24.5.2013 | 11:48
Enn ein sagan
Varúð: þetta er sjálfmiðuð frásögn um maraþonhlaup og aðdraganda þess. Þar sem ég hef sjálfur gaman að því að lesa frásagnir annarra hlaupara held ég þessu áfram, bæði fyrir mig sjálfan síðar meir og hina sem eru haldnir sama áhuganum.
Þar sem síðast var frá horfið í sagnabálknum; ég, um mig, frá mér, til mín - var sólin tekin að rísa. Ég var farinn að geta æft hlaup. Ekki vandræðalaust en samt. Þetta æfingatímabil fólst í því að reyna að komast meira magn hverja viku fyrir sig og auka við hraðann smám saman. Hvert það myndi leiða átti bara að koma í ljós. Ég á marga góða æfingafélaga en eins og gengur standa sumir manni nær. Einn þeirra vill helst æfa um hádegisbilið sem hentar mér vel. Hann er þrjóskari enn andskotinn, missir aldrei úr æfingu og svindlar aldrei á magni. Þess vegna gerði ég það ekki heldur, þ.e. með æfingarnar en magnið var svona upp og ofan. Hann var ákveðinn í að fara í maraþon í vor og æfði fyrir það. Þar sem ég hafði ekki að neinu sérstöku að stefna annað en að reyna, reyndi ég eins og ég gat að fylgja honum eftir. Smátt og smátt fór að vakna með mér hugmynd um að kannski ætti ég bara að setja stefnuna sjálfur á maraþon. Það yrði að vísu að vera seint í vor þar sem magnið var ekki búið að vera mikið fyrstu mánuði ársins, að minnst kosti miðað við það magn sem ég hef venjulega hlaupið fyrir maraþon (des 130 km, jan 252 km, feb 205 km , mars 370 km, apríl 338 km).
Við hjónin höfum undanfarin ár oft farið til Kaupmannahafnar um hvítasunnuna. Þar hljóp ég mitt fyrsta maraþon árið 2009. Þar þurfti ég fyrst að hætta í miðju maraþoni 2010 og þar skráði ég mig til leiks árið 2012 og var síðan bara á hliðarlínunni þegar til kom. Three´s the charm eins og sagt er þannig að ég þóttist viss um að í þriðju tilraun eftir tvær misheppnaðar þá hlyti það að vera happa enda 13 í lokatölunni. Því skráði ég mig til leiks frekar seint og tók formlega stefnuna á að taka þátt í maraþoni vorið 2013 (gert í samráði við doktorinn).
Þetta var skemmtileg ákvörðun og það að vera að stefna á þátttöku í maraþonhlaupi aðeins rúmu ári eftir að ég hélt að hlaupum væri lokið var bara frábært. Ég var hins vegar meðvitaður um að ekkert væri í húsi fyrr en hlaupið væri búið. Nokkrar ástæður voru fyrir því. Auk þessara venjulegu um meiðsli, veikindi og annað sem getur komið upp hjá öllum þá veit ég aldrei hvernig hver dagur fyrir sig verður. Ég er enn að eiga við þessa hjartsláttartruflun og veit í raun aldrei fyrr en að morgni hvort ég er í takti eða ekki. Stundum koma tímabil þar sem ég næ nokkrum vikum í röð án þess að detta úr takti en síðan koma vikur þar sem ég dett oft úr takti. Þá daga sem ég vakna taktlausari en ella get ég ekki hlaupið. Því er það spennuhlaðið að vakna að hlaupamorgni og tékka á taktinum!
Í aðdragandanum að þessu hlaupi var það reyndar ekki taktleysið sem var mér verst heldur annað hnéð. Ég fór í liðþófaaðgerð í september sl. og hnéð var mér miklu erfiðara á æfingatímabilinu heldur en hjartað nokkurn tímann. En kannski var það bara ágætt því það amk þýddi að ég þurfti að fara hægar af stað en hugurinn vildi. Þannig að kannski æfði ég tiltölulega skynsamlega þegar allt kom til alls?
En hvað um það, til Köben fór ég með það í huga að hlaupa maraþon! Spenntur? Já! Stressaður? Já! Það var margt sem gat farið úrskeiðis og þegar til kom var líka eitt og annað sem ég hafði ekkert spáð í sem fór úrskeiðis. Kannski einmitt vegna þess að ég var stressaður út af nýjum hlutum og því ekki með fókusinn eins stilltan og oftast áður.
Daginn fyrir hlaup fór ég að hugsa um keppnisskóna sem ég tók með mér að heiman. Fór að reikna og komst að því að sennilega væri ég búinn að hlaupa meira en 800 km á þeim sem er of mikið fyrir létta keppnisskó. Ég gerði því það sem er sagt að ekki eigi að gera, þ.e. að kaupa sér keppnisskó daginn fyrir keppni. En ég hef það mér til varnar að einn af góðum æfingafélögum mínum segist oft gera þetta og hann ætt að vita það, búinn að hlaupa tugi keppnishlaupa. Ég fór og skoðaði skó sem ég þekki vel og veit að henta mínum fæti vel. Niðurstaðan varð sú að kaupa Adidas adizero feather 2, 205 gr.. Ég sá ekki eftir því þótt mögulega hefði ég átt að hlaupa á þyngri skóm eins og ég kem að síðar.
