18.11.2013 | 08:18
Maraþon í mótvindi
Þessi pistill er um tvenns konar maraþon. Annars vegar óeiginlegt maraþon og hins vegar eiginlegt maraþon. Þeir sem hafa áhuga á að lesa hugleiðingar mínar um annað hvort en ekki hitt geta valið. Þeir sem hafa áhuga á hvorugu hafa verið varaðir við.
Óeiginlegt maraþon.
Hvað er mótlæti? Eitthvað sem er manni ekki að skapi? Maraþon í mótvindi? Alvarleg veikindi? Tilfinning? Staðreynd? Hugarástand?
Ég veit það ekki. En ég hef hugsað mikið um það. Kemst alltaf að því að mótlæti er sennilega ekki annað en mismunandi tilbrigði lífsins. Það lifa því allir. Hver á sinn hátt og hver með sinni upplifun. Sjálfsagt misjafnt hvað hver upplifir sem mótlæti.
Ég hef valið hlaupin sem mitt jafnvægisstillingartæki. Þau eru mín leið til að hugleiða. Til að halda mér í þokkalegu formi og stuðla að betri alhliða líðan. Koma mér af stað aftur þegar hægja hefur þurft á. Stöðutékk þegar allt á að vera í jafnvægi.
Trúlofunardagur okkar hjóna í ár, 21. júni, reyndist vera einn af þeim dögum þar sem reyndi verulega á upplifun lífsins. Við fengum þær óvæntu fréttir í læknisheimsókn, sem við héldum að væri vegna einhvers smávægilegs kvilla, að eiginkonan væri með krabbamein í leghálsi sem þarfnaðist meðhöndlunar strax. Góðu fréttirnar voru þær að það voru meiri líkur en minni á að unnt væri að lækna meinið. Það væri gert með nokkuð ákveðinni geisla- og lyfjameðferð sem tæki sex vikur. Við lærðum það síðar að geislarnir unnu sitt starf í um 4 til 6 vikur til viðbótar eftir að meðferð lauk.
Eins og stundum áður var mín leið til að takast á við verkefnið að fara að hlaupa. Ég fór að æfa markvisst fyrir maraþon. Bara eitthvert maraþon. Um mitt sumar breytti hjartalæknirinn samsetningu lyfjanna minna og ég hélst betur í takti en áður. Æfingarnar gengu betur og betur og ég tók framförum. Á sama tíma gekk meðferð eiginkonunnar vel þótt brautin hennar væri ekki alltaf bein og greið. Hennar leið var mun erfiðari en mín. En hún sýndi það að maraþon liggja vel fyrir henni.
Í byrjun september lauk meðferð eiginkonunnar. Við tók bið í nokkrar vikur. Þrekið hennar fór að koma til baka. Smátt og smátt. Eitt skref í einu. Ein æfing í einu. Allt í einu eru æfingarnar orðnar nokkrar og loks margar. Áður en varir er hægt að fara að hlaupa. Hlaupa og hlaupa. Hraðar og hraðar. Lengra og lengra.
Æfingarnar hjá mér héldu áfram að ganga vel og þegar fór að líða á október kom að því að taka ákvörðun um hvaða maraþon skyldi reyna við. Fyrst átti það að vera haustþonið hér heima en þá kom upp conflict við óveiddan jólamat sem gerði að verkum að Amsterdam komst efst á listann. Á þessum tíma hafði vinur minn og hlaupafélagi, Unnar, ákveðið að sniðugt væri að hlaupa frá Nice til Cannes þann 10. nóv. því þá væri veðrið amk ekki að spilla fyrir mögulegum árangri. Hann hafði þá þegar skráð sig þannig að það var freistandi að fylgja honum. Við hjónin höfðum hins vegar ekki viljað festa neinar dagsetningar þar sem okkur fannst framtíðin full óljós.
En eina helgina um miðjan október ákváðum við að það væri góð hugmynd að fara til Nice. Þá myndum við vera búin að fá vitneskjum um niðurstöðu meðferðarinnar. Hver sem sú niðurstaða yrði þá væri gott að skipta um umhverfi og hugleiða næstu skref á strönd við Miðjarðarhafið.
