Tíu taktlausir kílómetrar - og aftur í takt!

ARM2012_388Inngangur

 Fyrir flesta er 10 km keppnishlaup erfitt. Hver og einn keppir á sínum forsendum. Sumir eru að berjast um verðlaunasæti á meðan aðrir eru að eiga við einhver ákveðin markmið. Að bæta sig, komast undir einhvern ákveðinn tíma, koma sér aftur af stað, vera á undan hlaupafélaganum eða bara hreinlega að klára hlaupið. Þessi pistill er um að klára hlaupið – í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

 

Þeir sem fylgst hafa með þekkja forsöguna. Ég hef aðeins verið að gæla við þá hugsun hvort ég geti klárað 10 km hlaup. Á mánudaginn þann 9. júlí fór ég af stað með hundana upp Flatirnar og ætlaði að skokka mína 5 km. Þegar til kom var veðrið gott og mér leið vel þannig að ég endaði á því að hlaupa upp að Vífilstaðavatni og heim aftur. Þá voru komnir 6 km og ég var bara býsna sprækur. Ég skilaði því hundunum inn og ákvað að hlaupa af stað og sjá hversu langt ég kæmist áður en ég teldi ráð að snúa við. Þetta gekk vel og ég kláraði 10 km. Tíminn auðvitað ekki merkilegur en það skipti svo sem ekki máli; 1 klst. 1 mínúta og 39 sec, púlsinn 178/203.

 

Þetta var bara fínt þannig að ég tók þá ákvörðun að skrá mig í Ármannshlaupið. Ég setti mér þrjú  markmið fyrir hlaupið. Fyrsta markmiðið að klára. Annað markmiðið var að reyna að halda meðalpúlsi undir 190 og helst ekki fara mikið yfir 200. Síðasta markmiðið var að reyna að klára á undir klukkutíma en það var þó háð fyrri tveimur markmiðunum.

 

1. kafli

 

Gott veður og fín stemning fyrir hlaupið. Met þátttaka, ný braut og við Kári Steinn báðir með. Spennandi! Þegar kallað var að startlínunni stilltum við Kári okkur báðir upp á réttum stöðum, hann við startlínuna og ég við hina „línuna“, aftast.

 

Skotið reið af og hersingin liðaðist af stað. Ég vissi að það hentaði mér vel að byrja aftarlega. Bæði til að láta ekki hrífast of mikið með í upphafi og eins vegna þess að fyrsti kílómetrinn er yfirleitt frekar þungur. Það er eins og það taki nokkur hundruð metra fyrir pumpuna að átta sig á því hvað hún á að fara að gera.

 

1. km hlaupinn á 5:32 og púlsinn 170/212. Nokkuð gott og heldur hraðar en ég átti von á að geta hlaupið. En eins og venjulega rauk púlsinn frekar hátt upp í byrjun en hann jafnaði sig á tiltölulega skömmum tíma.

 

2. kafli

 

Nú var málið að reyna að stilla hraðann og halda púlsinum góðum. Á þessum kílómetra fer brautin að verða aðeins upphallandi. Brekkur þótt litlar séu eru versti óvinur pumpunnar þannig að ég vissi að hér yrði ég að fara varlega.

 

2. km hlaupinn á 5:21 og púlsinn 191/214. Þetta var bara í lagi, brekka og allt.

 

3. kafli

 

Á þessum kílómetra var aðeins eftir af brekkunni en síðan kláraðist hún og við beygðum inná Sæbrautina og þar snéri brekkan við og var í hina áttina sem var alveg hreint ljómandi.

 

3. km hlaupinn á 5:20 og púlsinn 182/191. Aldeilis gott, búinn með brekkuna og náði að stilla púlsinn vel af seinni hlutann þegar brekkan snéri í rétta átt.

 

4. kafli

 

Á þessum kílómetra mættum við Kára Steini sem var að koma til baka. Þvílík sigling á drengnum. Undanfarinn á hjólinu mátti hreinlega hafa sig allan við til að tefja ekki fyrir honum. Kári Steinn hvarf á augabragði og það leið alveg ótrúlega langur tími þar til við sáum næstu menn á eftir honum sem þó eru engir aukvisar.

 

4. km hlaupinn á 5:25 og púlsinn 185/195. Hér var ég fyrst og fremst að hugsa um passa púlsinn því enn voru 6 km eftir. Ég var samt farinn að gæla við það að með þessu áframhaldi ætti ég að geta haldið meðalpúlsi undir 190 og meðalhraða í kring um 5:30 og komast þannig undir 55 mínútur.

 

5. kafli

 

Fram að þessu hafði ég lítið verið að fara fram úr öðrum hlaupurum, ef frá er skilinn fyrsti kílómetrinn, en á þessum kafla þá annað hvort fór að draga af sumum hlaupurunum í kring um mig eða sporið hjá mér fór aðeins að léttast.

 

5. km hlaupinn á 5:17 og púlsinn 189/200. Þetta var í lagi.

 

6. kafli

 

Hlaupið hálfnað, mér leið vel og púlsinn í lagi. Getur ekki verið betra! Mér leið eins og hrossi á heimleið og skeiðaði af stað til baka. Á þessum kafla fór ég fram úr býsna mörgum hlaupurum og enginn náði mér. Þetta er lífið - að bruna áfram með vindinn í hárinu og tæta og trylla (!).

