sá ég að til að ná því markmiði þá þyrfti ég að geta hlaupið seinni hluta hlaupsins á nánast sama tíma og fyrri hlutann. Miðað við vandræðin sem ég hafði lent í þar og þá orku sem ég hafði eytt til að komast í gegnum þau vissi ég að það væri ekki raunhæft. C markmiðið var hins vegar að komast undir 3:10. Ég sá að ef ég myndi geta haldið sæmilega á spilunum þá væri það raunhæft! Ég fór því að einblína á að hlaupa þannig að sú orka sem ég átt eftir myndi endast mér út hlaupið og koma mér undir 3:10. Þarna var ég kominn með alvöru markmið og raunhæft markmið. Ég einbeitti mér að því að hlaupa á jöfnum hraða og reyna að halda þeim hraða sem mér liði sæmilega vel á án þess að ég væri að streða við það. Á hverjum 5 km reiknaði ég út þann meðalhraða sem ég þyrfti að halda til að ná mínu nýja markmiði. Það gekk vel og var ég á nokkuð jöfnum hraða frá km 25 og í mark. Ég hægði reyndar aðeins á mér á milli 35 og 40 km en þó ekki meira en það að á km 35 til endamarks fór ég fram úr 297 keppendum en aðeins 8 fóru fram úr mér skv. heimasíðu hlaupsins. Það er árangur sem ég er mjög ánægður með og þegar upp var staðið endaði ég á 3:06:38 sem er langt undir C markmiðinu mínu, nálægt B markmiðinu og er þriðji besti tíminn minn í maraþoni þegar upp er staðið.
Lærdómur. Maraþon er maraþon. Það er ekki búið fyrr en það er búið. Það getur svo margt gerst. Það gerist svo margt. Hvert maraþon er sérstakt. Hvert maraþon er einstakt. Maraþon er eins og lífið sjálft. Óteljandi útgáfur. Óteljandi sögur. Hver og einn upplifir sitt eigið maraþon. Vinir fara saman af stað. Hver þeirra upplifir sitt eigið maraþon. Sama maraþon, sama leið en samt einstök ferð fyrir hvern og einn. Hver með sitt markmið. Hver með sínar forsendur. Hver með sínar væntingar. Að fylgja vini í gegnum maraþon er einstakt. Taka þátt í gleðinni. Hlusta á frásögnina. Upplifa maraþon vinar.
Gleðilega páska.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 70678
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Manni langar nú bara í maraþon við lesturinn. Það er svo ótrúlega skemmtilegt ferðalag. Sérstaklega gaman að fá fiðringinn þegar ég startlínukaflann. Til hamingju með þetta allt Gunnar.
Alma (IP-tala skráð) 17.4.2014 kl. 18:33
Held ég hætti bara að hlaupa maraþon og njóti þess bara að lesa frásagnirnar þínar :)
Ingólfur Örn Arnarsson (IP-tala skráð) 17.4.2014 kl. 19:40
Bestu þakkir fyrir afar ánægjulegan pistil!
Halla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 17.4.2014 kl. 21:38
Sæll félagi, takk fyrir flottan pistil og samveruna í London.
Friðleifur Friðleifss (IP-tala skráð) 18.4.2014 kl. 07:55
Alltaf gaman að lesa hlaupasögurnar þínar. Gott að ná sér aftur á strik eftir erfiðan fyrri hluta.
Örvar Steingrímsson (IP-tala skráð) 22.4.2014 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.