En á hvaða tíma átti ég að stefna? Til að byrja með í prógramminu átti ég í basli með að hlaupa einn km á 5 min tempói. Það hins vegar breyttist furðu fljótt og greinilegt að líkaminn mundi eftir hraðara tempói. Þess vegna fóru tímamörkin í huganum smátt og smátt að breytast í takt við aukna getu. Í vikunni fyrir hlaup fór ég og hitti Janus Guðlaugsson, sem ég tengist fjölskylduböndum, og gerði hann mjólkursýrutest á mér. Þar kom í ljós að mjólkursýruþröskuldurinn hjá mér var á svipuðum stað og ég átti von á en hins vegar kom líka í ljós að hann steig nokkuð bratt upp þegar ég náði honum. Það þýddi þá að eins gott var að hlaupa fyrir neðan þröskuldinn því annars myndi ég að öllum líkindum sprengja mig frekar fljótt. Ég tók því þá ákvörðun að reyna ekki við mitt ýtrasta markmið sem hafði skotið upp kollinum sem var 4:30 tempó pr. km. Því var gameplanið að stefna á 4:37 tempó og reyna að komast í mark í kringum 3:15.
Á hlaupadegi var ljómandi gott veður. Skýjað en þurrt. Það reyndar breyttist hressilega um leið og hlaupið byrjaði því það rigndi stanslaust allt hlaupið og stundum mjög mikið. Það gerði okkur hlaupurunum kannski ekki mikið til því það var ekki mikill vindur. En mikið óskaplega voru margir áhorfendur orðnir blautir og kaldir í lokin. En hvað um það. Í upphafi hlaups stillti ég mér upp með Pétri Ívars, Möggu Elíasar og Sigurði Inga sem öll voru að stefna á tíma sem næst 3:10. Rúnar Marinó og Pétur Helga voru að stefna á 3:30 þannig að annað hvort var að byrja einn einhvers staðar í þvögunni mitt á milli eða velja aðra hvora grúppuna. Mér leist betur á að vera aðeins framar og vera á undan 3:10 blöðrunni í gegnum fyrstu beygjuna og yfir brúna og canalinn. Þetta plan virkaði fínt því eftir ca 2-3 km hægði ég á mér og fór aftur fyrir blöðru hópinn. Hlaupafélagana úr startinu sá ég auðvitað ekki aftur fyrr en í markinu þar sem þau náðu öll frábærum tímum. En um fyrstu kílómetrana er lítið að segja. Ég hljóp á 4:33-4:37 tempói og leið vægast sagt frábærlega! Fannst eins og ég flygi áfram í gleðivímu. Veifaði til áhorfenda og tónlistarmanna brosandi hringinn og hef sjálfsagt verið óvenju ógáfulegar í öllu fasi. Þegar búnir voru um 15 km þá skyndilega fór ég að fá verk í vinstri kálfann. Það var ekki planið og leist mér ekkert sérlega vel á þessa viðvörun. Upp rifjaðist hlaupið frá 2010 þegar ég þurfti að fara út úr brautinni við 16. km til að teyja á vinstri hamstrings vöðvanum sem var þá kominn í tómt tjón. Í þetta skiptið var ég þó orðinn góður við 16. km og hélt áfram á sama hraða. Þegar ég nálgaðist hálf maraþon markið leið mér vel og ég fór að hugsa um að kannski ætti ég aðeins að fara að auka við hraðann. Mér reiknaðist til að með sama hraða ætti ég að geta endað á innan við 3:15 og með því að bæta aðeins við seinni hlutann þá gæti ég mögulega skorið 1-2 mínútur af loka tímanum. Þessar skemmtilegu og bjartsýnu hugsanir stöldruðu þó ekki lengi við. Skyndilega var eins hnífi væri stungið í vinstri kálfann og hann herptist allur saman. Það var því ekkert annað að gera en að snarhægja ferðina og reyna að losa um krampann. Þannig að á einu augabragði fóru hugsanirnar frá því að velta fyrir sér hraðaaukningu yfir í hugsanir um hvort að sagan frá 2010 væri að endurtaka sig þar sem þá hætti ég við brúna yfir canalinn við 24. km markið. Þegar ég nálgaðist brúna og var að velta því fyrir mér hvort ég kæmist síðustu lúppuna tók ég þá ákvörðun að ég skyldi amk hlaupa í gegnum mannhafið sem þar var. Ég vissi að eiginkonan og vinur minn væru þar og ég ætlaði mér ekki að endurtaka leikinn frá 2010. Þannig að upp fór kassinn, grettan af og bitið á jaxlinn og blótað í hljóði! Þegar ég var kominn fram hjá mannhafinu og gat farið að vorkenna mér aftur fór ég að velta fyrir mér hvað skyldi til bragðs taka. Kálfinn var ekki góður og ég sá ekki fyrir mér að með sama áframhaldi myndi ég komast á leiðarenda. Ég var búinn að átta mig á því þarna að ég hafði auðvitað gleymt að taka með mér salttöflur þannig að ekki þýddi að gúffa þeim í sig. Ég tók eitt gel á næstu vatnsstöð og gekk í gegnum hana. Fór aftur af stað og hugsaði með