31.12.2013 | 15:39
Áramótahlaupaannáll
Í lok síðasta árs spáði ég því að hlaupaárið 2013 yrði gott hlaupaár. Þegar ég lít til baka get ég ekki annað en sagt að það hafi staðist ágætlega. Ég hef náð að æfa nokkuð reglulega og tók þátt í og kláraði 3 maraþon og hljóp að auki í fjórum 10 km hlaupum (fimm með hlaupinu í dag) sem voru öll til að styrkja eitthvert gott málefni (lít á Stjörnuhlaupið sem gott málefni þar sem þar er verið að koma af stað nýju almenningshlaupi í Heiðmörkinni í frábærri braut á malarstígum (þetta er auglýsing!)).
Á árinu tók ég fyrst þátt í Kaupmannahafnarmaraþoninu í maí sem ég lauk á tímanum 3:23:12. Í ágúst tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og lauk því á tímanum 3:21:53. Þann 10 nóv. lauk ég NiceCannes hlaupinu á 3:10:33. Um öll þessi hlaup hef ég bloggað áður á þessum vettvangi þannig að ég ætla ekki að rifja það upp sérstaklega hér við áramót. Þó vil ég gjarnan halda því til haga að sennilega er Nice-Cannes maraþonið mitt næst besta maraþonhlaup þótt ég eigi 4 tíma á milli míns besta tíma og tímans í Nice. Ástæðan er sú að við hlupum í mótvindi alla leiðina frá Nice og til Cannes og jókst vindstyrkurinn eftir því sem á leið sem er frekar óhagstætt í maraþoni svo ekki sé meira sagt. En sem sagt, ár þar sem tekst að ljúka maraþoni í mótvindi með góðum árangri hlýtur að teljast gott ár.
Æfingar ársins hafa gengið upp og ofan. Eins og áður hefur komið fram er ég með hjartsláttaróreglu sem hefur áhrif og pirrar mig heilmikið. En auðvitað á ég að vera þakklátur fyrir það eitt að geta hlaupið sem var alls ekkert sjálfgefið á síðasta ári. Þannig að það að vera í stöðu til að geta verið pirraður yfir trufluninni er eiginlega alveg frábært! Mér telst til að ég sé búinn að detta úr takti mun oftar en ég kæri mig um. Mest fyrri hluta ársins og síðan aftur nú í lok árs. Það jákvæða, eins öfugsnúið og það hljómar, er að ef ég tek bara eina pillu í viðbót þá hrekk ég oftast í gírinn á nokkrum klukkutímum. Það hefur bara gerst tvisvar á árinu að ég hafi þurft aukastuð. Það er ekki svo slæmt í sjálfu sér. Í sumar var ég settur á biðlista til að komast í svo kallaða brennslu. Takist hún vel má vera að óreglan hverfi eða amk minnki mikið. En eins og málum er háttað í okkar laskaða heilbrigðiskerfi veit ég auðvitað ekkert um það hvenær af þessu gæti mögulega orðið. Það er bagalegt því eins og hlauparar þekkja þarf að skrá sig með löngum fyrirvara í sum maraþon og því hálf fúlt að vera búinn að leggja í töluverðan kostnað þegar kallið kemur og geta ekki tekið þátt. En það er nú eins og það er.
Frá því að ég fór að hlaupa árið 2008 hef ég haldið saman þeim kílómetrum sem ég hef hlaupið á ári hverju. Í ár urðu þeir 3.125. Það þýðir að á þessum sex árum eru kílómetrarnir orðnir 19.054. Það er vegalengd sem myndi skila manni til Rio de Janeiro og til baka eða til smáeyju suð-austur af Hobart í Tasmaníu.
Markmiðið árið 2014 er að halda áfram að hlaupa og vonandi taka þátt í fleiri maraþonum. Með þessum þremur í ár eru þau orðin 9 talsins. Ef allt fer að óskum verður London maraþonið þann 13. apríl nk. mitt 10 maraþon.
Hlaupið í ár var að venju mjög skemmtilegt. Aðstæður voru mjög góðar og nánast engin hálka í brautinni. Smá vindur á útleið og sami vindur heim. Bæting um rúmar 5 mínútur frá hlaupinu í fyrra sem er ljómandi gott. Með sama áframhaldi mega fremstu menn fara að vara sig eftir 3 ár.
Gleðilegt nýtt ár!
gá
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég les þessi hlaupablog þín að jafnaði upp til agna og hef mjög gaman af. En auðvitað eru þessir tímar sem þú ert að rapportera alveg út úr korti fyrir okkur sem erum að reyna að rembast við þjálfa okkur upp í fyrsta maraþonið. Ég væri sáttur við 3:10 ef ég væri á góðu reiðhjóli en tel algerlega útilokað að ég nái því nokkurn tímann hlaupandi.
Gleðilegt nýtt hlaupaár,
Seiken.
Benedikt Helgason, 31.12.2013 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.