 

6. km hlaupinn á 5:09 og púlsinn 194/217 – úpps! Jæja það var auðvitað, gleymdi mér aðeins í gleðinni. Nú varð augljóslega að taka skynsemina á þetta og hægja aðeins á aftur. Ennþá fjórir kílómetrar eftir og brekkan á 8. km í öfuga átt.

 

7. kafli

 

Frekar fúlt að þurfa að hægja aftur á sér og heyra í hlaupara nálgast og fara fram úr. En hvað um það – skynsemin ræður. Ég gaf honum nú samt auga og ákvað að muna hvernig bakhlutinn á honum liti út þannig að ef ég sæi hann á endasprettinum mætti kannski athuga með smá atlögu.

 

7. km hlaupinn á 5:17 og púlsinn 189/209. Þetta var nú eiginlega bara betra en ég þorði að vona. Meðalpúlsinn kominn undir mörkin og hámarkspúlsinn væntanlega frá því í byrjun kílómetrans áður en ég fór að slá af.

 

8. kafli

 

Á þessum kafla náðu tveir hlauparar mér til viðbótar. Bölvað. Þá var ég búinn að missa þrjá hlaupara fram úr mér frá snúningspunkti. En hér var auðvitað „brekkan“ góða sem var svo ljómandi fín í hina áttina og ég varð að gæta mín. Það var þó huggun harmi gegn að hugsa til þess að brekkan sem tæki við á næsta kílómetra snéri í rétta átt og þá væri kannski lag að bæta aðeins í og reyna að ná þeim aftur.

 

8. km hlaupinn á 5:14 og púlsinn 197/212. Þetta var óvænt. Hraðinn bara nokkuð góður og miðað við það að vera að hlaupa upp brekku þá var púlsinn ekkert svo slæmur – og bara tveir kílómetrar eftir!

 

9. kafli

 

Jæja þetta leit bara vel út. Þegar ég var kominn upp brekkuna hélt ég sama hraða til að byrja með. Ætlaði síðan að greikka sporið þegar brekkan niður byrjaði. Ég náði fljótt stráknum sem hafði farið fram úr mér á leiðinni upp hina brekkuna og síðan stelpunni. Hún ætlaði hins vegar ekkert að hleypa einhverjum karlfauski fram úr sér og bætti í. En þar sem skriðþunginn hjá mér var meiri þá varð hún að gefa eftir. Skömmu seinna skeiðað ég fram úr þeim sem fyrstur hafði farið fram úr mér á bakaleiðinni. Þetta var keppnis. Mitt eigið keppnis.

 

9. km hlaupinn á 4:50 og púlsinn 203/213. Kannski aðeins of hár en þar sem stutt var eftir átti þetta að vera í lagi.

 

10. kafli

 

Þegar niður brekkuna var komið og einn kílómetri eftir fylgdist ég vel með púlsinum. Mér til bæði furðu og ánægju þá lækkaði hann jafnt og þétt. Ég hélt því áfram að bæta aðeins í og hélt áfram að fara fram úr öðrum hlaupurum. Þegar ég kom úr síðustu beygjunni sá ég framundan 5-6 hlaupara í hnapp sem nálguðustu hringtorgið. Ég sá að ég átti alveg möguleika á að ná þeim þannig ég herti vel á mér síðustu 100 metrana og fór fram úr þeim.

 

10. km hlaupinn á 4:37 og púlsinn 191/221. Síðustu 100 metrarnir hlaupnir á 15 km hraða og púlsinn 192/204. Stórfínt!

 

Niðurstaða

 

Það er ekki ónýtt að fá tækifæri til að taka þátt í sama hlaupi og Ólympíufari. Ég efast um að í mörgum öðrum íþróttagreinum en götu- og víðavangshlaupum fái óbreyttir áhugamenn að spreyta sig „í keppni“ við atvinnumenn og þá allra bestu.

 

Það var kannski óþarfi af mér að gefa Kára Steini þetta forskot í startinu. En þetta hefði víst samt ekki orðið neitt spennandi. En ég náði negatívu splitti – ekki hann!

 

10 km hlaupnir á 52:33 og púlsinn 188/221, 250. sæti. Öll markmið dagsins í húsi!

  

In Fine

 Nú eru fimm mánuðir síðan ég datt úr takti. Okkar frábæru heilbrigðisstarfsmönnum fannst nóg komið. Ég var stuðaður í dag og hrökk í takt. Nú hefst alvöru endurhæfing, tikk, takk, tikk, takk .......  

ARM2012_387ARM2012_388ARM2012_389

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjartanlega til hamingju Gunnar.   Hlýtur að vera frábær tilfinning að vera komin í takt.    Góð lexía að það er líka hægt að hafa gaman og keppnis þó maður sé aftarlega :)

Og úr því að þú ert farinn að geta hlaupið aftur, ertu þá til í að hlaupa pínulítið fyrir mig í leiðinni ....

Bibba (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 08:05

2 identicon

Frábært Gunnar, vona að þetta sé allt á réttri leið hjá þér núna :-)

Fjóla Guðjónsdóttir (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 12:07

3 identicon

Þetta er magnað Gunnar - til hamingju með gott hlaup og það að vera kominn í takt!

Guðmundur G. (IP-tala skráð) 20.7.2012 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Gunnar Ármannsson

Höfundur

Gunnar Ármannsson
Gunnar Ármannsson

Áhugamaður

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • New Image 23

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 70681

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband