Íslenska heilbrigðiskerfið að niðurlotum komið?

Fékk í dag birta grein í Mogga sem á að vera innlegg í umræðu um heilbrigðismál. Undirtitill greinarinnar gæti verið tilbrigði við þekktan frasa: "Er til eitthvað annað?"

Síðustu vikurnar hefur átt sér stað nokkuð lífleg umræða um íslenska heilbrigðiskerfið eftir að heilbrigðisráðherra reið á vaðið með athyglisverðri grein. Að venju eru þeir sem taka þátt í umræðunni iðulega vændir um undirhyggju og sérhagsmunagæslu. Við það verður víst að búa samkvæmt íslenskri umræðuhefð. Engu að síður er nauðsynlegt að opinber umræða eigi sér stað um þessi mál og mikilvægt að þeir sem til þekkja eða telja sig hafa eitthvað fram að færa haldi því áfram.

Ég hef áður spurt hvort gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu séu lakari árið 2012 en 2009. Tilefnið var mæling Euro Health Consumer Index (EHCI) þessi ár á gæðum þjónustunnar í ríkjum Evrópu. Á vef velferðarráðuneytisins var þessarar niðurstöðu getið og bent á að Ísland sæti í þriðja sæti listans bæði þessi ár. Var það talið vitnisburður um góða stöðu landsins í þessum samanburði. Ef rýnt er í tölurnar kemur hins vegar í ljós að sá munur er á milli áranna að 2012 eru mörg lönd komin á hælana á Íslandi og Ísland, eitt Norðurlanda, lækkar í stigum á milli mælinga. Ef þróuninni verður ekki snúið við þá er beinlínis hætta á að Ísland verði ekki á topp 10 listanum næst þegar hann verður birtur.

En hvað er til ráða? Þegar settar eru fram hugmyndir er þeim oft tekið með fullyrðingum og alhæfingum um að við viljum ekki sjá svona kerfi eða hitt kerfið í stað þess að rökræða kosti og galla kerfanna og skoða hvort eitthvað geti hentað okkar samfélagi. Í könnun EHCI kemur fram að Hollenska kerfið skorar hæst í báðum mælingunum 2009 og 2012. Árið 2012 hefur bilið í næsta land aukist frá árinu 2009. Eitthvað virðast því Hollendingar vera að gera betur en aðrir þótt sjálfsagt sé þeirra kerfi ekki gallalaust.

Í sumum löndum eru menn óhræddir við að skoða nýjar hugmyndir og reyna að læra af þeim sem eru að gera góða hluti. Meðal annars hafa amerísku heimilislæknasamtökin tekið hollenska kerfið til sérstakrar skoðunar með það í huga að bæta sitt eigið kerfi. Þá hafa fræðimenn á sviði heilbrigðisréttar og alþjóðlegrar mannréttindaverndar bent á að mörg Evrópuríki hafi verið að stíga skref í áttina að ameríska kerfinu, þó með sínum útfærslum, og að Bandaríkjamenn séu að stíga skref í áttina að „evrópska“ kerfinu. Þannig virðist sem einhvers konar blanda af ríkisrekstri og einkarekstri sé að skila bestum árangri.

Hollendingar tóku sér mörg ár til að rökræða hvernig þeir vildu byggja upp heilbrigðiskerfið sitt. Niðurstaðan varð sú að fara blandaða leið og fela tryggingarfélögum að sjá þegnum landsins fyrir sjúkratryggingum. Ríkisvaldið setur leikreglurnar og fylgist vel með að þeim sé framfylgt. M.a. geta tryggingarfélögin ekki neitað neinum um kaup á heilbrigðistryggingum og öllum er tryggð lágmarks trygging óháð efnahag. Ekkert samband er á milli tryggingarfélaganna og þjónustuveitenda, sem getur verið hvort heldur sem er undir formerkjum ríkisrekstrar eða einkarekstrar. Innan tryggingarfélaganna skapast sú sérfræðiþekking sem sögð er nauðsynleg þegar kemur að kaupum á heilbrigðisþjónustu fyrir þegnana. Með því móti minnkar hættan á að seljendur þjónustunnar geti í krafti sérfræðiþekkingar sinnar „yfirselt“ tiltekna þjónustu. Jafnframt hefur sýnt sig í Hollandi að ákvarðanir um hvaða þjónustu er þörf á hverju sinni eru í meira mæli teknar af sérfræðingum á heilbrigðissviði með þátttöku sjúklinga sjálfra og samtökum þeirra.

Sagt hefur verið að veiting heilbrigðisþjónustu sé mögulega flóknasta viðfangsefnið sem yfirvöld þurfa að fást við. Því er eðlilegt að sífellt sé leitað nýrra leiða og reynt að hámarka gæði þjónustunnar fyrir það fé sem unnt er að veita til hennar. Kannski getum við leitað í smiðju Hollendinga í leit að lausnum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í umfjöllun EHCI um hollenska kerfið (svokallað "Bismarck" kerfi) segir að "the Netherlands example seems to be driving home the big final nail in the coffin of Beveridge healthcare systems (greiðsla fyrir þjónustuna og veiting hennar á sömu hendi, eins og t.d. á Norðurlöndum), and the lesson is clear: Remove politicians and other amateurs from operative decision- making in what might well be the most complex industry on the face of earht: Healthcare!" Í skýrslu EHCI er athyglisverð umfjöllun um Norðurlöndin. Þar segir að þótt Norðurlöndin hafi náð góðum árangri með "Beveridge" kerfinu þá sé það vegna þess að þau eru lítil og þar sem löndin séu svo fámenn, og þar með heilbrigðiskerfin lítil, þá geti stjórnendur þrátt fyrir allt náð utan um verkefni sín. Hættan við "Beveridge" kerfið sé þó sú að stjórnendur, bæði pólitíkusar og embættismenn, missi sjónar af hagsmunum sjúklinganna sjálfra og fari að beina sjónum sínum í of miklum mæli að hagsmunum kerfisins sjálfs, sem þeir hafa jafnvel tekið þátt í að koma á. Sú spurning hlýtur að vera eðlileg hvort verið geti að íslenska heilbrigðiskerfið sé of lítið fyrir "Beveridge" kerfið þar sem enn færri stjórnendur, pólitískir og embættismenn, koma að gerð þess og eru því sífellt að verja eigið kerfi - mögulega á kostnað sjúklinga sem verða afgangsstærð?

Gunnar Ármannsson (IP-tala skráð) 13.8.2013 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 70681

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband