31.12.2012 | 16:04
Áramótahlaupaannáll
Hlaupaárið 2012 hefur verið holóttara en ég átti von á. Það byrjaði ljómandi vel en síðan tók við óregla og það varð bara ekki neitt úr neinu. Reyndar týpísk afleiðing óreglu.
Árið fór vel af stað. Í upphafi þess lenti ég í þriðja sæti í vali á hlaupara ársins 2011. Aldeilis ótrúlegt og eitthvað sem hefði aldrei hvarflað að mér þegar ég var að stíga mín fyrstu hlaupaspor á árinu 2008 - og reyndar ekki heldur síðar. En árið 2011 hafði verið mér gott hlaupaár og því voru væntingar fyrir árið 2012 miklar. Ég setti mér háleit markmið fyrir árið 2012 og hugði á þátttöku í mörgum spennandi hlaupum innanlands sem utan.
Æfingarnar gengu vel og gáfu góð fyrirheit. Ég var að hlaupa töluvert betur en ég hafði gert á sama tíma ári fyrr. Þegar ekki voru nema um fjórar vikur í Boston maraþonið og bara ein erfið vika í maraþonprógramminu eftir má segja að hlaupaguðinn hafi ákveðið að kenna mér lexíu. Þrekið hvarf eins og hendi væri veifað. Í ljós kom að hjartað var dottið úr takti þannig að það dældi blóði um líkamann með óreglulegum hætti. Ekki heppilegt með tilliti til þolþjálfunar. Að auki varasamt því við þessar aðstæður geta myndast blóðtappar með óæskilegum afleiðingum. Sem betur fer eru læknavísindin ótrúleg og hægt að bregðast við með ýmsum hætti.
Til að koma hjartanu aftur í takt við þessar aðstæður er því einfaldlega gefið rafstuð. En áður en það er gert þarf að þynna blóðið þannig að ekki sé hætta á að mögulegir blóðtappar fari af stað. Það reyndist þrautin þyngri að þynna í mér blóðið og þrátt fyrir heilmikla heimavinnu var ekki hægt að stuða mig fyrr en í lok júlí. Fjórir mánuðir er langur tími að vera kippt fyrirvaralaust úr miklum æfingum í nánast algjört hreyfingaleysi annað en það sem felst í að ganga undir sjálfum sér á milli staða.
En hvað um það. Þegar búið var endurræsa dæluna átti nú heldur betur að vinna upp glataðan tíma. Á mánudegi, miðvikudegi og fimmtudegi voru hlaupnir ca 10 km í hvert skipti. Á laugardegi voru hlaupnir um 20 km. Eftir þá æfingu var arkað upp á Esjuna og aftur niður. Á sunnudeginum var legið í sófanum með stokkbólgið og aumt hægra hné. Jæja, maður er bara ekki skynsamari en þetta...
Þetta þýddi stopp í mánuð. Í lok ágúst datt dælan aftur úr takti en nú var hægt að stuða strax því ég er ennþá á blóðþynningu. Aftur var farið í hlaupagallann og í þetta sinn átti að fara varlega. En hnéð var ekki orðið gott. Á annarri eða þriðju æfingu small í hnénu og ljóst að eitthvað hafði gefið sig. Það reyndist vera liðþófi sem var rifinn. Gert var við hann í byrjun september sem þýddi auðvitað að ekkert varð úr frekari hlaupaæfingum að sinni.
Í október gat ég loks farið að æfa eitthvað þótt það hafi í byrjun bara verið hjólið og lyftingar sem urðu að nægja. Í nóvember fór ég að láta reyna á hnéð og byrja smátt og smátt. Það gekk reyndar hægar en ég vonaðist eftir að komast á skrið. Þrjár ferðir á rjúpnaveiðar í frekar bröttu fjalllendi eru að vísu ekkert sérlega góð endurhæfing eftir liðþófa viðgerð. En eins og fram er komið er skynsemin ekkert alltaf í framsætinu.
Þetta er búið að vera lærdómsríkt og frekar leiðinlegt ár í hlaupalegu tilliti. Það er enginn stikkfrí þótt hann hafi einu sinni komist í gegnum eitthvað. Það getur alltaf komið eitthvað nýtt. Því er eins gott að njóta dagsins þegar vel gengur. Ég veit ekki hvort hlaupin hafa eitthvað með hjartaóregluna að gera. Sumir segja það en aðrir ekki. Mér er alveg sama. Ég ætla samt að reyna að komast aftur af stað. Ég er ekki búinn að hreyfa mig mikið síðustu mánuði en er samt að detta endurtekið úr takti. Það gerist oftast í hvíld þannig að sennilega er hvíld ofmetin. Þar fyrir utan hefur öll þessi hvíld vond áhrif á viktina. Hún segir mér að ég hafi bætt við mig amk 10 ferðafélögum frá því í mars, sem allir eru frekar þunglamalegir. Ég þarf að reyna að hlaupa þá af mér áður en þeir ná í fleiri vini sína.
Á æfingu þann 10. desember fór ég loks að finna fyrir einhverjum framförum. Hnéð varð ögn skárra og ég gat hlaupið aðeins hraðar. Smátt og smátt gat ég líka farið að lengja hlaupin þótt ekki væri það mikið. En samt var áfram tröppugangur í þessu og viðbúið að svo verði eitthvað áfram. Stundum er hnéð í óstuði og stundum er það dælan. En inn á milli er þetta bara ágætt. Eftir eina slíka æfingu var ákveðið að taka þátt í gamlárshlaupinu. Markmiðið var fyrst að reyna bara að klára en eftir góðar æfingar þá breyttist það markmið að sjálfsögðu - en einnig eftir lélegar æfingar. En samandregið þá má kannski segja að markmiðið fyrir hlaupið hafi legið á bilinu 50 - 47:30 mínútur.
Hlaupið í dag var að venju bráðskemmtilegt. Töluvert mikill vindur sem hafði sín áhrif og gerði hlaupið erfiðara. Fleiri og fleiri koma uppábúnir í óhefðbundnum klæðnaði. Það er skemmtileg hefð. Mér fannst hlaupið í dag erfitt. Ég fann vel á útleiðinni að mig vantar kraft til að takast á við mótvind og eins þegar brautin fer að halla uppá við. En hvað um það. Ég hafði hlaupafélagann með mér sem dró mig áfram. Þegar við vorum búnir með um 6-7 km gat ég farið að greikka sporið smátt og smátt. Þannig tókst okkur að vinna upp tapaðan tíma og komast á par" miðað við 5 min tempó. Þegar upp var staðið gerðum við gott betur því við enduðum á ca 48:50. Miðað við allt og allt er það bara fínt og innan þeirra marka sem ég hafði sett stefnuna á.
Eins og margir aðrir hlauparar týndi ég niður öllum skráðum æfingum þegar hlaupasíðan hlaup.com var eyðilögð. Ég er því ekki með tölfræði ársins alveg á hreinu eins og fyrri ár og veit því ekki nákvæmlega hvað ég var búinn að hlaupa mikið á árinu þegar ég datt úr takti. Mig minnir samt að það hafi verið nálægt 1.500 km. Ég hef bætt við tæplega 200 km þannig að á árinu öllu eru það þá í kring um 1.700 km. Það er töluvert mikið minna en í fyrra þegar ég fór yfir 4.000 km. Þegar fór að líða á vorið og þrekið aðeins að skána tók ég taktlaus þátt í þremur hlaupum sem voru 5 km eða styttri. Þar háði ég harða keppni við krakka sem náðu mér rétt rúmlega í mitti og annað sóma fólk sem var að taka sín fyrstu skref á hlaupabrautinni. Það var bráðskemmtilegt. Ég tók þátt í einu 10 km hlaupi taktlaus um mitt sumar og var það nú mest til að geta sagst hafa gert það - og hef ég nú sagt það.
Jæja, það er víst ekki mikið meira um hlaupaárið mitt 2012 að segja. Í það minnsta verður það ekki eftirminnilegt fyrir afrek á hlaupabrautinni.
En það glittir í hlaupaárið 2013. Eins og veiðimanna er siður þá skiptir engu máli hversu liðið veiðisumar var lélegt - það næsta er alltaf spennandi og verður örugglega gott!
Gleðilegt ár og skál!
gá
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Vel mælt að venju, gaman að lesa þótt þetta sé engin gamansaga. 2013 er mætt með sól í haga :)
Gangi þér vel og við sjáumst á hlaupum á árinu.
Örvar (IP-tala skráð) 8.1.2013 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.