7.9.2012 | 11:52
Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónusta lakari árið 2012 en 2009?
Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónusta lakari árið 2012 en 2009 skv. vísitölu notenda heilbrigðisþjónustu í Evrópu (Euro Health Consumer Index EHCI)?
Í maí sl. birtist frétt á heimasíðu Velferðarráðuneytisins þar sem sagt var frá niðurstöðum EHCI fyrir árið 2012 um gæði heilbrigðisþjónustu í 34 löndum Evrópu. Fréttin virtist ekki vekja mikla athygli en þar var réttilega bent á að Ísland sæti í 3 sæti listans yfir gæði heilbrigðisþjónustunnar í umræddum löndum (með 799 stig af 1000 mögulegum). Á það var bent að Ísland héldi sæti sínu frá sambærilegri könnun frá árinu 2009 (þá með 811 stig af 1000 mögulegum).
Þegar skýrsla EHCI er skoðuð nánar kemur í ljós að full ástæða er til að gefa henni betri gaum. Það má sjá vísbendingar um að gæði heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi séu að verða lakari í samanburði við mörg önnur (ekki öll) lönd Evrópu á viðmiðunartímabilinu. Jafnframt vekja skýrsluhöfundar athygli á því að blandað kerfi greiðslu og þjónustu (greiðsla og þjónusta ekki á sömu hendi) virðist mögulega vera að sanna sig sem árangursríkasta kerfið við veitingu heilbrigðisþjónustu.
Gæði íslenskrar heilbrigðisþjónustu.
Þótt Ísland sitji ennþá í þriðja sæti listans er Ísland aðeins eitt af þremur löndum á topp tíu listanum þar sem stigafjöldinn lækkar á milli áranna 2012 og 2009. Hin tvö löndin eru Sviss (-19 stig) og Frakkland (- 12 stig). Önnur ríki á topp tíu listanum og þar á meðal öll hin ríki Norðurlandanna hækka stigatölu sína (frá + 3 stigum í Danmörk sem situr aftur í öðru sæti listans með 822 stig og upp í + 31 stig sem er Finnland og síðan eru Noregur með + 16 stig og Svíþjóð + 13 stig). Þróunin er því verst á Íslandi þegar litið er til gæða heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlöndum á þessu þriggja ára tímabili.
Á það er bent sérstaklega í skýrslu EHCI að svo virðist sem heilbrigðisþjónustan í þeim löndum sem harðast hafa orðið úti í fjármálakreppunni hafi ekki orðið lakari að ráði. Er það útskýrt þannig í skýrslunni að erfitt geti verið að stjórna læknum og þeir séu almennt ekki mjög viljugir að hlusta á embættismenn og pólitíkusa og fórna þannig hagsmunum sjúklinga. Eitt helsta einkenni íslenskrar heilbrigðisþjónustu, að mati yfirmanns EHCI, eru umframafköst hennar sem tryggja góða þjónustu. Helsta skýringin á þessu er talin sú staðreynd að langflestir íslenskir læknar þurfa að sækja sérmenntun sína til annarra landa. Þeir snúi síðan til baka með menntun sína og ekki síst tengslanetið sem geri að verkum að þeir geta tryggt sjúklingum sínum bestu þjónustu þótt það gerist ekki endilega á Íslandi.
Eins og bent hefur verið á undanfarin misseri hefur dregið úr komum íslenskra sérfræðilækna aftur til Íslands að sérnámi loknu. Þá virðist færast í vöxt að bæði hjúkrunarfræðingar og læknar leiti fyrir sér með störf annars staðar á Norðurlöndum. Það er athyglisvert að í skýrslu EHCI er tekið fram að aðeins sé einn spítali á Íslandi og því sé ekki hægt að raða íslenskum spítölum í gæðaröð sem er einn mælikvarðinn á gæði heilbrigðisþjónustu skv. skýrslunni. Því ætti það að vera sérstakt kappsmál að búa þennan eina spítala, sem stenst mál skv. skýrslunni, fullnægjandi tækjakosti og annarri aðstöðu. Þá vaknar enn og aftur sú spurning hvort þessi eini spítali gæti haft gott af auknu aðhaldi þótt ekki væri nema á afmörkuðum sviðum, hvort sem sú samkeppni kæmi frá ríkisrekinni stofnun eða einkarekinni?
Það er mikilvægt að spyrna strax við fótum því hætt er við að það geti tekið nokkurn tíma að snúa skútunni aftur á rétta braut. Af ýmsum fréttum að dæma steðjar margskonar vandi að íslenska heilbrigðiskerfinu. Má þar t.d. nefna aukna ásókn erlendra spítala í okkar besta heilbrigðisstarfsfólk, yfirlýsingar pólitíkusa um einhæfari rekstrarform, lélegan tækjakost á Landspítalanum og fjárhagsvandræði minni stofnana úti á landi. Að óbreyttu er því hætt við að nokkuð sé í land til að hægt verði að breyta um stefnu í íslenskum heilbrigðismálum og raunveruleg hætta er á að við höldum ekki 3ja sætinu í næstu mælingu EHCI.
Blandað kerfi betra?
Í skýrslunni er athyglin sérstaklega dregin að Hollandi sem ár eftir ár situr á toppnum og eykur forskot sitt. Á það er bent að í Hollandi er blandað kerfi þar sem fleiri tryggingafélög keppa á markaði um að veita heilbrigðistryggingar. Ekkert samband er á milli tryggingafélaganna og þjónustuveitenda, ríkisrekinna jafnt sem einkarekinna. Ákvarðanir um hvaða þjónustu er þörf á hverju sinni eru í meira mæli teknar af sérfræðingum á heilbrigðissviði með þátttöku sjúklinga sjálfra og samtökum þeirra.
The Netherlands example seems to be driving home the big, final nail in the coffin of Beveridge healthcare systems [greiðsla fyrir þjónustuna og veiting þjónustunnar á sömu hendi, t.d. á Norðurlöndum], and the lesson is clear: Remove politicians and other amateurs from operative decision-making in what might well be the most complex industry on the face of the Earth: Healthcare!
Í skýrslunni er bent á að þrátt fyrir að Hollenska kerfið (svokallað Bismarck kerfi) virðist skila betri árangri þá hafi þó lítil lönd eins og Norðurlöndin náð góðum árangri með Beveridge kerfinu. Það er skýrt á þann hátt að þar sem löndin séu svo fámenn, og þar með heilbrigðiskerfin lítil, þá geti stjórnendur þrátt fyrir allt náð utan um verkefni sín. Hættan við Beveridge kerfið sé þó sú að stjórnendur, bæði pólitíkusar og embættismenn, missi sjónar af hagsmunum sjúklinganna sjálfra og fari að beina sjónum sínum í of miklu mæli að hagsmunum kerfisins sjálfs, sem þeir hafa jafnvel tekið þátt í að koma á.
Þá er bent á að í þeim kerfum þar sem þjónustan og greiðslan er á sömu hendi þá virðist sem áherslur stjórnenda snúi frekar að því að mæla það sem sett er inn í kerfin (e. input, t.d starfsmenn og hvers konar kostnaður) í stað þess að horfa meira á að mæla þann árangur (e.output) sem næst með þjónustunni. Sérstaklega þá með því að tengja saman kostnað við árangur og finna þannig mælikvarða sem mæla framleiðni, gæði og nýtni miðað við kostnað.
Um bloggið
Gunnar Ármannsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 70681
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.