30.8.2013 | 09:50
Skin og skúrir
Langhlaup eru eins og lífið sjálft, bæði fyrirséð og ófyrirséð. Það er hægt að gera áætlanir og stefna að tilteknum markmiðum. Undirbúa sig vel og gera allt rétt. En síðan gerist eitthvað. Eitthvað ófyrirséð, eitthvað óvænt. Eitthvað sem mögulega breytir öllum áætlunum. Þegar það gerist þá gerist það. Þá er mikilvægt að leyfa því að gerast. Ekki streytast á móti heldur taka við og reyna að rúlla með. Aðlaga sig að nýjum aðstæðum og draga þann lærdóm af sem hægt er.
Langhlaup eru langhlaup. Þess vegna heita þau langhlaup. Þau eru löng. Þau taka tíma. Yfir tíma getur margt gerst og iðulega gerist margt. Oft ófyrirséð og oft óvænt. Þess vegna eru langhlaup sérstök. Þess vegna eru langhlaup eins og lífð sjálft.
Góð hlaupavinkona mín tók þátt í erfiðu fjallahlaupi í vikunni. Hún þurfti að hætta um miðbikið vegna ófyrirséðra vandamála. Hún var búin að æfa sérlega vel og gera allt rétt. Hún hafði rúllað upp hverri æfingunni og hverri keppninni á fætur annarri eins og ekkert væri. Undirbúningurinn var eins og best verður á kosið. Samt komu upp ófyrirséðar aðstæður sem gerðu að verkum að hún þurfti að hætta keppni. Í kjölfarið bárust henni fjölmargar kveðjur á fésbókinni þar sem meginstefið var að hún myndi koma sterkari til baka. Þetta færi í reynslubankann og gerði hana bara sterkari. Sumir veltu fyrir sér hvað hefði farið úrskeiðis og hvað hefði mátt bæta. Allt eru þetta réttmætar og góðar athugasemdir.
Þetta fékk mig samt til að hugsa. Er endilega gott að alltaf gangi allt upp? Ég er hreint ekki viss um það. Minnir mig óþyrmilega á hina margumtöluðu silfurskeið - sem ég er reyndar viss um meintir handhafar séu ekkert endilega sammála um að sé góð skeið. En hvað um það. Sjálfur er ég búinn að prófa á eigin skinni að lífinu fylgja skin og skúrir eins og flestir. Í hlaupunum er ég búinn að upplifa velgengni og vonbrigði. Góða daga og slæma. Þess vegna þekki ég vel muninn. Þess vegna nýt ég þess virkilega þegar vel gengur. Þegar illa gengur þá er það bara einn af þessum dögum. En ég þekki muninn.
Vormaraþonið mitt í Kaupmannahöfn var sambland af gleði og vonbrigðum. Gleði yfir því að geta hlaupið maraþon og vonbrigði yfir því að hafa verið í ströggli seinni hlutann. Hafa ekki náð upphaflega markmiðinu. Ég gladdist þó verulega yfir því að geta klárað. Það var stór áfangi.
Ég hljóp lítið í 2 mánuði eftir Köben. Var með eymsli í vöðvum og ólag var á hnénu. Í ljós kom hjá sjúkraþjálfara að gróandinn eftir liðþófaðgerð var ekki réttur. Lærði æfingar og reyndi að fara eftir fyrirmælum. Tók framförum og fór að hlaupa markvissara. Fékk góða skoðun á hjartavöðva á þriðjudegi fyrir RM maraþon. Skráði mig í hlaupið á miðvikudegi.
Hlaupadagurinn rann upp grár og blautur. En þegar til kom reyndist vera hið besta hlaupaveður. Ég hljóp með tveimur félögum úr hlaupahópi Stjörnunnar, Unnari og Pálmari. Planið var að hlaupa undir 3:30. Fórum rólega út og kláruðum 1. km á 5:15. Eftir það bættum við jafnt og þétt í. Gekk vel og fórum fram úr mörgum. Þegar upp var staðið telst mér til að ég hafi farið fram úr ca. 70 manns frá 10 km markinu og misst einn fram úr mér. Leið vel allan tímann og fannst ég vera sterkur. Hraðasti kaflinn voru síðustu 5 km. Endaði á negatívu splitti. Engin vandamál og hlaupið leið eins og það hefði verið fyrirfram skipulagt. Kláraði á betri tíma en í Köben. Allt gekk upp. En ég þekki muninn.
Skin og skúrir.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 70678
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.