Ég skráði mig í maraþonið og við pöntuðum flug og hótel. Í hópinn slógust vinahjón okkar Björn Rúnar og Rósa.
Þriðjudaginn 5. nóvember fengum við hjón þær fréttir að meðferðin hefði skilað góðum árangri.
Eiginlegt maraþon.
Hlaupadagurinn 10. nóvember rann upp bjartur og fagur. Hefðbundinn undirbúningur gekk vel og ég hitti hlaupafélagana Unnar og Björn á tilsettum tíma og stað. Við gengum frá fatapokunum okkar og vorum komnir á keppnisstað á góðum tíma. Magga og Rósa tóku myndir og áhugasamir fengu teknar myndir af sér með okkur félögunum (!).
Við komum okkur fyrir í okkar hólfum. Tilkynnt var í hátalara að búast mætti við mótvindi. Sérstaklega síðari hlutann. Við brostum í kampinn. Við vorum vel þjálfaðir. Tækjum því sem að okkur væri rétt! (Trúðum því samt ekki alveg að Miðjarðarhafsbúar gætu slegið eyjabúa frá Íslandi út af laginu með smá blæstri).
Eftir 5 km var strax ákveðið að hætta að horfa á þriggja tíma markið. Reyna þó að halda vel við og gefa sem minnst eftir. Eftir um 12 km kom loksins hlé frá mótvindinum þegar tekin var smá lykkja inn í lítinn bæjarkjarna. Þegar út úr þeirri lykkju var komið, eftir rúma 14 km, var tekin 180 gráðu beygja og í ca einn km fengum við vindinn í bakið. Það var ljúf stund. En eftir það var leiðin alltaf upp í vindinn. Leiðin er þannig að manni gefst gott ráðrúm til að virða stórkostlegt umhverfið fyrir sér. Eftir um 23 km kemur fyrsta hækkunin í brautinni en þá kemur frekar brött en stutt brekka uppá nokkuð sem má líkja við virkisvegg. Þar er hlaupið meðfram gömlum húsbyggingum á hægri hönd og sjóinn gutlandi við virkisvegginn á þá vinstri. Skemmtilegur staður og góð stemning. Eftir um 28 29 km kemur sú brekka sem vitað var að gæti orðið erfið. Það var síst vanmat því hún var lengri en gert hafði verið ráð fyrir. Sennilega um 1 til 1,5 km og býsna brött. Til að kóróna skepnuna þá stóð vindstrengurinn niður og á móti keppendum. Loks þegar á toppinn var komið tók þó við brekka niður en eins og venjulega virkaði hún minni en sú sem snéri öfugt og að auki var vindstrengurinn að sjálfsögðu ennþá á móti. Það sem þó var hvetjandi á þessum tíma var að við enda brekkunnar vorum við komin á nýja strönd. Hún lá meira í vestur heldur en fyrri hluti brautarinnar og því stóðu vonir til þess að mögulega yrði vindurinn öðru vísi svona meira á hlið. Vissulega reyndist vindurinn öðru vísi bara ekki eins og flestir áttu von á. Einhvern veginn virtist vindurinn hafa ákveðið að fara inn vestast á ströndina og fylgja þar tanga sem skagaði út og skella sér síðan meðfram honum í austurátt beint í fangið á keppendum. Þetta tiltæki hlaut frekar dræmar undirtektir þeirra enda þegar Bjössi kom inn á þessa nýju strönd heyrði hann samferðamann sinn á þeim tíma stynja upp stundarhátt með grátstafina í kverkunum: You got to be kidding me! Á þessum stað gaf ég upp hugmyndina um að reyna að hanga á 3:05 og setti stefnuna á sub 3:10. Þarna var ég við 30 km markið á 2:12:41 og því átti sub 3:10 að vera vel raunhæft.