mér að ég skyldi amk koma mér á næstu vatnsstöð. Þegar þangað kom fékk ég mér banana og powerade sem ég geri annars aldrei. Einhvers staðar við 30 km var spurt kunnuglegri röddu hvort eitthvað væri að? Þar var kominn Rúnar Marinó sem hljóp þarna framhjá mér rétt á eftir 3:20 blöðruhópnum. Á þessum tíma fannst mér ég nánast standa í stað. En við þessu var bara ekkert að gera annað en að halda áfram á mínum hraða. Við 34 km markið náði ég áfanga. Ég hafði fyrirfram verið búinn að ákveða að þegar ég kæmi á þennan stað þá ætlaði ég að reyna að auka við hraðann og leggja drög að endaspretti. Bara 8 km eftir og ég var alveg búinn að kortleggja hvar og hvenær ég ætlaði að reyna við hraðaaukningar. Á þessum stað fór ég að hugsa um það eitt að klára 2 km í viðbót. Ef ég kæmist þessa tvo km þá væru bara sex eftir og í versta falli myndi ég hoppa þá kílómetra á annarri löppinni. Ég gekk í gegnum næstu drykkjarstöð og drakk meira powerade. Hresstist heldur við þetta og gat aukið hraðann smávegis. Þegar upp var staðið reyndust km 30-35 vera þeir hægustu þannig að hvort sem það var powerade drykkjan eða eitthvað annað þá amk skánaði þetta í restina. Við 36 km erum við farin að hlaupa í gegnum bæinn og frá Söerne. Þarna fann ég að ég gat enn aukið smávegis við án þess að krampinn versnaði. Við 39 - 40 km sá ég allt í einu Rúnar Marinó framundan. Ég náði honum og ætlaði að fylgja honum í markið. Fann að ég gat meira þannig að ég jók ferðina heldur. Hélt mínu að km 41 og hugsaði með mér að ef ég kæmist yfir brúna og beygjuna á þessum hraða án þess að fá krampa þá myndi ég reyna við almennilegan endasprett síðustu 7-800 metrana á Íslandsbryggju. Þegar beini lokakaflinn hófst stækkaði ég skrefin smátt og smátt og fann að kálfinn hélt. Þá varð aftur gaman. Gaman, gaman! Hraðar, hraðar! Það jafnast fátt ef nokkuð við það að eiga í góðan endasprett í fjölmennu maraþonhlaupi. Það er eins og allt annað standi í stað. Aðrir keppendur eru eins og í slow motion og sjálfum líður manni eins og maður sé óstöðvandi ódrepandi. Maraþonhlaup eru önnur upplifun. Það getur svo margt gerst. Það gerist svo margt.
Lærdómur af hlaupinu og undirbúningnum? Muna eftir salttöflum. Athuga fyrirhugaða keppnisskó með góðum fyrirvara. Annars reyndust nýju skórnir í raun alveg frábærlega. Ég fékk engar blöðrur og engin eymsli. Ég var með skó með fullri dempun sem ég hefði ekki verið með ef ég hefði hlaupið á gömlu skónum. En mér finnst líklegt samt að miðað við mínar aðstæður þá hefði ég ekki átt að hlaupa í svona léttum keppnisskóm. Undirbúningstímabilið hljóp ég nánast allt á hlaupabretti. Ég tók eina 21 km æfingu úti. Ég held að mér hafi í hlaupinu verið refsað fyrir að vera búinn að hlaupa of lítið úti og of léttir hlaupaskór hafa ekki bætt málin neitt. Kálfinn einfaldlega réði ekki við þessar aðstæður. Þannig að sennilega er krampinn algjörlega í mínu eigin heimatilbúna boði.
En hvað með það? Ég fékk líka allt fyrir peninginn! Fyrri hlutinn leið eins og í draumi og dramatík og barátta í seinni hlutanum - með endaspretti og allt. Verður nú ekki mikið betra!
Óvæntur bónus í restina að ég náði Boston lágmarkinu fyrir kalla í flokki 45-49. Tímatakmörkin þar í þessum flokki eru undir 3:25. Ég endaði á 3:23:12!
Skrítin tilfinning sem amk fyllir mig að afloknu maraþonhlaupi - söknuður og eftirsjá. En ég veit að fljótlega breytist það breytist í spennu! Hvar og hvenær á ég að hlaupa næsta maraþon?!
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 70681
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég nennti nú ekki að lesa þetta maraþon blogg!
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 12:16
Skemmtileg frásögn og átti margt hér sameiginlegt.
Boston er málið, taka tvö ekki satt ? ;)
Kv
RRR
Rúna Rut (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 12:59
Snillingur. Til hamingju vinur.
Magnus Ragnarsson (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 14:46
Til hamingju með þetta Gunnar. Vel gert :)
Friðleifur Friðleifsson (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 12:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.