Fyrir brekkuna hafði ég verið að hlaupa síðustu km á um 4:23 tempói en datt niður í 4:40 4:50 þegar ég kom inn í þessa síðustu strönd og þurfti að hafa helling fyrir því. En þrátt fyrir að þurfa að hægja þetta mikíð á mér sá ég fljótt að ég hélt samt sæmilegu tempói miðað við marga því ég fór fram úr mun fleirum en fóru fram úr mér. Þegar kom að ca. 37 km markinu kom þriðja brekkan. Hún var lengri en sú fyrsta en styttri en sú númer tvö. En hún var á leiðinlegum stað. Gæti hafa verið svipuð á lengd og Rafstöðvarbrekkan sem margir þekkja. Þegar upp var komið taldi ég Björninn unninn og að ég gæti rúllað í mark á jöfnum hraða og náð sub 3:10. En maraþon er maraþon og það er ekki búið fyrr en það er búið. Við 38 km markið hlupum við í gegnum lítinn bæjarkjarna og þaðan lá leiðin aftur út á ströndina. Þar var hvasst. Þar fuku þungar járngrindur á hliðina þótt þær væru tengdar saman með borðum. Á einum stað við húsvegg kom ég rétt á eftir leirpotti sem hafði stuttu áður staðið á hærri stað en var nú á víð og dreif um gangstéttina. Við 40 km markið var 90 gráðu beygja. Þá þóttist ég sjá fyrir mér glæsilegan endasprett með vindinn á hlið og stuttu síðar í bakið eftir aðra 90 gráðu beygju. En þótt ég hafi á sínum tíma verið í náttúrufræðibekk þá skil ég ekki ennþá þá náttúrfræði sem í gangi var þennan dag. Eftir fyrri 90 gráðu beygjuna hlupu flestir með höfuðið nálægt mittishæð til að komast áfram. Eftir seinni 90 gráðu beygjuna náðu flestir að rétta úr sér en þó ekki nóg til að skila glæsilegum endaspretti. Því þrátt fyrir að hafa tekið nánast 180 gráðu stefnubreytingu á um 200 metra kafla var ennþá mótvindur! En hvað um það, endamarkið nálgaðist og það hefur sjaldan verið jafnvelkomið. Sub 3:10 náðist ekki en engu að síður var frábæru maraþoni lokið á góðum tíma við erfiðar aðstæður. Lokatími 3:10:33 og þegar upp er staðið tel ég þetta vera mitt næstbesta maraþon þótt tíminn sé ekki sá næstbesti.
Maraþonbrautin Nice- Cannes er frábær. Umhverfið er glæsilegt og vel að hlaupinu staðið. Þótt brautin sé að mestu marflöt er önnur brekkan sennilega full löng til að hægt sé að mæla með brautinni sem PB braut. Þá sýndist okkur þessa daga sem við vorum á svæðinu sem ríkjandi vindátt væri af hafinu og þar með á móti nánast alla leið. En þetta hlaup er tvímælalaust góður kostur fyrir Íslendinga til að ná sér í smá sumarauka í byrjun vetrar og ef heppnin er með þá gæti vindur blásið í aðrar áttir.
Að lokum. Maraþon er erfitt. Að komast í gegnum maraþon krefst þolinmæði og þrautsegju. Þolinmæði og þrautsegju. Það þarf hins vegar að stilla væntingar af miðað við aðstæður. Það getur svo margt gerst á leiðinni og það gerist svo margt. Þá er mikilvægt að geta tekið á móti og aðlagað sig aðstæðum. Gleðjast síðan þegar endamarkinu er náð og fagna hverjum þeim áfanga sem náðist.
Að ná markinu eftir heilt maraþon í mótvindi, eiginlegu sem óeiginlegu, er ólýsanlegt.
gá
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Gunnar
takk fyrir að deila þin upplifun og óska ykkur hjónin hitt besta og bara meðvindur :-)
PS ég lendi lika í hjarta "flutter" um daginn, fór í "Ctrl-Alt-Del & Re-start" og þarf að taka lyf amk fram í janúar
mbk
Lars (fyrirverandi maraþonhlauparar)
Lars Peter Jensen (IP-tala skráð) 19.11.2013 kl. 14:47
Sæll Gunnar
Frábær grein. Gaman að lesa svona pistla þegar maður getur hreinlega upplifað með þér mótvindinn og meðvindinn.
Gangi ykkur hjónum vel í framhaldinu.
kveðja og njóttu dagsins
Þórhildur
Þórhildur (IP-tala skráð) 19.11.2013 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.